Categories
Fréttir Greinar

Við þurfum á Reykja­víkur­flug­velli að halda

Deila grein

19/02/2024

Við þurfum á Reykja­víkur­flug­velli að halda

Hvort sem okkur líkar betur eða verr er staðreyndin sú að eldgosatímabil er hafið á Reykjanesskaga, tímabil sem talið er að geti staðið í upp undir 400 ár. Þessi breytta sviðsmynd neyðir okkur til þess að breyta fyrri plönum og taka nýjar ákvarðanir. Síðustu ár hefur mikið verið rætt um uppbyggingu á nýjum flugvelli og ber þar einna hæst hugmyndir um uppbyggingu á flugvelli í Hvassahrauni. Undirrituð telur að flestir séu nú sammála um það að sú staðsetning sé líklega ekki vænlegur kostur en rétt er þó að bíða með allar yfirlýsingar. Skýrslan um Hvassahraun er væntanleg í mars og þá fáum við endanlega niðurstöðu. Til þess að sú mikla vinna sem lögð var í skýrsluna komi að fullum notum og að hún er á lokametrunum er auðvitað skynsamlegast að sjá hvað hún hefur að segja.

Við getum ekki beðið í 20 ár

Það er þó ljóst er að það tekur um 15 til 20 ár að hanna og byggja flugvöll sem rúmað getur innanlandsflug, sjúkraflug og þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar. Á sama tíma ekki hægt að una við núverandi aðstæður til flugsamgangna, brýn þörf er á úrbótum. Sú sem hér skrifar telur að við höfum góðan flugvöll sem getur þjónustað okkur áfram um ókomin ár, Reykjavíkurflugvöll, en hann þarf að efla og bæta. Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnti á síðasta ári um uppbyggingu á nýrri flugstöð, hér er um að ræða uppbyggingu sem lengi hefur verið beðið eftir enda þjónar núverandi flugstöð illa nútíma þörfum. Þá ber að halda því til haga að það er Reykjavíkurborg sem fer með skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni og mikilvægt er að það skipulag komi ekki til með að draga úr flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Hlutverk höfuðborgar

Það gleymist oft í umræðunni hversu Reykjavíkurflugvöllur er samfélagslega mikilvægur, nálægð við miðborg, stjórnsýslu, háskóla og Landspítala spilar þar lykilhlutverk. Eins gleymist í umræðunni um uppbyggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann. Samkvæmt lögum eiga allir landsmenn rétt á sömu heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi er mikilvægt að einfalt sé að nálgast þá þjónustu, flugvöllur í Reykjavík tryggir það. Það má ekki gleyma að Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna og tryggja verður að allir landsmenn geti sótt þangað þá þjónustu sem þar er veitt.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hrein brjóst og leg­háls

Deila grein

19/02/2024

Hrein brjóst og leg­háls

Forvarnir og skimun gegn krabbameinum er eitt stærsta lýðheilsumál sem sett hefur verið á laggirnar hérlendis. Nýgengi krabbameins hefur aukist og er það mikið áhyggjuefni, hvað veldur því er sérstakt rannsóknarefni út af fyrir sig, margar tilgátur eru uppi og eru þekktar en þær verða ekki raktar hér. Rannsóknir á auknu nýgengi gætu gefið leiðarljós um þá áhættuþætti sem okkur ber að forðast og því mikilvægt að það verði farið í slíkar rannsóknir því þær gagnast okkur öllum.

Breytt fyrirkomulag

Fyrir nokkrum árum var breytt fyrirkomulag á skimunum fyrir brjóstakrabbameini og einnig fyrir leghálskrabbameinum. Skimun var flutt frá Krabbameinsfélaginu sem hefði staðið þá vakt með sóma frá upphafi. Brjóstaskimanir fara nú fram í Brjóstamiðstöð Landspítalans og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þá er skimað á öðrum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni eftir sem áður og er það skipulag að finna á vefnum skimanir.is. Öllum konum á aldrinum 40-69 ára er boðin skimum á tveggja ári festi og konum 70-74 ára á þriggja ára fresti. Leghálsskimanir fara reglulega fram á heilsugæslustöðvum um allt land. Þegar breytt fyrirkomulag var í umræðunni urðu margir áhyggjufullir að aðgengi að skimun yrði skert, konur þyrftu um langan veg að fara og hvatning og fræðsla yrði út undan. Eins og rakið var hér að ofan ætti aðgengi kvenna um land allt að vera í svipuðu formi og hefur verið þótt breytingar kalli alltaf á aðlögun.

Berum ábyrgð á eigin heilsu

Það er verulegt áhyggjuefni að dregið hafi úr þátttöku kvenna í skimunum, bæði fyrir brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini. Það er áhyggjuefni sér í lagi þegar nýgengi brjóstakrabbameins hefur aukist. Þetta á við um alla aldurshópa þó mest í yngsta aldurshópunum, en um 240 konur og 4 karlar greinast árlega með brjóstakrabbamein. Þá eru konur í hópi innflytjenda síður líklegar til að mæta í skimun en aðrar. Í Danmörku hefur einnig dregið úr þátttöku kvenna í skimunum á meðan finnskar og sænskar konur standa sig betur.

Inn á Heilsuveru hvers og eins er hægt að sjá skimunarsögu okkar. Ég brýni fyrir konum að kíkja þar inn og sjá hvort og hvenær tímabært er að fara í skimun og setja inn í dagbókina að taka þátt. Þá er það einnig mikilvægt að fylgjast með einkennum og þukla brjóst reglulega og gera viðvart þegar eitthvað óvenjulegt er á seiði.

Þörf er á vitundarvakningu

Minni mæting í skimun kallar á vitundarvakningu , kostnaðurinn er ekki hár en getur verið hamlandi og hægt er að fá þetta endurgreitt frá stéttarfélögum, en þegar það er virkilega þörf á vitundarvakningu ætti að koma á móts við konur, t.d. með gjaldfrjálst í fyrsta sinn og eða fella niður gjald í eitt til tvö ár og sjá hvort mætingin aukist. Aukin fræðsla og þá á fleiri tungumálum en íslensku. Hvað eru frændur okkar Finnar að gera betur? Í rannsókn sem Krabbameinsfélagið lét gera var framtaksleysi eða tímaskortur algengasta ástæðan fyrir því að konur sögðust ekki hafa mætt í skimun. Látum ekki tímaleysi eða framtaksleysi reisa okkur veggi gegn því að mæta skimun, það fer nefnilega svo fjandi mikill tími í krabbameinið sjálft!

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Innlend greiðslumiðlun: Spörum 20 milljarða

Deila grein

18/02/2024

Innlend greiðslumiðlun: Spörum 20 milljarða

Greiðslumiðlun er einn af grunn­innviðum hag­kerf­is­ins. Það fer ekki mikið fyr­ir greiðslumiðlun dags­dag­lega en henni má líkja við pípu­lagn­ir fyr­ir greiðslur. Það fer ekki mikið fyr­ir lagna­kerf­inu, eins og fyr­ir hefðbundn­um pípu­lögn­um, en það stuðlar að því að pen­ing­ar kom­ast frá punkti A til punkts B þegar ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki greiða fyr­ir vör­ur og þjón­ustu svo dæmi sé tekið. Greiðslumiðlun er þannig grund­vall­ar­stoð í sam­fé­lag­inu og telst vera mik­il­væg al­manna­gæði.

Það er því hlut­verk stjórn­valda að tryggja að hér landi sé starf­rækt traust og ör­ugg greiðslumiðlun. Seðlabank­inn rek­ur svo­kallað milli­banka­kerfi sem er vett­vang­ur fyr­ir jöfn­un og upp­gjör á milli fjár­mála­stofn­ana. Einnig fer fram í þessu kerfi upp­gjör fyr­ir greiðslu­kort og viðskipti sem tengj­ast verðbréf­um. Á und­an­förn­um tveim­ur ára­tug­um hef­ur verið unnið tals­vert að bættu fyr­ir­komu­lagi greiðslumiðlun­ar hér á landi. Á Alþingi ný­verið var til að mynda mælt fyr­ir frum­varpi um inn­lenda greiðslumiðlun sem myndi auka efna­hags­legt þjóðarör­yggi Íslands. Já­kvæð hliðaráhrif slíkra breyt­inga væru um­tals­verður sparnaður fyr­ir þjóðfé­lagið, sem ætti að skila sér í lægra vöru­verði til neyt­enda.

Rík þjóðarör­ygg­is­sjón­ar­mið í breytt­um heimi

Það er eng­um blöðum um það að fletta að greiðslumiðlun­in er órjúf­an­leg­ur hluti af nú­tíma­sam­fé­lagi. Árið 2019 vakti Seðlabanki Íslands at­hygli þjóðarör­ygg­is­ráðs á því að ís­lensk stjórn­völd þyrftu að sjá til þess að traust inn­lend ra­f­ræn smá­greiðslumiðlun væri til staðar. Vanda­málið var að ra­f­ræn greiðslumiðlun var háð er­lend­um aðilum og tækni­innviðum. Eft­ir hrun bank­anna haustið 2008 var ráðist í stefnu­mót­un til að tryggja fulla virkni inn­lendr­ar greiðslumiðlun­ar. Á þeim tíma tóku inn­lend­ir aðilar ábyrgð á innviðum ra­f­rænn­ar greiðslumiðlun­ar og þar með gátu er­lend­ir aðilar ekki haft áhrif á kerf­is­læga virkni henn­ar. Á síðustu árum hef­ur orðið mik­il breyt­ing á hvernig greiðslur með greiðslu­kort­um, bæði de­bet- og kred­it­kort­um, eru fram­kvæmd­ar. Nú til dags fara yfir 90% af öll­um de­bet- og kred­it­korta­greiðslum fram í gegn­um alþjóðleg korta­fyr­ir­tæki sem eru staðsett utan Íslands. Í út­tekt­um sín­um á ár­inu 2022 tók þjóðarör­ygg­is­ráð Íslands fyr­ir ábend­ing­ar og hætt­ur sem tengj­ast þjóðarör­yggi, með áherslu á greiðslumiðlun. Það benti meðal ann­ars á mik­il­vægi þess að hafa í boði áreiðan­leg­ar inn­lend­ar greiðslu­lausn­ir sem ekki eru háðar er­lend­um fjar­skipt­um. Áhersla var lögð á að hafa fleiri en eina slíka lausn, þar sem bæði greiðslur og upp­gjör eiga sér stað inn­an kerfa sem eru und­ir inn­lendri stjórn. Einnig var lagt til að auka eft­ir­lit með net- og fjar­skipta­ógn­un­um sem steðja að fjár­mála­kerf­inu, bæta skil­virkni boðleiða í til­felli netárása og skipu­leggja til­búnað við slík­um ógn­um. Þar gegn­ir Seðlabanki Íslands lyk­il­hlut­verki. Á síðustu árum hef­ur áhætta vegna greiðslu­kerfa á Íslandi auk­ist. Vax­andi hætta í heim­in­um, bæði hvað varðar netör­yggi, ástand stríðs í Evr­ópu og alþjóðlega sundr­ung, hef­ur enn frek­ar und­ir­strikað mik­il­vægi þess að styrkja viðnám og ör­yggi greiðslu­kerfa. Ísland, eins og aðrar þjóðir, þarf einnig að bregðast við þess­ari þörf.

Hag­kvæm­ara kerfi fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki

Verði fyrr­nefnt frum­varp um inn­lenda greiðslumiðlun samþykkt á Alþingi mun Seðlabank­inn öðlast skýr­ar heim­ild­ir til að koma á fót inn­lendri greiðslumiðlun. Til viðbót­ar við bætt þjóðarör­yggi yrðu já­kvæð hliðahrif þeirra breyt­inga að kostnaður fyr­ir neyt­end­ur og ís­lenska söluaðila myndi lækka. Með frum­varp­inu yrði sköpuð for­senda fyr­ir nýj­um innviðum á sviði greiðslumiðlun­ar sem gerðu neyt­end­um kleift að greiða fyr­ir vöru og þjón­ustu með milli­færslu milli tveggja banka­reikn­inga með skil­virk­um hætti. Má ráðgera að slíkt myndi stuðla að auk­inni sam­keppni á greiðslu­markaði og skapa tæki­færi til hagræðing­ar í kerf­inu og þar með lægri kostnaði fyr­ir söluaðila og neyt­end­ur.

Það er ljóst að nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag greiðslumiðlun­ar er allt of dýrt. Í skýrslu um gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna sem ég lét vinna á síðasta ári kom meðal ann­ars fram að Seðlabank­inn áætlaði að kostnaður sam­fé­lags­ins af notk­un greiðslumiðla hér á landi á ár­inu 2021 hefði verið um 47 ma.kr. eða um 1,43% af vergri lands­fram­leiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslu­korta ríf­lega 20 ma.kr.

Lít­um til Nor­egs – og spör­um!

Í grein­ingu Seðlabank­ans kem­ur fram að Nor­eg­ur sé eina landið sem telja má sam­an­b­urðar­hæft við Ísland sem ný­lega hef­ur birt niður­stöður úr kostnaðargrein­ingu í greiðslumiðlun. Í Nor­egi var sam­fé­lags­kostnaður á ár­inu 2020 um 0,79% af vergri lands­fram­leiðslu. Væri kostnaðar­hlut­fallið það sama hér á landi og í Nor­egi væri kostnaður­inn tæp­ir 26 millj­arðar eða 21 millj­arði króna lægri. Það ligg­ur í aug­um uppi að hægt er að gera bet­ur í þess­um mál­um hér heima og í nýju fyr­ir­komu­lagi fel­ast tæki­færi til að bæta hag fólks og fyr­ir­tækja á Íslandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­úr­skarandi Landspítali

Deila grein

16/02/2024

Fram­úr­skarandi Landspítali

Landspítalinn er þungamiðja íslenskrar heilbrigðisþjónustu og gegnir fjölbreyttu og veigamiklu hlutverki innan kerfisins í heild sem háskólasjúkrahús landsins. Starfsemi Landspítala er í stöðugri þróun og vexti og aldrei hafa fleiri einstaklingar starfað á spítalanum og árið 2023.

Undanfarin ár hafa verið viðburðarík í starfsemi Landspítala sem gengið hefur í gegnum ákveðið umbreytingarskeið í þeim tilgangi að styrkja stöðu og hlutverk spítalans fyrir heilbrigðiskerfið í heild, í takt við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Breyttar áherslur og skipulag

Á árinu 2022 var stjórnskipulag spítalans styrkt í þeim tilgangi að auka stuðning við stjórnendur. Skipuð var stjórn sem fékk það hlutverk að marka Landspítala langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum ásamt því að styðja við faglegan rekstur spítalans.

Þá réðust stjórnendur í umfangsmikla greiningarvinnu á skipulagi spítalans í samvinnu og samráði við stjórn og fagráð spítalans. Sú vinna dró fram mikilvægi þess að fara í ákveðnar breytingar á innra skipulagi til að ná fram mikilvægum umbótum á þjónustu og meiri skilvirkni í þjónustu og rekstri.

Breytt skipulag leggur áherslu á að styrkja klíníska starfsemi spítalans með því að færa ákvörðunarvald og ábyrgð nær framlínu starfsemi stofnunarinnar og einfalda skipulag hennar. Breytingarnar miða einnig að því að efla hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahús og auka veg vísindastarfs innan hans. Hið nýja skipurit tók gildi 1. janúar 2023 og ný framkvæmdastjórn tók til starfa.

Þjónustutengd fjármögnun skilar árangri

Samhliða innleiðingu nýs skipulags hefur markvisst verið unnið að ýmsum umbótum í starfsemi og rekstri spítalans. Mikilvægur liður í þeirri vinnu snýr að innleiðingu á þjónustutengdri fjármögnun. Á árinu 2023 voru stigin afgerandi skref við innleiðingu þess og er Landspítali nú fjármagnaður í auknu mæli með þjónustutengdri fjármögnun í gegnum samning við Sjúkratryggingar Íslands. Slík fjármögnun er afkastatengd og hvetur þar af leiðandi til aukinnar framleiðni. Fjármögnunin endurspeglar raunverulegt umfang þjónustunnar og raunkostnað við veitingu hennar.

Til viðbótar við umbætur í skipulagi og nýtt fjármögnunarkerfi þá hefur Landspítali unnið að fjölmörgum umbótaverkefnum til að bæta þjónustu við sjúklinga. Í því samhengi má nefna nýja bráðadagdeild lyflækninga ásamt fjarþjónustu lyflækninga til stuðnings og ráðgjafar við aðrar heilbrigðisstofnanir og þjónustuveitendur. Lágþröskuldaþjónusta göngudeildar smitsjúkdóma var sett á fót en hún gefur vímuefnanotendum greiðara aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þá var komið á fót sex stöðugildum félagsráðgjafa og sálfræðinga til að bæta þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á bráðamóttöku, með sérstakri viðbótarfjárveitingu.

Afköst hafa aukist og rekstur er í jafnvægi

Í ljósi þeirra umbóta sem átt hefur sér stað á Landspítala þá er afar ánægjulegt að rýna í starfsemistölur spítalans á árinu 2023 og sjá að þessar breytingar og aðgerðir eru að bera raunverulegan árangur. Afköst spítalans hafa aukist umtalsvert á sama tíma og spítalinn skilaði hagstæðri rekstrarafkomu sem nemur, samkvæmt bráðabirgðauppgjöri, rúmum 600 milljónum króna.

Aukning á skurðaðgerðum sem framkvæmdar voru á spítalanum frá fyrra ári nam rúmlega 8%. Enn fremur fjölgaði legum um 4,3% og heimsóknum á dag- og göngudeildir um 7,7%. Hlutfall dagdeildaraðgerða hefur nær tvöfaldast milli ára sem er afar jákvæð þróun. Þá hafa stafræn samskipti aukist til muna, eða um 7%, en við vitum að stafvæðing í heilbrigðisþjónustu er einn lykilþátturinn í því að okkur takist að mæta lýðfræðilegum breytingum og veita þar með vaxandi hópi sjúklinga góða og árangursríka þjónustu í framtíðinni.

Biðtími styttist og færri bíða

Með auknum afköstum og skilvirkni hefur bið eftir ýmissi þjónustu styst umtalsvert. Um nýliðin áramót hafðist það markmið að ekkert barn beið eftir þjónustu barna og unglingadeildar Landspítala (BUGL) lengur en 90 daga, í samræmi við viðmið embættis landlæknis. Minnismóttaka Landspítala hefur náð með markvissum hætti að stytta bið eftir þjónustu úr 9 mánuðum í september 2022 niður í 3 mánuði á árinu 2023 og þá hefur bið eftir ýmsum valkvæðum skurðaðgerðum s.s. liðskiptaaðgerðum styst töluvert.

Árangur er ekki aðeins mældur í afköstum eða nýtingu heldur er mikilvægt að horfa einnig til gæða þjónustunnar og árangurs af veittri meðferð. Í því samhengi er árangur spítalans og íslenska heilbrigðiskerfisins eftirtektarverður. Sá árangur kemur skýrt fram þegar horft er til árangurs af meðferð bráðatilvika sem og algengra sjúkdóma, í alþjóðlegum samanburði.

Upplifun notenda er einnig mikilvægur mælikvarði. Samkvæmt þjónustukönnun Landspítala sem er framkvæmd árlega má sjá jákvæða þróun á upplifun sjúklinga af þjónustu. Þegar litið er til reynslu sjúklinga í heild af síðustu innlögn fær spítalinn að meðaltali einkunnina 8,34 af 10 og hækkar annað árið í röð.

Spítali á heimsmælikvarða

Þrátt fyrir fámenni íslensku þjóðarinnar þá býr gríðarleg sérþekking og verðmætur mannauður innan spítalans og íslenska heilbrigðiskerfisins sem leggur sig fram um það, á hverjum degi, að veita bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Okkur hefur tekist að veita greiðan aðgang að mjög sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og reka hér háskólasjúkrahús í fremstu röð.

Það verður því ekki annað sagt en að Landspítalinn kemur bæði sterkari og öflugri undan árinu 2023. Stjórnendur og starfsfólk Landspítala eiga heiður skilið fyrir þá umfangsmiklu umbótavinnu sem átt hefur sér stað á spítalanum og það á öllum að vera það ljóst að árangur Landspítala er árangur starfsfólksins sem þar starfar.

Við getum öll verið stolt af því starfi sem fram fer á spítalanum okkar.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Íslensku táknmáli gert hærra undir höfði

Deila grein

15/02/2024

Íslensku táknmáli gert hærra undir höfði

Það var hátíðleg stund hinn 11. fe­brú­ar síðastliðinn, þegar dag­ur ís­lenska tákn­máls­ins var hald­inn með metnaðarfullri dag­skrá. Íslenskt tákn­mál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tján­ing­ar og sam­skipta og barna þeirra. Þannig er ís­lenskt tákn­mál eina hefðbundna minni­hluta­málið á Íslandi og eina málið sem á sér laga­lega stöðu utan ís­lenskr­ar tungu, líkt og kem­ur fram í lög­um um stöðu ís­lenskr­ar tungu og ís­lensks tákn­máls. Á Íslandi er orðið döff notað um heyrn­ar­laust fólk sem tal­ar tákn­mál, en það að vera döff er að líta á tákn­mál sem sitt fyrsta mál og til­heyra sam­fé­lagi heyrn­ar­lausra.

Frá­bært starf er unnið í þágu ís­lensks tákn­máls á hverj­um degi, eins og glögg­lega kom fram á degi ís­lensks tákn­máls. Ein­stak­ling­arn­ir í döff sam­fé­lag­inu eru framúrsk­ar­andi og fékk ég þann heiður að af­henda Önnu Jónu Lár­us­dótt­ur sér­staka heiður­sviður­kenn­ingu Sam­skiptamiðstöðvar heyrn­ar­lausra og heyrn­ar­skertra (SHH) fyr­ir fram­lag til varðveislu ís­lensks tákn­máls, en Anna hef­ur verið öfl­ug í fé­lags­starfi og hags­muna­bar­áttu döff fólks en hún gegndi for­mennsku í Fé­lagi heyrn­ar­lausra um ára­bil og sat í stjórn fé­lags­ins og fé­lagi Döff 55+ í fjölda ára. Þá hlaut Val­gerður Stef­áns­dótt­ir viður­kenn­ingu dags ís­lensks tákn­máls fyr­ir hönd Mál­nefnd­ar um ís­lenskt tákn­mál. Viður­kenn­ing­una hlaut hún fyr­ir ómet­an­legt fram­lag sitt til ís­lensks tákn­máls og mál­sam­fé­lags þess en þetta var í fyrsta skipti sem viður­kenn­ing­in er af­hent. Val­gerður varði í des­em­ber síðastliðnum doktors­rit­gerð í mann­fræði við Há­skóla Íslands sem er frum­kvöðlarann­sókn og fyrsta heild­stæða yf­ir­litið hér­lend­is yfir ís­lenskt tákn­mál og þróun döff menn­ing­ar. Mun rit­gerðin þjóna sem mik­il­væg heim­ild fyr­ir kom­andi kyn­slóðir um upp­runa og þróun ís­lensks tákn­máls og fólkið sem bjó það til, döff Íslend­inga.

Það er skylda ís­lenskra stjórn­valda að hlúa að ís­lensku tákn­máli og styðja við það. Nú hef­ur Alþingi til meðferðar þings­álykt­un og aðgerðaáætl­un í mál­stefnu ís­lensks tákn­máls sem ég mælti fyr­ir á Alþingi á yf­ir­stand­andi þingi. Mál­stefn­an, sem er sú fyrsta fyr­ir ís­lenskt tákn­mál, tek­ur til sex meg­in­stoða sem skipta máli fyr­ir mál­stefnu minni­hluta­máls­ins og áhersluþætti inn­an hverr­ar meg­in­stoðar, en þær eru: mál­taka tákn­máls­barna, rann­sókn­ir og varðveisla, já­kvætt viðhorf, fjölg­un um­dæma ís­lensks tákn­máls, lagaum­hverfi og mál­tækni. Aðgerðaáætl­un­in inni­held­ur aðgerðir sem miðast við að koma þurfi til fram­kvæmda á næstu þrem­ur árum og hafa stjórn­völd nú þegar tryggt fjár­muni til að fylgja þeirri áherslu eft­ir. Við get­um gert ís­lensku tákn­máli hærra und­ir höfði og það ætl­um við að gera með ýms­um hætti. Í þings­álykt­un­inni er meðal ann­ars lagt til að dag­ur ís­lensks tákn­máls verði fánadag­ur, líkt og tíðast fyr­ir dag ís­lenskr­ar tungu. Það er viðeig­andi fyr­ir dag ís­lensks tákn­máls. Ég vil þakka döff sam­fé­lag­inu fyr­ir virki­lega ánægju­legt sam­starf og ég lít björt­um aug­um til framtíðar þegar kem­ur að ís­lensku tákn­máli.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ó­þarfa sóun úr sam­eigin­legum sjóðum?

Deila grein

15/02/2024

Ó­þarfa sóun úr sam­eigin­legum sjóðum?

Forstjóri Ríkiskaupa skrifaði um margt áhugaverð grein í tilefni Viðskiptaþings 2024. Það er fullt tilefni til að taka undir margt sem fram kemur í þeirri grein og ég hjó sérstaklega eftir þeim kafla er fjallaði um þær miklu fjárhæðir sem ríkið greiðir árlega í leigu á húsnæði. Ég ætla að leyfa mér að vitna beint í grein Söru Lindar, forstjóra Ríkiskaupa, en þar segir:

„Árið 2023 keypti ríkið vörur, þjónustu og framkvæmdir fyrir ríma 260 milljarða og greiddi um 27 milljarða í leigu á húsnæði. Það er því eftir miklu að slægjast við að taka stjórn á þessum fjármunum og ráðstafa þeim með eins skynsamlegum hætti og frekast er unnt. Það er ekki einungis sjálfsögð krafa að farið sé vel með skattfé heldur getur aukið aðhald á þessu sviði skilað gríðarlegum fjármunum til samfélagsins, fjármunum sem nýta má þá til áframhaldandi styrkingar og uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum þess samfélags sem við viljum búa í.“

Þarna má segja að forstjórinn hafi hitt naglann á höfuðið eins og sagt er. Það er öllum, að minnsta kosti okkur flestum, augljóst að þarna sé svigrúm til að fara betur með okkar sameiginlegu sjóði og hef ég meðal annars lagt fram þingsályktun hvað þetta varðar sem myndi lækka þennan árlega kostnað umtalsvert.

Hugmyndafræði klasasamstarfs getur nýst

Umrædda þingsályktunartillögu hef ég lagt fram síðastliðin þrjú þing, en hún fjallar um það hvernig nýta megi hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana og stuðla þannig að hagræðingu. Þar erum við að tala um uppbyggingu opinbers klasa sem myndi tryggja hagræðingu í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum. Því til viðbótar getur opinbert klasasamstarf má nefna aukna framleiðni og nýsköpun sem leiðir til aukinnar verðmætasköpunar öllum til heilla.

Hér má sjá fyrir sér 5.000–6.000 m2 skrifstofuhúsnæði þar sem ynnu 250–300 starfsmenn nokkurra lítilla opinberra fyrirtækja og stofnana. Þetta er ekki meitlað í stein, en með slíkri útfærslu mætti þó ná fram hagræðingu með þeim samlegðaráhrifum sem yrðu í rekstri þeirra fyrirtækja og stofnana sem þar yrðu. Þar má nefna alveg sérstaklega sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis, húsnæðis og svo framvegis.

Lægstbjóðendur verða undir af óljósum ástæðum

Ég hef heyrt það víða að þegar ríkið hefur auglýst eftir leiguhúsnæði fyrir hinar ýmsu stofnanir sé ekki alltaf samið við lægstbjóðendur. Þetta var tilefni fyrirspurnar til fjármála- og efnahagsráðherra á síðasta þingi þar sem meðal annars var óskað eftir yfirlit yfir það hversu oft á síðustu tíu árum ríkið hafi gert samninga við aðra en lægstbjóðendur sundurliðað eftir árum, tilvikum og röksemdum fyrir því hvers vegna ekki hafi verið samið við lægstbjóðanda. Svarið staðfesti það að í tíu tilfellum hafi ekki verið samið við lægstbjóðanda og ástæðurnar voru einu sinni nálægð við samstarfsaðila en níu sinnum hafi lægstbjóðandi ekki staðist kröfur húslýsingar.

Gott og vel, fyrir því kunna að vera málefnalegar ástæður en röksemdirnar eru við fyrstu sýn ansi þunnar þegar við berum saman við meðferð á opinberu fé. Svarið var því tilefni síðari fyrirspurnar minnar um hið sama mál þar sem ég óskaði eftir frekari skýringum á því hvaða kröfur það voru nákvæmlega sem lægstbjóðendur hefðu ekki uppfyllt ásamt upphæð lægstbjóðanda og þess tilboðs sem var tekið. Þeirri fyrirspurn minni var ekki svarið og í ljósi þess sem ég hef hér farið yfir þá tel ég fullt tilefni til þess að endurvekja hana og fá það upp á yfirborðið hvað það eru sem veldur því að ríkið hafi gert leigusamning við aðila sem buðu hærra verð. Fyrirspurnar læt ég fylgja hér með:

Fyrri fyrirspurn

Seinni fyrirspurn

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. febrúar 2024.

Categories
Fréttir

Stórt framfaraskref!

Deila grein

14/02/2024

Stórt framfaraskref!

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi hversu góð ráðstöfun Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, hafi verið að ráðstafa árlega að með auknu fjármagni 55 millj. kr. til barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) og stytta þannig bið barna eftir göngudeildarþjónustu. „Sú ákvörðun ásamt breyttu skipulagi hefur sannarlega skilað sér í umbreytingu á þjónustustigi fyrir það öfluga starfsfólk sem á deildinni starfar og á mikið hrós skilið fyrir.“

Á kjörtímabilinu 2017-2021 var mjög mikil umræða um langan biðlista hjá BUGL. Var þá haft eftir yfirlækni á BUGL í fréttum „að geðheilbrigðismál barna og ungmenna hefðu verið í ólestri í áratugi og stjórnvöld virtust hafa lítinn áhuga á að bæta þar úr“.

„Við höfum sett okkur markmið um að ekkert barn þurfi að bíða lengur en í 90 daga eftir þjónustu frá því að beiðni þess efnis hefur verið samþykkt og markmiðið náðist um nýliðin áramót,“ sagaði Lilja Rannveig.

„Aukið fjárframlag gerði það kleift að hægt var að ráða fleiri sérfræðinga og fjölga meðferðarteymum göngudeildar úr tveimur í þrjú, þannig að í lok janúar voru 26 börn á þessum biðlista og biðin eftir þjónustu var einungis um einn til tveir mánuðir. Það skiptir miklu máli fyrir börnin og velferð þeirra að við náum að tryggja þeim þjónustu eins fljótt og auðið er.

Stytting biðlistans er ákveðinn áfangasigur sem við eigum að gleðjast yfir. Nú þurfum við í sameiningu að halda áfram að gera vel og gera gott enn betra,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Á síðasta kjörtímabili var mjög mikið rætt um langan biðlista hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans sem er í daglegu tali kallað BUGL. Árið 2021 bárust fréttir þar sem vitnað var í yfirlækni á BUGL sem sagði að geðheilbrigðismál barna og ungmenna hefðu verið í ólestri í áratugi og stjórnvöld virtust hafa lítinn áhuga á að bæta þar úr. En í síðustu viku bárust fréttir úr heilbrigðisráðuneytinu um að með auknu fjármagni hefði tekist að stytta bið barna eftir göngudeildarþjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, og það er stórt framfaraskref.

Við höfum sett okkur markmið um að ekkert barn þurfi að bíða lengur en í 90 daga eftir þjónustu frá því að beiðni þess efnis hefur verið samþykkt og markmiðið náðist um nýliðin áramót. Hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson tók ákvörðun um að ráðstafa árlega 55 millj. kr. til málaflokksins. Sú ákvörðun ásamt breyttu skipulagi hefur sannarlega skilað sér í umbreytingu á þjónustustigi fyrir það öfluga starfsfólk sem á deildinni starfar og á mikið hrós skilið fyrir. Fyrir tilkomu aukna fjárframlagsins biðu að jafnaði 100–130 börn eftir þjónustu og biðin var oft talin í mörgum mánuðum. Aukið fjárframlag gerði það kleift að hægt var að ráða fleiri sérfræðinga og fjölga meðferðarteymum göngudeildar úr tveimur í þrjú, þannig að í lok janúar voru 26 börn á þessum biðlista og biðin eftir þjónustu var einungis um einn til tveir mánuðir. Það skiptir miklu máli fyrir börnin og velferð þeirra að við náum að tryggja þeim þjónustu eins fljótt og auðið er. Stytting biðlistans er ákveðinn áfangasigur sem við eigum að gleðjast yfir. Nú þurfum við í sameiningu að halda áfram að gera vel og gera gott enn betra.“

Categories
Fréttir

„Eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið“

Deila grein

14/02/2024

„Eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins samgönguframkvæmdir og umferðarmenningu og hversu miklar framfarir hafi orðið á þessari öld. En ástæða sé til að staldra við og íhuga hvað hægt sé að gera betur þar sem banaslysin í umferðinni séu þegar orðin sjö á þessu ári, voru átta í heildina allt árið í fyrra.

„Við höfum farið í gríðarmikið átak við að bæta öryggi á vegum landsins, farið í aukna vegagerð, bætt vetrarþjónustu á vegum víða og aukið ofanflóðaeftirlit sem eru allt liðir í bættu öryggi.“

En hvað hefur breyst á þessum árum, á þessari öld?

„Í dag eru uppi allt aðrar aðstæður en voru fyrir aldarfjórðungi. Á þeim tíma var samfélagsgerðin allt önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaganna og samfélaga mun stærri,“ sagði Halla Signý.

Nefndi hún að atvinnusóknarsvæði séu „stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin í skólann lengri leið og jafnvel í leikskóla um langan veg og þjónustan færist svo sífellt á færri staði.“

„Breytingar í atvinnulífi þjóðarinnar hafa kallað á gríðarlega aukningu á stórflutningum á vegum landsins. Þetta gengur allt vel í heimi þar sem samgöngur eru greiðar allan ársins hring en öflug vetrarþjónusta á vegum landsins er mikið öryggisatriði fyrir okkur öll. Við skulum muna það að eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið. Stöldrum við og íhugum málið,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Banaslys í umferðinni sem af er þessu ári eru orðin sjö en þau voru átta í heildina allt árið í fyrra. Þessar staðreyndir kalla á að við stöldrum við og íhugum hvað við getum gert betur. Árið 2000 voru banaslys í umferðinni 32. Flest þeirra voru í kringum höfuðborgarsvæðið og á Akureyri og sömu sögu er að segja árið á eftir. Margt hefur sannarlega breyst á þessari öld, bæði hvað varðar framfarir í samgönguframkvæmdum og umferðarmenningu. Við höfum sett mikið átak í að tvöfalda og bæta vegi á suðvestursvæðinu sem hefur skilað sér í að færri banaslys hafa orðið á þessum fjölförnu vegum. Við höfum farið í gríðarmikið átak við að bæta öryggi á vegum landsins, farið í aukna vegagerð, bætt vetrarþjónustu á vegum víða og aukið ofanflóðaeftirlit sem eru allt liðir í bættu öryggi. Banaslysum hefur fækkað ár frá ári þótt hlutfallslega séu fleiri slys á vegum landsins núna síðustu ár. En hvað hefur breyst á þessum árum, á þessari öld? Í dag eru uppi allt aðrar aðstæður en voru fyrir aldarfjórðungi. Á þeim tíma var samfélagsgerðin allt önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaganna og samfélaga mun stærri. Atvinnusóknarsvæði eru stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin í skólann lengri leið og jafnvel í leikskóla um langan veg og þjónustan færist svo sífellt á færri staði. Breytingar í atvinnulífi þjóðarinnar hafa kallað á gríðarlega aukningu á stórflutningum á vegum landsins. Þetta gengur allt vel í heimi þar sem samgöngur eru greiðar allan ársins hring en öflug vetrarþjónusta á vegum landsins er mikið öryggisatriði fyrir okkur öll. Við skulum muna það að eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið. Stöldrum við og íhugum málið.“

Categories
Fréttir

27 milljarðar í leigu á húsnæði!

Deila grein

14/02/2024

27 milljarðar í leigu á húsnæði!

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins þann mikla kostnað ríkisins er fer í leigu á húsnæði. Á síðasta ári var leigukostnaður ríkisins 27 milljarðar. Hann telur augljóst að hér megi fara betur með opinbert fé og ná fram meiri hagræðingu í nýtingu á húsnæði ríkisins.

Hefur Ágúst Bjarni í þessu augnamiði lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu, um uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana, er hefur að markmiði ríkið efli samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana ásamt því að stuðla að hagræðingu, minnka yfirbyggingu og auka sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis, húsnæðis o.s.frv.

„Ég hef heyrt það víða að þegar ríkið hefur auglýst eftir leiguhúsnæði fyrir hinar ýmsu stofnanir hafi ekki alltaf verið samið við lægstbjóðendur. Þetta var tilefni fyrirspurnar til þáverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á sínum tíma þar sem m.a. var óskað eftir yfirliti yfir það hversu oft á síðustu árum ríkið hefði gert samninga við aðra en lægstbjóðendur, sundurliðað eftir árum, tilvikum og röksemdum fyrir því hvers vegna ekki hefði verið samið við lægstbjóðanda,“ sagði Ágúst Bjarni.

Í svari fjármála- og efnahagsráðherra var staðfest „að í tíu tilfellum hafði ekki verið samið við lægstbjóðanda og ástæðurnar voru einu sinni nálægð við samstarfsaðila en níu sinnum hafði lægstbjóðandi ekki staðist kröfur húslýsingar. Gott og vel, en þetta eru ansi þunn rök þegar við berum þetta saman við meðferð á opinberu fé.“

„Svarið var því tilefni til seinni fyrirspurnar minnar um sama mál þar sem ég óskaði eftir frekari skýringum á því hvaða kröfur það voru nákvæmlega sem lægstbjóðendur hefðu ekki uppfyllt ásamt upphæð lægstbjóðanda og þess tilboðs sem þá var tekið. Þeirri fyrirspurn minni var ekki svarað og í ljósi þess sem ég hef farið yfir þá tel ég fullt tilefni til að endurvekja hana og fá þá upp á yfirborðið hvað það er sem veldur því að ríkið hafi gert leigusamninga við aðila sem buðu hærra verð,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Ríkið greiddi 27 milljarða í leigu á húsnæði árið 2023. Þetta eru háar tölur og ég tel að þarna sé svigrúm til þess að fara betur með opinbert fé og ná meiri hagræðingu með samnýtingu. Mér varð hugsað til þingsályktunartillögu sem ég lagði fram á sínum tíma sem fjallaði einmitt um þetta, hvernig nýta mætti hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana ásamt því að stuðla að hagræðingu, minnka yfirbyggingu og auka sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis, húsnæðis o.s.frv. Ég hef heyrt það víða að þegar ríkið hefur auglýst eftir leiguhúsnæði fyrir hinar ýmsu stofnanir hafi ekki alltaf verið samið við lægstbjóðendur. Þetta var tilefni fyrirspurnar til þáverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á sínum tíma þar sem m.a. var óskað eftir yfirliti yfir það hversu oft á síðustu árum ríkið hefði gert samninga við aðra en lægstbjóðendur, sundurliðað eftir árum, tilvikum og röksemdum fyrir því hvers vegna ekki hefði verið samið við lægstbjóðanda. Svarið staðfesti það að í tíu tilfellum hafði ekki verið samið við lægstbjóðanda og ástæðurnar voru einu sinni nálægð við samstarfsaðila en níu sinnum hafði lægstbjóðandi ekki staðist kröfur húslýsingar. Gott og vel, en þetta eru ansi þunn rök þegar við berum þetta saman við meðferð á opinberu fé.

Svarið var því tilefni til seinni fyrirspurnar minnar um sama mál þar sem ég óskaði eftir frekari skýringum á því hvaða kröfur það voru nákvæmlega sem lægstbjóðendur hefðu ekki uppfyllt ásamt upphæð lægstbjóðanda og þess tilboðs sem þá var tekið. Þeirri fyrirspurn minni var ekki svarað og í ljósi þess sem ég hef farið yfir þá tel ég fullt tilefni til að endurvekja hana og fá þá upp á yfirborðið hvað það er sem veldur því að ríkið hafi gert leigusamninga við aðila sem buðu hærra verð.“

Categories
Fréttir Greinar

Förum var­lega á vegum úti

Deila grein

14/02/2024

Förum var­lega á vegum úti

Banaslys í umferðinni eru orðin 7 sem af er þessu ári en þau voru 8 í heildina, allt árið í fyrra. Þessar staðreyndir kalla á að við stöldrum við og íhugum hvar við getum gert betur. Ef við horfum aftur til aldamóta hefur margt breyst. Árið 2000 voru banaslys í umferðinni 32 talsins, flest þeirra voru í kringum höfuðborgarsvæðið og Akureyri og sömu sögu var að segja árið eftir. Þá eru ótalin þau slys þar sem fólk hefur hlotið örkuml eða varanlegan skaða.

Margt hefur sannarlega breyst á þessari öld, bæði hvað varðar framfarir í samgönguframkvæmdum og umferðarmenningu. Við höfum sett mikið átak í að tvöfalda og bæta vegi á suðvestursvæðinu sem hefur skilað sér í því að færri banaslys hafa orðið á þessum fjölförnu vegum. Við höfum farið í átak við að bæta öryggi á vegum landsins, farið í aukna vegagerð, bætt vetrarþjónustu á vegum víða og aukið ofanflóðaeftirlit sem eru allt liðir að bættu öryggi, en umferðarþungi hefur aukist gríðarlega á þessari öld. Á árunum 2018- 22 vorum við í fjórða lægsta sæti yfir tölu látinna í umferðarslysum í Evrópu á hverja 100.000 íbúa. Neðar voru Bretland, Svíþjóð og Noregur.

Banaslysin færast út á þjóðvegi landsins

Banaslysum hér á landi hefur fækkað ár frá ári og sérstaklega miðað við umferðaraukningu en hlutfall banaslysa í dreifbýli hefur hækkað úr 40% frá árinu 1975-84 í rúmlega 70% á árunum 2005-14 og enn hefur þetta hlutfall hækkað. Hvað veldur því?

Breytingar í atvinnulífi þjóðarinnar hefur kallað á gríðarlega aukningu á stórflutningum á vegum landsins. Lagni ökumannanna sem aka slíkum bifreiðum kemur þeim þó í langflestum tilfellum slysalaust milli landshluta en allir þekkja hvernig er að mæta stórum vöruflutningabílum á kræklóttum vegum landsins, í vondu veðri og reyna að halda einbeitingunni. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið og margir sem keyra hér um landið gera það óvanir þeim aðstæðum sem við búum við. Auk þess hefur verið talað um að stór hluti þeirra bíla sem ferðamenn eru að taka á bílaleigum séu með lægri öryggisstaðla heldur en bílahluti landsmanna.

Breytt þjóðfélagsmynd

Í dag er uppi allt aðrar aðstæður heldur en voru fyrir um aldarfjórðung. Á þeim tíma var samfélagsgerðin önnur. Þá var innan hvers byggðarlags eitt samfélag, þar sem íbúar sóttu sína vinnu, skóla, heilsugæslu og félagslíf innan byggðarlagsins. Í dag eru landfræðileg mörk byggðarlaga og samfélaga mun stærri. Atvinnusóknarsvæði eru stöðugt að stækka, fólk sækir vinnu lengra, keyrir börnin lengri leið í skólann og jafnvel í leikskóla og þjónustan færist svo sífellt á færri staði. Þetta gengur allt vel í heimi þar sem samgöngur eru greiðar allan ársins hring en öflug vetrarþjónusta á vegum landsins er mikið öryggisatriði fyrir okkur öll. Að bæta umferðaröryggi á vegum landsins allt árið um kring kallar á stóraukna vetrarþjónustu og áframhaldandi vegabætur um land allt. Mikilvægt er að auka fræðslu til erlendra ferðamanna sem aka hér um vegi, hér er stærsti hluti vegakerfisins um stórbrotna náttúru landsins sem einmitt markmið ferðamanna er að komast á til að njóta og þjóta.

Eitt banaslys á vegum úti er einu banaslysi of mikið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. febrúar 2024.