Categories
Greinar

Framsóknarkarl á kvennaráðstefnu

Deila grein

21/03/2016

Framsóknarkarl á kvennaráðstefnu

Þorsteinn-sæmundssonHvað rekur framsóknarkarl um sextugt til að sækja Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á eigin vegum? Það eru allnokkrar ástæður fyrir því. Í 11 ár starfaði ég með lögregluliðinu á Keflavíkurflugvelli og varð þá vitni að tilraunum til mansals sem upp komst um á Vellinum. Ég er líka eiginmaður, sonur, tengdasonur og faðir, tengdafaðir og afi. Ég á tvo vel menntaða syni sem eru allir vegir færir, á tvær hæfileikaríkar, vel menntaðar tengdadætur sem ég vil að njóti öll sömu réttinda og fái jöfn tækifæri. Ég er líka stoltur afi þriggja afastelpna og tveggja afadrengja. Ég vil leggja mitt af mörkum til að þau njóti öll sömu réttinda í lífinu. Ég vil líka gera allt sem ég get til að tryggja að barnabörnin mín og öll önnur börn sæti aldrei misnotkun í nokkurri mynd.

Síðan ég hóf störf á opinberum vettvangi hefur mér oft blöskrað hvaða niðurstöðu kynferðisbrotamál fá í dómskerfinu. Það sýnir sig einnig í þeirri staðreynd að í fyrra fjölgaði skjólstæðingum Stígamóta en kærum til lögreglu vegna kynferðisafbrota fækkaði. Ég vil gera það sem í mínu valdi stendur til að hafa áhrif til bóta í þessum málaflokki. Ef litið er til brota gegn konum og stúlkum, hvort sem það er heimilisofbeldi, kynferðisleg misnotkun eða önnur ofbeldisbrot, eru karlmenn brotlegir í langflestum tilfellum. Það stendur því upp á okkur karlmenn að taka til í okkar ranni og snúa öfugþróuninni við.

Kynning sú sem fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúar Stígamóta og ungur íslenskur rithöfundur stóðu fyrir á Kvennaráðstefnunni í New York sl. fimmtudag var stórkostleg og vakti verulega athygli.

Það er haft á orði hér að menn leggi einkum við hlustir á alþjóðavettvangi þegar fulltrúar Íslendinga taka til máls í þrem málaflokkum. Í málefnum sem tengjast hafinu, málefnum tengdum uppblæstri og málefnum kvenna. Það er greinilegt af því sem maður heyrir hér að Íslendingar hafa og geta víða lagt gott til í jafnréttisbaráttunni og til að hafa áhrif á það skelfilega ofbeldi sem víða tíðkast gagnvart konum. Nokkrar hugrakkar konur hafa stigið fram hér á ráðstefnunni og lýst reynslu sinni. Ein sagði frá misþyrmingu á kynfærum við umskurð, önnur sagði frá því er maður sem hún neitaði að giftast hellti yfir hana sýru þannig að hún var um tíma skinnlaus á 95% líkamans og lá lengi milli heims og helju. Sú hefur undirgengist á fimmta tug aðgerða síðan hún varð fyrir árásinni. Óhugnanleg var líka saga konu sem upplifði barn að aldri að ættingjar föður hennar eltu móður hennar með barsmíðum þar sem hún hafði ekki fætt son. Þá er ótalið að á hverjum degi eru 39 þúsund stúlkur á aldrinum 5-15 ára giftar eldri mönnum. Já, lesandi góður, 39 þúsund börn á hverjum degi. Þessar stúlkur verða margar hverjar barnshafandi löngu áður en þær hafa þroska til og látast margar þeirra á meðgöngu, í fæðingu eða rétt eftir barnsburð. Sumar þeirra örkumlast af erfiðleikum í fæðingu og lifa við útskúfun alla ævi. Enn eru ótalin barnsrán og viðskipti með börn. Ein stúlka hér á ráðstefnunni var um skeið í nauðungarvist hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Hún lifði þar við misnotkun og annað ofbeldi. Saga hennar var sláandi. Innan samtakanna ganga stúlkur kaupum og sölum. Sama má segja um börn af báðum kynjum í Indlandi sem seld eru eins og hver önnur verslunarvara. Þá er ótalinn launa- og kjaramunurinn, lífeyrir heimavinnandi kvenna og fleira af sama meiði. Það er efni í aðra grein. Ef litið er til brota gegn konum og stúlkum, hvort sem það er heimilisofbeldi, kynferðisleg misnotkun eða önnur ofbeldisbrot, eru karlmenn brotlegir í langflestum tilfellum. Það stendur því upp á okkur karlmenn að taka til í okkar ranni og snúa öfugþróuninni við. Nóg eru verkefnin sem bíða okkar, hvort sem við erum í stjórnmálum eða á öðrum vettvangi við að bæta umhverfi kvenna heima hjá okkur og einnig á alþjóðavísu.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2016.

 

 

Categories
Fréttir

Nýr formaður SUF, Páll Marís Pálsson

Deila grein

21/03/2016

Nýr formaður SUF, Páll Marís Pálsson

suf-páll-marís-pálsson0541. Sambandsþing Ungra Framsóknarmanna var haldið 19. mars á Akureyri og gekk þingið fram úr björtustu vonum. Ný stjórn var kjörin ásamt nýjum formanni. Nýr formaður SUF er Páll Marís Pálsson, 18 ára Kópavogsbúi og er hann yngsti kjörni formaður SUF frá upphafi. Hann hefur mikla reynslu af félagsmálum, bæði innan flokksins sem og utan hans. Hann stundar nám í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ (FG).
Páll Marís hefur tekið að sér hin ýmsu félagsstörf og má þar nefna að hann hefur setið í nemendaráði FG sem og verið kjörinn formaður Nýnemaráðs á sínu fyrsta ári þar, tók við forseta nemendafélagsins í apríl á síðasta ári og situr í skólanefnd Garðarbæjar. Hann á einnig sæti í forvarnar- og frístundarnefnd Kópavogsbæjar fyrir hönd Framsóknar í Kópavogi.
Aðrir í aðalstjórn SUF 2016-2017 eru:
Gunnar Þórólfsson – Norðaustur
Tanja Rún Kristmannsdóttir – Norðaustur
Gauti Geirsson – Norðvestur
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir – Norðvestur
Róbert Smári Gunnarsson – Norðvestur
Elka Hrólfsdóttir – Reykjavík
Magnús Arnar Sigurðarson – Reykjavík
Ármann Örn Friðriksson – Suður
Fjóla Hrund Björnsdóttir – Suður
Sandra Rán Ásgrímsdóttir – Suður
Ágúst Bjarni Garðarsson – Suðvestur
Guðmundur Hákon Hermannsson – Suðvestur
Á þinginu var ályktað um mörg mikilvæg mál til að stuðla að bættu samfélagi.
Meðal helstu áhersluatriða SUF er opinber stuðningur við hugmyndir Sigmundar um að flytja Landsspítalann á Vífilstaði, stofnun heimavistar fyrir framhaldsskóla- nema sem flytja til höfuðborgarsvæðisins til að stunda nám og að LÍN skuli horfa til Norðurlandanna varðandi afskriftir á námslánum, allt að 30% ef nám er klárað á tilsettum tíma.
Nýtt sjúkrahús á Vífilsstöðum
„Ungt Framsóknarfólk fagnar hugmyndum Sigmundar Davíðs varðandi staðsetningu nýs Landspítala og hvetur stjórnvöld til byggingar nýs spítala á Vífilstöðum. Við teljum að það sé mikilvægt að hefja byggingu nýs spítala strax þar sem að núverandi aðstæður spítalans setur líf fólks í hættu. Nýr og fullkominn spítali byggður frá grunni er mikilvægt fyrir heilbrigðisöryggi landsmanna. Nauðsynlegt er að standa vörð um þessa grunnstoð samfélagsins sem þjónusta Landspítalans veitir.“
Bág staða námsmanna af landsbyggðinni
„Ungt Framsóknarfólk leggur til að stofnað verði sameiginleg heimavist framhaldskóla á höfuðborgarsvæðinu. Leita þarf úrræða fyrir þennan hóp þar sem hann hefur verið utanveltu í kerfinu.“
Nýtt og betra lánafyrirkomulag
„Ungt Framsóknarfólk ítrekar fyrri ályktanir um uppstokkun LÍN. Horfa skuli til Norðurlandanna varðandi afskriftir á námslánum, allt að 30% ef nám er klárað á tilsettum tíma.“

Categories
Greinar

Af ógæfufólki í íslenskri pólitík

Deila grein

21/03/2016

Af ógæfufólki í íslenskri pólitík

Þorsteinn-sæmundssonÉg hef fylgst með atburðum á Íslandi undanfarna daga úr fjarlægð.  Ég verð að viðurkenna að mér blöskrar umræðan sem nú fer fram um eiginkonu forsætisráðherra og eignir hennar.  Sá sem hóf umræðuna veit reyndar ekki hvað nauðasamningur er eins og fram kom í umræðum um stöðugleikaframlög á Alþingi Íslendinga.  Samt situr hann í bankastjórn Seðlabankans.  Sá sem hóf umræðuna veit heldur ekki muninn á kröfuhafa og innistæðueiganda ef dæma má af málflutningi hans.  Samt situr hann í bankastjórn Seðlabankans.  Þó nokkuð vandræðaleg staðreynd en þó meira alvarleg.

Umræða undanfarinna daga er nokkur nýjung í íslenskri stjórnmálaumræðu.  Í þrjú ár hafa nokkrir stjórnmálamenn sem voru til í að leggja klyfjar á íslenska þjóð til frambúðar lagt sig fram um að ófrægja forsætisráðherra sem leiddi flokk sinn til sigurs á grundvelli loforða sem síðan hafa verið efnd hvert af öðru.

M.a. kom forsætisráðherra ekki bara í veg fyrir að klyfjar ófrægingarmanna yrðu lagðir á þjóðina heldur leystu stöðugleikasamningar svo vel að eftir er tekið.  Reyndar svo vel að Ísland hefur ekki staðið jafnvel síðan á síldarárunum upp úr miðri síðustu öld.  Sá vaski samningamaður Lee Bucheit segir á þá leið að  ,,Sú niðurstaða sem náðist varðandi uppgjör slitabúa gömlu bankanna, þar sem kröfuhafar samþykktu að framselja til íslenskra stjórnvalda án endurgjalds innlendar eignir sem eru metnar á mörg hundruð milljarða króna, er fordæmalaus í alþjóðlegri fjármálasögu“

Ófrægingarmönnum virðast sárna þessi staðreynd kannski vegna þess að þeir höfðu ekki kjark og þor til að ráðast til atlögu við kröfuhafa.  Ófrægingarmennirnir þola ekki að forsætisráðherra á alla kosti sem þá skortir.  Hann á framsýni kjark og dug sem þeir eiga ekki.  Þess vegna hefur þetta ógæfufólk hamast á forsætisráðherra hvern dag í þrjú ár en auðvitað án árangurs því niðurrifið og hælbitin efla Sigmund Davíð í hverri raun.  Hvað tekur ófrægingarliðið þá til bragðs?  Jú, það skrifar nýjan kafla í lágkúruumræðu sinni með því að beina spjótum sínum að eiginkonu forsætisráðherra vegna þess að hún á eignir.  Og hvað haldiði nema þau fái ekki í lið með sér hjárænulegan Sjálfstæðisþingmann sem er í vandræðum með sjálfsmynd sína.  Það eru tíðindi að Sjálfstæðisþingmaður láti vinstrið siga sér eins og rakka vegna einhverrar minnimáttakenndar.

Það hefur lengi verið alþekkt staðreynd að eiginkona forsætisráðherra er velefnuð. Það er einnig lýðum ljóst hvernig eignirnar eru til komnar. Það hefur aldrei hvílt leynd yfir þessari staðreynd.  Það liggur fyrir að skattar hafa verið greiddir á Íslandi vegna þessara eigna alla tíð.  Það liggur fyrir að eiginkona forstætisráðherra hefur ef eitthvað er tapað eignum vegna þeirra aðgerða sem eiginmaður hennar hefur staðið fyrir.  En hælbítarnir gefast ekki upp enda eru pólísk samtök þeirra við það að þurrkast út. Það ætti ekki að koma neinum á óvart sem fylgst hefur með framgöngu þeirra undanfarin ár.

Spurningin sem uppúr stendur er samt þessi:  Viljum við að íslensk stjórnmálaumræða snúist um fjölskyldumeðlimi stjórnmálamanna? Fjölskyldumeðlimi sem eru ekki þátttakendur í stjórnmálum.  Þurfa stjórnmálamenn framvegist að gera ráð fyrir því að fjölskyldur þeirra verði fyrir áreiti og dylgjum vegna þess að makinn er í pólitík? Mitt svar er nei. Til þess að svo megi verða þarf ógæfufólkið í pólitík að gaumgæfa vel framgöngu sína.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist á www.visir.is 21. mars 2016.

Categories
Greinar

Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í New York – CSW60

Deila grein

18/03/2016

Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í New York – CSW60

Þorsteinn-sæmundssonÉg er staddur á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin er af UN Women í New York.

Það er mikil upplifun að koma á ráðstefnuna og hér eru þúsundir fulltrúa úr öllum heimshornum, konur eru í miklum meirihluta. Dagskráin er svo viðamikil og viðburðir svo margir að segja má að fyrir hvern einn sem maður sækir missi maður af tíu öðrum. Allir sem sækja ráðstefnuna hafa því meira en nóg að gera þá daga sem hún stendur. Þessi ráðstefna er sú sextugasta sem haldin er og sú síðasta sem fram fer í stjórnartíð Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ. Í setningarræðu sinni í upphafi ráðstefnunnar sagðist Ban Ki-moon hafa skipað 150 konur í stjórnunarstöður á starfstíma sínum. Hann lagði mikla áherslu á að ábyrgð þeirra sem sæktu ráðstefnuna væri sú að fylgja fram stefnunni um aukið jafnrétti, að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum í hverri mynd sem er, til að tryggja að árangur yrði af starfinu hér. Geta má þess að nú er þegar farið að hvíslast á um eftirmann Ban Ki-moon. Sagt er að nú sé komið að Austur-Evrópu að skipa í starfið. Einnig er rætt um að nú sé kominn tími til að kjósa konu sem aðalritara SÞ. Allavega er ljóst að mikið mun ganga á áður en niðurstaða fæst um það.

Síðastliðinn mánudag var dagskrá þar sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra, var í pallborði ásamt nokkrum öðrum og stóð sig vel. Á fundum eins og þessum kemur í ljós hversu mikils metið framlag Íslendinga til jafnréttismála er. Feðraorlofið sem tekið var upp í tíð Páls Péturssonar var mjög lofað á fundinum. Mörg ríki, þ.á.m. sum nágrannaríki okkar, hafa þó ekki treyst sér til að hrinda slíku orlofi í framkvæmd með sama hætti og gert hefur verið á Íslandi.

Á kvennaráðstefnunni koma fram ótal sjónarmið og lýsingar á kjörum kvenna og stúlkna í hinum ýmsu löndum. Það er ekki laust við að maður hrökkvi við þegar aðstæðum kvenna og stúlkna, t.d. í Afríku og Asíu, er lýst. Þá er einnig ljóst að hefðir annarra menningarheima flytjast til hins vestræna heims með vaxandi fólksflutningum. Átaks er þörf til að koma í veg fyrir limlestingar á stúlkum til þess að standa við fyrirheit SÞ um betra ástand árið 2030 sem er aðeins fimmtán ár í burtu. Við þörfum öll að leggja okkar lóð á vogarskálina til þess að tryggja jafna stöðu kvenna og karla í heiminum.

Þorsteinn Sæmundsson.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2016.

Categories
Fréttir

Fæðingarorlofssjóður hafnar umsóknum frá sjómönnum

Deila grein

18/03/2016

Fæðingarorlofssjóður hafnar umsóknum frá sjómönnum

Páll Jóhann Pálsson„Virðulegi forseti. Það er dapurlegt að heyra þegar hv. varaþingmenn koma hér og reyna að draga umræðuna niður í svaðið. Ég get ekki orða bundist um það.
Fæðingarorlof hefur verið mikið í umræðunni. Fæðingarorlof fyrir feður er eitt mesta jafnréttisspor sem stigið hefur verið hér á landi. Fyrir okkur, þessa gömlu sem nutum ekki þessa sanngjarna kerfis í barneignum okkar er sérstakt en ánægjulegt að sjá feður gangandi um bæinn með barnavagn. Það var nánast undantekning að sjá það hér áður fyrr. Ég viðurkenni reyndar að það var slæmt að missa unga og fríska menn í frí um hávertíð til að sinna börnum sínum, en það þykir sjálfsagt mál í dag, auðvitað er það sjálfsagt. Það hefur leitt til þess að ungir menn taka ekki aðeins meiri þátt í uppeldi barna sinna heldur taka þeir einnig mun meiri þátt í venjulegum heimilisstörfum.
Það er því dapurlegt að heyra frá sjómönnum að ítrekað hafni Fæðingarorlofssjóður umsóknum eða skerði greiðslur til sjómanna á grundvelli sjónarmiða og skilyrða sem ekki eiga sér stoð í lögum um sjóðinn. Hefur afgreiðsla sjóðsins á umsóknum sjómanna gefið til kynna algjört þekkingarleysi á störfum sjómanna, fyrirkomulagi og launakerfi þeirra sem er auðvitað frábrugðið því sem er hjá fólki sem starfar í landi.
Umboðsmaður Alþingis hefur síðustu ár ítrekað slegið á hendur sjóðsins og gert hann afturreka með ákvarðanir sínar, en engu að síður virðist sem sjóðurinn ætli að halda áfram á sömu braut. Vinnufyrirkomulag sjómanna hefur breyst mikið og byggist oft og tíðum á löngum útiverum og löngum fríum, sem má alls ekki verða til þess að útiloka sjómenn frá þeim sjálfsögðu réttindum sem allir aðrir þjóðfélagsþegnar hafa.“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 16. mars 2016.

Categories
Fréttir

Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar til Akureyrar

Deila grein

18/03/2016

Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar til Akureyrar

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Mig langar að fagna því sérstaklega hér að Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin hafi samþykkt á fundi sínum þann 14. mars að skrifstofa nefndarinnar flytjist frá Þýskalandi til Akureyrar um næstu áramót. Þessa ákvörðun má meðal annars rekja til þess að ríkisstjórn Íslands ákvað um miðjan febrúar að tillögu forsætisráðherra að veita fjármagn til reksturs hennar næstu fimm árin.
Markmið Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar er að stuðla að samstarfi um rannsóknir á norðurslóðum og veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni þeirra. Stofnunin leiðir saman opinberar rannsóknastofnanir og samtök frá 23 löndum og hefur skapað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum. Frá upphafi hefur Rannís átt aðild að nefndinni fyrir hönd Íslands.
Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin gegnir mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga frá vísindasamfélaginu til Norðurskautsráðsins um niðurstöður rannsókna á náttúru- og samfélagsbreytingum á norðurslóðum. Ég hef haft tækifæri til að fylgjast með þessu starfi og kynnast því í gegnum störf mín í Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál og veit að það skiptir máli.
Skrifstofan verður mikilvæg viðbót við það öfluga norðurslóðasamfélag eða norðurslóðaklasa sem nú er á Akureyri. Þar má nefna Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og tvær af skrifstofum Norðurskautsráðsins og þar starfar einnig fyrirtæki sem er sérhæft við söfnun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga um norðurslóðir, Arctic Portal, og Norðurslóðanet Íslands.
Því má vænta enn öflugra starfs að málefnum norðurslóða á Akureyri. Íslenskt vísindasamfélag fær aukinn aðgang að öflugu tengslaneti vísindamanna á norðurslóðum og líklegt er að áhugi erlendra vísindamanna á rannsóknasamstarfi við Íslendinga aukist.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 16. mars 2016.

Categories
Fréttir

Saman gegn sóun

Deila grein

18/03/2016

Saman gegn sóun

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á því að frábiðja mér málflutning eins og þann sem hv. þm. Björn Valur Gíslason býður okkur upp á. Þar held ég að botninum hafi verið náð og finnst ekki ólíklegt að menn sem komnir eru á þennan stað á botninum eigi erfitt með að finna viðspyrnu til að koma sér upp. Það er algjörlega óboðlegt að vera með svona málflutning. Öll málefni þeirra ágætu hjóna eru uppi á borðinu, allir skattar hafa verið greiddir og hér er ekki verið að fela neitt.
Ég krefst þess að hv. þingmaður biðjist afsökunar á orðum sínum.
Annars ætla ég að byrja á því að óska Akureyringum til hamingju með þá ákvörðun Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar að flytja aðalskrifstofu hennar til Akureyrar. Þar er enn eitt dæmið um niðurstöðu af góðum verkum ríkisstjórnarinnar sem skilar sér beint inn í samfélagið og nýtist til fjölbreyttrar innviðauppbyggingar. Tvö til þrjú störf munu fylgja skrifstofunni auk starfa í tengslum við alþjóðanefndir vinnuhópa.
Það mun styðja við þær stofnanir um málefni norðurslóða sem þegar eru á svæðinu og efla rannsóknir í háskólabænum Akureyri. Það er vel.
Það leiðir mig svo að öðru máli sem ríkisstjórnin hefur haft forgöngu um og varðar umhverfismál, því að nú hefur umhverfis- og auðlindaráðherra birt stefnu um úrgangsforvarnir. Ég hef vikið að því áður en vil benda á að kynning á stefnunni sem ber nafnið Saman gegn sóun verður í fyrramálið og er öllum opin. Matarsóun verður í forgangi fyrstu tvö ár stefnunnar og verða ýmsar aðgerðir á því sviði kynntar á fundinum. Mál sem varða úrgang fá stöðugt meira vægi vegna aukinna kvaða um meðhöndlun hans. Vissulega hafa íbúar margra sveitarfélaga náð miklum árangri á þessu sviði en þrátt fyrir það vantar enn þá nokkuð upp á að við Íslendingar stöndumst samanburð við þær þjóðir Evrópu sem lengst hafa náð.
Hæstv. forseti. Þarna er um að ræða mál sem við sem einstaklingar getum tekið ábyrgð á og lagt okkar af mörkum.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 16. mars 2016.

Categories
Fréttir

Hátt vaxtastig er íþyngjandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf

Deila grein

18/03/2016

Hátt vaxtastig er íþyngjandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að nefna hér tvö mál, fyrst dagskrárliðinn sérstakar umræður. Oftar en ekki á sér stað mjög gagnleg umræða undir þeim lið og mér finnst formið á þeirri umræðu afar skilvirkt. Einn galli sem ég upplifi þó þegar ég tek þátt í þeirri umræðu er að tvær mínútur eru helst til knappur tími og ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig um það og mælst til að hæstv. forseti taki það til athugunar, nú síðast hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson að lokinni umræðu um afglæpavæðingu fíkniefna sem var í gær.
Þá að öðru, virðulegi forseti. Ég ætla að ræða vexti og vaxtastig sem er hér hátt í öllum alþjóðlegum samanburði. Nú í morgun birti peningastefnunefnd yfirlýsingu sína og heldur sig við óbreytta stýrivexti, 5,75%, þar sem verið er að bregðast við innlendum verðbólguþrýstingi en innflutt verðhjöðnun talin vega á móti. Það má ráða af þeirri ákvörðun að ef ekki væri fyrir þessa innfluttu verðhjöðnun væri full ástæða til að hækka stýrivexti. Tilgangur peningastefnunefndar og peningastefnu er að viðhalda stöðugleika og hann er mikilvægur þegar kemur að kaupmætti og kjörum. Á móti vegur að hátt vaxtastig er íþyngjandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf. Það er eitt meginviðfangsefni hagstjórnar til lengri tíma að við festumst ekki í þessu vaxtastigi, með þessa háu vexti, með hættu á tilheyrandi innstreymi fjármagns í formi vaxtamunarviðskipta. Það hefur áhrif á útflutningsatvinnugreinar og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna og getur að sama skapi haft áhrif á framþróun losunar hafta. Þetta er auðvitað viðvarandi en um leið aðkallandi viðfangsefni og þarf að leysa í stóru samhengi peningamála, ríkisfjármála, vinnumarkaðar og afnáms verðtryggingar á fasteignalánum til neytenda.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 16. mars 2016.

Categories
Fréttir

Landsbankinn á að leita réttar síns

Deila grein

16/03/2016

Landsbankinn á að leita réttar síns

þingmaður-hoskuldur„Virðulegi forseti. Mig langar, eins og aðrir hafa gert í þessum þingsal, að vekja athygli á einu atriði í Borgunarmálinu. Mig langar að taka það til umræðu hverjir hinir raunverulegu hagsmunir í málinu eru. Hinir raunverulegu hagsmunir eru þeir að almenningur tapaði ekki bara verulegum fjármunum heldur ótrúlega miklum fjármunum, svo að hleypur á milljörðum króna.
Í bréfi Bankasýslunnar til bankaráðs Landsbankans kemur fram að hafi Landsbankinn athugasemdir við upplýsingagjöf af hálfu annarra aðila í tengslum við sölumeðferð á eignarhlut í Borgun eigi bankinn að leita réttar síns, ef hann telur tilefni til. Ég held nefnilega að hér sé einmitt komið það tilefni.
Ég bendi á grein sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins eftir hæstaréttarlögmanninn Hauk Örn Birgisson. Þar bendir hann á ákvæði í samningalögum, nr. 7/1936, sem heimila í vissum tilvikum endurskoðun á viðskiptum aðila, jafnvel ógildingu; að það sé með öðrum orðum hægt að ógilda þennan samning og ná þessum fjármunum til baka. Hann vísar í dómafordæmi þar sem Hæstiréttur hefur bent á að sé verðmætið margfalt meira en endurgjaldið sé hægt að færa rök fyrir því að samningagerðin hafi verið byggð á brostnum eða röngum forsendum, og hægt sé að ógilda hana á grundvelli 36. gr. samningalaga.
Ég tel einboðið að Landsbankinn höfði mál, geri það hið allra fyrsta. Ég vil líka hvetja Bankasýsluna, vegna þess að hún fer með eignarhlut ríkisins, til að hafa forgöngu í málinu, að höfðað verði dómsmál og allra leiða leitað til að ná þessum fjármunum aftur. Þó að kostnaður við dómsmál geti hlaupið á einhverjum milljónum þá eru það smámunir miðað við þá gríðarlegu hagsmuni sem hér eru í húfi fyrir almenning í landinu.“
Höskuldur Þórhallsson í störfum þingsins 15. mars 2016.

Categories
Greinar

Lygilegur jöfnuður?

Deila grein

16/03/2016

Lygilegur jöfnuður?

Karl_SRGBÍsland á Evrópumet í jafnri dreifingu launa. Raunar dreifðust tekjur jafnar milli fólks hér á landi árið 2014 en nokkru sinni hefur sést síðan mælingar hófust árið 2004. Þetta kemur fram, bæði í félagsvísum 2015 og lífskjararannsókn Hagstofunnar 2015. Samkvæmt alþjóðlegum samanburði OECD er Ísland einnig skilgreint sem hálaunaland. Samkvæmt gögnum OECD eru meðaltekjur á Íslandi næst hæstar á Norðurlöndunum og því er nær sanni að segja að Ísland sé hálaunaland, þegar litið er til kaupmáttar. Sífellt fækkar í hópi þeirra landsmanna sem hafa tekjur undir lágtekjumörkum og atvinnuþátttaka eykst. Þetta er í raun lygileg staða og ótrúlegur árangur.

Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að sjá aukinn jöfnuð í samfélaginu, en það er ekki þar með sagt að við viljum að allir séu á sömu launum, fyrir ólík störf. Það er grundvallaratriði að við metum menntun og ábyrgð til launa. Að öðrum kosti væri hvatinn fyrir menntun minni og erfitt gæti reynst að fá starfsmenn til að taka á sig aukna ábyrgð, með tilheyrandi álagi og auknu vinnuframlagi.

Þrátt fyrir góða stöðu Íslands og íbúa landsins eigum við að geta gert enn betur. Hlutfall Íslendinga sem er undir lágtekjumörkum hefur vissulega dregist saman á milli ára en 8% er enn of hátt. Ísland er ríkt af auðlindum og tækifærum til að bæta hag þeirra sem minna hafa. Við þurfum að hlúa að þeim tækifærum og vera duglegri að nýta þau.

Það er hins vegar áhyggjuefni að þrátt fyrir að tekjujöfnuður sé að aukast og kaupmáttur orðinn meiri, þá upplifir þjóðin það ekki svo að á Íslandi ríki jöfnuður. Sú upplifun er raunveruleg en snýr mun fremur að skiptingu auðs og arðs, fremur en launaumslaginu. Þegar fréttir á borð við himinháar arðgreiðslur úr tryggingarfélögum til hluthafa og gríðarlegar launahækkanir forstjóra berast dag eftir dag, er það ekkert skrítið. Þar þarf ríkið að sinna sínu hlutverki betur, að sinna hagsmunum neytenda.

Það má gera betur í mörgum málum. En það má líka gleðjast yfir því sem gott er. Stundum er líka nauðsynlegt að við minnum okkur á hversu gott við raunverulega höfum það, þó með þann metnað að leiðarljósi að ávallt er hægt að sækja lengra fram.

Karl Garðarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. mars 2016.