Atvinna

Atvinnu- og efnahagsmál

  • Framsókn leggur áherslu á áframhaldandi átak á fasteignamarkaði með almennu og félagslegu húsnæði.
  • Framsókn leggur áherslu á stórátak í uppbyggingu innviða og fjárfestingu ríkisins í innviðum á komandi árum.
  • Framsókn vill að húsnæðisliðurinn verði tekinn úr útreikningi vísitölu neysluverðs hér á landi.
  • Framsókn vill leita leiða til að mæta ástandi í efnahagsmálum heimsins.
  • Framsókn vill nota skattkerfið enn frekar til jafna lífskjör landsmanna enn frekar.
  • Framsókn vill að fólki sé gefinn kostur á að hafa sveigjanleg starfslok miðað við heilsufar og getu einstaklinga.
  • Framsókn vill tryggja fjölbreyttar og sveigjanlegar  lausnir á húsnæðismarkaði.
  • Framsókn vill efla efnahagslífið til að skjóta fleiri stoðum undir innlenda verðmætasköpun svo sem uppbyggingu í skapandi greinum.
  • Framsókn vill efla kvikmyndagerð á Íslandi og hækka endurgreiðslur á kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis í 35%.
  • Framsókn vill hvetja til enn frekari fjárfestinga á sviði hugverkaiðnaðar með fjárfestingastuðningi við stærri verkefni sem skapa verðmæti og störf fyrir þjóðina.
  • Framsókn vill styrkja Tækniþróunarsjóð og bæta skattaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja sem og frumkvöðla.
  • Framsókn er málsvari atvinnulífs í landinu og vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samhliða því er nauðsynlegt að taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja. Hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 m.kr. á ári þarf að skattleggja hærra til á móti lækkuninni til að hún dragi ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi.
  • Framsókn vill nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni. Þannig er það notað til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

 

Efnahags- og ríkisfjármál

Örugg stjórn ríkisfjármála  gerir  það að verkum að ríkissjóður er  vel í stakk búin fyrir efnahagsleg högg. Samspil öruggrar efnahagsstefnu ríkisins ásamt uppbyggingu atvinnulífsins sker úr um hversu vel tekst til við kerfjandi aðstæður. 

Framsókn hefur í gegnum árin lagt áherslu á að blandað hagkerfi sé skynsamlegasta leiðin til að tryggja hagsæld fólksins í landinu. Íslenska hagkerfið þarf að vera stöðugt, gagnsætt og traust. Fyrirtækjum og einstaklingum þarf að vera búið starfsumhverfi þar sem frumkvæði, dugnaður og samfélagslegt réttlæti eru í hávegum höfð. Regluverk þarf að vera einfalt og skilvirkt. Skattaumhverfi einfalt, réttlátt og samkeppnishæft við önnur lönd. Stöðugt umhverfi er forsenda þess að einstaklingar og fyrirtæki geti gert langtímaáætlanir.

Fjármálakerfið

Framsókn leggur áherslu á hagsmuni neytenda og skattgreiðenda við skipulagningu fjármálakerfisins og að stjórnvöld veiti fjármálakerfinu aðhald og eftirlit

Einfalt og réttlátt skattaumhverfi

Framsókn vill endurskoða skattkerfið með það fyrir augum að nýta tekjuskattskerfið í auknu mæli til tekjujöfnunar, m.a. með breytingum á persónuafslætti. Lagt er til að tekið verði upp tekjuskattskerfi þar sem persónuafsláttur fer lækkandi með hækkandi árstekjum og falli niður við tiltekna upphæð árstekna. Það myndi gera ríkinu kleift að nýta aukið fjármagn til hagsbóta fyrir hina tekjulægstu án aukinna fjárútláta úr ríkissjóði. Um tilfærslu milli tekjuhópa væri að ræða. Við þessar breytingar þarf samhliða að skoða skattlagningu fjármagnstekna.

Skattaeftirlit

Efla þarf skattaeftirlit til að draga úr svartri atvinnustarfsemi og til eflingar á baráttunni gegn skattasniðgöngu fólks og fyrirtækja gegnum aflandsfélög og lágskattasvæði eða með öðrum hætti. Skoða þarf alla möguleika til að hamla svartri starfsemi þar með talið að draga úr eða takmarka magn reiðufjár í umferð. Framsókn vill koma á aukinni samhæfingu í  eftirliti. Slíkar aðgerðir myndu auka tekjur ríkissjóðs og tryggja þar með aukið fjármagn til uppbyggingar íslensks velferðarþjóðfélags án frekari álags eða skattahækkana á þá einstaklinga sem samviskusamlega greiða skatta samkvæmt gildandi reglum.

Treystum umgjörð krónunnar

Mikilvægt er að gengi krónunnar fái að þróast í samræmi við þarfir raunhagkerfisins. Framsókn vill að Seðlabankinn beiti þjóðhagsvarúðartækjum til að draga úr hættu á að spákaupmennska og vaxtamunaviðskipti hafi óæskileg áhrif á gengi krónunnar.

Lífeyrissjóðskerfið

Umfang lífeyrissjóðskerfisins er orðið meira en ein og hálf landsframleiðsla þjóðarinnar. Framsókn vill tryggja að lífeyrissjóðskerfið þjóni tilgangi sínum og að starfsemi þeirra breytist í takt við þróun samfélagsins og breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar.. Mikilvægt er að lífeyrissjóðir sýni samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum sínum með sjálfbærni að leiðarljósi.

Lífeyrissparnaður fyrir húsnæðiskaup

Framsókn vill tryggja að heimild fólks til að nýta viðbótarlífeyrissparnað til húsnæðiskaupa verði fest í sessi. Framsókn vill að frekari skref verði stigin við að heimila nýtingu á viðbótarlífeyrissparnaði og hluta almenns lífeyrissparnaðar til húsnæðiskaupa hér á landi.

Uppbygging innviða og opinber fjárfesting

Framsókn leggur áherslu á stórátak í uppbyggingu innviða og fjárfestingu ríkisins í innviðum á komandi árum. Sérstök áhersla verði lögð á raforkumál, samgöngumannvirki og orkuskipti. Unnið verði að nýjum verkefnum og þeim flýtt sem þegar eru á áætlun. Framsókn vill að lífeyrissjóðirnir fái aukin tækifæri á því að fjárfesta í innviðauppbyggingu á vegum ríkisins og einnig verði leitað samstarfs við einkaaðila þar sem það á við.

Viðspyrna á grunni opinberra fjármála

Framsókn leggur áherslu á öfluga viðspyrnu á grunni opinberra fjármála í samstarfi við sveitarfélög, aðila á vinnumarkaði og Seðlabankann. Átak hefur verið boðað í fjármálaáætlun 2021-2025 sem mjög mikilvægt er að gangi eftir. Því leggur Framsókn þunga áherslu á ábyrgð og pólitískan stöðugleika á komandi kjörtímabili.

Átak á fasteignamarkaði

Framsókn leggur áherslu á áframhaldandi átak á fasteignamarkaði. Ríkari áhersla verði á framboðshlið markaðarins í samstarfi við sveitarfélög og tryggt að nægilegt magn húsnæðis komist á markað ár hvert til að mæta íbúaþróun landsins. Þá verði áfram unnið að verkefninu ‘Tryggð byggð’ á komandi árum. Einfalda þarf regluverk á þessu sviði eins og kostur er til að greiðar gangi að tryggja nauðsynlegt framboð um land allt. Framsókn vill tryggja fjölbreyttar og sveigjanlegar  lausnir um allt land sem er í takti við þarfir fólks.

Framsókn telur að slík stefna um stöðu og aðstæður lítilla og meðalstórra fyrirtækja þurfi að innihalda þrennt:

  • Aukin stuðning hins opinbera við lítil og meðalstór fyrirtæki með því að taka upp þrepaskipt tryggingagjald, þar sem tryggingagjald á lítil og meðal stór fyrirtæki verð lækkað umtalsvert af fyrstu 200 m.kr. í launaveltu (þ.e. stofni til tryggingagjalds) og að sett verði hærra þrep á launaveltu þar fyrir ofan. Framsóknarflokkurinn telur þó mikilvægt að lágmarksviðmiðun fyrir neðra gjaldið verði sá hluti núverandi tryggingagjalds, sem er beint tengdur við réttindi fólks á vinnumarkaði eins og atvinnuleysisbætur, ábyrgðar sjóður launa, starfsendurhæfing og fæðingarorlof.
  • Samhliða þessum breytingum á tryggingagjaldi telur Framsóknarflokkurinn nauðsynlegt að taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja, hátekjuskatt, þannig að fyrirtæki greiði hærri skatta af hreinum hagnaði umfram 200 m.kr. á ári til að fjármagna fyrrgreinda lækkun tryggingagjalds þannig að lækkun hans dragi ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi.
  • Lögð verði áhersla á að tekið sé tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu ýmissa smærri opinberra gjalda, sem nú eru í formi flatra gjalda og/eða skatta, svo sem gjöld vegna starfsleyfa og úttektum eftirlitsaðila. Þó þessi smærri gjöld skipti litlu máli í heildarsamhenginu er ljóst að þau geta verið íþyngjandi fyrir smærri fyrirtæki, einkum í upphafi reksturs.
Samkeppnishæfni atvinnulífsins

Hagkerfi Íslands er örhagkerfi, í alþjóðlegu samhengi, sem slíkt er það Íslandi mjög mikilvægt að vera samkeppnishæft á alþjóðamarkaði. Aðeins með þeim hætti er hægt að tryggja jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð og aukinn hagvöxt hér á landi. Framleiðni hefur ekki verið í takt við launaþróun síðastliðin ár, ef sú þróun heldur áfram mun það bitna verst á launþegunum sjálfum. Tryggja þarf að bein tengsl séu á milli framleiðni íslensks vinnuafls og launaþróunar svo að íslensk fyrirtæki séu samkeppnishæf á alþjóðamarkaði sem er megin forsenda fyrir framtíðar hagsæld hér á landi.

Menntun fyrir atvinnulífið

Framsókn vill að ríkið stuðli markvisst að því að tryggja að framboð menntunar sé í takt við þarfir atvinnulífsins á hverju svæði og að menntastofnanir hafi skilgreint hlutverk við að mæta þeim. Mikilvægt er að skipulagning náms byggi á greiningu á menntunarþörf, mannaflaspám og vinnumarkaðsrannsóknum svo að menntun íslenskra ungmenna sé hagnýtanleg á vinnumarkaði.

Jafnframt þarf að tryggja að tengsl séu við atvinnulífið á öllum menntunarstigum. Byggja þarf brú á milli skóla og atvinnulífsins meðan á námi stendur til að auðvelda ungu fólki aðgengi að vinnumarkaði eftir að námi lýkur. Einnig þarf að tryggja auðveldar leiðir fyrir fólk sem fellur einhverra hluta vegna af vinnumarkaði greiðfæra endurmenntunarmöguleika sem kemur þeim fljótt og örugglega út á vinnumarkaðinn aftur.

Atvinnuþátttaka

Atvinnuþátttaka allra vinnufærra einstaklinga er ekki aðeins þjóðhagslega mikilvæg heldur einnig félagslega mikilvæg. Mikilvægt er að gefa sem flestum tækifæri á að nýta starfskrafta sína með viðeigandi hætti. Samfélagslegur ávinningur er mikill þar sem félagsleg vandamál eru minni við eðlilega atvinnuþátttöku.

Framsókn vill að ríkið setji af stað varanleg verkefni á borð við ráðningastyrki, sem koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi, og stuðla þar með að virkni sem kemur í veg fyrir félagsvandamál. Auk þess þarf að auka samvinnu og skilvirkni á milli stofnana sem annast þjónustu við atvinnuleitendur og annað vinnufært fólk utan vinnumarkaðarins með það að leiðarljósi að þjálfa og/eða endurmennta einstaklinga til að auka möguleika þeirra á vinnu við sitt hæfi.

Jafnframt vill Framsókn að fólki sé gefinn kostur á að hafa sveigjanleg starfslok miðað við heilsufar og getu einstaklinga. Yfirfara þarf reglur sem gilda um lífeyrisréttindi í því skyni að tryggja að atvinnuþátttaka eldri starfsmanna á vinnumarkaði verði ekki til þess að lífeyrisréttindi viðkomandi skerðist.

Nýsköpun

Framsókn vill efla uppbyggingu nýrra atvinnugreina um allt land. Eigi slík uppbygging að eiga sér stað er mikilvægt að huga að umhverfi nýsköpunar, fjármögnunarmöguleikum sprotafyrirtækja, menntun þjóðarinnar og regluverkinu sem sprotafyrirtæki og atvinnulífið í heild vinnur við.

Uppbygging klasa

Mikilvægt er að stjórnvöld og atvinnulífið hafi opinn huga gagnvart fjölþættri uppbyggingu, að ekki sé lokað á uppbyggingu iðnaðar sem er minna þekktur hér á landi svo að klasastefnan geti ýtt undir fjölbreytta atvinnuvegi. Framsókn vill því að hvatt sé til myndunar klasa á ólíkum sviðum vítt og breitt um landið með fjármagni til aðstöðu og innviða.

Nýsköpun fyrir umhverfið

Framsókn telur mikilvægt að sérstaklega verði ýtt undir nýsköpun og fjárfestingu þar sem um er að ræða verkefni og iðnað sem byggja á sjálfbærni, umhverfisvænum lausnum, fullvinnslu hráefnis og styðja við orkuskipti.

Fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja

Fjármögnun sprotafyrirtækja er erfitt ferli hér á landi, en auknir fjármögnunarmöguleikar eru grundvöllur þess að nýsköpun nái góðri fótfestu og skili arðbærum fyrirtækjum sem auka hagvöxt. Löggjöfin þarf að ýta undir að fyrirtæki, lífeyrissjóðir og einstaklingar fjárfesti í auknu mæli í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Framsókn leggur til að skattaafsláttur einstaklinga sem kaupa hlutafé í sprotafyrirtækjum verði að varanlegu ákvæði í skattalögum. Hagrænn ábati slíks fyrirkomulags getur orðið gífurlegur þar sem fjárfestingarnar fara í flestum tilfellum í að greiða laun og launatengd gjöld stofnenda og starfsmanna fyrirtækjanna. Fjármagnið skilar sér því beint inn í hagkerfið aftur. Auk þess sem fjármagnið stuðlar að því að hægt sé að skapa arðbær fyrirtæki í kringum nýsköpunarhugmyndir.

Ýta þarf undir frekari nýsköpun með fjölbreyttari styrkjamöguleikum fyrir sprotafyrirtæki.  Það stuðlar að minni efnahagssveiflum vegna breytinga einstakra atvinnuvega.

Framsókn vill að bætt sé við flokki í viðmiðunarreglum reiknaðs endurgjalds hjá Ríkisskattstjóra fyrir sprotafyrirtæki. Ein helsta leið frumkvöðla til að fjármagna fyrirtæki sín á allra fyrstu árum er með eigin framlagi til fyrirtækisins. Nýr flokkur myndi gera frumkvöðlum kleift að halda niðri þróunarkostnaði þar til nægt fjármagn næst til verkefnisins án þess að missa réttindi á vinnumarkaði. Eins og staðan er í dag þurfa frumkvöðlar að reikna sér samkeppnishæf laun of snemma í þróunarferlinu sem aftrar oft uppgangi fyrirtækjanna á fyrstu þróunarstigum.

Auka þarf fjármagn til helstu nýsköpunarsjóða, s.s. Tækniþróunarsjóðs. Síðastliðin ár hafa verkefni sem hafa sterkar grunnstoðir og góða vaxtarmöguleika ekki hlotið styrk vegna skorts á fjármagni.

Orkumál

Íslenskt hugvit hefur leitt til þess að Ísland er í fremstu röð er kemur að nýtingu endurnýjanlegrar orku, en hingað til lands kemur fólk hvaðanæva að úr heiminum til að sjá og læra af reynslu okkar. Framsókn vill að Ísland verði áfram í fararbroddi er kemur að þróun endurnýjanlegra orkugjafa. Þá vill Framsókn einnig að Ísland verði fremst er kemur að orkuskiptum. Innlendar auðlindir eru þar verulegt forskot og ber að nýta með ábyrgum hætti. Framsókn telur að nýta eigi þá orku sem framleidd er hérlendis til innlendrar verðmætasköpunar og eflingar samkeppnishæfni Íslands á alþjóðamarkaði. Raforka er undirstaða fjölbreytts atvinnulífs, lífsgæða og verðmætasköpunar hér á landi.

Endurnýjanleg orka fyrir framtíðina

Framsókn vill tryggja að stjórnvöld ýtir undir nýsköpun og fjárfestingu á sviði endurnýjanlegrar orku, enda er framþróun á þessu sviði og orkuskipti grundvöllur hagvaxtar í jafnvægi við umhverfið. Framsókn vill leggja sitt að mörkum til að hraða fyrir þessum breytingum.

Framsókn telur mikilvægt að stutt sé við fjölbreytta þróun á endurnýjanlegri orku. Ljóst er að orkunýting hefur aukist til muna ár frá ári og mun koma til með að aukast enn frekar í takt við aukna tæknivæðingu heimsins. Mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa mun því aðeins aukast.

Hátækni hefur umturnað heiminum á síðustu árum. Mikil tækifæri eru á Íslandi er kemur að aukinni þátttöku Íslendinga og íslenskra fyrirtækja í þessari þróun þar sem menntunarstig þjóðarinnar er með því hæsta sem gerist og grundvöllur frekari þróunar byggir á hugviti. Framsókn vill því að ýtt sé undir aukna framþróun á því sviði hér á landi til að tryggja aukna hagsæld þjóðarinnar til lengri tíma.

Innviðir orkuskipta

Framsókn vill að stjórnvöld hraði orkuskiptum með uppbygging nauðsynlegra innviða til orkuskipta. Horft er t.d. til raforku- og vetnisknúinna skipa sem krefst þess að slíkir innviðir séu við helstu hafnir landsins. Rafbílavæðing krefst einnig uppsetningar á hleðslustöðvum hringinn í kringum landið, svo tryggt sé að fólk geti ferðast um land allt á rafknúnum farartækjum með tryggum hætti.

Jarðhitaleit og varmanýting

Framsókn vill tryggja Orkusjóði aukið fjármagn svo að fleiri sveitarfélög geti lagst í jarðhitaleit og varmanýtingu, sérstaklega á köldum svæðum. Jarðhitaleit er umfangsmikil framkvæmd sem oft á tíðum er áhættu- og kostnaðarsöm fyrir lítil sveitarfélög. Á sama tíma er slík leit mikið hagsmunamál fyrir byggðir landsins. Mikilvægt er að tryggja sjóðnum nauðsynlega fjármuni svo sveitarfélögin á landsbyggðinni geti ráðist í slíkar framkvæmdir.

Raforkuöryggi

Ótrygg afhending raforku hringinn í kringum landið stendur atvinnulífi og orkuskiptum fyrir þrifum, skapar mikinn kostnað, veldur óþægindum í heimilisrekstri og daglegu lífi fólks. Framsókn vill tryggja raforkuöryggi í landinu en afhending raforku er ein af lykilstoðum innviða. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu, samfélaga og orkuskipta verði í landinu. Framsókn vill flýta þrífösun rafmagns um land allt. Vísað er einnig til stefnu í samgöngumálum þar sem m.a. er fjallað um nauðsyn þess að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins. Þar eru samlegðaráhrif.

Landsvirkjun

Framsókn leggst alfarið gegn sölu á Landsvirkjun, að hluta eða að öllu leyti. Almenningur á að njóta hins mikla arðs sem Landsvirkjun mun skila um ókomin ár. Brýnt er að tengja arðgreiðslur við auðlindina. Landsvirkjun gegnir lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar til hagsældar fyrir íslenska þjóð.

Sjávarútvegur

Auðlindir hafsins eru sameign íslensku þjóðarinnar. Sjávarútvegur er ein af grundvallar atvinnugreinum þjóðarinnar og þýðing hans fyrir efnahag landsins er ótvíræð.

Mikilvægt er að sjávarútvegurinn uppfylli þau þrjú skilyrði sem sett voru í lög um stjórn fiskveiða til þess að um greinina ríki sátt. Í fyrsta lagi að auðlindin sé nýtt á sjálfbæran hátt, í öðru lagi að nýting auðlindarinnar sé arðbær og skili arði til þjóðarinnar og í þriðja lagi að treysta atvinnu og byggð um land allt. Þýðingarmikið er að gagnsæi sé á eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja.

Ábyrg byggðaúrræði

Byggðaúrræði fiskveiðistjórnunarkerfisins þarf að nýta áfram á ábyrgan hátt. Þær aflaheimildir sem ríkið hefur árlega til afnota til atvinnu-, félags- og byggðaúrræða þurfa að vera markvisst nýtt til að tryggja byggðafestu í viðkvæmustu byggðunum

 Allar tegundir sjávarfangs

Mikilvægt er að regluverk um allar tegundir sjávarfangs sé skýrt til að tryggja aukna arðsemi af fjölbreyttri nýtingu þeirra auðlinda sem finnast í hafinu við Ísland.

Á síðustu árum hefur gróska aukist í rannsóknum og þróun á fullnýtingu sjávarafla, en ekki síður á lífmassa úr hafinu. Sérstaklega má nefna rannsóknir á sjávagróðri og sjávardýrum eins og t.a.m. þangi og þörungum, krabba- og skeldýrum svo dæmi séu tekin. Þónokkrir aðilar víða um land hafa tekið fyrstu skref í þessum rannsóknum og þróun. Á landsbyggðinni eru að verða til þróunar og nýsköpunarsetur sem, með tíð og tíma, í samstarfi við skóla og öflugar stofnanir, geta orðið mikilvægir þættir í þróun atvinnulífs.

Framsókn leggur áherslu á að auka fyrirsjáanleika fyrir þá sem stefna á aukna nýtingu nýrra eða minna nýttra tegunda sjávarfangs.

 Fiskeldi

Fiskeldi hefur byggst upp hér á landi á undanförnum áratug. Mikil vinna hefur farið fram í umgjörð og lagaumhverfi um greinina enda mikilvægt ef hún á að þrífast í sátt við umhverfið og samfélagið. Ætla má að en frekari uppbyggingar sé að vænta bæði í sjókvíaeldi og landeldi. Eignarhald laxeldisfyrirtækja á Íslandi hefur þróast þannig að mikil samþjöppun hefur orðið, sem getur leitt til þess að fáein fyrirtæki verði allsráðandi og reynsla frumkvöðla hér á landi verði metin. Mikilvægt er að við horfum til þróunar í nágrannalöndum og nýtum okkur þá reynslu sem þar hefur orðið til svo að hægt verði að byggja upp öfluga starfsemi hér á landi.

Framsókn vill ná sátt um uppbyggingu og starfsemi fiskeldis á Íslandi. Slík sátt næst aðeins með virku eftirliti og rannsóknum ásamt tryggu regluverki og vísindalegu áhættumati. Sjókvíaeldi er stundað á afmörkuð svæði á landi sem sett var í lög árið 2004.

Mikilvægt er að eftirlit og rannsóknir með fiskeldi sé virkt ásamt tryggu regluverki og tryggt sé að til þess bærir vísindamenn séu fengnir til að rýna aðferðafræði sem Hafrannsóknastofnun notar við mat á burðarþoli og við gerð áhættumats og eftirlit með landeldi. Tryggja þarf að eftirlitsaðilar séu staðsettir í nálægð við starfsemina. Auk þess þarf að tryggja að starfsemi félaga í kringum fiskeldi taki mið af umhverfis- og byggðasjónarmiðum. Stjórnvöld eiga að tryggja umgjörð sem byggir á ströngum umhverfisreglum og heilbrigðisstuðlum og tryggja að þegar að fyrirtæki hafa uppfyllt allar kröfur stjórnvalda, haldi þau leyfi sem gefin eru út. Með ströngu en skilvirku lagaumhverfi getum við skapað framtíðaratvinnugrein grundvöll öllum til ábata. Mikilvægt er að við horfum til þróunar í nágrannalöndum og nýtum okkur þá reynslu sem þar hefur orðið til svo að hægt verði að byggja upp heilbrigða starfsemi hér á landi

Gjaldtaka af fiskeldi

Mikilvægt er að stjórnvöld skapi regluverk um fiskeldi þar sem gert er ráð fyrir sanngjarnri gjaldtöku af þessum takmörkuðu gæðum og sanngjarnri skiptingu tekna. Þar sem hér er um að ræða nýja og stóra atvinnugrein er brýn þörf á að yfirfara laga– og reglugerðaumhverfi í heild, sérstaklega það sem snýr að sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað, og skýra heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku. Tryggja þarf að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir verkefnum sveitarfélaga ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem þessi atvinnustarfsemi er stunduð.

Landbúnaður, landnýting og matvælaöryggi

Áhersluatriði

  • Framsókn vill standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi með dyggum stuðningi við íslenska matvælaframleiðslu sama í hverju hún felst.
  • Framsókn leggur mikla áherslu á að viðhalda áframhaldandi stöðu Íslands í fremstu röð í  vörn gegn sýklalyfjaónæmi. Forskot innlends landbúnaðar liggur ekki síst í lítilli lyfja- og varnarefnanotkun samanborið við flest önnur ríki.
  • Framsókn vill stórefla nýsköpun í matvælaframleiðslu og landnýtingu. Stefna ber að því að öll landnýting og ræktun sé sjálfbær og stuðningur hins opinbera þarf í meira mæli að beinast að því að efla fjölbreytta ræktun og landnýtingu, þar með talið kolefnisbindingu.
  • Jafna þarf samkeppnisstöðuna betur með því að heimila frumframleiðendum samstarf eins og þekkist í öllum Evrópulöndum og afurðastöðvum í kjöti sams konar samstarf og í mjólkurframleiðslu. Bændum ætti að heimila slátrun og vinnslu að undangengnu áhættumati og nauðsynlegri fræðslu.
  • Gagnvart innflutningi þarf að endurskoða tollasamning við ESB vegna forsendubrests m.a. eftir útgöngu Bretlands úr sambandinu. Þá þarf að efla tolleftirlit verulega og gera sambærilegt og þekkist í samanburðarríkjum.
  • Framsókn vill styðja betur við landgræðslu og skógrækt til að mæta betur skuldbindingum okkar í loftslagsmálum.
  • Framsókn vill hvetja til og auðvelda nýliðun í landbúnaði og stuðla þannig að jákvæðari byggðaþróun um land allt.

Tryggja þarf samkeppnishæf rekstrarskilyrði fyrir íslenskan landbúnað með endurskipulagningu á regluverki, eftirliti og stýringu með þeim hætti að skipulagningin ýti undir nýsköpun. Sveigjanleiki þarf að vera til staðar til að aðlagast breytingum og auka verðmætasköpun greinarinnar, í góðri sátt við umhverfi og samfélag til að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar til framtíðar.

Búvörusamningar

Framsókn leggur áherslu á að matvælaöryggi þjóðarinnar sé tryggt með samningum á milli ríkisins og bænda. Það er frumskilyrði hvers samfélags að tryggja íbúum næg holl matvæli á viðráðanlegu verði.

Stjórnsýsla

Vegna mikilvægis landbúnaðar fyrir matvæla- og fæðuöryggi og lykilhlutverks landbúnaðar í loftlags- og umhverfismálum er nauðsynlegt að stjórnsýsla landbúnaðar, landnýtingar og matvæla- og fæðuöryggis  sé undir einu ráðuneyti.

Matvælaeftirlit

Framsókn leggur til að breytingar verði gerðar á reglum varðandi eftirlit með landbúnaði og matvælaframleiðslu, með það að markmiði að einfalda regluverk og draga úr kostnaði. Eftirlitið byggi á áhættumati sem sé í samræmi við umfang og áhættu sem felst í tiltekinni framleiðslu og  dreifingu.

Matvæli beint frá bónda

Framsókn vill auka möguleika bænda á að byggja upp sérstöðu. Einfalda þarf regluverk vegna heimavinnslu og smásölu á matvælum og auðvelda þannig bændum að framleiða og selja matvæli beint frá býli.

Upprunamerkingar

Framsókn vill tryggja rekjanleika íslenskra matvæla.  Koma þarf til móts við kröfur neytenda með öflugri upprunamerkingu matvæla.

Opinber innkaup

Framsókn vill að við innkaup fyrir mötuneyti skóla og annarra opinberra stofnana sé ávallt leitast við að velja íslenskar vörur þar sem mögulegt er.  Einnig er mikilvægt að skólarnir fræði börn og unglinga um mikilvægi neyslu íslenskra matvæla út frá heilsufars-, sjálfbærni- og umhverfissjónarmiðum og íslenskum efnahag.

Fjölbreytt landbúnaðarframleiðsla

Mikilvægt er að framleiðsla matvæla hér á landi sé í takt við eftirspurn. Framsókn leggur því til að sérstakur hvati verði settur upp fyrir framleiðendur sem hyggja á framleiðslu matvöru sem skortur er á hér á landi. Mikil sóknarfæri eru t.d. í framleiðslu á korni og grænmeti.

Framsókn vill að leitað verði fjölbreyttra leiða til að efla innlenda fóður- og áburðarframleiðslu og nýta þau tækifæri sem felast í jarðhita og orkuskiptum með rafvæðingu á tækjaflotanum.

Nýsköpun í landbúnaði

Hvetja þarf til nýsköpunar í landbúnaði og tryggja að regluverk hamli henni ekki. Nýsköpun í landbúnaði ætti að ýta undir fjölbreyttari framleiðslu og meiri fullvinnslu og fullnýtingu á matvælum. Samhliða þarf að huga að nýtingu afurða sem ekki nýtast til manneldis, bæði til að auka verðmæti á framleiðsluvörum bænda og vegna sjálfbærni- og umhverfissjónarmiða. Horfa skal til þeirrar þróunar sem orðið hefur í fullvinnslu sjávarafurða hér á landi síðustu ár sem hefur aukið arðsemi greinarinnar.

Sérstaða íslenskra matvæla

Sérstaða íslenskra matvara er mikil en lyfja- og eiturefnanotkun í landbúnaði á Íslandi er með því minnsta sem þekkist í heiminum, auk þess sem notkun vaxtarhormóna er bönnuð. Það er risastórt heilbrigðismál að komið sé í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi með ströngum ráðstöfunum, en við sjáum að sýklalyfjaónæmi er ört vaxandi ógn í heiminum. Draga þarf markvisst fram sérstöðu íslenskra matvæla með áherslu á rekjanleika, heilnæmi og gæði.

Byggja þarf upp vörumerki íslenskra matvæla sem ábyrgrar vöru í efnahagslegu, heilbrigðis- og umhverfislegu tilliti þar sem hreinleiki íslenskrar náttúru og sérstaða íslenskrar matvöru er í hávegum höfð.

Sjálfbær og umhverfisvæn landbúnaðarframleiðsla

Framsókn leggur áherslu á mikilvægi þess að matvælaframleiðsla hverju sinni sé sjálfbær og gangi ekki á náttúruleg gæði. Tryggja þarf að reiknað sé kolefnisspor fyrir íslenska framleiðslu og auka þannig samkeppnishæfni hennar. Mikilvægt er að dregið sé úr kolefnislosun í landbúnaði með öllum tiltækum ráðum, s.s. með betri áburðarnýtingu og orkuskiptum í landbúnaði. Áhersla verði lögð á að spornað verði með öllum tiltækum ráðum gegn grænþvotti, sem getur birst sem t.d. falskar eða misvísandi vottunarmerkingar.

Mikilvægt er að varðveita líffræðilega fjölbreytni og standa vörð um fjölbreytt vistkerfi landsins.

Tollvernd

Framsókn leggur áherslu á að staðið verði við ákvæði samkomulags um tollvernd. Þróun tollverndar þarfnast skoðunar í kjölfar skýrslu sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Forsendur fyrir tollasamningi Íslands og ESB sem tók gildi í maí 2018 eru brostnar, sérstaklega hvað varðar útflutning búvara. Við endurskoðun samningsins verður að auka jafnvægi milli skuldbindinga samningsaðila út frá ávinningi af honum.  Nýta skal þau tækifæri sem gefast til útflutnings búvara m.a. á grundvelli tollasamninga, landfræðilegrar sérstöðu og hreinleika Íslands og íslenskrar matvöru.

Innflutningur búvara

Framsókn leggur áherslu á að sömu gæðakröfur verði gerðar til innfluttra matvæla frá Evrópska efnahagssvæðinu og gerðar eru til íslenskra matvæla, enda er markmið með EES samningnum að tryggja sambærileg samkeppnisskilyrði. Tryggja þarf að ekki sé flutt inn kjöt af dýrum sem alin eru við lakari aðstæður, en kröfur eru gerðar um hér á landi.

Neytendur eiga rétt á að vita við hvaða aðstæður og aðbúnað matur, innlendur sem erlendur, er framleiddur. Bregðast þarf við kröfum neytenda um að upplýst sé um magn vaxtarhvetjandi lyfja, hormóna og sýklalyfja sem notaðar eru við framleiðslu.

Ferðaþjónusta

Áhersluatriði

  • Ráðast þarf í átak í innviðauppbyggingu í ferðaþjónustu til þess að vernda náttúru landsins og tryggja jákvæða upplifun ferðamanna
  • Mikilvægt er að innviðir í ferðaþjónustu séu byggðir upp á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt
  • Framsókn leggur áherslu á að ekki skuli lokað fyrir aðgengi að landsvæðum nema brýna nauðsyn beri til
  • Framsókn leggur til að sértæk gjaldtaka skuli heimil til að tryggja uppbyggingu innviða og þjónustu á ferðamannastöðum
  • Gera skal kröfu til þess að erlend fyrirtæki í ferðaþjónustu starfi í samræmi við íslensk lög og markvisst sé því unnið gegn félagslegum undirboðum

Ferðaþjónustan hefur skapað mikinn gjaldeyri og fjölda starfa á öllu landinu og er ráðandi afl við mótun orðspors landsins auk þess sem hún styrkir aðgengi annarrar atvinnustarfsemi að markaðssetningu á erlendri grundu. Mikilvægt er að tryggja að markaðssetning Íslands, íslenskrar ferðaþjónustu og íslenskrar vöru sé ávallt unnin af fagmennsku.  Heildstæð uppbygging vörumerkisins Ísland með þeim hætti mun skila miklum þjóðhagslegum ábata fyrir landið. Setja þarf ferðaþjónustunni skýr markmið í umhverfismálum og fara í markvisst átak svo tryggja megi að við getum tekið á móti fjölda ferðamanna án þess að ganga á gæði landsins.

Framsókn vill auka möguleika á búsetu og störfum á öllu landinu og þar gegnir ferðaþjónustan lykilhlutverki á komandi árum. Fyrirtæki í eigu heimamanna, lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki, á hverjum stað eru grundvöllur fyrir því að samfélögin í kring blómstri vegna uppbyggingar þeirra og atvinnuframboðs. Fyrirtækin skila ábata inn í samfélögin og skapa grundvöll til frekari uppbyggingar þjónustu og annarrar starfsemi á svæðinu..

Heildstætt skipulag

Framsókn leggur áherslu á að ekki skuli lokað á aðgengi að stórum hluta landsins, eða einstökum landsvæðum nema brýna nauðsyn beri til. Mikilvægt er byggt sé upp heildstætt skipulag ferðaþjónustu hér á landi til að koma í veg fyrir átroðning og neikvæð umhverfisáhrif. Það er hagur bæði ríkis og sveitarfélaga að skapa heildstæða áætlun um landnýtingu og stýringu ferðamanna um landið.

Aðgangsstýring með sértækri gjaldtöku

Nýta skal aðgangsstýringu í formi sértækrar gjaldtöku á þeim svæðum þar sem ágangur er mikill og uppbygging og viðhald innviða kostnaðarsöm. Slík gjaldtaka tryggir staðbundnar tekjur sem renna ættu að stærstum hluta til þeirra aðila sem sjá um uppbyggingu og verndun svæðisins. Rétt útfærsla myndi tryggja fjármagn til uppbyggingar nauðsynlegra innviða á svæðunum með öryggi, upplifun og náttúruvernd að leiðarljósi.

Rétt útfærsla á staðbundinni aðgangsstýringu myndi stuðla að dreifingu ferðamanna bæði um landið og yfir árið. Gjaldtaka af þessu tagi gæti þannig orðið að verkfæri sem gerir ríki, sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum kleift að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar með ábyrgari og árangursríkari hætti með tryggri fjármögnun.

Fleiri gáttir til landsins

Framsókn leggur áherslu á styrkingu millilandaflugs um Akureyri og Egilsstaði til að auka dreifingu ferðamanna um landið. Slíkt er ekki aðeins nauðsynlegt til að styrkja ferðaþjónustu utan SV-hornsins heldur beinlínis öryggismál. Tryggja þarf samkeppnishæfni flugvallanna m.t.t. aðstöðu, lendingargjalda og eldsneytisverðs.  Byggja þarf upp samhæft samgöngunet í landinu, sem tengir saman innlent og alþjóðleg samgöngunet, hvort heldur sem er flug eða áætlunarferðir á sjó og landi.

Stjórnsýsla ferðamála

Mikilvægt er að endurskoða starfsumhverfi ferðaþjónustunnar með það að markmiði að það sé samkeppnishæft. Einfalda þarf rekstrarumhverfið, auka skilvirkni og hvetja til aukinnar nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi í greininni. Skoða þarf sérstaklega hvort ekki sé hægt að gera stjórnsýslu sem lýtur að ferðaþjónustu skilvirkari með sameiningu stofnana.

Regluverk um rekstur erlendra aðila

Gera þarf kröfu til þess að erlend ferðaþjónustufyrirtæki sem starfa hér á landi uppfylli sömu kröfur og gerðar eru til til innlendra ferðaþjónustufyrirtækja. Skýra þarf lög og reglur um starfsemi erlendra aðila hér á landi svo jafnræðis sé gætt og til þess að hægt sé að koma í veg fyrir félagsleg undirboð.

Innlend markaðssetning

Áframhaldandi markaðssetning innanlands, á gæðum Íslands og íslenskra vara, er lykilþáttur í sameiginlegri uppbyggingu vörumerkisins Íslands. Aðeins með þeim hætti er hægt að tryggja að Íslendingar taki þátt í að byggja upp vörumerkið Ísland á heildstæðan máta.

Slík markaðssetning gæti einnig skilað sér í aukinni hagsæld þjóðarinnar, þar sem Íslendingar taki meðvitaða ákvörðun um að velja íslenskt og styrkja þar með íslensk fyrirtæki og þjóðarhag með kaupum sínum. Slík þróun myndi skila sér í aukinni hagsæld íslenskra fyrirtækja, uppbyggingu fleiri starfa og minni þörf á ýmsum innflutningi.

(Ályktun 36. Flokksþings Framsóknarmanna 2022.)