Categories
Fréttir

Börn eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi!

Deila grein

05/07/2019

Börn eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir það „ánægjulegt að forsætisráðherra muni formlega leggja það fyrir ríkisstjórnina að þingmannanefnd um útlendingamál verði falið víðtækara hlutverk en nú er,“ í yfirlýsingu í dag.
„Þá fagna ég frumkvæði dómsmálaráðherra og tek af heilum hug undir mikilvægi þess að meiri áhersla verði lögð á að skoða framkvæmd laganna með tilliti til barna og að fulltrúi minn fái sæti við það borð,“ segir Ásmundur Einar.
„Undanfarna daga hafa málefni barna á flótta verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu og ekki að ástæðulausu. Börn hafa sérstöðu í velflestum málaflokkum og þurfa á því að halda að við, hin fullorðnu, verndum þau svo best sem okkur er mögulegt. Með það að markmiði hef ég einmitt lagt áherslu í embætti á endurskoðun á þjónustu við öll börn á Íslandi. Í því samhengi skiptir uppruni barna ekki máli. Börn eru börn, hvaðan sem þau koma,“ segir Ásmundur Einar.
„Börn á flótta eru sérstaklega viðkvæmur hópur en í síðustu viku afhenti UNICEF á Íslandi mér skýrslu um verkefnið „HEIMA: móttöku barna í leit að alþjóðlegri vernd frá sjónarhóli barnsins“. Þar koma fram ýmsar athugasemdir um móttöku og þjónustu við börn í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi, m.a. að bæta þurfi verkferla.
Það virðist sem við getum gert betur að þessu leyti og í því, eins og í öllu er varðar börn skal ávallt haft í huga hvað sé barni fyrir bestu.“

Categories
Fréttir

Til hamingju Ísland – Vatnajökulsþjóðgarður samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO

Deila grein

05/07/2019

Til hamingju Ísland – Vatnajökulsþjóðgarður samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fagnar frábærri viðurkenningu að Vatnajökulsþjóðgarður hafi verið samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO í yfirlýsingu í dag.
„Til hamingju Ísland,“ segir Líneik Anna, „þetta er einn af stóru sigrunum og frábær viðurkenning.“
„Vatnajökulsþjóðgarður varð ekki til á einni nóttu – í jafn umfangsmiklu verkefni verða óhjákvæmilega sigrar og töp. Undirbúningur umsóknar til UNESCO hófst á árinu 2016,“ segir Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Ekki sparka í þann sem hefur hingað til hugsað um landið

Deila grein

04/07/2019

Ekki sparka í þann sem hefur hingað til hugsað um landið

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður og bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 1 í gær og ræddi þar við Ágúst Ólafsson, fréttamann á Akureyri, m.a. um uppreksturinn en Þórarinn Ingi er einn þeirra sem reka fé sitt úr Höfðahverfi í eyðibyggðina í Fjörðum.
Í viðtalinu var komið inn á umræðu um landgæði og ofbeit á sumum landsvæðum, í kjölfar skýrslu Ólafs G. Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, er ber heitið Á röngunni – alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt.
Ólafur G. Arnalds segir að skoðun gagna um umhverfisáhrif sauðfjárbeitar leiði í ljós að margt hafi farið úrskeiðis um framkvæmd gæðastýringar í sauðfjárrækt og þá einkum landnýtingarþátt verkefnisins. Gæðastýringin er liður í samningum sauðfjárbænda um stuðning við atvinnugreinina.
Fram kom hjá Þórarin Inga að landgæði væru ljómandi góð heilt yfir í Fjörðum. „Við höfum verið í verkefni í yfir tuttugu ár á heiðinni sem slíkri, á Leirdalsheiðinni, sem hefur skilað miklum árangri, en vissulega er þetta ekki þungamiðja í okkar beitarsvæði. Þarna erum við að græða upp landið, sem er einmitt það sem bændur gera alls staðar hringinn í kringum landið. Bændum er umhugað um það land sem er verið að nýta og gera sér grein fyrir því að ef gengið er of langt í beit eru menn að skerða rétt framtíðarinnar til að nýta landið.“
Þórarinn Ingi segir að sauðfé sé ekki sleppt eitthvað út í buskan og að það sé ekki ofbeit vegna núverandi búskaparhátta. „Landið er víða uppblásið af öðrum völdum en vegna sauðkindarinnar. Það eru gríðarlegir hópar af gæsum, það ganga hreindýr laus o.s.frv. Við búum í landi þar sem veður eru válynd, svo ég tali ekki um allar þessar náttúruhamfarir, það er ekki bara sauðkindin sem á sök á því hvernig er fyrir komið. Vissulega var það hér áður fyrr að menn voru ekki að heyja það magn sem gert er í dag, búfjáreign var einnig miklu meiri, fé er núna um 450.000, en það voru milljón kindur hér upp úr 1980. Síðan er beitartími orðinn allt annar og mér gremst yfirleitt þessi umræða hjá þessum mönnum sem ég veit að eiga að vita betur. Staðan er ekki svona og það er á sumum stöðum alltaf farið á þetta svo kallaða „gosbelti“ og þar er verið að ráðast á bændur sem eiga það einfaldlega alls ekki skilið, vegna þess að þetta eru þeir bændur sem hafa staðið sig hvað allra best í að græða upp landið.“
„Það er ekki vænlegt til árangurs að sparka í þann sem hefur hingað til hugsað um landið,“ segir Þórarinn Ingi.
„Við sjáum árangur víða um land þar sem bændur hafa verið að græða upp landið og þeir sem vilja sjá það – sjá það. Það er búið að vinna þrekvirki heilt yfir á vegum bænda hringinn í kringum landið þar sem að á hefur þurft að halda í gegnum árin og fullyrði ég að það er þrekvirki, menn hafa lagt á sig ómældan tíma og vinnu í gegnum árin til þess að endurheimta það sem hefur farið í burtu vegna þeirra áhrifa sem nefnd voru hér að framan. Ekki eingöngu vegna sauðkindarinnar og þetta snýst ekki um það að græða upp fyrir beit – það er alls ekki þannig – menn eru að græða upp landið til þess að reyna að loka því,“ segir Þórarinn Ingi.
Áætlað er að á hverju ári séu 18.000-19.000 hektarar undir í uppgræðsluverkefnum  og eins er búið að friða mikið af landi í gegnum tíðina. „Þannig að menn skulu spara stóru orðin þegar er verið að ráðast á bændur og vinna málin frekar í sátt og samlyndi enda skilar það okkur árangri. Það skilar engum árangri að vera með upphrópanir og læti og dæma síðan heila stétt, heilt yfir um landið. Vissulega er það alltaf þannig að eitthvað má betur fara og við tökum að sjálfsögðu alltaf við ábendingum og viljum gera betur,“ segir Þórarinn Ingi, „og það má ekki gleyma því heldur að sum ár gengur ofboðslega vel, það er þá vegna þess að tíðarfarið hefur verið mjög hagstætt. Svo koma þurrkar, líkt og hefur verið núna og þá gengur þetta hægar og veðurfarið getur jafnvel eyðilagt margra ára starf.“

  • Morgunvaktin — Sauðfjárbændur um allt land eru þessa dagana að reka lambfé sitt á fjall til sumarbeitar. Þá þurfa sumir að fara tugi kílómetra á meðan öðrum dugir að reka kindur og lömb rétt út úr fjárhúsgirðingunni. Það er mikil útgerð sem fylgir upprekstrinum og oft þarf að kalla til auka mannskap, enda taka svona ferðir gjarnan einhverja daga. Þórarinn Pétursson, bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, er einn þeirra sem reka fé sitt úr Höfðahverfi í eyðibyggðina í Fjörðum – viðtalið hefst á 1:24:25 mínútu
Categories
Fréttir

Jarðgöng yfir í Gufunes eða lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík?

Deila grein

03/07/2019

Jarðgöng yfir í Gufunes eða lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík?

Starfshópur um Sundabraut á vegum ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið störfum og skilað skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Sundabraut hefur verið til skoðunar um árabil og í skýrslunni eru nokkrir valkostir vegnir og metnir. Í niðurstöðum hópsins eru tveir valkostir taldir koma til greina; jarðgöng yfir í Gufunes og lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík. Hvorki botngöng né hábrú yfir Kleppsvík voru taldir fýsilegir kostir.
„Sundabrautin myndi tengja uppsveitir borgarinnar betur saman milli Kjalarnes, greiða fyrir umferð fólks og vöruflutninga í gegnum höfuðborgarsvæðið og vera öryggisatriði ef kæmi til þess að rýma þyrfti stóran hluta borgarinnar á skömmum tíma,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
„Með hliðsjón af öllu ofangreindu leggur starfshópurinn til að unnið verði að frekari undirbúningi Sundabrautar í jarðgöngum. Leitað verði leiða til að lækka kostnað við göngin, endurskoða tengingar þeirra við hafnarsvæðið, Sæbraut og Gufunes til að hámarka þann fjölda sem myndi aka göngin í stað annarra leiða. Jafnframt verði unnið að undirbúningi þess að leggja Sæbraut í stokk við Vogabyggð sem að mati hópsins er eðlilegur undanfari Sundabrautar,“ segir í skýrslu starfshópsins.

Categories
Greinar

Framtíð fjölmiðlunar

Deila grein

03/07/2019

Framtíð fjölmiðlunar

Í haust mun ég mæla fyrir frumvarpi um breytingu á fjölmiðlalögum. Það frumvarp markar tímamót fyrir einkarekna fjölmiðla hér á landi sem með því geta fengið opinberan fjárstuðning vegna öflunar og miðlunar frétta og fréttatengds efnis. Ljóst er að síðustu ár hafa rekstrarforsendur einkarekinna fjölmiðla hér á landi versnað til muna. Margar ástæður eru fyrir þeirri þróun svo sem örar tæknibreytingar og minnkandi auglýsingatekjur fjölmiðla samhliða breyttri neysluhegðun. Fjölmiðlafrumvarpið gerir ráð fyrir tvíþættum stuðningi til þess að mæta þeirri þróun en með frumvarpinu er leitast við að Ísland skipi sér í hóp hinna Norðurlandanna og fleiri ríkja í Evrópu sem þegar styrkja einkarekna fjölmiðla.

Fjölmiðlar gegna þýðingarmiklu hlutverki við miðlun upplýsinga og sem vettvangur umræðu og skoðanaskipta. Markmið þessarar aðgerðar er þannig bæði að efla fjölmiðlun hér á landi vegna mikilvægis hennar fyrir þróun lýðræðis í landinu og þróun tungumálsins. Fjölmiðlar eru lykilþátttakendur í því sameiginlega hagsmunamáli okkar að efla íslenskuna og fá fólk til að fylgjast með samfélagsumræðu á sínu eigin tungumáli. Íslenskt efni í fjölmiðlum, hvort heldur frumsamið, þýtt, textað, táknmálstúlkað eða talsett, skiptir höfuðmáli til að viðhalda tungumálinu.

Við viljum skapa frjóan jarðveg fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla hér á landi. Fjölmiðlafrumvarpið byggir á ítarlegri undirbúningsvinnu og var unnið með aðkomu margra sérfræðinga, fulltrúa hagsmunaaðila og annarra flokka. Með nýjum lögum verður til styrkjakerfi sem verður einfalt og fyrirsjáanlegt. Ávinningur þess verður einnig styrkari ritstjórnir og aukið gagnsæi á fjölmiðlamarkaði. Við lifum á spennandi tímum sem einkennast af örum breytingum. Fjölmiðlar verða að hafa tækifæri til þess að mæta þeim breytingum og þróast með þeim. Nýtt fjölmiðlafrumvarp styður við grundvallarstarfsemi þeirra, öflun og miðlun vandaðra frétta og fréttatengds efnis.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júlí 2019.

Categories
Fréttir

Stórkostleg tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta

Deila grein

02/07/2019

Stórkostleg tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, skrifar um mjög áhugaverða grein í Bændablaðið í liðinni viku. Þar rekur Silja Dögg þær breytingar sem séu fyrirsjáanlegar varðandi framleiðslu jarðefnaeldsneytis, en að innan nokkurra áratuga muni sú framleiðsla dragast verulega saman. Stillir hún fram möguleikum um að framleiða nýja orkugjafa á Íslandi sem séu endurnýjanlegir og umhverfisvænir. „Að framleiða eigið eldsneyti í stað þess að flytja það inn til landsins eiga að kalla á umfangsmikla greiningu á þeim hagræna ávinningi sem mun skapast fyrir þjóðarbúið, bændur og framleiðendur og ekki síst út frá umhverfislegum markmiðum,“ segir Silja Dögg.
Í rannsóknum hefur komið fram að bíódísill úr repjuolíu geti komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti, bíódísill er lífræn dísilolía og endurnýjanlegur orkugjafi og telst einn umhverfishlutlausasti orkugjafinn sem getur komið í stað jarðdísilolíu á bíla, skip og flugvélar.
„Repjuræktun og framleiðsla á eldsneyti úr repjuolíu er sjálfbær leið til að sjá fiskiskipaflotanum fyrir eldsneyti sem ekki veldur koltvísýringsútblæstri. Við brennslu á bíódísil, sem framleiddur hefur verið úr repjuolíu, er talið að um rúmlega 70% minni mengun sé að ræða en þegar jarðdísill er notaður. Repjuræktun felur í sér tvöfalda kolefnisjöfnun með tilliti til útblásturs á koltvísýringi þar sem ræktunin tekur til sín tvöfalt meira af koltvísýringi en brennsla olíunnar gefur frá sér við útblástur,“ segir Silja Dögg.
„Undirbúa þarf sem fyrst og með kostgæfni notkun bíódísils á aðalvélar íslenskra skipa með hagkvæmni og umhverfislegan ávinning að leiðarljósi. Byrja mætti í minni skipum og síðan auka sviðið jafnt og þétt. Einnig mætti byrja á lágu íblöndunarhlutfalli bíódísils í jarðdísil eins og til dæmis 5% og hækka síðan hlutfallið jafnt og þétt með aukinni repjuræktun og framleiðslu á bíódísil.“
Silja Dögg hefur lagt fram skriflega fyrirspurn á Alþingi til samgönguráðherra varðandi ræktun og nýtingu íslenskra orkujurta fyrir fiskiskipaflotann. „Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða í þeim efnum, þar sem stórkostlega tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta, ekki síst fyrir umhverfið og orkuöryggi þjóðarinnar.“

Categories
Fréttir

Búa nemendur undir lífið – takast á við tilveruna

Deila grein

02/07/2019

Búa nemendur undir lífið – takast á við tilveruna

„Skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Á dögunum samþykkti Alþingi frumvarp sem festir í sessi faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla. Til þessa hefur ekki verið nein löggjöf í gildi um slíka skóla,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður í grein í Dagskránni Fréttablaði Suðurlands á dögunum.
„Hlutverk lýðskóla er fyrst og fremst að búa nemendur undir lífið, gera þá að fjölhæfum einstaklingum og reiðubúna til að takast á við tilveruna. Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg, nemendur hafa ólíkar þarfir og þeir þurfa að hafa val um sitt nám. Meðal ástæðna brotthvarfs úr framhaldsskólunum okkar er ákveðin einsleitni í námsvali og það að nemendur finna sig ekki í námi. Það er vel að fjölbreytni námsframboðs hér á landi hefur aukist, ekki síst á framhaldsskólastiginu og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina,“ segir Silja Dögg.

Categories
Fréttir

Ný fjögurra ára framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum – til mikils að vinna fyrir samfélagið

Deila grein

01/07/2019

Ný fjögurra ára framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum – til mikils að vinna fyrir samfélagið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir að ný fjögurra ára framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum verði til þess að ný úrræði og þjónusta standi börnum til boða. Gunnvinnsla barnaverndarmála á fyrstu stigum verður efld, stuðlað að snemmtækri íhlutun og samvinna ríkis og sveitarfélaga aukin átt að því að skapa heildarsýn og samfellu í þeirri þjónustu og í þeim úrræðum sem standa börnum og foreldrum til boða. Þetta kemur fram í grein Ásmundar Einars í Fréttablaðinu á dögunum.
„Eitt af meginmarkmiðunum er að koma fyrr að vanda barna. Rannsóknir sýna að börn sem verða fyrir áföllum eða búa við vanrækslu í æsku eru líklegri til að leiðast út af braut í lífinu. Þeim er jafnframt hættara við ýmsum sjúkdómum. Það er því til mikils að vinna fyrir samfélagið allt að koma þeim sem á þurfa að halda til hjálpar með gagnreyndum úrræðum – og það sem fyrst,“ segir Ásmundur Einar.
„Það hefur verið gefandi að taka þátt í að móta ofangreinda framkvæmdaáætlun og verkefnið nú er að fylgja henni eftir af festu. Þessi framsækna áætlun sýnir að okkur er alvara þegar við segjumst ætla að gera betur fyrir börnin okkar.“

Categories
Greinar

Vestnorrænt tungumálasamstarf

Deila grein

01/07/2019

Vestnorrænt tungumálasamstarf

Mennta- og vís­inda­málaráðherra Fær­eyja, Hanna Jen­sen, heim­sótti Ísland í nýliðinni viku. Það var sér­lega ánægju­legt að hitta sam­starfs­ráðherr­ann frá Fær­eyj­um og við átt­um upp­byggi­leg­an fund þar sem fram komu ýms­ar hug­mynd­ir um frek­ara sam­starf á milli land­anna. Okk­ur er báðum um­hugað um stöðu og þróun okk­ar móður­mála, ís­lensk­unn­ar og fær­eysk­unn­ar. Bæði tungu­mál standa frammi fyr­ir sömu áskor­un­um vegna örr­ar tækniþró­un­ar.

Mark­viss­ar aðgerðir

Íslensk stjórn­völd geta miðlað miklu til annarra þjóða þegar kem­ur að því að snúa vörn í sókn fyr­ir tungu­málið. Í þessu sam­hengi höf­um við kynnt heild­stæða áætl­un sem miðar að því að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar og vit­und­ar­vakn­ingu um hana und­ir yf­ir­skrift­inni Áfram ís­lenska! Ný­verið náðist sá ánægju­legi áfangi að Alþingi samþykkti sam­hljóða þings­álykt­un­ar­til­lögu mína um efl­ingu ís­lensku sem op­in­bers máls á Íslandi. Meg­in­inn­tak henn­ar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta m.a. skólastarf, menn­ingu, tækniþróun, ný­sköp­un, at­vinnu­líf og stjórn­sýslu.

Íslensk­an gjald­geng í sta­f­ræn­um heimi

Hanna Jen­sen var mjög áhuga­söm um mál­tækni­áætl­un ís­lenskra stjórn­valda. Með þeirri áætl­un vilja ís­lensk stjórn­völd tryggja að ís­lensk­an verði gjald­geng í sta­f­ræn­um heimi, ra­f­ræn­um sam­skipt­um og upp­lýs­inga­vinnslu sem bygg­ist á tölvu- og fjar­skipta­tækni. Ákveðið hef­ur verið að efna til form­legs sam­starfs ríkj­anna, þar sem rík­in deila sinni reynslu og þekk­ingu á sviði mál­tækni. Auk­in­held­ur samþykkti Alþingi einnig á dög­un­um þings­álykt­un­ar­til­lögu um sam­starf vestn­or­rænu land­anna, Íslands, Fær­eyja og Græn­lands, á sviði tungu­mála og þró­un­ar þeirra í sta­f­ræn­um heimi. Þar er lagt til að full­trú­ar land­anna taki sam­an skýrslu um stöðu og framtíðar­horf­ur tungu­mál­anna þriggja ásamt yf­ir­liti um mál­tækni­búnað sem til staðar er fyr­ir hvert mál­anna.

Stönd­um með móður­mál­un­um

Það rík­ir mik­il póli­tísk samstaða um að vekja sem flesta til vit­und­ar um mik­il­vægi þess að efla móður­málið. Við get­um, hvert og eitt okk­ar, tekið þátt í að þróa tungu­málið okk­ar, móta það og nýta á skap­andi hátt. Það er ánægju­legt að við get­um lagt okk­ar af mörk­um á þeirri veg­ferð til frændþjóða okk­ar – því öll eig­um við það sam­merkt að vilja að móður­mál­in okk­ar dafni og þró­ist til framtíðar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júlí 2019.