Categories
Greinar

Mikið traust til kennara og vellíðan nemenda

Deila grein

21/01/2019

Mikið traust til kennara og vellíðan nemenda

Rann­sókna­stofa í tóm­stunda­fræðum birti á dög­un­um niður­stöður rann­sókn­ar­inn­ar Heilsa og lífs­kjör skóla­nema sem unn­in er að til­stuðlan Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­ar­inn­ar (e. WHO). Niður­stöðurn­ar byggj­ast á svör­um rúm­lega 7.000 nem­enda á land­inu öllu sem þátt tóku í rann­sókn­inni í fyrra. Rann­sókn­in er á fjög­urra ára fresti lögð fyr­ir nem­end­ur í 6., 8. og 10. bekk. Þar koma fram marg­ar áhuga­verðar niður­stöður en mig lang­ar að nefna hér þrennt sem vek­ur sér­staka at­hygli mína.

Í fyrsta lagi svara um 90% nem­enda að þeim líði þokka­lega eða mjög vel í skól­an­um. Um 10% nem­enda segja að sér líði ekki vel en 2,7-4,2% nem­enda líður mjög illa sam­kvæmt rann­sókn­inni. Þessi niðurstaða er í sam­ræmi við aðrar rann­sókn­ir og það er mjög ánægju­legt hversu háu hlut­falli nem­enda líður vel í skól­an­um sín­um. Hins veg­ar þarf að huga sér­stak­lega að þeim nem­end­um sem ekki líður vel og gera brag­ar­bót þar á.

Í öðru lagi telja flest­ir nem­end­ur að kenn­ur­um sé annt um þá eða um 81% nem­enda í 6. bekk og 65% í 10. bekk, sem er já­kvæð niðurstaða og rím­ar vel við al­menna vellíðan nem­enda í skól­um lands­ins. Lang­flest­ir treysta kenn­ara sín­um vel og virðist það eiga við nem­end­ur í öll­um lands­hlut­um. Þetta eru afar já­kvæð tíðindi fyr­ir kenn­ara lands­ins.

Í þriðja lagi telja um 70% nem­enda í öll­um ár­göng­um sig sjald­an eða aldrei finna fyr­ir dep­urð. Hins veg­ar ber að skoða þess­ar niður­stöður gaum­gæfi­lega því mark­tæk aukn­ing er milli fyr­ir­lagna í 6. og 10. bekk þar sem 10-15% nem­enda í 6. bekk segj­ast upp­lifa dep­urð einu sinni eða oft­ar í viku en um 20% nem­enda í 10. bekk grunn­skóla. Séu niður­stöður skoðaðar eft­ir kyni nem­enda kem­ur í ljós að stelp­ur eru mun lík­legri til að finna fyr­ir dep­urð á hverj­um degi og ástandið versn­ar eft­ir því sem ung­ling­ar eld­ast. Þess­ar niður­stöður þarf að taka al­var­lega, skoða hvað veld­ur þess­ari þróun og hvernig við sem sam­fé­lag get­um unnið gegn henni.

Meg­in­styrk­leiki ís­lenska mennta­kerf­is­ins er að nem­end­um líður vel og mikið traust rík­ir á milli kenn­ara og nem­enda. Í þessu fel­ast mik­il sókn­ar­færi sem hægt er að byggja á og nýta til að efla mennt­un í land­inu enn frek­ar. Það er sam­vinnu­verk­efni skóla­sam­fé­lags­ins, for­eldra, sveit­ar­fé­laga og at­vinnu­lífs. Séu styrk­leik­arn­ir nýtt­ir sem skyldi og tek­ist á við áskor­an­ir á rétt­an hátt eru okk­ur all­ir veg­ir fær­ir til þess að byggja upp framúrsk­ar­andi mennta­kerfi til framtíðar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. janúar 2019.

Categories
Fréttir

Flýtum framkvæmdum – fækkum slysum

Deila grein

16/01/2019

Flýtum framkvæmdum – fækkum slysum

„Markmiðið með metnaðarfullri samgönguáætlun verður ekki mælt í kílómetrum, heldur mannslífum og lífsgæðum. Til að stuðla að fækkun slysa og auka umferðaröryggi er áhrifaríkast að endurbæta vegakerfið sem lætur víða á sjá í kjölfar aukinnar umferðar og þungaflutninga, m.a. vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna. Sambærileg framlög og á undanförnum árum mæta engan veginn uppsafnaðri þörf til að breikka og tvöfalda vegi til að mæta aukinni umferð. Tekjur af ökutækjum og eldsneyti renna að stærstum hluta til vegagerðar en spár gera ráð fyrir að með aukinni nýtingu annarra orkugjafa muni þær minnka á næstu árum. Ný leið í fjármögnun er að fólk greiði fyrir notkun sína.“ Þetta skrifar Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í grein í Fréttablaðinu 15. janúar sl.
Sigurður Ingi fer yfir í grein sinni að líf fólks og lífsgæði séu undir vegna ástands samgangna. Vegakerfið verði að færa upp um umferðaröryggisflokka. Flýtiframkvæmdir séu um 10% af heildarsamgönguáætlun, eða um 60 milljarðar króna. Þetta eru framkvæmdir um breikkun vega, tvöföldun á vegum og aðskildar akstursstefnur.
„Fjármagn vegna ökutækja og eldsneytis skilar ríkissjóði um 47 milljörðum og er hlutfall þess sem rennur til vegagerðar um 70%. Restin, eða um 30% af fjármagni vegna ökutækja og eldsneytis fer í tengda liði, okkar sameiginlegu sjóði, og deilist út í heilbrigðiskerfið, tollgæslu og löggæslu, meðal annars til að standa undir kostnaði við eftirlit og afleiðingar af notkun ökutækja. Á allra næstu árum munu orkuskipti leiða til þess að þróun skatttekna af ökutækjum fer minnkandi.“
Grein Sigurðar Inga Jóhannssonar má lesa hér.

Categories
Greinar

Veldur hver á heldur

Deila grein

15/01/2019

Veldur hver á heldur

Saga vegagerðar á Vestfjörðum spannar 70 ár. Þá hófst uppbygging vegakerfis á milli þéttbýla og milli svæða. Dynjandisheiðin var opnuð 1959 eða fyrir 60 árum og vegurinn verið óbreyttur síðan. Hringvegi um Vestfirði var lokið árið 1975 með veglagningu í Ísafjarðardjúpi.

Stjórnvöld hafa ákveðið að nú skuli koma Vestfjarðarvegi til annarrar kynslóðar og koma þar með Suðurfjörðunum Vestfjarða til nútíma samgönguhátta. Sú leið er fjármögnuð á fjárlögum og í samgönguáætlun. Það hefst með Dýrafjarðargöngum, uppbyggingu vegar um Dynjandisheiði og nýrri veglagningu um Gufudalssveit.

Vestfirðingar hafa beðið þolinmóðir eða réttara sagt með þrautseigju. Í húfi er uppbygging atvinnulífs, fiskeldi, ferðaþjónusta og fleiri atvinnuhættir sem krefjast nútíma samganga.

Það er því mikil ábyrgð eins sveitarfélags í flóru Vestfjarðasveitarfélaga að setja þá langþráðu ákvörðun frá stjórnvöldum í uppnám með þvergirðingshætti sínum um leiðarval.

Það er ljóst að alltaf verður ágreiningur um leiðir, ekki bara veglagningu heldur allar ákvarðanir sem skulu standa til framtíðar. Sú leið sem hefur náð mestri sátt meðal sveitarfélaga á Vestfjörðum er Þ-H leið um Teigskóg og er komin næst framkvæmdastigi. Hún hefur einnig verið talin hagkvæmust af sérfræðingum Vegagerðarinnar og talinn veita mesta umferðaröryggið af þeim leiðum sem rannsakaðar hafa verið.

Fögnum langþráðri ákvörðun stjórnvalda um uppbyggingu Vestfjarðarvegar. Það er í skipulagsábyrgð sveitarfélaga að greiða fyrir þeirri uppbyggingu. Ég hvet sveitastjórn Reykhólahrepps til samábyrgðar Vestfirðinga við að byggja fjórðunginn upp til framtíðar.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis

Greinin birtist fyrst á bb.is 13. janúar 2019.

Categories
Fréttir

Stafræn verksmiðja

Deila grein

15/01/2019

Stafræn verksmiðja

„Meðal mikilvægustu verkfæra unga fólksins okkar, sem móta mun framtíð samfélagsins, eru samvinnuhæfni, frumkvæði, skapandi hugsun og það að geta unnið með upplýsingar og tækni á fjölbreyttan hátt. Fjórða iðnbyltingin krefur okkur með sínum öru samfélags- og tæknibreytingum um nýja nálgun á ýmis kerfi, þar með talið menntun og starfþjálfun af öllu tagi.“
Þetta skrifar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í grein í Morgunblaðinu 11. janúar.
Lilja Dögg ræsti hugmynda- og uppfinningakeppni nemendum efstu bekkja grunnsóla, deginum áður, sem er ætlað að raungera og útfæra hugmyndir sínar. Verkefnið er unnið í samstarfi Samtaka iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ríkisútvarpsins og framkvæmt með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Verksmiðjan er stafræn og til húsa á slóðinni ungruv.is/verksmidjan.
„Ég er bjartsýn á að grunnskólanemendur muni taka Verksmiðjunni fagnandi og hún muni opna hug þeirra, og foreldranna, fyrir þeim möguleikum sem fólgnir eru í fjölbreyttu námsframboði hér á landi,“ skrifar Lilja Dögg.
Sjá nánar: ungruv.is/verksmidjan
Grein Lilju Alfreðsdóttur má lesa hér.

Categories
Greinar

Flýtum framkvæmdum – fækkum slysum

Deila grein

15/01/2019

Flýtum framkvæmdum – fækkum slysum

Markmiðið með metnaðarfullri samgönguáætlun verður ekki mælt í kílómetrum, heldur mannslífum og lífsgæðum. Til að stuðla að fækkun slysa og auka umferðaröryggi er áhrifaríkast að endurbæta vegakerfið sem lætur víða á sjá í kjölfar aukinnar umferðar og þungaflutninga, m.a. vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna. Sambærileg framlög og á undanförnum árum mæta engan veginn uppsafnaðri þörf til að breikka og tvöfalda vegi til að mæta aukinni umferð. Tekjur af ökutækjum og eldsneyti renna að stærstum hluta til vegagerðar en spár gera ráð fyrir að með aukinni nýtingu annarra orkugjafa muni þær minnka á næstu árum. Ný leið í fjármögnun er að fólk greiði fyrir notkun sína.

Stóraukið álag á vegakerfinu

Fjöldi ekinna kílómetra á þjóðvegum landsins hefur aldrei verið meiri en nú. Umferðin hefur breyst mikið á undanförnum árum og aukist um 46% á Hringveginum á sl. fimm árum. Vegakerfið annar varla umferðarálaginu enda var það að miklu leyti byggt upp þegar bílar voru færri, þungaflutningar minni og umferðarhraðinn lægri. Fjölgun ferðamanna hefur ítrekað farið fram úr bjartsýnustu spám og eru ákveðnir staðir vinsælli en aðrir með tilheyrandi álagi á stofnæðar þjóðvegakerfisins til og frá Reykjavík.

Almenningssamgöngur

Aukning í umferð er ekki einungis á vinsælum ferðamannaleiðum og helstu tengingum út úr höfuðborginni. Umferðaraukning hefur einnig verið á höfuðborgarsvæðinu en miðað við óbreytt ástand þá er áætlað að hún aukist um 40% til ársins 2040. Viðræður eru í starfshópi ríkisins og sveitarfélaganna um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Fjármögnun samgangna

Fjármagn vegna ökutækja og eldsneytis skilar ríkissjóði um 47 milljörðum og er hlutfall þess sem rennur til vegagerðar um 70%. Restin, eða um 30% af fjármagni vegna ökutækja og eldsneytis fer í tengda liði, okkar sameiginlegu sjóði, og deilist út í heilbrigðiskerfið, tollgæslu og löggæslu, meðal annars til að standa undir kostnaði við eftirlit og afleiðingar af notkun ökutækja. Á allra næstu árum munu orkuskipti leiða til þess að þróun skatttekna af ökutækjum fer minnkandi.

Stóra stökkið

Ástand í samgöngum á ekki að hefta lífsgæði eða hafa neikvæð áhrif á líf fólks, heldur þvert á móti. Færa þarf vegakerfið upp um umferðaröryggisflokka og ljóst að ákveðnar framkvæmdir á fjölförnum stöðum þurfa að eiga sér stað á skömmum tíma. Umfang áætlaðra flýtiframkvæmda er um 10% af heildarsamgönguáætlun, um 60 milljarðar króna. Þær fela í sér alvöru framkvæmdir s.s. breikkun vega, tvöföldun á vegum og aðskildar akstursstefnur. Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og aðskilnaður akstursstefna er gott dæmi um hve miklum árangri má ná með slíkum aðgerðum en verulega hefur dregið úr alvarlegum slysum á þeirri leið eftir framkvæmdina. Bylting verður í umferðaröryggi þegar Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur verða tvöfaldaðir.

Gjaldtöku lýkur

Gert er ráð fyrir að afmarkaðar leiðir verði fjármagnaðar af þeim sem nýta, líkt og þekkt var í Hvalfjarðargöngum. Gjaldtaka hófst og gjaldtöku lauk. Afmörkuðu leiðirnar þurfa að taka mið af stöðu svæða, ferðaþjónustu, öryggissjónarmiðum og vali um aðra leið þar sem því verður við komið. Að loknum framkvæmdum og endurbótum verður innheimt tímabundið gjald og gjaldtöku hætt að lokinni uppgreiðslu láns. Tímalínan gæti verið þessi: Útboð hefjast á þessu ári, framkvæmdir á því næsta og innheimta að þeim loknum, árið 2024. Gjaldtakan myndi þá hefjast á svipuðum tíma og skatttekjur af ökutækjum færu minnkandi.

Sátt um samgönguáætlun

Samgönguáætlun hefur verið til umfjöllunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, síðan í október. Mikilvægt er að sátt náist um hvaða leiðir á að taka út fyrir sviga og setja í flýtiframkvæmdir. Forsenda þess að farið verði í gjaldtöku er gagnsæi um ráðstöfun fjármagns, að innheimt gjöld fari til afmörkuðu framkvæmdanna.

Jafnræði

Stefnt er að því að leggja fram frumvarp á vorþingi um framtíðarfjármögnun vegakerfisins. Jafnræði þarf að ríkja um greiðslu gjalda. Markmiðið er að sem flestir taki þátt, að gjaldið deilist á sem flesta, t.d. þannig að ferðamenn greiði einnig. Bæði kostnaður flýtiframkvæmda og umferð er mismikil á hverri leið fyrir sig. Þannig þarf umfjöllun að eiga sér stað um annars vegar að sama gjaldið gildi fyrir allar leiðir, óháð umferð eða hins vegar hvort gjaldið eigi að endurspegla kostnað framkvæmda og umferð á hverjum stað. Mikilvægt er að fá sameiginlega sýn en niðurstöður starfshóps og nánari útfærslur munu liggja fyrir á næstu dögum sem frumvarpið mun byggja á.

Markmiðið með flýtiframkvæmdum er að auka umferðaröryggi, skilvirkni í umferðinni og fækka slysum. Þrátt fyrir allar þessar aðgerðir eru það fyrst og fremst við sjálf sem ráðum því hvaða árangri við náum í umferðaröryggi og slysavörnum. Högum akstri eftir aðstæðum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. janúar 2019.

Categories
Greinar

Verksmiðjan gangsett

Deila grein

11/01/2019

Verksmiðjan gangsett

Meðal mikilvægustu verkfæra unga fólksins okkar, sem móta mun framtíð samfélagsins, eru samvinnuhæfni, frumkvæði, skapandi hugsun og það að geta unnið með upplýsingar og tækni á fjölbreyttan hátt. Fjórða iðnbyltingin krefur okkur með sínum öru samfélags- og tæknibreytingum um nýja nálgun á ýmis kerfi, þar með talið menntun og starfþjálfun af öllu tagi.

Í gær tók ég þátt í óvenjulegri gangsetningu nýrrar verksmiðju. Sú verksmiðja er hugmynda- og uppfinningakeppni þar sem nemendur í efstu bekkjum grunnskóla raungera og útfæra hugmyndir sínar með aðstoð leiðbeinenda, fagfólks, fyrirtækja og hvetjandi sjónvarpsefnis. Verkefni þetta er unnið í góðu samstarfi m.a. milli Samtaka iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ríkisútvarpsins og framkvæmt með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Markmið þessa verkefnis er að hvetja ungmenni til að veita hugmyndum sínum og hæfileikum athygli, efla nýsköpun og fjalla á margvíslegan hátt um tækifæri sem felast í iðn- og tæknimenntun. Verksmiðjan er stafræn og til húsa á slóðinni ungruv.is/verksmidjan.

Við lærum einna best gegnum athafnir og með því að framkvæma það sem við hugsum. Sköpun er veigamikill þáttur í námi á öllum skólastigum og fjölbreytni er brýn í skólakerfinu til þess að efla og þroska einstaklinga til allra starfa og ekki síður til þess að hjálpa nemendum að finna sína fjöl – eða fjalir. Manneskjan er í mótun alla ævi og því er mikilvægt að byrja snemma að virkja hæfni eins og sköpun og frumkvæði. Verksmiðjan nýja er að mínu mati kjörin til þess. Aukin áhersla á nýsköpun og frumkvöðlafræðslu eflir unga fólkið okkar og kynnir því ný tækifæri og námsleiðir. Það er ekki síst brýnt fyrir samfélag sem fjölga vill starfskröftum með iðn-, verk- og tæknimenntun. Eitt okkar forgangsmála nú er að fjölga nemum í slíkum greinum og gleðilegt er að uppi eru vísbendingar um að aðgerðir séu farnar að skila árangri, meðal annars með aukinni ásókn í slíkt nám. Ég er bjartsýn á að grunnskólanemendur muni taka Verksmiðjunni fagnandi og hún muni opna hug þeirra, og foreldranna, fyrir þeim möguleikum sem fólgnir eru í fjölbreyttu námsframboði hér á landi.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. janúar 2018.

Categories
Fréttir

„Hvað lærðir þú í dag?“

Deila grein

09/01/2019

„Hvað lærðir þú í dag?“

„Við vitum að menntun er æviverk og nám getur farið fram með ýmsum hætti. Símenntun einskorðast ekki við stofnanir eða staði og núorðið er auðveldara að fá hæfni sína metna óháð því hvernig hennar var aflað.“
Þetta skrifar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í grein í Fréttablaðinu 8. janúar.
Hröð samfélagsbreyting og tæknibreytingar kallar á mikilvægi þess að einstaklingar hafi aðgang að fjölbreyttum símenntun og framhaldsfræðslu. Unnið er að endurskoðun laga um fullorðinsfræðslu og að frumvarpi um lýðskóla.
„Á tímum mikilla breytinga þurfum við öll að huga að þróun okkar eigin hæfni og þekkingar og leyfa forvitninni og fróðleiksþorstanum að ráða för. Námstækifærin blasa víða við og galdurinn virðist vera að velja og hafna úr hafsjó upplýsinga og að þekkja réttindi sín og áhugasvið. Því þegar vel er á málum haldið er aukin menntun í víðum skilningi tæki til jafnaðar og ábata fyrir alla.“
Sjá nánar: Símenntun og fullorðinsfræðsla – heildarlög um nám fullorðinna
Grein Lilju Alfreðsdóttur má lesa hér.

Categories
Fréttir

Forgangsraðað í þágu menntunar

Deila grein

09/01/2019

Forgangsraðað í þágu menntunar

„Samkeppnishæfni þjóða mun á næstu áratugum ráðast af hæfni og færni fólksins þeirra. Sú hæfni og færni ræðst ekki síst af gæðum menntakerfa í viðkomandi landi. Kennarar bera uppi menntakerfin og eru því lykilaðilar í mótun samfélaga til framtíðar. Alþjóðavæðing og örar tæknibreytingar gera enn ríkari kröfu um að stjórnmálin forgangsraði í þágu menntunar.“
Þetta kemur fram í grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í Morgunblaðinu 2. janúar sl.
Kennarar eru lykilaðilar þegar kemur að þjálfa upp hæfni og færni nemanda og því er mikilvægt að hlúa að gæðum menntakerfis okkar. „Alþjóðavæðing og örar tæknibreytingar gera enn ríkari kröfu um að stjórnmálin forgangsraði í þágu menntunar,“ segir Lilja ennfremur.
„Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar skýr í þessum efnum en þar er lögð rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Jafnframt kemur fram að bregðast þurfi við kennaraskorti með samstarfi ríkis, sveitar- og stéttarfélaga.“
Sjá nánar grein Lilju hér.

Categories
Greinar

Svo lærir sem lifir

Deila grein

08/01/2019

Svo lærir sem lifir

„Hvað lærðir þú í dag?“ er algeng spurning á heimilum á þessum tíma árs. Börn og ungmenni eru eflaust flest vön slíkum spurningum og viðbúin því að greina frá viðfangsefnum dagsins. En þessi spurning getur alveg átt við fleiri en námsmenn. Þetta er nefnilega líka árstíminn þegar margir huga að því hvernig hægt sé að gera lífið betra. Slík betrun getur meðal annars falist í því að huga að heilsunni, hlúa að fjölskyldu og vinum eða bæta við sig þekkingu.

Vera má að eitt af nýársheitum margra sé að fara í nám eða á námskeið. Þar eru ýmsir valkostir í boði en fræðsluaðilar og skólar um allt land keppast nú við að kynna námsleiðir sínar, þjónustu og ráðgjöf. Meðvitund okkar um mikilvægi símenntunar hefur enda aukist töluvert. Við vitum að menntun er æviverk og nám getur farið fram með ýmsum hætti. Símenntun einskorðast ekki við stofnanir eða staði og núorðið er auðveldara að fá hæfni sína metna óháð því hvernig hennar var aflað.

Námstækifærin blasa víða við
Á tímum mikilla breytinga þurfum við öll að huga að þróun okkar eigin hæfni og þekkingar og leyfa forvitninni og fróðleiksþorstanum að ráða för. Námstækifærin blasa víða við og galdurinn virðist vera að velja og hafna úr hafsjó upplýsinga og að þekkja réttindi sín og áhugasvið. Því þegar vel er á málum haldið er aukin menntun í víðum skilningi tæki til jafnaðar og ábata fyrir alla.

Eftir því sem tæknibreytingar og þróun samfélagsins verður hraðari því mikilvægara er að fólk hafi aðgang að fjölbreyttum menntunartækifærum, s.s. símenntun og framhaldsfræðslu. Það er okkar hlutverk að skapa aðstæður fyrir fjölbreytilega þekkingarmiðlun en í því samhengi má nefna að á vettvangi mennta- og menningarmálaráðuneytisins er nú m.a. unnið að endurskoðun laga um fullorðinsfræðslu og að frumvarpi um lýðskóla.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. janúar 2019.

Categories
Greinar

Frá þingflokksformanni

Deila grein

08/01/2019

Frá þingflokksformanni

Kæru vinir og félagar!

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs.
Það er óhætt að segja að haustþingið hafi verið annasamt og viðburðarríkt. Því er ánægjulegt að þingið náði þeim áfanga að afgreiða fjárlög á tilskildum tíma undir styrkri stjórn Willums Þórs og halda starfsáætlun. Ný lög um opinber fjármál hjálpa vissulega til í þeim efnum en líka einbeittur vilji ríkisstjórnarflokkanna að sýna samstarfsvilja í verki og viðhalda stöðugleika. Haustþingið sem lauk 14. desember síðastliðinn var eitt það afkastamesta frá byrjun og afgreiddi 44 mál. Ég tel þetta vera jákvæð skref í þá átt að bæta vinnubrögð og ásýnd Alþingis og vænti þess að haldið verði áfram að feta þá braut. Það er líka á döfinni að ráða aðstoðarmenn fyrir þingflokka sem hefur lengi verið á dagskrá þingsins. Ég fagna því að verið er að taka skref til að renna styrkari stoðum undir þingflokkana, auka sérfræðiaðstoð og bæta þannig vinnubrögðin enn frekar á Alþingi.

Traust til Alþingis og stjórnmála er ekki sjálfgefið og þar bera alþingismenn ríka ábyrgð. Störf okkar eru í umboði kjósenda og okkur ber siðferðisleg skylda til að vinna að heilindum í þágu almennings, þótt deilt sé um leiðir og áherslur. Vantrú og efi í garð stjórnmála einskorðast ekki við Ísland. Engu að síður höfum við verk að vinna í þeim efnum sem fulltrúar kjósenda, sérstaklega nú á tímum starfrænnar tækni og samfélagsmiðla.

Þingflokkurinn hefur ekki setið auðum höndum. Við einsettum okkur að vera virk og málefnaleg í umræðunni og vinna að málum sem endurspegla megináherslur okkar. Í upphafi þings ákváðum við að leggja fram þrjú lykilmál. Það eru málin: Barnalífeyrir, Mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða og Mótun opinberrar klasastefnu. Það er einkar ánægjulegt að frumvarp um barnalífeyri var samþykkt í byrjun desember. Lögin fela í sér að börn sem eiga aðeins eitt foreldri á lífi geta fengið greitt framlag til hálfs frá ríkinu fyrir sérstaka viðburði, rétt eins og börn sem eiga fráskilda foreldra. Hingað til hafa eftirlifandi foreldrar þurft að bera uppi kostnað vegna ferminga, skírna og tannréttinga en nú hefur Alþingi leiðrétt þessa mismunun. Þingflokkurinn lagði fram nokkur ný mál á haustþingi; Velferðartækni, Fræðsla um og meðferð við vefjagigt, Vistvæn opinber innkaup á matvöru, Heimavist á höfuðborgarsvæðinu, Náttúrustofur og Uppgræðsla lands og ræktun túna. Ég hvet ykkur að fara inn á heimasíðu flokksins, framsokn.is og skoða þau mál sem lögð hafa verið fram á þessu þingi og ætlunin er að vinna áfram með. Fleiri mál eru í farvatninu.

Fjárlögin fyrir 2019 endurspegla þær áherslur og þá framtíðarsýn sem birtast í stjórnarsáttmálanum. Línur voru lagðar við framlagningu fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og þeim hefur verið fylgt.

Stórsókn í uppbyggingu innviða er hafin þar sem samgöngu-, mennta- og heilbrigðismál eru í forgrunni.
Það rímar vel við áherslur okkar í kosningabaráttunni.
Aukin framlög til rekstar hjúkrunarheimila og framkvæmdir við nýjan Landsspítala vega þungt og eru mikilvæg.
Þá hafa barnabætur verið hækkaðar til hagsbóta fyrir tekjulágar fjölskyldur og þeim fjölgað sem eiga rétt á barnabótum. Framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála verða aukin verulega og er hækkunin í heild 11,5 ma.kr. að undanskildum launa- og verðlagshækkunum. Í fjárlagafrumvarpinu er líka að finna aðgerðir sem ætlað er að koma til móts við kröfur aðila vinnumarkaðarins í aðdraganda kjarasamninga. Þannig verður persónuafsláttur hækkaður umfram neysluverðsvísitölu og barnabætur hækkaðar til tekjulægri hópa. Þá verður tryggingagjald lækkar í tveimur áföngum.

Flokkurinn okkar hefur ávallt viljað nálgast verkefnin með skynsemi og samvinnu að leiðarljósi. Við erum frjálslyndur félagshyggjuflokkur og viljum vinna að því að bæta samfélagið í hvívetna. Það endurspeglast í öllum okkar áherslum og í umræðu á opinberum vettvangi. Mikið hefur verið rætt um húsnæðisvanda unga fólksins. Það er brýnt verkefni sem ríkisstjórnin vill gera átak í. Það er ánægjulegt að svissneska leiðin sem við töluðum fyrir í aðdraganda kosninga er einn af þeim möguleikum sem skoða á í því sambandi. Það er líka einkar ánægjulegt að ríkisstjórnin hyggst taka markmiss skref á kjörtímabilinu til að afnema verðtryggingar á lánum sem er mikilvægt hagsmunamál fyrir neytendur. Dæmi um önnur góð mál sem við höfum í sameiningu barist fyrir og nýlega hafa tekið gildi eru rammasamningu um tannlækningar aldraðra og áætlað samþykki fyrir líffæragjöf.

Kæru félagar.

Við munum halda áfram að vinna að framfaramálum og sýna það í verki að við vinnum að heilindum og tökum skyldur okkar sem fulltrúar almennings alvarlega. Flokkurinn okkar er rúmlega hundrað ára gamall og hefur tekist á við margar áskoranir í gegnum tíðina. Þrátt fyrir áföll sem hafi dunið yfir hann höfum við alltaf haldið áfram og það hyggjumst við gera. Við erum þéttur hópur og það er jákvæður liðsandi á meðal okkar. Við viljum halda áfram að vinna að góðum málum og bæta samfélagið okkar. Um það eiga stjórnmálin að snúast.

Kær kveðja,
Þórunn Egilsdóttir
Þingflokksformaður Framsóknarflokksins