Ágætu íbúar Dalvíkurbyggðar!

Þann 26.maí n.k. verður gengið til kosninga til sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar til næstu fjögurra ára. B-listi Framsóknar- og félagshyggjufólks býður fram kröftugan hóp fólks til starfa fyrir byggðarlagið. B-listann skipa einstaklingar alls staðar að úr sveitarfélaginu með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og kynjahlutfall er jafnt á listanum. Hérna kynnum við helstu áherslur B-listans í málefnum Dalvíkurbyggðar og viðburði sem framundan eru í maí. Við viljum taka það fram að þó þetta séu okkar helstu áherslumál þá erum við auðvitað opin fyrir góðum hugmyndum og alltaf til viðræðna um málefni sveitarfélagsins.

Við óskum eftir stuðningi ykkar til þess að B-listinn fái góða kosningu, því með góðri niðurstöðu tryggjum við áframhaldandi ráðdeild og hagsýni í rekstri sveitarfélagsins. Með öflugu fylgi getum við fylgt eftir mikilli og góðri uppbyggingu sveitarfélagsins og gert gott byggðarlag enn betra samfélaginu okkar til heilla.

Frambjóðendur B-listans.

Fjármál og stjórnsýsla

Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er góð, tekjur hafa aukist og tekist hefur að greiða niður skuldir á undanförnum árum. Að baki liggur mikil vinna, ráðdeild og hagsýni starfsfólks sveitarfélagsins og í því býr okkar stærsti auður. Nauðsynlegt er að halda vel á spöðunum og fara vel með fjármuni sveitarfélagsins, halda áfram niðurgreiðslu skulda og leita leiða til tekjuaukninga, t.d. af húsnæði í eigu sveitarfélagsins. Allar fjárfestingar þarf að ígrunda vel og leita jafnan hagkvæmustu leiða í framkvæmdum. Við viljum viðhalda háu þjónustustigi en forðast að auka það með þeim hætti að það feli í sér hækkun rekstrargjalda til lengri tíma nema á móti komi auknar útsvarstekjur með fjölgun íbúa. Við viljum virkt íbúalýðræði og að kosið verði um stærri mál sem taka þarf afstöðu til.

Smávirkjanir

Eins og staðan er í dag þá er ekki möguleiki á auknu rafmagni á okkar svæði, það getur verið slæmt bæði fyrir fyrirtæki og heimili. Að frumkvæði B-listans var á síðasta kjörtímabili unnin skýrsla um smávirkjanir í Dalvíkurbyggð. Sú skýrsla vakti athygli og skapaði miklar umræður um þá möguleika sem eru fólgnir í orkuöflun með smávirkjunum t.d. hér í Eyjafirði. Halda þarf áfram með athugun á virkjunarkostum og kanna áhuga á virkjunarframkvæmdum í sveitarfélaginu. Við viljum að Dalvíkurbyggð verði leiðandi í að aðstoða bændur og aðra landeigendur í Dalvíkurbyggð sem hafa áhuga á að koma á fót smávirkjun og lágmarka þannig þörf á varaafli frá 10 MW díselrafstöð, sem samkvæmt fréttum, á að koma upp í Höfðanum.

Félagsþjónusta

Dalvíkurbyggð veitir góða félagsþjónustu en hlutverk félagsþjónustunnar er meðal annars að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð á grundvelli samfélagshjálpar þannig að allir geti notið sín sem best í samfélaginu. Félagsþjónustan vinnur að forvörnum, mannréttindum og jafnréttismálum sveitarfélagsins. Málefni fatlaðra eru í góðum farvegi og boðið er uppá góða þjónustu í þeim efnum. Á teikniborðinu eru tvö raðhús við Lokastíg sem fara í byggingu á árinu, fyrir fatlaða einstaklinga. Þjónusta í félagsþjónustu er opin öllum íbúum sveitarfélagsins. B-listinn vill halda áfram góðu samstarfi við félagsþjónustuna í Fjallabyggð.

Stoðþjónusta þarf að vera þannig upp byggð að aldraðir og öryrkjar geti sem lengst búið við eðlilegt heimilislíf og verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Því viljum við að sá afsláttur af fasteignaskatti sem er ákveðinn árlega til elli- og örorkulífeyrisþega nýtist þeim sem rétt eiga til hans að fullu. B listinn vill að við skipulagsvinnu verði tryggt svæði við Dalbæ fyrir litlar íbúðir fyrir 60 ára og eldri þar sem íbúar gætu búið í eigin húsnæði og notið þjónustu sem er í boði á Dalbæ. Samráðsvettvangur Byggðaráðs og Félags eldri borgara verði áfram virkur og lífsreynsla og þekking hinna eldri nýtt öllum til auðgunar.

Fræðslu- og menningarmál

Við eigum framúrskarandi leik- og grunnskólaeiningar hér í Dalvíkurbyggð. Við viljum styðja vel við það góða og metnaðarfulla starf sem þar er unnið því börnin okkar eru framtíðin. Áfram verði unnið eftir stefnu um skóla án aðgreiningar og uppbyggingarstefnu. Stoðþjónusta verði efld með því að tryggja aðgang að sálfræði- og fjölskylduráðgjöf. B-listinn vill leita allra leiða til að leikskólar geti verið fyrir börn frá 9 mánaða aldri. B-listinn telur að Árskógarskóli sé mikilvægur til að laða að ungt fólk til búsetu á Árskógsströnd og vill að hann sé auglýstur sem valkostur fyrir alla íbúa sveitarfélagsins.

Tónlistarskóli Dalvíkur var sameinaður við Tónlistarskóla Fjallabyggðar á kjörtímabilinu undir nafni Tónlistarskólans á Tröllaskaga. B-listinn vill lýsa yfir ánægju sinni með skólann og vill stuðla áfram að góðri tónlistarkennslu í sveitarfélögunum.

Í sveitarfélaginu er gróskumikið og gott félags- og menningarstarf sem við viljum halda áfram að styðja vel við þar sem öflugt menningarlíf er mjög mikilvægur og auðgandi þáttur í hverju samfélagi.

Íþrótta- og æskulýðsmál

Mikilvægt er að sveitafélagið eigi gott samstarf við íþróttafélögin um uppbyggingu, endurbætur og rekstur íþróttamannvirkja og íþróttasvæða. B-listinn ætlar að fylgja því eftir að nýr knattspyrnuvöllur rísi eins og fram kemur í þriggja ára fjárhagsáætlun. Áfram verið unnið að heilsueflandi Dalvíkurbyggð og lýðheilsu og forvörnum sinnt áfram af krafti.

Félagsmiðstöðvar skapa stóran sess í lífi barna og ungmenna í öðrum aðstæðum en innan veggja skólanna og hjálpar þeim að þroskast í leik og starfi til framtíðar. Því vill B-listinn efla starf félagsmiðstöðvar Dalvíkurbyggðar í samráði við starfsfólk fræðslu og menningarsviðs. Ungmennaráð verði áfram virkt til að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um æskulýðsstefnu og málefni ungs fólks í byggðarlaginu.

Umhverfis- og skipulagsmál

Dalvíkurbyggð er snyrtilegt byggðarlag og hefur átakið „allt í lag fyrir Fiskidag“ stuðlað að betri umhverfisvitund og miklum metnaði fyrir fallegu og aðlaðandi umhverfi. Þjóðvegurinn í gegnum Dalvík þarfnast verulegs viðhalds og endurgerðar og sama má segja um vegina fram Skíðadal og Svarfaðardal, brýnt er að þrýsta á Vegagerð ríkisins til úrbóta.

Komið er að endurskoðun á aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar. B-listinn vill að í upphafi þeirrar vinnu verði haldið íbúaþing til að fá fram álit og áherslur íbúa byggðarlagsins. Hefja skal vinnu við deiliskipulag fyrir frekari íbúabyggð í þéttbýliskjörnum til að tryggja nægt framboð íbúða- og iðnaðarlóða. Gerð verði áætlun um átak í gerð göngustíga í Dalvíkurbyggð.

Veitur og hafnir

Hafnirnar eru lífæðar þéttbýliskjarnanna og við viljum sjá þar iðandi mannlíf og áframhaldandi uppbyggingu til eflingar atvinnulífs. B-listinn vill að haldið verði áfram uppbyggingu í kringum verbúðirnar og lagfært umhverfið frá ferjubryggju og að norðurgarði. Einnig vill B-listinn að áfram verði unnið að endurbótum við hafnirnar á Árskógsströnd og svæðin í kringum þær gert aðgengilegra fyrir útivist. Má þar nefna viðgerð á gömlu bryggjunni á Hauganesi. Þrýsta þarf á Vegagerðina að koma upp viðeigandi aðstöðu sem þjónar ferðamönnum sem eru á leið til Grímseyjar. Á kjörtímabilinu verði komið upp 1. stigs hreinsistöð við öll útræsi fráveitu í Dalvíkurbyggð.

Atvinnumál

Dalvíkurbyggð er líflegt landbúnaðarsvæði og við erum stolt af bændum byggðarlagsins, metnaði þeirra til uppbyggingar og dugnaði við að rækta og bæta sínar jarðir. Ferðaþjónustan og frumkvöðlastarf blómstrar um allt sveitarfélagið í höndum dugandi og drífandi einstaklinga. Íbúum sveitarfélagsins er tekið að fjölga aftur og við viljum stuðla áfram að þeirri jákvæðu þróun.

Tryggja þarf að vetrarþjónusta Vegagerðarinnar taki tillit til þeirra miklu uppbyggingar sem hefur orðið í Dalvíkurbyggð, sérstaklega með aukinni atvinnu í dreifbýlinu. Við fögnum fyrirhugaðri uppbyggingu Samherja á hátæknifrystihúsi og hlúa þarf vel að þeim sjávarútvegs- og iðnfyrirtækjum sem fyrir eru.

B-listinn vill leggja aukna áherslu á markaðssetningu sveitarfélagins Dalvíkurbyggð. Nú þegar er hafin vinna hjá sveitarfélaginu við gerð kynningarefnis og viljum við styðja við þá vinnu og halda því verkefni lifandi. Með markaðssetningu sveitarfélagsins viljum við annars vegar kynna byggðalagið sem einstakan búsetukost, með öllum þeim lífsgæðum sem hér eru til staðar, sem og þá kosti sem hér eru fyrir þá aðila sem hyggjast koma upp atvinnurekstri. Með ljósleiðaravæðingu, betri hafnaraðstöðu og aðgangi að 3ja fasa rafmagni um allt sveitarfélagið er svæðið mun betur í stakk búið til að laða að ný atvinnutækifæri og fjölbreyttari störf.