Categories
Fréttir

Sveigjanleiki aukinn í byggingarreglugerð

Deila grein

03/05/2016

Sveigjanleiki aukinn í byggingarreglugerð

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur undirritað reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð sem hefur það að markmiði að lækka byggingarkostnað vegna íbúðarhúsnæðis. Breytingarnar lúta einna helst að aðkomu, umferðarleiðum og innri rýmum mannvirkja sem og stjórn mannvirkjamála hvað varðar minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi.
Með reglugerðinni eru kröfur um lágmarksstærðir rýma í íbúðum felldar brott en í stað þess sett inn markmið, sem veitir ákveðið frelsi við útfærslu hönnunar. Breytingarnar miða fyrst og fremst að því að auka sveigjanleika við gerð íbúðarhúsnæðis. Þannig getur lágmarksstærð íbúðar, sem er eitt herbergi, minnkað verulega. Ef gert er ráð fyrir að geymsla og þvottaaðstaða sé í sameign og ekki gert ráð fyrir anddyri getur slík íbúð verið um 20 m2, fyrir utan sameign. Lágmarksstærð íbúðar, sem er með einu litlu svefnherbergi, getur minnkað samsvarandi.
Breytingarnar lúta einnig að því að minniháttar framkvæmdum sem undanþegnar eru byggingarleyfi fjölgar og verða þær í stað þess tilkynningarskyldar.  Þá eru gerðar ákveðnar breytingar varðandi bílastæði fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhúsnæði, rýmisstærðir í íbúðarhúsnæði, sorpgeymslur og loftræstingu íbúða.
sigrun-byggingarreglugerd-undirritun
Í ráðuneytinu er hafinn undirbúningur að gerð frumvarps til laga um breytingu á lögum um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslögum, nr. 123/2010, þar sem áhersla verður lögð á einföldun stjórnsýslu byggingarmála með lækkun byggingarkostnaðar vegna íbúðarhúsnæðis að leiðarljósi.
Gert er ráð fyrir að reglugerðin taki gildi við birtingu að undanskildum breytingum er varða minniháttar framkvæmdir sem eru tilkynningarskyldar, en þær taka gildi 15. júní nk.
Helstu breytingar á byggingarreglugerðinni eru þessar:

  • Í 2.3.5. gr. er fjölgað minniháttar framkvæmdum sem undanþegnar eru byggingarleyfi en sumar þeirra verða tilkynningarskyldar. Helstu breytingarnar varða viðbyggingar og lítil hús á lóð allt að 40 m2 sem eru í samræmi við deiliskipulag og innan byggingarreits sem og smáhýsi veitna.
  • Bætt er við 2.3.6 gr. sem fjallar um málmeðferð vegna tilkynntra framkvæmda.
  • Felldar eru brott gr. 4.10.3 til og með gr.4.10.10 sem fjalla um verksvið iðnmeistara. Gert er ráð fyrir að ábyrgðarsvið þeirra sé í samræmi við gildandi hæfniskröfur og námskrár til meistaraprófs í viðkomandi iðngrein á hverjum tíma, sbr. 4. mgr. 4. 10.1. gr. og að Mannvirkjastofnun gegni leiðbeinandi hlutverki í því sambandi.
  • Í gr. 6.2.4 er breytt kröfum til bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhúsnæði og jafnframt dregið úr kröfum um lágmarksfjölda þeirra.
  • Í gr. 6.4.2 er breytt kröfum til inngangsdyra og nú kveðið á um hindrunarlaus umferðarmál.
  • Í gr. 6.4.4 eru gerðar breytingar á kröfum til breidda á göngum og svalagöngum.
  • Í gr. 6.4.8 er dregið úr kröfum um breidd stiga í íbúðarhúsnæði ef til staðar er lyfta sem tekur sjúkrabörur.
  • Í gr. 6.5.1 er heimilað að víkja frá kröfu um handrið beggja vegna við stiga í íbúðarhúsum ef lyfta er í húsinu og stigi liggur að vegg.
  • Kafli 6.7 sem fjallar um íbúðir hefur verið endurskoðaður í heild.  Helstu breytingar eru þær að öll ákvæði um stærðir rýma eru felld brott en eftir sem áður gilda sömu ákvæði um algilda hönnun.  Þá eru ákvæði um svalir að mestu færð í 9. hluta reglugerðarinnar sem fjallar brunaöryggi.
  • Í gr. 6.12.6 og 6.12.8 er dregið úr kröfum varðandi sorpgeymslur og m.a. aukið svigrúm til að vera með sorplausnir utan lóðar.
  • Í gr. 9.5.3 er bætt við ákvæðum um svalir vegna brottfalls ákvæða í kafla 6.7 sem fjallar um íbúðarhúsnæði.
  • Í gr. 10.2.5 er aukinn sveigjanleiki varðandi loftræsingu íbúða og tengdra rýma með því að færa hluta af ákvæðum greinarinnar í viðmiðunarreglur.

Reglugerð nr. 360/2016 um (4.) breytingu á byggingarreglugerð,nr. 112/2012

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Einar Gunnar nýr framkvæmdastjóri Framsóknar

Deila grein

03/05/2016

Einar Gunnar nýr framkvæmdastjóri Framsóknar

einarFramkvæmdastjórn Framsóknar samþykkti í dag að ráða Einar Gunnar Einarsson sem framkvæmdastjóra flokksins.
Einar Gunnar er fæddur í Hafnarfirði 13. febrúar 1970. Foreldar eru Einar Kr. Jóhannesson (fæddur 23. mars 1927, dáinn 28. október 1997), yfirvélstjóri og Unnur Magnúsdóttir (fædd 14. febrúar 1936, dáin 1. febrúar 2002), hárskerameistari. Einar Gunnar er í sambúð með Agnesi Ástu Woodhead.
Einar Gunnar hefur starfað á skrifstofu Framsóknar frá árinu 2002 og nú síðast sem skrifstofustjóri.

Categories
Fréttir

Efling umhverfismála í brennidepli

Deila grein

02/05/2016

Efling umhverfismála í brennidepli

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis-og auðlindaráðherra, upplýsti í ávarpi sínu á ársfundi  Umhverfisstofnunar sl. föstudag að bygging gestastofu Þjóðgarðsins á Snæfellsnesi á Hellissandi, væri komin á fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar og væri gert ráð fyrir um 300 milljónum króna til verksins.
Ráðherra sagði þetta gleðitíðindi: „Við hefjumst handa strax. Þetta verður mikil búbót og bylting fyrir þjóðgarðinn og fyrir Snæfellsnes og eykur án efa aðdráttarafl svæðisins til muna.“
Í ræðu ráðherra kom fram að yfir 40 ár eru síðan Eysteinn Jónsson ályktaði um stofnun þjóðgarðs sem bera skyldi heitið „Þjóðgarður undir Jökli“. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hafi svo verið stofnaður fyrir 15 árum í þeim tilgangi að vernda sérstæða náttúru og merkar sögulegar minjar.
Ársfundur Umhverfisstofnunar bar yfirskriftina grænt samfélag, grænir ferðamannastaðir og var kastljósinu beint að því hvaða áskoranir þurfi að takast á við til að geta búið í grænu samfélagi til framtíðar. Þá var þeirri spurningu velt upp hvað grænir ferðamannastaðir væru.
Ráðherra sagði að landvarsla yrði efld frekar víða um land í takt við mikla þörf til að bæta öryggi þeirra sem sækja okkur heim til mynda við Mývatn, að Fjallabaki og á Hornströndum.
Ráðherra benti á að miklar væntingar væru til nýrra laga um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Lögin veiti svigrúm til að setja meiri kraft í framkvæmdir og til að hafa skýrari yfirsýn. Þá væri brýnt að skilgreina betur ferðamannasvæði enda er náttúran frá fjöru til fjalla á Íslandi, einstök auðlind sem ber að umgangast af virðingu og alúð.
Þá sagði ráðherra að spennandi tækifæri lægju í því að virkja kraft nýsköpunar. „Við viljum hafa framtíðina græna og þurfa fjárfestar í auknum mæli að koma að borðinu til að taka þátt í þeirri þróun svo einstaklingar, ríkið og atvinnulífið geti lagt meira af mörkum til umhverfismála.“
Að lokum talaði ráðherra um hversu ánægjulegt væri að skynja hvað fólk væri farið að hugsa meira um nýtni og umgengni. „Hegðun okkar dagsdaglega skiptir máli hvort sem hún lýtur að vali á fatnaði, matarsóun, orkunotkun eða samgöngum sem allt hefur áhrif á vistsporið.“ Hún legði sérstaka áherslu á að vinna gegn matarsóun, enda væri þar um loftslagsmál að ræða þar sem matarsóun veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Undirbúningur væri hafinn að kortlagningu vandans og mikilvægt væri að virkja allt samfélagið með festu svo árangur næðist. Til mikils væri að vinna.