Categories
Fréttir

Bestu þakkir Ásrún

Deila grein

16/02/2018

Bestu þakkir Ásrún

Framsóknarflokkurinn fékk málverk að gjöf í dag frá listamanninum Ásrúnu Kristjánsdóttur. Málverkið heitir “Upptaktur” og var gefið sem táknræn gjöf inn í komandi kosningabaráttu. Ásrún er félagsmaður í Framsóknarfélagi Reykjavíkur og hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið.
Við þökkum Ásrúnu fyrir þetta fallega verk og óskum henni alls hins besta í störfum sínum.

Categories
Greinar

Afkastamikill þingmaður

Deila grein

16/02/2018

Afkastamikill þingmaður

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins verið afkastamikil á yfirstandandi þingi og lagt fram sjö mál, tveir þingsályktunartillögur og fimm lagafrumvörp. Tvö lagafrumvörp eru þegar komin til meðferðar hjá Velferðarnefnd Alþingis en hin bíða þess að komast á dagskrá þingsins. Suðurnesjablaðinu lék forvitni á að vita um hvað mál Silju Daggar fjalla.

Fæðingarþjónusta og jafnræði

Lagafrumvörpin sem eru komin til velferðarnefndar hafa fengið ágæta umræðu í fjölmiðlum. Hið fyrra snýr að breytingum á fæðingarorlofslögum, þ.e. að þeir foreldrar sem búa langt frá fæðingastað fá viðbót við sitt fæðingarorlof í samræmi við þann tíma sem fólk þarf að vera fjarri heimili sínu og bíða fæðingar. Íbúar á Suðurnesjum lenda almennt ekki í þessari stöðu en það gera íbúar t.d. í Vestamannaeyjum og í Höfn. „Fljótlega eftir að ég byrjaði á þingi áttaði ég mig á þeirri mismunun sem íbúar fjarri fæðingarstöðum búa við. Ég fékk því gott fólk í lið með mér, heilbrigðisstarfsfólk í Höfn og í Vestamannaeyjum, til að aðstoða mig við gerð frumvarpsins. Málið grundvallast á búsetujafnræði sem og rétti barna til að hafa jafnlangan tíma með foreldrum sínum í fæðingarorlofi,“ segir Silja Dögg um tilurð málsins.

Ætlað samþykki við líffæragjöf

Hitt frumvarpið fjallar um breytingar á lögum um líffæragjöf. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að heiladauðir einstaklingar vilji ekki gefa líffæri sín (ætluð neitun), en með frumvarpinu er gert ráð fyrir „ætluðu samþykki“, þ.e. að gengið sé út frá því að mögulegir líffæragjafar, vilji gefa líffæri sín. Sá varnagli er þó sleginn að nánustu aðstandendur geti neita líffæragjöf, en rannsóknir sýna að aðstandendur ganga ekki gegn vilja hins látna, sé vilji hans þekktur. Markmið lagabreytingarinnar er að fjölga líffæragjöfum á Íslandi, en þörf er á því í ljósi þess að þjóðin er að eldast og vaxandi þörf fyrir líffæri í framtíðinni. „Þetta frumvarp á sér langa sögu en ég flyt það nú í fimmta sinn. Siv Friðleifsdóttir þingmaður flutti það tvisvar þar á undan. Ég vona því að málið sé orðið nægilega þroskað og fáist samþykkt á yfirstandandi þingi. Mér finnst eðlilegra að lög geri ráð fyrir að við viljum koma náunga í neyð til hjálpar, heldur en ekki,“ segir Silja Dögg.

Bætur fyrir börn sem misst hafa foreldri

Síðustu daga hafa tvö frumvörp til viðbótar vakið mikla athygli í fjölmiðlum, þ.e. frumvarp um breytingar á lögum um barnalífeyri og bann við umskurði drengja.

„Frumvarpið um barnalífeyrinn á sér langa sögu en ég dreif mig ekki af stað fyrr en nú í haust við að skrifa það. Barnalífeyri fá þeir sem misst hafa maka sinn og hafa fyrir börnum að sjá en hann er jafnhár og meðlag, rúmlega 31 þús. kr. á mánuði með hverju barni. Í lögum um meðlag er einnig gert ráð fyrir að fólk geti farið fram á aukagreiðslur vegna kostnaðarsamra viðburða og aðgerða, svo sem ferminga og tannréttinga. En þeir sem fá barnalífeyri eiga ekki rétt á sömu greiðslum. Þannig að í frumvarpinu er í raun verið að samræma lög um meðlag og lög um barnalífeyri að þessu leyti. Auðvitað á ekki að mismuna börnum eftir því hvort foreldrar þeirra séu látnir eða á lífi,“ segir Silja Dögg alvarleg á svip.

Rabbínar mótmæla banni við umskurði drengja

Mikið fjaðrafok á alþjóðavísu hefur orðið vegna framlagðs frumvarps Silju Daggar um banni á umskurði drengja. Í lögum frá 2005 er umskurður á stúlkum og konum bannaður. „Mér var bent á að á Íslandi væru ekki til nein lög um umskurð á drengjum. Ég hafði aldrei velt því fyrir mér en þegar ég fór að skoða málið þá áttaði ég mig á að um barnaverndarmál væri að ræða. Sumir vilja tengja umskurð við ákveðin trúarbrögð en í raun fyrirfinnast hefðir um umskurð víða, einnig í kristnum ríkjum. Aðgerðin er óafturkræf og gerð á mjög ungum börnum, án deyfingar, og veldur sýkingarhættu. Umskurður getur einnig valdið körlum sársauka og vandkvæðum alla ævi. Mér þótt tilefni til að leggja fram frumvarp og taka þetta mál til umræðu hér á landi en fyrir danska þinginu liggur fyrir sambærilegt mál,“ segir Silja Dögg en þess má geta að Umboðsmenn barna á öllum Norðurlöndum sendu frá sér yfirlýsingu árið 2013 þar sem Norðurlöndin voru hvött til að banna umskurð á drengjum en aðgerðin stangast á við Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. „Vaxandi andstaða er við umskurð á meðal lækna á alþjóðavísu, Barnaheill hafa beitt sér í málinu og ég hef einnig fengið fjölda bréfa frá ísraelskum gyðingum, eftir að málið komst í heimfréttirnar, þar sem þeir segjast styðja frumvarpið og að aukin andstaða sé við umskurð á drengjum í þeirra samfélagi,“ segir Silja Dögg og bætir því við að hún hafi nú ekki búist við að samtök rabbína í Evrópu myndu beita sér í málinu. „Þeir hafa reyndar ekki haft beint samband við mig ennþá,“ segir Silja Dögg og brosir.

Ætlar þú að leggja fram fleiri á mál á þessu þingi?

„Já, í lok febrúar mun ég leggja fram stórt frumvarp sem mun vekja mikla athygli og umræðu,“ segir Silja Dögg að lokum.

Auk ofantaldra mála hefur Silja Dögg lagt fram eftirfarandi mál á 148. löggjafarþingi:

Þingsályktunartillögu um rétt barna, sem getin eru með gjafakynfrumum, til að vita um uppruna sinn og að verklag um fjarfundi á vegum ráðuneyta verði samræmt. Að auki hefur hún endurflutt frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um að fangar geti áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta, sinni þeir námi eða vinnu á meðan á afplánun stendur.

Birtist í Suðurnesjablaðinu 15.febrúar.

 

 

 

Categories
Greinar

Brýn verkefni blasa við

Deila grein

15/02/2018

Brýn verkefni blasa við

Nú þegar endurskoðun samgönguáætlunar er hafin blasir við að verkefnin eru næg enda víða uppsöfnuð þörf.

Ríkisstjórnin hefur metnað í að ráðast í brýn samgönguverkefni um land allt og. Í stjórnarsáttmála kemur fram að hraða verði nauðsynlegri uppbyggingu í vegamálum og öðrum mikilvægum samgönguinnviðum.

Samgönguáætlun á að mæta þörfum íbúa og atvinnulífs á hverjum tíma. Faglegar greiningar liggja ávallt að baki slíkri áætlun og það er mikilvægt að horfa til þess að allir komist ferða sinna á öruggan hátt. Lágmarksaðgengi þarf að vera að nauðsynlegri, opinberri grunnþjónustu og bæta þarf aðgengi og hreyfanleika í samgöngukerfinu fyrir fólks- og vöruflutninga innan og á milli svæða. Síðustu ár hafa þéttbýliskjarnar stækkað og samhliða því orðið miklar breytingar á byggða- og atvinnusvæðum. Þess vegna er mikilvægt að hlúa að vinnusóknarsvæðum í samræmi við sóknaráætlun landshluta og leita leiða við að stytta ferðatíma og stækka svæði. Annað brýnt forgangsmál er að vinna að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna. Góðar og greiðar samgöngur innanlands og til útlanda eru forsenda þess að mannlíf og atvinnulíf geti vaxið og dafnað. Uppbygging og rekstur samgangna á að stuðla að því að efla atvinnulíf. Sé horft til ferðamannaiðnaðarins er mikilvægt að opna fleiri gáttir inn til landsins til að ná betri dreifingu ferðamanna um landið allt. Akureyrarflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í því sambandi. Nýlega ályktaði SAF að mikilvægt sé að ráðast í að stækka flughlað og flugstöðina á Akureyri svo hægt sé að efla millilandaflug um flugvöllinn. Ég tek undir það og tel mikilvæg sóknarfæri felast í þeim aðgerðum.

Nú er úrlausnarefnið að fjármagna verkefnin, forgangsraða og framkvæma.

 

Þórunn Egilsdóttir

  • þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Samgönguráðs

 

 

 

Categories
Greinar

Umferðaröryggi er forgangsmál

Deila grein

13/02/2018

Umferðaröryggi er forgangsmál

Umferðaröryggi á að vera forgangsmál. Banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru alltof mörg. Við þurfum að spyrna við fæti. Þar á ég bæði við stjórnvöld og okkur vegfarendur.

Á síðasta ári urðu hvorki banaslys í flugi né siglingum og ekki heldur árið áður. Við þurfum að stefna að sama árangri í umferðinni. Undanfarin ár hafa 9 til 18 manns látist í umferðinni á ári hverju með undantekningu árið 2014 þegar fjórir létust. Á þessu ári hafa þegar þrír látist af völdum umferðarslysa. Milli 130 og 210 manns hafa slasast alvarlega á ári hverju síðustu árin.

Margt gott hefur verið gert á liðnum árum til að bæta öryggi vegfaranda en betur má ef duga skal. Í stjórnarviðræðum og sáttmála ríkisstjórnarinnar var samkomulag um að við forgangsröðun í vegamálum verði sérstaklega litið til ólíkrar stöðu landsvæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Í samgönguáætlun sem er nú er unnið að verður sérstakur kafli um umferðaröryggi með það markmiði að fækka slysum.

Endurbætur og uppbygging vega

Eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum er brýnt að hraða uppbyggingu í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum bæði nýframkvæmdum og viðhaldi. Síaukinn umferðarþungi kallar á nýbyggingu og endurnýjun vega, meira viðhald og auknar öryggisaðgerðir víða á vegum landsins. Vegakerfið annar varla umferðarálaginu í dag enda er það að miklu leyti byggt upp þegar bílar voru færri, vöruflutningar minni og hraðinn lægri. Uppbygging samgöngumannvirkja er stór þáttur í því að bæta umferðaröryggi en sú uppbygging þarf að vera mun hraðari en verið hefur. Undanfarin ár hafa framkvæmdir verið litlar, umferð aukist mikið og því bíða mikilvæg stórverkefni. Til að ná tilætluðum árangri verða sett metnaðarfull og skilvirk markmið um öryggi samgangna og skilvirkar öryggisáætlanir fyrir samgöngur á landi.

Öryggisaðgerðir

Meðal öryggisaðgerða á þjóðvegum þarf að bæta merkingar enn frekar, til dæmis þar sem vegir liggja að einbreiðum brúm. Auk þess er markvisst unnið að því að fækka einbreiðum brúm. Þá þarf að eyða svartblettum, þ.e. ráðast í aðgerðir á svæðum þar sem slys hafa verið tíð. Dæmi um það er að lengja vegrið, laga vegfláa og bæta úr þar sem umhverfi vega getur verið skeinuhætt fólki ef t.d. bíll lendir útaf. Þá er brýnt að fjölga stöðum meðfram vegum þar sem ferðamenn geta stöðvað til að njóta landsins án þess að valda sjálfum sér eða öðrum hættu.

Aukin vetrarþjónusta

Vetrarþjónusta á þjóðvegakerfinu var aukin í byrjun árs. Góðar hálkuvarnir auka öryggi og þörfin var brýn víða þar sem umferð hefur aukist með tilkomu aukinna ferðalaga yfir veturinn. Mokstursdögum var fjölgað á ákveðnum leiðum á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi og hálkuvarnir hafa nú verið auknar.

Umferðarfræðslan

Umferðarfræðsla er ekki síst mikilvægur þáttur í umferðaröryggi. Það hefur sýnt sig að brýnt er að fræða erlenda ökumenn um íslenskar aðstæður og er þá til dæmis átt við malarvegina og þau óvæntu veðrabrigði sem hér geta orðið ekki síst að vetri sem gjörbreyta á einu andartaki öllum akstursskilyrðum. En við heimamenn þurfum einnig áminningar enda skilar áróður og fræðsla sér í meiri aga í umferðinni. Skólarnir eru einnig mikilvægur vettvangur fyrir umferðarfræðslu.

Hærri sektir og aukið eftirlit

Að lokum er aukinn umferðarhraði áhyggjuefni. Hraðaeftirlit skiptir sköpum og hækkun sekta við umferðarlagabrotum sem nú er í farvatninu er liður í því að fyrirbyggja umferðarslys. Við eigum að vera meðal bestu þjóða hvað varðar fjölda látinna í umferð. Eftirlit og sektir ef við brjótum af okkur veitir aðhald og eru til þess fallin að gera okkur að betri vegfarendum. Það er kjarni málsins þegar umferðaröryggi er annars vegar.

Forgangsröðum með agaðri umferð – það skilar líka árangri  í umferðaröryggi.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórarráðherra

Categories
Greinar

Námsmönnum bannað að vera duglegir

Deila grein

12/02/2018

Námsmönnum bannað að vera duglegir

Velferðarráðuneytið reiknar dæmigert framfærsluviðmið fyrir einstakling 223.046 kr. án húsnæðiskostnaðar og reksturs bifreiða. Hins vegar er grunnframfærsla LÍN aðeins 177.107 kr. á mánuði með húsnæðiskostnaði. Með góðum vilja má finna rök fyrir lægri greiðslu til námsmanna en séu þau skoðuð nánar verður ljóst að verulega vantar uppá svo námsmenn hafi tök á að láta enda ná saman.

Sé hámarksframfærsla LÍN lækkuð í samræmi við lægstu mögulegu leigu á herbergi við Stúdentagarða, eða 75.164 kr., vantar námsmönnum 121.103 kr. mánaðarlega uppí þessi viðmið. Hin eiginlega framfæsla LÍN er því aðeins 54% af framfærsluviðmiði ráðneytisins og þá með lægstu mögulegu húsaleigu sem kerfið býður upp á.

Stórir biðlistar

Nauðsynlegt er að hafa í huga að hundruðir námsmanna eru á biðlista Stúdentagarða og upp í tveggja ára bið er eftir íbúð fyrir iðn- og háskólanemendur utan Háskóla Íslands hjá Byggingarfélagi námsmanna. Þar komast því ekki allir að sem vilja. Í ljósi þess vanda eiga nemar, sérstaklega af landsbyggðinni, oft á tíðum ekki annað val en að fara á almennann húsaleigumarkað með tilheyrandi kostnaði.

Ósanngjart frítekjumark

Þá komum við að einum stærasta vanda íslenskra námsmanna. Það er hreinlega bannað að vera duglegur og vinna meðfram námi. Samkv. úthlutunarreglum LÍN geta námsmenn haft 930.000 kr. í árstekjur (frítekjumark)  án þess að til tekjuskerðingar komi  og námslán skerðast 45% umfram þá upphæð. Hér er ekki tekið með í reikninginn að námsmenn þurfa að standa skil á öllum gjöldum og sköttum  en persónuafsláttur nýtist þeim svo innkoman er nálægt þeim mörkum.

Námsmenn þurfa að framfleyta sér yfir sumartímann og geta duglegir einstaklingar unnið tæpan þrjá og hálfan mánuð yfir sumarið. Sé einungis miðað við lágmarkslaun fyrir sumarvinnu fer námsmaður auðeldlega yfir tekjumörk LÍN og lendir í skerðingu. Með skerðingarhlutfalli LÍN og tekjuskatti (því þeir klára persónuafsláttinn á sumrin) eru námsmönnum boðið uppá kerfi sem skerðir tekjur þeirra um tæp 82%. Það er óréttláttur hátekjuskattur á lágtekjufólk. Sá raunveruleiki liggur í augum uppi. Þá er ótalin skerðing á húsaleigubótum við hærri atvinnutekjur.

Núverandi kerfi hefur þróast í eins konar fátækrargildru sem getur í alvarlegustu tilvikum haft veruleg áhrif á jafnrétti til náms. Sú afkáralega staðreynd að aldraðir í þessu þjóðfélagi hafi hærra atvinnutekjumark en iðn- og háskólanemar er því miður sá raunveruleiki sem námsfólk býr við í dag. Núverandi kerfi refsar námsfólki fyrir að vera duglegt.

Hafa ekki efni á heilbrigðisþjónustu

Íslenskir námsmenn borga í dag hæstu mögulegu þjónustugjöld innan heilbrigðiskerfisins. Það er ekki í samræmi við gjaldinnheimtu þess þjóðfélagshóps á hinum Norðurlöndunum. Árið 2011 kom einmitt fram í viðamikilli könnun innan Háskóla Íslands að meira en helmingur námsmanna sótti sér ekki viðeigandi heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar.

Það er þyngra en tárum tekur að unga fólkið okkar geti ekki sótt þá nauðsynlegu þjónustu sem þeir þurfa og þurfi í alvarlegustu málum að taka hlé frá námi vegna íþyngjandi kostnaðar. Þeir geta ekki einu sinni fengið tækifæri til að vera duglegir og vinna fyrir þjónustugjöldum heilbrigðiskerfisins.

Dregur úr svartri atvinnustarfsemi

Fyrir fjölmarga námsmenn er það algjört neyðarúrræði að vinna svarta vinnu til að komast af og draga björg í bú. Þrátt fyrir útgjaldaaukningu við hækkun á tekjuskerðingarmörkum LÍN er sú aðgerð líkleg til að draga úr svartri atvinnustarfsemi og auka heildartekjur ríkissjóðs.

Ef námsmenn skipuleggja sig vel, læra á daginn og fá refsilaus tækifæri til stöku kvöld- eða helgarvinnu, verður heildarábati samfélagsins mun meiri en kostnaðurinn. Sú stefna er einnig að fullu í samræmi við þá félagslegu frjálslyndissýn sem Framsóknarflokkurinn stendur fyrir.

Alex Björn Bulow Stefánsson
varaþingmaður Framsóknarflokksins og formaður SIGRÚNAR, félags ungra Framsóknarmanna í RVK

Categories
Greinar

Vaxandi ógn

Deila grein

08/02/2018

Vaxandi ógn

Net- og tölvuárásir eru vaxandi ógn sem veldur fjárhagslegum og tilfinnanlegum skaða hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Varlega er áætlað að kostnaður af völdum netglæpa hér á landi hlaupi á hundruðum milljóna króna og gæti jafnvel numið milljörðum. Skaðinn er mikill – skortur á netöryggi skerðir trúverðugleika ríkja og þar með samkeppnisstöðu þeirra á ýmsum sviðum.

Fjallað hefur verið um ýmiss konar netvá í fjölmiðlum undanfarið og ekki að ástæðulausu. Netöryggi er eitt brýnasta mál allra ríkja í okkar heimshluta þegar kemur að uppbyggingu samfélagsins. Á sama tíma og netið gerir okkur kleift að nýta tölvutæknina með fjölbreyttum hætti þá fylgir notkun þess ýmsar ófyrirséðar áskoranir sem við verðum að takast á við og getum ekki lokað augunum fyrir. Æ algengara er að veilur í netkerfum og tölvubúnaði séu nýttar skipulega til afbrota, njósna eða einfaldlega til að valda tjóni. Skaðsemi slíkra árása getur verið mikil en umræðan fer jafnan ekki hátt.

Eins og staðan er í dag sjá öll lönd fram á skort á sérfræðingum á þessu sviði en nú stendur yfir átak á vegum ráðuneytisins til að efla menntun í netöryggismálum. Viðræður við Tækniháskólann í Noregi (NTNU) hafa leitt til þess að sérfræðingar frá skólanum koma hingað til lands síðar í þessum mánuði og munu þeir kynna nám á framhaldsstigi á sviði netöryggis sem hentar einstaklingum sem lokið hafa grunnprófi í tölvunarfræði. Þessi heimsókn er í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Auk þessarar kynningar verður rætt um mögulegt samstarf skólanna þriggja á þessu sviði.

Bætt netöryggi

Þó að ýmislegt hafi verið gert til að efla net- og upplýsingaöryggi hér á landi er brýnt að halda áfram eftir því sem tækninni fleygir fram. Ein brýnasta aðgerð til að bæta netöryggi er mótun frumvarps um heildarlöggjöf um net- og upplýsingaöryggi en jafnframt er unnið  að endurskoðun á stefnu um netöryggi og nýrri aðgerðaáætlun.

Markmiðið með frumvarpinu er að ná til þeirra sem veita nauðsynlega stafræna þjónustu, s.s. orkuveitur, bankaþjónustu, fjármálamarkaði, heilbrigðisþjónustu, vatnsveitur og stafræn grunnvirki. Mikilvægt er að tryggja að slíkir aðilar geti veitt þessa þjónustu þvert á landamæri með samræmdum öryggiskröfum og þar með aukið samkeppnishæfni og dregið úr óþarfa kostnaði vegna mismunandi krafna og lagaumgjörðar. Gildissvið fyrirhugaðrar löggjafar er umfangsmikið og samráð er hafið við hagsmunaaðila, auk þess sem farið verður í opið samráð á netinu. Miðað er við að leggja umrætt frumvarp fram á komandi haustþingi og að það taki gildi um næstu áramót.

 

Samkvæmt NIS-tilskipuninni sem frumvarpið byggist á ber netöryggissveit að vera starfandi í hverju ríki sem tilskipunin nær til. Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, sem er ein af stofnunum ráðuneytisins,  greinir netvá og á að sinna ýmsum samhæfingarverkefnum innanlands og jafnframt að taka virkan þátt í samstarfi evrópskra netöryggissveita. Efling Netöryggissveitarinnar er því mikilvæg. Stórum áfanga var nýverið náð þegar undirritaður var þjónustusamningur sveitarinnar við stjórnsýsluna um netöryggisþjónustu. Þetta er fyrsti þjónustusamningurinn sem hefur verið undirritaður og munu aðrir væntanlega fylgja í kjölfarið. Samningur Netöryggissveitarinnar við orkugeirann er t.d. langt kominn.

Markmið samningsins við stjórnsýsluna er að verjast öryggisatvikum og takast á við netárásir og hliðstæðar ógnir. Hann er til marks um aðgerðir sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur beitt sér fyrir til að efla netöryggi.

 

Ábendingar frá Oxford

Auk tæknilegra þátta þarf einnig að huga að þeim samfélagslegu. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fékk Háskólann í Oxford til að gera skýrslu um stöðu netöryggis á Íslandi sem skilað var nýlega. Í skýrslunni eru ýmsar ráðleggingar til úrbóta og er verið að vinna að mótun aðgerða byggðum á ráðleggingunum. Skýrslan, ásamt tillögum um aðgerðir, verður bráðlega kynnt opinberlega.

Ljóst er að mikil þróun er nú í öllu skipulagi netöryggismála hjá grannríkjum okkar og sér ekki fyrir endann á því. Víðtæk innleiðing nettækni hefur róttæk áhrif á samfélög okkar sem bregðast verður við. Ráðuneytið hefur fylgst náið með þessum breytingum og átt gott samstarf við grannríki okkar, ekki síst Norðurlönd. Nýja persónuverndarreglugerðin (GDPR) hefur verið mikið til umræðu undanfarið, nú mun NIS-tilskipunin bætast við og fleiri breytingar á stjórnskipun netöryggismála eru fyrirsjáanlegar. Með efldu netöryggi byggðu á góðu samstarfi getum við öll nýtt þau tækifæri sem netnotkun getur boðið upp á, styrkt samkeppnisstöðu okkar og bætt lífsgæði í vinnu og einkalífi.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Categories
Greinar

Byggðum blæðir

Deila grein

08/02/2018

Byggðum blæðir

Skiptir ekki máli þótt að einn og einn kall fari

Í frumbernsku vegagerðar hér á landi var mikil áhersla lögð á að ná vegasambandi á milli byggðalaga og ákafinn mikill á að hraða þeim framkvæmdum. Þá eins og nú greindi mönnum á um vegstæði. Í einu byggðalagi var ákafur og duglegur maður sem vildi fara skemmstu leið um klettótta hlíð að næsta áfangastað. Honum var bent á að þetta væri hættuleg framkvæmd og þeir sem ynnu að framkvæmdinni yrðu lagðir í stórhættu, auk þess sem vegfarendur yrðu í hættu á ferðalögum sínum. „ Það er í lagi að það fari einn og einn kall ef við fáum veginn,“ var svarið.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á orð Loga Einarssonar formanns Samfylkingar í ræðustól Alþingis um daginn, þegar hann ræddi um veiðigjöldin. Hann talaði fyrir því að hækka auðgjaldið og því þyrfti að hraða til að ná inn auknum tekjum í þjóðarbúið. Rökin hans fólu m.a. í sér þessa fullyrðingu: „Er ekki allt í lagi þó að eitthvað af útgerðarfyrirtækjunum fari á hausinn og við leitum í hagkvæmasta reksturinn þannig að þjóðin fái á endanum afgjaldið? Aðalatriðið er að byggðunum blæði ekki.“

Byggðum blæðir

Það er staðreynd að byggðum er farið að blæða nú þegar. Veiðigjöldin margfölduðust á sl. ári og eru þegar til útgerðarfyrirtæki sem hafa gefist upp og nokkur eru að hugsa sér til hreyfings.  Sú reikniregla sem viðgengst kemur illa niður á því árferði sem núna er hjá bolfiskfyrirtækjum. Reiknireglan miðast við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja fyrir tveimur árum og veiðigjöld þessa fiskveiðiárs er því tengd afkomu greinarinnar árið 2015 sem var verulega betri en afkoma sl. árs. Því veldur styrking krónunnar og lækkun á hráefnisverði.

Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga mörg hver í verulegum erfileikum og ekki er útséð hve mörgum tekst að klára árið. Þarna erum við ekki einungis að tala um að einstökum byggðalögum blæði, heldur fjórðungum. Lítum til Vestfjarða. Þar eru einungis lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki. Ennþá er það svo að sjávarútvegurinn er aðalatvinnuvegur fjórðungsins. Það er því mikið í húfi. Okkur tekst ekki á skömmum tíma að byggja upp eða styrkja aðrar atvinnugreinar til að mæta þeim skelli sem gæti orðið ef þessi stoð væri skorin niður. Samþjöppun fyrirtækja? Viljum við að eitt stórt fyrirtæki sem hefur enga tengingu við samfélagið reki allan sjávarútveg?

Hraða aðgerðum

Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa ekki mótmælt því að greiða gjald af auðlindinni, enda hreyfðu þau ekki mótmælum þegar vel gekk. En gjaldið þarf að vera sanngjarnt og taka mið af afkomu nær í tíma og af fleiri þáttum í rekstri, eins tíðkaðist með afslætti vegna vaxta og framkvæmda. Þjóðin græðir ekki á afgjöldum af auðlindinni ef að það kostar okkur rótgróin fyrirtæki.

Við verðum að hraða aðgerðum. Litróf sjávarútvegsfyrirtækja í landinu má ekki verða einsleitt. Það er öllum byggðarlögum hollt að rekin séu sterk og fjölbreytt fyrirtæki sem fylgja hjarta samfélagsins.

Halla Signý Kristjánsdóttir

þingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmis.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Linda Hrönn kjörin formaður Landssambands Framsóknarkvenna

Deila grein

04/02/2018

Linda Hrönn kjörin formaður Landssambands Framsóknarkvenna

Á 18. landsþingi Landssambands Framsóknarkvenna sem haldið var í Reykjavík 3. febrúar síðastliðinn var Linda Hrönn Þórisdóttir kjörin formaður LFK. Linda Hrönn er með MA próf í uppeldis- og menntunarfræðum og B.Ed gráðu í leikskólakennarafræðum. Linda Hrönn starfar sem sérfræðingur hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi en hefur um tuttugu ára reynslu sem kennari og stjórnandi í leikskólum. Linda Hrönn hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn, hefur verið í miðstjórn frá árinu 2014, er í launþegaráði og situr í menntamálahópi flokksins.

Categories
Fréttir Uncategorized

Þingmenn Framsóknar vilja húsnæðisliðinn út úr vísitölunni

Deila grein

01/02/2018

Þingmenn Framsóknar vilja húsnæðisliðinn út úr vísitölunni

Þingmenn Framsóknarflokksins, með Willum Þór Þórsson í fararbroddi hafa lagt fram þingsályktunartillögu. Markmið hennar er að fjármála – og efnahagsráðherra skipi starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Við greiningarvinnuna á að horfa sérstaklega til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands en jafnframt skal meta hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti.
Þessi tillaga er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar segir: ,,Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvístölunnar.