Categories
Fréttir

48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til velferðarmála – 306,8 milljarðar

Deila grein

04/12/2015

48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til velferðarmála – 306,8 milljarðar

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Undanfarna daga hefur mikil umræða átt sér stað um framlög ríkisstjórnar til heilbrigðis- og velferðarmála. Umræðan hefur verið hávær á þann veg að ríkisstjórnin sé ekki að forgangsraða til þessara mála.
Þessi umræða er áhugaverð í ljósi þess að samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 fara 48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til þessara málaflokka eða sem samsvarar 306,8 milljörðum. Þar fara 25,2% til heilbrigðismála, sem er stærsti útgjaldaliður fjárlaga, og nemur framlagið 159,9 milljörðum. Næst á eftir stærsta útgjaldaliðnum koma almannatryggingar og önnur velferðarmál. Þar eru útgjöld 23,2% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og nemur sá málaflokkur 146,9 milljörðum.
Þegar við skoðum hvað ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur gert í heilbrigðismálum á þessu kjörtímabili er meðal annars hægt að nefna að stórauknu fé hefur verið bætt til Landspítalans, 840 milljónum hefur verið bætt við til að minnka biðlista, tækjakaupaáætlun upp á rúma 5 milljarða er á áætlun, sett hefur verið nýtt fjármagn til að hefja útboð á nýbyggingum á Landspítala, eða um 1,8 milljarðar í byggingar, fjármagn hefur verið stóraukið til S-merktra lyfja og verið er að auka fjármagn til tannlækningasamnings sem gerður var á síðasta kjörtímabili.
Í fjárlögum fyrir árið 2016 er áhersla lögð á uppbyggingu heilsugæslunnar til að létta álaginu á Landspítala. Það tel ég afar skynsamlega ákvörðun til að tryggja betur að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur en þau góðu verk sem ríkisstjórnin hefur sýnt í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins er hvatning til að halda áfram á sömu braut til að byggja upp þá auðlind sem heilbrigðiskerfið okkar er og á að vera.
Auk þessa nema útgjöld til almannatrygginga 99 milljörðum í ár sem er aukning um 10,3 milljarða milli ára. Þessar upplýsingar má finna í fjárlögum fyrir árið 2016 og í þeirri kynningu sem hæstv. fjármálaráðherra setti fram.
Uppsöfnuð hækkun til málaflokksins nemur tæpum 17% frá árinu 2014. Þessar tölur eru hvatning til að halda áfram á sömu braut og hækka áfram kjör eldri borgara og öryrkja til framtíðar.“
Elsa Lára Arnardóttir — störf þingsins 2. desember 2015.

Categories
Fréttir

Sóknaráætlun í loftslagsmálum

Deila grein

04/12/2015

Sóknaráætlun í loftslagsmálum

Þórunn„Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og byrja á því að óska hæstv. forseta til hamingju með daginn og árna honum og hans fólki allra heilla.
Annars vildi ég nota tíma minn í dag til að vekja athygli á sóknaráætlun í loftslagsmálum sem ríkisstjórn Íslands kynnti á dögunum. Áætlunin er til þriggja ára og er ætlað að skerpa á áherslum Íslands í loftslagsmálum og efla starf í málaflokknum til að raunverulegur árangur náist við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Verkefnin 16 sem kynnt eru undir hatti sóknaráætlunarinnar eru fjölbreytt og mörg hver sjálfstæð en eiga það sameiginlegt að virkja betur einstaklinga og fyrirtæki til að efla baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Öll stefna verkefnin að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. Áhersla er lögð á samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda til að draga úr losun í tilteknum greinum auk þess að styðja við nýsköpun og loftslagsvænar lausnir.
Í grófum dráttum skiptast verkefni 16 þannig að 8 þeirra stefna að því að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og 4 verkefni miða að því að efla samstarf Íslands við erlend ríki og aðstoða önnur ríki við að draga úr losun og takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Sérstaklega finnst mér gleðilegt að benda á að Ísland verður í forustu í samstöðuhópi um nýtingu á jarðhita á heimsvísu.
Þá snúa 4 verkefni að því að styrkja innviði því að sóknaráætlun og auknar kröfur í lofstslagsmálum kalla eðlilega á gott utanumhald og öfluga greiningu, vegna þess að miklir efnahagslegir pólitískir hagsmunir eru undir fyrir Ísland. Auðvitað eru umhverfishagsmunirnir mikilvægastir og framlag okkar og hegðun sem einstaklingur telur svo sannarlega. Leggjumst öll á eitt og munum að gjörðir okkar í dag hafa áhrif á morgundaginn.“
Þórunn Egilsdóttir — störf þingsins 2. desember 2015.

Categories
Fréttir

Strangar reglur um urðun á dekkjagúmmíi en dreift á íþróttavelli í tonnatali

Deila grein

04/12/2015

Strangar reglur um urðun á dekkjagúmmíi en dreift á íþróttavelli í tonnatali

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða dekkjakurl og bæta um betur frá síðustu umræðu um málið. Ég þakka öllum þingflokksformönnum fyrir að bregðast vel við og tryggja að allir þingflokkar styðji aðgerðir í þessu máli þar sem fulltrúar allra þingflokka eru á þingsályktunartillögu um bann við notkun dekkjakurls.
Mér finnst líka alveg við hæfi að koma því að undir þessum lið, störf þingsins, þegar vel er unnið þvert á flokka. Þar sem þingmannamál geta hins vegar tekið tíma að komast sína leið vonast ég til að hæstv. ráðherra hafi færi á að klára málið í samvinnu við Umhverfisstofnun en hlutverk Umhverfisstofnunar er einmitt að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi og verndun. Í því sambandi vil ég benda á reglugerð um urðun úrgangs sem á sér stoð í lögum um meðferð úrgangs, nr. 55/2003, en í 8. gr. þeirrar reglugerðar er fjallað um úrgang sem óheimilt er að urða. Í d-lið reglugerðarinnar segir meðal annars að óheimilt sé að urða hjólbarða hvort sem um er að ræða heila eða kurlaða.
Rannsóknir hafa hingað til ekki kveðið óyggjandi á um það hversu skaðlegt þetta efni kann að vera, en í reglugerðinni segir enn fremur:
„Að því er varðar tilteknar tegundir hættulegra efna og spilliefna hefur verið sýnt fram á nauðsyn þess að vernda samfélagið og umhverfið gegn viðvarandi váhrifum til langframa. Til langframa merkir í þessu samhengi nokkur þúsund ár.“
Á sama tíma og jafn strangar reglur gilda um urðun á dekkjagúmmíi þar sem það er beinlínis bannað getur ekki verið eðlilegt að það megi dreifa þessu á leik- og íþróttavelli — og það í tonnum talið.“
Willum Þór Þórsson — störf þingsins 2. desember 2015.

Categories
Fréttir

​Seðlabankinn hendir sprekum á verðbólgubálið með því að halda hér uppi stýrivöxtum sem eru óþekktir

Deila grein

02/12/2015

​Seðlabankinn hendir sprekum á verðbólgubálið með því að halda hér uppi stýrivöxtum sem eru óþekktir

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Nýjasta verðbólgumæling sem var birt í gær bendir til þess að ársverðbólga á Íslandi sé nú 2%. Hún er sem sagt undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans enn einu sinni, sem betur fer, og hefur verið það lengur en áður hefur þekkst. Það er ekkert sem bendir til þess og ekkert sem beinlínis hvetur til þess að verðbólga fari hér á skrið næstu vikur og mánuði vegna þess að enn á eftir að skila inn í vöruverð töluverðu af þeirri gengisstyrkingu sem orðin er. Íslenska krónan hefur styrkst gagnvart helstu viðskiptamyntum um 9% síðustu 12 mánuði og enn vantar þó nokkuð upp á að því hafi verið skilað inn í vöruverð þrátt fyrir að nokkur fyrirtæki hafi gengið á undan með góðu fordæmi og lækkað verð sitt, eins og til dæmis IKEA og Bónus. Fleiri þarf til.
Það er í sjálfu sér merkilegt að þetta gerist þrátt fyrir að Seðlabanki Íslands hendi sprekum á verðbólgubál með því að halda hér uppi stýrivöxtum sem eru óþekktir. Eins og ég segi bendir þó ýmislegt til þess að hægt verði að halda hér verðlagi lágu um nokkurra mánaða skeið.
Ég vil líka benda á að nú er orðinn fastur liður að olíufélögin í landinu séu með afslátt tvisvar í mánuði sem bendir til þess að þar sé svigrúm fyrir stöðuga verðlækkun í staðinn fyrir þessi tilboð tvisvar í mánuði hverjum. Þess vegna hvet ég þá kaupmenn sem ekki hafa skilað gengisstyrkingu krónunnar inn í vöruverð að gera það og ég vil einnig beina því til neytenda í landinu að þeir fylgist með því hvaða verslanir hafa þegar gert það, hvaða verslanir hafa beinlínis lækkað vöruverð vegna þess að íslenska krónan hefur styrkst, beini viðskiptum til þeirra verslana í jólakauptíðinni og verðlauni þar með kaupmenn sem vel gera en refsi hinum.“
Þorsteinn Sæmundsson — störf þingsins, 30. nóvember 2015.