Categories
Fréttir

Ofanflóðavarnargarður vígður á Bíldudal

Deila grein

12/08/2016

Ofanflóðavarnargarður vígður á Bíldudal

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði formlega snjóflóðamannvirki við Búðargil á Bíldudal í gær.  Þar með er lokið fyrsta áfanga ofanflóðavarna á Bíldudal.
Hættusvæði vegna ofanflóða nær til nokkuð stórs hluta byggðarinnar á Bíldudal.  Enn er ólokið framkvæmdum við varnir við Stekkjargil eða Gilsbakkagil og undir svokölluðum Milligiljum. Þar er unnið að endurskoðun á fyrirkomulagi fyrirhugaðra varna og stefnt að því að þeirri vinnu verði lokið í haustbyrjun. Í framhaldinu verða tillögur kynntar bæjaryfirvöldum og íbúum.
Í ræðu sinni fagnaði ráðherra því að með gerð varnargarðsins hafi öryggi bæjarbúa á Bíldudal gagnvart ofanflóðum verið aukið. Hún sagðist vona að íbúar myndu njóta útivistar á svæðinu en strax í undirbúningi verksins hafi verið lögð áhersla á útlit mannvirkisins, uppgræðslu og gerð göngustíga þannig að framkvæmdirnar féllu sem best að umhverfinu og stuðluðu um leið að bættri aðstöðu til útivistar. Þá sagði ráðherra sérstaklega ánægjulegt að vígja ofanflóðamannvirki á Bíldudal, þar sem hún hafi hafið sinn pólítíska feril í sveitarstjórn fyrir tæpri hálfri öld.

""

Vígsluathöfnin fór fram við varnargarðinn þar sem komið hefur verið fyrir upplýsingaskilti um mannvirkið.  Auk ráðherra ávarpaði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, vígslugesti.
Að lokinni vígslu varnargarðsins bauð Vesturbyggð til kaffisamsætis.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Mikilvægt er að rödd kvenna heyrist

Deila grein

11/08/2016

Mikilvægt er að rödd kvenna heyrist

logo-lfk-gluggiLandssamband framsóknarkvenna (LFK) vill hvetja konur til þess að gefa kost á sér á lista fyrir Framsókn í komandi kosningum. Mikilvægt er að rödd kvenna heyrist ásamt því að konur eru afar mikilvægar fyrirmyndir. Framsókn hefur verið leiðandi í kynjajafnrétti og við viljum halda því áfram þar sem sýnileiki kvenna eykur líkur á að gildi og viðhorf beggja kynja gefi farsælli sókn til framtíðar.
Einnig vill LFK vekja athygli á að í grein 15.8 í lögum flokksins segir: „Við skipan í trúnaðar- og ábyrgðarstöður innan flokksins sem og við val á framboðslista hans skal hlutur hvors kyns ekki vera lægri en 40% nema þegar gagnsæjar og augljósar ástæður eru því til fyrirstöðu. Jafnréttisnefnd og LFK skulu eftir þörfum vera til ráðgjafar um að ná markmiði þessu fram.“

Categories
Greinar

Framsókn og verðtryggingin

Deila grein

10/08/2016

Framsókn og verðtryggingin

Elsa-Lara-mynd01-vefurGunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraFramsóknarflokkurinn hefur verið skýr í afstöðu sinni til verðtryggingar, að hana beri að afnema af neytendalánum.  Öll sáum við hversu mikil áhrif verðtryggingarinnar voru í hruninu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar varði hag sparifjáreigenda en gætti ekki að þeim sem fjárfest höfðu í eignum, en fasteign er sú sparnaðarleið sem flestir kjósa fyrir verðtryggt lánsfé. Flestir þekkja framhaldið.

Í fréttum undanfarið hefur heyrst að draga skuli úr vægi verðtryggingar og að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna með einu pennastriki. Það þurfi að gera í skrefum. Þess vegna er mikilvægt að leggja fram trúverðuga og tímasetta áætlun um hvert skref sem taka skal á og hvaða leiðir unnt er að fara í þeim efnum. Það þarf að ganga hratt og vel fyrir sig.

Nú er unnið að tillögum sem eiga að draga úr vægi verðtryggingar. Þær tillögur hafa eingöngu verið gróflega kynntar fyrir þingflokki Framsóknar. Þessar tillögur ná aðeins til ákveðins hóps og efumst við ekki um að það verði til mikilla bóta fyrir þann hóp. En við, ásamt fleirum höfum sett fyrirvara við þau drög og er ástæðan sú að við sjáum ekki hvernig koma eigi á móts við þá tugþúsundir sem nú þegar eru með verðtryggð lán.

Endanlegar tillögur hafa ekki verið kynntar í ríkisstjórn né þingflokki Framsóknarmanna. Ef að þessar tillögur eru „góðar“ þá er ekki útilokað að um þær náist sátt. Mikilvægt er þó að um leið séu næstu skref kynnt að fullu afnámi verðtryggingar af neytendalánum.

Ýmsar hugmyndir hafa verið settar fram um hvernig „draga megi úr vægi verðtryggingar“ þannig að slíkt lánsform verði að minnsta kosti ekki í boði af húsnæðislánum. Þær hugmyndir sem settar hafa verið fram eru m.a. að

  • setja þak á verðtryggingu þannig að lántaki og lánveitandi skipti með sér áhættu. Þannig að ef verðbólgan fer yfir ákveðna prósentu þá taki lánveitandi á sig áhættuna umfram það.
  • að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs (SVN) í stað vísitölu neysluverðs (VNV). Þannig væri húsnæðisþáttur tekinn út úr vísitölunni. Þingmál þessa efnis hefur verið lagt fram af þingmönnum Framsóknarflokksins en ekki fengið afgreiðslu: https://www.althingi.is/altext/145/s/1069.html 
  • að setja takmarkanir á fjölda þeirra verðtryggðu lána sem lánastofnanir geta átt. En það er nú svo að verðtryggðu lánasöfn/eignasöfn bankanna aukast verulega þegar verðbólga fer af stað. Það verður eignatilfærsla frá heimilum landsins til fjármálastofnanna. Það verður að stöðva.
  • að breyta útreikningi verðtryggðra lána þannig að breytingar á vísitölu reiknist á og greiðist af hverjum gjalddaga fyrir sig en ekki höfuðstól. Þannig komum við í veg fyrir þau snjóboltaáhrif sem verðtryggingin hefur á lánasöfn.

Þegar þetta er ritað höfum við ekki heyrt hvort þessar hugmyndir eða aðrar hafi verið skoðaðar. Það er nauðsynlegt að skoða allar hugmyndir um að „minnka enn frekar vægi verðtryggingar“ ef það er ekki meirihluti fyrir því í þinginu að afnema verðtryggingu með öllu.

Við höldum áfram að tala fyrir því að afnema beri verðtryggingu af neytendalánum. Það er ekkert sanngjarnt við það að lántakendur, það eru heimili landsins, beri ein þá áhættu sem felast í verðtryggðu lánaformi.

Elsa Lára Arnardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist á www.visir.is 9. ágúst 2016.

Categories
Greinar

Hvenær er maður nógu gamall?

Deila grein

09/08/2016

Hvenær er maður nógu gamall?

Róbert Smári GunnarssonMér líður stundum sem 16 ára ungum manni einsog litið sé niður til mín þegar ég tjái skoðanir mínar opinberlega. Eitt sinn var sagt við mig að ég ætti ekkert að vera tjá mig um hluti sem ég hefði ekkert vit á, sem dæmi.

Ég hef gífurlegan áhuga á þjóðfélagsmálum og dreymir um að taka þátt í pólitískri vinnu í framtíðinni. „En hvenær ætti ég að þora því?“ er spurning sem veltur án efa á mörgu ungu fólki, og ég velti fyrir mér áður en ég sendi þessa grein.

Hvað þarf maður að hafa til að geta farið út í pólitík, eða bara til að vera tekin sjálfsagður í umræðu um pólitík? Þarf ég að vera háskólagenginn, búinn að vera á vinnumarkaði í áratugi, kominn með maka og börn?

Eftir að umræðan átti sér stað meðal fjölda einstaklinga á samfélagsmiðlum þegar Gauti Geirsson var ráðinn sem aðstoðarmaður ráðherra, veltir maður þessum spurningum fyrir sér sem og þegar Jóhanna María Sigmundsdóttir settist á þing, þau voru tætt í sig meðal eldra fólks og sögð vera börn.

Ég lít á þetta unga fólk sem ákveðna hvatningu, hvatningu til ungs fólks að láta í sér heyra, koma sínu á framfæri og láta gott af sér leiða. Þegar einhver nær svona langt og fær gott tækifæri hjá stjórnvöldum er það virðingavert og mikið fagnaðarefni, og sýnir traust stjórnvalda til ungs fólks-, og vilja til að gefa ungu fólki tækifæri, en samt ná neikvæðu raddirnar of oft að verða háværastar.

Getum við ekki breytt þessu þannig að ungt fólk verði tekið sem sjálfsögðum hlut í umræðunni líkt og þeir sem eldri eru?

Það eiga allir sama rétt til að tjá sig, óháð aldri, búsetu, uppruna, efnahag og öðru.

Róbert Smári Gunnarsson

Greinarhöfundur er áhugamaður um pólitík og stjórnarmeðlimur í stjórn SUF

Categories
Greinar

Hinsegin í útlöndum

Deila grein

06/08/2016

Hinsegin í útlöndum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Á morgun göngum við til gleði. Ísland hefur um árabil verið í hópi forysturíkja hvað varðar virðingu fyrir mannréttindum hinsegin fólks.

Árangursrík barátta gegn hvers konar fordómum og mismunun á grundvelli kynhneigðar og kyngervis hefur aukið fjölbreytileika í þjóðfélaginu.

Víða um heim er það þó svo að hinsegin fólk er ofsótt og nýtur ekki grundvallarmannréttinda. Í sumum ríkjum er samkynhneigð álitin glæpur og stjórnvöld hika ekki við að skerða frelsi og réttindi hinsegin fólks. Í fjölmörgum ríkjum hafa lagalegar og samfélagslegar breytingar átt sér stað að undanförnu sem bætt hafa stöðu hinsegin fólks en hatursglæpir á borð við nýlega árás í Orlando sýna að víða er mikið verk óunnið.

Íslensk stjórnvöld beita sér fyrir mannréttindum hinsegin fólks í tvíhliða samskiptum við önnur lönd og á vettvangi alþjóðastofnana. Stundum er á brattann að sækja en í góðu samstarfi við Norðurlönd og aðra má finna leiðir til þess að knýja fram úrbætur. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland gagnrýnt mannréttindabrot og bent á skuldbindingar ríkja til að vernda og virða mannréttindi allra. Þá eru réttarbætur hinsegin fólks ávallt á dagskrá í samskiptum við stjórnvöld ríkja þar sem úrbóta er þörf.

Glöggt er gests augað og með alþjóðlegu samstarfi gefst einnig kostur á úrbótum heima fyrir. Þannig veitir ný skýrsla stjórnvalda til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna góða yfirsýn um stöðu mála hérlendis og þann árangur sem náðst hefur, en einnig aðhald þar sem gera má betur. Á haustmánuðum munu stjórnvöld svo njóta liðsinnis Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE til að efla þekkingu og störf gegn hatursglæpum í íslensku þjóðfélagi.

Saman viljum við stuðla að því að réttur milljóna hinsegin fólks verði virtur í hvívetna og mannlíf í sinni fjölbreyttustu mynd fái blómstrað.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. ágúst 2016.