elsa-lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á þingsályktunartillögu sem nokkrir framsóknarmenn lögðu fram þann 4. apríl sl. Hún fjallar um að hæstv. fjármálaráðherra skipi starfshóp sem hafi það að markmiði að greina kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Hér á landi hefur verið stuðst við vísitölu neysluverðs sem mælikvarða á verðbólgu og á útreikning á verðtryggingu síðan 1995, ef ég fer með rétt mál. Í OECD-ríkjunum er stuðst við samræmda vísitölu neysluverðs, en tilgangur hennar er að tryggja samræmda verðbólgumælingu í OECD-ríkjunum. Helsti munurinn á þessum vísitölumælingum er sá að í útreikningum á samræmdri vísitölu neysluverðs er húsnæðisliðurinn ekki inni, þ.e. séreignarhluti húsnæðismarkaðarins.

Nú hefur verið mikið í umræðunni og tölur og útreikninga ákveðinna aðila sýna að ef við hefðum stuðst við samræmda vísitölu neysluverðs síðustu 12 mánuði hefði verðbólga verið -0,9% en ekki 0,9% eins og hún er í dag. Hvað þýðir það í raun og veru? Þetta þýðir að verðtryggðar skuldir heimilanna hefðu lækkað um 18 milljarða á síðustu 12 mánuðum en ekki hækkað um 18 milljarða, en það gerði hún vegna gildandi vísitöluútreikninga.

Ég verð að segja, hv. þingheimur og hæstv. forseti, að ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu stór þessi litla þingsályktunartillaga mín er. Ég hélt að hér væri um að ræða sanngirnismál fyrir heimili landsins en ekki gríðarlegt hagsmunamál.

Mig langar að spyrja hvort hv. þingheimur geti skoðað þetta mál á síðustu dögum þingsins, hvort hægt væri að koma þessu máli til skoðunar á milli 2. og 3. umr. um verðtryggingarmál í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Annað verði ábyrgðarlaust að mínu mati þegar við höfum þessa útreikninga og þessar tölur sem sýna fram á þennan gríðarlega mismun.“

Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 28. september 2016.