Categories
Fréttir

„Við erum með gott fjárlagafrumvarp“

Deila grein

23/11/2018

„Við erum með gott fjárlagafrumvarp“

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, mælti fyrir nefndaráliti meiri hlutans í annari umferð um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.
Willum Þór fór yfir að áhrif breytingartillagna, milli fyrstu og annarar umræðu, séu að nettóbreytingin á tekjuhlið sé hækkun tekna um 364,2 milljónir og nettóbreytingin á gjaldahlið til aukningar um 396,4 milljónir. Eftir sem áður er áætlað að afgangur verði 1% af vergri landsframleiðslu eins og lagt er upp með í fjármálastefnu og fjármálaáætlun.
Ríkissjóður hefur skilað afgangi á hverju ári frá og með árinu 2014 og einskiptis- og tímabundnar tekjur hafa verið nýttar til að greiða niður skuldir. „Á sex árum hefur tekist að lækka heildarskuldir ríkissjóðs úr 86% af vergri landsframleiðslu í 31% nú í árslok,“ sagði Willum Þór.

„Endurmat tekjuáætlunar frumvarpsins hefur tekið óverulegum breytingum frá uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 2. nóvember, tæpum 400 milljónum með frávikum í báðar áttir. Þar munar mest um lækkun virðisaukaskatts um 4 milljarða vegna minnkandi einkaneyslu og minnkandi eyðslu ferðamanna hérlendis sem hefur áhrif á hann. Á móti vegur 1,7 milljarða kr. hækkun tekjuskatts einstaklinga og 2,7 milljarða kr. tekjur af sölu losunarheimilda“, sagði Willum Þór.
Lagt er til að fjárheimildir aukist um 3,8 milljarða kr. vegna endurmats á launa-, gengis- og verðlagsforsendum frumvarpsins. Á móti vega endurmat og ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnar til lækkunar á ýmsum útgjaldaskuldbindingum sem leiða til 4,3 milljarða kr. lækkunar.
Willum Þór fór yfir að landsmenn verði að vera á vaktinni og að við þurfum að vanda okkur þegar kemur að efnahagsmálum og horfum í nýjustu efnahagsspá. „Það hefur hægst á í hagkerfinu en við erum með hagvöxt. Það er ánægjulegt að geta lagt til útgjaldaaukningu og innviðauppbyggingu á öllum málefnasviðum, til allt að því allra málefnaflokka, og standa við loforð um að fjárfesta í velferð, menntun, samgöngum og aðgerðum vegna loftslagsbreytinga og taka þátt í því verkefni jafn myndarlega og gert er. Þetta er ávísun á hagvöxt til framtíðar og uppbyggingu fyrir komandi kynslóðir“, sagði Willum Þór.
 

Categories
Greinar

Samgöngur til framtíðar

Deila grein

23/11/2018

Samgöngur til framtíðar

Það má sjá bætt vinnubrögð í nýrri samgönguáætlun því hér í fyrsta skipti er hún í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun frá Alþingi. Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Auka á aðgengi fólks að vörum og þjónustu og bæta hreyfanleika.

Meginstoðir
Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjóni íbúum og atvinnulífi sem best. Það er ánægjulegt að sjá þær meginstoðir sem samgönguáætlun byggir á en lögð er áhersla á þær stóru stofnbrautir sem eru út úr höfuðborginni og nú á líka að klára grunnnet vegakerfisins á Vestfjörðum.

Strax á næsta ári skal hefja framkvæmdir við 2+1 veg á Kjalarnesi. Það er verkefni sem kallað hefur verið eftir og er mjög brýnt þar sem núverandi vegur uppfyllir engan veginn öryggiskröfur eða stendur undir þeirri gríðarlegu umferðaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum. Grunnnet á Vestfjörðum er í forgangi og búið að tryggja fjármagn í uppbyggingu á vegum á Dynjandisheiði um leið og hönnun á vegstæðinu er lokið og sú leið hefur farið í gegnum umhverfismat. Einnig er búið að tryggja fjármagn í uppbyggingu á vegum í Gufudalssveit. Þá geta Vestfirðingar loksins sagt að þeir búi við eðlilegt samgöngukerfi að mestu.

Samvinnuleið í vegamálum
Nokkuð hefur verið talað um um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja þegar horft er í einkaframkvæmdir. Til að hraða samgönguframkvæmdum er unnið að útfærslu gjaldtökuleiða sem nýtist á ákveðnum mannvirkjum. Slík gjaldtaka á einstaka mannvirkjum býr til svigrúm í samgönguáætlun og hægt að ráðast fyrr í einstök verkefni en gert er ráð fyrir í áætluninni. Nú um mánaðamótin var hætt gjaldtöku við Hvalfjarðargöng en hún er dæmi um góða samvinnuleið í úrbótum á samgöngumálum. Í þessu sambandi gætum við nefnt jarðgöng og stórar framkvæmdir í kringum höfuðborgina eins og Sundabraut og tvöföldun Reykjanesbrautar.

Tengivegir og vetrarþjónusta
Um land allt býr fólk við malarvegi sem eiga að þjóna samgöngum til skóla og í vinnu dagsdaglega. Oft eru þetta vegir sem uppfylla ekki kröfur um burðarþol og alls ekki þeær öryggiskröfur sem nútíminn gerir til slíkra samgangna. Dæmi eru um að börn þurfi að heiman og heim að hristast á holóttum malarvegi langan veg í skóla. Það skiptir miklu máli að lögð verði áhersla á að leggja bundið slitlag á tengivegi. Í þessu sambandi vil ég nefna Vatnsnesveg í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar hefur umferð stóraukist á undanförnum árum, enda má finna á þeirri leið eina ferðamannaperlu okkar sem er Hvítserkur. Núverandi vegur hefur ekki staðið undir þeirri miklu umferð og getur því ekki talist til nútíma samgöngumannvirkja.

Í tillögu að nýrri samgönguáætlun er gert ráð fyrir að veita aukið fjármagn til að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi. Það er vonandi að hægt verði að leggja aukna áherslu á tengivegina og vetrarþjónustu með því að horfa á samvinnuleiðir í nýframkvæmdum á stórum framkvæmdum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. nóvember 2018.

Categories
Fréttir

Gott hús er gestum heill

Deila grein

22/11/2018

Gott hús er gestum heill

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur fengið samþykkt í ríkisstjórn tillögu um skipun starfshóps sem á að útfæra ákveðnar aðgerðir til að gera ungu og tekjulágu fólki kleift að kaupa sér íbúðarhúsnæði, sem gefist hafa vel hjá grannþjóðum.
Ákvörðunin er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem sérstaklega kveðið á um að ríkisstjórnin muni fara í aðgerðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn og endurskoða í því skyni stuðningskerfi hins opinbera þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verði skoðaðir möguleikar á því að nýta lífeyrissparnað til þessa.
Velferðarráðuneytið í samvinnu við Íbúðalánasjóð hefur um skeið unnið að kortlagningu ýmissa úrræða sem stjórnvöld í nágrannalöndum okkar bjóða tekjulágum á húsnæðismarkaði og hafa gefið góða raun. Þessi kortlagning hefur beint sjónum sérstaklega að tilteknum leiðum sem farnar hafa verið í Sviss og Noregi.
Ásmundur Einar segir tíma aðgerða að renna upp: „Nú er mikil greiningarvinna að baki og komið að því að stíga fyrstu skref til aðgerða. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að kalla fleiri að borðinu til að útfæra þær nánar og hrinda þeim í framkvæmd.“
Í Sviss er heimilt að nýta uppsafnaðan lífeyrissparnað til að afla eiginfjárframlags vegna íbúðakaupa. Ýmist er hægt að fá sparnaðinn fyrirframgreiddan eða veðsetja hann. Almennur lífeyrissparnaður má vera allt að 90% kaupverðs en viðbótarlífeyrissparnaður allt að 100%.
Husbanken, sem er systurstofnun Íbúðalánasjóðs í Noregi, býður upp á sérstakan húsnæðisstuðning, svokölluð startlán, til að aðstoða afmarkaðan hóp tekjulágra heimila við að kaupa eigin íbúð. Startlán eru íbúðalán með lægri vöxtum og lægri eiginfjárkröfu en tíðkast á markaði. Þau eru aðeins veitt þeim sem geta ekki aflað sér fjármögnunar fyrir íbúð með hefðbundnum hætti. Stærsti hópur lántaka eru fjölskyldur sem búa við slæma fjárhagslega stöðu en startlán hafa einnig verið veitt m.a. til fyrstu kaupenda, flóttafólks, fólks með fötlun og fólks sem býr við félagsleg vandamál.

Categories
Fréttir

Micro:bit-tölvan

Deila grein

22/11/2018

Micro:bit-tölvan

„Ég er mjög hlynnt þessu verkefni og mun skoða það enn frekar hvernig á því stendur að staðan á því er eins og hv. þingmaður lýsir. En það er fullur vilji hjá þessum ráðherra til að halda áfram með þetta verkefni“, sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
En fyrirspyrjandi, Björn Leví Gunnarsson, alþingismaður, telur að menntamálaráðuneytið ætli að hætta fjárveitingum til verkefnisins þar sem að tölvunni hafi ekki verið dreift núna í haust til allra nemenda í 6. og 7. bekk á Íslandi. Björn Leví benti á að micro:bit-tölvan væri lítil, handhæg og forritunarleg tölva fyrir unga sem aldna. „Þann 5. maí síðastliðinn var tilkynnt á vef Stjórnarráðsins að hópur nemenda í tölvunarfræði hefði lokið við að þýða forritunarritil tölvunnar yfir á íslensku. Þetta eða sambærilegt verkefni er gríðarlega mikilvægt fyrir vegferð íslenska menntakerfisins inn í 4. iðnbyltinguna. Þetta er fullkomið innlegg fyrir eflingu stafrænna smiðja, samanber tillögu sem samþykkt var í þinginu í vor“, sagði Björn Leví.
Lilja Dögg benti á að ríkisstjórnin leggi mikla áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun. „Við sjáum að framlög til þessara málaflokka hækka á milli ára um 16,3%. Verið er að setja gríðarlega metnaðarfulla stefnu af stað á vegum ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um að efla þennan málaflokk.“
„Varðandi þetta verkefni þá erum við bara mjög hlynnt því. Við viljum að það haldi áfram. Búið er að fjárfesta heilmikið í því og við munum sjá til þess að sú mikla fjárfesting sem við erum búin að setja í það verkefni geti haldið áfram. Við vitum að það er mikil ánægja með það í grunnskólanum og það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns, þetta er einföld tölva. Hún kennir forritun og hjálpar verulega til við það. Það er því ekki á stefnuskrá þessara ráðherra að hætta við þetta verkefni”, sagði Lilja Dögg.
***
Til upplýsingaMicro:bit tölvan

Categories
Greinar

Land er auðlind

Deila grein

22/11/2018

Land er auðlind

Undanfarið hefur talsverð umræða átt sér stað í samfélaginu um eignarhald á bújörðum. Margir hafa áhyggjur af því að Íslendingar séu með andvaraleysi að tapa eignarhaldi á auðlindum á landi. Í september birtist álit starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum. Þar voru settar fram átta tillögur að breytingum á jarðalögum og ábúðarlögum í því skyni að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Forsætisráðuneytið mun leiða áframhaldandi vinnu með tillögurnar, enda snúa sumar þeirra að fleiru en einu ráðuneyti.

Ég álít allt land vera auðlind, landið sjálft, jarðveginn og gróðurinn sem þar þrífst. Sumt land nýtist til matvælaframleiðslu, annað til útivistar og auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka á verðmæti þess, t.d. veiði og vatnsréttindi. Meðferð og notkun alls lands skiptir alla landsmenn máli, bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Þjóðlendur eru nú um 44% landsins, öðru landi er skipt upp í jarðir og þéttbýli. Bújarðir ná því yfir meira en 50% Íslands og eru um 7.000 talsins. Undanfarin ár hefur fólk sem ekki er búsett á Íslandi sóst í auknum mæli eftir eignarhaldi á jörðum. Við það færist eignarhald auðlinda úr landi, auk þess hafa vaknað spurningar um eignasöfnun á fárra hendur og ítrekað kemur upp vandi vegna óþekkts og óljóss fyrirsvars jarða.

Reglulega kemur upp umræða um mögulegar leiðir til að hafa áhrif á ráðstöfun lands en útfærslan hefur þvælst fyrir okkur. Ástæðuna tel ég m.a. vera að það vantar ákveðinn grunn. Annars vegar þarf að undirbyggja markmið landnýtingar í skipulagsáætlunum sveitarfélaga og hins vegar þarf að bæta skráningu á landi.

Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands. Ég tel mögulegt að festa í lög eða reglugerð skilyrði um að einstaklingar sem öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir landi skuli hafa lögheimili hér á landi eða hafa haft það áður í tiltekinn tíma. Ég tel að slíkar takmarkanir eigi ekki að vera bundnar við land í landbúnaðarnotum, heldur ná yfir allt land. Eignarhaldi og umsjón lands eiga að fylgja skýr ábyrgð og skyldur.

Stjórnvöld og almenningur hafa áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Þar er hægt að setja markmið um búsetu og sjálfbæra landnýtingu. Sveitarfélög geta skilgreint landbúnaðarland sem halda skal í ræktanlegu ástandi. Þau geta líka tilgreint jarðir þar sem heilsársbúseta telst æskileg og geta þar komið inn fleiri sjónarmið en nýting til landbúnaðar, svo sem styrking samfélaga, öryggissjónarmið, eftirlit lands, eftirlit minja og náttúruvernd.

Við þurfum að þekkja landið, skrá það og skipuleggja. Á þeim grunni getum við útfært eðlilegar takmarkanir og búið til hvata til búsetu, nýtingar og nýsköpunar, í strjálbýli.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Ólgan í pólitíkinni

Deila grein

21/11/2018

Ólgan í pólitíkinni

Það er ólga í bæjarpólitíkinni í Vestmannaeyjum þessa dagana. Það ætti engum að dyljast það sem á annað borð fylgist með umræðunni. Í henni eru stóru orðin sjaldnast spöruð og því er ekki nema von um að fólk spyrji mig hvort allt sé hreinlega að verða vitlaust.

Meiri- og minnihlutinn hafa vissulega tekist á, meira að segja nokkuð harkalega í hinum ýmsu málum, stórum og smáum. Og manni finnst stundum eins og smáum málum sé breytt í stórmál og að það sé fyrst og fremst gert til þess að vísvitandi skapa ókyrrð og öldurót í bæjarpólitíkinni. En í hverju gæti þessi ólga falist?

  • Ólgan getur falist í því að draga ítrekað í efa heiðarleika Helgu Jóhönnu Harðardóttir formanns fjölskylduráðs, eina heiðarlegustu og samviskusömustu manneskju sem ég hef hitt, í stað þess að umræðan snúist fyrst og fremst um það hvort breyta eigi aldursviðmiðum við úthlutun frístundastyrks til ungmenna.
  • Ólgan getur falist í því að vera tilbúin til þess að saka meirihlutann um ólýðræðisleg vinnubrögð og svik við kjósendur fyrir það eitt að vilja fara að lögum sem sjálfstæðismenn hafa brotið ár eftir ár, allar götur frá árinu 2012.
  • Ólgan getur falist í því að mæta á fund fræðsluráðs án þess að svo mikið sem kynna sér þau gögn sem lágu fyrir fundinum og vera tilbúin til þess, með sömu gömlu rökunum um einræðisleg vinnubrögð, að berjast gegn afnámi ósanngjarnrar vísitölutengingar leikskólagjalda sem orsakaði það að fjölskyldufólk í Vestmannaeyjum þurfti að borga hæstu leikskólagjöld á landinu.
  • Ólgan getur falist í því að koma því þannig fyrir að ekki færri en þrjá bæjarstjórnarfundi þurfti til þess að klára eins ópólitískt mál og hugsast getur; skipun almannavarnarnefndar.
  • Og það er hægt er að skapa ólgu með útúrsnúningum um að meirihlutanum ætli að fela kostnað við framkvæmdir, þrátt fyrir að vita það mæta vel að sérsamþykkt við fjárhagsáætlun þarf til að fara í kostnaðarsamar framkvæmdir á vegum bæjarins, og þær samþykktir eru ræddar bæði í bæjarráði og í bæjarstjórn áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Þegar stjórnmálaöfl boða svo til súpukennslustundar í ólgu og pólitískum óróleika er ekki nema eðlilegt að velta því fyrir sér hvort ástandið þurfi virkilega að vera með þeim hætti sem einkennt hefur kjörtímabilið hingað til. Fyrir mína parta er það alveg ljóst að fólk á að geta sameinast um að vinna að hag bæjarins og íbúa hans á sanngjarnan á heiðarlegan hátt. Úfin pólitísk alda og jafnvel brotsjór er ekki eðlilegt ástand.

Viljum við ekki róa í sameiningu um lygnari sjó?

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs í Vestmannaeyjum.

Greinin birtist fyrst á eyjarfrettir.is 19. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Til hamingju með alþjóðadag barna

Deila grein

20/11/2018

Til hamingju með alþjóðadag barna

Alþjóðadagur barna er haldinn hátíðlegur í dag, 20. nóvember og í tilefni þess er um allan heim vakin sérstök athygli á málefnum sem varða stöðu og réttindi barna. Þetta er mikilvægur dagur fyrir börn og okkur öll, ekki síst vegna þess að þennan dag fyrir 29 árum var Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur.

Alþingi Íslendinga samþykkti í tengslum við 25 ára afmæli Barnasáttmálans að helga 20. nóvember ár hvert fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Á alþjóðadegi barna minnum við því á þau mikilvægu réttindi sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir öllum börnum um allan heim og hve mikilvægt það er að þessi réttindi séu virt og að þeim sé jafnframt fagnað. Það er mikilvægt fyrir samfélagið allt að börn njóti verndar og réttinda á öllum tímum og öllum stöðum, á heimilum sínum, í skólanum og hvar annars staðar í samfélaginu, þannig að þau geti lifað, vaxið, lært og náð að blómstra á eigin forsendum.  Þetta eru ekki bara falleg orð heldur fjárfesting til framtíðar, því hamingja og velgengni barna er fjárfesting í næstu kynslóð. Við eigum að vera meðvituð um þetta og hafa metnað til að gera sífellt betur til að byggja upp betra samfélag og betri heim fyrir börn.

Hér á Íslandi tökum við þessi mál alvarlega og því er þegar hafin endurskoðun á þjónustu við börn og á réttindum barna, þvert á ráðuneyti með aðkomu allra hlutaðeigandi ráðherra og helstu sérfræðinga, þvert á pólitík með samvinnu allra flokka á þingi og þvert á kerfi og fagþekkingu. Allt er þetta skipulagt á þeim grundvelli að við viljum setja börnin í fyrsta sæti og fjárfesta í þeim og framtíð þeirra. Þarfir barna eru mismunandi, almennar og sértækar og það er til margs að líta. Verkefnið er sannarlega umfangsmikið en sú samvinna, samstaða og ástríða fyrir því að gera vel sem einkennir vinnu og samskipti í málaflokknum í tengslum við þessi áform fyllir mig eldmóði og bjartsýni um að raunverulegar breytingar í þágu barna verði að veruleika á næstu árum.

Til marks um mikilvægi þessa og skýran vilja stjórnvalda um að auka áherslu á málefni barna og ungmenna, verður samkvæmt þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir á Alþingi gerð breyting á embættistitli mínum. Frá 1. janúar 2019, sem er þrjátíu ára afmælisár Barnasáttmálans, verður titill minn félags- og barnamálaráðherra. Nýtt ráðuneyti félagmála mun leiða endurskoðun á þjónustu við börn, móta stefnu Íslands til framtíðar og markmið í málefnum barna, tryggja að börn séu í forgangi í allri stefnumótun og tengja betur saman stefnu í málefnum barna og stefnu í efnahagsmálum. Aukið samstarf allra aðila er lykilþáttur við heildarendurskoðun núverandi kerfis, þjónustunnar og úrræða fyrir börn. Þegar rætt er um samstarf og samvinnu í málefnum barna megum við ekki gleyma okkar dýrmætustu ráðgjöfum; börnunum sjálfum.  Barnasáttmálinn kveður skýrt á um að börn skuli ávallt fá að tjá sig um mál sem þau varðar. Við viljum í þessari vinnu að gefa börnum tækifæri til að tjá skoðanir sínar og tala fyrir réttindum sínum og annarra barna heima hjá sér, í skólanum og úti í samfélaginu.

Það er spennandi ferðalag framundan sem við öll þurfum að taka þátt í. Verkefni sem nær yfir öll kerfi og alla pólitík. Verkefni sem, ef vel tekst til, verður besta fjárfesting sem við sem samfélag höfum gert.

Til hamingju með daginn öll börn í nútíð og framtíð, til hamingju allir landsmenn.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2018.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun haustfundar miðstjórnar Framsóknarflokksins

Deila grein

19/11/2018

Stjórnmálaályktun haustfundar miðstjórnar Framsóknarflokksins

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins, haldinn að Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit dagana 17.-18. nóvember 2018, hvetur ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs áfram til góðra verka en leggur áherslu á nauðsyn þess að halda áfram öflugri uppbyggingu innviða, atvinnutækifæra og lyfta grettistaki í húsnæðismálum.

Þjóðarátak í húsnæðismálum

Lyfta þarf grettistaki í húsnæðismálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að auka framboð af íbúðarhúsnæði á landinu öllu á viðráðanlegu verði. Það er óviðunandi hversu hægt sum sveitarfélög, með Reykjavík í broddi fylkingar, hafa dregið lappirnar í lóðaúthlutunum og ýtt þannig undir miklar og óraunhæfar verðhækkanir á húsnæði. Sérstaklega þarf að huga að stöðu fyrstu kaupenda og þeirra sem koma að nýju inn á húsnæðismarkaðinn og Skorar miðstjórn Framsóknarflokksins á ríkisstjórnina alla að vinna svissnesku leiðinni brautargengi á kjörtímabilinu enda eru húsnæðismál velferðarmál.

Menntamál eru efnahagsmál

Ríkisstjórnin á að halda áfram sókn sem er hafin í menntamálum landsins. Menntastefna og atvinnustefna verða að haldast í hendur enda getur skortur á vinnuafli í ýmsum fagstéttum haft neikvæð áhrif á verðlagsþróun og hagvöxt í landinu. Í því samhengi er þarf að halda áfram að efla sérstaklega verk-, iðn-, og starfsnám á landinu öllu og auka nýliðun í kennarastétt. Mennta- og námslánakerfið á að tryggja jöfn tækifæri fólks til að auka færni sína og þekkingu. Klára þarf heildarendurskoðun námslánakerfisins á kjörtímabilinu með það að markmiði að skapa jákvæða hvata fyrir námsmenn til náms og vinnu. Huga þarf að vellíðan nemenda á öllum skólastigum og tryggja greiðan aðgang þeirra að nauðsynlegri sérfræðiþjónustu.

Afnám verðtryggingarinnar

Miðstjórn Framsóknarflokksins telur afar brýnt að húsnæðisliðurinn verði tekinn  úr vísitölu neysluverðs og að verðtryggingin verði bönnuð  af nýjum neytendalánum á kjörtímabilinu. Miðstjórn telur að kostnaður við eigið húsnæði sem reiknast til neysluverðsvísitölu sé  fremur fjárfesting  en neysla og í því ljósi skal húsnæðisliðurinn undanþeginn. Breytingunni er ætlað að vera til hagsbóta fyrir þorra lánþega. Framsóknarflokkurinn vill enn fremur að skapa hvata og stuðning til þess að heimili geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.

Þriðji orkupakkinn

Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.

Matvæli

Miðstjórn Framsóknarflokksins vill herða löggjöf á innfluttum matvælum til að verja lýðheilsu gegn matvælum sem geta haft skaðleg áhrif á lífríkið hér á landi auk þess að kolefnisspor þess er stórt. Ísland stendur öðrum þjóðum framar hvað varðar framleiðslu á heilnæmum matvælum, þar sem lyfjanotkun er með því allra minnsta sem þekkist í heiminum. Aðrar kröfur um aðbúnað dýra og heilbrigði matvæla eru með þeim metnaðarfyllstu sem um getur.  Ísland býr við þá sérstöðu umfram önnur lönd að auðveldara er að verjast sjúkdómum, forðast sýklalyfjaónæmi og draga úr útbreiðslu slíkra baktería vegna þess við erum eyja með hreina búfjárstofna. Miðstjórn krefst þess að stjórnvöld taki það upp við Evrópusambandið að núgildandi reglur um innflutning á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og ógerilsneyddum eggjum fái að gilda áfram.

Landbúnaður

Miðstjórn Framsóknarflokksins skorar á Alþingi að samþykkja frumvarp sem stuðlar að eflingu afurðastöðva í kjötiðnaði. Veita þarf innlendum kjötiðnaði tækifæri til samvinnu og bregðast við ört vaxandi samkeppni með því að undanþiggja afurðastöðvar frá ákvæðum samkeppnislaga. Uppgræðsla á landi og skógrækt eru verðmæt verkefni fyrir bændur til kolefnisjöfnunar og sem styður við metnaðarfullt loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Þá áréttar fundurinn mikilvægi þess að stjórnsýsla í kringum landbúnaðinn verði efld nú þegar til að halda á hans málum innan ríkisstjórnarinnar meðal annars með nýju matvælaráðuneyti.

Samgöngumál

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fagnar þeirri miklu aukningu á fjármunum sem nú er varið til vegamála, bæði þegar kemur að nýfjárfestingum og viðhaldi. Þá fagnar Framsókn markmiðum ríkisstjórnarinnar um að draga úr loftmengun með því að auka rafvæðingu og orkuskipti í samgöngum. Hlutfall umhverfisvænna bifreiða fer ört vaxandi, nú þegar eru nýskráningar í okt 26% sem er jákvætt og í ljósi þess er nauðsynlegt að útfæra nýjar fjármögnunarleiðir sem renna til vegakerfisins. Miðstjórn Framsóknarflokksins styður tekjuleiðir sem endurspegla afnot af þjóðvegakerfinu og sanngjarnt flýtigjald til að hraða stærri framkvæmdum.
Framsókn leggur áherslu á uppbyggingu millilandaflugs á landsbyggðinni.
Fundurinn leggur áherslu á að gerð eigendastefnu fyrir Isavia verði lokið sem fyrst með stækkandi atvinnugrein og hag þjóðarinnar í huga. Slík stefna þarf að liggja fyrir áður en ráðist er í skuldbindingar vegna stórframkvæmda.

Kjaramál

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins leggur áherslu á að jafna kjör í komandi kjarasamningum og að undið verði ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins. Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri og samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um stefnu í húsnæðismálum, launaþróun, atvinnuleysistrygginga, stefnu í menntamálum, samspil launa, bóta og skatta er lykillinn að farsælli lausn fyrir allt samfélagið.

Efling nýsköpunar og rannsóknar

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fagnar því að lagt hefur verið fram stjórnarfrumvarp um hækkun á þaki á endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði úr 300 m. í 600m.kr. auk þess sem skattaafsláttur til handa einstaklingum sem fjárfesta í nýsköpunarfélögum er framlengdur. Hér er um mikilvægt skref að ræða til að efla nýsköpun fyrir Ísland. Miðstjórn Framsoknar fagnar einnig þingsályktunartillogu þingflokksins um mótun klasastefnu fyrir Ísland. Miðstjórnarfundur flokksins skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir að auka hvata til nýsköpunar enn frekar með því að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna rannsóknar og þróunarkostnað og með því að stofna sérstakan mótframlagssjóð ríkisins sem myndi fjárfesta með viðurkenndum fjárfestum í nýsköpunarfyrirtækjum.

Áframhaldandi uppbygging fiskeldis

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein og mun skapa okkur miklar útflutningstekjur.
Samhliða þeirri uppbyggingu þarf að tryggja verndun villta laxstofnsins við Ísland, þess vegna er fiskeldi á afmörkuðum svæðum.
Mikil verðmæti eru fólgin í því að byggja upp fiskeldið og Framsóknarflokkurinn sem byggðastefnuflokkur mun styðja við þá uppbyggingu sem snýr að fiskeldi því að þau svæði sem hafa verið í uppbyggingu í greininni þurfa að hafa möguleika á að blómstra. Áfram þarf að vinna að mótvægisaðgerðum sem tryggja verndun alls lífríkis og lágmarka hættu á erfðablöndun við íslenska laxastofninn.
Framsóknarflokkurinn er umhverfissinnaður flokkur. Því er mikilvægt  að finna jafnvægi á milli þessara hagsmuna, þeirra sem vilja vernda og nýta. Eitt útilokar ekki annað og alli hagsmunaaðilar eiga að geta blómstrað á Íslandi. Framsóknarflokkurinn mun hér eftir sem hingað til standa með þeim byggðum sem eiga undir högg að sækja.

Réttlæti handa heimilunum

Miðstjórn Framsóknarflokksins ítrekar ályktun sem samþykkt var á flokksþinginu í mars 2018 um að skipuð verði rannsóknarnefnd um þær aðgerðir sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki réðust í eftir hrunið.
Það getur hvorki talist eðlilegt né ásættanlegt að um 10.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín á nauðungaruppboðum eftir hrun og þegar fjöldinn er slíkur er ekki hægt að líta svo á að um „einkamál“ sé að ræða, heldur djúpstæðan kerfislægan galla sem verður að finna, skoða og leiðrétta.
Framsóknarflokkurinn mun ekki standa aðgerðarlaus hjá á meðan fleiri fjölskyldur missa heimili sín. Lög um nauðungaruppboð og aðfarir eru hliðholl fjármálafyrirtækjum og þau þarf að endurskoða. Jafnframt er kominn tími til að heimilin njóti vafans sem sannanlega er fyrir hendi í viðskiptum þeirra við fjármálafyrirtæki.

Upprunavottorð raforku

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins vill að leita verði leiðað til að sölu upprunavottana raforku úr landi verði hætt og að orkufyrirtækin verði hvött til að láta af þeirri stefnu. Það er mikilvægt skref í rétta átt í sívaxandi umræðu um kolefnislosun.

Categories
Greinar

Allt land er auðlind og þarf að vera í eigu landsmanna

Deila grein

19/11/2018

Allt land er auðlind og þarf að vera í eigu landsmanna

Allt land er auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Sumt land nýtist til matvælaframleiðslu, annað til útivistar og auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka verðmæti þess t.d. veiði og vatnsréttindi.

Meðferð og notkun alls landsins skiptir alla landsmenn máli bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands, því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og hverri annarri fastegin.

Eignarhald, ráðstöfunarréttur og ábyrgð á landi þarf að vera í höndum landsmanna. Stjórnvöld og almenningur geta haft áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir þar sem sveitarfélög geta sett landnýtingu mismunandi skorður eftir náttúrufari, eðli ræktunar og manngerðs umhverfis.

Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands.  Án tafar þarf ríkisvaldið að setja skilyrði um að sá sem vill eignast land eða jörð hafi búsetu á Íslandi eða hafi áður haft hér fasta búsetu í a.m.k. 5 ár.  Þessa reglu þarf að aðlaga EES samningnum á málefnalegan hátt og það er einfalt að gera.

Einnig þarf að fylgja eftir áliti starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum frá því í september 2018,  um aðrar mögulegar breytingar á jarðalögum og ábúðarlögum til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins.  Þessum tillögum voru gerð ítarleg skil í Bændablaðinu þann 1. nóvember s.l. og þegar hefur verið boðað að forsætisráðuneytið mun leiða áframhaldandi vinnu með tillögurnar.

Sveitarfélög geta notað skipulagsáætlanir betur en nú er gert  til að setja kvaðir um landnýtingu.  Sveitarfélög geta skilgreint landbúnaðarland sem halda skal í ræktanlegu ástandi í skipulagi.   Einnig væri athugandi að skilgreina í skipulagi,  jarðir þar sem heilsársbúseta er æskileg og geta þar komið inn fleiri sjónarmið en nýting til landbúnaðar,  s.s. öryggissjónarmið, eftirlit lands og náttúruvernd.  Í Landsskipulagsstefnu er nú þegar gert ráð fyrir að sett verði  fram leiðarljós um landnotkun í dreifbýli til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga.

Þá geta stjórnvöld beitt skattlagningu til að hafa áhrif á nýtingu fasteigna eins og jarða og húsa sem á þeim standa. Þannig mætti beita fasteignaskatti sem hvata til nýtingar eigna í strjálbýli með því að leggja hærri skatt á eignir sem ekki eru í notkun.

Bætt skráning landeigna er forsenda þess að hægt verði að beita stjórntækjum markvisst við ráðstöfun lands. Til þess þarf að byggja upp miðlæga landeignaskrár sem inniheldur hnitsetta afmörkun allra landeigna; þjóðlenda, jarða og lóða.

Tæknin fyrir Landeignaskrá er til staðar,  aðeins þarf að setja reglur um skráningu og ganga skipulega til verks.  Landeignaskrá Íslands yrði gunnur að skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu á auðlindum jarðar með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2018.

Categories
Greinar

Efling afurðastöðva í kjötiðnaði.

Deila grein

15/11/2018

Efling afurðastöðva í kjötiðnaði.

Nú liggur frammi frumvarp á Alþingi um breytingar á búvörulögum sem undirrituð er fyrsti flutningsmaður að. Frumvarpið felur í sér breytingar á þann hátt að  þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Það gæti m.a. falist ísamvinnu um flutning sláturgripa, dreifingu afurða og sölu á erlendamarkaði.

Eins og segir í greinagerð með frumvarpinu  er þetta gert í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga. Þá er allt kjöt undir. Með frumvarpinu er tilgangurinn er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðarstöðvar í kjötiðnaði hafa nú takmarkaða möguleika til samstarfs og sameiningar þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda. Þá dregur það úr tækifærum til sóknar á erlenda markaði. Frumvarpinu er líka ætlað að bregðast við auknum innflutningi á landbúnaðarafurðum, en í dag eru um 20% af heildarneyslu innflutt kjöt. Litlar afurðastöðvar um landið hafa ekki einar og sér burði til að keppa á þessum markaði. Veruleikinn er að íslenskur landbúnaðar á nú þegar í alþjóðlegri samkeppni.

Hagur neytenda og bænda

Vandi sauðfjárbænda hefur mikið verið í umræðunni og var á sett á stað nefnd til að skoða hvaða úrræði væru í sjónmáli til að laga stöðu sauðfjárbænda. Í þeim viðræðum hefur verið nefnt að það þurfi að fara ofan í rekstrarumhverfi afurðastöðva. Í landinu eru níu afurðustöðvar sem hafa leyfi til að sinna sauðfjárslátrun. Þessar afurðastöðvar eru í eigu bænda að mestu leiti og því má segja að það sé alltaf hagur bænda að það sé grundvöllur til að hagræða í rekstri.  Verði frumvarpið samþykkt verður afurðastöðvum gert kleift að vinna saman og eða sameinast til að vinna t.d. að markaðstarfi erlendis eða hagræða í rekstri, það ætti að skila lægra verði til neytenda og hærri verði til bænda.

Í skýrslu KPMG um úttekt á afurðastöðvum er m.a. sagt að margt bendi til þess að fjöldi sláturhúsa sé of mikill og þeim þurfi að fækka til að auka hagræði í greininni. Þar segir líka að fækkun afurðastöðva gæti aukið arðsemi, sláturhúsin sem eftir verða hefðu svigrúm til að sjálfvirknivæðingar til að bregðast við erfileikum við að manna afurðastöðvarnar yfir háannatímann.

Hagsmunir bænda og neytenda fara saman og því er það sameiginlegt baráttumál að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 15. nóvember 2018.