Categories
Greinar

Styrkjum búsetu á landsbyggðinni

Deila grein

30/12/2020

Styrkjum búsetu á landsbyggðinni

Árið 2020 hefur verið mjög sérstakt fyrir okkur öll og sennilega eru margir fegnir því að það renni nú bráðum sitt skeið. Ég er sannfærður um að 2021 verði okkur betra og það eru mjög jákvæð teikn á lofti að svo verði.

Þegar ég horfi yfir árið 2020 og þau verkefni sem við í félagsmálaráðuneytinu höfum verið að vinna, horfi ég til baka stoltur en árið litaðist að mörgu leyti af viðbrögðum við heimsfaraldri Covid-19. Ég er hins vegar mjög ánægður og stoltur af því að hafa náð að koma þremur stórum baráttumálum mínum á dagskrá þrátt fyrir aðstæður í heiminum en þau eiga það öll sameiginlegt að styrkja búsetu á landsbyggðinni.

Aukinn kraftur í húsnæðismál á landsbyggðinni

Í byrjun september var frumvarp mitt um hlutdeildarlán samþykkt en þar erum við að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða ungt fólk og tekjulága inn á fasteignamarkaðinn. Hlutdeildarlánin munu hafa mikil og jákvæð áhrif á fasteignamarkað á landsbyggðinni sem hefur víða verið nálægt frostmarki undanfarna áratugi, en eitt að markmiðunum með þeim er að styrkja það kallað hefur verið köld markaðssvæði. Þá er gaman að sjá kraftinn í framkvæmdum víða um land sem fjármagnaðar eru með stofnframlögum, sérstöku byggðarframlagi og lánum frá HMS, aðgerðir sem samþykktar voru í fyrra. Mér telst til að alls séu 89 íbúðir í byggingu eða undirbúningi víða um land þar sem byggingaraðilar nýta sér þessi úrræði, má þar nefna 12 íbúðir á Húsavík, 10 íbúðir í Bolungarvík, átta íbúðir á Vopnafirði og fjórar á Borgarfirði Eystri.

Sérstakur styrkur til barnshafandi einstaklinga sem búa fjarri þjónustu

Annað stórt mál sem ég er stoltur af eru ný lög um fæðingarorlof en samkvæmt nýju lögunum er fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði, en lögin taka gildi 1. janúar 2021. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja einn mánuð sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í sjö mánuði en hitt í fimm. Ég er mjög ánægður með aukin réttindi fyrir fólk á landsbyggðinni sem býr oftar en ekki fjarri þjónustunni og þarf oft að dvelja fjarri heimili sínu, fyrir áætlaðan fæðingardag, í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins. Með nýju lögunum komum við til móts við þessa hópa og barnshafandi foreldri verður veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu í þeim tilvikum þegar það þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu.

Breyting í þágu barna

Síðast en ekki síst er ég gríðarlega stoltur af þremur frumvörpum sem ég hef lagt fram á Alþingi og miða að því að breyta kerfinu okkar í þágu barna. Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa. Verkefnið er risavaxið og felur sennilega í sér einhverjar mestu breytingar sem gerðar hafa verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og vona að þið njótið hátíðanna með ykkar nánustu.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 28. desember 2020.

Categories
Fréttir

Tilkynning frá kjörstjórn Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi!

Deila grein

30/12/2020

Tilkynning frá kjörstjórn Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi!

Kjörstjórn póstkosningar Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi hefur ákveðið vegna strangra sóttvarnarreglna sem skapað hafa verulega erfiðleika við framkvæmd póstkosningarinnar að fresta kosningunni um 15 daga. Frestunin byggir á heimild í reglum um póstkosningu 40.gr.

Eftirfarandi breytingar verða á dagsetningum:

Framboðsfrestur til þátttöku í póstkosningunni rennur út þriðjudaginn 1. febrúar 2021, kl. 12:00 á hádegi.

Kjörskrá verður gerð samkvæmt félagatali 16. janúar 2021.
(Frestur til skráningar á félagatal er til miðnættis 16. janúar 2021.)

Framboðum skal skila til formanns kjörstjórnar, Valgarðs Hilmarssonar, á netfangið vallih@centrum.is.  Formaður veitir einnig frekari upplýsingar.

Atkvæðisseðlar verða sendir út 16. febrúar og er frestur til að skila þeim inn til og með 13. mars 2021. Kosið verður um 5 efstu sæti listans.  Sjá nánar inn á framsokn.is.

Categories
Greinar

„Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu“

Deila grein

30/12/2020

„Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu“

Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, lést 23. nóvember síðastliðinn á Landspítalanum. Páll var í tvígang forseti Norðurlandaráðs, í seinna skiptið árið 1990 þegar starfsemi Norðurlandaráðs markaðist mjög af sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna. Páll vildi fara hægt í sakirnar í sjálfstæðisbaráttu ríkjanna, enda um flókið mál að ræða, en segja má að Páll hafi sett spor því afskipti Norðurlandaráðs af málefnum Eystrasaltslandanna mörkuðu nýtt upphaf í starfi ráðsins.

Miklar umræður urðu í forsætisnefnd ráðsins og á Norðurlandaráðsþingi sem fram fór í Reykjavík snemma árs 1990 um það hvernig Norðurlandaráð gæti best sýnt Lettum, Litháum og Eistlendingum stuðning. Sumir vildu fara varlega í sakirnar til að styggja ekki um of sovésk yfirvöld og þar með knýja fram harkaleg viðbrögð sem gætu komið niður á Eystrasaltslöndunum. Aðrir voru mun róttækari, vildu bjóða Sovétmönnum byrginn og sýna Eistlandi, Lettlandi og Litháen samstöðu og stuðning með skýrum hætti. Þannig lagði einn þingmaður danska Framfaraflokksins til árið 1989 að þeim yrði strax boðin aðild að Norðurlandaráði.

Rætt um umhverfis-, efnahags-, og menningarmál

Í október 1990 fór sendinefnd Norðurlandaráðs undir forystu Páls, þáverandi forseta ráðsins, til Moskvu og síðan til höfuðborga Eystrasaltslandanna. Þetta var tæpu ári áður en yfirvöld í Sovétríkjunum viðurkenndu sjálfstæði ríkjanna. Ferðin vakti mikla athygli og fjölmennur hópur norrænna blaðamanna fylgdi þingmönnunum. Markmið hennar var að kanna hvernig haga mætti samstarfi Norðurlanda við Sovétríkin og Eystrasaltslöndin. Niðurstaðan var sú að heppilegast væri að koma á samvinnu á sviði umhverfis-, lýðheilsu-, mennta- og fjarskiptamála. Jafnframt var rætt um að fræða Eystrasaltslöndin um störf og hlutverk þinga í lýðræðisríkjum, en af skiljanlegum ástæðum skorti nokkuð upp á þekkingu þeirra á þessu sviði. Sendinefndin fundaði með nýjum leiðtogum Eistlands, Lettlands og Litháen. „Okkar erindi var fyrst og fremst að ræða umhverfismál, efnahags- og menningarmál og koma á sambandi,“ sagði Páll í viðtali við Tímann eftir heimsóknina. „Við gátum ekki bannað þeim að tala um pólitík eða um viðhorf sitt til hennar, sem þeir gerðu óspart.”

Ræðan um sjálfstæðisbaráttuna vakti lukku

Henrik Hagemann, þáverandi ritari dönsku landsdeildarinnar, fylgdi sendinefnd Norðurlandaráðs á ferðalaginu og skrifaði löngu síðar um hana í bókinni „Norden sett inifrån”. Þar segir meðal annars frá því þegar þingmennirnir voru í kvöldverði í Ríga í boði máttarstólpa kommúnistaflokksins á staðnum. Páll þurfti að flytja þakkarræðu fyrir hönd sendinefndarinnar. „Han var en stor rund bondemand fra Nordisland, og bensindigheden selv,“ sagði Hagemann um forseta Norðurlandaráðs, „men den dag var han godt nervøs.“ Páll þurfti að koma á framfæri jákvæðum skilaboðum um sjálfstæðisbaráttu landanna en jafnframt þurfti hann að forðast að móðga menn og valda ágreiningi. Hagemann bauðst til að skrifa fyrir hann ræðupunkta en Páll hafnaði því. Hann endaði á því að halda ræðu um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga gegn Dönum. Þetta vakti í fyrstu nokkra furðu hjá gestgjöfunum og eflaust líka norrænu þingmönnunum, en brátt áttuðu menn sig á skilaboðunum: Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu og þeir sem takast á geta síðar náð sáttum og orðið góðir vinir. Ræðan vakti lukku.

Vandrötuð slóð

Af fréttum og greinum í blöðum frá þessum tíma má ráða að Páll vildi fara hægt í sakirnar: „Sjálfstæðisbarátta Eystrasaltsríkjanna, sem ég hef persónulega afar mikla samúð með, gerist ekki á augabragði, það hlýtur að þurfa að vera þróun og samningsatriði, en hér er um flókið mál að ræða. Á hinn bóginn hlýtur maður líka að hafa samúð með Gorbatsjov og hans mönnum, sem telja það sitt hlutverk að halda ríkinu saman, því ef ríkið leysist um þá getur þetta einnig logað allt saman í illdeilum. Það er hægt að hugsa sér það, að ef Gorbatsjov sleppti öllu lausu, þá myndi herinn taka málið í sínar hendur. Ég hef ekki trú á að það yrði undir stjórn kommúnista, það gæti alveg eins orðið einhverjir fasistadólgar eftir suður-amerískri fyrirmynd. Til þess má maður ekki hugsa. Þannig að þetta er vandrötuð slóð,“ sagði Páll í ofangreindu viðtali í Tímanum.

Áhrif Norðurlandaráðs vakti mikla athygli

Fulltrúum Eystrasaltsríkjanna var boðið á Norðurlandaráðsþing 1991 og eftir það hófst náið og traust samstarf Norðurlandaráðs við þingin í þessum löndum og samtök þeirra, Eystrasaltsþingið, sem stofnað var að norrænni fyrirmynd. Afskipti Norðurlandaráðs af málefnum Eystrasaltslandanna mörkuðu á ýmsan hátt nýtt upphaf í starfi Norðurlandaráðs sem lengi vel hafði farið mjög varlega í að skipta sér af utanríkismálum. Eftir að Gorbatsjov tók við völdum í Sovétríkjunum árið 1985 og spenna í samskiptum austurs og vesturs minnkaði var orðið auðveldara fyrir Norðurlönd og Norðurlandaráð að beita sér í sameiningu, ekki síst var staða Finnlands orðin mun frjálsari en áður. Líklega má segja að áhrif Norðurlandaráðs á alþjóðavettvangi hafi aldrei orðið meiri en einmitt á þessum árum í samskiptunum við Eystrasaltslöndin og Sovétríkin og ummæli og athafnir þingmannanna vöktu mikla athygli.

Ýmis af þeim úrlausnarefnum sem Norðurlandaráð og Norðurlönd stóðu frammi fyrir í tengslum við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna eiga sér eflaust hliðstæður í þeirri stöðu sem löndin eru nú í gagnvart Hvíta-Rússlandi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður og forseti Norðurlandaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu í desember 2020.

Categories
Greinar

Háskólinn á Akureyri með tryggt fjármagn til vaxtar

Deila grein

28/12/2020

Háskólinn á Akureyri með tryggt fjármagn til vaxtar

Samkeppnishæfni byggða og þjóða byggir á menntun íbúa, fjárfesting í menntun er því fjárfesting til framtíðar. Skipulag skólastarfs hefur haft áhrif á þróun samfélaga um aldir og mun gera það um ókomin ár.

Góð grunnmenntun, læsi og talnaskilningur, samskiptafærni, vellíðan og forvitni er undirstaða náms og grundvöllur þess að einstaklingar geti bætt við sig þekkingu og tekist á við þjóðfélagsbreytingar alla ævi. Grunnurinn er og verður mikilvægur ekki síst ef takast á að grípa tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar. Um allt land er lagður mikilvægur grunnur í leik-, grunn- og tónlistarskólastarfi en allar byggðir landsins þurfa tækifæri til að byggja ofan á grunninn.

Háskólastarf er lykill dreifbýlisins að vísinda- og nýsköpunarsamfélaginu

Öflugt háskólastarf byggir á sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélög. Atvinnuþróun og nýsköpun sem sprettur úr háskólastarfi fer fram í sambúð atvinnuvega og skóla en ekki fjarbúð. Til að landsbyggðirnar hafi raunverulegan aðgang að því fjármagni sem ríkið úthlutar nú í gegnum samkeppnissjóði í vísindum og nýsköpun þarf virkt háskólasamfélag.

Í dreifbýlum samfélögum á norðlægum slóðum hefur þróunin víðast orðið sú að háskólar hafa fengið skilgreint hlutverki í þjónustu við dreifbýl svæði. Þetta hlutverk er á leyst með því að starfrækja net háskólasvæða (campusa), nokkur útibú eða samstarfsnet, má þar benda á Tromsö í Noregi, Oulu í Finnlandi, nokkra skóla í Kanada og dreifbýli Skotlands.

Tækifærin framundan

Nemendum Háskólans á Akureyri hefur fjölgað jafnt og þétt frá 2014, og eru nú rúmlega 2.500 eftir að hafa verið um 1.500 árin 2009-2013. Um 60% nemenda skólans eru nú búsettir á landsbyggðinni en um 40% á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölgun nemenda kallar á aukið fjármagn. Það er því sérstaklega ánægjulegt að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2021 var Háskólanum á Akureyri tryggt fjármagn til að fylgja nemendafjölgun síðustu ára eftir og þar með gert mögulegt að efla mannauð skólans og styrkja starfið.

Það er brýnt að auka tengsl háskólasamfélagsins enn frekar við byggðir um allt land. Möguleg leið til þess er að bjóða upp á tæknifræðinám sem byggir ofan á sterkt verknám framhaldskólanna og sífellt tæknivæddara atvinnulíf. Þá verður að finna leiðir til að þjónusta innflytjendur, þannig að þeir geti bæði bætt við sig þekkingu og nýtt þá þekkingu og hæfni sem þeir flytja með sér til landsins.

Menntamálaráðherra hefur boðað breytingu á lögum varðandi aðgangsskilyrði í íslenska háskóla til að auka jafnræði nemenda sem fara mismunandi námsleiðir í bók- og starfsnámi. Þá geta skapast hvatar fyrir háskóla til að skilgreina aðgangsviðmið í mismunandi nám, í samræmi þarfir nemenda og atvinnulífs.

Nýlega undirritaði menntamálaráðherra samning um stofnun háskólaútibús á Austurlandi, með það að markmiði að koma á virku háskólasamfélagi í samstarfi við sveitarfélög og nokkur stór fyrirtæki á svæðinu. Stefnt er að því að kennsla í hagnýtri iðnaðartæknifræði hefjist á Austurlandi haustið 2022 og frumgreinadeild taki til starfa haustið 2021. Þetta verkefni er meðal annars unnið í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

Það eru spennandi verkefni framundan við að efla háskólastarf á landsbyggðinni ásamt því að styrkja samstarf skóla og atvinnulífs.

Að lokum vil ég hrósa starfsfólki HA fyrir úthaldið og seigluna og Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem ásamt Alþingi greip boltann og tryggði fjármagn til eflingar Háskólans á Akureyri.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér – áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Framsóknarflokkinn.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 23. desember 2020.

Categories
Greinar

Höfn í höfn í Þorlákshöfn

Deila grein

22/12/2020

Höfn í höfn í Þorlákshöfn

Fyrir rúmum þremur árum urðu vörusiglingar til Þorlákshafnar að veruleika, eftir hundrað ára bið. Aðdraganda þeirra má rekja til þess þegar bændur af öllu landinu komu saman til fundar að Þjórsártúni í janúar 1916. Tilefnið var að berjast fyrir jákvæðri byggðaþróun og uppbyggingu landsins. Í framhaldinu varð Framsóknarflokkurinn stofnaður, 16. desember sama ár, og er því nýorðinn 104 ára. Enn er þörf fyrir flokk sem berst fyrir uppbyggingu landsins. Á fundinum að Þjórsártúni, sem haldinn var úti um miðjan vetur, var samþykkt ályktun um nauðsyn þess að byggja upp höfn í Þorlákshöfn sem myndi tryggja bændum ódýrari og betri flutninga til og frá landinu án afskipta Reykjavíkurvaldsins og kaupmanna.

Haustið 2017 skrifaði ég grein sem birtist í Dagskránni um vörusiglingar til Þorlákshafnar sem þá voru loks nýhafnar, eftir 100 ára bið. Þar hvatti ég Sunnlendinga sem aðra að nýta tækifærin sem út- og innflutningshöfn hefur að færa. Forsenda þess að stærri höfn gæti orðið að veruleika væri sú að ríkisstjórnin kæmi að með aukna fjármuni. Það er því afar ánægjulegt að geta sagt nú, að ríkisstjórnin hefur samþykkt að auka fjármagn svo um munar, til hafnarbótasjóðs og styðja dyggilega við stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn og aðrar brýnar framkvæmdir við hafnir og sjóvarnir. Þetta hefur verið staðfest á Alþingi með nýsamþykktri fjármálaáætlun.

Það er engum blöðum um það að fletta að vöruflutningar um Þorlákshöfn hafa opnað nýja möguleika fyrir ferskflutning á sjávarföngum frá Íslandi til meginlands Evrópu. Eftirspurn eftir vöruflutningum hefur aukist jafnt og þétt á ekki lengri tíma og er árangurinn framar vonum. Tvær vöruflutningaferjur, Mykines og Mistral, sigla á vegum færeyska skipafélagsins Smyril-Line vikulega og hugmyndir eru uppi um farþegasiglingar frá Þorlákshöfn til Evrópu. Kostirnir eru ótvíræðir með verulegum ávinningi fyrir sunnlenskt atvinnulíf og byggðaþróun. Fyrir utan störf sem skapast við löndun og ýmsa aðra þjónustu þá er sjóflutningstíminn sá stysti til og frá landinu sem styrkir ferskfiskútflutninginn til muna. Flutningur á ferskum sjávarafurðum kemur til með að stóraukast á næstunni þar sem meiri krafa er um að afurðir séu fluttar á markað á sem hagkvæmastan hátt, fyrir umhverfið. Ef fyrirætlanir um stækkun í fiskeldi verða að veruleika þurfa innviðir að vera í stakk búnir til þess að afkasta aukinni framleiðslu á markaði erlendis. Núverandi skip sem venja komu sína til Þorlákshafnar fullnýta stærðarramma hafnarinnar og því er ekki möguleiki á að taka við stærri skipum ef uppfylla á alþjóðlegar öryggiskröfur.

Inn á núgildandi samgönguáætlun er endurbygging á tveimur stálþilsbryggjum í Þorlákshöfn, við Svartaskersbryggju og Suðurvarabryggju auk dýpkunar framan við Svartaskersbryggju. Aukið fjármagn í fjármálaáætlun gefur sveitarfélaginu svigrúm til að ráðast í þær breytingar sem þarf að gera á höfninni til þess að taka á móti stærri skipum og er ekki inn á samþykktri samgönguáætlun. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vinnur að forgangsröðun verkefna miðað við aukið fjármagn sem verður lögð fram á nýju ári.

Þolinmæði er dyggð og ekkert gerist af sjálfu sér. Samstaða sunnlenskra sveitarfélaga með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hefur skilað sér. Stuðningur þingmanna kjördæmisins var mikilvægur. Áratuga löng barátta er loks í höfn. Jú, það er sagt að við Sunnlendingar séum þolinmóðir. Það þarf þrautseigju og dugnað til. Áfram veginn.

Sigurður Ingi Jóhansson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. desember 2020.

Categories
Fréttir

Íþrótta- og æskulýðsstarfi komið í gegnum COVID-19

Deila grein

21/12/2020

Íþrótta- og æskulýðsstarfi komið í gegnum COVID-19

Ráðist verður í aðgerðir til þess að styðja við starf íþrótta- og æskulýðsfélaga sem raskast hefur verulega vegna afleiðinga sóttvarnaráðstafana COVID-19. Þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi hefur fjölþætt gildi og er mikilvægt að íþrótta- og æskulýðsfélög geti hafið óbreytta starfsemi sem fyrst þegar faraldrinum lýkur. Þá hefur faraldurinn einnig haft mikil áhrif á starf eldri flokka og afreksstarf í íþróttum. Stuðningur stjórnvalda á þessu sviði verður einn sá mesti á Norðurlöndunum.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra:

„Virkni og vellíðan fara saman; um allt land er blómlegt íþrótta- og æskulýðsstarf mikilvægur þáttur í hverju samfélagi. Um það starf viljum við standa vörð og tryggja að iðkendur á öllum aldri geti sem best sinnt sínum áhugamálum áfram.“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra:

„COVID-19 faraldurinn hefur haft mikil áhrif á íþrótta- og æskulýðsstarf í landinu og sóttvarnaraðgerðir hafa raskað starfsemi íþróttafélaga. Íþrótta- og æskulýðsstarf hefur jákvæð og þroskandi áhrif á börn og ungmenni og því er mjög mikilvægt að við stöndum vörð um það góða starf. Með þessum umfangsmiklu aðgerðum tryggjum við að íþrótta- og æskulýðsstarf geti haldið áfram með þeim hætti sem við þekkjum þegar faraldrinum líkur. Þetta er skynsöm fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka fyrir samfélagið allt.“

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ:
„Aðgerðir stjórnvalda til stuðnings íþrótta- og æskulýðsstarfinu í landinu eru gríðarlega mikilvægar og stuðla að því að íþróttahreyfingin geti haldið úti sínu faglega starfi og sett aukinn kraft í starfsemina þegar öllum takmörkunum verður aflétt. Með þessu er líka búið að koma upp öryggisneti þannig að ef framhald verður á takmörkunum vegna farsóttarinnar þá er tryggt að íþróttahreyfingin getur staðið skil á launum og verktakagreiðslum, sem er undirstaða starfseminnar.”

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ:
„Það er svo mikilvægt að standa vörð um skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf með öllum ráðum, í því er fólginn lykillinn að lýðheilsu þjóðarinnar. Það hefur því verið aðdáunarvert að sjá breiðu samstöðuna fyrir aðgerðum stjórnvalda. Það sýnir að samstarf skilar mestum árangri, það er samfélaginu til góða.“

Aðgerðirnar eru eftirfarandi:

Greiðslur vegna launakostnaðar íþróttafélaga

Til að tryggja að sem minnst röskun verði á íþróttastarfi til lengri tíma litið og félög geti viðhaldið ráðningasambandi við starfsfólk sitt verður veittur styrkur sem nemur launakostnaði þess, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, hafi hlutaðeigandi íþróttafélagi verið gert að fella tímabundið niður starfsemi vegna opinberra sóttvarnaráðstafana á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021.

Vinnumálastofnun mun annast framkvæmd þessa og er ráðgert að opnað verði fyrir umsóknir í janúar næstkomandi og verður úrræðið kynnt nánar á fundi Vinnumálastofnunar með íþróttahreyfingunni milli jóla- og nýárs. Ráðgert er að heildargreiðslur vegna þessarar aðgerðar nemi um einum milljarði kr.

Viðbótarframlag til stuðnings íþróttafélögum

Veitt verður stuðningsframlag til íþróttafélaga, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og verður sami háttur hafður á og við úthlutun styrkja til félaganna í vor. Framlag sem nemur 300 milljónum kr. verður skipt milli íþróttafélaga sem starfrækja skipulagt íþróttastarf fyrir börn og unglinga 6-18 ára. Tillit verður tekið til fjölgreinafélaga og getur úthlutun til einstaks íþróttafélags getur ekki orðið hærri en 3% af veltu félagsins samkvæmt staðfestum reikningsskilum 2019. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands gerir tillögu til ráðherra um úthlutunina. Stuðningur þessi kemur til viðbótar 450 milljónum kr. sem úthlutað var til rúmlega 200 íþrótta- og ungmennafélaga í sumar sem lið í fjárfestingarátaki stjórnvalda.

Styrkir til æskulýðsfélaga

Félagasamtök sem standa fyrir skipulögðu starfi fyrir börn og ungmenni munu geta sótt um styrki vegna tekjutaps félaga vegna afleiðinga COVID-19. Til úthlutunar verða alls 50 milljónir kr. og verður styrkurinn auglýstur á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins í janúar. Umsóknum um styrki skal vera hægt að sýna fram á veruleg neikvæð áhrif á afkomu félagsins. Stuðningur þessi kemur til viðbótar 50 milljón kr. stuðningi sem auglýstur var til félaganna í júní síðastliðinn.

Heimild: stjr.is

Categories
Uncategorized

„Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu“

Deila grein

21/12/2020

„Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu“

Páll Pét­urs­son, fyrr­ver­andi ráðherra og þingmaður, lést 23. nóv­em­ber síðastliðinn á Land­spít­al­an­um. Páll var í tvígang for­seti Norður­landaráðs, í seinna skiptið árið 1990 þegar starf­semi Norður­landaráðs markaðist mjög af sjálf­stæðis­bar­áttu Eystra­saltsland­anna. Páll vildi fara hægt í sak­irn­ar í sjálf­stæðis­bar­áttu ríkj­anna, enda um flókið mál að ræða, en segja má að Páll hafi sett spor. Af­skipti Norður­landaráðs af mál­efn­um Eystra­saltsland­anna mörkuðu nýtt upp­haf í starfi ráðsins.

Mikl­ar umræður urðu í for­sæt­is­nefnd ráðsins og á Norður­landaráðsþingi sem fram fór í Reykja­vík snemma árs 1990 um það hvernig Norður­landaráð gæti best sýnt Lett­um, Lit­há­um og Eist­lend­ing­um stuðning. Sum­ir vildu fara var­lega í sak­irn­ar til að styggja ekki um of sov­ésk yf­ir­völd og þar með knýja fram harka­leg viðbrögð sem gætu komið niður á Eystra­saltslönd­un­um. Aðrir voru mun rót­tæk­ari, vildu bjóða Sov­ét­mönn­um birg­inn og sýna Eistlandi, Lett­landi og Lit­há­en sam­stöðu og stuðning með skýr­um hætti. Þannig lagði einn þingmaður danska Fram­fara­flokks­ins til árið 1989 að þeim yrði strax boðin aðild að Norður­landaráði.

Rætt um um­hverf­is-, efna­hags- og menn­ing­ar­mál

Í októ­ber 1990 fór sendi­nefnd Norður­landaráðs und­ir for­ystu Páls, þáver­andi for­seta ráðsins, til Moskvu og síðan til höfuðborga Eystra­saltsland­anna. Þetta var tæpu ári áður en yf­ir­völd í Sov­ét­ríkj­un­um viður­kenndu sjálf­stæði ríkj­anna. Ferðin vakti mikla at­hygli og fjöl­menn­ur hóp­ur nor­rænna blaðamanna fylgdi þing­mönn­un­um. Mark­mið henn­ar var að kanna hvernig haga mætti sam­starfi Norður­landa við Sov­ét­rík­in og Eystra­saltslönd­in. Niðurstaðan var sú að heppi­leg­ast væri að koma á sam­vinnu á sviði um­hverf­is-, lýðheilsu-, mennta- og fjar­skipta­mála. Jafn­framt var rætt um að fræða Eystra­saltslönd­in um störf og hlut­verk þinga í lýðræðis­ríkj­um, en af skilj­an­leg­um ástæðum skorti nokkuð upp á þekk­ingu þeirra á þessu sviði. Sendi­nefnd­in fundaði með nýj­um leiðtog­um Eist­lands, Lett­lands og Lit­há­en. „Okk­ar er­indi var fyrst og fremst að ræða um­hverf­is­mál, efna­hags- og menn­ing­ar­mál og koma á sam­bandi,“ sagði Páll í viðtali við Tím­ann eft­ir heim­sókn­ina. „Við gát­um ekki bannað þeim að tala um póli­tík eða um viðhorf sitt til henn­ar, sem þeir gerðu óspart.“

Ræðan um sjálf­stæðis­bar­átt­una vakti lukku

Henrik Hagemann, þáver­andi rit­ari dönsku lands­deild­ar­inn­ar, fylgdi sendi­nefnd Norður­landaráðs á ferðalag­inu og skrifaði löngu síðar um hana í bók­inni „Nor­d­en sett ini­från“. Þar seg­ir meðal ann­ars frá því þegar þing­menn­irn­ir voru í kvöld­verði í Ríga í boði mátt­ar­stólpa komm­ún­ista­flokks­ins á staðnum. Páll þurfti að flytja þakk­arræðu fyr­ir hönd sendi­nefnd­ar­inn­ar. „Han var en stor rund bondemand fra Nord­is­land, og bens­indig­heden selv,“ sagði Hagemann um for­seta Norður­landaráðs, „men den dag var han godt nervøs.“ Páll þurfti að koma á fram­færi já­kvæðum skila­boðum um sjálf­stæðis­bar­áttu land­anna en jafn­framt þurfti hann að forðast að móðga menn og valda ágrein­ingi. Hagemann bauðst til að skrifa fyr­ir hann ræðupunkta en Páll hafnaði því. Hann endaði á því að halda ræðu um sjálf­stæðis­bar­áttu Íslend­inga gegn Dön­um. Þetta vakti í fyrstu nokkra furðu hjá gest­gjöf­un­um og ef­laust líka nor­rænu þing­mönn­un­um, en brátt áttuðu menn sig á skila­boðunum: Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar bar­áttu og þeir sem tak­ast á geta síðar náð sátt­um og orðið góðir vin­ir. Ræðan vakti lukku.

Vandrötuð slóð

Af frétt­um og grein­um í blöðum frá þess­um tíma má ráða að Páll vildi fara hægt í sak­irn­ar: „Sjálf­stæðis­bar­átta Eystra­salts­ríkj­anna, sem ég hef per­sónu­lega afar mikla samúð með, ger­ist ekki á auga­bragði, það hlýt­ur að þurfa að vera þróun og samn­ings­atriði, en hér er um flókið mál að ræða. Á hinn bóg­inn hlýt­ur maður líka að hafa samúð með Gor­bat­sjov og hans mönn­um, sem telja það sitt hlut­verk að halda rík­inu sam­an, því ef ríkið leys­ist upp þá get­ur þetta einnig logað allt sam­an í ill­deil­um. Það er hægt að hugsa sér það, að ef Gor­bat­sjov sleppti öllu lausu, þá myndi her­inn taka málið í sín­ar hend­ur. Ég hef ekki trú á að það yrði und­ir stjórn komm­ún­ista, það gæti al­veg eins orðið ein­hverj­ir fas­ista­dólg­ar eft­ir suður­am­er­ískri fyr­ir­mynd. Til þess má maður ekki hugsa. Þannig að þetta er vandrötuð slóð,“ sagði Páll í of­an­greindu viðtali í Tím­an­um.

Áhrif Norður­landaráðs vöktu mikla at­hygli

Full­trú­um Eystra­salts­ríkj­anna var boðið á Norður­landaráðsþing 1991 og eft­ir það hófst náið og traust sam­starf Norður­landaráðs við þing­in í þess­um lönd­um og sam­tök þeirra, Eystra­saltsþingið, sem stofnað var að nor­rænni fyr­ir­mynd. Af­skipti Norður­landaráðs af mál­efn­um Eystra­saltsland­anna mörkuðu á ýms­an hátt nýtt upp­haf í starfi Norður­landaráðs sem lengi vel hafði farið mjög var­lega í að skipta sér af ut­an­rík­is­mál­um. Eft­ir að Gor­bat­sjov tók við völd­um í Sov­ét­ríkj­un­um árið 1985 og spenna í sam­skipt­um aust­urs og vest­urs minnkaði var orðið auðveld­ara fyr­ir Norður­lönd og Norður­landaráð að beita sér í sam­ein­ingu, ekki síst var staða Finn­lands orðin mun frjáls­ari en áður. Lík­lega má segja að áhrif Norður­landaráðs á alþjóðavett­vangi hafi aldrei orðið meiri en ein­mitt á þess­um árum í sam­skipt­un­um við Eystra­saltslönd­in og Sov­ét­rík­in og um­mæli og at­hafn­ir þing­mann­anna vöktu mikla at­hygli.

Ýmis af þeim úr­lausn­ar­efn­um sem Norður­landaráð og Norður­lönd stóðu frammi fyr­ir í tengsl­um við sjálf­stæðis­bar­áttu Eystra­salts­ríkj­anna eiga sér ef­laust hliðstæður í þeirri stöðu sem lönd­in eru nú í gagn­vart Hvíta-Rússlandi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður og for­seti Norður­landaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. desember 2020.

Categories
Greinar

Menntun leiðir okkur áfram á óvissutímum

Deila grein

21/12/2020

Menntun leiðir okkur áfram á óvissutímum

Alþingi samþykkti fjár­lög fyr­ir árið 2021 og eitt af ein­kenn­um þeirra er mik­ill stuðning­ur við mennt­un og menn­ingu. Rík­is­stjórn Íslands hef­ur tekið ákvörðun um að styðja við grunn­kerfi þess og fjár­festa í mannauðinum. Það eru for­rétt­indi fyr­ir þjóð að vera í þeirri stöðu að geta náð utan um þá for­dæma­lausu stöðu sem upp er kom­in í kjöl­far kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Framúrsk­ar­andi mennt­un er ein meg­in­for­senda þess að Ísland verði sam­keppn­is­hæft í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Verðmæta­sköp­un næstu ára­tuga mun í aukn­um mæli byggj­ast á hæfni, hug­viti, rann­sókn­um og ný­sköp­un.

Fram­halds­skóla­stigið hækk­ar um 9%

Mennt­un og auk­in hæfni er und­ir­staða sjálf­bærni, fram­fara og auk­inna lífs­gæða. Mik­il aðsókn var í nám í haust og ákvað rík­is­stjórn­in að fram­halds­skól­um og há­skól­um yrði tryggt nægt fjár­magn til að mæta eft­ir­spurn­inni. Það hef­ur tek­ist með nýj­um fjár­lög­um. Fjár­veit­ing­ar til fram­halds­skól­anna aukast um 9% milli ára og verða 40,4 millj­arðar kr. Um helg­ina eru fjöl­marg­ir fram­halds­skól­ar að út­skrifa nem­end­ur sína, vissu­lega með breyttu sniði vegna tak­mark­ana. Við út­skrift­ar­nem­end­ur vil ég því segja til hjart­ans ham­ingju!

Há­skóla­stigið hækk­ar um 14%

Fjár­laga­frum­varpið í ár sýn­ir glögg­lega mik­il­vægi mennta­kerf­is­ins og hvernig er for­gangsraðað í þágu þessa. Um 40% af fjár­veit­ing­um ráðuneyt­is­ins renna til há­skóla­starf­semi, sem er stærsti ein­staki mála­flokk­ur ráðuneyt­is­ins. Fram­lög til há­skóla- og rann­sókn­a­starf­semi aukast um 14% milli ára, þar sem bæði er um að ræða auk­inn bein­an stuðning við skóla­starfið og fjár­veit­ing­ar til ein­stakra verk­efna. Eitt af fyr­ir­heit­um í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar var að fram­lög til há­skóla­stigs­ins næðu meðaltali ríkja Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar. Það hef­ur tek­ist og er það fagnaðarefni.

Fjár­lög marka tíma­mót

Þetta frum­varp til fjár­laga fyr­ir árið 2021 mark­ar tíma­mót í sögu lands­ins og ein­kenn­ist af miklu hug­rekki og fram­sýni. Mark­mið frum­varps­ins er skýrt: Að gera það sem þarf til að koma Íslandi út úr kór­ónu­veirunni. Við erum að ná utan um fólkið okk­ar, heil­brigðis- og mennta­kerfi. Við ætl­um að koma Íslandi í gegn­um þetta og ljóst að nokkr­ar lyk­ilþjóðhags­stærðir eins og sam­neysla, einka­neysla og fjár­fest­ing líta nokkuð vel út.

Stærsta áskor­un­in er að skapa at­vinnu og er ég sann­færð um að um leið og við náum utan um kór­ónu­veiruna, þá verður mik­ill viðsnún­ing­ur og hann verður einna kröft­ug­ast­ur hér á Íslandi. Af hverju? Vegna þess að við höf­um myndað efna­hags­lega loft­brú í far­aldr­in­um og notað krafta hins op­in­bera til að ná utan um sam­fé­lagið okk­ar. Hug­rekki hef­ur stýrt för í aðgerðum stjórn­valda og vil ég þakka fjár­laga­nefnd kær­lega fyr­ir vel unn­in störf og sér­stak­lega for­manni fjár­laga­nefnd­ar, Will­um Þór Þórs­syni, fyr­ir ein­staka for­ystu. Við höf­um gert það sem þarf og höld­um áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. desember 2020.

Categories
Greinar

Vegna villandi um­ræðu um fæðingar­or­lof og nálgunar­bann

Deila grein

21/12/2020

Vegna villandi um­ræðu um fæðingar­or­lof og nálgunar­bann

Mjög villandi umræða og beinlínis röng, hefur fengið vængi í fjölmiðlum hvað varðar rétt til töku fæðingarorlofs undir nálgunarbanni. Að því tilefni er ég knúin til að rita nokkur orð til þess að leiða umræðuna á rétta braut.

Í frumvarpi til nýrra laga um fæðingar- og foreldraorlof, eins og það var lagt fram fyrir Alþingi var í upphafi að finna ákvæði sem hljóðaði á um að þegar annað foreldri lúti nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili skyldi réttur þess foreldris til töku orlofs samkvæmt lögunum færast yfir til hins foreldrisins. Undir meðferð málsins fyrir velferðarnefnd Alþingis var vakin athygli á því að vegna þess hvernig framkvæmd sé háttað í málum er varði nálgunarbann væri sjaldgæft að foreldri sætti nálgunarbanni gagnvart ungu barni sínu. Mögulega þyrfti að breyta ákvæðinu á þá leið að einnig féllu undir ákvæðið þær aðstæður þegar foreldri sætir nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu.

Rétt skal vera rétt

Við þriðju umræðu málsins á Alþingi lagði meirihluti velferðarnefndar fram breytingartillögu sem hljóðar á um að ákvæði þetta nái einnig til þess þegar annað foreldrið sæti nálgunarbanni gagnvart hinu foreldrinu. Sú breytingartillaga var samþykkt og gildir því ákvæðið nú um bæði nálgunarbann gagnvart barni og/eða foreldri. Umræða síðustu daga hefur haldið öðru fram og skal það leiðrétt hér.

Þessu til viðbótar var með samþykkt breytingartillögunnar sett inn bráðabirgðaákvæði sem hljóðar upp á það að starfshópur verði skipaður á vegum félags- og dómsmálaráðuneyta. Starfshópurinn hefur það verkefni að skoða hvort og/eða hvernig breyta skuli lögum í því skyni að ákvæðið nái markmiðum sínum. Störfum starfshópsins skal ljúka eigi síðar en 1. apríl 2021, með frumvarpi að lagabreytingum verði þess þörf.

Með þessari breytingatillögu sem samþykkt var af Alþingi er tryggt að ákvæðið gildir um foreldri sem sætir nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða hinu foreldrinu. Tilgangur skipunar starfshópsins er að kanna frá öllum hliðum hvort og þá hvernig betur megi skerpa á bæði lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um nálgunarbann í þeim tilgangi að markmiðum og tilgangi beggja laga sé náð með sem bestum hætti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. desember 2020.

Categories
Greinar

Riðuveiki blossar upp að nýju

Deila grein

18/12/2020

Riðuveiki blossar upp að nýju

Nú á haustmánuðum var staðfest riðuveiki á nokkrum sauðfjárbúum í Skagafirði. Við finnum öll til með þeim bændum sem lenda í áfalli sem þessu, áfallið er bæði tilfinningalegt sem og fjárhagslegt. Samkvæmt reglugerð þarf að skera niður allt búfé þar sem riða hefur komið upp og má því segja að fótunum sé kippt undan ævistarfi þeirra bænda sem lenda í þessum hremmingum. Fyrir utan að missa allt sitt fé þurfa bændur einnig að rífa allt innan úr fjárhúsum, sótthreinsa og skipa um jarðveg, það er mikil og erfið vinna fram undan.

Tilfinningalegt tjón bænda verður seint bætt en ríkið hefur og þarf að stíga inn í og koma til móts við þá aðila sem hafa misst allt sitt fé vegna riðu. Nú stendur yfir vinna við að reikna bætur sem bændur í Skagafirði fá greiddar úr ríkissjóði en frummat hefur farið fram vegna áætlaðs kostnaðar bóta. Áætlað er að heildarbætur muni nema um 200 millj. kr. sem fyrirhugað er að verði mætt með sérstöku viðbótarframlagi úr ríkissjóði.

Fyrirbyggjandi ráðstafanir

Þegar þessi alvarlega staða kom upp í Skagafirði innti ég landbúnaðarráðherra eftir svörum hvort búið væri að móta stefnu varðandi rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum vegna riðuveiki í sauðfé hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá ráðherra er hafin vinna í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við Matvælastofnun við að meta og endurskoða reglur og stjórnsýslu hvað varðar málefni riðuveiki, varnalínu búfjár, bótafyrirkomulags vegna búfjársjúkdóma og niðurskurðar auk endurskoðunar á regluverki dýraheilbrigðis. Ég fagna því að rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum gegn riðuveiki sé hluti af þeim þáttum sem eru til skoðunar og þá sérstaklega að tekið verði til skoðunar hvort til staðar séu aðrar aðgerðir sem feli í sér minna inngrip, röskun og kostnað en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarna áratugi ef riðuveiki hefur greinst í fé.

Smit getur borist úr jarðvegi þar sem fé hefur verið urðað

Riða er bráðsmitandi og því þarf að huga vel að því hvernig smitað fé er urðað, dæmi er um að smit hafi borist úr jarðvegi þar sem riðuveikt fé hefur verið urðað. Samkvæmt reglugerð á að farga riðusmituðum úrgangi með brennslu. Riðusmitið sem greindist í Skagafirði nú í haust var gríðarlega umfangsmikið og magn úrgangs sem til féll við niðurskurð var meira en tiltækur brennsluofn réð við. Vegna þessara sérstöku aðstæðna var í samráði atvinnuvegaog nýsköpunarráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar tekin ákvörðun um að urða það magn sem ekki var unnt að brenna. Úrgangur var urðaður á aflögðum urðunarstað í nágrenni við þau sauðfjárbú þar sem framkvæma þurfti niðurskurð vegna riðuveiki. Þessi staða sem þarna kom upp kalla á skoðun á því hvort nauðsynlegt sé að tryggja að fyrir hendi séu innviðir sem gera þar til bærum yfirvöldum kleift að fara að reglum við eyðingu á úrgangi sem þessum. Auk þess verður að tryggja eftirlit með urðunarstöðum lengur en nú ert gert ráð fyrir því þessi óboðni gestur getur legið í leyni í marga áratugi.

Viðbragðsáætlanir alvarlegra búfjársjúkdóma

Nauðsynlegt er að hafa viðbragðsáætlanir á hreinu vegna alvarlegra búfjársjúkdóma. Við vitum aldrei hvar eða hvenær þeir banka upp á. Matvælastofnun heldur utan um viðbragðsáætlun við helstu dýrasjúkdómum. Í áætluninni er að finna það ferli sem unnið er eftir við uppkomu þeirra sjúkdóma sem áætlunin tekur til. Ákvarðanir um aðgerðir byggjast á fjölmörgum þáttum sem geta verið ólíkir í hverju tilfelli, leiðbeiningar um viðbrögð eru sem betur fer í stöðugri endurskoðun og miðað er að því að þeim fjölgi jafnt og þétt. Matvælastofnun heldur reglulega viðbragðsæfingar til þess að kanna og aðlaga viðbragðsáætlanir. Það er mikilvægt að byggja upp þekkingu og viðhalda henni til að takast á við margslungnar hættur sem geta læðst upp að okkur.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 17. desember 2020.