Categories
Fréttir

„Leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er“

Deila grein

12/02/2014

„Leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er“

Þingmenn Framsóknar slógu ekki slöku við í ræðustól Alþingis í gær þriðjudag og tóku upp hin ýmsu mál til umfjöllunar líkt og sjá má hér að neðan. Flutti m.a. Fjóla Hrund Björnsdóttir jómfrúarræðu sína og ræddi hugmynd um að leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er, enda hafi það reynst vel í þeim löndum þar sem það sé leyfilegt.
Jóhanna María Sigmundsdóttir: „Síðustu vikur hefur verið mikið rætt um sýklalyf og áhrif þess á menn og dýr. Þetta er þörf umræða og ég hef lengi haft áhyggjur af því í hvað stefnir í þessum málum. Í Bændablaðinu fyrir um þremur vikum var góð samantekt á samspili sýklalyfja og matvæla. Það er áhugavert að skoða þessa umfjöllun um notkun sýklalyfja í samhengi við vaxandi kröfur hagsmunaaðila í verslunum á Íslandi sem eru að stórauka innflutning og losa um skilyrði er varða bæði frosið og ferskt kjöt frá Evrópu.“

 
Silja Dögg Gunnarsdóttir: „Atvinnuleysisdraugurinn hefur gert Suðurnesjamönnum lífið leitt um langa hríð. Nú hillir undir jákvæðar breytingar í þeim efnum. Ýmis atvinnuverkefni eru í undirbúningi og önnur eru nú þegar farin af stað. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði til dæmis fyrir skömmu fjárfestingarsamning við forsvarsmenn líftæknifyrirtækisins Algalíf. Algalíf er staðsett í Reykjanesbæ og framleiðir örþörunga. Úr þeim er unnið virka efnið astaxanthin. Það er sterkt andoxunarefni sem notað er í fæðubótarefni og vítamínblöndur auk þess að vera neytt sérstaklega í hylkjaformi.“

 
Willum Þór Þórsson: „Samtökin Regnbogabörn hafa verið lögð niður. Það hefur ekki farið fram hjá okkur. Það hefur verið greint frá því í flestum miðlum undanfarna daga. Ástæðan er hefðbundin: Peningaskortur og enginn opinber stuðningur. Viðbrögðin eru sterk. Fólk tjáir sig meðal annars á fésbókarsíðu samtakanna og finnst fréttirnar hræðilegar og sorglegar. Viðbrögðin eru kannski ekki víðtæk en þau eru sterk. Einstaklingar þakka samtökunum bætt líf, hjálp við að komast út úr sálrænni áþján þunglyndis og hryllilegum afleiðingum eineltis.“

 
Þorsteinn Sæmundsson: „Fyrir um það bil þremur vikum fór fram hér í þingsal mjög góð umræða, sérstök umræða, um verslun og viðskipti í landinu og vöruverð og þar á meðal þá staðreynd að þrátt fyrir verulega styrkingu krónunnar undanfarin ár hefur verð á innfluttum vörum ekki lækkað. Umræðan var mjög góð og þörf en svo vill til að hennar var hvergi getið í nokkrum einasta fjölmiðli á Íslandi, það heyrðist ekki tíst um þessa umræðu. Ég velti fyrir mér af hverju. Meira að segja á RÚV, sem kallar sig fjölmiðil í almannaþágu, var ekki bofs um þetta mál. Ég velti fyrir mér hvort Ríkisútvarpið telji að umræða um hátt verð á innfluttum vörum, og það að þær lækki ekki þegar krónan styrkist, sé ekki frétt sem eigi erindi við almenning.“

 
Karl Garðarsson: „Flokksráðsfundur vinstri grænna um helgina sendi frá sér merkilega ályktun sem ég held að eigi erindi við alla. Með leyfi forseta, langar mig að lesa hana og er þetta ekki löng lesning.“

 
Fjóla Hrund Björnsdóttir: „Mikilvægt er að halda umferðinni gangandi og að umferðarmannvirki standist tímans tönn. Nú til dags þegar aukning á bílum á götum borgarinnar fer sífellt vaxandi og umferðin verður sífellt þyngri er rétt að leita leiða til að láta umferðina ganga betur en hún gerir.“

 
Haraldur Einarsson: „Ég vil nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Fjólu Hrund Björnsdóttur sem sagði í jómfrúrræðu sinni áðan að leyfa ætti hægri beygjur á rauðu ljósi. Ég hef velt þessu fyrir mér í talsverðan tíma og komist að sömu niðurstöðu og hv. þingmaður. Efasemdaraddir geta að sjálfsögðu vaknað og eru skiljanlegar.“

 

Categories
Fréttir

Aðalfundur Framsóknarfélags Reykjavíkur

Deila grein

11/02/2014

Aðalfundur Framsóknarfélags Reykjavíkur

logo-framsokn-gluggiAðalfundur Framsóknarfélags Reykjavíkur verður haldinn miðvikudaginn 19. febrúar í Framsóknarhúsinu að Hverfisgötu 33, 3. hæð, í Reykjavík, kl. 19.30.
Dagskrá:
1. Fundarsetning.
2. Tilnefning eða kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Formaður gefur skýrslu um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.
4. Gjaldkeri flytur skýrslu um fjárhag félagsins og leggur fram endurskoðaða reikninga.
5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
6. Reikningar bornir upp til samþykktar.
7. Lagabreytingar, löglega fram bornar.
8. Kosin stjórn félagsins:

8.1.  Formaður.
8.2.  Varaformaður.
8.3.  5 (fimm) meðstjórnendur.
8.4.  2 (tveir) menn í varastjórn.
8.5.  Kosnir 2 (tveir) skoðunarmenn reikninga.
8.6.  Kosnir 2 (tveir) skoðunarmenn reikninga til vara
8.7.  Kosnir fulltrúar á kjördæmisþing KFR.

9. Önnur mál.
10. Fundarslit.
Framboð til þeirra trúnaðarstarfa sem kosið er um á aðalfundi skulu berast stjórn eigi síðar en 3 sólarhringum fyrir aðalfund. Framboð síðar fram komin skulu einungis tekin gild sé ekki neitt framboð í umrædda ábyrgðarstöðu, sbr. 5.4 í lögum félagsins.
Flokksfélagar eru hvattir til að fjölmenna á aðalfundinn.
*****
Úr lögum Framsóknarfélags Reykjavíkur:
5. gr. Boðun, lögmæti og seturéttur.
5.1. Boða skal til aðalfundar með minnst viku fyrirvara á sannanlegan hátt. Í fundarboði skal getið dagskrár.
5.2. Aðalfundur er löglegur sé löglega boðað til hans.
5.3. Seturétt á aðalfundi með fullum atkvæðisrétti hafa þeir félagar, sem skráðir eru í félagið a.m.k. þrjátíu dögum fyrir aðalfund samkvæmt félagatali á skrifstofu flokksins og hafa lögheimili í Reykjavík. Allir félagar í Framsóknarfélagi Reykjavíkur hafa seturétt á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt.
5.4. Framboð til þeirra trúnaðarstarfa sem kosið er um á aðalfundi skulu berast stjórn eigi síðar en 3 sólarhringum fyrir aðalfund. Framboð síðar fram komin skulu einungis tekin gild sé ekki neitt framboð í umrædda ábyrgðarstöðu.
5.5. Fulltrúar á kjördæmisþing KFR skulu hafa greitt félagsgjöld FR fyrir yfirstandandi ár og vera með lögheimili í Reykjavík.
*****
STJÓRN FRAMSÓKNARFÉLAGS REYKJAVÍKUR

Categories
Greinar

Lífhagkerfið – dýrmæt auðlind

Deila grein

09/02/2014

Lífhagkerfið – dýrmæt auðlind

Sigurður Ingi JóhannssonÍsland er með formennsku í samstarfi Norðurlandanna árið 2014. Samkvæmt venju hafa verið skipulögð ákveðin formennskuverkefni og hafa þrjú ráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunar-, umhverfis- og auðlinda- og mennta- og menningarmálaráðuneyti, sameinast um framkvæmd forgangsverkefnis sem kallað er Norræna lífhagkerfið og fengið hefur vinnuheitið NordBio. Verkefninu er ætlað að standa yfir í þrjú ár.

Í dag boðar íslenska verkefnisstjórnin til opnunarfundar um NordBio í Norræna húsinu í Vatnsmýrinni. Þar munu koma saman um 100 manns frá Norðurlöndunum, að meðtöldum sjálfstjórnarsvæðum, og ræða framkvæmd verkefnisins.

Í NordBio endurspeglast norræn samvinna eins og hún gerist metnaðarfyllst. Verkefnið sameinar krafta sérfræðinga, stofnana og fyrirtækja sem starfa á sviði lífrænna auðlinda.

Því er ætlað styrkja norrænt atvinnulíf og bæta umhverfislegan, hagrænan og félagslegan afrakstur af nýtingu auðlinda úr lífríkinu, bæði til lands og sjávar. Þá er því einnig ætlað að styrkja byggðaþróun, þekkingarlegan grunn að stefnumörkun í atvinnulífinu og umhverfismálum með því að efla samstarf á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar í lífhagkerfinu. NordBio er ennfremur ætlað að leggja bættan grunn að orkuvinnslu, fæðuöryggi og lýðheilsu og opna norrænni framleiðslu aðgang að mörkuðum sem komi til góða vaxandi fólksfjölda í heiminum.

Hugmyndafræðin bak við NordBio-verkefnið tengist vel við opinbera stefnumótun íslenskra stjórnvalda, eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og Byggðaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi.

Ljóst er að lífrænar auðlindir eru ein helsta undirstaða velferðar á Íslandi sem og hjá hinum norrænu ríkjunum. Mikil verðmæti eru falin í lífrænum auðlindum landanna og löndin hafa góðar forsendur til að ryðja brautina í varðveislu og bættri nýtingu þeirra og er verkefninu meðal annars ætlað að tryggja Norðurlöndunum leiðandi hlutverk á þessu sviði. Til marks um áhuga annarra þjóða á verkefninu má nefna að samtök á vegum Breska samveldisins munu eiga áheyrnarfulltrúa á fundinum.

Það er von mín að formennska Íslands á þessum vettvangi verði til þess að opna augu fólks fyrir þessari miklu og dýrmætu auðlind, sem lífhagkerfið er.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. febrúar 2014)

Categories
Greinar

Þarf fjórðungur stúlkna aðstoð vegna þunglyndis eða kvíða?

Deila grein

06/02/2014

Þarf fjórðungur stúlkna aðstoð vegna þunglyndis eða kvíða?

Karl GarðarssonSpurningin vaknar í kjölfar könnunar sem Þjónustumiðstöð Breiðholts gerði í 9. bekk í grunnskólum hverfisins árið 2012. Könnunin leiddi í ljós að 26,2% stúlkna voru yfir viðmiðunarmörkum vegna kvíða 2012. Hlutfallið hafði lækkað í 15,5% á síðasta ári. Þá mældust 12,6% stúlkna vera yfir viðmiðunum vegna þunglyndis 2012. Hlutfallið hafði lækkað í 10,2% 2013. Það gæti meðal annars verið vegna þess að gripið var inn í þau tilfelli sem komu upp og rætt við nemendur og foreldra og bent á úrræði til hjálpar.

Það breytir hins vegar ekki stóru myndinni að heildartölurnar eru áhyggjuefni og vekja upp spurningar um geðheilbrigði þeirrar kynslóðar sem nú er að vaxa úr grasi.

Vandamálið virðist vera til staðar og nauðsynlegt fyrir borgaryfirvöld og stjórnvöld að bregðast skjótt við. Athygli vekur að mun lægri tölur mælast hjá drengjum í Breiðholtinu. Aðeins 4,1% þeirra var yfir viðmiðunarmörkum þegar kom að kvíða 2009 en 1,9% 2013. Þá voru 6,8% yfir mörkum vegna þunglyndis 2009 og 3,9% á síðasta ári.

Niðurstöður og umræður úr ýmsum könnunum um líðan skólabarna hafa verið birtar að undanförnu. Setja þarf spurningarmerki við margar þeirra, enda skortir oft upp á faglega nálgun á viðfangsefnið.

Átak á landsvísu
Könnunin í Breiðholti er hluti af svokölluðu Breiðholtsmódeli, sem þróast hefur í hverfinu á síðustu sjö árum. Þetta módel byggist meðal annars á því að reynt er að greina vandann eins fljótt og hægt er og veita síðan bestu mögulega þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Þá sinna sálfræðingar bráðamálum sem koma upp. Hönnuð hafa verið sérstök námskeið þar sem boðið er upp á fyrstu inngrip við uppeldis- og tilfinningavanda og eru þau hluti af þeim úrræðum sem boðið er upp á í Breiðholti. Námskeiðin eru ætluð foreldrum og börnum og þau ná allt niður til foreldra 3ja ára barna sem eru í áhættuhópi. Góð samvinna er við geðdeild Landspítala, BUGL og fleiri aðila.

Niðurstaða vinnulags Þjónustumiðstöðvar Breiðholts gefur tilefni til að staldra við. Hún bendir til mjög vaxandi tilfinningavanda unglinga á árunum eftir kreppu. Sú niðurstaða þarf ekki að koma á óvart í ljósi reynslu annarra þjóða, t.d. Finnlands, en Finnar glímdu við alvarlegar afleiðingar kreppu, sem birtist m.a. í auknum tilfinningavanda barna.

Nauðsynlegt er að ráðast í átak á landsvísu með því markmiði að skima fyrir tilfinningavanda unglinga og bjóða þeim sem þurfa viðeigandi hjálp. Það er fjárfesting til framtíðar.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 6. febrúar 2014.)

Categories
Fréttir

Bætt kjör námsmanna á oddinn

Deila grein

05/02/2014

Bætt kjör námsmanna á oddinn

Stjorn-SUF-2014Á 39. Sambandsþingi Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) sem haldið er um helgina á Hótel Selfossi var Helgi Haukur Hauksson kjörinn nýr formaður sambandsins. Helgi tekur við af Hafþóri Eide Hafþórssyni sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Helgi Haukur er 29 ára gamall nemi við Háskólann á Bifröst.
Jafnframt var kjörin ný 12 manna stjórn SUF, hana skipa:
Alex Björn Bülow
Kjartan Þór Ingason
Davíð Freyr Jónsson
Ásta Hlín Magnúsdóttir
Kristjana Louise
Páll Maris Pálsson
Ágúst Bjarni Garðarsson
Sóley Þrastardóttir
Fjóla Hrund Björnsdóttir
Einar Freyr Elínarson
Jónína Berta Stefánsdóttir
Heiðrún Sandra Grettisdóttir
Varastjórn skipa:
Sandra Rán Ásgrímsdóttir
Sigurjón Nordberg Kjærnested
Marteinn Eyjólfur Sigurbjörnsson
Steinunn Anna Baldvinsdóttir
Gissur Kolbeinsson
Diljá Helgadóttir
Ísak Traustason
Elka Hrólfsdóttir
Magnús Arnar Sigurðsson
Tanja Kristmannsdóttir
Hafþór Eide Hafþórsson
Hulda Margrét Birkisdóttir
Ungir Framsóknarmenn vilja bæta kjör námsmanna
Á þinginu voru lagðar línur og áherslur fyrir komandi starfsár. Mikil umræða var um kjör námsmanna á þinginu og stóð vilji fundarmanna til að forysta sambandsins myndi leggja mikla áherslu á að bæta kjör námsmanna hið fyrsta. Umræða um hækkun frítekjumarks námslána var hávær og ljóst að ungir framsóknarmenn telja að það geti verið ein skilvirkasta leiðin til að bæta kjör námsmanna.
Hér eru ályktanir frá þinginu.

Categories
Greinar

Konur til forystu

Deila grein

05/02/2014

Konur til forystu

Líneik Anna SævarsdóttirMargir hafa á síðustu vikum veitt slagorðinu „Konur til forystu“ athygli á samskiptamiðlum, sem og öðrum miðlum. Slagorðinu er ætlað að hvetja þá sem standa að framboðum til sveitarstjórnarkosninga til að skipa konur í forystusæti til jafns á við karla. Slagorðið á svo að sjálfsögðu við á fleiri sviðum, eins og í atvinnulífinu. Á öðrum sviðum þurfa karlar hins vegar hvatningu til dáða en geymum það að sinni.

Konur í forystu hjá sveitarstjórnum eru miklu færri en karlar en til þess að ná fram jafntefli (jafnrétti) er mikilvægt að hvetja liðið sem er undir. Nú eru konur um 40% sveitarstjórnarmanna. Engu að síður voru konur um helmingur frambjóðenda í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Konur skipuðu hins vegar síður en karlar efstu sæti framboðslista og því náðu færri konur kjöri. Konur voru í leiðtogasæti á fjórðungi lista. Hlutfall kvenna í forystu sveitarfélaga sem bæjarstjórar, sveitarstjórar eða oddvitar er 32%.

Á þeim fundum sem ég hef setið með sveitarstjórnarmönnum frá því ég varð þingmaður kom ég fljótt auga á að konur eru oft um 25-30% fundarmanna. Þetta eru fundir eins og aðalfundir samtaka sveitarfélaga og fundir þar sem forystumenn sveitarfélaganna fylgja eftir áherslumálum sveitarfélaga eða landshlutasamtaka. Þarna er hlutfallið sem sagt enn lægra en hlutfall kjörinna fulltrúa og jafnvel lægra en hlutfall kvenna í forystu sveitarfélaga.  Ég hef velt fyrir mér ýmsum skýringum, t.d. kynjaskiptingu á vinnumarkaði, þar sem konur sinna frekar störfum sem krefjast viðveru á þeim tímum sem fundir fara fram. Eins gæti verið að konur stoppi styttra við í sveitarstjórnum og því telji konur sig síður hafa reynsluna sem þarf til að sinna forystustörfum. Ekki veit ég hvort þetta eru réttar skýringar en það er verðugt viðvangsefni að velta þessum málum fyrir sér.

Ef við viljum ná fram breytingum er mikilvægt að félög sem standa að framboðum til sveitarstjórna og hins vegar sveitarstjórnirnar sjálfar axli ábyrgð og leiti leiða til úrbóta, þó ákvörðun um framboð verði alltaf einstaklingsins.

Félögin sem bjóða fram lista til sveitarstjórna verða að finna aðferðir sem tryggja jafnrétti við röðun á lista, bæði kynjajafnrétti sem og jafnrétti á ýmsum öðrum sviðum og það þarf líka að gæta að jafnrétti þegar skipað er í forystusætin.

Sveitarstjórnir þurfa að velta fyrir sér af fullri alvöru hvort hægt sé að haga starfi sveitarstjórna þannig að það geri þeim sem hafa áhuga og hæfileika til starfa að sveitarstjórnarmálum það mögulegt.  Ég hef talað við fjölda karla og kvenna sem gefast upp á störfum í sveitarstjórnum vegna þess hversu erfitt er að samrýma þau atvinnuþátttöku, löngum ferðalögum í sífellt stærri sveitarfélögum o.s.frv.  Hvernig eru jafnréttisáætlanir sveitarstjórna?

Einstaklingar sem taka þátt í starfinu þurfa einnig að vera duglegir að miðla af sinni reynslu, bæði jákvæðri og neikvæðri.  Störf að sveitarstjórnarmálum geta vissulega verið tímaþjófur og það getur verið krefjandi að sameina þau öðrum hlutverkum en þau eru líka gefandi á margan hátt.  Í gegnum þessi störf gefst tækifæri til að kynnast fjölda fólks, læra ótrúlega margt um fjölbreytt málefni og eiga ánægjulegt samstarf við ólíka einstaklinga.

Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga á því samfélagi sem þeir búa í til að skoða möguleika á þátttöku. Ég vil þó sérstaklega hvetja konur til starfa, því við þurfum fleiri KONUR TIL FORYSTU.

 

Líneik Anna Sævarsdóttir

Categories
Fréttir

Auglýst eftir frambjóðendum í Hafnarfirð

Deila grein

05/02/2014

Auglýst eftir frambjóðendum í Hafnarfirð

logo-xb-14Framsóknarfélögin í Hafnarfirði auglýsa eftir áhugasömum frambjóðendum eða ábendingum um frambærilega frambjóðendur.
Fulltrúaráðsfundur í Framsóknarfélögunum í Hafnarfirði hefur falið uppstillingarnefnd að gera tillögu að framboðslista Framsóknarflokksins fyrir kosningar til bæjarstjórnar í Hafnarfirði í vor.
Uppstillingarnefnd auglýsir því hér með eftir framboðum eða ábendingum um frambærilega frambjóðendur til að taka sæti á lista Framsóknarflokksins. Frambjóðendur þurfa að uppfylla ákvæði laga um kjörgengi skv. 3. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Frambjóðandi skal hafa lögheimili í Hafnarfirði og hafa náð 18 ára aldri þegar kosning fer fram. Konur jafnt sem karlar, ungir sem aldnir, eru hvattir til að gefa kost á sér.
Uppstillingarnefnd lýsir einnig eftir áhugasömum aðilum sem hafa áhuga á að starfa með okkur fram að kosningum og vinna að ákveðnum málaflokkum eftir kosningar þó þeir gefi ekki kost á sér á framboðslistann. Þegar í bæjarstjórn er komið þarf að manna hinar ýmsu nefndir og ráð Hafnarfjarðarbæjar og má sjá lista um slíkt á vef bæjarins, www.hafnarfjordur.is
Framboðsfrestur er til kl. 12 á hádegi miðvikudaginn 12. febrúar 2014.
Framboðum eða tilnefningum skal skila á netfangið 220framsokn@gmail.com eða til uppstillingarnefndar. Framsókn í Hafnarfirði er á Facebook og er hægt að koma ábendingum á framfæri þar með skilaboðum.
Uppstillinganefnd skipa:
Ingvar Kristinsson
Þórey Matthíasdóttir
Hildur Helga Gísladóttir
Guðmundur Fylkisson
Þórarinn Þórhallsson

Categories
Fréttir

Opinn fundur í Reykjavík

Deila grein

03/02/2014

Opinn fundur í Reykjavík

framsokn-auglysing-reykjavik

Categories
Greinar

Einhugur um afnám verðtryggingar – en hversu hratt?

Deila grein

02/02/2014

Einhugur um afnám verðtryggingar – en hversu hratt?

Frosti SigurjónssonNiðurstaða nefndar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum er einróma sú að verðtrygging sé skaðleg og hana þurfi að afnema. Nefndin klofnaði hins vegar í afstöðu sinni til þess hversu hratt eigi að afnema verðtrygginguna. Minnihluti nefndarinnar leggur til afnám strax á miðju ári, en meirihlutinn vill afnema verðtryggingu í áföngum og taka fyrsta skrefið næstu áramót. Þingið þarf því að velja á milli þessara valkosta. Í þessum pistli skoða ég helstu rök meirihlutans gegn afnámi í einu skrefi og set fram mótrök gegn þeim.

Nefndin einhuga um skaðsemi vertryggingar á neytendalánum

Meðal ókosta sem taldir eru í skýrslu meirihlutans: Tekjur lántakenda eru óverðtryggðar og því geta verðtryggð lán skapað hættu á yfirveðsetningu á verðbólgutímum. Verðtrygging freistar til útlánaþenslu því greiðslubyrði verðtryggðra lána létt í upphafi en þyngist mjög í lokin. Ef verðtryggð jafngreiðslulán eru útbreidd þá dregur úr virkni stýrivaxtatækisins. Verðtrygging leiðir þannig til hærri stýrivaxta og vaxtastigs. Verðtrygging varpar allri áhættu af verðbólguskotum yfir á heimilin sem lántaka.

Í áliti minnihlutans koma fram fleiri ókosti verðtryggingar: Verðtrygging hvetji beinlínis til ofskuldsetningar heimila og auki þannig efnahagslegan óstöðugleika. Verðtrygging valdi værukærð gagnvart verðbólgu. Vísbendingar séu um að verðbólga hafi verið ofreiknuð. Bankakerfið hagnast á verðbólgu. Verðtrygging lána sé verðbólguvaldur.

Nefndin varð einhuga um að skaðsemi verðtryggingar sé það mikil að rökstyðja megi skert samningsfrelsi vegna lánssamninga verðtryggðra neytendalána. Ég er því sammála, hér er grein sem ég skrifaði um rök með og móti verðtryggingu.

Meirihlutinn leggur til afnám í skrefum

Tillaga meirihlutans er að frá og með 1. janúar 2015 verði bannað að veita verðtryggð jafngreiðslulán lengri en til 25 ára. Lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur úr 5 í 10 ár. Takmarkanir verði á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og hvatar auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána. Eigi síðar en 2016 verði reynslan metin og mótuð áætlun um fullt afnám.

Minnihlutinn leggur til afnám í einu skrefi

Tillaga minnihlutans er að verðtrygging nýrra neytendalána verði óheimil frá og með 1. júlí 2014. Gripið verði til mótvægisaðgerða eftir því sem við á, þar á meðal: Skattívilnun til niðurgreiðslu á höfuðstól fyrstu ár lánstímans. Boðið verði upp á afborgunarlaus lán, þ.e. aðeins aðeins vextir greiddir fyrstu ár lánstímans. Nýta megi séreignasparnað til að lækka höfuðstól lána. Vaxtabótum verði beitt til að létta greiðslubyrði. Varnir settar gegn fákeppni og okri á bankamarkaði. Ríkið gefi út verðtryggð skuldabréf. Þak verði sett á verðtryggingu eldri lána. Endurskoða þurfi mælingu neysluvísitölu og leiðrétta hugsanlegan ofreikning hennar.

Helstu rök meirihlutans gegn afnámi í einu skrefi

Meirihlutinn telur að afnám verðtryggingar af neytendalánum í einu vetfangi hefði víðtæk áhrif.

  1. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána er hærri en verðtryggðra í upphafi lánstíma, sem þýðir minna aðgengi að fjármagni, minni eftirspurn eftir húsnæði og lægra fasteignaverð. Einnig dragi úr einkaneyslu og þar með hagvexti. Greining Seðlabanka Íslands bendi til þess að afnám verðtryggingar geti haft mjög neikvæð áhrif á hagkerfið.
  2. Heimilin verði berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli þar sem ólíklegt sé að fastir vextir bjóðist til langs tíma.
  3. Staða Íbúðalánasjóðs myndi versna með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð.
  4. Þá sé óvissa um hvort lífeyrissjóðir muni halda áfram að fjármagna íbúðalán ef þau séu óverðtryggð.

Vegna ofantalinna áhrifa á hagkerfið, neytendur, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði, og með fjármálastöðugleika í huga telur meirihlutinn skynsamlegra að afnema verðtryggingu í áföngum.

Hversu vel halda þessi rök? 

Nefndin klofnaði í afstöðu sinni og því er eðliegt að menn skoði rökin og taki afstöðu til þeirra. Ólafur Margeirsson skrifaði pistil með gagnrýni á rök meirihlutans, Marinó G. Njálsson hefur talað fyrir afnámi strax hér og hér, og nú koma mínar hugleiðingar um efnið:

1) Aukin greiðslubyrði í upphafi lækkar fasteignaverð og dregur úr hagvexti

Það er vissulega rétt að greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum er meiri en af verðtryggðum fyrstu árin. En við því mætti bregðast með mótvægisaðgerðum: Bjóða mætti upp á lán sem væru án afborgunar af höfuðstól fyrstu árin, þ.e. eingöngu greiddir vextir. Aðlaga vaxtabætur þannig að þær væru hærri fyrstu árin og þær jafnvel greiddar út í takt við afborganir af lánum.

Meirihlutinn byggir niðurstöðu sína á greiningu Seðlabankans sem við nánari skoðun virðist ekki í samræmi við raunveruleikann. Seðlabankinn reiknar út að fasteignaverð geti lækkað um 14-20% verði verðtrygging bönnuð af nýjum lánum. Í skýrslu Analytica kemur fram að 75% nýrra húsnæðislána eru óverðtryggð og samt hefur fasteignaverð hækkað. Því virðist ósennilegt að fasteignaverð hrynji þótt öll ný úsnæðislán verði óverðtryggð. Það má reyndar vera að fasteignaverð myndi hækka eitthvað hægar en ella. En væri það svo slæmt? Það væru þá minni líkur á fasteignabólu sem er annars getur herjað á hagkerfi innan hafta.

Seðlabankinn varar við því að afnema verðtryggingu nýrra lána því það geti dregið úr einkaneyslu og hagvexti. Það er vissulega rétt, en telur Seðlabankinn æskilegt að einkaneysla í hagkerfinu sé fengin að láni? Væri ekki ábyrgara að hvetja til sparnaðar frekar en skuldsettrar neyslu?

2) Heimilin verða berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli

Heimilin eru nú þegar berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli þótt lánin séu verðtryggð. Vextirnir koma einfaldlega fram í formi verðbóta sem bætast við höfuðstólinn og bera síðan vaxtavexti út lánstímann. Skuldin hækkar og gengur þannig á eigið fé heimilisins án minnstu mótspyrnu. Verðtrygging deyfir vaxtaskyn lántakenda og lánastofnunum er veitt minna aðhald. Afleiðingin af þessum doða eru hærri vextir og á endanum meiri greiðslubyrði. Verði verðtrygging hinsvegar afnumin þá yrðu lánastofnanir sjálfar berskjaldaðar fyrir bröttu vaxtahækkunarferli og myndu deila áhættu af verðbólgu með heimilunum. Komi til verðbólguskots, munu lánastofnanir hika við að hækka vexti umfram greiðslugetu lántakenda. Það er betra fyrir þær að taka einhvern hluta af verðbólguskoti á sig og dreifa því á lengri tíma, fremur en að orsaka víðtæk vanskil hjá lántakendum.

Verði lán almennt óverðtryggð þá minnka líkur á snörpum vaxtahækkunum. Ástæðan er sú að stýrivextir Seðlabanka þyrftu ekki að hækka eins skart til að draga úr þenslu. Örlítil hækkun stýrivaxta myndi yfirleitt nægja til að slá á þenslu og vextir yrðu því almennt lægri en nú tíðkast.

3) Staða Íbúðalánasjóðs myndi versna

Fortíðarvandi Íbúðalánasjóðs er því miður orðinn hlutur sem þarf að horfast í augu við. Þeim fortíðarvanda verður vart sópað undir teppið með því að fresta afnámi verðtryggingar af nýjum lánum.

Vandi Íbúðalánasjóðs felst í því að hann getur ekki greitt upp útgefin verðtryggð eigin skuldabréf upp á 700 milljarða. Hann situr á lausu fé vegna þess að lántakendur hafa í talsverðum mæli greitt upp verðtryggð lán hjá sjóðnum. Þetta fé gæti sjóðurinn eflaust lánað út óverðtryggt til að draga úr tapinu. Þá myndi sjóðurinn reyndar sitja uppi með áhættu af misgengi á milli óverðtryggðra eigna og verðtryggðra skulda. Til að draga úr misvæginu gæti Íbúðalánasjóður gert vaxtaskiptasamning við ríkissjóð sem skuldar 700 milljörðum of mikið óverðtryggt. Einnig gæti Íbúðalánasjóður gert vaxtaskiptasamning við Landsbankann sem skuldar ríflega 200 milljörðum of mikið óverðtryggt.

4) Óvissa um að lífeyrissjóðir haldi áfram að fjármagna íbúðalán

Það er mjög erfitt að sjá fyrir sér að lífeyrissjóðir myndu ekki vilja lána til íbúðakaupa. Lán með veði í íbúðarhúsnæði eru traust fjárfesting til lengri tíma og hentar því lífeyrissjóðum einstaklega vel.

Fjármagnshöftin valda því að lífeyrissjóðir þurfa að fjárfesta ríflega 100 milljarða árlega hér á landi. Þótt fjármagnshöftin verði afnumin er ólíklegt að lífeyrissjóðir fengju ótakmarkað svigrúm til að fjárfesta erlendis næstu árin á eftir. Það ætti því að vera næg eftirspurn hjá lífeyrissjóðum eftir óverðtryggðum íbúðabréfum næstu árin.

Brýnt að afnema verðtygginu nýrra lána strax

Skýrslur bæði meiri- og minihluta nefndar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum eru fróðleg lesning og bera vitni um mikla og vandaða vinnu. Ég er sammála því að verðtryggingin sé skaðleg og hana beri að afnema. Nefndin klofnaði í afstöðu til þess hversu hratt ætti að afnema verðtryggingu og því er eðlilegt að rökræðan muni snúast um það álitamál.

Að mínum dómi eru veigamikil rök fyrir því að afnema verðtryggingu nýrra lána strax. Því lengur sem verðtrygging er við lýði, því lengur búum við þau vandamál sem henni fylgja: háa stýrivexti, of mikla skuldsetningu heimila, heimilin bera ein áhættu af verðbólgu á meðan bankakerfið hefur hvata til að auka verðbólgu. Það þyrfti því mjög sterk rök til að fresta þeim umbótum sem afnám verðtryggingar er. Þau rök hafa að mínum dómi ekki enn komið fram.

 

Frosti Sigurjónsson

(Greinin birtist á www.frostis.is)