Categories
Greinar

Háir vextir

Deila grein

23/10/2017

Háir vextir

Undirliggjandi vandi hagkerfisins eru háir vextir sem hafa mikil áhrif á gengisflökt krónunnar. Seðlabankinn tekur ákvörðun um hversu hátt vaxtastigið eigi að vera. Eins og staðan er í dag, er fólk þvingað til að taka verðtryggð lán. Hver greiðsla er lægri af láninu í  hverjum mánuði, en heildarlánið verður hærra. Verðtryggð lán taka mið af vísitölu neysluverðs á hverjum tíma, en verðbólga veldur tugi milljarða hækkun á skuldum heimilanna. Þess vegna þarf að banna verðtryggingu á nýjum neytenda- og íbúðalánum. Í kjölfarið munu bankarnir fara að bjóða lægri vexti.

Húsnæðisliður út úr vísitölu

Húsnæðisliðurinn skekkir vísitölu neysluverðs. Til að sporna við því að íbúðarlánið hækki á lánstímanum þarf að byrja á því að fjarlægja húsnæðisliðinn út úr vísitölunni og banna verðtrygginguna.

Framboðið af húsnæði hefur ekki haldið í gríðarlega eftirspurn sem leitt hefur til meiri verðhækkana á húsnæði en verð á öðrum vörum og þjónustu. Vísitalan tekur mið af verðhækkunum og heimili landsins blæða. Það er með öllu óásættanlegt að borga þurfi aukalega himinháa verðtryggingu sökum þessa.

Afnemum verðtryggingu

Afnám verðtryggingar mun leiða til þess að bankarnir þurfa að bjóða óverðtryggð lán sem verða hagstæðari en nú þekkist. Lífeyrissjóðirnir hafa einnig komið sterkir inn á markaðinn og sýnt að þeir eru vel samkeppnishæfir við bankana.

Við þurfum einnig að bregðast við fákeppninni sem ríkir á bankamarkaði. Því er nauðsynlegt að ríkið eigi einn af stóru bönkunum og marki honum stefnu um að efla samkeppni í bankaþjónustu, almenningi og atvinnulífi til hagsbóta.

Síðast en ekki síst þá er mikilvægt að við öll tökum nú höndum saman og knýjum fram vaxtalækkun til að tryggja stöðugleika hjá hverju og einu okkar. Ríkisvaldið, Seðlabankinn, sveitarfélögin og aðilar vinnumarkaðarins þurfa því að sammælast um að lækka vexti í landinu. Þannig tryggjum við stöðuga krónu og aukum kaupmátt hjá okkur öllum. Getum við ekki öll verið sammála um það?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. október 2017.

Categories
Greinar

Utanríkismál varða Íslendinga miklu

Deila grein

21/10/2017

Utanríkismál varða Íslendinga miklu

Utanríkismál hefur borið lítt á góma í aðdraganda alþingiskosninganna. Það er miður, því víða eru blikur á lofti í okkar nær- og fjærumhverfi á vettvangi utanríkismála. Kjarnorkukergja á Kóreuskaga, spenna milli stórvelda, glíman við loftslagsbreytingar, viðvarandi upplausnarástand vítt um Mið-Austurlönd, áframhaldandi áskoranir í Afríku og svo mætti lengi telja. Næst okkur eru það málefni norðurslóða og þau tækifæri og áskoranir sem í þeim felast. Einnig viðvarandi deilur við suma nágranna okkar vegna flökkustofna, Evrópusamstarfið á breiðum grunni og svo er það Brexit.

Evrópa og viðskiptakjör
Árangurinn hér heima er að miklu leyti háður því að hér sé festa og skörp sýn í utanríkismálum. Viðhald og viðbætur bestu kjara í viðskiptaumhverfi okkar skipta lykilmáli í fríverslun almennt, en einkum og sér í lagi vegna aðgengis að okkar stærstu mörkuðum.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) er mikilvægasti alþjóðasamningur Íslands hvort heldur sem er í efnahagslegu eða stjórnmálalegu samhengi. Íslensk stjórnvöld verða að sinna framkvæmd samningsins vel og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði. Eðli og umfang samningsins er í stöðugri þróun og stjórnvöld verða að vinna markvisst að því að tryggja að góð niðurstaða náist fyrir Íslands hönd á öllum sviðum, samhliða því að fullveldi Íslands verði áfram tryggt.

Vinna verður gegn einangrunarstefnu í alþjóðaviðskiptum enda hefur hún í för með sér að verðmætasköpun þjóða verður minni. Náið samstarf við félaga okkar innan EFTA mun skipta sköpum um framhaldið, enda eru frjáls og opin alþjóðaviðskipti sérstaklega til hagsbóta fyrir lítil opin hagkerfi og auka velsæld þeirra. Þannig verða hagsmunir Íslands best tryggðir, og þar með að Íslendingar séu áfram sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

Síðastliðið sumar ákvað breska þjóðin að yfirgefa sambandið og því er komin upp gjörbreytt staða innan þess. Framtíðarskipulag ESB mun því taka breytingum á næstu misserum sem við þurfum að fylgjast vel með. Brýnt er jafnframt að tryggja þá verulegu efnahags- og viðskiptalegu hagsmuni sem Ísland hefur gagnvart Bretlandi, en segja má að þar standi íslensk utanríkisstefna frammi fyrir einni sinni stærstu einstöku áskorun. Stefnumótun í utanríkismálum verður óhjákvæmilega að miðast að þessum breytta heimi.

Norðurslóðir og loftslagsmál
Ísland hefur mikilvæga sérstöðu sem norðurskautsríki og fylgja því bæði tækifæri og áskoranir. Hagsmunir Íslands felast einkum í því að nýta tækifærin með ábyrgum og sjálfbærum hætti, þ.m.t. auknum siglingum ásamt annarri starfsemi sem geta haft hættu í för með sér gagnvart viðkvæmu umhverfi, lífríki og lífsháttum. Þannig mun ekki allt gull glóa að teknu tilliti til heildarhagsmuna og langtímaáhrifa. Mikilvægt skref var stigið með Parísarsamkomulaginu, þegar 194 ríki sameinuðust um skuldbindingar til að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda. Úrsögn Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu er því gríðarleg vonbrigði og óljóst hvað hún mun leiða af sér. Nýlega birtist skýrsla mín um efnahagslegar afleiðingar loftslagsbreytinga sem samþykkt var af þingmönnum Atlantshafsbandalagsins 7. október sl. Bandaríkin eitt aðildarríkja greiddi atkvæði gegn samþykkt hennar. Skýrslan er tímabær í umræðunni um málefni norðurslóða og glímunni við hnattræna hlýnun og loftslagsbreytingar. Ljóst er að markmiðum Parísarsamningsins verði ekki náð nema til komi nægilegt fjármagn og rík samvinna á alþjóðavettvangi.

Öryggis- og þróunarmál
Öryggismálin þurfa líka að vera í traustum skorðum, og þá skiptir miklu máli að geta vegið og metið áskoranir á þeim vettvangi. Rödd Ísland þarf að heyrast en setja þarf fram rök skynsemi og aðgátar. Þjóðaröryggisstefna Íslands byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, þ.e. lýðræði, virðingu fyrir réttarríkinu, sjálfbæra þróun og friðsamlega lausn deilumála. Grundvallarforsenda stefnunnar er staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana eins og Atlantshafsbandalagsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Framkvæmd stefnu þjóðaröryggisráðsins þarf að vera í nánu samstarfi við Alþingi hverju sinni.

Hin nýju þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna gefa okkur gott veganesti, sérstaklega þegar kemur að starfi okkar og framlögum á sviði þróunarsamvinnu, þar sem við eigum og verðum að gera betur – og getum lagt mun meira af mörkum en við höfum gert fram að þessu.

Verkefnin framundan
Framundan eru að auki mikilvæg verkefni á alþjóðavettvangi. Á árinu 2019 mun Ísland taka við formennsku innan Norðurskautsráðsins, á vettvangi Norðurlandaráðs og leiða mikilvægt samstarf og samhæfingu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna innan Alþjóðabankans. Duga þar hvergi nein vettlingatök. Utanríkismálin verða áfram lykilmálefni íslenskra stjórnmála sem íslenskur almenningur og okkar nánustu samstarfsþjóðir eiga skilið að stýrt sé af öryggi og festu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, alþingismaður og varaformaður Framsóknar

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. október 2017.

Categories
Greinar

Íslenskur landbúnaður á tímamótum

Deila grein

18/10/2017

Íslenskur landbúnaður á tímamótum

Íslenskur landbúnaður er undirstaða byggðar víða um land. Þúsundir manna starfa við hann og enn fleiri byggja afkomu sína á að vinna úr landbúnaðarafurðum eða þjónustu við landbúnað. Við þekkjum vel afurðir landbúnaðarins og ljóst er að margir sóknarmöguleikar eru fyrir hendi. Því hefur verið haldið fram að skyr eigi möguleika á að ná svipaðri stöðu á heimsvísu og grísk jógúrt ef rétt er á málum haldið. Þessa sókn verður að byggja á okkar sérstöðu og áherslu á heilnæman landbúnað í sátt við samfélagið og náttúruna.

Við eigum nóg af hreinu vatni. Við notum óverulegt magn af sýklalyfjum og varnarefnum, en við þurfum að greina sérstöðuna með skipulegri hætti til að geta sótt fram. Það þarf að ráðast í frekari greiningu á sérstöðu íslensks landbúnaðar gagnvart öðrum nágrannalöndum. Þá þarf að skoða íslenskan landbúnað út frá skuldbindingum í loftslagsmálum. Það þarf til dæmis að leggja mat á kolefnisfótspor íslenskra landbúnaðarafurða í samanburði við þær innfluttu og skoða hvernig landbúnaðurinn getur lagt sitt af mörkum til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Framsókn leggur ríka áherslu á að horft verði til neytendaverndar, meðal annars með því auka upplýsingagjöf til neytenda um kolefnisfótspor vöru, uppruna vöru, lyfjainnihald, dýravelferð og aðra þætti sem ráða því hversu heilnæm vara getur talist í huga neytenda.

Stjórnvöld og fólkið í sveitum landsins verða að vinna áfram saman eins og aðrar þjóðir í kringum okkur gera. Annars er samkeppnin ekki á jafnréttisgrundvelli. Það höfum við gert í gegnum búvörusamning, sem er til þess fallinn að ramma landbúnaðarstefnuna og þróa hana í þá átt að hún þjóni sem best neytendum og bændum.
En við getum nýtt tækifæri okkar betur. Til dæmis með því að beita utanríkisþjónustunni í meira mæli og greina betur þá möguleika sem felast í gildandi fríverslunarsamningum til að koma landbúnaðarafurðum okkar betur á framfæri.

Landbúnaðurinn og ferðaþjónustan í dreifbýlinu eru stoðir sem þurfa á hvorri annarri að halda. Ferðamenn vilja sjá líf í landinu, dýr í sínu náttúrulega umhverfi og afurðir sem þeir geta fengið að bragða á. Sömuleiðis þarf að vera til staðar fólk til að veita ferðamanninum þjónustu. Sífellt fleiri bændur sinna ferðaþjónustu og það liggja mikil tækifæri í því að kynna íslensk matvæli betur fyrir ferðamönnum. Landbúnaðurinn er stór hluti af íslenskri menningu, af því hver við erum og hvaðan við komum. Framsókn vill að við nýtum alla þessa möguleika með skipulegum hætti og sækjum fram með íslenskum landbúnaði.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. október 2017.

Categories
Greinar

Sameiginlegt stórátak

Deila grein

15/10/2017

Sameiginlegt stórátak

Eftir kosningar, verði Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn, mun flokkurinn leggja áherslu á að sérstakt byggðaráðuneyti verði sett á laggirnar til fjögurra ára. Ráðuneytið verði einskonar aðgerðarhópur sem vinni að landsbyggðarmálum með öllum öðrum ráðuneytum og tryggi jafnræði í þjónustu ríkisins. Markmiðið er að styrkja landsbyggðina því samfélagið sé sterkast þegar allir búa við sama þjónustustig, óháð búsetu.

Mörg verkefni tengjast byggðum landsins. Forgangsmálin sem tímabundið byggðaráðuneyti þarf að hafa eru heilbrigðisþjónusta, menntamál, samgöngur og atvinna gagngert í þeim tilgangi að styrkja samfélagið Ísland. Við þessar kosningar leggur Framsókn áherslu á að hefja þurfi nú þegar markvissa uppbyggingu grunnþjónustunnar.

Við viljum setja 20 milljarða aukalega í fyrrnefnda málaflokka, þar af 10 milljarða í heilbrigðiskerfið.

Velferðin
Þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu er mismikil eftir landshlutum. Á síðasta þingvetri var samþykkt þingsályktun okkar um heilbrigðisáætlun. Þar kemur fram að greina þurfi þörfina á landsvísu fyrir heilbrigðisþjónustu. Taka þurfi tillit til íbúafjölda, aldurssamsetningar, fjölda ferðamanna, sumarhúsabyggða, fjarlægða, þjónustu sjúkrabíla og fleiri slíkra þátta. Ríkisvaldið þarf síðan að beina kröftum sínum og fjármagni þangað sem þörfin er hvað mest. Heilsugæslan verður hins vegar að vera í forgrunni.

Áherslan þarf að vera á menntamálin til að undirbúa okkur undir umbreytingartíma sem framundan eru. Við þurfum öflugt menntakerfi og fjárfesta í hugverka- og þekkingariðnaði sem gerir okkur kleift að mæta tæknibyltingunni. Hugtök eins og gervigreind, sýndarveruleiki og skýjalausnir eru að ryðja sér til rúms og munu umbylta hluta af þeim störfum sem við þekkjum í dag.

Betri vegir og tíðari flug
Vegakerfið er víða laskað. Gott vegakerfi og tíðar flugsamgöngur eru lykilatriði í að tryggja jafnræði að þjónustu. Nýbygging vega og viðhald hefur setið eftir í langan tíma og því þurfa framkvæmdirnar að vera markvissar á næstu árum. Við viljum setja allt að 10 milljarða á ári til viðbótar til að auðvelda fólki að sækja vinnu og þjónustu innan svæða. Taka þarf tillit til umferðar, slysatíðni og samtímis að horfa til þensluáhrifa. Við eflingu á innanlandsflugi gætum við horft til Skota sem hafa þróað kerfi þar sem íbúum lengst frá þjónustu er gert kleift að nýta sér flugið á viðráðanlegu verði. Fyrstu kostnaðaráætlanir sýna að slík viðbót kosti um 600-700 milljónir.

Atvinnan
Við þurfum að huga að yngstu atvinnugreinunum sem þurfa að geta fest sig í sessi á landsbyggðinni. Lífhagkerfið sem byggir á nýsköpun í auðlindum til lands og sjávar verður þar stökkpallur. Fyrirmyndirnar eru fyrir hendi, samanber Verið á Sauðarkróki og starfsemi tengd háskólunum. Til lengri tíma skiptir hins vegar öllu að alls staðar séu fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir alla.

Sjávarútvegur og landbúnaður eru traustar stoðir byggðanna. Rekstrargrundvöllurinn þarf að vera stöðugur til að stuðla að sjálfbærum og öflugum byggðum. Fjölbreytt atvinnulíf tryggir sjálfbærni byggðanna þar sem ein grein ber ekki alla ábyrgð á farsæld samfélagsins. Því er nauðsynlegt að tryggja rekstrargrundvöll sauðfjárbænda og hjálpa þeim gegnum tímabundna erfiðleika. Framsókn er með skýra sýn á hvað þarf að gera.

Framsókn leggst gegn því að ferðaþjónustan sé færð upp í hæsta þrep virðisaukaskatts. Við erum í alþjóðlegri samkeppni um ferðamenn og verðum að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar. Á sama tíma verðum við að gefa nýrri og smærri fyrirtækjum, ekki síst á jaðarsvæðum ferðaþjónustunnar, tíma og tækifæri til að koma undir sig fótunum. Margt áhugavert er að gerast víða um land, en fyrirtækin eru smá og mörg hver í uppbyggingarfasa. Mikil tækifæri eru í að byggja ferðaþjónustuna betur upp á svæðum sem liggja lengst frá Leifsstöð.

Fiskeldi hefur vaxið einna mest á svæðum þar sem atvinnulíf er fábrotið. Samfélagið hefur hag af því að báðar greinarnar þrífist í sátt og samlyndi. Við verðum að tryggja möguleika til vaxtar en sá vöxtur má ekki gerast á kostnað villta laxastofnsins eða umhverfisins.

Gott samband
Til að hægt sé að segja að allir landshlutar sitji við sama borð þurfa fjarskipti að vera góð. Við erum á góðri leið með að ljósleiðaravæða allt landið. Verkefninu lýkur á næstu 3-4 árum. Hins vegar er afhendingaröryggi raforku ótryggt en það er forsenda fyrir frekari atvinnuuppbyggingu en um leið eitt mikilvægasta verkefni okkar í loftslagsmálum. Víða er pottur brotinn og mikið í land að almenningur og fyrirtæki geti gengið að því vísu að fá nægt rafmagn. Spýta þarf í lófana. Án þess er tómt mál að tala um rafbílavæðingu landsins alls eða að nægilegt rafmagn sé til í höfnum landsins svo hægt sé að losna við díselvélakeyrslu fiski-, kaup- og skemmtiferðaskipa.

Að taka á öllum þessum málum og fleirum er að mati okkar Framsóknar eitt mikilvægasta verkefnið í að gera landið okkar að heilbrigðu og öflugu samfélagi þar sem allir sitji við sama borð. Byggðamálin verða því að fá aukna athygli. Tímabundið byggðarráðuneyti gæti því verið nauðsynlegt til að kraftar allra nýtist sem best og allir hafi sömu tækifæri.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. október 2017.

Categories
Greinar

Minni áhyggjur – meira val

Deila grein

12/10/2017

Minni áhyggjur – meira val

Sú kynslóð sem hefur rutt brautina fyrir okkur hin á skilið að lifa áhyggjulausu lífi. Við hin sem höfum tekið við og störfum að málum til að bæta samfélagið verðum að tryggja að aldraðir þurfi ekki að bíða áhyggjufullir eftir þjónustu- og hjúkrunaríbúðum, hafi val um að vinna og þurfi ekki að borga háar fjárhæðir í tannlæknakostnað.

Framsókn vill stórátak í byggingu á þjónustuíbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Við viljum byggja 300 nýjar íbúðir á ári fyrir aldraða næstu árin. Biðlistar eru langir og munu lengjast verði ekki gripið til aðgerða. Framsókn vill leita eftir samstarfi við lífeyrissjóðina um að fjárfesta fyrir minnst 10 milljarða árlega í hagkvæmum þjónustu- og hjúkrunaríbúðum fyrir aldraða í þeim sveitarfélögum þar sem þörfin er brýnust. Lífeyrissjóðirnir þurfa fleiri fjárfestingarkosti og gæti þessi leið verið samfélagslega hagkvæm.

Framsókn vill afnema frítekjumarkið af atvinnutekjum. Margir þeir sem eru komnir á efri ár og eiga rétt á lífeyri frá almannatryggingum vilja halda áfram að vinna. Fólk á rétt á að hafa val. Þeir sem vilja og geta unnið eiga að fá tækifæri til þess. Fátt er jafn ömurlegt og að langa til að halda áfram á atvinnumarkaðnum en upplifa neikvæða umbun í formi skerðingar á lífeyri. Atvinnuþátttaka aldraðra leiðir til betri heilsu og heilbrigðara samfélags.

Framsókn vill einnig setja 1 milljarð strax í aukna niðurgreiðslu á tannlæknakostnaði aldraðra. Rannsóknir hafa sýnt að tannheilsu aldraðra hefur hrakað síðastliðin ár. Hver skyldi vera orsökin fyrir því? Tannlæknakostnaður getur verið stór biti að kyngja fyrir marga. Sérstaklega ef innkoman er bundin við lágmarkslífeyri. Ríkið verður að standa við loforð um að greiða niður 75% af kostnaðinum. Gjaldskrá um endurgreiðslu aldraðra þarf að uppfæra svo hún endurspegli hækkanir síðustu ára.

Við höfum forsendur til að framkvæma þessi atriði. Afgangur er af ríkisrekstri og sveigjanleikinn er til staðar. Aldraðir eiga að geta lifað eðlilegu, áhyggjulausu lífi og fá að taka þátt í samfélaginu. Getum við ekki öll verið sammála um það?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. október 2017.

 

Categories
Greinar

Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta á Íslandi

Deila grein

10/10/2017

Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta á Íslandi

Almenn eining ríkir um að gera þurfi betur í heilbrigðismálum. Þverpólitísk sátt náðist á Alþingi í vor þegar samþykkt var þingsályktunartillaga Framsóknarflokks um gerð heilbrigðisáætlunar. Þrjú verkefni þola ekki bið. Hjúkrunarheimilum þarf að fjölga, reisa þarf þjóðarsjúkrahús og efla þarf heilsugæslu.

Fjölga hjúkrunarheimilum: Sjúklingar liggja lengur inni á Landspítalanum (LSH) en gengur og gerist annars staðar. Reisa verður fleiri hjúkrunarheimili til að fækka biðsjúklingum á LSH. Stór fjöldi sjúklinga sem lokið hefur meðferð bíður eftir því að komast að á hjúkrunarheimili. Legudeildarpláss er dýrara en pláss á öldrunarstofnun og það fer ekki eins vel um þessa sjúklinga á LSH, þar sem áreitið er meira. Það er hagur allra að bæta úr á þessu sviði og fellur undir heildstæða heilbrigðisáætlun.

Framtíðarþjóðarsjúkrahúsið: Ein stærsta og merkilegasta framkvæmd á teikniborðinu er þjóðarsjúkrahúsið. Þjóðin eldist og þörfin eykst fyrir fyrsta flokks þjónustu. Þjóðarsjúkrahús á að vera miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem rými er fyrir stækkun í tímans rás. Ljóst er að fyrirhuguð uppbygging við Hringbraut byggir á margra ára gömlum hugmyndum og þarfagreiningu sem er hugsanlega ekki í takt við þarfir framtíðar. Mestu skiptir að nýtt sjúkrahús uppfylli þarfir þjóðarinnar.

Eflum heilsugæslu: Ráðgjafafyrirtækið McKinsey vann úttekt um heilbrigðiskerfið haustið 2016. Heilbrigðiskerfið byggir á nokkrum samhangandi þáttum, m.a. heilsugæslu, sérfræðilæknum, LSH og hjúkrunarheimilum. Skil milli þessara þátta eru óljós. Sjúklingar liggja lengur á sjúkrahúsum hér en annars staðar, sérfræðilæknar gætu læknað sjúklinga sem heldur leita til LSH og heilsugæslan ætti að annast sjúklinga sem leita lækninga annars staðar í kerfinu. Með öðrum orðum vantar skipulag í kerfið og hægt væri að veita sömu þjónustu á hagkvæmari hátt. Ég vil nýta fjármunina sem sparast til að veita betri þjónustu. Velferðarsamfélagið okkar krefst þess að við gerum betur. Sýnum það í verki. Vinnum heildstæða heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.

Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. október 2017

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Ásmundur Einar leiðir í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

09/10/2017

Ásmundur Einar leiðir í Norðvesturkjördæmi

Um helgina fór fram tvöfalt kjördæmisþing Framsóknarflokksins á Bifröst í Borgarfirði. Þar var samþykkt að Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi alþingismaður, muni skipa efsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í næstu alþingiskosningum.
Halla Signý Kristjánsdóttir, fjármálastjóri í Bolungarvík, situr í öðru sæti listans og Stefán Vagn Stefánsson, bæjarfulltrúi og yfirlögregluþjónn, á Sauðárkróki, í því þriðja.
Annars er listi Framsóknar í Norðvesturkjördæmi svona:
1. Ásmundur Einar Daðason, Borgarnesi
2. Halla Signý Kristjánsdóttir, Bolungarvík
3. Stefán Vagn Stefánsson, Sauðárkrókur
4. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Borgarbyggð
5. Guðveig Anna Eyglóardóttir, Borgarnesi
6. Lilja Sigurðardóttir, Patreksfjörður
7. Þorgils Magnússon, Blönduósi
8. Eydís Bára Jóhannsdóttir, Hvammstanga
9. Einar Guðmann Örnólfsson, Borgarbyggð
10. Jón Árnason, Patreksfirði
11. Heiðrún Sandra Grettisdóttir, Dalabyggð
12. Gauti Geirsson, Ísafirði
13. Kristín Erla Guðmundsdóttir, Borgarnesi
14. Jóhanna María Sigmundsdóttir, Borgarbyggð
15. Elsa Lára Arnardóttir, Akranes
16. Elín Sigurðardóttir, Stykkishólmi

Categories
Forsíðuborði Greinar

Framsæknar lausnir

Deila grein

08/10/2017

Framsæknar lausnir

Vandi sauðfjárbænda er tvíþættur.

Annarsvegar sterk samningsstaða stórra verslunaraðila sem stýra verðinu til bænda sem verður til þess að afurðaverð er undir framleiðslukostnaði með tilheyrandi tekju og launaskerðingu til bænda.

Hinsvegar ytri vandi vegna efnahagsástands í Evrópu, þróunar gengis, lokun markaðar í Noregi og Rússlandi og seinkun á að fríverslunarsamningur við Kína taki gildi.

Hver taldi rangt eða sagði ósatt?

Í ljós kom að birgðasöfnun var minni en af var látið sem rennir stoðum undir þann grun að stórir verslunaraðilar stýra verðinu.

Þannig hefur það verið frá 2015 og hefur þróast á verri veg. Í flestum löndum er annað hvort framleiðslustýring, sem var fyrir löngu afnumin hér, eða sveiflujöfnunarverkfæri.

Hér á landi er hvorugt og það bætti ekki úr skák að núverandi ríkisstjórn var, af pólitískum ástæðum, ekki tilbúin að leysa málin á skynsaman hátt.

Það er ógn við sjálfstæði bænda að þeir eru ekki tengdir markaðnum m.a. af því ekkert gagnsæi er í afurðastöðvageiranum.

Það skal því engan undra að meðal bænda ríkir vantraust í garð afurðastöðvanna. Það er ekki gott fyrir neinn í framleiðslukeðjunni og þarf að laga hið snarasta.

Lausnirnar verða að snúa að þessu tvennu. Fyrstu þrjár aðgerðirnar snúa að skammtímavandanum. Tvær þær síðustu að leysa verkefnið til framtíðar.

1. Auka þarf stuðning í ár við bændur til að koma til móts við launaskerðinguna. Þær 650 milljónir sem ríkisstjórnin var þó tilbúin til að setja fram eiga að fara í það að draga úr tekjuhruninu. Tillögur aukaaðalfundar Landssambands sauðfjárbænda eru góðar og skynsamar og ber að fara eftir.

2. Byggðastofnun þarf að koma að málinu með afborganaskjóli, lengingu í lánum og öðrum þeim aðgerðum sem fleyta skuldsettum bændum yfir hjallann.

3. Halda þarf áfram með útflutningsverkefnið sem skilaði útflutningi á yfir 800 tonnum á þessu ári. Til þess þarf 100 milljónir.

4. Taka þarf upp sveiflujöfnunartæki. Útfærslu á útflutningsskyldu, sem virkar í báðar áttir. Þ.e. gæti tryggt nægjanlegt framboð á innanlandsmarkaði þegar markaðstækifæri erlendis vaxa á ný.

5. Auka gagnsæið með því að heimila afurðastöðvum að starfa saman á erlendum mörkuðum. Svipað og þegar sjávarútvegsfyrirtækin byggðu upp sterka stöðu íslensks gæða fisks með samstarfi fyrir nokkrum áratugum. Vilji bændur fara þá leið að eiga sjálfir slíkt fyrirtæki getur það einnig verið góð leið.
Með þessum framsæknu lausnum mun sauðfjárræktin ná sér á strik á ný. Halda áfram að vera undirstaða byggðar í dreifbýlasta hluta landsins og um leið skila hágæðavöru á borð neytandans á verði sem allir geta verið ánægðir með.

Þau verkefni sem bændur hafa sett af stað á undanförnum árum í kjölfar nýrra búvörusamninga um aukið virði sauðfjárafurða eru að skila sér. Höfum biðlund fyrir því. Markaðsstarf tekur tíma, en skammtímavandinn er auðleystur strax.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

 

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Sigurður Ingi leiðir í Suðurkjördæmi

Deila grein

07/10/2017

Sigurður Ingi leiðir í Suðurkjördæmi

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, formaður Framsóknarflokksins, alþingismaður og fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, leiðir lista Fram­sókn­ar­flokks­ins í Suður­kjör­dæmi í næstu alþing­is­kosn­ing­um. Þetta var samþykkt á fjöl­menn­u kjördæmisþingi í fé­lags­heim­il­inu Hvoli á Hvolsvelli í dag.
Glæsi­leg­ur listi sem ég hef mikla trú á. Ég myndi segja að reynsla og þor væri það sem ein­kenndi okk­ar lista. Við erum til­bú­in að tak­ast á við verk­efn­in framund­an og þær áskor­an­ir sem bíða okk­ar. Verk­efn­in eru ærin,“ sagði Sig­urður Ingi Jó­hanns­son.
Listi Fram­sókn­ar­flokks­ins Suður­kjör­dæmi:

  1. Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, alþing­ismaður og frv. for­sæt­is­ráðherra
  2. Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, alþing­ismaður
  3. Ásgerður K. Gylfa­dótt­ir, bæj­ar­full­trúi og hjúkr­un­ar­stjóri
  4. Jó­hann Friðrik Friðriks­son, lýðheilsu­fræðing­ur
  5. Sæ­björg Erl­ings­dótt­ir, sál­fræðinemi
  6. Inga Jara Jóns­dótt­ir, nemi
  7. Pálmi Sæv­ar Þórðar­son, bif­véla­virki
  8. Sandra Rán Ásgríms­dótt­ir, verk­fræðing­ur
  9. Lára Skær­ings­dótt­ir, grunn­skóla­kenn­ari
  10. Her­dís Þórðardótt­ir, inn­kaupa­stjóri
  11. Stefán Geirs­son, bóndi
  12. Jón H. Sig­urðsson, lög­reglu­full­trúi
  13. Hrönn Guðmunds­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri
  14. Ármann Friðriks­son, nemi
  15. Val­geir Ómar Jóns­son, sagn­fræðing­ur
  16. Sigrún Þór­ar­ins­dótt­ir, bóndi
  17. Jó­hann­es Giss­ur­ar­son, bóndi
  18. Jón­geir H. Hlina­son, bæj­ar­full­trúi og hag­fræðing­ur
  19. Har­ald­ur Ein­ars­son, fyrrv. alþing­ismaður
  20. Páll Jó­hann Páls­son, fyrrv. alþing­ismaður
Categories
Forsíðuborði Fréttir

Þórunn leiðir í Norðausturkjördæmi

Deila grein

07/10/2017

Þórunn leiðir í Norðausturkjördæmi

Kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmis samþykkti í dag framboðslista fyrir komandi alþingiskosningar. Þórunn Egilsdóttir alþingismaður skipar fyrsta sæti listans og Líneik Anna Sævarsdóttir fyrrverandi alþingismaður skipar annað sætið. Í þriðja sætinu situr Þórarinn Ingi Pétursson, fyrrverandi formaður Landssamtaka sauðfjárbænda. Tillaga kjörstjórnar var samþykkt samhljóða með lófataki.
Í umræðum var lögð áhersla á mikilvægi málefna á borð við nauðsynlegar breytingar á menntakerfinu, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, jöfnuð í samfélaginu, áframhaldandi uppstokkun á fjármálakerfinu og uppbyggingu á samgöngukerfinu.
Framboðslisti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi 2017:
1. Þórunn Egilsdóttir, Vopnafirði
2. Líneik Anna Sævarsdóttir, Fjarðabyggð
3. Þórarinn Ingi Pétursson, Grýtubakkahreppi
4. Hjálmar Bogi Hafliðason, Norðurþingi
5. Jóhannes Gunnar Bjarnason, Akureyri
6. Mínerva Björg Sverrisdóttir, Akureyri
7. Örvar Jóhannsson, Seyðisfirði
8. Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, Fljótsdalshéraði
9. Sverre Andreas Jakobsson, Akureyri
10. Birna Björnsdóttir, Norðurþingi
11. Gunnlaugur Stefánsson, Norðurþingi
12. Eiður Ragnarsson, Djúpavogshreppi
13. Petrea Ósk Sigurðardóttir, Akureyri
14. Vigdís Magnea Sveinbjörnsdóttir, Fljótsdalshéraði
15. Þorgeir Bjarnason, Fjallabyggð
16. Heiðar Hrafn Halldórsson, Norðurþingi
17. Svanhvít Aradóttir, Fjarðabyggð
18. Eiríkur Haukur Hauksson, Svalbarðsstrandarhreppi
19. Margrét Jónsdóttir, Þingeyjarsveit
20. Anna Sigrún Mikaelsdóttir, Norðurþingi