Categories
Greinar

Aðgerðir og árangur á tveimur árum

Deila grein

02/12/2019

Aðgerðir og árangur á tveimur árum

Fyr­ir tveim­ur árum boðaði ný rík­is­stjórn stór­sókn í mennta­mál­um. Síðan þá hef­ur varla liðið sú vika að ekki hafi borist frétt­ir af aðgerðum eða ár­angri. Ráðist var í aðgerðir til að fjölga kenn­ur­um, sem skiluðu sér í auk­inni aðsókn í kenn­ara­nám sl. haust. Þeim bolta mun­um við halda á lofti og tryggja að sett mark­mið ná­ist. Flæði kenn­ara milli skóla­stiga mun aukast með ein­föld­un á leyf­is­bréfa­kerfi og ný lög þar um taka gildi um ára­mót. Til­lög­ur að breyttu fyr­ir­komu­lagi starfsþró­un­ar kenn­ara og skóla­stjórn­enda liggja fyr­ir og vinna við mót­un stefnu í mál­efn­um nem­enda með annað móður­mál en ís­lensku er í full­um gangi. Drög nýrr­ar mennta­stefnu til árs­ins 2030 verða kynnt á næst­unni, en mark­mið henn­ar er skýrt: Við vilj­um framúrsk­ar­andi mennta­kerfi. Þessi verk­efni, og mörg fleiri, munu með tím­an­um skila mikl­um ár­angri, en áfram þarf að hlúa að þeim fræj­um sem sáð hef­ur verið, svo þau skjóti rót­um og beri góðan ávöxt.

Íslensk­an í önd­vegi

Tungu­málið er for­senda hugs­un­ar og án þess verður eng­in þekk­ing til. Án góðrar ís­lenskukunn­áttu kom­um við hug­mynd­um okk­ar ekki í orð, hætt­um að fá nýj­ar hug­mynd­ir og drög­um úr færni okk­ar til að breyta heim­in­um. Það er því ekki að ástæðulausu sem rík­is­stjórn­in hef­ur sett ís­lenska tungu í önd­vegi. Orðaforði og málskiln­ing­ur ligg­ur til grund­vall­ar öllu námi og það er brýnt að snúa vörn í sókn, svo ís­lensk börn séu reiðubú­in þegar framtíðin bank­ar upp á. Stuðning­ur við út­gáfu bóka á ís­lensku er liður í því, sem og fjár­fest­ing í mál­tækni svo börn­in okk­ar þurfi ekki að tala ensku við tölv­ur og tæki. Þings­álykt­un um ís­lensk­una varðar veg­inn og hvet­ur okk­ur áfram, hvort sem horft er til notk­un­ar á ís­lenskri tungu eða fram­kvæmda sem hugsaðar eru til vernd­ar menn­ing­ar­arf­in­um okk­ar.

Hús ís­lensk­unn­ar er dæmi um slíka fram­kvæmd. Bygg­ing þess er loks­ins haf­in og það er ánægju­legt að sjá það langþráða hús rísa á Mel­un­um í Reykja­vík. Það mun hýsa fjöl­breytta starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og Íslensku- og menn­ing­ar­deild Há­skóla Íslands. Und­an­far­in ár hef­ur ekki verið unnt að halda sýn­ing­ar á hand­rit­um sem varðveitt eru hjá Stofn­un Árna Magnús­son­ar en með til­komu húss­ins verður bylt­ing í aðstöðu stofn­un­ar­inn­ar til að varðveita, rann­saka og miðla menn­ing­ar­arfi þeim sem hand­rit­in geyma. Gert er ráð fyr­ir að fram­kvæmd­um við húsið ljúki um sum­ar­lok 2023 og verður húsið verðugur heima­völl­ur fyr­ir fjör­egg ís­lenskr­ar menn­ing­ar, tungu­málið okk­ar.

Betri kjör náms­manna

Í stjórn­arsátt­mála er því heitið að ráðast í löngu tíma­bæra end­ur­skoðun á náms­lána­kerf­inu. Nú sér fyr­ir end­ann á því mik­il­væga verk­efni, þar sem nú ligg­ur fyr­ir Alþingi frum­varp um Mennta­sjóð náms­manna, bylt­ing­ar­kennt og full­fjár­magnað stuðnings­kerfi fyr­ir náms­menn, sem fel­ur í sér gagn­særri og rétt­lát­ari stuðning hins op­in­bera við náms­menn. Frum­varpið miðar að því að jafna stuðning og dreif­ingu styrkja rík­is­ins til náms­manna og er sér­stak­lega hugað að hóp­um sem þurfa mest á stuðningi að halda, s.s. ein­stæðum for­eldr­um, fjöl­skyldu­fólki og náms­mönn­um utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Höfuðstóll náms­láns verður lækkaður um 30% við út­skrift, beinn fjár­stuðning­ur veitt­ur vegna fram­færslu barna og boðið upp á vexti á bestu mögu­legu kjör­um. Mark­miðið er að bæta veru­lega skulda­stöðu náms­manna við út­skrift, svo hún hafi sem minnst trufl­andi áhrif á líf að loknu námi, og skapa hvata til að nem­ar ljúki námi.

Meiri fjöl­breytni

Fjöl­breytni er mennta­kerf­inu mik­il­væg. Nem­end­ur hafa ólík­ar þarf­ir og eiga að hafa val um sitt nám. Eins­leitni í námsvali og -fram­boði er ein ástæða brott­hvarfs úr fram­halds­skól­un­um og því er vel að fjöl­breytni náms­fram­boðs sé að aukast, ekki síst á fram­halds­skóla­stig­inu og að fleiri nem­end­ur séu opn­ir fyr­ir náms­kost­um t.d. á sviði verk- og tækni­greina. Fyrr á ár­inu var í fyrsta sinn sett lög­gjöf um starf­semi lýðskóla hér á landi sem skap­ar um­gjörð um fjöl­breytt­ari val­kosti í ís­lensku mennta­kerfi og nú í haust hófst nám í tölvu­leikja­gerð á fram­halds­skóla­stigi sem og sta­f­rænni versl­un og viðskipt­um, svo dæmi séu tek­in um nýj­ung­ar í skóla­starfi. Slík­um breyt­ing­um ber að fagna.

Menn­ing blómstr­ar

Á sviði menn­ing­ar og lista má nefna laga­frum­varp um sviðslist­ir og stuðning við safn­astarf, bætt aðgengi að menn­ingu og list­um, mót­un nýrr­ar menn­ing­ar­stefnu, hækk­un fram­laga til bóka­safns­sjóðs og ný lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku. Skýr­ar vís­bend­ing­ar eru um að stuðning­ur við bóka­út­gáfu sé þegar far­inn að stuðla að fjöl­breytt­ara les­efni, ekki síst fyr­ir yngstu les­end­urna því sam­kvæmt Bókatíðind­um fjölg­ar titl­um um 47% milli ára í flokki skáld­verka fyr­ir börn. Þá benda nýj­ustu kann­an­ir til þess að lest­ur sé al­mennt að aukast hér á landi, sem er afar ánægju­legt.

Á kjör­tíma­bil­inu hef­ur gengið vel að efla þá mála­flokka sem heyra und­ir mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið. Það er ánægju­legt að finna fyr­ir þeim mikla meðbyr sem mál­efn­in njóta í sam­fé­lag­inu og hvetj­andi til framtíðar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. nóvember 2019.