Samgöngur

Samgöngur

  • Stórkostleg aukning í framlögum til samgöngumála er raunveruleiki. Alls staðar er verið að byggja upp. Öflugir og öruggir innviðir eru grunnurinn að betri lífsgæðum. Aldrei áður hefur verið varið jafn miklum fjármunum til samgangna eins og á síðasta kjörtímabili. Mikið hefur áunnist, en framkvæmda og viðhaldsþörf er hvergi nærri lokið.
  • Framsókn vill halda áfram að bæta umferðaröryggi og miðar að því m.a. að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegum og halda áfram að skilja að akstursstefnur á umferðarþyngstu vegköflum landsins. Framundan eru mestu umbreytingar í samgöngum sem sést hafa. Tvöföldun Reykjanesbrautar, tvöföldun vega á milli Hveragerðis og Selfoss, tvöföldun vegar um Kjalarnes.
  • Framsókn leggur áherslu á að stytta vegalengdir milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum.
  • Framsókn vill sjá áframhaldandi uppbyggingu samkvæmt Samgönguáætlun, halda þarf áfram með samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum og samstarfi á milli hins opinbera og atvinnulífs.
  • Sundabraut hefur verið á dagskrá allt kjörtímabilið og verður stórkostleg samgöngubót sem losar um umferðarhnúta. Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að undirbúningi svo framkvæmdir geti byrjað eins og áætlanir gera ráð fyrir árið 2026.
  • Framsókn vill fara í stórátak í uppbyggingu hraðhleðslustöðva og hleðslustöðva um land allt til að hraða ennfrekar orkuskiptum í samgöngum á landi.Slík uppbygging er einn af lykilþáttum til að ná loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar.
  • Framsókn vill halda áfram að styrkja og efla innanlandsflugvelli, fjölga tækifærum í ferðaþjónustu og skapa atvinnu heima fyrir. Sjúkraflug hefur aukist verulega á síðustu árum og er orðinn lykilþáttur í heilbrigðiskerfi landsbyggðarinnar. Öryggishlutverk innanlandsflugvalla er því orðið mun mikilvægara en áður og brýnt að þeim sé viðhaldið. Einnig þarf að tryggja að viðeigandi búnaður sé tiltækur svo þeir geti þjónað hlutverki sínu sem slíkir.
  • Framsókn hefur lagt áherslu á uppbyggingu hafna og mun halda henni áfram. Þær gegna lykilhlutverki í verðmætasköpun.
  • Framsókn vill tryggja framgang Samgöngusáttmálans til að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu og vinna að kolefnishlutlausu Íslandi.
  • Framsókn vill að á hverjum tíma sé alltaf í framkvæmd að minnsta kosti tvenn jarðgöng á landinu. Horft verði til Færeyja við útfærslu jarðgangnaáætlunar.
 

 

Framsókn telur að góðar samgöngur séu undirstaða í uppbyggingu byggða um allt land og liður í því að tryggja jafnan rétt til búsetu og atvinnusköpunar. Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu á samgöngumannvirkjum landsins og bæta tengingar ólíkra þátta samgöngukerfisins. Þá er öruggt flutnings- og dreifikerfi raforku undirstaða þess að fjölbreytt atvinnulíf geti þróast um allt land.

Greiðar samgönguleiðir eru lífæð búsetu í landinu. Framsókn vill halda áfram að bæta og efla þær. Þrátt fyrir að framlög til vegakerfisins hafi verið aukin verulega á síðustu árum er alveg ljóst að það er engan veginn nóg. Stórauka þarf framlög til viðhalds og endurbóta á þjóðvegakerfi landsmanna.

Ljúka þarf mótun framtíðarstefnu um fjármögnun vegakerfisins. Það er stefna Framsóknar að núverandi tekjur ríkisins af olíu- og bensíngjöldum, auk skatttekna af innflutningi ökutækja eigi að renna til reksturs, viðhalds og uppbyggingar á vegakerfi landsmanna. Orkuskipti í samgöngum kalla til framtíðar litið á annars konar og nýja tekjuöflun sem endurspegli afnot af þjóðvegakerfinu. Skattalegum hvötum, m.a. kolefnisgjöldum verði beitt sem stjórntæki til að hvetja til að ökutæki séu knúin vistvænum og innlendum orkugjöfum.

Nýta ber kosti þess að vinna stærri samgönguframkvæmdir sem samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila og/eða leita til lífeyrissjóða eftir lánsfé, sem um leið myndi veita lífeyrissjóðakerfinu trygga ávöxtun til langs tíma.

Framsókn vill að öryggi vegfarenda þjóðvega landsins sé tryggt. Umferðaröryggi á að vera leiðarljós í öllu viðhaldi vega og nýframkvæmdum. Aukið eftirlit og öflug löggæsla bætir öryggi vegfarenda. Þá þarf enn að bæta farsímasamband á þjóðvegum umtalsvert enda er það einnig mikilvægur öryggisþáttur.

Framsókn styður öfluga uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, í dreifbýli og á milli landshluta. Almenningssamgöngur þurfa að vera raunverulegur valkostur fyrir íbúa um allt land. Stefnumótun í samgöngumálum bæði í þéttbýli og dreifbýli þarf að taka mið af nýjum lausnum svo sem deilihagkerfi ólíkra ferðamáta. Loftbrúarverkefnið þarf að efla enda er innanlandsflug einn hlutinn af almenningssamgöngum.

Reykjavíkurflugvöllur er óumdeilanlega miðstöð innanlands- og sjúkraflugs. Á meðan ekki kemur fram raunhæfur og jafn hentugur kostur í stað Reykjavíkurflugvallar er nauðsynlegt að ráðast sem fyrst í að lagfæra afgreiðslu og móttöku farþega með nýrri flugstöð.

Reynslan sýnir að óbreyttur Keflavíkurflugvöllur veitir ekki nægjanlegt flugöryggi og nothæfi vallarins er skert í óveðri. Með aukinni flugumferð á síðustu árum er mikilvægt að flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum geti þjónað sem alþjóðaflugvellir bæði til að opna fleiri gáttir inn í landið og geti einnig verið varavellir Keflavíkurflugvallar.

Móta verður heildarstefnu fyrir allt landið um uppbyggingu innviða fyrir flugsamgöngur. Stefnu sem kveður á um hvar eigi að vera flugvellir, hvernig þeir eigi að vera búnir og hverju þeir eigi að geta þjónað. Gildir einu hvort um er að ræða innanlandsflugvelli, millilandaflugvelli eða varaflugvelli. Með þessari stefnu þarf að fylgja áætlun um uppbyggingu og viðhald í samræmi við hana.

Framsókn vill hraða stefnumótun stjórnvalda um net- og upplýsingaöryggi, með áherslu á netöryggi til að tryggja auðkenningu og nafnleynd. Tæknin er nútíðin og framtíðin. Fagna ber þeim miklu framförum sem orðið hafa og munu halda áfram þarf skýra stefnu og markvissar leiðir þegar kemur að stafrænu öryggi landsins.

Áfram þarf að byggja upp verkefnið „Stafrænt Ísland“ til að nýta sem best tæknilausnir. Tryggja þarf að lágmarki aðgengi að einni hljóðvarpsrás í öllum byggðum landsins og meðfram helstu stofnvegum. Huga þarf að sérlausnum fyrir þá hópa sem geta ekki nýtt sér þær stafrænu lausnir sem eru til staðar í dag.

(Ályktun 35. Flokksþings Framsóknarmanna 2022.)