Categories
Forsíðuborði Fréttir

Ferð þú í framboð?

Deila grein

21/01/2018

Ferð þú í framboð?

Kjörstjórn Kjördæmasambands Framsóknar í Reykjavík óskar eftir framboðum á lista flokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Aukakjördæmaþing KFR samþykkir framboðslista í Reykjavík föstudaginn 22. febrúar 2018.

  • Framboðum skal skila á netfangið frambod-reykjavik@framsokn.is eigi síðar en miðvikudaginn 31. janúar 2018, kl. 12:00.
  • Áhugasamir þurfa að eiga lögheimili í Reykjavík þremur vikum fyrir kosningar.

Hægt er að hafa samband við formann kjörstjórnar með því að senda tölvupóst á stefanbjo@solidclouds.com eða
með því að hringja í síma 696-9639.
Kjörstjórn KFR.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Efling iðnnáms

Deila grein

13/01/2018

Efling iðnnáms

Tæknibyltingin er í senn mikið tækifæri fyrir samfélög en um leið áskorun. Þess er krafist af okkur að við tileinkum okkur ákveðna færni til að leysa vandamál á nýjan hátt og með skilvirkari leiðum en við þekkjum fyrir. Þess vegna er brýnt að menntakerfið okkar sé í fremstu röð til að geta sýnt þá framsýni sem nauðsynlegt er til að styrkja samkeppnishæfni þjóðarinnar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að efla eigi iðn-, verk- og starfsnám í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags og til að takast á við þær breytingar sem eru fram undan á vinnumarkaðnum. Stefna hefur verið mörkuð í þessum tilgangi og má skipta henni upp í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi er horft til uppbyggingar náms og hvernig megi efla það. Í öðru lagi á að styrkja allt utanumhald með verk- og starfsþjálfun. Í þriðja lagi á að bæta og einfalda aðgengi nemenda að verk- og starfsnámi.

Rafræn ferilbók er mikilvægur liður í því að einfalda utanumhald og auka gæði í verk- og starfsþjálfun. Rafræn ferilbók er hugbúnaður sem leysir af hólmi ferilbækur í pappírsformi. Ávinningurinn af því að innleiða rafræna ferilbók er mikill. Fyrir nemendur, þá mun hún auka fjölbreytni náms og námsmats í starfsþjálfun. Ferilbókin á að tryggja að nemandinn fái þjálfun í þeim verkþáttum sem hæfnikröfur gera ráð fyrir. Að auki mun þetta styrkja réttindi starfsnámsnemenda, þar sem ætlunin er að nemasamningar verði vistaðir í ferilbókinni. Fyrir atvinnulífið, er ábatinn sá að samskiptin við skólakerfið verða skilvirkari og einfaldari. Þetta mun auka gæði námsins, þar sem nemandinn fær viðeigandi þjálfun í öllum hæfniþáttum. Útkoman verður öflugra nám, sem styrkir atvinnulífið og fjölgar iðnmenntuðum í landinu.

Til að innleiðing rafrænnar ferilbókar takist sem best þarf að koma til samstillt átak atvinnulífs, ráðuneytis og skóla. Þessi aðgerð endurspeglar tækniþróun og nýsköpun hjá hinu opinbera. Það er ánægjulegt að veita þessu máli brautargengi, þar sem þetta er í samræmi við það markmið stjórnvalda að efla iðnnám í landinu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. janúar 2018.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Elsa Lára nýr skrifstofustjóri þingflokks

Deila grein

12/01/2018

Elsa Lára nýr skrifstofustjóri þingflokks

Elsa Lára Arnardóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarmanna.
Hún starfaði sem þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 2013-2017 en gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu, við síðustu Alþingiskosningar. Sem þingmaður sat hún í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, var varaformaður velferðarnefndar, sat í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Auk þessa var hún formaður Íslandsdeildar þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.
Elsa Lára er menntaður grunnskólakennari en hefur jafnframt stundað nám í Forystu og stjórnun í háskólanum á Bifröst.
Elsa Lára mun hefja störf á næstu dögum og við bjóðum hana velkomna til starfa.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

35. FLOKKSÞING FRAMSÓKNARMANNA

Deila grein

08/01/2018

35. FLOKKSÞING FRAMSÓKNARMANNA

35. FLOKKSÞING FRAMSÓKNARMANNA verður haldið dagana 9.-11. mars 2018 í Gullhömrum í Reykjavík.

Framsóknarflokkurinn heldur reglulegt flokksþing sem haustfundur miðstjórnar boðar til, eigi sjaldnar en annað hvert ár og skal það að jafnaði haldið fyrri hluta árs.
FLOKKSÞING FRAMSÓKNARMANNA ákveður meginstefnu flokksins í landsmálum, setur flokknum lög og hefur æðsta vald í málefnum hans. Á flokksþingi skal kjósa formann Framsóknarflokksins og skal hann jafnframt vera formaður miðstjórnar flokksins. Þá skal á flokksþingi kjósa varaformann, ritara og tvo skoðunarmenn reikninga. Einnig skal kjósa tvo meðstjórnendur í laganefnd og tvo til vara. Ennfremur skal kjósa tvo meðstjórnendur siðanefndar og tvo til vara.
Hvert flokksfélag hefur rétt til að senda einn fulltrúa með atkvæðisrétt á flokksþing fyrir hverja 15 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala skal miðast við félagatal eins og það liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir flokksþing, þó að teknu tilliti til gr. 2.4. Um fyrirkomulag kosninga fulltrúa fer eftir lögum einstakra aðildarfélaga. Aðildarfélög skulu tilkynna val sitt á fulltrúum á flokksþing til skrifstofu flokksins eigi síðar en viku áður en flokksþing er sett. Allir félagsmenn í flokknum hafa rétt til að sækja flokksþing og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
Miðstjórnarmenn eiga sæti á flokksþingi með atkvæðisrétti.
Mikilvægar dagsetningar:
7. febrúar – viðmiðunardagur fulltrúatölu á flokksþingi
22. febrúar – skil á tillögum til lagabreytinga til skrifstofu
2. mars – skil á kjörbréfum til skrifstofu
Categories
Forsíðuborði Greinar

Menntun í öndvegi

Deila grein

06/01/2018

Menntun í öndvegi

Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og leggur grunninn að áframhaldandi velsæld þjóðarinnar. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er boðað til stórsóknar í menntamálum þar sem skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Í fjárlögum þessa árs má sjá skýr merki þess að sóknin sé hafin og munu nemendur og starfsfólk skólanna verða vör við á komandi misserum.

Yfir 4 milljarða hækkun milli ára
Fjárveitingar til framhalds- og háskólastigsins hækka um tæpa 4,2 milljarða króna miðað við fjárlög 2017 eða um 5,8%. Það er veruleg og kærkomin innspýting í báða málaflokka. Aukin framlög til menntamála bæta samkeppnishæfni þjóðarinnar til lengri tíma litið og styðja við uppbyggingu fjölbreyttara hagkerfis. Ísland er auðlindadrifið hagkerfi og því er mikilvægt að renna fleiri stoðum undir það, stoðum sem byggjast á hugviti og nýsköpun. Nýsköpun á sér stað í öllum atvinnugreinum og er drifin áfram af færni, þekkingu og getu til þess að þróa nýjar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd. Skólakerfið þarf að taka mið af þessu og undirbúa nemendur fyrir að leysa flókin viðfangsefni. Þannig gerum við Ísland að gildandi þátttakanda í þeirri tækniþróun sem á sér stað um heim allan og hefur áhrif á daglegt líf fólks.

Tökum á brotthvarfi
Um 18.000 nemendur stunda nám við rúmlega 30 framhaldsskóla um land allt. Ríkisstjórnin vill tryggja framhaldsskólum frelsi og fjármagn til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaga. Framlög til þessara stofnana hækka um 1.290 milljónir króna miðað við fjárlög 2017, eða 4,4%. Okkur er full alvara með því að efla framhaldsskólastigið og með auknum fjárveitingum er lögð meiri áhersla á að ná markmiðum um fjármögnun framhaldsskólastigins og takast á við þær áskoranir sem helst er við að etja eins og brotthvarf úr námi. Þannig rennur aukningin að stórum hluta í að auka þjónustu við nemendur sem búa yfir lítilli hæfni í íslensku og stærðfræði við lok grunnskóla og til þess að hækka hlutfall þeirra sem ljúka námi til stúdentsprófs á tilsettum tíma í 60% á árinu 2018. Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er þegar hafin vinna við kortlagningu framhaldsskólakerfisins og ítarlega greiningu á stöðu og þróun framhaldsskólanna. Þá verður unnin aðgerðaráætlun til að sporna enn frekar gegn brotthvarfi.

Öflugra háskólastig
Hver króna sem sett er í háskólastigið skilar sér áttfalt til baka. Því leggur ríkisstjórnin mikla áherslu á að efla háskólastigið og að fjármögnun þess nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og Norðurlandanna árið 2025 í samræmi við áætlanir vísinda- og tækniráðs. Mikilvægt skref í þessa átt er stigið í fjárlögum ársins 2018 þar sem framlög til háskólastigsins eru aukin um tæpa 2,9 milljarða eða 6,9% miðað við fjárlög 2017. Með þessari hækkun er ætlunin að efla bæði kennslu og rannsóknir svo bæta megi þjónustu við nemendur og styrkja alþjóðlegt samstarf. Ég get glöð tekið undir það sem kom fram í bókun háskólaráðs Háskóla Íslands um að hér sé stigið áþreifanlegt skref í átt að sambærilegri fjármögnun Háskóla Íslands og háskóla annars staðar á Norðurlöndum. Þannig er stuðlað að því að háskólar á Íslandi standi jafnfætis nágrannaríkjunum að gæðum háskólamenntunar og rannsókna. Framlög til rannsókna eru einmitt aukin með 136 m.kr hækkun til rannsóknarstofnanna á háskólastigi eða 11,8%, með 390 m.kr aukningu í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands en það jafngildir tæplega 56% hækkun. Markmið með þeim sjóði er að efla rannsóknir og nýsköpun sem munu efla atvinnulífið og auka verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið.

Listaháskólinn kominn á dagskrá
Liður í því að styðja við hugverkadrifið og skapandi hagkerfi er að hlúa að listum og öðrum skapandi greinum. Listaháskóli Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í að varða þá leið og mennta nemendur í listskapandi greinum. Á þessu ári munu framlög til skólans hækka um tæpar 73 m.kr eða 6,7%. Er hækkuninni m.a. ætlað að efla rannsóknarstarf við skólann og koma til móts við bráðavanda skólans í húsnæðismálum. Að auki verður 30 m.kr varið til þarfagreiningar og hönnunarsamkeppni um nýtt hús fyrir Listaháskólann. Í dag er skólinn í fimm mismunandi byggingum í borginni og er ástand þeirra misgott. Það er því ánægjulegt en ekki síður mikilvægt að unnið sé að varanlegri lausn sem mun efla skólann til framtíðar.

Stórsókn í menntamálum
Ríkisstjórnin hefur hafið stórsókn í menntamálum líkt og ofangreind yfirferð sýnir svart á hvítu. Á yfirstandandi kjörtímabili verða fleiri skref stigin til þess að efla menntun í landinu. Þessi vinna mun skila sér í öflugra samfélagi og betri lífskjörum fyrir þjóðina. Ég hlakka því til að leiða þá vinnu í samstarfi við hagsmunaaðila menntakerfisins. Tækifærin eru fjölmörg, það er okkar að nýta þau.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. janúar 2017.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Menntun, menning og vísindi í kjölfar Brexit

Deila grein

03/01/2018

Menntun, menning og vísindi í kjölfar Brexit

Breska þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári að ganga úr Evrópusambandinu og því mun framtíðarskipulag Evrópu taka breytingum. Til að tryggja vandaðan undirbúning af hálfu íslenskra stjórnvalda fyrir viðræður um framtíðarsamskipti Íslands og Bretlands skipaði utanríkisráðherra fimm vinnuhópa um Brexit sl. sumar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið tekur þátt í þremur þessara vinnuhópa. Hér verður farið yfir nokkur af þeim brýnu málum eins og gagnkvæma viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, samstarfsáætlanir á sviði mennta- og menningarmála og vísinda ásamt hugverka- og höfundaréttindum.

EES-samningurinn tryggir gagnkvæma viðurkenningu á menntun og hæfi á sameiginlega vinnumarkaðnum. Einstaklingi sem hefur aflað sér faglegrar menntunar og hæfis til starfs í einu af aðildarríkjum EES-samningsins er heimilt að starfa hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins með sömu réttindum og skyldum og heimamenn. Við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verða bresk stjórnvöld ekki skuldbundin til að viðurkenna menntun sem aflað er á Íslandi til að gegna þeim lögvernduðu störfum. Á sama hátt verður íslenskum stjórnvöldum ekki skylt að viðurkenna menntun sem aflað hefur verið í Bretlandi. Eitt meginmarkið íslenskra stjórnvalda er að tryggja að áfram verði hægt að viðhalda skilvirkni núverandi viðurkenningarkerfis og komast að gagnkvæmu samkomulagi.

Bókun 31 við EES-samninginn um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins gerir Íslandi kleift að taka þátt í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á sviði mennta-, menningar- og vísindamála. Þátttakan hefur skilað miklu fyrir bæði einstaklinga og mennta-, menningar- og vísindakerfið í landinu. Hinn 8. desember sl. náðist samkomulag um þátttöku Breta í samstarfsáætlunum ESB á sviði mennta-, menningar- og vísindamála til ársins 2020. Íslensk stjórnvöld telja að mikill ávinningur hafi náðst í þessu samstarfi og leggja ríka áherslu á að svo verði áfram í framtíðinni.

EES-samningurinn hefur að geyma reglur um hugverkaréttindi og óskráð réttindi á borð við höfundarétt. EES-samningurinn felur í sumum tilfellum í sér aukna vernd hugverka- og höfundaréttinda umfram alþjóðasamninga á því sviði og á öðrum sviðum auðveldar samningurinn skráningu og skilvirka vernd slíkra réttinda á Evrópska efnahagssvæðinu. Íslenskir höfundar njóta þannig aukinnar verndar á verkum sínum umfram það sem gengur og gerist í ýmsum alþjóðlegum samningum. Brýnt er að tryggja hagsmuni þessu tengda í framtíðinni. Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að sinna hagsmunagæslu vegna Brexit og fylgjast náið með framvindu úrsagnarferlisins. Það er mikilvægt að viðhalda góðum og nánum samskiptum við Breta, sem eru okkar helsta viðskiptaþjóð, og efla þau til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 3. janúar 2018

Categories
Forsíðuborði Greinar

Íþróttir skipa mikilvægan sess í íslensku þjóðlífi

Deila grein

03/01/2018

Íþróttir skipa mikilvægan sess í íslensku þjóðlífi

Allt frá upphafi byggðar á Íslandi hefur íþróttaiðkun fylgt þjóðinni og verið mikilvæg bæði fyrir sýn Íslendinga á heilbrigði og hreysti en ekki síður gefið þjóðinni gleðistundir þegar att hefur verið kappi við aðrar þjóðir í hinum ýmsu greinum íþrótta.

Sterk umgjörð íþróttastarfs skilar árangri
Umgjörð íþróttastarfs á Íslandi þróaðist að mestu frá miðri 19. öld og fram að miðja 20. öldina. Stofnun íþrótta- og ungmennafélaga í byrjun 20. aldar leiddi fljótlega til stofnunar heildarsamtaka Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) árið 1907 og síðan Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) árið 1912. Íþrótta- og ungmennafélögin höfðu mikil áhrif á útbreiðslu og fjölda íþróttagreina á hér á landi. Það er merkilegt að elstu íþróttafélög landsins hafa starfað lengur en stjórnmálaflokkarnir og hefur grunnskipulag í kringum þau verið að mestu óbreytt og starfsemin gegnir nú sem fyrr mikilvægu og fjölbreyttu samfélagslegu hlutverki. Vissulega hefur orðið breyting á hvernig horft er á þetta hlutverk og má segja að í dag sé hlutverk íþrótta margþættara en áður. Hinir fjölmörgu sjálfboðaliðar sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar eiga mikið lof skilið fyrir framlagi sitt í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Íþróttir gera samfélagið öflugra
Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að íþróttir eru mikilvægar í uppeldi barna okkar og unglinga. Þjóðin er einhuga um að hlúa vel að íþróttastarfi og efla það enn frekar. Stuðningur ríkis, sveitarfélaga, og atvinnulífs við uppbyggingu aðstöðu og grasrótarstarfs íþróttahreyfingarinnar leggja grunninn að því að öflugt íþróttastarf haldi áfram að vaxa og dafna. Forvarnargildi skipulagðs íþróttastarfs hefur sannað gildi sitt. Rannsóknir hafa sýnt að skipulagt íþróttastarf þar sem aðstaða er góð og unnið er undir handleiðslu ábyrgra og vel menntaðra þjálfara og leiðbeinenda hefur meira forvarnargildi þegar kemur að ýmiskonar áhættuhegðun. Einnig eru sterkar vísbendingar og fleiri rannsóknir sem sýna fram á sterkt samband á milli aukinnar hreyfingar og frammistöðu í námi. Því skiptir miklu máli að áfram verði haldið á þeirri braut að efla umgjörð og gæði í starfi skipulagðs íþróttastarfs.

Jafnt aðgengi að íþróttastarfi mikilvægt
Íþrótta- og tómstundastarf er oft á tíðum dýrt. Brýnt er að aðgengi að slíku starfi sé öllum börnum fært, sérstaklega í ljósi þess hversu mikið lífsgæði barna aukast. Sveitarfélög hafa stigið mikilvægt skref í þá átt að gera börnum og unglingum kleift að stunda íþróttir með frístundakortum. Þetta virkar sem ákveðið jöfnunartæki þegar kemur að aðgengi að skipulögðu íþróttastarfi. Á sama tíma er mikilvægt að íþróttahreyfingin efli enn frekar áherslur sínar á faglega umsjón með iðkendum með vel menntuðum og hæfum þjálfurum og öruggri umgjörð að öðru leyti.

Afreksíþróttir og stórmót framundan
Á undanförnum árum hefur afreksfólk okkar Íslendinga náð einstökum árangri. Fyrst og fremst er það afreksfólkið sjálft sem hefur lagt á sig þrotlausar æfingar til þess að ná því markmiði að geta keppt við besta íþróttafólk veraldar. En hitt skiptir einnig miklu að sköpuð séu skilyrði fyrir afreksfólk til þess að hægt sé að ná langt. Þátttaka Íslands í stórum íþróttamótum hefur ávallt verið talin mikilvæg og gríðarlegur metnaður er til staðar hjá íþróttafólki að standa sig vel í alþjóðlegum samanburði. Stjórnvöld hafa með nýlegum samningum við íþróttahreyfinguna lagt til aukinn stuðning til afreksstarfs til þess að styðja betur við þessa þróun og efla árangur afreksíþróttafólks enn frekar. Mörg stórmót eru framundan á árinu. Íslenska karlalandsliðið í handknattleik heldur í byrjun næsta árs til Króatíu og tekur þátt í Evrópukeppninni. Vetrarólympíuleikarnir í PyeongChang í Suður-Kóreu eru í febrúar og svo er heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla næsta sumar. Án efa munu margir Íslendingar leggja leið sína á þessi mót til þess að styðja okkar fólk.

Íþróttamaður ársins
Kjör á íþróttamanni ársins fer fram í dag. Þessi viðburður á sér sögu frá árinu 1956 þegar nokkrir starfandi íþróttafréttamenn stofnuðu Samtök íþróttafréttamanna til þess að vinna að betri aðstöðu fyrir störf sín á vettvangi. Aðalhvatamenn voru þeir Atli Steinarsson, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson.

Síðan þá hafa samtökin staðið fyrir þessu kjöri sem orðið er að mikilvægri hefð í íslensku íþróttalífi þar sem hvert ár er gert upp. Íþróttafólk ársins í öllum greinum kemur saman og tekur við viðurkenningum fyrir góðan árangur á árinu sem er að líða. Íþróttamaður ársins er kjörinn úr hópi sem að mati íþróttafréttamanna eru taldir hafa skarað fram úr á árinu. Eftir að samtökin tóku upp samstarf við ÍSÍ, þar sem öllum íþróttagreinum eru gerð skil áður en íþróttamaður ársins er kjörinn úr hópi 10 efstu íþróttamanna, hefur viðburðurinn stækkað talsvert.

Kjöri íþróttamanns ársins hefur í áranna rás verið lýst í beinni útsendingu í sjónvarpi og þannig öðlast fastan sess í jólahaldi landsmanna. Sitt sýnist þó hverjum um valið hverju sinni, sem er til merkis um þá ástríðu sem Íslendingar hafa fyrir íþróttum. Að lokum óska ég öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. desember 2017