Categories
Fréttir

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á“

Deila grein

07/03/2019

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á“

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á. Ef við stefnum að því að eiga framúrskarandi vísindamenn, listamenn, frumkvöðla, blaðamenn, múrara, íþróttafólk, viðskiptafræðinga, stjórnmálafræðinga eða stýrimenn þurfum við að eiga góða kennara. Fagmennska kennaranna – elja, trú og ástríða er það sem stuðlar að framförum fyrir okkur öll,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í grein í Morgunblaðinu 6. mars.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í vikunni fyrstu aðgerðirnar sem ráðist verður í til þess að mæta þessum áskorunum. Launað starfsnám mun, frá og með næsta hausti, standa nemendum til boða sem eru á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi. Þá geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi einnig sótt um námsstyrki, frá og með næsta hausti. Í þriðja og síðasta lagi styrki til starfandi kennara vegna náms í starfstengdri leiðsögn.
„Ef ekkert er að gert blasir grafalvarleg staða við okkur. Ef miðað er við óhagstæðustu sviðsmynd mannfjöldaþróunar og óbreyttan fjölda útskrifaðra grunnskólakennara gera spár okkar ráð fyrir að manna þurfi tæplega 1.200 kennarastöður í grunnskólum með starfsfólki án kennsluréttinda eftir fjögur ár, 2023. Þá yrði hlutfall starfsfólks starfandi við kennslu án kennsluréttinda 23% en samsvarandi hlutfall var 8,6% árið 2017. Ljóst er að þegar vantar leikskólakennara í um 1.800 stöðugildi til þess að uppfylla ákvæði laga um hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara.“
„Stjórnvöld leggja ríka áherslu á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega kveðið á um mikilvægi þess stuðla að viðurkenningu á störfum kennara og efla faglegt sjálfstæði þeirra. Einnig er þar áréttað að til að bregðast megi við yfirvofandi skorti á kennurum hér á landi þurfi ríki, sveitarfélög og stéttarfélög að vinna vel saman.“
Grein Lilju Daggar Alfreðsdóttur má lesa í heild sinni hér.

Categories
Fréttir

Fagna áformum um fjölgun lögreglumanna

Deila grein

06/03/2019

Fagna áformum um fjölgun lögreglumanna

„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að koma málefnum lögreglunnar á dagskrá í þinginu og hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að vera til svara. Eins og fram hefur komið gegnir lögreglan lykilhlutverki í öryggis- og viðbragðskerfi samfélagsins. Lögreglan er ein af grunnstoðum ríkisins og því fagna ég áformum um framlagningu og innleiðingu löggæsluáætlunar sem hæstv. ráðherra minntist á í ræðu sinni,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í ræðu, í sérstakri umræðu um málefni lögreglunnar, á Alþingi í gær.
Ræða Þórunnar Egilsdóttur, alþingismanns, á Alþingi.

„Skilgreining á öryggis- og þjónustustigi er mikilvæg til að átta sig á eðli og umfangi lögreglustarfsins og öll áform um gagnsæi á kostnaðarliðum eru af hinu góða en verkefnin eru fjölbreytt og miskostnaðarsöm.
Einn kostnaðarliður er rekstur bíla, en ég veit til þess að unnið er að endurskipulagningu í bílamálum. Það er afar mikilvægt og í raun stóra málið að því er mér er sagt. Finni menn leiðir til að ná kostnaði niður getur svigrúm til sýnilegrar löggæslu aukist verulega.
Allt kunnáttufólk á sviði löggæslu sem ég hef rætt við leggur áherslu á mikilvægi sýnilegrar öryggisgæslu. Auðvelt er að benda á átak á norðvestursvæði sem fólst í aukinni umferðargæslu og sýnileika. Það skilaði sér í 26% fækkun umferðarslysa. Sýnileikinn þarf ekki eingöngu að vera á stofnvegum heldur líka inni í hverfum, í þéttbýli, á ferðamannastöðum, á hálendinu og í miðbæ Reykjavíkur. Það er mikilvægt að lögreglumaðurinn þekki hverfið sitt, fólkið sitt og svæðið sem hann sinnir. Til að þetta gangi eftir vantar aukið fjármagn og fleira fólk. Því fagna ég öllum áformum um fjölgun lögreglumanna.
Hæstv. forseti. Fyrirkomulagi lögreglunáms hefur verið breytt og enn er eitthvað í að við sjáum hvernig það kemur út. En nú eru kynjahlutföll í fyrsta skipti jöfn í skólanum og spennandi verður að sjá hvort og þá hverju það breytir. En um allt land erum við svo heppin að hafa gott fólk sem er að gera sitt besta og kannski má segja að fólk sé að vinna kraftaverk oft og tíðum undir afar miklu álagi.“

Categories
Fréttir

Endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi

Deila grein

06/03/2019

Endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi

„Virðulegi forseti. Mikil áhersla ríkisstjórnarinnar á málefni barna er farin að birtast með ýmsu móti, m.a. með nýlegri samþykkt um aukna þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda og að allar stærri ákvarðanir og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
 Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 6. mars 2019.

„Nú er unnið að stefnumótun í málefnum barna á vegum félagsmálaráðuneytisins undir forystu þverpólitískrar nefndar þingmanna sem starfa með fagfólki og notendum kerfisins. Vinnan gengur út á endurskoðun barnaverndarlaga og endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi með áherslu á snemmtæka íhlutun og samvinnu kerfa eins og skóla, heilsugæslu, félagsþjónustu, lögreglu, dómskerfis og almannaheillafélaga, svo eitthvað sé nefnt. Nefndin hefur nú þegar fundað níu sinnum og samhliða vinna opnir hópar sem í starfar fólk með þekkingu og reynslu af málefnum barna. Markmiðið er að fá sem flesta að borðinu til að reyna að ná heildarsýn í því hvernig eigi að stuðla að velferð barna á Íslandi og tryggja að þau og fjölskyldur þeirra fái stuðning og þjónustu við hæfi á hverjum tíma. Hliðarhóparnir munu svo á næstu vikum og mánuðum skila tillögum til þingmannanefndarinnar. Þá eru fyrirhugaðir opnir fundir á síðari stigum vinnunnar og áætlað er að halda stærri ráðstefnu á vormánuðum. Einnig hefur tekið til starfa stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga til að samhæfa betur starfið og tryggja framgang þeirra ákvarðana sem teknar verða.
Nýlega sendi félags- og barnamálaráðherra út bréf til fjölda fólks til að kynna verkefnið og hvetja þá sem vilja leggja sitt af mörkum til vinnunnar að kynna sér málið og nýta sér tækifærin til að koma sjónarmiðum á framfæri, hvort sem er í vinnuhópum, með ábendingum til nefndarinnar eða á opnum fundum.“

Categories
Greinar

Mjög góð fjárfesting

Deila grein

06/03/2019

Mjög góð fjárfesting

Stjórnvöld leggja ríka áherslu á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega kveðið á um mikilvægi þess stuðla að viðurkenningu á störfum kennara og efla faglegt sjálfstæði þeirra. Einnig er þar áréttað að til að bregðast megi við yfirvofandi skorti á kennurum hér á landi þurfi ríki, sveitarfélög og stéttarfélög að vinna vel saman.

Ef ekkert er að gert blasir grafalvarleg staða við okkur. Ef miðað er við óhagstæðustu sviðsmynd mannfjöldaþróunar og óbreyttan fjölda útskrifaðra grunnskólakennara gera spár okkar ráð fyrir að manna þurfi tæplega 1.200 kennarastöður í grunnskólum með starfsfólki án kennsluréttinda eftir fjögur ár, 2023. Þá yrði hlutfall starfsfólks starfandi við kennslu án kennsluréttinda 23% en samsvarandi hlutfall var 8,6% árið 2017. Ljóst er að þegar vantar leikskólakennara í um 1.800 stöðugildi til þess að uppfylla ákvæði laga um hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara.

Í gær kynnti ég fyrstu skrefin sem við hyggjumst stíga í þá átt að auka nýliðun í kennarastétt. Þær tillögur eru byggðar á vinnu starfshóps sem skipaður var um það verkefni en í honum áttu sæti fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands, Háskólanum á Akureyri, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, samtakanna Heimilis og skóla og Samtökum iðnaðarins. Að auki komu að vinnunni fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Um er að ræða þrjár sértækar aðgerðir sem allar koma til framkvæmda næsta haust.

Launað starfsnám
Fyrst ber að nefna að leik- og grunnskólakennaranemum á lokaári meistaranáms býðst frá og með næsta hausti launað starfsnám. Markmið þessa er að stuðla að því að nemar sem komnir eru af stað í M.Ed.-nám klári nám sitt á tilsettum tíma og að þeir skili sér til kennslu að námi loknu. Lagt er upp með að innan starfsnámsins verði gætt að því að nemar hafi svigrúm til að vinna að lokaverkefni sínu. Með þessari aðgerð er einnig stefnt að auknu flæði þekkingar milli háskóla annars vegar og leik- og grunnskóla hins vegar. Um er að ræða átaksverkefni sem verður endurmetið reglulega með það að leiðarljósi að efla kennaranám enn frekar.

Styrkur til kennaranema
Kennaranemar á lokaári í leik- og grunnskólafræðum geta sótt um styrk til þess að auðvelda þeim að sinna lokaverkefni sínu jafnhliða launuðu starfsnámi. Mennta- og menningarmálaráðuneyti greiðir þann styrk sem hvata til þess að nemar klári nám sitt á tilsettum tíma. Styrkurinn nemur allt að 800.000 kr. og greiðist í tvennu lagi. Fyrri greiðslan verður bundin við skil verkefnisáætlunar lokaverkefnis og sú seinni við skil á samþykktu lokaverkefni.

Fjölgum leiðsagnarkennurum
Ljóst er að brotthvarf nýrra kennara úr starfi í skólum er töluvert og mest er hættan á því fyrstu þrjú ár þeirra í starfi. Til þess að mæta þeirri áskorun verður gert átak í því að fjölga leiðsagnarkennurum í íslenskum skólum, en það eru starfandi kennarar sem hafa sérþekkingu á því að taka á móti og þjálfa nýja kennara til starfa. Boðið er upp á 30 eininga nám fyrir starfandi kennara sem dreifist á þrjár annir, við bæði Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, þar sem kennarar geta bætt við sig sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn. Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun styrkja skólana til þess að fjölga slíkum kennurum og er markmiðið að eftir fimm ár verði 150 leiðsagnarkennarar starfandi. Styrkurinn samsvarar innritunargjöldum í námið og verða forsendur hans meðal annars þær að skólastjóri styðji umsókn kennara í námið og hins vegar að tryggja þurfi jafna dreifingu þessara styrkja milli skóla og landshluta.

Framtíðin og fagmennskan
Þessar aðgerðir eru aðeins upphafið, fleiri eru til skoðunar í ráðuneytinu og snerta þær til dæmis hvernig styrkja megi nemendur í öðru kennaranámi, s.s. framhaldsskóla- og listkennaranámi og hvernig skapa megi fleiri hvata til þess að fjölga kennaranemum, til dæmis gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Annar mikilvægur liður í þessu stóra verkefni okkar að bæta menntakerfið og stuðla að bættu starfsumhverfi kennara er nýtt frumvarp sem nú er til umfjöllunar í Samráðsgátt stjórnvalda. Með því verður í fyrsta sinn lögfest ákvæði um hæfni sem kennarar þurfa að búa yfir til samræmis við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Frumvarpið er mikilvægt skref í þá átt að tryggja betur réttindi og starfsöryggi kennara óháð skólastigum. Frumvarpið eykur ábyrgð skólastjórnenda til þess að velja inn þá kennara sem búa yfir þeirri hæfni, þekkingu og reynslu sem þeir leita eftir hverju sinni. Þannig er stuðlað að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra sem aftur verður til þess að efla skólaþróun og fjölga tækifærum fyrir skólafólk.

Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á. Ef við stefnum að því að eiga framúrskarandi vísindamenn, listamenn, frumkvöðla, blaðamenn, múrara, íþróttafólk, viðskiptafræðinga, stjórnmálafræðinga eða stýrimenn þurfum við að eiga góða kennara. Fagmennska kennaranna – elja, trú og ástríða er það sem stuðlar að framförum fyrir okkur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2019.

Categories
Fréttir

Verjum sérstöðu landsins – hvað er í matnum?

Deila grein

05/03/2019

Verjum sérstöðu landsins – hvað er í matnum?

„Nú hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birt drög að frumvarpi til að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins um innflutningstakmarkanir á fersku kjöti til landsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir heimildum til innflutnings á hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneiddum eggjum. Frumvarpið hefur hvorki verið lagt fyrir ríkisstjórn eða stjórnarflokka. Það er enn í vinnslu hjá ráðuneyti en opnað hefur verið á samráð um frumvarpið í gegnum samráðsgátt stjórnvalda,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í grein á feykir.is 1. mars.
„Með samþykkt frumvarpsins erum við sem sjálfstæð þjóð að gefast upp með því að leyfa frjálsan innflutning á hráu kjöt. Það er ekki útséð um hvaða afleiðingar það mun hafa í för með sér. Þeir sem hafa talað fyrir óheftum innflutningi á kjöti benda á að það geti skilað sér í lægra matvöruverð. Hagsmunir neytenda snúast ekki bara um hvað sé í matinn og hvað hann kosti heldur hvað er í matnum.“
„Við megum ekki gefast upp þótt ESB hrópi. Við þurfum að halda uppi þeim einstöku vörum sem framleiddar eru hér á landi fyrir sérstöðu okkar. Sérstæða landsins byggir m.a. á hreinleika búfjárstofna okkar sem okkur hefur tekist að halda í vegna legu landsins. Við þurfum að verjast þeirri ógn sem blasir við vegna hugsanlegs sýklalyfjaónæmis. Frumvarpið tekur ekki nægilega á þeim þáttum. Þessir hagsmunir eru okkur jafn dýrmætir og hreinleiki lofts og vatns.“
Grein Höllu Signýjar Kristjánsdóttur má lesa í heild sinni hér.

Categories
Fréttir

Um hvað snýst þessi kjöt umræða?

Deila grein

05/03/2019

Um hvað snýst þessi kjöt umræða?

Besta vörnin fyrir lýðheilsu á Íslandi er að hingað sé flutt sem minnst af hráum búfjárafurðum. „Bann við innflutningi hrárra búfjárafurða, og þar með sóttvarnir landsins, snúast um sérstöðu Íslands til framtíðar. Framtíðarhagsmunir íslensks samfélags eru undir (lýðheilsa og búfjárstofnar), þeir hagsmunir eru miklu stærri, en hagsmunir einstakra stétta í nútíðinni. Sérstaða okkar er ekki okkar einkamál, hún er umhverfismál og hefur þýðingu á heimsvísu.
Samningar og lög eru mannanna verk sem hægt er að breyta, en ef sérstaða landsins tapast verður hún ekki auðveldlega endurheimt,“ segja Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir, alþingismenn Framsóknar, í grein á austurfrett.is 4. mars.
Niðurstöður rannsókna á uppruna kamfílóbakteríu sýkinga úr mat á Íslandi yfir 20 ára tímabil eru sláandi. Meðalfjöldi smitaðra einstaklinga sem eingöngu höfðu dvalist á Íslandi og borðað sinn mat þar er 16,9 á ári, meðan 258 smituðust að meðaltali erlendis.
„Þess vegna verðum við að staldra við áður en gerðar verða lagabreytingar til að bregðast við dómum um skilyrði fyrir innflutningi tiltekinna afurða frá Evrópska efnahagssvæðinu. Verði skilyrði fyrir innflutningi rýmkuð er nauðsynlegt að fyrst verði gert ítarlegt áhættumat fyrir íslenskt samfélag byggt á bestu fáanlegu þekkingu. Ef farið verður í mótvægisaðgerðir þarf að gefast nægjanlegur tími til að innleiða þær. Til að ná fram breytingum á samningum og reglum, þurfa íslenskir stjórnmálamenn að ræða betur við kollega sína í Evrópu. Á sama tíma þarf að vinna að aukinni samstöðu innanlands á grunni bestu þekkingar á hverjum tíma um hverjir sameiginlegir hagsmunir samfélagsins séu í raun.“
Lesa má grein Líneikar Önnu og Þórunnar í heild sinni hér.
 

Categories
Greinar

Um hvað snýst þessi kjöt umræða?

Deila grein

04/03/2019

Um hvað snýst þessi kjöt umræða?

Ísland hefur mikla sérstöðu, vegna þess að hér á landi er minna um ýmsa sjúkdóma í búfé en annars staðar í heiminum. Matartengdar sýkingar í fólki eru líka hlutfallslega færri og athyglisvert er að minna er um sýklalyfjaónæmar bakteríur í fólki hér á landi en í öðrum heimshlutum.

Sýklalyfjaónæmar bakteríur eru hratt vaxandi heilbrigðisvandi í heiminum, á meðan umtalsverðar framfarir eiga sér stað við meðhöndlun margra annarra sjúkdóma.

Þekkingin á þessum vanda er að aukast og hún segir okkur að fara varlega. Það sýnir sig að þar sem mest sýklalyfjanotkun er í búfjárrækt er líka mest um sýklalyfjaónæmar bakteríur í fólki. Þannig virðist sýklalyfjanotkun í landbúnaði hafa miklu meiri áhrif á hversu algengar sýklalyfjaónæmar bakteríur eru í fólki en hver sýklalyfjanotkun fólks er eða hversu mikið er um ferðalög milli landa. Sýklalyfjanotkun í landbúnaði eykst eftir því sem sunnar dregur í Evrópu.

Smit úr mat fer annars vegar eftir því hversu algengar sýkingar eru í matnum og hins vegar hvort reglum er fylgt, t.d. til að kom í veg fyrir krosssmit milli matvæla. Aldrei er fullkomlega hægt að koma í veg fyrir mistök við meðhöndlun matvæla.

Niðurstöður rannsókna á uppruna kamfílóbakteríu sýkinga úr mat á Íslandi yfir 20 ára tímabil eru sláandi. Meðalfjöldi smitaðra einstaklinga sem eingöngu höfðu dvalist á Íslandi og borðað sinn mat þar er 16,9 á ári, meðan 258 smituðust að meðaltali erlendis.

Besta vörnin fyrir lýðheilsu á Íslandi er að hingað sé flutt sem minnst af hráum búfjárafurðum. Þess vegna verðum við að staldra við áður en gerðar verða lagabreytingar til að bregðast við dómum um skilyrði fyrir innflutningi tiltekinna afurða frá Evrópska efnahagssvæðinu. Verði skilyrði fyrir innflutningi rýmkuð er nauðsynlegt að fyrst verði gert ítarlegt áhættumat fyrir íslenskt samfélag byggt á bestu fáanlegu þekkingu. Ef farið verður í mótvægisaðgerðir þarf að gefast nægjanlegur tími til að innleiða þær. Til að ná fram breytingum á samningum og reglum, þurfa íslenskir stjórnmálamenn að ræða betur við kollega sína í Evrópu. Á sama tíma þarf að vinna að aukinni samstöðu innanlands á grunni bestu þekkingar á hverjum tíma um hverjir sameiginlegir hagsmunir samfélagsins séu í raun.

Bann við innflutningi hrárra búfjárafurða, og þar með sóttvarnir landsins, snúast um sérstöðu Íslands til framtíðar. Framtíðarhagsmunir íslensks samfélags eru undir (lýðheilsa og búfjárstofnar), þeir hagsmunir eru miklu stærri, en hagsmunir einstakra stétta í nútíðinni. Sérstaða okkar er ekki okkar einkamál, hún er umhverfismál og hefur þýðingu á heimsvísu. Samningar og lög eru mannanna verk sem hægt er að breyta, en ef sérstaða landsins tapast verður hún ekki auðveldlega endurheimt.

Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir, alþingismenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 4. mars 2019.

Categories
Greinar

Verjum sérstöðu landsins

Deila grein

01/03/2019

Verjum sérstöðu landsins

Nú hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birt drög að frumvarpi til að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins um innflutningstakmarkanir á fersku kjöti til landsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir heimildum til innflutnings á hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneiddum eggjum. Frumvarpið hefur hvorki verið lagt fyrir ríkisstjórn eða stjórnarflokka. Það er enn í vinnslu hjá ráðuneyti en opnað hefur verið á samráð um frumvarpið í gegnum samráðsgátt stjórnvalda.

Samhliða hafa stjórnvöld nú kynnt aðgerðaáætlun sína sem ætlað er að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Mótvægisaðgerðirnar eru allar þýðingarmiklar og eiga fullan rétt á sér óháð breytingum á lögum. Eigi þessar aðgerðir hins vegar að skila árangri verður að gefast lengri tíma en nokkrir mánuðir til að innleiða þær.

Hvað er í matnum?
Með samþykkt frumvarpsins erum við sem sjálfstæð þjóð að gefast upp með því að leyfa frjálsan innflutning á hráu kjöt. Það er ekki útséð um hvaða afleiðingar það mun hafa í för með sér. Þeir sem hafa talað fyrir óheftum innflutningi á kjöti benda á að það geti skilað sér í lægra matvöruverð. Hagsmunir neytenda snúast ekki bara um hvað sé í matinn og hvað hann kosti heldur hvað er í matnum.

Við megum ekki gefast upp þótt ESB hrópi. Við þurfum að halda uppi þeim einstöku vörum sem framleiddar eru hér á landi fyrir sérstöðu okkar. Sérstæða landsins byggir m.a. á hreinleika búfjárstofna okkar sem okkur hefur tekist að halda í vegna legu landsins. Við þurfum að verjast þeirri ógn sem blasir við vegna hugsanlegs sýklalyfjaónæmis. Frumvarpið tekur ekki nægilega á þeim þáttum. Þessir hagsmunir eru okkur jafn dýrmætir og hreinleiki lofts og vatns.

Stjórnmálamenn eigi samtal við stjórnmálamenn
Þetta er stórt pólitískt mál og miklir hagsmunir í húfi. Því þurfa íslenskir ráðmenn að stíga fast til jarðar og eiga samtal við þá sem stýra Evrópusambandinu. Dómur EFTA er unnin út frá lögum og reglum og niðurstaðan fenginn frá þeim sem vinna samkvæmt þeim. En þá liggur beinast við að stíga næsta skref og ná samkomulagi um undanþágu. Fá það viðurkennt að við þurfum tíma til aðlögunar og byggja upp raunverulegar varnir. Það þarf að fara í áhættugreiningar til að meta hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir Ísland. Það getur ekki verið vilji Evrópusambandsbúa að við verðum gerð að tilraunadýrum í þessum efnum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis

Greinin birtist fyrst á feykir.is 1. mars 2019.

Categories
Fréttir

Hvar er loðnan?

Deila grein

01/03/2019

Hvar er loðnan?

„Virðulegi forseti. Hvar er loðnan? er spurning sem margir spyrja sig þessa dagana. Þrátt fyrir að Hafró og sjávarútvegsfyrirtækin séu búnin að leita um allan sjó finnst hún ekki, enda alltaf verið duttlungafullur fiskur. Hegðunin verður samt stöðugt undarlegri með hlýnandi sjó,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í gær.
Ræða Líneikar Önnur Sævarsdóttur, alþingismanns, í störfum þingsins 28. febrúar 2019.

„Þótt tíminn til veiða sé að renna út er mikilvægt að halda vöktun áfram næstu vikur og stunda markvissar rannsóknir til framtíðar. Áhrifin af loðnubresti á uppsjávarfyrirtækin eru gífurleg en ekki síður á fjölda fyrirtækja um land allt sem þjónusta þau, svo sem við landanir og flutninga. Þar fyrir utan munu einstaklingar og heimili tapa mikilvægum tekjum. Sveitarfélagið þar sem áhrifin eru hvað mest í krónum talið er sennilega Fjarðabyggð en áhrifin geta verið hlutfallslega meiri á minni sveitarfélög þar sem þol fyrir sveiflum er minna, svo sem á Langanesbyggð, Vopnafjörð og Hornafjörð.
Sveitarfélög eru þegar farin að huga að endurskoðun fjárhagsáætlana og meta fjárhagsleg áhrif af loðnubresti á bæjarsjóði og hafnarsjóði. Áhrifin á ríkissjóð eru einnig mikil en útflutningsverðmæti loðnu námu tæplega 18 milljörðum á árinu 2018, 0,6% af landsframleiðslu. Verðmæti síðustu ár hafa verið á bilinu 15–30 milljarðar, tæp10% af útflutningsverðmæti sjávarafurða, oft næstmest á eftir þorskinum.
Ef svo fer sem horfir verður árið 2019 fyrsta árið frá því að loðnuveiðar hófust að marki hér 1963 sem engin loðna veiðist. Á sama tíma er áhyggjuefni að ekki liggur fyrir fiskveiðisamningur við Færeyinga og því eru engir samningar í gildi um kolmunnaveiðar í færeyskri lögsögu, sem aftur bitnar á sömu fyrirtækjum og sveitarfélögum. Ég vil því hvetja hæstv. ríkisstjórn og einkum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til dáða í samningum við Færeyinga.“

Categories
Fréttir

Ávinningurinn af flýtiframkvæmdum í vegamálum yrði ævintýralegur

Deila grein

01/03/2019

Ávinningurinn af flýtiframkvæmdum í vegamálum yrði ævintýralegur

Samgönguráðherra segir enga ákvörðun fyrirliggjandi um álagningu vegtolla og fleiri leiðir komi til greina:

Ávinningurinn af flýtiframkvæmdum í vegamálum yrði ævintýralegur

– Arður frá Landsvirkjun og af eignasölu gæti einnig nýst til uppbyggingar vegakerfisins

Hörður Kristjánsson hk@bondi.is

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að engin ákvörðun liggi fyrir um vegtolla sem mikið hafa verið í umræðunni að undanförnu. Hefur hann því varpað fram þeirri hugmynd hvort skynsamlegra geti verið að nota arðgreiðslur Landsvirkjunar í uppbyggingu vegakerfisins og bíða með vegtolla í 4-5 ár.
Viðraði Sigurður þetta í viðtali í þættinum „Á Sprengisandi“ á Bylgjunni fyrir skömmu og sagði að samkvæmt samgönguáætlun yrði aukning í framlögum ríkisins næstu árin. Hins vegar væri því ekki að leyna að fólki víða um land fyndist ekki nóg að gert. Það væri staðreynd að það hafi verið gert of lítið og of lengi.
Bændablaðið óskaði eftir frekari útlistun á þessum hugmyndum og tók hús á Sigurði Inga í ráðuneyti hans í síðustu viku.

Stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir nýtingu eignatekna

„Það er sagt í stjórnarsáttmálanum að við ætlum að nýta eignatekjur ríkisins, m.a. í bönkunum, og það gerðum við í fyrstu fjármálaáætluninni. Þá var í fyrsta skipti áætlaður viðbótararður sem hafði ekki verið áður tekinn inn í tekjugrunn ríkisins. Þar voru þó bara áætluð þrjú ár því menn vildu ekki fara mikið lengra fram í tímann þar sem óvissuþættir væru of margir.
Við settum fimm og hálfan milljarð í samgöngur á hverju ári þessa tímabils, þ.e. árin 2019, 2020 og 2021. Það eru í heild 16,5 milljarðar. Þar með vorum við auðvitað búin að fjármagna miklu stærri hluta og miklu hærri upphæð inn í samgöngur heldur en hefur verið gert í mjög langan tíma og kannski aldrei. Þannig leggjum við af stað inn í samgönguáætlunina. Bæði samgönguráðið, sem var búið að stilla upp tillögu inn í ráðuneytið síðastliðið sumar, sem og við í ráðuneytinu, gerðum okkur grein fyrir af samtölum við fólk sem hingað kom í viðtöl að væntingarnar voru miklu meiri. Umferðarþunginn var orðinn svo mikill að vegirnir báru þetta ekki. Þá hafði umferðarörygginu líka farið verulega aftur og banaslysum því miður fjölgað síðustu árin, þrátt fyrir að slysum hafi hlutfallslega fækkað miðað við umferðarþungann. Alvarleg slys og banaslys hafa verið í kringum 200 á ári í þó nokkuð mörg ár, á meðan flestar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við eru að ná þessu niður.
Áður vorum við meðal fremstu þjóða hvað litla slysatíðni varðar. Eftir gríðarlega fjölgun ferðamanna, aukinn umferðarþunga og aukinn hagvöxt þá liggur fyrir sú staðreynd að allar ríkisstjórnir frá 2011 hafa sett of lítið fé í samgöngumál. Því hafa vegirnir ekki verið nægilega góðir. Umferðarþunginn er orðinn of mikill miðað við aðstæður og slysatíðnin hefur aukist. Þess vegna var það orðað að það þyrfti að gera eitthvað fleira.“

Hugsað út fyrir boxið og stefnt á flýtiframkvæmdir

„Í þinginu nefndu menn flýti framkvæmdir og að hugsa út fyrir boxið. Síðan var samgönguáætlunin samþykkt óbreytt, en þó með tillögum úr þremur starfshópum. Þær vörðuðu annars vegar breytingar á fluginu þar sem ISAVIA yfirtæki reksturinn á millilandafluginu sem Alþingi samþykkti. Einnig að fara í þessa svokölluðu skosku leið varðandi innanlandsflugið.
Önnur tillaga varðaði uppbygginguna á höfuðborgarsvæðinu og stuðning ríkisins við borgarlínu og næstu skref þar að lútandi sem líka var samþykkt.
Í þriðja lagi var samþykkt að þingið heimilaði framkvæmdavaldinu að finna nýjar leiðir við fjármögnun flýtiframkvæmda til að geta gert meira á næstu árum.
Ein hugmyndin sem uppi hefur verið er sú að stofna opinbert hlutafélag (ohf.) og framkvæma meira á næstu árum í gegnum það fyrir lán sem síðan yrði greitt með veggjöldum í til að mynda 20 ár eftir að framkvæmdum lyki.“
Kerfi fyrir veggjaldainnheimtu ekki tilbúið Sigurður segir að þrátt fyrir þessar hugmyndir um veggjöld, þá hafi menn ekki komið sér niður á með hvaða hætti það yrði gert og tæknin til þess sé heldur ekki tilbúin.
„Þetta er bara í vinnslu og samgönguáætlun samþykkir að við getum haldið áfram að vinna á þessum nótum. Til þess höfum við stuðning þingsins.
Við höfum líka sagt, og þar vísa ég í stjórnarsáttmálann, að við séum að leita að þeirri fjármögnun sem þarf til þess að byggja upp.“

Nýting arðgreiðslna frá Landsvirkjun

„Í viðtalinu Á Sprengisandi benti ég á að við erum líka að fara að fá inn verulegar arðgreiðslur frá Landsvirkjun og hugsanlega öðrum aðilum. Við gætum líka séð eignatekjur annars staðar frá. Þar gæti verið um að ræða sölu á einhverjum ríkiseignum sem við gætum nýtt í sama tilgangi. Þá gætum við byggt upp án þess að taka lán, hvort sem við settum svo veggjöld á síðar til að greiða þær framkvæmdir eður ei. Það væri þá bara seinni tíma ákvörðun. Ég var eiginlega bara að benda á að þetta væri allt til skoðunar og engin ákvörðun hafi verið tekin. Jafnvel þótt samgönguáætlun hafi samþykkt að nauðsynlegt væri að fara í flýtiframkvæmdir vegna þess að umferðarörygginu væri ógnað.“
– Er ekki margt sem mælir með því að nýta þannig arð frá Landsvirkjun eða fé úr sölu eigna í stað þess að ríkið sé að taka lán með tilheyrandi vaxtakostnaði?
„Það sem við þurfum að horfa til í þessu efni er heildarskuldsetning ríkisins. Slíkar framkvæmdir munu auðvitað hafa áhrif á ríkissjóð. Þó við myndum stofna opinbert hlutafélag sem Vegagerðin héldi utan um, yrði það engu að síður skuldasöfnun á vegum ríkisins. Þar verður líka að hafa í huga að við erum með ákveðnar fjármálareglur sem við þurfum að standast.
Vissulega höfum við verið að greiða mjög hratt niður skuldir ríkissjóðs. Sumir hafa bent á að þar sé jafnvel of geyst farið og þörf sé á að ríkið fari út á skuldabréfamarkaðinn til að viðhalda honum með útgáfu á skuldabréfum sem gæti nýst í þessum tilgangi. Ég var því í raun og veru að segja að við séum að skoða margar ólíkar leiðir, en markmiðið er að komast í þessar flýtiframkvæmdir vegna þess að þörfin er svo sannarlega fyrir hendi.“

Ævintýralegur ávinningur gæti helmingað um 60 milljarða árlegan slysakostnað

„Ávinningurinn yrði ævintýralegur. Við myndum bæta umferðaröryggið, fækka banaslysum og öðrum alvarlegum slysum. Við höfum dæmi um að það að aðskilja akstursstefnur, eins og t.d. var gert á Reykjanesbrautinni, þá minnkaði slysatíðnin stórkostlega. Miðað við það þá getum við með vegabótum lækkað um helming áætlaðan 50 til 60 milljarða kostnað af tjónum sem verða á vegunum á hverju ári. Það gætum við gert með því að gera endurbætur á meginleiðum frá Reykjavík upp í Borgarnes, austur fyrir Selfoss og með því að tvöfalda þann kafla Reykjanesbrautarinnar sem eftir er.
Þetta yrði þjóðhagslegur sparnaður sem kæmi fram í heilbrigðiskerfinu, löggæslu og kannski fyrst og fremst á vinumarkaði vegna minni örkumlunar vegfarenda.“

Málið á dagskrá í nýrri fjármálaáætlun

– Hvernig taka félagar þínir í ríkisstjórn í svona hugmyndir?
„Við erum í sjálfu sér að vinna þetta þessa dagana í tengslum við fjármálaáætlun sem nú er gerð á hverju ári til næstu fimm ára. Við erum að stilla þeirri fjármálaáætlun upp og hvernig við getum staðið við þær skuldbindingar sem við viljum standa við. Hvort sem það er samgönguáætlun, uppbygging heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins eða aðrir þættir. Þetta erum við að skoða á sama tíma og hagsveiflan er að fara niður. Ég held því að það sé talsverð áskorun á okkur að finna fjármögnun eftir öðrum leiðum en hefðbundið er.
Það eru margir sem hafa mikla þekkingu og reynslu í vegamálum sem segja að við munum aldrei ná að byggja upp þessa vegi nema að við förum í einhvers konar flýtiframkvæmd. Það verði að fara í átak og dugi ekki að malla áfram með þeim fjármunum sem við erum tilbúin að forgangsraða meðfram fjárveitingum í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og aðra þætti. Slíkt muni ganga of hægt, því umferðarþunginn muni halda áfram að vaxa og viðhald á vegunum að aukast.“
– Verða menn þá ekki líka að horfa á að með áframhaldandi viðhaldsleysi halda vegirnir áfram að brotna niður og endurbyggingarkostnaður verður þá meiri en ella?
„Það er rétt og það var því algjört lykilatriði að ríkisstjórnin samþykkti tillögu mína í fyrra um að fara með 4 milljarða úr varasjóði í aukið viðhald. Árið 2016 settum við tæpa 6 milljarða í viðhald til Vegagerðarinnar. Á árinu 2018 settum við upphaflega 8 milljarða í þau verkefni, en bættum 4 milljörðum við. Það veitti ekki af við að takast á við skemmdir eftir erfiðan vetur. Núna erum við því á mun betri stað en fyrir einu ári. Samt er áætlað í samgönguáætlun að setja meiri fjármuni til viðhalds, eða 10 milljarða á ári næstu fimm árin. Svo á það að aukast um 2% á ári út 15 ára samgönguáætlanatímann.“

Megináherslan á að bæta umferðaröryggið

– Varðandi flýtiframkvæmdir þá er víða kallað eftir úrbótum, eru menn komnir niður á hvernig framkvæmdum verður forgangsraðað?
„Menn settu þar upp nokkrar sviðsmyndir. Númer eitt, tvö og þrjú er umferðaröryggi. Þess vegna eru menn að horfa á vegi þar sem þarf að aðskilja akstursstefnur. Það eru langsamlega arðsömustu framkvæmdirnar. Það hefur verið bent á að þegar umferðarþungi er kominn í 5.000 bíla á dag og þar yfir, þá sé nauðsynlegt að huga að því að aðskilja akstursstefnur. Annars aukist slysatíði vegna framanákeyrslu mjög mikið.
Fækkun einbreiðra brúa er líka mikilvægt umferðaröryggismál. Þar hefur Vegagerðin sett fram nýja áætlun um hvernig hægt sé að ganga hraðar til verka en áður. Þá er aftur forgangsraðað út frá umferðarþunga og þessum svartblettum þar sem slysin hafa helst orðið. Í þriðja lagi höfum við verið að horfa á að gera leiðirnar skilvirkari. Bæta umferðarflæði og stytta tíma. Þess vegna hafa líka komið til tals framkvæmdir úti á landi eins og yfir Hornafjarðarfljót með nýrri veglínu og nýrri brú. Það er bæði öryggisatriði hvað varðar fækkun þriggja einbreiðra brúa og 11 km stytting vegalengda. Framkvæmdir við það verk hófust í fyrra. Sama gildir varðandi veginn um Öxi. Þar yrði um að ræða um 60 til 70 km styttingu veglínu upp á Hérað. Ef valið yrði að fara í innheimtu veggjalda þá yrðu þetta framkvæmdir sem yrðu með blandaðri fjármögnun.
Allt er þetta til skoðunar í þessum starfshópi en þjóðhagslegur ávinningur af þessum framkvæmdum yrði margfaldur.“

Þjóðarsjóðurinn mögulega í bið

– Hvað sérðu fyrir þér að arður frá Landsvirkjun gæti skilað inn í þetta dæmi?
„Nú hafa þeir verið með áætlanir sem tengjast hugmyndum um þjóðarsjóð sem líka er í stjórnarsáttmálanum. Samkvæmt honum ætluðum við fyrst að nýta tekjurnar í uppbyggingu á hjúkrunarheimilum og hins vegar í nýsköpunarsjóð. Í framtíðinni átti arðurinn svo að fara í þjóðarsjóð til að byggja upp viðbótar öryggissjóð sem tæki á náttúruhamfaratjóni, sem við erum ekki tryggð fyrir þó við séum býsna vel tryggð. Það hefur verið metið að þessi sjóður þyrfti ekki að vera „nema“ um 250 milljarðar eða svo.
Áætlanir Landsvirkjunar eru að á næstu árum fari þeir úr því að greiða einn til tvo milljarða í arð til ríkissjóðs á ári í það að greiða 5 til 15 milljarða árlega.
Við þurfum bara að vega og meta hvar skynsamlegast sé að nota fjármunina sem þaðan koma á næstu árum. Við höfum þó hvorki misst sjónar á hugmyndinni um að nýta þá fjármuni í hjúkrunarheimili né nýsköpunarsjóð.“

Arður bankanna ekki trygg tekjulind til framtíðar

– Hvað með að nýta söluandvirði af öðrum eignum ríkisins, eins og bönkum, í slíkar flýtiframkvæmdir?
„Það er dálítið flókin umræða. Í dag heldur ríkið á allt of stórum hluta af fjármálakerfinu. Í því felst áhætta. Vissulega hafa bankarnir verið að skila umtalsverðum arði sem runnið hefur í ríkissjóð. Þeir sem þekkingu hafa segja að til lengri tíma muni gerast hlutir á bankamarkaði sem geri það að verkum að bankarnir muni ekki skila eins miklum arðgreiðslum. Það snýst m.a. um nýja fjármálatækni sem mun minnka verulega hefðbundið tekjumynstur viðskiptabanka eins og við þekkjum þá.“

Seðlabankinn skoðar mögulega opnun innlánsreikninga fyrri alla landsmenn

„Menn hafa verið með hugmyndir um að Seðlabankinn opni innlánsreikninga fyrir alla Íslendinga. Þannig getum við greiðslumiðlað með einföldu appi í símanum og á ódýran hátt. Þetta eru seðlabankar í Svíþjóð og í Bretlandi að skoða. Ég veit að Seðlabankinn hjá okkur er líka að skoða þetta.“

Sporin hræða varðandi sölu bankanna

„Þá eru að koma hér netbankar með mjög litla yfirbyggingu sem munu taka skerf af kökunni. Þannig að inn í framtíðina er ekki víst að bankarnir okkar verði þær mjólkurkýr sem þeir hafa verið í fortíðinni. Þar af leiðandi gæti verið skynsamlegt að selja áður en til slíks kemur. Við þurfum hins vegar að fara varlega á því sviði. Spor fortíðarinnar hræða í þeim efnum.“

Landsbankinn yrði mögulega að samfélagsbanka

– En er endilega nauðsynlegt að selja bæði Íslandsbanka og Landsbanka?
„Nei, við Framsóknarmenn teljum að slíkt ætti ekki að gera. Það eru til mismunandi leiðir í þeim efnum. Norðmenn héldu t.d. eftir ákveðnu eignarhaldi í fleirum en einum banka eftir sína bankakrísu á tíunda áratug síðustu aldar. Hér hefur umræðan verið meira í þá átt að halda fyrst og fremst eftir eignarhluta í Landsbankanum, jafnvel að eiga hann allan. Hugsanlega þá að nýta það eignarhald til samfélagslegrar hegðunar í bankakerfinu, eða með svokölluðum samfélagsbanka. Það er ekki nóg að ríkið geri það, fjárfestar verða þá að vera tilbúnir til að vera með samfélagslega fjárfestingarhugsun í bankanum.“
– Hefur slíkt ekki einmitt reynst vel með Sparkassen í Þýskalandi?
„Jú, það er vegna þess að fjárfestarnir standa sterkt á bak við hann. Þó svo að einhverjum núverandi banka verði ekki breytt í samfélagsbanka, þá er hugmyndin frábær og skynsamleg. Ég held að við eigum að horfa til þess og þá væri auðvitað hægt að búa til slíkan banka, en það var ekki reifað í hvítbókarskýrslunni um að sameina t.d. Íslandsbanka og Landsbanka.
Í Þýskalandi eru það oft og tíðum sveitarfélög eða fylki sem standa að baki samfélagsbönkunum. Hér gæti það verið sveitarfélögin eða ríkið.”

Þörf á samfélagslegri hugsun í stað græðgisvæðingar

„Til þess að samfélagsbanki verði að veruleika þarf samfélagslega hugsun. Ekki bara samfélagslega ákvörðun á þinginu. Það þarf samfélagslega hugsun bæði neytenda og fjárfesta.
Hingað til hefur umræðan verið keyrð svolítið áfram á forsendum græðgisvæðingar. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að halda þessari umræðu á lofti því ég tel að þetta sé leiðin til að takast á við samkeppnina í framtíðinni þar sem bankakerfið verður líklega allt öðruvísi en það er í dag. Þá fer samfélagsbanki kannski miklu skynsamlegri leið heldur en tíðkast hefur í þessu græðgiskapítalíska umhverfi sem við höfum verið í. Þar sem hámarksarðsemi virðist vera megin drifkrafturinn en er ekki endilega skynsamlegasta leiðin að mati okkar framsóknarmanna til að halda gangandi öflugu blönduðu hagkerfi. Þar sem lífshamingja fólks felst ekki í því að græða peninga, heldur að lifa góðu lífi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

Heimild: Bændablaðið 28. febrúar 2019.