Skóla- og frístundamál…

Íþrótta- og tómstundamál…

Velferðarmál…

Húsnæðismál…

Umhverfismál…

Íbúalýðræði og gegnsæ stjórnsýsla…

Samgöngumál…

 

Skóla- og frístundamál

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík ætlar að forgangsraða í þágu menntunar og gera kennarastarfið eftirsótt á ný.

Árangur í skólastarfi byggir á hæfileikum þess starfsfólks sem í skólunum starfar. Við viljum strax stíga mikilvæg skref í átt að því að gera leik- og grunnskóla Reykjavíkur að samkeppnishæfum vinnustöðum fyrir fagmenntaða kennara og um leið börnin okkar. Helstu aðgerðir verða:

 • Hækka laun leik- og grunnskólakennara um 100 þúsund krónur á mánuði þannig að launin endurspegli bæði þá menntun og ábyrgð sem fylgir starfinu.
 • Draga úr miðstýringu og auka frelsi kennara, og láta féð sem losnar um renna beint inn í leik-og grunnskólana.
 • Stytting vinnuvikunnar í leik- og grunnskólum í 35 klst. eða sem því nemur.
 • Takmarka fjölda barna pr/fermeter á deildum leikskóla borgarinnar.
 • Tekjutengja leikskólagjöld upp að ákveðnu þaki. Hækka gjöld á þá sem hafa ráð á að greiða hærri upphæð en aðrir standa í stað.
 • Tryggja pláss fyrir börn eins og framast er unnt í dagvistun af einhverju tagi að loknu fæðingarorlofi foreldra.
 • Fækka umsjónarnemendum á hvern kennara í 1.-7. bekk og í viðkvæmum hópum, t.d. þar sem stór hluti nemenda eru af erlendu bergi brotnir.

Með fjárfestingu í mannauði leik- og grunnskólanna búum við næstu kynslóðir Reykvíkinga sem best undir áskoranir framtíðarinnar.

***

Íþrótta- og tómstundamál

Árið 2006 setti Framsóknarflokkurinn fram hugmyndir sínar um frístundakortið til að jafna möguleika allra barna í Reykjavíkurborg á að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi. Við viljum tryggja að frístundakortið sé það tæki til jöfnuðar og það var upphaflega hugsað. Jafnframt er það stefna Framsóknarflokksins að létta líf barnafjölskyldna í borginni með því að auka samþættingu skóla- og frístundar við íþrótta- og tómstundastarf borgarinnar. Heildstæður skóli þar sem vinnudagur barnanna fer fram á milli 8-16/17 á daginn er framtíðin. Vilji og gott samstarf er allt sem þarf.

Frístundaheimili borgarinnar eiga í miklum mönnunarvanda á hverju hausti og með aukinni samþættingu og réttum forgangi barna inn á frístundaheimilin teljum við að vel sé hægt að koma til móts við barnafólk. Forgangur viðkvæmra hópa, svo sem fatlaðra barna eða barna af erlendu bergi brotin sem þurfa mikla málörvun til að ná tökum á íslenskunni þarf að vera til staðar. Svo er forgangur yngri nemenda á þá sem eldri eru eins og verið hefur mikilvægur þar á eftir. Helstu aðgerðir verða:

 • Fara þarf í kynningarátak á frístundakortinu meðal þeirra hópa sem það síst nota og skoða ástæður þess sérstaklega.
 • Hækka frístundastyrkinn til þeirra sem mest þurfa á honum að halda, á meðan aðrir standa í stað.
 • Bæta þarf íþrótta- og tómstundaaðstöðu í Breiðholti sérstaklega og ráðast í byggingu knatthúss í efra-Breiðholti fyrir íþróttafélagið Leikni.
 • Setja af stað tilraunaverkefni í að minnsta kosti einu hverfi borgarinnar sem er reiðubúið að vera brautryðjandi í samþættu skóla-, frístundar- og íþrótta- og tómstundastarfi barna hverfisins.
 • Forgangsraða inn á frístundaheimili borgarinnar svo fötluð börn eða börn með viðkvæma félagslega stöðu sæti forgangi, svo þau sem yngri eru á þau eldri.

***

Velferðarmál

Velferð íbúa er það sem allt borgarstarfið og borgarlífið snýst um. Í það minnsta dag frá degi. Mikilvægt er að velferðarsvið borgarinnar hafi og bjóði upp á fjölbreyttar leiðir og lausnir þegar um velferð íbúa er að ræða. Allir Reykvíkingar eiga rétt á að lifa góðu og mannsæmandi lífi við góðan kost og góða heilsu. Líta þarf til margra þátta til að ná betri árangri í þjónustu við íbúa borgarinnar og teljum við hjá Framsókn í Reykjavík borgaryfirvöld geta gert mun betur á mörgum stöðum. Helstu aðgerðir og markmið verða að:

 • Tryggja snemmtæka íhlutun í málefnum barna með fjölþættan vanda.
 • Efla þverfaglegt samstarf heilsugæslu, skólaþjónustu, leik- og grunnskóla og barnaverndar á hverjum stað.
 • Efna til stórátaks til að sporna gegn vaxandi kvíða og þunglyndi meðal barna og ungmenna.
 • Efla “Breiðholtsmódelið” og koma því yfir á öll hverfi borgarinnar sem “Reykjavíkurmódelið”.
 • Efla félagsstarf barna, ungmenna og aldraðra.
 • Efla og styrkja forvarnir á vegum lýðheilsu í borginni.
 • Tryggja notendastýrða persónulega aðstoð fyrir þá sem slíka þjónustu þurfa og kjósa.
 • Ferðafrelsi og notendastýrða ferðaþjónustu fatlaðra og aldraðra.
 • Uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila sem rekin eru af borginni, án hagnaðarsjónarmiða.
 • Fjölga búsetukjörnum fyrir fatlaða einstaklinga, framboð verður að mæta þeirri þörf sem til staðar er.
 • Þeir sem rétt eiga á húsnæðisstyrk haldi honum þó tekjur þeirra aukist að einhverju leyti.

***

Húsnæðismál

Húsnæðisvandi Reykvíkinga blasir við hvert sem litið er í samfélaginu. Lítið framboð húsnæðis, hæg uppbygging nýrra búsetukosta undanfarinna ára, hátt leiguverð og fleira má tína til hvað þetta varðar. Það sem Framsókn  í Reykjavík ætlar að gera er að leggja áherslu á uppbyggingu nýrra íbúðahverfa þar sem hagkvæmni og hagur Reykvíkinga er hafður að leiðarljósi við framkvæmdir. Stefna framboðsins er að:

 • Byggja fleiri íbúðir á hagkvæman máta til að tryggja gott verð til kaupenda.
 • Þétta byggð ásamt því að hefjast handa við ný íbúahverfi.
 • Blönduð íbúabyggð með áherslu á gott skipulag og þjónustu í nærumhverfi íbúanna.
 • Sérstakt átak í byggingu minni og hagkvæmara húsnæði með fyrstu kaupendur sérstaklega í huga.

***

Umhverfismál

Umhverfisvernd og umhverfismál eru mikilvæg málefni og varða okkur öll nú og til framtíðar. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg taki stór skref til að sporna gegn loftlagsbreytingum og bæta nærumhverfi íbúa borgarinnar. Græn svæði þarf að vernda og byggja frekar upp.

 • Plastlaus Reykjavík árið 2030
 • Minnka matarsóun á öllum starfstöðum borgarinnar
 • Bæta aðgengi íbúa að flokkunarstöðvum
 • Nýta lífrænan úrgang til moltugerðar
 • Gróðursetja meðfram vegum og á grænum reitum í hverfum borgarinnar
 • Bjóða 8.-10. bekk starf hjá Vinnuskóla Reykjavíkur og bæta þjónustu Vinnuskólans við íbúa borgarinnar, t.d. ellilífeyrisþega með aðstoð við hreinsun á görðum.
 • Bæta viðhald og þrif á rólóvöllum og hlusta á vilja íbúa með hvað þarf að bæta á þeim til að tryggja öryggi barnanna sem þar leika sér dag frá degi.

***

Íbúalýðræði og gegnsæ stjórnsýsla

Framsóknarflokkurinn hefur lengi barist fyrir auknu og beinu íbúalýðræði í Reykavíkurborg. Við viljum að Reykvíkingar fái að kjósa um þau mál sem þá varðar og að niðurstaða atkvæðagreiðslna verði bindandi en ekki eingöngu ráðgefandi eins og íbúakosningar eru nú. Reykvíkingar þekkja sitt nærumhverfi og sína borg best. Borgarfulltrúar deila ekki alltaf sömu sýn og borgararnir enda búa þeir ekki í öllum hverfum né starfa á öllum vettvangi borgarinnar. Því er mikilvægt að borgarfulltrúar tali máli allra Reykvíkinga og að Reykvíkingar fái sjálfir að koma að ákvarðanatöku í stærri málum er þá varða. Helstu aðgerðir verða:

 • Kosið verður um mikilvæg málefni.
 • Íbúakosningar verði bindandi, ekki einungis ráðgefandi.
 • Nefndarfundir borgarinnar verði opnir.
 • Minnka yfirbyggingu einstakra sviða borgarinnar.
 • Auka skilvirkni og samræma ferla.
 • Þjónusta við borgarbúa verði sett í forgang framar öðrum verkefnum.

***

Samgöngumál

Framsókn í Reykjavík vill raunhæfar lausnir í samgöngumálum sem borgarbúar finna strax fyrir. Bifreiðum verður greidd leið um núverandi gatnakerfi með því að gera aðra valkosti fýsilega fyrir þá sem geta nýtt sér fjölbreyttan ferðamáta. Helstu aðgerðir í samgöngumálum eru:

 • Frítt í strætó. Dæmin sýna að það virkar. Í Hasselt í Belgíu jókst aðsókn í strætó um 1300% frá 1997 til 2013 með slíkum aðgerðum og eru fleiri borgir í Evrópu að fylgja fordæmi.
 • Samgöngustyrkur til háskólanema. Greiða fyrir vistvænum samgöngum háskólanema og bjóða þeim ríflegan samgöngustyrk upp á 20.000 kr. á mánuði fyrir að nota strætó, hjóla eða ganga leiðar sinnar í skólann.
 • Minnkun svifryks í borginni með betri þrifum á helstu umferðarásum.
 • Við styðjum byggingu Sundabrautar og erum reiðbúin í samstarf með ríkinu um að hefja framkvæmdir strax og ríkið gefur grænt ljós á þá framkvæmd.
 • Samstilla götuljós til að greiða fyrir umferð, endurnýja stýribúnað þar sem þess er þörf.
 • Leyfa hægri beygju á rauðu ljósi á þeim gatnamótum sem því verður komið við ásamt því að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.
 • Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýri. Reykjavíkurflugvöllur er nauðsynlegur öryggisventill í flugmálum landsins auk þess sem nýr flugvöllur mun kosta að minnsta kosti 200 milljarða. Með því að fresta fjárfestingu í nýjum flugvelli og Miklubraut í stokk losnar um fjármagn til að kosta ýmsar fljótvirkar raunhæfar aðgerðir sem hafa áhrif á umferð í borginni strax.

***