Categories
Greinar

Um fjármál og atvinnumál Dalvíkurbyggðar

Deila grein

07/05/2018

Um fjármál og atvinnumál Dalvíkurbyggðar

Nú líður að því að gengið verði til kosninga til sveitarstjórnar. Því ákváðum við undirritaðir að festa á blað hugrenningar okkar um fjármál og atvinnumál þessa góða sveitarfélags.

Við getum verið stolt af rekstri sveitarfélagsins. Nýlega var ársreikningur fyrir árið 2017 lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn og staðfestir hann sterka stöðu. Samkvæmt ársreikningi 2017 má sjá að veltufé frá rekstri, A og B hluta er mjög gott, eða um 343 milljónir kr. Þess má geta til fróðleiks að veltufé frá rekstri er það fé sem sveitarfélagið hefur til framkvæmda og afborgunar lána. Þá má nefna að skuldahlutfall sveitarfélagsins, það er heildarskuldir á móti tekjum hefur lækkað úr um 97% árið 2012 niður í um 50% árið 2017, sem er með því lægsta meðal íslenskra sveitarfélaga (sjá mynd sem sýnir þróunina 2012-2016). Þá er sú ánægjulega þróun að eiga sér stað að okkur er að fjölga aftur eftir nokkur ár fækkunar. Þannig fjölgaði íbúum byggðalagsins úr 1.831 þann 1. janúar 2017, í 1.880 þann 1. janúar 2018 eða um 2,7%.

Mynd. Þróun skuldahlutfalls Dalvíkurbyggðar 2012-2016. Tekið af vef sambands íslenskra sveitarfélaga.

Staðan í dag gefur því svigrúm til að efla gott samfélag. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2018 , með áorðnum viðaukum, eru áætlaðar framkvæmdir sveitarfélagsins um 290 milljónir króna og samkvæmt þriggja ára áætlun, um 270 milljónir króna árið 2019. Það er því ljóst að mikið er verið að framkvæma á vegum sveitarfélagsins og því þarf að varast að fara ekki fram úr okkur því að eins og við vitum þá gengur efnahagslífið okkar í hæðum og lægðum ef litið er til sögunnar. Nú erum við á toppi hagsveiflunnar og gæta þarf þess að auka ekki á þensluna. Forgangsraða þarf þegar kemur að framkvæmdum og sinna þarf nauðsynlegu viðhaldi á eignum sveitarfélagsins. Ef til niðursveiflu kemur er gott að eiga borð fyrir báru til að geta viðhaldið því háa þjónustustigi sem hér er og getunni til að halda áfram uppbyggingu í sveitarfélaginu.

Tilefni er til bjartsýni um framtíð sveitarfélagsins og vel hefur gengið í rekstri  á líðandi kjörtímabili.. Við búum yfir miklum og góðum mannauði, ferðaþjónustan er á uppleið og öflug fyrirtæki í mörgum greinum atvinnulífsins til sjávar og sveita. Við höfum alla burði til að laða að okkur fyrirtæki og því þurfum við að auglýsa okkur vel sem fýsilegan kost. Við erum í samkeppni um fólk og fyrirtæki við önnur sveitarfélög og verðum við því að leggja áherslu á ágæti okkar sem sveitarfélags. Liður í því væri t.d. öflug markaðssetning byggðalagsins til þeirra er hyggja á atvinnurekstur og sem vænlegs búsetukosts, sem og stuðla að nýsköpun.

Vinna þarf nýtt aðalskipulag og deiliskipulegga bæði íbúðar og fyrirtækjalóðir þar sem markmið fulltrúa B lista er að efla byggðalagið með fjölgun íbúa og starfa á svæðinu. Búið er að sækja um mikið af byggingalóðum til íbúðabygginga og því þörf á að skipuleggja ný svæði.

Eins og áður hefur komið fram þá eru miklar framkvæmdir á árinu og á því næsta og boginn því vel spenntur á útgjaldahliðinni. Styrkleikar byggðalagsins, lág skuldastaða og góð afkoma gerir okkur kleift að standa undir mikilvægum framkvæmdum og háu þjónustustigi. Það er ósk frambjóðenda B lista, fáum við til þess umboð kjósenda, að halda áfram á sömu braut og undanfarið kjörtímabil. Við viljum halda áfram uppbyggingu sveitarfélagsins eins og verið hefur en jafnframt gæta aðhalds, varkárni og ráðdeildar í rekstri. Aðeins þannig getum við haldið áfram uppbyggingu og viðhaldið háu þjónustustigi til lengri tíma.

Sumarkveðjur, Felix Rafn Felixsson, sæti B-lista og Kristinn Bogi Antonsson, 8. sæti B-lista 2018.

 

Categories
Greinar

Framsókn vill fara finnsku leiðina

Deila grein

07/05/2018

Framsókn vill fara finnsku leiðina

Árangur Finna í menntun vekur umhugsun annarra þjóða. Í landinu eru 3500 skólar og í þeim starfa 62.000 kennarar. Eingöngu efstu 10% útskrifaðra grunnnema í Háskóla komast að í meistaranámi til kennsluréttinda. Já, þið lásuð rétt, eingöngu hæstu 10% að fara í kennaranámið. Viljirðu gerast sérkennari í Finnlandi þarftu sem gefur að skilja að bæta við þig námi og er námstíminn því 6 ár en ekki hin hefðbundnu 5 ár. Laun eru í samræmi við menntun og ábyrgð.
Finnar eru þeirrar skoðunar að gæði kennaranáms og kennararnir sjálfir séu það sem púðrið eigi að fara í. Markmiðið er að efla þá nemendur eða einstaklinga í skólakerfinu sem viðkvæmir eru fyrir og þannig fá um 30% allra finnskra nemenda sérúrræði og stuðning af einhverju tagi á fyrstu níu árum skólagöngu sinnar. Stefnan er sú að skólarnir séu litlir svo allir kennarar þekki flesta eða alla nemendur. Þannig verður þjónustan og umhverfið persónulegra og nándin meiri. Leikur fær stóran sess í skipulaginu öllu þvert á námsgreinar.
Ef kennari lendir í blindgötu með að ná til nemanda síns er markvisst leitað til samkennara við skólann og lausna leitað í sameiningu. Eins sameinast bekkir að hluta til eða að öllu leyti til að styrkja veikleika eða efla heildina. Allt er þetta gert undir stjórn og að frumkvæði kennaranna sjálfra. Þeir ráða för.
Endurreisn finnska skólakerfisins
Nú eru um 45 ár síðan finnska skólakerfið var endurmetið í kjölfar efnahagslegs hruns og styrjalda á fyrri áratugum síðustu aldar. Til að efla samkeppnishæfi landsins og koma því inn í nútímann og svo framtíðina varð að mennta alla. Þetta snerist fyrst og fremst um það að lifa af í nýju pólitísku umhverfi. Þverpólitísk ákvörðun var tekin og sátt var um það að mennt er máttur og um leið grunnstoðir hvers samfélags. Því skyldi koma á skólakerfi byggðu á jafnrétti og jöfnum tækifærum en ekki samkeppni og miðstýringu.

Tölfræðin ekki rétti mælikvarðinn

Bandaríkjamenn hafa farið þá leið að etja til samkeppni á menntasviði með gríðarlegum stuðningi fjármálageirans á Wall Street og auðkýfinga á við Bill Gates sem styðja við einkarekna skóla og svokallaða leiguskóla eða “charter schools”. Jafnvel Obama hefur stutt við samkeppnissjónarmið milli skóla með því að gefa þeim tækifæri til frekari fjárúthlutana í gegnum námsárangur og jákvæða tölfræði. Í Finnlandi myndu kennarar fljótt snúast gegn slíku kerfi. Segja þeir, og réttilega svo, að metir þú eingöngu tölfræðina þá missirðu af mannlega þættinum. Við getum öll verið sammála þessu. Eða hvað?

Ekki allt upptalið

Í Finnlandi er eitt samræmt próf sem allir taka í lok síðasta skólaárs síns í grunnskóla.
Skólar eru reknir af skólafólki með þekkingu og reynslu úr skólakerfinu, bæði í skólunum sjálfum og í stjórnsýslunni. Skólar eru fjármagnaðir af hinu opinbera og jafnræðis er gætt. Ganga þeir svo langt að segja jafnrétti vera mikilvægasta orð finnska menntakerfisins. Allir stjórnmálaflokkar frá hægri til vinstri eru samhuga um það.
93% Finna útskrifast úr bók- eða verknámi af einhverju tagi á framhaldsskólastigi. 17,5 prósentustigum fleiri en í Bandaríkjunum. 66% finnskra ungmenna halda áfram í námi og sækja sér frekari menntun og er það hæsta hlutfall innan Evrópusambandsins. Finnar eyða aftur á móti 30% minna fjármagni í hvern nemanda en t.d. Bandaríkjamenn.
Hinum mikla árangri af þessum skipulagsbreytingum vissi enginn formlega af fyrr en PISA kom til sögunnar. Þá voru finnskir nemendur hæstir í læsi af 50 löndum. Þremur árum seinna skoruðu þeir einnig hæst í stærðfræði af 57 löndum. Árið 2006 var Finnland einnig efst í náttúrufræði. Árið 2009 voru finnar 6. hæstir í stærðfræði, önnur hæsta þjóðin í náttúrufræði, þriðja hæsta í læsi af yfir milljón nemendum um heim allan.
Munurinn á nemendum sem gengur best og verst er hvergi minni en í Finnlandi samkvæmt könnun OECD. Kennarar koma allir frá sama þjálfunargrunni og alls staðar er boðið upp á sömu kennsluna, sömu markmiðin og sömu menntunarmöguleikana.
Finnar eru þó ekki montnir af afrekum sínum. PISA er ekki í hávegum höfð og niðurstöðum hennar ekki fagnað þar sem þeir meta hlutverk sitt sem aðstoð við að læra að læra en ekki hvernig á að taka próf. PISA er ekki það sem skólinn snýst um í Finnlandi.
Finnskir kennarar eyða minni tíma við borðin sín og minni tíma í kennslustundum en kollegar þeirra í Bandaríkjunum. Kennarar nota aukatímann í að byggja upp og skipuleggja nám og námsefni og meta stöðu nemenda sinna og leita leiða til að koma til móts við ólíkar þarfir þeirra.
Útileikur og frímínútur spilar stóran þátt í skóladeginum í öllum veðrum og byrjar skólinn ekki fyrr en við 7 ára aldur. Vilja Finnar meina að engin þörf sé á að flýta námi barna, þau læri betur þegar þau eru tilbúin.

Finnsk velferð

Í Finnlandi er fæðingarorlofið 3 ár og niðurgreidd daggæsla fyrir foreldra, leikskóli fyrir alla frá 5 ára aldri þar sem áhersla er á leik og samskipti. Ríkið greiðir foreldrum einnig veglegar barnabætur eða um 150 evrur á mánuði fyrir hvert barn fram að 17 ára aldri. 97% allra 6 ára barna fara í leikskóla þar sem formlegt nám hefst að vissu leyti. Skólar útvega nemendum sínum mat og námsgögn og akstursþjónustu sé þess þörf. Heilsugæsla nemenda er fjölskyldum að kostnaðarlausu.
Kennari í Finnlandi fylgir bekknum sínum í tvö ár eða lengur og sérstakir bekkir eru fyrir nemendur af erlendu bergi brotnu, þar sem kennslan er í höndum sérfræðinga í fjölþjóðlegri kennslu og með sérstökum stuðningi yfirvalda í formi fjármagns til að kosta sérkennara og aukins bekkjarfjölda (færri nemendur í hópi og því fleiri kennarar).
Lynell Hancokc, sem skrifaði þessa grein hér, heimsótti skóla í hverfi þar sem íbúar eiga margir hverjir við vissa félagslega erfiðleika að stríða og þar sem helmingur nemenda átti við námsörðugleika að stríða. Fékk hún þær upplýsingar að auka styrkur færi til skólans upp á 47.000 evrur til að koma til móts við aukið hlutfall nemenda með sérþarfir. Eins og gefur að skilja þurfa sérkennarar aukna menntun á við hinn almenna kennara. Það merkir að sérkennarar kosta meira. Í umræddum skóla í Helsinki er einn kennari eða starfsmaður á hverja sjö nemendur. Af því að kennarar meta sem svo að þess þurfi!

Íslenska leiðin

Á Íslandi boða stjórnvöld stórsókn í menntamálum. Samninganefnd sveitarfélaga fékk ekki minnisbréfið um það og bauð grunnskólakennurum 3% launahækkun nú á dögunum, sem grunnskólakennarar felldu með miklum meirihluta atkvæða.
Miðstýring í skólakerfinu hefur einnig stóraukist undanfarin ár. Aukið samræmi og samstarf annars vegar og miðstýring hins vegar er ekki það sama og helst því síður í hendur.
Við getum gert betur!
Höfundur er grunnskólakennari og að ljúka meistaranámi í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands.
Hjördís skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins í borgarstjórnarskosningunum í vor.
Byggt á grein Lynell Hancock Why Are Finland’s Schools Successful?
Grein sem birtist undir Skoðun á visir.is þann 3. apríl 2018
Categories
Greinar

Byggjum upp

Deila grein

04/05/2018

Byggjum upp

Jökulsárlón er lykilstaður fyrir ferðaþjónustu í okkar sveitarfélagi og eitt helsta aðdráttarafl þess. Það er nú komið undir mörk Vatnajökulsþjóðgarðs sem þýðir ekki að við eigum að skila auðu um skipulagsmálin þar. Þvert á móti gerir stjórnfyrirkomulag garðsins okkur kleift að forsvarsmenn sveitarfélagsins taki frumkvæðið. Ferlið verður hins vegar að vera opið sem fer víðsfjarri hjá þeim sem nú koma að þessum málum. Fyrsta sem hafa ber í huga við gerð skipulagsins er hvert markmið þess á að vera.

Við viljum að uppbygging við lónið miði að því að nokkur lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa sterk tengsl við nærsamfélagið fái að koma þar upp aðstöðu, hvort sem um er að ræða afþreyingarfyrirtæki eða veitingafólk. Sanngjörn leiga þarf að sjálfsögðu að koma fyrir aðstöðuna en það má hins vegar ekki gerast að vegna ásóknar fjársterkra aðila að vaxtarsprotum í ferðaþjónustu á svæðinu verði ýtt úr vegi.

Skipulagsmál á Höfn

Fyrir liggur þörf í uppbyggingu íbúða í bæði dreifbýli og þéttbýli. Fjölbreytt framboð á lóðum innan Hafnar er mikilvægt sem aldrei fyrr og að hugað vel að uppbyggingu grænna svæða. Við gerð skipulags er framtíðarsýn mikilvæg og fólk verður að hafa hugmynd um hvernig samfélagið á að þróast en dansa ekki eftir geðþótta ákvörðunum á hverjum tíma. Á Höfn þarf að halda áfram uppbyggingu strandstígs og grænna svæða.

Skipulagsmál til sveita

Það er ánægjulegt að núverandi meirihluta hefur tekist á fjórum árum, að ljúka því sem var nánast komið í höfn fyrir fimm árum – að klára skipulög í kringum félagsheimilin í sveitunum. Félagsheimilunum okkar þarf að sýna meiri sóma með bættu viðhaldi og snyrtilegri aðkomu. Nú hljóta menn að laga planið við Mánagarð í vor! Í dreifbýlinu er mikilvægt að íbúar og gestir upplifi ekki þrengsli. Sú sérstaða sem Ísland hefur, víðerni og andrými, verður að viðhalda.

Skipulagsmál og lýðræði

Íbúalýðræði hefur ekkert verið að flækjast fyrir okkur síðustu árin. Það er því mikilvægt að kjósendur vegi og meti hvort þeir vilji að vinnubrögð breytist við stjórn sveitarfélagsins. Leiðarljós okkar Framsóknarmanna í þeim efnum er betra upplýsingaflæði, meira samráð og gott viðmót í samskiptum sveitarfélags og íbúa þess.

Verkefnin eru mörg og sum brýn og krefjandi en ekkert þeirra óleysanlegt. Við Framsóknarmenn og stuðningsmenn þeirra bjóðum ykkur starfskrafta okkar næstu fjögur árin til þess að gera samfélag okkar allra enn sterkara.

Ásgrímur Ingólfsson, 2. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra á Hornafirði.

Greinin birtist í Eystrahorni.

Categories
Greinar

Fjárfestum í framtíðinni

Deila grein

04/05/2018

Fjárfestum í framtíðinni

Kennaraskortur er yfirvofandi. Háskólarnir brautskrá ekki nægjanlega marga kennara til þess að viðhalda eðlilegri nýliðun í stéttinni og meðalaldur kennara nálgast 50 ár.

Þá er talið að einungis helmingur útskrifaðra grunnskólakennara starfi við fagið, en kennarar nefna gjarnan lág laun og mikið álag í vinnu sem ástæðu þess að þeir leyti á önnur mið.

Ekkert samfélagslegt verkefni er okkur mikilvægara en það að bregðast við þessu. Ekkert verkefni er á hverjum tíma mikilvægara en það að sjá til þess að næsta kynslóð sé vel í stakk búin til þess að takast á við það sem koma skal.

Skólarnir okkar verða aldrei betri en starfsfólkið sem í þeim er. Börnin okkar hafa síðustu misseri ekki verið að koma vel út í alþjóðlegum samanburði, en það er ljóst að ekki verður hægt að snúa þeirri þróun við ef ekki verður hægt að tryggja aðgang þeirra að hæfum kennurum.

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík ætlar að forgangsraða í þágu skólamála. Við lítum svo að að ef ekki sé til fjármagn í stórátak í þessum málum þá sé ekki til fjármagn í nein önnur verkefni.

Ef við komumst í meirihluta að loknum borgarstjórnarkosningunum í vor munum við:

  1. Hækka laun leik- og grunnskólakennara um 100.000 kr. á mánuði.
  2. Draga úr miðstýringu og láta féð renna beint til skólanna.
  3. Stytta vinnuviku leik- og grunnskóla í 35 klst.

Kennarar barnanna okkar ættu að vera okkar hæfasta fólk en neikvæð orðræða um kennarastarfið í leik- og grunnskólum hefur leitt til þess að ungt hæfileikafólk íhugar kennaranám ekki lengur sem valkost, þessu vill Framsóknarflokkurinn breyta.

Við verðum að gera kennarastarfið eftirsótt á ný. Við verðum að fjárfesta í framtíðinni.

Snædís Karlsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. maí 2018.

Categories
Greinar

Hvers vegna flutti ég aftur vestur?

Deila grein

03/05/2018

Hvers vegna flutti ég aftur vestur?

Að ákveða hvað maður vill starfa við er stór ákvörðun. Fyrir nokkrum árum, í lok menntaskólagöngunnar þurfti ég líkt og aðrir jafnaldrar mínir að huga að framtíðinni. Á endanum varð sjávarútvegsfræði á Akureyri fyrir valinu, enda fæddur og uppalinn á Ísafirði þar sem aðal atvinnugrein sveitarfélagsins hefur verið sjávarútvegur. Stefnan var alltaf sú að koma aftur heim og leyfa börnunum og fjölskyldu að njóta sömu forréttinda og ég fékk þegar ég var að alast upp. Hins vegar er ekki sjálfgefið að geta látið slíkt ganga upp en við sáum ákveðin tækifæri og höfðum trú á staðnum sem varð til þess að við fjölskyldan fluttumst aftur vestur.

Tækifærin

Atvinnulífið hjá okkur byggist að mestu á þremur þáttum í dag, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og þjónustustörfum við íbúa. Í minni grein, sjávarútveginum, hefur gróskan verið meiri en í mörg ár. Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis er í miklum vexti, hátæknifyrirtækið Skaginn 3X á góðri leið að verða eitt þekktasta tæknifyrirtæki tengt matvælaiðnaði í heiminum og HG að endurnýja togara og hyggjast byggja nýtt frystihús. Ferðaþjónustan hefur svo vaxið og mörg tækifæri eru innan hennar þar sem við ættum að einblína á sérstöðu svæðisins.

Stærsta einstaka tækifærið og ný stoð undir atvinnuvegina okkar er hins vegar fiskeldi. Í Dýrafirði einum verður hægt að ala um 10.000 tonn af laxi á ári, til þess að setja þetta í samhengi er verð á slægðum laxi gróflega um þrefalt hærra en verð á slægðum þorski. Í Dýrafirði einum verða því til verðmæti sem jafngilda 30 þúsund tonnum af slægðum þorski! Við erum með lifandi dæmi á suðurfjörðunum um þau stakkaskipti sem fiskeldið hefur valdið, þorpin sem áður voru í miklum vandræðum eru farin að eflast og vaxa.

Fiskeldi í Ísafjarðardjúpi mun sömuleiðis leiða til mikillar fólksfjölgunar í bæjarfélaginu og á nærsvæði þess, enda gerir varfærið mat ráð fyrir eldi upp á 30.000 tonna burðarþol. Undanfarið ár hafa hins vegar orðið ítrekuð áföll í uppbyggingu fiskeldis í Djúpinu. Þá skiptir höfuðmáli að hafa bæjaryfirvöld sem setja sig vel inn í málin og berjast fyrir hagsmunum svæðisins á öllum vígstöðvum. Fiskeldisfundur með Hafró um miðjan apríl sl. sýndi að þrátt fyrir að fiskeldisfyrirtækin eru tilbúinn að leggja mikið á sig til þess að koma til móts við umhverfissjónarmið, koma enn loðin svör frá stjórnvöldum um hvenær sé hægt að fara af stað.

Í þessu ástandi verða bæjaryfirvöld í Ísafjarðarbæ, sem fulltrúar stærsta sveitarfélagsins á Vestfjörðum að hafa forystu um að berjast fyrir hagsmunum svæðisins.

Áskoranir

En með uppbyggingu fylgja áskoranir. Í Ísafjarðarbæ er lítið um laust húsnæði og úrræði fyrir ungar fjöldskyldur daprar varðandi leikskólamál. Eins og staðan er í dag er varla hægt að segja að ungar fjölskyldur geti flutt hingað vestur og gengið beint inn í samfélagið og komið sér á vinnumarkaðinn einfaldlega vegna húsnæðisskorts. Mikilvægt er að bæjaryfirvöld bregðist við þeim vanda, til dæmis með því að gefa afslátt af gatnagerðargjöldum líkt og oddviti Framsóknar kom í gegn síðastliðið sumar.

Við þurfum að tryggja að börn komist inn á leikskóla fljótt eftir að fæðingarorlofi foreldra ljúki og koma í veg fyrir að fólk þurfi að grípa til þess ráðs að þurfa að keyra með börnin sín á leikskóla utan síns bæjarkjarna líkt og margar fjölskyldur hafa þurft að gera. Það þarf að vera krafa bæjarbúa að fjölga skuli leikskólaplássi í Ísafjarðarbæ og koma á laggirnar ungbarnaleikskóla og flýta því að foreldrar ungra barna komist út á vinnumarkaðinn.

Það fylgja því ótrúlegir kostir að búa hér en við verðum samt sem áður að vera samkeppnishæf varðandi þjónustu og kröfur íbúa, sama hvort það sé í skóla, íþrótta eða húsnæðismálum.

Framtíðin er fyrir vestan

Fyrir þremur árum sáum við Heba Dís tækifæri í að koma aftur heim og vera hluti af þeirri uppbyggingu sem er að fara af stað eftir langvarandi varnarbaráttu byggðanna undanfarin ár. Með trú á svæðinu og samfélaginu keyptum við okkur gamalt hús sem við höfum verið að gera upp. Nálægðin við fjöllin, umhverfið, lognið, nálægðin í frístundir, fólkið og frelsið eru ótvíræðir kostir þess að búa hér.

En til þess að geta notið allra þessa kosta þarf atvinnu. Þess vegna verðum við að tryggja umhverfi fyrirtækjanna, frumkvöðlanna okkar og einstaklinga sem eru að byggja hér upp samfélagið. Ég hef fulla trú á að með öflugri baráttu bæjarins í samvinnu við önnur sveitarfélög megi tryggja atvinnuuppbyggingu, m.a. fiskeldi, sem gerir okkur fært að ráðast í stórsókn á öðrum sviðum samfélagsins og byggja upp bæjina innan Ísafjarðarbæjar.

Kæru frambjóðendur og íbúar. Setjum markið á að horfa lengra til framtíðar en einungis eitt kjörtímabil og stefnum á að byggja hér upp barnvænt samfélag sem sé eftirsóknarvert og geti leitt okkur inn í nýja tíma með ört fjölgandi fólki og blómstrandi mannlífi.

Ég ætla allavega að leyfa mér að vera bjartsýnn og segja að framtíðin sé fyrir vestan.

Anton Helgi Guðjónsson, sjávarútvegsfræðingur og skipa 5. sæti lista Framsóknar í Ísafjarðarbæ.

Greinin birtist á bb.is 28. apríl 2018.

Categories
Greinar

Umhverfismál í forgang í Árborg

Deila grein

02/05/2018

Umhverfismál í forgang í Árborg

Framboð Framsóknar og óháðra í Árborg leggja ríka áherslu á umhverfismál og telur tímabært að setja skýra stefnu í þessum málaflokki í samvinnu við íbúa. Lögbundið er að hvert sveitarfélag leggi fram aðalskipulag þar sem fram kemur stefna þess um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Sveitarfélög geta jafnframt sýnt frumkvæði og lagt í stefnumörkun umfram það sem lögbundið er.

Í stefnumörkun felst að greina stöðuna og setja markmið. Við leggjum til að í greiningavinnunni verði kolefnisspor sveitarfélagsins kortlagt og þættir eins og plastnotkun og matarsóun skoðaðir í því samhengi, til viðbótar við hin hefðbundnu sorphirðu- og fráveitumál. Í kjölfarið verði sett markmið um hvernig við getum bætt okkur sem samfélag.

Ganga þarf lengra í flokkun á sorpi og gefa möguleika á m.a. því að taka á móti lífrænum úrgangi, en þannig má draga úr urðun og skapa í leiðinni verðmæti. Stórbæta þarf fræðslu og kynningu á ferlinu, ekki bara á flokkuninni sjálfri heldur líka hvað verður um úrganginn. Auka þarf hvata fyrir flokkun og skoða kosti þess að koma upp grenndarstöðvum til að mæta þörfum íbúanna. Sorphirðugjald vegna urðunar á sorpi hefur hækkað verulega og eru engar líkur að sú þróun snúist við. Við viljum með þessu sporna á móti þessum hækkunum og um leið auka sjálfbærni.

Löngu er tímabært að sveitarfélagið standist kröfur í fráveitumálum, en reglugerð um fráveitur og skólp tók gildi árið 1999. X-B leggur áherslu á heildarlausn í fráveitumálum sem þjónar öllum þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins. Útfærsla með sjó sem viðtaka er ein af fjórum leiðum sem lagðar eru til í mati á umhverfisáhrifum á hreinsun skólps, sem nú er í lögbundnu ferli. Að okkar mati virðist þetta hagkvæm heildarlausn, lífríki Ölfusár, fjörunnar, og okkur íbúum til góða.

Setjum X við B í komandi sveitarstjórnarkosningum og stígum saman inn í 21. öldina í umhverfismálum.

Guðbjörg Jónsóttir, frambjóðandi í 3. sæti Framsóknar og óháðra í Árborg.

Categories
Greinar

B-lista Framsóknarkonur skrifa

Deila grein

02/05/2018

B-lista Framsóknarkonur skrifa

Nú dregur að kosningum, Heiða er að hætta sem forseti sveitarstjórnar að loknum fjórum árum og Kata leiðir B-lista Framsóknar-og félagshyggjufólks næstu 4 árin. Okkur stöllurnar langar til að líta saman yfir sveitarfélagið okkar á þessum tímamótum.

Það er búið að vera mjög gaman að fylgjast með vexti Dalvíkurbyggðar síðustu árin og einmitt núna er mikil framsýni og áræðni í íbúum, frumkvöðlum og fyrirtækjum. Ný atvinnutækifæri hafa orðið til á Árskógssandi, Hauganesi og Dalvík. Bændurnir í sveitunum hafa hlúð að sínum fyrirtækjum og uppfært þau til nútímans svo eftir er tekið um land allt. Ferðaþjónusta blómstrar um allt sveitarfélagið í höndum drífandi einstaklinga. Búið er að úthluta lóðum til nýbygginga í iðnaði og þá hafa risið og eru að rísa ný íbúðarhús eftir langa bið.

Sveitarfélagið hefur undanfarin ár staðið í framkvæmdum og m.a. endurbótum við tónlistarskóla, leikskóla, leikhús og sundlaug, ljósleiðaravæðingu og stækkun á þjónustusvæði hitaveitu. Ráðist var í nauðsynlega uppbyggingu við Dalvíkurhöfn í kjölfar ákvörðunar Samherja um að byggja hér upp hátæknifrystihús, ákvörðun sem skiptir sköpum fyrir Dalvíkurbyggð. Nú er nýbúið að leggja fram ársreikning fyrir 2017 sem sýnir mjög góða afkomu og búið er að gera samning um uppbyggingu á íþróttasvæði við íþróttamiðstöðina.

Hinn jákvæði ríkjandi andi er ómetanlegur fyrir byggðarlagið okkar og smitar út frá sér út í þjóðfélagið. Fólk lítur á Dalvíkurbyggð sem vænlegan búsetuvalkost og eignir sem koma á sölu seljast oftast strax. Íbúum er farið að fjölga aftur eftir fækkun síðustu ára og það er afar jákvætt.

Dalvíkurbyggð er skemmtilega fjölbreytt sveitarfélag með ólíka búsetukosti og fjölbreytt atvinnulíf. Hér er mikill mannauður, drifkraftur og dugur. Að þessu öllu ber að hlúa. Takk fyrir góð ár og það er einlæg tilhlökkun að fylgja sveitarfélaginu okkar áfram til næstu framtíðar.

Gleðilegt sumar,
Katrín Sigurjónsdóttir, 1. sæti B-listans 2018 og
Heiða Hilmardóttir, fráfarandi sveitarstjórnarfulltrúi B-listans.

Categories
Fréttir

Íbúafundur í Reykjahverfi

Deila grein

01/05/2018

Íbúafundur í Reykjahverfi

Frambjóðendur boðuðu til opins fundar í Heiðarbæ, félagsheimilinu í Reykjahverfi í kvöld. Fundurinn var afar gagnlegu. Íbúar komu skoðunum sínum á framfæri, ræddu um hagsmuni alls samfélagsins og það sem stendur þeim næst. Sömuleiðis kynnti framboðið hugmyndir sínar, leiðir og lausnir.

Framboðslisti Framsóknarflokks og félagshyggjufólks í Norðurþingi

Categories
Fréttir

Íbúafundur í Reykjahverfi

Deila grein

01/05/2018

Íbúafundur í Reykjahverfi

Frambjóðendur boðuðu til opins fundar í Heiðarbæ, félagsheimilinu í Reykjahverfi í kvöld. Fundurinn var afar gagnlegu. Íbúar komu skoðunum sínum á framfæri, ræddu um hagsmuni alls samfélagsins og það sem stendur þeim næst. Sömuleiðis kynnti framboðið hugmyndir sínar, leiðir og lausnir.

Framboðslisti Framsóknarflokks og félagshyggjufólks í Norðurþingi