Categories
Greinar

Menntun er tækifæri fyrir alla

Deila grein

07/09/2018

Menntun er tækifæri fyrir alla

Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og geti fundið nám við sitt hæfi. Við viljum tryggja öllum börnum og ungmennum slík tækifæri og er það leiðarljósið við gerð nýrrar menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Markmiðið er einfalt; íslenskt menntakerfi á að vera framúrskarandi og byggja undir samkeppnishæfni hagkerfisins til langrar framtíðar. Liður í því er að halda áfram með þróa menntun fyrir alla eða menntun án aðgreiningar sem reynst hefur vel að mörgu leyti.

Íslenskir skólar mæta fjölbreyttum þörfum nemenda sinna og innan þeirra er unnið frábært starf. Við vitum hins vegar að hægt er að gera betur þegar kemur að samþættingu skólastiga. Þannig er raunin að fötluðum ungmennum sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskóla bjóðast fáir mennta- eða starfskostir að því námi loknu. Þessi staða var rædd á nýlegum fundi Þroskahjálpar með aðstandendum fatlaðra ungmenna á opinskáan og uppbyggilegan hátt og komu þar margar athyglisverðar hugmyndir fram.

Árið 2016 fullgiltu stjórnvöld samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og var það mikið framfaraskref. Samningurinn er leiðarvísir að því hvernig tryggja skuli fötluðum mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra en í 24. grein hans er sérstaklega fjallað um menntun. Það er mikilvægt að við leitum allra færra leiða til að uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist í þessum efnum.

Það er miður að útskrifuðum nemendum af starfsbrautum framhaldsskóla bjóðist ekki fjölbreyttari atvinnu- eða menntatækifæri að námi loknu og að því munum við keppa. Þegar hefur verið hrint af stað vinnu á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem fram munu koma tillögur til úrbóta um aðgengi fatlaðs fólks að námi og/eða störfum að loknum framhaldsskóla. Mikilvægt verður að stilla saman strengi þeirra sem að þurfa að spila saman í þessum efnum m.a. með velferðarráðuneytinu, sveitarfélögum sem og öðrum hagsmunaaðilum. Ljóst er að bætt yfirsýn, upplýsingagjöf og aukin áhersla á samstarf og samfellu í skóla- og velferðarmálum mun hjálpa okkur að mæta þeim áskorunum sem bíða okkar og stuðla að betra samfélagi og tækifærum fyrir okkur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. september 2018.

Categories
Greinar

Fræðslumál í forgrunni

Deila grein

07/09/2018

Fræðslumál í forgrunni

Stór verkefni eru framundan í fræðslumálum á Akureyri. Eitt það viðamesta er að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla en Alþingi þarf einnig að koma að því verkefni með lengingu fæðingarorlofs. Meirihluti bæjarstjórnar hefur gert það að markmiði sínu að taka yngri börn inn á leikskóla og koma þannig betur til móts við barnafólk á Akureyri. Þar til búið verður að fjölga leikskólaplássum mun barnafjöldi í hverjum árgangi ráða för um hversu mörg börn verður hægt að innrita í leikskólana á hverju hausti en um leið og svigrúm gefst verða þessi mikilvægu skref tekin.

Nýr leikskóli við Glerárskóla
Hafin er vinna við hönnun á nýjum leikskóla á lóð Glerárskóla en þar er gert ráð fyrir rými fyrir 140-150 börn. Þar mun verða sérstaklega búin ungbarnadeild fyrir börn á aldrinum 1-2 ára.  Áætlað er að skólinn verði tekinn í notkun árið 2021. Um leið og það verður að veruleika leggst af starfsemi í efra húsinu á Pálmholti. Húsið er komið til ára sinna og hefur sinnt hlutverki sínu vel. Neðra húsið verður áfram í notkun en með þessu fyrirkomulagi fjölgar leikskólaplássum um 90. Það er að mörgu að hyggja við uppbyggingu leikskóla, s.s. að greina íbúaþörf og aldurssamsetningu í hverfum bæjarins.  Fræðslusvið mun vinna að því verkefni í samvinnu við skipulagssvið en út frá þeim gögnum verður hægt að taka ákvarðanir um næstu skref í uppbyggingu leikskóla.

Enn laust hjá dagforeldrum á Akureyri
Um leið og 12-18 mánaða börnum fjölgar í leikskólum þarf að breyta aðbúnaði og aðstöðu innandyra sem og aðlaga skólalóðir að þeirra þörfum. Með uppbyggingu leikskólans við Glerárskóla og mögulegri stækkun á Naustatjörn eða Lundarseli, mun okkur takast að stíga skref í þá átt að bjóða yngri börnum en nú er gert leikskólavist.

Samhliða þessu er vilji til að styrkja starfsumhverfi dagforeldra því þó svo að leikskólaplássum fjölgi verður áfram þörf fyrir þjónustu þeirra. Nú eru starfandi 25 dagforeldrar á Akureyri og fyrirséð að  a.m.k. 3 nýir bætist í hópinn á haustmánuðum.

Nemendafjöldi í leikskólum Akureyrarbæjar skólaárið 2018-2019 verður um 980. Nýir nemendur verða 276 en þar af eru 53 börn fædd í janúar–mars 2017. Stefnt er að því á næsta ári að bjóða börnum sem fædd eru fyrir 30. apríl 2018 leikskólapláss eða mánuði yngri börnum en áður hefur verið. Nemendafjöldi í leikskólum skólaárið 2018-2019 er áætlaður um 980.

Faglærðir eru 90% í leikskólum bæjarins
Mikil umræða hefur verið um mönnun starfsfólks í leikskólum á landinu og sveitarfélögunum gengur misjafnlega vel að ráða faglært starfsfólk.  Á Akureyri hefur verið gengið frá ráðningum fyrir nýhafið skólaár og er hlutfall leikskólamenntaðra sem starfa með börnunum rúmlega 90% sem er með því hæsta sem gerist á landinu. Hlutfall kennara og annarra háskólamenntaðra starfsmanna við kennslu grunnskóla er um 99%.

Akureyrarbær er stoltur af því starfi sem fram fer í skólum bæjarins og forystufólk í bæjarstjórn horfir björtum augum til framtíðar þar sem vandaðir starfshættir og fagmennska eru í fyrirrúmi.

Ingibjörg Isaksenformaður fræðsluráðs og bæjarfulltrúi á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2018.

Categories
Fréttir

SEF hefur vetrarstarfið

Deila grein

05/09/2018

SEF hefur vetrarstarfið

Samband eldri Framsóknarmanna (SEF) er að hefja vetrarstarf sitt á næstu dögum. Mikilvægt verður að virkja eldri félagsmenn í spennandi starf sem framundan er í góðu samstarfi við kjörna fulltrúa flokksins um land allt. Víðsvegar er úrbóta þörf og mikilvægt að ná utan um verkefni er þarfnast úrlausna sem fyrst.
Mikilvægi þess að losna við skerðingar á tekjum eldri borgara hefur verið ofarlega á baugi í umræðunni og aldursfordómar sem fólk mætir ekki síst á vinnumarkaði. Skoða þarf alvarlega að aldursviðmið fyrir töku á ellilífeyri verði ekki hækkað frá því sem nú er enda ljóst að fólk eftir fimmtugt á iðulega í erfiðleikum með að fá vinnu. Fólk á þessum aldri sem hefur menntun, reynslu, getu og vilja til að vinna fær það ekki vegna aldursfordóma. Eins hefur verið rætt um að með sama hætti og jafnað er kynjahlutföll þá gæti reynst mikilvægt að jafna aldursbil hjá ríkinu.
SEF hélt aðalfund sinn snemmsumars og var Drífa Sigfúsdóttir kjörin formaður sambandsins. Aðrir í stjórn eru:
Ólafur Hjálmarsson, Hafnarfirði
Kristinn Snævar Jónsson, Reykjavík
Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir, Garðabæ
Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir, Akureyri
Varastjórn:
Vilhjálmur Sörli Pétursson, Árborg
Þórey Anna Matthíasdóttir, Hafnarfirði
Jóngeir H. Hlinason, Vogum
Loks eru fulltrúar úr öllum kjördæmum í trúnaðarráði SEF.

Categories
Greinar

Samgöngur – úrbætur í sjónmáli

Deila grein

03/09/2018

Samgöngur – úrbætur í sjónmáli

Góðar og greiðar samgöngur eru undirstaða hagvaxtar og velmegunar þjóðfélaga. Ríkisstjórnin ætlar á næstu árum að bæta enn við þau fjárframlög til vegaframkvæmda og veitir ekki af og taka á uppsöfnuðum vanda hringinn í kringum landið. Áherslan er á umferðaröryggi því eitt slys er einu slysi of mikið.

Slitnir vegir

Vegakerfi okkar samfélags er yfir 12 þúsund kílómetrar að lengd. Umferð hefur stóraukist, ekki síst vegna komu ferðamanna sem flestir fara út á vegina yfir sumarið. Árið 2010 kom hingað um hálf milljón ferðamanna, sjö árum seinna voru þeir 2,2 milljónir. Á síðustu tíu árum hefur umferðin aukist um 30% á hringveginum. Á sama tíma hefur vegakerfið liðið fyrir stórfelldan niðurskurð fjármuna. Það er því víða laskað og þörf á viðhaldi og þjónustu afar aðkallandi.

Fækkum slysum

Við eigum ekki að sætta okkur við að banaslys sé eðlilegur hluti af samgöngukerfinu. Fyrir utan mannlegan harmleik sem umferðarslys valda hleypur kostnaður þeirra á tugum milljarða. Í nýrri samgönguáætlun verður forgangsraðað í þágu öryggis og viðhalds þar sem metnaðarfull og skilvirk markmið verða sett um öryggi samgangna og gerðar skilvirkar öryggisáætlanir fyrir samgöngur á landi, á sjó og í lofti. Framtíðarmarkmiðið er að lágmarka og draga úr alvarleika umferðarslysa.

Auknir fjármunir

Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú. Við forgangsröðun fjármuna verður litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Slík vinna stendur nú sem hæst og mun birtast í samgönguáætlun sem verður lögð fram á Alþingi nú í haust.

Framkvæmdir á Suðurlandi

Sunnlendingar finna verulega fyrir aukinni umferð enda er fjölmargar náttúruperlur og sögustaði að finna í fjórðungnum. Meðal framkvæmda í sumar er styrking, breikkun og sementsfestun á kafla Laugarvatnsvegar, sementsfestun á Biskupstungnabraut, brú yfir Fullsæl og vegtenging brúar (Biskupstungnabraut-Reykjavegur og Laugarvatnsvegur), endursteypa á gólfi brúar yfir Ölfusá, miklar framkvæmdir við Suðurlandsveg, undirgöng og nærliggjandi vegtengingar milli Selfoss og Hveragerðis, svo eitthvað sé nefnt. Austar í fjórðungnum má nefna nýjar brýr yfir Brunná, Stigá, Hverfisfljót, Hólá og Kvíá sem og byrjun framkvæmda við Hornafjarðarfljót en í sumar stendur til við að ljúka vegtengingu við Hólm. Að lokum má nefna vegtengingu við gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri.

Framkvæmdalistinn er ekki tæmandi, en gefur engu að síður sterklega til kynna áherslu ríkisstjórnarinnar að bæta skuli samgöngukerfi landsins og þar með umferðaröryggi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingsmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst í Suðra 30. ágúst 2018.