Categories
Fréttir

39. Sambandsþing SUF

Deila grein

17/01/2014

39. Sambandsþing SUF

logo-SUF-2011Boðað er til 39. Sambandsþings Sambands ungra framsóknarmanna (SUF) á Hótel Selfossi dagana 1.-2. febrúar 2013. Allir ungir framsóknarmenn hafa rétt til setu á þinginu.
Samkvæmt grein 4.5 í lögum SUF skal framboðum til formanns skila til skrifstofu Framsóknarflokksins eigi síðar en viku fyrir setningu sambandsþings eða fyrir laugardaginn 25. janúar. Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram í stjórn SUF er bent á netfangið suf@suf.is.
SUF-arar hvattir til þess að skila inn tillögum að ályktunum sem fyrst á netfangið suf@suf.is. Þær tillögur sem liggja fyrir laugardaginn 25. janúar verða prentaðar með öðrum þinggögnum. Tillögurnar verða ræddar í þeim sex málefnahópum sem starfandi eru á þinginu.
Samkvæmt grein 6.4 í lögum SUF skal tillögum að lagabreytingum skilað eigi síðar en 14 dögum fyrir setningu þings sambandsins eða fyrir laugardaginn 18. janúar. Tillögum skal skilað á netfangið suf@suf.is.

Drög að dagskrá:

Laugardagur 1. febrúar
12.30 – Þingsetning
– Kosning þingforseta (2)
– Kosning þingritara (2)
– Kosning starfsnefndar (3)
12.40 – Skýrsla stjórnar og reikningar
13.00 – Málefnahópar kynntir
13.10 – Málefnahópar taka til starfa
– Hópur 1 – Stjórnskipun, mannréttindi, lýðræði og utanríkismál
– Hópur 2 – Efnahagsmál
– Hópur 3 – Atvinna, samgöngur og umhverfi
– Hópur 4 – Menntun, menning og íþróttir
– Hópur 5 – Velferð
– Hópur 6 – Lagabreytingar og aðrar tillögur
20.00 – Hátíðarkvöldverður og skemmtun fram eftir kvöldi
Sunnudagur 2. febrúar
10.00 – Afgreiðsla mála
12.30 – Hádegismatur
13.15 – Kosningar:
– Formaður
– Stjórn (12)
– Varastjórn (12)
– Skoðunarmenn reikninga (2)
– Varaskoðunarmenn reikninga (2)
16.00 – Þingslit
Gagnlegar upplýsingar:
– Þinggjöld
Þinggjald er 2.000 kr. innifalið í þinggjaldi er kaffi á laugardegi og sunnudegi, auk þinggagna. Tekið verður á móti greiðslu þinggjalda til kl. 10.30 á sunnudag 2. febrúar.
– Fundarstaður
Formleg þingstörf fara fram á Hótel Selfossi
– Gisting á Hótel Selfossi
Gisting eins manns herbergi með morgunverð per nótt kr. 8.500,-
Gisting tveggja manna herbergi með morgunverð per nótt kr. 9.900,-
– Hátíðarkvöldverður
Þriggja rétta hátíðarkvöldverður á laugardegi kostar kr. 4.900 kr.-
– Seturéttur á þinginu
Allir ungir framsóknarmenn hafa rétt til setu á þinginu. Þeir sem skráðir eru í Framsóknarflokkinn fyrir laugardaginn 3. janúar 2014 á aldrinum 16 til 35 ára og hafa greitt þinggjöld hafa atkvæðarétt á þinginu.
– Framboðsfrestur
Samkvæmt grein 4.5 í lögum SUF skal framboðum til formanns skila til skrifstofu Framsóknarflokksins eigi síðar en viku fyrir setningu sambandsþings eða fyrir laugardaginn 25. janúar. Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram í stjórn SUF er bent á netfangið suf@suf.is.
– Lagabreytingatillögur
Samkvæmt grein 6.4 í lögum SUF skal tillögum að lagabreytingum skilað eigi síðar en 14 dögum fyrir setningu þings sambandsins eða fyrir laugardaginn 18. janúar. Tillögum skal skilað á netfangið suf@suf.is.
– Málefnastarf
SUF-arar hvattir til þess að skila inn tillögum að ályktunum sem fyrst á netfangið suf@suf.is. Þær tillögur sem liggja fyrir laugardaginn 25. janúar verða prentaðar með öðrum þinggögnum. Tillögurnar verða ræddar í þeim sex málefnahópum sem starfandi eru á þinginu.
Birt með fyrirvara um breytingar.
 
STJÓRN SUF

Categories
Greinar

Eru ESB and-stæðingar síðasta von aðildarsinna?

Deila grein

16/01/2014

Eru ESB and-stæðingar síðasta von aðildarsinna?

Ásmundur Einar DaðasonÍ Kastljósviðtali á mánudagskvöldið fór Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, vel yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu. Að undanförnu hefur verið reynt að teikna upp þá mynd að utanríkisráðherra sé einn á báti í þessu máli og þar með sé hann stærsti vandi aðildarsinna. Það að telja málum þannig háttað er auðvitað mikið pólitískt ólæsi. Það er hinsvegar furðulegt, og til marks um mikla örvæntingu, að heyra aðildarsinna ítrekað kalla eftir því að helstu ESB-andstæðingar landsins haldi áfram aðildarsamningum við ESB.

Ef aðildarsinnum yrði að ósk sinni og aðildarsamningum yrði haldið áfram þá myndi utanríkisráðherra án vafa tryggja að skoðanabræður hans séu í meirihluta í nefndum og ráðum líkt og fyrri ríkisstjórn gerði. Vandi aðildarsinna er hinsvegar sá að skoðanabræður utanríkisráðherra eru á móti ESB. Það yrði aðildarsinnum líklega mjög til framdráttar ef hörðustu ESB-andstæðingar landsins mættu til Brussel í þeim tilgangi að semja um hvernig aðlögun næstu ára verði háttað. Ef utanríkisráðherra er ekki tilbúinn að setja undirritaðan í forystu fyrir þessari sveit er ekki ólíklegt að t.d. Jón Bjarnason, Guðni Ágústsson eða Styrmir Gunnarsson verði fyrir valinu. Það gæti orðið enn fróðlegra að fylgjast með því þegar einstök atriði er varða ESB-samningana verða rædd í utanríkismálanefnd Alþingis þar sem Birgir Ármannsson, einn öflugasti ESB-andstæðingur þingsins, gegnir formennsku og undirritaður varaformennsku. IPA- og Taiex-aðlögunarstyrkirnir fá eflaust flýtimeðferð hjá fjárlaganefnd þar sem Vigdís Hauksdóttir, formaður Heimssýnar, ræður ríkjum og varaformaðurinn, Guðlaugur Þór Þórðarson, mun eflaust berjast ötullega fyrir málinu. Forseti Alþingis mun örugglega halda okkur öllum við efnið enda »mikill« áhugamaður um aðild Íslands að ESB.

Það kom vel fram á síðasta kjörtímabili að ógjörningur er að semja um ESB-aðild nema að einhugur sé um málið í ríkisstjórn og starfandi stjórnarmeirihluta. Svo langt gekk þetta að ómögulegt var að vera með ESB-andstæðinga í ríkisstjórn né í utanríkismálanefnd Alþingis. Samþykkt stefna beggja stjórnarflokkanna er skýr og á þeirri stefnu byggir stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar. Það er því hámark bjartsýninnar (og í raun dálítið hlægilegt) að halda að ríkisstjórn þar sem báðir stjórnarflokkarnir eru á móti ESB-aðild geti haldið áfram aðildarsamningum. Því er það svo að þrátt fyrir ótrúlegan áhuga aðildarsinna þá mun furðuleg ósk þeirra um að ESB-andstæðingar dragi vagninn til Brussel ekki verða að veruleika.

 

ÁSMUNDUR EINAR DAÐASON

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. janúar 2014.)

Categories
Fréttir

Mikil stækkun á núverandi friðlandi Þjórsárvera

Deila grein

15/01/2014

Mikil stækkun á núverandi friðlandi Þjórsárvera

Sigurður Ingi Jóhannsson
Stefnt er að mikilli stækkun friðlands í Þjórsárverum. Núverandi friðland er 358 km² en tillagan gerir ráð fyrir að friðlandssvæðið verði 1558 km². Náttúruverndarlögin kveða á um að Umhverfisstofnun annast undirbúning friðlýsingar og gerð draga að friðlýsingarskilmálum og leggur fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Tillaga um þessi nýju mörk friðlandsins, sem unnið hefur verið að undanfarna mánuði, var send í desember 2013 til Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Ásahrepps.
Ferill málsins
Árið 2007 náðist sameiginleg niðurstaða sveitarfélagana um talsvert minna friðland en síðari útfærslur sem komu fram í náttúruverndaráætlun 2009-2013. Til að rekja málið áfram þá samþykkti fyrrverandi ríkisstjórn í ágúst 2009 að hefja undirbúning að stækkun friðlandsins í samræmi við ákvæði laga um náttúruvernd.
Endanleg tillaga náttúruverndaráætlunar 2009-2013 var samþykkt í nóvember 2009 og var lagt til að friðlandsmörkin nái nokkuð sunnar en sameiginlega niðurstaðan með fulltrúum sveitarfélaga og Umhverfisstofnunnar kvað á um frá 2007.
Eftir að niðurstaða rammaáætlunar lá fyrir í janúar 2013 var ákveðið að mörkin skuli ná suður fyrir fyrirhugað Norðlingaölduveitulón. Ljóst var þá að ekki næðist sameiginleg niðurstaða hjá viðkomandi sveitarfélögum, að mörk til suðurs yrðu ekki samþykkt nema sérstakt rekstrarfé fylgdi með. Fallist var á stækkun til suðurs nokkrum dögum fyrir kosningar sl. vor og þáverandi umhverfisráðherra lýsti yfir vilja að leggja fram 28 m.kr. til uppbyggingar fyrir utan friðlandið. Auk þess hafði verið ákveðið áður að setja 40 m.kr. í rekstur og uppbyggingu á friðlandssvæðinu.
Umhverfisstofnun, að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið, sendi breytta friðlýsingartillögu til áðurnefnda sveitarfélaga til skoðunar í desember 2013.  Ástæðan var sú að í kjölfar ábendinga sem fram komu í sumar við lokafrágang um afmörkun svæðisins var gegnið lengra en næmi Norðlingaöldukosti sem settur var í verndarflokki í 2. áfanga. Mörkin hefðu þannig útilokað aðra hugsanlega kosti fyrir utan friðlandið sem á eftir að skilgreina, meta og flokka og komu upp álitamál varðandi lögmæti slíks gjörnings. Hins vegar er ekki gengið lengra en svo samkvæmt lögum um vernd og orkunýtingu að virkjunaraðili getur skilgreint nýjan orkukost utan friðlýsta svæðisins til mats í rammaáætlun í framtíðinni. Til hvers það mat mun leiða mun framtíðin leiða í ljós.
Sveitarfélögin hafa tekið málið fyrir og er ákvarðanatöku í öðru sveitarfélaginu frestað þar til fyrir liggur nákvæm afmörkun Norðlingaölduveitu 566-567,5 m.y.s. sem er í verndarflokki og í hinu var hún samþykkt með fyrirvörum um að  með fylgi rekstrarfé.
Næstu skref
Til að komast hjá því að mál af þessu tagi komi upp þá hefði verið hentugra ef nákvæm afmörkun hvers virkjunarkosts í verndarflokki kæmi fram í þingsályktun um áætlun um vernd- og orkunýtingu landsvæða. Gera má umbætur sem má skýra með reglugerð og munu vonandi verða til þess að styrkja rammaáætlun svo sátt megi nást um hana til þess að takast á við þessi máli til framtíðar. Það getur verið umdeilanlegt en þannig er það. Jafnframt þarf að skoða hvort heppilegt sé, líkt og unnið hefur verið með stækkað friðland, að blanda saman ákvörðunum á grundvelli náttúruverndaráætlunar og rammaáætlunar.
Friðlýsing á grundvelli náttúruverndaráætlunar kallar á miklu fleiri og víðtækari sjónarmið og samráð til að friðlýsing nái fram að ganga meðan heimild til rammaáætlunar snýst um vernd gegn orkunýtingu. Þetta hef ég áhuga á að láta skoða og er að skoða innan umhverfisráðuneytisins.
Ég vona að um þessa friðlýsingu geti náðst góð sátt við sveitarstjórnina á svæðinu svo að hægt verði að ganga frá þessari miklu stækkun á friðlandi Þjórsárvera og stofnun þessa glæsilega friðlands.
 
***
Kort af Þjórsárverum.

Categories
Greinar

Ég vil ekki giftast þér

Deila grein

14/01/2014

Ég vil ekki giftast þér

Silja Dögg GunnarsdóttirEn ég vil vera vinur þinn vegna þess að það eru allt aðrar skuldbindingar sem fylgja vináttu annars vegar og hjónabandi hins vegar. Ég hef þessa skoðun varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég er sannfærð um að hagsmunir Íslendinga séu best tryggðir utan Evrópusambandsins. Við höldum samt sem áður áfram að vera vinir, góðir vinir, enda erum við hluti af Evrópu og höfum yfirleitt átt mikil og góð samskipti við aðrar Evrópuþjóðir.

Bæta þarf hagstjórnina
Umræðan upp á síðkastið, sem snýr að aðild Íslands að Evrópusambandinu, snýst að stórum hluta um kosti þess að taka upp evru. Aðrir þættir eru látnir liggja á milli hluta í umræðunni. Lítið er rætt um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, lýðræði og auðlindamál en það eru mjög mikilvægir málaflokkar sem ráða miklu um framþróun og framtíð Íslands.

En vindum okkur yfir í gjaldmiðilsmálin. Sumir segja að við getum ekki afnumið verðtrygginguna og bætt hagstjórn landsins nema með því að taka upp annan gjaldmiðil, t.d. evru. Það er einfaldlega ekki rétt. Nýr gjaldmiðill einn og sér lagar ekki hagstjórnina, við þurfum sjálf að breyta henni til hins betra.

Krónan okkar gjaldmiðill
Samráðsnefnd um peningastefnu Íslands komst að þverpólitískri samhljóða niðurstöðu. Grípum niður í frétt fjármálaráðuneytisins frá 16. október 2010:

„Að mati nefndarmanna er ekki hægt að gera ráð fyrir upptöku annarrar myntar á næstu árum. Því er mikilvægt að tryggja trausta peningastefnu með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins. Slíkt er grundvöllur góðrar hagstjórnar óháð fyrirkomulagi gengismála og peningastefnu. Almennt telja nefndarmenn að á næstu árum sé sjálfstæð peningastefna eini valkosturinn og trúverðug hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum sé grundvallaratriði.“

Þetta er skýrt: Sjálfstæð peningastefna er eini kosturinn næstu árin og nauðsynlegt er að vinna innan þess ramma. Og undir þetta kvitta ASÍ, SA og fulltrúar allra stjórnmálaflokka.

Nú hefur verið gert hlé á aðildarviðræðum við ESB. Ný og öflug ríkisstjórn hefur tekið við stjórnartaumunum og bætt hagstjórn er mjög ofarlega á verkefnalista hennar.

 

SILJA DÖGG GUNNARSDÓTTIR

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. janúar 2014.)

Categories
Greinar

Þjóð á tímamótum

Deila grein

06/01/2014

Þjóð á tímamótum

Sigrún MagnúsdóttirMarkverð þáttaskil eru hjá íslensku þjóðinni um þessi áramót. Hallalaus fjárlög hafa verið afgreidd og nýir kjarasamningar um aukinn kaupmátt undirritaðir á vinnumarkaði. Umskipti hafa orðið á hinu pólitíska sviði. Þeir flokkar sem sigruðu í kosningunum mynduðu ríkisstjórn og þess sér nú merki að nýir valdhafar eru teknir við. Meginkosningaloforð stjórnarflokkanna eru komin í farveg. Stórátak er að hefjast til að lækka húsnæðisskuldir heimilanna sem forsendubrestur hefur hækkað upp úr öllu valdi. Fundin hefur verið farsæl leið til þessa átaks, með því að tvinna saman þau úrræði sem stjórnarflokkarnir hafa barist fyrir.

Öryggisnetið þétt

Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram í haust tók verulegum breytingum í meðferð Alþingis án þess að hverfa frá meginákvörðuninni um hallalaus fjárlög. Fjórum milljörðum er aukið við til heilbrigðismála og með því bætt úr brýnum vanda Landspítalans og jafnframt leyst úr vanda heilbrigðisstofnana víða um land. Sex þúsund milljóna framlag bætist við Almannatryggingar og gengur það til að efna fyrirheit úr kosningabaráttunni um að rétta hlut aldraðra og öryrkja. Þannig erum við að þétta öryggisnetið og bæta skerðingar frá hruninu. Þá er fé lagt til ýmissa verkefna sem höfðu orðið útundan við upphaflegu frumvarpsgerðina.

Forgangsröðun

Miklar umræður spunnust um ýmsar tilfærslur vegna forgangsröðunar verkefna. Nokkur skerðing verður hjá Ríkisútvarpinu. Því var mætt af stjórnendum þess með fækkun starfsfólks á rás eitt. Ekki var fækkað í yfirstjórn né á rás tvö eins og búast hefði mátt við. Þrátt fyrir fækkun á rás eitt er óbreyttri dagskrá haldið þar úti að mestu leyti. Vaxtabætur eru skertar nokkuð hjá þeim sem hafa hæstar tekjur. Framlag til þróunarmála er fært til svipaðs hlutfalls af þjóðartekjum og var fyrir tveimur árum. Með vaxandi þjóðartekjum er ekki víst að um skerðingu verði að ræða. Vafalaust er hægt að spara í yfirstjórn Þróunarsamvinnustofnunar eins og víða.

Skattalækkanir

Skattar á meðaltekjur verða lækkaðir nokkuð og er það að hluta til að greiða fyrir kjarasamningum. Það að kjarasamningar tókust er þjóðfélaginu mjög dýrmætt. Umræða var um að hækka persónuafslátt. Það er mjög dýr aðgerð þótt ekki sé nema um þúsund króna lækkun á einstakling að ræða, auk þess gengur hækkun persónuafsláttar upp allan tekjustigann og óþarfi er að lækka skatta á auðmenn. Daginn er tekið að lengja og það er líka að birta til í þjóðfélaginu. Fyrir hönd þingflokks Framsóknarflokksins færi ég landsmönnum öllum árnaðaróskir. Megi komandi ár verða okkur farsælt.

 

Sigrún Magnúsdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. desember 2013.)