Categories
Fréttir

Aðgerðir fari að skila sér til sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna

Deila grein

27/01/2020

Aðgerðir fari að skila sér til sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, sagði í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið, á Alþingi í liðinni viku, að takist hafi að ná þeim meginmarkmiðum sem fiskveiðistjórnarkerfið átti að færa okkur í öndverðu að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna við landið og tryggja með því trausta atvinnu í landinu. En sagði þetta ekki hafa verið sársaukalaust.
„Já, þetta hefur tekist og má rekja þessa sögu aftur til þess að Hafrannsóknastofnun gaf út að til þess að hámarka afrakstur þorskstofnsins þyrfti að helminga sókn í hann og jafnframt koma í veg fyrir smáfiskadráp vegna lélegs ástand hans. En svo var kvótinn settur á markað og þá hófst sundurlyndið um kerfið. Mikil lóðrétt samþætting sjávarútvegsfyrirtækja hefur sannarlega skilað af sér stærri og verðmætari fyrirtækjum en að sama skapi hefur kvótinn verið á hreyfingu milli byggðarlaganna þannig að í sumum byggðum stendur lítið eftir nema sá félagslegi kvóti sem til skiptanna er,“ sagði Halla Signý.
„Við eigum það til að hreykja okkur af því að íslenskur sjávarútvegur sé sá besti og sjálfbærasti í heimi. En til þess að teljast sjálfbært þarf kerfið að vera allt í senn efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega sjálfbært. Á því er enginn vafi að kerfið okkar er efnahagslega sjálfbært, í umhverfismálum stendur íslenskur sjávarútvegur sterkt og nytjastofnar hafa dafnað.
En er fiskveiðistjórnarkerfið okkar samfélagslega sjálfbært?
Þar má a.m.k. að gera úrbætur. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur skipað nefnd sem á að endurskoða félagslegt aflamark og vil ég hvetja hann til dáða í því verkefni og til að sjá til þess að aðgerðir fari að skila sér til þeirra sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Auðlindaákvæði í stjórnarskrá“

Deila grein

27/01/2020

„Auðlindaákvæði í stjórnarskrá“

„Við ræðum hér fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga. Með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, sem er aflamarkskerfi, hefur tekist að byggja upp öflugan, tæknivæddan og umhverfisvænan sjávarútveg sem færir okkur gríðarlegar útflutningstekjur á ári hverju, veltu, störf og afleidd störf um allt land. Allt frá því að framsal kvóta var gefið frjálst hefur ágreiningur verið um eiginlegt eignarhald hans. Lög og reglugerðir vitna ýmist í fiskinn sjálfan, nytjastofna eða veiðiheimildir og þykja hvorki skýra óskorað eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindinni né heldur hverjir fari með forræði og ráðstöfunarrétt hennar,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í umræðum um fiskveiðistjórnunarkerfið á Alþingi í síðustu viku.
„Við þessu er einfalt svar. Auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Framsókn hefur unnið og mun áfram vinna að því að óskorað og ótvírætt eignarhald þjóðarinnar á öllum náttúruauðlindum Íslands muni lögfest í stjórnarskrá. Auðlindaákvæðið mun ekki eitt og sér koma á sætti um fiskveiðistjórnarkerfið en það er eitt af fjölmörgum skrefum sem hægt er að taka,“ sagði Þórarinn Ingi.
„Á kjörtímabilinu 2013–2016 starfaði svokölluð sáttanefnd með fulltrúum stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila sem gerði tillögur að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Langtímasamningar um veiðiheimildir sem undirstrika eignarhald þjóðarinnar og gefa sjávarútvegsfyrirtækjum tækifæri til langtímahugsunar og fyrirsjáanleika voru rauði þráðurinn í þeim breytingum sem lagðar voru til. Slíkar breytingar gætu verið annað skref. Á sama tíma hljótum við að velta því fyrir okkur hvort kvótaþakið, bæði á heildarveiðiheimildum og í einstökum tegundum, sé ekki of hátt því að kvótakerfið var ekki gert til þess að heimildir gætu þjappast saman á fárra hendur og að fáir einstaklingar gætu orðið of ríkir.“

„Frú forseti. Ég er ekki að tala um algera byltingu í fiskveiðistjórnarkerfinu heldur tímabærar og réttlátar umbætur í skrefum.“

Categories
Fréttir

„Þekkingunni ber að viðhalda“

Deila grein

27/01/2020

„Þekkingunni ber að viðhalda“

„Fyrir tíu árum gerðumst við aðilar að matvælalöggjöf EES. Tilgangur matvælalöggjafarinnar er að stýra því að auka gæði matvæla og bæta stöðu neytenda. Við gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og að sama skapi eiga neytendur rétt á því að sambærilegar kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í umræðu um stefnu stjórnvalda í matvælaframleiðslu á Alþingi í liðinni viku.
Halla Signý benti á að loftslagsmál væri eitt helsta áherslumál ríkisstjórnarinnar og að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hafi að markmiði að Ísland ná markmiðum Parísarsamkomulagsins árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040.
„Hluti af þeirri áætlun hlýtur að vera að stefna að því að styrkja innlenda matvælaframleiðslu og styrkja alla umgjörð og nýtingu lands í átt að sjálfbærni. Innlend matvælaframleiðsla er best til þess fallin að fækka kolefnissporum og stuðla að minni umhverfissporum. Fæðuöryggi byggist á þekkingu á matvælaframleiðslu og -vinnslu. Slík þekking er oft staðbundin og hér á landi þarf að viðhalda þeirri þekkingu á sérstöðu okkar. Íslenskir bændur þekkja handbragð við heimaslátrun. Það eru verðmæti sem ber að varðveita. Meðhöndlun íslenska lambakjötsins er því mikilvæg og við sem höfum alist upp við það að hafa aðgang að heimaslátruðu kjöti og vitum hversu mikilvægt er að kjötið nái að meyrna vitum að þar nást fram mestu gæði kjötsins,“ sagði Halla Signý.
„Þekkingunni ber að viðhalda. Þess vegna er það skylda okkar löggjafans að vinna að því að búa svo um að handbragð við heimaslátrun verði áfram hluti af íslenskri menningu. Viðbrögð á undanförnum árum við heimaslátrun hafa í besta falli verið vandræðaleg og fálmkennd. Við leggjum á boð og bönn í þágu heilbrigðiskrafna þrátt fyrir að vita betur. Því er sala nú á heimaslátruðu kjöti glæpur, já, eins og að selja fíkniefni,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Það eru blikur á lofti“

Deila grein

27/01/2020

„Það eru blikur á lofti“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, tók þátt í umræðu um stefnu stjórnvalda í matvælaframleiðslu á Alþingi í liðinni viku. Sagði hann réttilega það vera mikla „áskorun alla daga að framleiða matvæli, áskorun fyrir okkur sem þjóð að framleiða matvæli með tilliti til loftslagsmála og fæðuöryggis þjóðarinnar“.
„Það er mikil áskorun að framleiða og fæða þjóðina en það eru blikur á lofti. Við störfum í alþjóðlegu matvælaumhverfi sem kallar á mikla samkeppni erlendis frá, samkeppni sem ekki er sanngjörn ef horft til stærðar og hagkvæmnissjónarmiða.
Samkeppnislög hér á landi eru hamlandi fyrir þróun innlendrar matvælaframleiðslu. Því verðum við að breyta.
Sérstaða okkar er hrein náttúra, ferskleiki matvæla og aðgangur að hreinu vatni. Gott hráefni er undirstaða matvælaframleiðslu út frá lýðheilsusjónarmiðum. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leggja m.a. áherslu á ábyrga neyslu með minni matarsóun, sjálfbæru verklagi við opinber innkaup og upplýstu samfélagi um sjálfbæra þróun. Með því að velja innlend matvæli í stað sambærilegra innfluttra matvæla er stuðlað að auknu fæðuöryggi og eflingu atvinnustarfsemi hér á landi.
Virðulegi forseti. Það veldur mér áhyggjum hvernig er haldið utan um íslenskan landbúnað innan opinberrar stjórnsýslu. Vægi landbúnaðar innan ráðuneytis sjávarútvegs og landbúnaðar er lítið og það er mín einlæga skoðun að stofna eigi að nýju ráðuneyti landbúnaðar því að málaflokkurinn krefst mikillar yfirlegu og athygli til að mæta þeim áskorunum sem matvælaframleiðsla framtíðarinnar ber í skauti sér,“ sagði Þórarinn Ingi.

Categories
Fréttir

Fæðingarorlof lengt í 12 mánuði

Deila grein

23/01/2020

Fæðingarorlof lengt í 12 mánuði

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fékk samþykkt á Alþingi fyrir áramót frumvarp sitt um lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf mánuði. Við loka atkvæðagreiðslu málsins á Alþingi sagði Ásmundur Einar:

„Þetta er gríðarlega mikið hagsmunamál barnafjölskyldna á Íslandi að þessi lenging komi til framkvæmda. En, við skulum heldur ekki gleyma því að núverandi ríkisstjórn er líka búinn að hækka greiðslu úr fæðingarorlofi og það er gaman að frá því að segja að loknu þessu kjörtímabili þá munu heildar greiðslur sem renna til barnafjölskyldna á Íslandi í gegnum fæðingarorlofskerfið hafa aukist úr 10 milljörðum í 20 milljarða á ársgrunni.“ – á Alþingi 17. desember.

„Markmið er að tryggja börnum frekari samvistir við báða foreldra sína og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“

Enn og aftur er það undir forystu Framsóknar sem stigið er skref til aukinna réttinda fyrir fjölskyldur í landinu.
Lenging fæðingarorlofs og fæðingarstyrks
Samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 er gert ráð fyrir því að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks verði lengdur úr 9 mánuðum í 12 mánuði vegna barna sem fæðast eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árin 2020 og 2021.
Þannig er fyrirhugað að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum og taki eins og áður segir til foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árin 2020 og 2021 en ekki er gert ráð fyrir lengingu fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir þann tíma.
Árið 2020 (foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árið 2020 eða síðar):

  • Sjálfstæður réttur foreldra mun lengjast um 1 mánuð í 4 mánuði.
  • Sameiginlegur réttur foreldra verður 2 mánuðir í stað 3 áður.
  • Samanlagður réttur foreldra verður því 10 mánuðir (4-4-2)

Réttur foreldris sem er eitt verður 10 mánuðir (Hitt foreldrið hefur andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi, einhleyp móðir sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur ættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur).
Árið 2021 (foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árið 2021 eða síðar):

  • Sjálfstæður réttur foreldra mun lengjast um 2 mánuði í 5 mánuði.
  • Sameiginlegur réttur foreldra verður 2 mánuðir.
  • Samanlagður réttur foreldra verður því 12 mánuðir (5-5-2)

Réttur foreldris sem er eitt verður 12 mánuðir (Hitt foreldrið hefur andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi, einhleyp móðir sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur ættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur).

Ágrip að forsögu þjóðfélagsumræðu og lagasetningar fæðingarorlofs

„Að mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið“

Margrét Sigurðardóttir, varaþingmaður Alþýðubandalagsins, systir Halldórs E. Sigurðssonar, alþingismanns og ráðherra Framsóknarflokks, flutti fyrsta frumvarpið til laga um fæðingarorlof á Alþingi 1960. Í framsöguræðu sinni sagði hún m.a.:

„Sú hefur orðið reyndin um heim allan, að með breyttum þjóðfélagsháttum, vélvæðingu og sérhæfingu hætta heimilin að vera þær vinnustöðvar, sem þau voru áður. Afleiðingin er óhjákvæmilega sú, að fjöldi kvenna leitar sér starfssviðs utan vébanda þeirra, auðvitað fyrst og fremst ógiftar konur og barnlausar, en í æ ríkara mæli einnig þær, sem eiga fyrir heimili að sjá.
Hvort sem mönnum geðjast þessi þróun eða ekki, mun öllum aðilum hollast að viðurkenna, að þannig er þessu varið. Það mun affarasælast að átta sig á nýjum og breyttum viðhorfum og snúa sér að athugun á því, hvernig bezt er hægt að samræma þátt konunnar í athafnalífinu hennar mikilvægasta verkefni, móðurhlutverkinu. Þau spor, sem stigin eru í þá átt að gera konunni auðveldara, árekstraminna og öruggara að annast störf sín, jafnframt því sem hún rækir skyldurnar við börn sín, eru heillavænleg spor, líkleg til að skapa þjóðfélaginu farsæld og kjölfestu.
Það frv. um fæðingarorlof, sem hér liggur fyrir, er hugsað sem liður í þeirri mæðravernd, sem öll nútíma menningarþjóðfélög láta sér annt um að efla.“

Á öðrum stað í ræðu sinni sagði Margrét:

„Full ástæða er til að ætla, að þetta mál njóti skilnings hér á landi, og það hefur reyndar sýnt síg í verki. Eins og kunnugt er, hafa konur í þjónustu ríkis og bæja þriggja mánaða orlof með fullum launum vegna barnsburðar. Virðist það einfalt réttlætis- og sanngirnismál, að konur, sem vinna hin erfiðustu störf í framleiðslunni, iðnverkakonur, verzlunar- og fjöldi skrifstofustúlkna, fái einnig að njóta þeirra réttinda, sem konur í þjónustu ríkisins hafa notið um sex ára skeið.
Verkakvennafélög hafa vitanlega haft mikinn hug á að tryggja félögum sínum fæðingarorlof, en lítið orðið ágengt í samningum við atvinnurekendur. Aðeins tvö félög hafa náð samningum um þetta atriði.“

Í lögum um almannatryggingar frá 1946 voru ákvæði um greiðslur í 3 mánuði vegna barnsburðar en þó einungis ætlaðar einungis ætluð ógiftum mæðrum. En í frumvarpi Margrétar var hins vegar enginn munur gerður á giftum konum og ógiftum, „þar sem telja verður, að flestallar konur, sem leggja fyrir sig störf utan heimilis, hafi þörf fyrir launin, sem fyrir þau eru greidd, og jafnframt, að þjóðfélaginu sé þörf og þökk að hverri vinnandi hönd, sem nytsöm störf vinnur“.
Ákvæði um þriggja mánaða greiðslu vegna barnsburðar, sem var í tryggingalögunum frá 1946 var fellt út við endurskoðun laganna 1951. „Sömuleiðis var þá felld úr tryggingalögunum bótagreiðsla, sem mæður, sem unnu ekki utan heimilis síns, fengu „upp í þann kostnað, sem fæðingin hafði í för með sér,“ eins og það er orðað í tryggingalögunum. Eftir var þá aðeins hinn almenni fæðingarstyrkur, sem greiðist öllum mæðrum jafnt. Hann var hækkaður 1951 og er nú röskar 2 þús. kr. Hann hrekkur rétt aðeins til greiðslu vegna sængurlegu á fæðingarstofnun og gengur beint til þess, þannig að móðirin fær hann ekki í hendur til persónulegra afnota. Hins vegar er styrkurinn greiddur beint til móðurinnar, ef hún elur barn sitt í heimahúsum.“
Vísir að fæðingarorlofi, sem fólst í lögunum frá 1946, var ófullnægjandi og í honum gætti beinlínis rangláts misræmis gagnvart giftum mæðrum, sem missa tekjur vegna barnsburðar.
Ákvörðun Alþingis 1951 var spor aftur á bak í tryggingamálum enda fáir eða engir búið við erfiðari lífskjör heldur en einstæðar mæður, — „og það er því sannarlega ráðizt á garðinn, þar sem hann er lægstur, þegar dreginn er spónn úr aski þeirra, — heldur einnig vegna þess algilda sannleika, „að mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.“ Og þarna var sporið stigið aftur á bak, í staðinn fyrir að taka sporið fram á við og láta alla, sem eðli málsins samkvæmt gátu átt rétt til þess að njóta þessara bóta, fá tilkall til þeirra,“ sagði Margrét.

1970

Rauðsokkar þinga

„Vinna að fullkomnu jafnrétti karla og kvenna á öllum sviðum þjóðfélagsins“

Vilja vinna að fullkomnu jafnrétti karla og kvenna á öllum sviðum þjóðfélagsins og vinna gegn því, að kynferði komi í veg fyrir, að einstaklingar geti valið sér starf í samræmi við hæfileika sína og áhugamál.

„Stefna ber að því, að allir foreldrar fái fæðingarorlof, líka feður, ef þeir búa með barnsmæðrum sínum. Orlof mæðra verði þrír mánuðir, feðra hálfur mánuður. Þetta kemur í veg fyrir upplausn heimilisins meðan konan er að heiman og veitir karlmanninum þau sjálfsögðu réttindi að kynnast barni sínu og meðhöndlun þess. Fær því móðirinn umönnun og hvíld.“

1975

Að eitt verði yfir allar konur látið ganga

Lögð var fram tillaga til þingsályktunar á Alþingi 1975 um fæðingarorlof kvenna og fæðingarstyrk, og þar sagði m.a. í greinargerð:

„Eitt af því, sem veldur talsverðri mismunun milli kynja og gerir bæði afkomu og atvinnu konunnar ótryggari en karlmanna, er að við barnsburð nýtur kona allajafna ekki launa nema í mjög skamman tíma, eða 10-14 daga, sem augljóslega er allt of skammur tími. Frá þessu er þó veigamikil undantekning, því að þær konur, sem starfa hjá ríki og bæjarfélögum, njóta 3ja mánaða barnsburðarfría eða orlofs á fullum launum.
Með tillögu þessari er lagt til að eitt verði yfir allar konur látið ganga í þessum efnum og ríkisstjórninni verði falið að gera þær breytingar á lögum um almannatryggingar, að þar verði konum tryggð þessi sjálfsögðu réttindi.“

1976

„Máttarminnstu þegnar þjóðfélagsins“

„Víða um lönd er nú að rísa upp hreyfing um að gefa þeim gaum, sem réttilega eru nefndir máttarminnstu þegnar þjóðfélagsins, ungbörnin. Meðal uppeldisfræðinga fær sú skoðun nú vaxandi byr, að börnin mótist mest á fyrstu árunum. Þess vegna sé það einn brýnasti þáttur uppeldismála að búa vel að ungbörnum.
Alveg sérstaklega er þessum málum gaumur gefinn í nágrannalöndum okkar. Í Svíþjóð var það eitt höfuðmál kosninganna, að foreldrum yrði sköpuð bætt skilyrði til að geta hlynnt að börnum sínum á fyrsta ári uppvaxtar þeirra. Þar er nú í gildi sjö mánaða fæðingarorlof, en fyrirhugað er að bæta við fimm mánaða orlofi, sem geti skipzt jafnt milli foreldranna. Kostnaður verði greiddur af almannatryggingum. Þetta er gert til þess, að ungbörn séu eins mikið í umsjá foreldra sinna og kostur er. Þá eru uppi ráðagerðir um, að auka mjög barnastyrkina, en draga í staðinn úr styrkjum til barnaheimila. Þetta er fyrirhugað til að styrkja heimilin í því að annast sem mest uppeldi ungbarna.
Í Danmörku er nú verið að hleypa af stokkunum nefnd, sem á að gera viðtæka athugun á málefnum barna innan skólaskyldualdurs. Henni er síðan ætlað að gera ákveðnar tillögur.
Slíka athugun ber einnig að gera hérlendis. Málefni yngstu borgaranna, þótt þeir séu máttarminnstir, mega ekki verða útundan. Framtið þjóðarinnar veltur ef til vill mest á aðbúnaðinum, sem þeir hljóta.“ – Leiðari Tímans 4. október 1976.

Fæðingarorlof þarf að verða a.m.k. sex mánuðir og föðurrétturinn verða aukinn

Gerður Steinþórsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokks, greinir frá umræðum og álytkunum ráðstefu um kjör láglaunakvenna í grein í Tímanum 1976. Þar segir hún:

„60% giftra kvenna vinna utan heimilis og þeirri þróun verður ekki snúið við. Það er skoðun mín, að hússtörf eigi að verða ólaunuð áfram, en sú breyting verða á, að eiginmaðurinn vinni þau til jafns við eiginkonuna. Hið sama gildi um uppeldi barna, meiri áherzlu eigi að leggja á föðurhlutverkið og föðurrétturinn verða aukinn. Á sama hátt verði konur jafnábyrgir aðilar og karlar á vinnumarkaðinum. En börn eiga rétt á betri uppeldisskilyrðum en nú er almennt. Til að svo verði, þarf að stórauka þekkingu fólks á uppeldismálum, fæðingarorlof þarf að verða a.m.k. sex mánuðir og vinnumarkaðurinn þarf að taka tillit til foreldrahlutverksins með sveigjanlegri og styttri vinnutíma. Síðast en ekki sízt þarf að draga úr vinnuálagi hér á landi með því að semja um dagvinnu í kjarasamningum. Dagvistarstofnanir gegna því hlutverki að vera eðlileg uppeldis aðstoð við heimilin. Jafnframt þurfa skólar að verða einsetnir og líta verður á þá sem hverja aðra manneskjulega vinnustaði.“

1980

Fæðingarorlof

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1980 skorar á stjórnvöld að lögfesta fæðingarorlof allra kvenna í landinu strax á næsta Alþingi.“

–  Aðalfundur Stéttarsambands bænda að Kirkjubæjarklaustri.

1981

Fæðingarorlof

Í tengslum við gerð kjarasamninga á árinu 1980 gaf ríkisstjórnin yfirlýsingu um að hún myndi beita sér fyrir ýmsum félagslegum réttindamálum. Eitt þessara mála er fæðingarorlof fyrir allar konur. Samkvæmt lögum þessum um fæðingarorlof nr. 97/1980 eiga nú allar konur sama rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs, en á mismunandi launum, allt eftir atvinnuþátttöku. Með lögunum verður sú meginbreyting að heimavinnandi konur og þær sem stunda óveruleg hlutastörf fá í fyrsta skipti fæðingarorlof.
Þá taka lögin til feðra einnig, en þeir eiga nú rétt til þess að taka hluta fæðingarorlofs í stað móður.
Samkvæmt lögunum á foreldri sem hefur hálfa til fulla dagvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingu, rétt á óskertum mánaðargreiðslum í þrjá mánuði. Viðmiðunargreiðslurnar voru, þegar lögin voru sett, gkr. 530 þús. á mánuði. Foreldri sem hefur fjórðungs til hálfa dagvinnuþátttöku á síðustu 12 mán. á rétt á 2/3 af þessum greiðslum í þrjá mánuði. Foreldri sem er utan vinnumarkaðar, heimavinnandi eða er með fjórðungs dagvinnuþátttöku eða minni á samkvæmt lögunum rétt til 1/3 af fullri miðmiðunargreiðslu í þrjá mánuði.
Sú meginbreyting verður með lögunum að nú greiðist fæðingarorlof úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins gegn framvísun vottorðs læknis og sönnunar um launagreiðslur og atvinnuþátttöku. Áður var fæðingarorlof, eins og kunnugt er, bundið kjarasamningum og greiðslum atvinnurekanda og atvinnuleysisbótum. Ef um fleirburafæðingu er að ræða framlengist fæðingarorlof um einn mánuð. Sé móður nauðsynlegt af heilsufars- og öryggisástæðum að hefja töku fæðingarorlofs meira en einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag, á hún rétt á fæðingarorlofslaunum í allt að fjóra mánuði. Ættleiðandi foreldri, uppeldiseða fósturforeldri á nú rétt til fæðingarorlofsgreiðslna allt að tveim mánuðum vegna töku barns til 5 ára aldurs. Öll þessi atriði eru nýmæli.
 

„Geng þess ekki dulin, að vinnuálag kvenna er mjög mikið“

Nú fara menn frá heimilum sínum, frá útivinnandi konum og börnum á öllum aldri til fundahalda í Reykjavík. Einhvern skilja þeir eftir. Þarf jafnréttisbaráttan ekki að byrja inni á heimilunum?
„Ég held, að það sé nú ekki orðin sú verkaskipting í þjóðfélaginu enn, að konur geti alfarið farið út af heimilum sínum. Það gera það alltaf einhverjar konur, en það er ekki lagt mikið á þær, þegar t.d. um samninga er að ræða. Þá fara formenn sambandanna.“
Konur geta sem sagt haldið áfram að vinna sína 16 tíma á sólarhring og látið karlana um félagsmálin?
„Ég geng þess ekki dulin, að vinnuálag kvenna er mjög mikið og það sem ætlast er til af þeim er margþætt. Það spilar vissulega inn í, þegar þær verða ekki innstu koppar í búri, ef svo má að orði komast, í sínum félagsskap. Þó verð ég að segja, að þær, sem komnar eru til starfa af heilum hug, eiga erfitt með að ryðja sér braut.“
Konur fá að gjalda þess að þær eru varavinnuafl og t.d. er fæðingarorlofi þröngur stakkur sniðinn. Hvað er hægt að gera?
„Í samningum hafa þessi mál verið gefin eftir, af því að það er alltaf verið að horfa á krónurnar, sem fást úr launaumslögunum. Þó að konur og karlar eigi börn sameiginlega, þá hefur vissum hópum þótt hagkvæmara að geyma þessi mál til betri tíma. Ég er á því, að við náum ekki fullum jöfnuði á við aðrar stéttir — t.d. starfsmenn ríkis og bæja, nema í gegnum lög. Til þess þurfum við að hafa góða stjórn.

„Konur eru bundnar vissu hlutverki“

Þú vilt meina, að fæðingarorlof eigi ekki lengur að fást í gegnum atvinnuleysisbætur, heldur tryggingar?
„Já, auk þess er það ákaflega takmarkaður fjöldi kvenna sem árétt á þessu. Geysilegur fjöldi, sem ekkert fær. Til þess að hafa rétt á fullu fæðingarorlofi, þarf konan að hafa unnið 1032 tíma á vinnustað, þar sem greitt er í atvinnuleysistryggingar a.m.k. í tólf mánuði. Þetta er mælt í dagvinnustundum, en næturvinna ekki talin með. Þarna er verið að gera atvinnuleysistryggingar óvirkar, en fæðingarorlofið er stærsti útgjaldaliður þeirra. Það verður í raun að finna fæðingarorlofinu annan fjárhagsgrundvöll.“
Ertu bjartsýn á að konur geti farið að beita sér meira en þær hafa gert?
„Það er ekki svo gott að ráða bót á þessu. Konur eru bundnar vissu hlutverki, sem ekki er hægt að ganga fram hjá. Ég vil rétt kvenna sem mestan, en ég á enga formúlu um það hvernig réttur þeirra sé best tryggður. Það fær mig alla vega enginn til að viðurkenna, að ekki þurfi öruggt foreldrahlutverk.“
 

1983

Allar konur eigi rétt til fæðingarorlofs – hvort sem þær taka laun á vinnumarkaði eða ekki

Alexander Stefánsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra Framsóknarflokksins, var fyrsti flutningsmaður að frumvarpi um fæðingarorlof á Alþingi 1983. Samkvæmt því var gert ráð fyrir að allar konur ættu rétt til fæðingarorlofs, hvort sem þær tækju laun á vinnumarkaði eða ekki. En eins og málum var háttað var upphæð fæðingarstyrks ekki sú sama til allra vinnandi kvenna og er hrópandi óréttlæti gagnvart heimavinnandi konum. Þetta frumvarp, sem Alexander flytur ásamt Ólafi Þ. Þórðarsyni og Stefáni Valgeirssyni, er mjög tímabært.
Með samþykkt þess á Alþingi yrði alvarlegur ágalli á núgildandi lagaákvæðum um fæðingarorlof felldur burtu og öllum konum tryggður sami réttur til þriggja mánaða fæðingarorlofs.

Fjölskyldupólitík

Framsóknarflokkurinn mótaði fyrstur flokka á Íslandi stefnu í fjölskyldupólitík. Árið 1979 var stofnaður innan flokksins starfshópur um fjölskyldumál og skilaði hann áliti á aðalfundi miðstjórnar 3.-5. apríl 1981. 21. nóvember 1980 lögðu þingmennirnir Haraldur Ólafsson og Alexander Stefánsson fram á Alþingi þingsályktunartillögu um stefnumörkun í fjölskylduvernd, en henni var vísað til Allsherjarnefndar og svæfð þar.
Landsfundur framsóknarkvenna á Húsavík dagana 28.-30. október fagnar því að Framsóknarflokkurinn skyldi fyrstu flokka flytja þingsályktunartillögu um fjölskylduvernd. Við beinum þeim tilmælum til félagsmálaráðherra að hann skipi hið fyrsta nefnd er undirbýr löggjöf um samræmda stefnu í málum er varða eflingu og vernd fjölskyldunnar með tilliti til mikilvægis hennar í þjóðfélaginu og gera henni kleift að sinna vel uppeldis- og umönnunarhlutverkum sínum. Landsfundurinn leggur áherslu á eftirfarandi atriði:
Vinnumarkaðurinn viðurkenni foreldrahlutverkið.
Hraðað verði afgreiðslu á breytingu á lögum um fæðingarorlof, sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram á Alþingi. Það felur í sér að öllum foreldrum verði tryggðar sömu greiðslur frá Tryggingarstofnu ríkisins, án tillits til atvinnuþátttöku.

1984

Hvar hafa mamma og pabbi efni á að vera heima?

Finnland — heilt ár í fæðingarorlof

Þegar kona í Finnlandi hefur fætt barn á hún rétt á hvorki meira né minna en 12 mánaða fæðingarorlofi. Fyrstu sex mánuðina fær hún næstum full laun (80% af launum) og seinni hluta tímabilsins fær hún 70% af launum, sem hún hafði í starfi. Fyrri hluta fæðingarorlofsins getur konan ein tekið út, en seinni hlutann geta faðir og móðir skipt með sér að eigin ósk. Þó er það svo, að konur eru í stórum meirihluta þeirra, sem taka einnig fæðingarorlofið út á seinni hlutanum. Á síðasta ári voru aðeins um 7% af þeim, sem tóku út fæðingarorlof, karlmenn. Í Finnlandi var miklum umbótum komið á í þessu efni fyrir nokkrum árum, en þá var m.a. mörkuð sú stefna, að foreldrar skyldu fá meiri tíma til að sinna ungum börnum sínum en áður. Einnig var nokkuð tekið mið af þörfum atvinnulífsins fyrir vinnuafl, en með löggjöf um fæðingarorlof skiptust störf í landinu á fleiri hendur.
Samkvæmt lögum um fæðingarorlof hér á landi eiga foreldrar sem lögheimili eiga hérlendis, rétt á þriggja mánada orloti. Undanskildar eru þó þær konur, sem eru opinberir starfsmenn eða bankamenn og eiga rótt á þriggja mánaða launum í fæðingarorlofi. Fæðingarorlof greiðist bæði til heimavinnandi og útivinnandi foreldra og námsmanna, en vinna við launuð störf hefur áhrif á upphæð fæðingarorlofs.
Fæðingarorlof greiðist í þremur flokkum ettir vinnustundafjölda fyrir barnsburð. Fulla fæðingarorlofsgreiðslu fá þeir, sem unnið hafa 1032 dagvinnustundir undanfama 12 mánuði. Upphæð í samræmi við þetta var 14.114 í október og heildarupphæð fyrir þriggja mánaða timabil náði 42.342 krónum. Eftir öðrum flokki eru greiddir % hlutar heildargreiðslu en það gera 9.409 á mánuði eða 28.227 á þriggja mánaða tímabili.
Minnst er greitt til fæðingarorlofs 4.705 á mánuði eða 14.115 krónur á þriggja mánaða timabili.
Á árinu 1983 fór langstærstur hluti foreldra í hæsta flokk. 2.718 manns fengu þá bætur samkvæmt hæsta greiðsluflokki. 778 voru í miðflokknum og 762 fengu þriðjung af heildargreiðslunni.
Af þessu má sjá, að langstærsti hluti þeirra, sem fá fæðingarorlof hér á landi, fá fullar greiðslur og eru þeir um helmingi fleiri en samanlagt eru í lægri flokkunum tveimur.
Feður geta tekið fæðingarorfof hér á landi, ef móðir samþykkir. Getur faðir þá fengið að taka þriðja mánuð orlofsins, en um leið fellur greiðsla til móður niður. Þessi heimild hefur ekki verið notuð mikið hér á landi eins og víðast hvar á Norðurlöndum fyrstu árin sem fæðingaorlof er í gildi.

„Hvers konar helvítis letingi er þetta, farinn heim að þvo bleiur!“

■ Jón Sæmundur Sigurjónsson deildarhagfræðingur i tryggingaráðuneytinu í viðtali við Tímann.
Nú sýnir reynslan, að mjög fáir karlmenn notfæra sér fæðingaroriof hér. Hver er skýringin?
„Reynslan erlendis er sú, að karlmönnum fjölgar yfirleitt hægt sém taka fæðingarorlof. Þeir eru feimnir á þessu sviði; En ekki ber að draga dul á, að það kerfi, sem við höfum sett upp er viss hindrun. Þarna virkar jafnréttisbaráttan með öfugum formerkjum. Núverandi kerfi þýðir nefnilega, að fjölskyldan fer stundum mjög niður í launum, ef karlmaðurinn tekur sér fæðingarorlof. Ef við hefðum hins vegar þann hátt á, að launþegar héldu sínum föstu launum, þ.e. engin röskun yrði á þeirra högum við fæðingarorlof, þá má telja víst, að meiri hvati yrði fyrir karlmenn að nota séf þessa heimild í lögum.
Það er viss niðrun fólgin í núverandi skipan fyrir karlmanninn. Fjölskyldan lækkar oft verulega í launum við það, að hann tekur orlof. Það má því segja, að þetta sé jákvæða hliðin á karlrembunni. Hann vill ekki láta það spyrjast, að hann sé heima upp á að fjölskyldan líði skort fyrir. Ekki má fyrir, nokkra muni spyrjast, að karlmaður taki fæðingarorlof til þes’s eins að lækka stórkostlega í laúnum. Viðhorfið til hans meðal annarra karla verður vitanlega þetta: „Hvers konar helvítis letingi er þetta, farinn heim að þvo bleiur.“
Nú eru aðeins 4% af orlofsþegum á síðasta ári karlmenn. Býst þú við miklum breytingum á næstu misserum?
„Nei, ég get ekki sagt það. Tvennt kemur í veg fyrir einhver heljarstökk í þessu efni. Annars vegar er það kerfi sem við höfum komið upp, sem er eins og ég hef útlistað, hemill á orlof karlmanna. Hins vegar er hugarfarið, hið sívakandi auga náungans, sem hér á landi í nábýlinu er áhrifaríkara en víðast í hinum stærri samfélögum.“

1987

Fæðingarorlof

Með lögum um fæðingarorlof, sem gengu í gildi 1. janúar 1981, var öllum konum, sem lögheimili eiga á íslandi, tryggður réttur til fæðingarorlofs í 3 mánuði. Almannatryggingar greiða fæðingarorlof bæði til heimavinnandi og útivinnandi foreldris og námsmanna, en vinna við launuð störf hefur hins vegar áhrif á upphæð fæðingarorlofs.
Lögin taka þó ekki til opinberra starfsmanna og bankamanna, sem eiga rétt á 3 mánaða óskertum launum í fæðingarorlofi. Faðir á rétt á að taka síðasta mánuð fæðingarorlofs með samþykki móður og fellur þá greiðsla hennar niður þann mánuð.

Fjárhæð fæðingarorlofs:

Fullt fæðingarorlof eða kr. 33.897 á mánuði, greiðist þeim sem unnið hafa a.m.k. 1032 dagvinnustundir á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs.
2/3 hlutar, kr. 22.598 á mánuði, greiðist þeim sem unnið hafa 516-1031 dagvinnustund á 12 mánaða tímabilinu.
1/3 hluti, kr. 11.299 á mánuði, greiðist þeim sem unnið hafa minna en 516 dagvinnustundir á mánuði á viðmiðunartímabilinu. Undir það falla konur sem eingöngu vinna heimilisstörf.
Kjör- og fósturforeldrar eiga rétt á 2 mánaða greiðslu vegna töku barns undir 5 ára aldri. Er þá um fullt fæðingarorlof að ræða. Séu fleiri en eitt barn ættleidd eða tekin í fóstur á sama tíma greiðist fæðingarorlof í 3 mánuði.
Sérreglur gilda um fæðingarorlof námsmanna, eiginkvenna bænda og dagmæðra. Námsmenn og eiginkonur bænda eiga rétt á 2/3 hlutum af heildargreiðslu en um dagmæður gildir sú regla að heilsdagsgæsla eins barns í 12 mánuði telst jafngilda 516 dagvinnustundum og tveggja barna 1032 stundum.
Rétt er að gæta þess að atvinnuleysistímabil telst til atvinnuþátttöku og tímabil, sem greiddir eru sjúkradagpeningar, jafngildir unnum vinnustundum.

Sérreglur um lengra eða styttra fæðingarorlof

Fæðingarorlof framlengist um einn mánuð i eftirtöldum tilvikum:

  1. Við fleirburafæðingu lengist orlof um einn mánuð fyrir hvert barn umfram eitt.
  2. Veikindi móður í meira en mánuð fyrir fæðingu barns.
  3. Veikindi barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.

Í sambandi við lið 2 og 3 þarf að fylgja læknisvottorð og síðan metur tryggingayfirlæknir hvort framlenging sé nauðsynleg.

Fæðingarorlof greiðist í einn til þrjá mánuði:

  1. Við andvana fæðingu greiðist fæðingarorlof í þrjá mánuði.
  2. Sé um að ræða fósturlát eftir 20 vikna meðgöngu greiðist fæðingarorlof í tvo mánuði.
  3. Ef foreldri lætur barn frá sér til ættleiðingar eða fósturs greiðist fæðingarorlof í a.m.k. í einn mánuð eftir fæðingu barnsins.

Fæðingarorlof íslenskra foreldra sem búsettir eru á Norðurlöndum:

Með Norðurlandasamningi um félagslegt öryggi er réttarstaða íslenskra foreldra búsettra á Norðurlöndum hin sama og ríkisborgara búsetulandsins, þ.e.a.s. þeir njóta fullra fæðingarorlofsréttinda skv. lögum búsetulandsins.
Undantekning hefur verið gerð hvað snertir íslenska námsmenn á Norðurlöndum. Þeir fá greitt fæðingarorlof hérlendis.

Ný lög um fæðingarorlof:

Í mars sl. voru samþykkt ný lög um fæðingarorlof en þau taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 1988. Lög þessi miða í stórum dráttum að lengingu orlofs í áföngum úr 3 mánuðum i 6 á tímabilinu 1988-90.

Fæðingarorlof verði 6 mánuðir árið 1990

Önnur grein frumvarps til laga um fæðingarorlof kveður á um að foreldri, sem gegna launuðum störfum, eigi rétt á fjögurra mánaða fæðingarorlofi frá og með 1. janúar 1988. Frá 1. janúar 1989 skal fæðingarorlof vera 5 mánuðir og frá 1. janúar 1990 6 mánuðir. Er þetta í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna, sem Alexander Stefánsson félagsmálaráðherra mælti fyrir í janúar s.l.
Þá kemur fram í greinargerð frumvarpsins að nefndin telur að stefna eigi að stofnun sérstaks fæðingarorlofssjóðs með svipuðu sniði og Atvinnuleysistryggingasjóður. Sá sjóður yrði fjármagnaður með iðgjöldum atvinnurekenda, sem yrði ákveðið hlutfall greiddra launa svo og framlögum ríkisins. Nefndinni var hins vegar ljóst að slíkt yrði að gerast í samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, bæði launþega og atvinnurekendur.

„Réttarbætur til foreldra“

„Þótt það sé út af fyrir sig rétt að ekki næst með þessu full viðurkenning á tekjuskapandi vinnuframlagi heimavinnandi kvenna, þá er hér um áfanga að ræða í réttindabaráttu þeirra sem ekki er ástæða til að gera lítið úr. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að sinna áfram réttindamálum heimavinnandi kvenna í framhaldi af þessum lögum og reglugerðarákvæðum, enda við því að búast að núverandi heilbrigðis- og tryggingaráðherra láti þar til sín taka. Þess er einnig vert að geta, að hin nýju ákvæði opna eiginkonum bænda og námsmanna möguleika til þess að fá vinnu sína metna til fullra dagpeninga.“ – Leiðari Tímans 30. desember 1987.

Stefnt að 6 mánaða fæðingarorlofi

Um næstu áramót ganga í gildi tvenn lög um fæðingarorlof. Annars vegar lög um fæðingarorlof nr. 57/1987 þar sem um er fjallað rétt foreldra, sem gegna launuðum störfum til fæðingarorlofs. Hins vegar lög nr. 59/1987 um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971 með síðari breytingum, þar sem fjallað er um greiðslur bóta í fæðingarorlofi, til heimavinnandi jafnt sem útivinnandi foreldra. Markmið með setningu þessara tveggja laga er tvíþætt. Annars vegar að lengja fæðingarorlof í áföngum uns 6 mánaða orlofi verður náð 1. janúar 1990. Hins vegar að breyta gildandi fyrírkomulagi hvað varðar rétt til fæðingarorlofs, m.a. með það fyrir augum að stíga fyrsta skrefið til samræmingar á réttindum kvenna sem starfa hjá opinberum aðilum og þeirra sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Gefin hefur verið út reglugerð um fæðingarorlof nr. 546 frá 16. desember 1987 með stoð í lögum nr. 59/1987 um breytingu á lögum um almannatryggingar, sbr. lög nr. 57/1987 um fæðingarorlof. í reglugerðinni er fjallað um greiðslur Tryggingastofnunar ríktsins á bótum í fæðingarorlofi. Reglugerðin nær ekki til þeirra sem njóta samningsbundinna launa í fæðingarorlofi. Helstu nýmæli reglugerðarinnar eru:

  1. Frá 1. janúar 1988 verður fæðingarorlof fjórir mánuðir. Síðan lengist það um einn mánuð í fimm mánuði frá 1. janúar 1989 og sex mánuði frá 1. janúar 1990.
  2. Bætur í fæðingarorlofi verða tvenns konar, fæðingarstyrkur, sem greiðist eingöngu mæðrum, og fæðingardagpeningar, sem foreldrar geta valið um hvort tekur, eftir ákveðnum reglum. Fæðingarpeningar og/eða fæðingarstyrkur greiðast því í fjóra mánuði á árinu 1988, fimm mánuði á árinu 1989 og sex mánuði frá 1. janúar 1990. Fæðingarstyrkur greiðist þeim konum, sem reglugerðin nær til, án tillits ti! atvinnuþátttöku. Fæðingardagpeningar greiðast hins vegar eftir atvinnuþátttöku siðustu 12 mánuðina fyrir töku fæðingarorlofs. Fullir fæðingardagpeningar greiðast þeim sem unnið hafa 1032 til 2064 dagvinnustundir á tímabilinu en hálfir greiðast þeim sem unnið hafa 516 til 1031 dagvinnustund. Þetta þýðir að hálft starf í heilt ár dugir til fullra fæðingardagpeninga.
  3. Fæðingarstyrkur verður kr. 17.370 frá 1. janúar 1988 og fæðingardagpeningar eru tvöfaldir sjúkradagpeningar eða 729 á dag miðað við 1. janúar 1988. Þessar fjárhæðir miðast við 5% hækkun almannatryggingabóta 1. janúar 1987 sbr. reglugerð frá 17. desember 1987. Mánaðarlegar greiðslur fæðingardagpeninga fara eftir dagafjölda mánaðar. Greiðslur í fæðingarorlofi með fullum fæðingardagpeningum munu því verða kr. 39.969. miðað við 31 dag í mánuði. Greiðslur í fæðingarorlofi með hálfum fæðingardagpeningum munu verða kr. 28.670 miðað við 31 dag í mánuði. Heimavinnandi mæður eða mæður sem unnið hafa minna en 516 stundir síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu munu fá 17.370 á mánuði.
  4. Reglugerðin metur á annan hátt en gert var í eldri reglugerð atvinnuþátttöku maka bænda annars vegar og námsmanna hins vegar. Báðir þessir aðilar fengu aldrei meira % fæðingarstyrks skv. eldri reglugerð. Atvinnuþátttaka maka bænda á sauðfjárbúum og kúaþúum er metin á þann veg að fullir fæðingardagpeningar fást. Sérstaklega skal meta atvinnuþátttöku maka bænda á blönduðum búum og í öðrum búgreinum. Námsmenn sem sannanlega hafa stundað nám í sex mánuði eða meira og sem jafna má til meira en 1032 vinnustunda fá og fulla fæðingardagpeninga auk fæðingarstyrks. Námsmenn sem sannanlega hafa stundað nám í 3-6 mánuði og sem samsvarar a.m.k. 516 dagvinnustundum fá hálfa fæðingardagpeninga auk fæðingarstyrks.
  5. Nýmæli er í reglugerðinni varðandi áfrýjun. Gert er ráð fyrir að ef ágreiningur rís um greiðslur fæðingarstyrks eða fæðingardagpeninga þá geti lífeyrisdeild TR eða bótaþegi skotið þeim ágreiningi til Tryggingaráðs. Tryggingaráðí er gert skylt að úrskurða um slíkan ágreining innan mánaðar frá því að kæra berst.
  6. Bráðabirgðaákvæði laga nr. 59/ 1987 hefur í för með sér að hafi taka fæðingarorlofs ekki hafist fyrir 1. október 1987 munu konur sem fæða börn eftir 1. október 1987 njóta fjögurra mánaða fæðingarorlofs. Á sama hátt munu konur sem fæða börn eftir 1. september 1988 og 1. ágúst 1989 njóta fimm og sex mánaða fæðingarorlofs. Um þetta er nánar fjallað í reglugerðinni.
  7. Reglugerðin gerir ráð fyrir að þeir sem njóta launaðs fæðingarorlofs í þrjá mánuði geti sótt fjórða (fimmta og sjötta) mánuð fæðingarorlofsins til Tryggingastofnunar ríkisins, enda hafi ekki verið sett önnur ákvæði í reglugerðir eða kjarasamninga sem snerta þessa aðila. 1 reglugerðinni er og gert ráð fyrir að þessir sömu aðilar njóti lengingarinnar sem felst í bráðabirgðaákvæði laga nr. 59/1987, þ.e. að fæðingarorlof verði fjórir mánuðir vegna fæðinga eftir 11. október 1987, fimm mánuðir vegna fæðinga eftir 1. september 1988 og sex mánuðir vegna fæðinga eftir 1. ágúst 1989. Tryggingastofnun ríkisins greiðir þennan viðbötarmánuð, enda hafi ekki verið sett önnur ákvæði í reglugerðir eða kjarasamninga sem snerta þessa aðila.

1990

ÁLYKTUN FLOKKSÞINGS FRAMSÓKNARMANNA UM VELFERÐARMÁL

FJÖLSKYLDAN

„Flokksþing framsóknarmanna leggur áherslu á að fjölskyldan er sú grunneining þjóðfélagsins sem ber að styrkja til muna. Lífsgæðakapphlaupið er ekki það sem skiptir mestu máli heldur ber að leggja áherslu á að efla mannleg samskipti og hlúa að einstaklingunum
Að stefnt verði að því að fæðingarorlof verði í áföngum lengt í eitt ár og foreldrar hafi heimild til að skipta því á milli sín.“

Tólf mánaða fæðingarorlof

Krafa dagsins er lengra fæðingarorlof, segir í grein í tímaritinu Uppeldi

Foreldrasamtökin hafa látið gera könnun á viðhorfum foreldra til fæðingarorlofs, en á íslandi er það 6 mánuðir. í nýjustu rannsókn félagsins, sem Sif Einarsdóttir hefur haft umsjón með, kemur fram að 97% foreldra telja fæðingarorlof of stutt. Þetta kemur fram í greininni „Lengra fæðingarorlof“ í nýjasta hefti tímaritsins Uppeldi.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa ekki verið birtar en þó eru ljós svör við nokkrum spurningum. Sif segir: „Reynt var að ná til allra foreldra í Reykjavík, sem eignuðust börn í fyrra ef það var þeirra fyrsta barn eða ef þeir áttu fyrir börn á grunnskólaaldri. Foreldrarnir voru spurðir hvort þeim þætti sex mánaða fæðingarorlof vera nógu langt og svöruðu 97% þeirri spurningu neitandi. Þá voru foreldrarnir beðnir að tilgreina hversu langt þeim þætti að fæðingarorlof þyrfti að vera og svöruðu flestir því til að tólf mánuðir væru heppilegur tími. Það voru um 56% svarenda sem tiltóku tólf mánuði, sem er afgerandi meirihluti.“ Sif segir að hringt hafi verið í foreldrana og náðst hafi í um helming úrtaksins eða nákvæmlega 533 einstaklinga.
Ingibjörg Hafstað, starfsmaður Kvennalistans, segir að Kvennalistinn hafi á sínum tíma lagt fram frumvarp um 6 mánaða fæðingarorlof. Það var fellt, en síðan var það strax tekið upp af Sjálfstæðisflokknum og gekk þá í gegn þannig. Hún segir að núna liggi inni frumvarp um 9 mánaða fæðingarorlof sem lagt var fram í febrúar sl. Frumvarpið féll ekki en var sett í nefnd, svo það fær ef til vill einhverja umfjöllun. Ingibjörg segir að á málinu séu fleiri hliðar. Margar konur telja það mjög erfitt að vera frá vinnu í 1 ár, þær missi hreinlega af lestinni.
Jafnframt 12 mánaða fæðingarorlofi, sem er í rauninni lágmark, þarf að koma til hugarfarsbreyting í þjóðfélaginu gagnvart barneignum. Ingibjörg bendir á að á Norðurlöndunum geta konur farið í tveggja ára fæðingarorlof á þann hátt að þær ganga inn í sömu vinnu og þær fóru úr, vinnan bíður eftir þeim. „Þannig að þar er ákveðin trygging fyrir því að konan komist í sitt fyrra starf. Þetta er mál sem íslenskar konur þyrftu að skoða, en það þarf sérstakt frumvarp fyrir slíka breytingu,“ segir Ingibjörg.
Í niðurlagi umræddrar greinar kemur fram að þeir sem vilja lengra fæðingarorlof eiga sér nú málsvara í tímaritinu Uppeldi. Blaðið lítur á þessa grein sem sína fyrstu hvatningu í þá veru.

2000

Börnum tryggð samvist við báða foreldra

Það voru tímamót í sögu jafnréttismála og mikilvægt framfaraskref í málefnum fjölskyldna á Íslandi er lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi árið 2001, undir forystu Framsóknar. Þá markaði Framsókn framtíðarsýn um að karlar og konur skipti með sér umönnun barna sinna og geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis.
Samfélag sem skapar móður og föður sömu tækifæri til að sinna bæði fjölskyldu og starfi utan heimilis er grunnur að velferðarsamfélagi. Lykilatriði og framfaraskref okkar eru að konur og karlar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs og að eiga kost á sérstöku foreldraorlofi frá vinnu til að vera með börnum sínum.
„Þegar lögin eru að fullu komin til framkvæmda eiga konur og karlar sama rétt til fæðingarorlofs hvort heldur þau eru á opinberum eða almennum vinnumarkaði eða sjálfstætt starfandi. Hvort foreldri um sig á rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs og er sá réttur sjálfstæður og ekki framseljanlegur. Þá eiga foreldrarnir sameiginlegan rétt á þriggja mánaða orlofi til viðbótar og ráða sjálfir hvernig þeim rétti er skipt. Gert er ráð fyrir að lenging á sjálfstæðum rétti föður taki gildi í áföngum þannig að hið nýja kerfi verði að fullu komið til framkvæmda 1. janúar 2003.“ Páll Pétursson, félagsmálaráðherra,
Lögbundin skiptingu milli foreldra er að stuðla að jafnri foreldraábyrgð sem og jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Áskorun okkar er að tryggja rétt feðra til fæðingarorlofs festist í sessi. Því miður hafa allt of margir feður farið á mis við samvistir við börn sín en karlar hafa ríkan vilja til að að samræma atvinnuþátttöku og uppeldi barna sinna. Árangursrík stefna í jafnréttismálum er samþætt heildarstefna þar sem gert er ráð fyrir að vinnutími verði betur skipulagður og sveigjanlegri auk þess sem fólki verði gert auðveldara að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Hlutverk aðila vinnumarkaðarins er því eðlilega gríðarlega mikilvægt.

Fæðingar- og foreldraorlof

UNDIRRITAÐUR hefur í umboði ríkisstjórnarinnar lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þetta er í samræmi við fyrirheit sem gefin voru til að greiða fyrir lausn yfirstandandi kjarasamninga.

Lagasetning þessi markar tímamót í fjölskyldu- og jafnréttismálum. „Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður. Þá er lögum þessum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf,“ eins og segir í markmiðsgrein frumvarpsins.
Þegar lögin eru að fullu komin til framkvæmda eiga konur og karlar sama rétt til fæðingarorlofs hvort heldur þau eru á opinberum eða almennum vinnumarkaði eða sjálfstætt starfandi. Hvort foreldri um sig á rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs og er sá réttur sjálfstæður og ekki framseljanlegur. Þá eiga foreldrarnir sameiginlegan rétt á þriggja mánaða orlofi til viðbótar og ráða sjálfir hvernig þeim rétti er skipt. Gert er ráð fyrir að lenging á sjálfstæðum rétti föður taki gildi í áföngum þannig að hið nýja kerfi verði að fullu komið til framkvæmda 1. janúar 2003.
Sveigjanleiki er á töku fæðingarorlofsins og skal það tekið á fyrstu 18 mánuðum eftir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Þá er foreldrum heimilt með samkomulagi við vinnuveitanda að teygja á fæðingarorlofi með því að vera í hlutastarfi.
Nokkur umræða hefur orðið um að réttur barna einstæðra foreldra væri ekki tryggður til 9 mánaða sólarhringssamvista við foreldri. Sé svo ekki eru það einungis undantekningartilfelli. Hjón, sambýlisfólk og foreldrar með sameiginlega forsjá, þótt ekki búi saman, hafa sjálfkrafa rétt á samtals 9 mánuðum. Einnig á foreldri án forsjár rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi enda komi til skriflegt samþykki forsjárforeldris.
Falli annað foreldri frá áður en það hefur tekið fæðingarorlof öðlast eftirlifandi foreldri rétt til 9 mánaða, enda séu ekki liðnir 18 mánuðir frá fæðingu eða ættleiðingu.
Það er einungis í þrenns konar tilfellum sem barn á ekki kost á 9 mánaða sólarhringssamvistum við foreldri. Það er í fyrsta lagi ef móðir kýs að feðra ekki barn sitt, í öðru lagi ef forsjárforeldri neitar því foreldri sem er án forsjár um fæðingarorlof og í þriðja lagi ef annað foreldri er í útlöndum. Hvað fleirburafæðingar áhrærir bætast 3 mánuðir við tímann, samtals 12 mánuðir vegna tvíbura og 15 vegna þríbura.

Vernd heilsu og réttinda

Öryggi og heilbrigði á vinnustöðum meðan á meðgöngu stendur eða eftir fæðingu er tryggt sérstaklega. Ennfremur á þunguð kona rétt til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði í leyfi frá störfum sé ekki unnt að tryggja henni örugg og heilsusamleg vinnuskilyrði.

Í frumvarpinu er foreldrum tryggð uppsöfnun og vernd réttinda. Á meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri áfram í lífeyrissjóð og gert er ráð fyrir að fæðingarorlofssjóður greiði að lágmarki 6% af fæðingarorlofsgreiðslum. Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, s.s. réttindum til orlofstöku, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta. Réttur til að hverfa að sama starfi eða sambærilegu er einnig tryggður.

Fjármögnun greiðslna í fæðingarorlofi

Þá er rétt að gera grein fyrir því hvernig áformað er að fjármagna fæðingarorlofskerfið. Það er að mestu vinnumarkaðstengt en þeir sem eru í námi eða í minna en 25% starfi njóta bóta.

Fæðingarorlofssjóður sem stofnaður verður samkvæmt lögum þessum mun fá hlutdeild í tryggingagjaldi. Svo háttar til að mjög hefur dregið úr atvinnuleysi og er það nú innan við 2%. Sá hluti tryggingagjalds sem runnið hefur til atvinnuleysistryggingasjóðs hefur þó ekki verið lækkaður, eins og e.t.v. hefði verið rökrétt. Áformað er að 0,85% af tryggingagjaldsstofni renni í fæðingarorlofssjóð en greiðslur til atvinnuleysistrygginga lækki að sama skapi, enda er sá sjóður orðinn mjög gildur. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna fólks á vinnumarkaði verði fjármagnaður með tryggingagjaldi. Eftir standa greiðslur til þeirra sem eru utan vinnumarkaðar og er kostnaður við þá áætlaður 600 m.kr. og greiðist beint úr ríkissjóði. Kostnaður árið 2001 gæti orðið 2 milljarðar en 3 milljarðar árið 2003.
Með þessari útfærslu leggst enginn nýr kostnaður á atvinnulífið, kostnaður ríkis eykst um 300 milljónir en sparnaður sveitarfélaga yrði 300 milljónir árlega.

Greiðslur í fæðingarorlofi

Fæðingarorlofssjóður mun greiða 80% af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds. Mjög kom til álita að hafa hámark á mánaðargreiðslum en það varð þó ekki að ráði. Líklegt þótti að hærra launaðir mundu þá ekki taka fæðingarorlof og jafnréttismarkmiðum milli kynja yrði síður náð.

Ein skýringin á kynbundnum launamun, sem því miður viðgengst hér ennþá, er sú að konur séu meira bundnar heimili en karlar og frátafir þeirra frá vinnu vegna barneigna meiri en karla. Því þarf að gera það aðgengilegt fyrir alla feður að taka fæðingarorlof ef þeir kjósa. Sumir vilja að greiðslur í fæðingarorlofi séu þær sömu og í vinnunni. Það þykir mér ofrausn enda fylgir því ótvírætt einhver kostnaður að sækja vinnu og auk þess ætti að vera einhver sparnaður að annað foreldrið sé heima.
Fæðingarstyrkur verður greiddur heimavinnandi og þeim sem eru með minna en 25% starfshlutfall. Greiðsla í fæðingarorlofi foreldris í 25-49% starfi skal aldrei vera lægri en 54.021 kr. á mánuði og lágmark til þeirra sem eru í meira en 50% starfi eða í námi 74.867 kr.

Foreldraorlof er nýmæli

Þá er í frumvarpinu ákvæði um að leiða í lög svokallað foreldraorlof. Það er ólaunað, en heimilað er hvoru foreldri að hverfa úr vinnu allt að 13 vikum til að annast barn sitt eða vera samvistum við það á fyrstu 8 árunum í ævi þess. Samtals misseri á barn. Þetta er sjálfstæður óframseljanlegur réttur hvors foreldris. Starfsmanni er heimilt að taka foreldraorlofið í einu lagi eða haga því með öðrum hætti með samkomulagi við vinnuveitanda.

Rétt er að geta þess einnig að félagsmálaráðherra hefur flutt frumvarp um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Það felur í sér að óheimilt er að segja starfsmanni upp þótt hann hverfi úr vinnu tímabundið til að sinna fjölskylduábyrgð sinni, svo sem að annast veika aðstandendur.

Stórkostlegt jafnréttisskref

Með lögum þessum er ekki einungis jafnaður réttur kynjanna heldur einnig er réttur starfsmanna á almennum vinnumarkaði gerður jafn rétti starfsmanna hins opinbera en þeir hafa notið mun betri réttinda. Karlar á vinnumarkaði hagnast verulega á nýju kerfi. Þeir fá sjálfstæðan óframseljanlegan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs á 80% meðallaunum og sameiginlegan þriggja mánaða rétt með móður barns. Þetta er mikil réttarbót þar sem rétturinn var áður að hámarki tvær vikur. Þá er réttur heimavinnandi karla og námsmanna til fæðingarstyrks tryggður á sama hátt og kvenna en þess hafa þeir ekki notið áður.

Fjölskyldan er í fyrirrúmi

Félagsmálaráðuneytið hefur í umboði ríkisstjórnarinnar rekið mjög markvissa fjölskyldustefnu allt frá 1995. Langflestar lagabreytingar sem við höfum staðið fyrir miða að því að bæta skilyrði fjölskyldnanna til betra lífs. Nægir þar að nefna vinnulöggjöfina, vinnumarkaðsaðgerðir, húsnæðislöggjöf, sem stórbætir stöðu hinna tekjulægri, ný sveitarstjórnalög og endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, ályktun Alþingis um mótun opinberrar fjölskyldustefnu, endurskoðaða jafnréttisáætlun, ný jafnréttislög og nú síðast frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Það er ekki á færi hins opinbera að tryggja öllum börnum umhyggju og ástúð í uppveksti. Það er hins vegar mikilvægt að einskis sé látið ófreistað til þess að skapa þau ytri skilyrði að börn geti átt sem áhyggjulausasta æsku og notið samvista við báða foreldra. Frumvarpið á að stuðla að því að skapa öllum foreldrum tækifæri til að vera með börnum sínum á mesta mótunarskeiði þeirra. Með þessum nýju lögum eru konur og karlar einnig gerð jafnsett á vinnumarkaði.  –  Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, Morgunblaðinu 7. maí 2000.

Foreldrum framtíðarinnar verði tryggt fjárhagslegt öryggi í fæðingarorlofi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur sett af stað vinnu við heildarendurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof í samráði við hagsmunaaðila. Tímamótin eru við hæfi nú þegar að liðin eru 20 ár frá gildistöku feðraorlofslaganna. Höfuð verkefnið er að tryggja framsókn réttindamála og búa þannig enn betur að komandi kynslóðum. Tryggt verði að foreldrum framtíðarinnar hafi fjárhagslegt öryggi í fæðingarorlofi. Börn breyta öllu, auðvitað mest með fyrsta barninu, en einnig með hverju til viðbótar.

Sýn okkar er sú að foreldrar, fjölskyldan öll, njóti tímans fyrir eigin hamingju og manngildi.

Categories
Fréttir

Egilsstaðir og Akureyri eru grunnur að nýjum fluggáttum inn í landið

Deila grein

23/01/2020

Egilsstaðir og Akureyri eru grunnur að nýjum fluggáttum inn í landið

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir að flugvellirnir á Egilsstöðum og Akureyri séu grunnþjónusta í samgöngukerfi landsins sem tryggi almenningssamgöngur og þar með aðgang að grunnþjónustu. Þetta kom fram í ræðu hennar í störfum þingsins í gær.
„Þeir eru líka mikilvægir varaflugvellir vegna millilandaflugs og grunnur að nýjum fluggáttum inn í landið. Það kristallaðist í umræðunni þegar samgönguáætlun var lögð fram í lok síðasta árs að skerpa þarf sameiginlega sýn fyrir þessa flugvelli með heimamönnum. Þann 19. desember urðu svo tímamót í þessum málum með viljayfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til að styrkja völlinn sem hlið eða gátt til landsins í þágu svæðisins alls, Norðurlands og Austurlands, og íslenskrar ferðaþjónustu.
Skipaður var aðgerðahópur til að vinna í samræmi við viljayfirlýsinguna. Honum er ætlað að gera tillögur um endurbætur á flugstöðinni til framtíðar, vinna greiningu á markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastað og loks að gera kostnaðaráætlun um mögulega stækkun eða endurbætur mannvirkja og þjónustu. Í hópnum eru fulltrúar ráðuneytanna tveggja, Akureyrarbæjar, SSNE, Markaðsstofu Norðurlands og Isavia.
Fyrsta verkefni samstarfsins er að greina leiðir til að tryggja að flugstöðin geti sinnt sínu hlutverki. Það á að gerast hratt og hópurinn á að ljúka störfum fyrir lok mars 2020. Hópurinn hefur nú þegar fundað tvisvar sinnum. Þá er heimild í fjárlögum til samvinnuverkefnis, PPP-verkefnis, um endurbætur eða stækkun flugstöðvarinnar. Frágengið er að rekstur Egilsstaðaflugvallar færist til Isavia frá byrjun þessa árs og unnið er að útfærslu samningsins um það verkefni. Þar með myndast aukið svigrúm til að efla aðra innanlandsflugvelli innan rekstrarsamnings ríkisins og Isavia, m.a. um Akureyrarflugvöll. Samgönguáætlun er svo til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem tækifæri gefst til að fara vel yfir nýja flugstefnu og skýra framtíðarsýnina enn betur,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Stöðvum feluleikinn

Deila grein

23/01/2020

Stöðvum feluleikinn

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, segir að rúmlega 80.000 börn sem búa á Íslandi verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur samkvæmt tölum UNICEF. Þetta kom fram í ræðu hennar í störfum þingsins á Alþingi í gær.
UNICEF samtökin hafa hrundið af stað ofbeldisvarnarátaki sem nefnist Stöðvum feluleikinn. „Þegar umrædd tölfræði var birt í maí 2019 boðaði Ásmundur Einar Daðason, hæstv. félags- og barnamálaráðherra, tilteknar aðgerðir, þar á meðal að setja af stað tilraunaverkefni þar sem áhersla yrði á að greina upplýsingar þvert á kerfi sem benda til óviðunandi aðstæðna barna og markvissar mælingar á velferð barna á ákveðnu svæði. Þessum verkefnum var komið á fót í lok júní 2019,“ sagði Silja Dögg.
Í gær tilkynnti Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, um stofnun miðstöðvar til að halda utan um upplýsingar er varða ofbeldi gegn börnum.
„Miðstöðin mun hafa það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og leggja fram tillögur um mótun stefnu og aðgerðir í þessum efnum. Rekstur miðstöðvarinnar verður í höndum Barnaverndarstofu og stjórnvöld á hverjum tíma munu hafa aðgengi að þessum upplýsingum og faglegri ráðgjöf við stefnumótun í málaflokknum,“ sagði Silja Dögg.
Auk þess hefur hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason ákveðið að fela Barnaverndarstofu að kortleggja og greina þær upplýsingar sem eru til varðandi ofbeldi gegn börnum og leitað til annarra opinberra aðila til að fá sem gleggstar upplýsingar og mynd af stöðu mála svo hægt sé að móta stefnu og aðgerðir með það að markmiði að uppræta ofbeldi gegn börnum á Íslandi.
„Að lokum, herra forseti, langar mig að vekja athygli á þingsályktunartillögu sem ég hef mælt fyrir og hefur verið send til umsagnar sem fjallar um réttindi barna til að þekkja uppruna sinn. Í henni felst að dómsmálaráðherra verði falið að semja löggjöf sem tryggi þeim börnum sem getin eru með kynfrumugjöf sjálfstæðan rétt til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Þetta mál hefur verið til meðferðar hjá, að ég held, hv. velferðarnefnd um nokkurn tíma. Ég hvet nefndina til að taka málið til meðferðar og klára það þannig að hægt sé að afgreiða það hér vegna þess að hin Norðurlöndin eru nú þegar mun framar en við á þessu sviði.“ sagði Silja Dögg.

Categories
Greinar

Þjóðin mætir til leiks

Deila grein

19/01/2020

Þjóðin mætir til leiks

Mál­efni þjóðarleik­vanga hafa verið til umræðu hjá ríki, Reykja­vík­ur­borg og íþrótta­hreyf­ing­unni í nokk­urn tíma. Mann­virki sem eiga að hýsa alþjóðleg­ar keppn­ir eru mörg hver kom­in til ára sinna. Al­mennt bera sveit­ar­fé­lög ábyrgð á upp­bygg­ingu íþrótta­mann­virkja sam­kvæmt íþrótta­lög­um. Ný reglu­gerð um þjóðarleik­vanga opn­ar á aðkomu rík­is­ins sér­stak­lega að slíkri mann­virkja­gerð.

Sam­kvæmt reglu­gerðinni er þjóðarleik­vang­ur skil­greind­ur sem íþróttaaðstaða sem teng­ist ákveðinni íþrótt. Hér er um að ræða mann­virki sem þegar er til staðar eða á eft­ir að reisa. Þjóðarleik­vang­ur upp­fyll­ir tækni­leg­ar staðal­kröf­ur fyr­ir viðkom­andi íþrótta­grein ásamt því að upp­fylla skil­greind­ar lág­marks­kröf­ur um íþrótta­mann­virki sam­kvæmt alþjóðleg­um regl­um alþjóðasam­banda og ís­lensk­um reglu­gerðum um mann­virki fyr­ir al­menn­ing og fjöl­miðla.

En hvers vegna eru þjóðarleik­vang­ar mik­il­væg­ir? Við höf­um lengi átt framúrsk­ar­andi íþrótta­fólk. Við get­um sann­ar­lega verið stolt af af­reksíþrótta­fólk­inu okk­ar en við eig­um líka að geta verið stolt af aðstöðunni sem við höf­um til að halda alþjóðlega íþróttaviðburði og íþrótta­keppn­ir. Ljóst er að sú aðstaða sem þarf til að geta tekið á móti alþjóðleg­um viðburðum í þeim íþrótta­grein­um sem við stönd­um framar­lega í þarfn­ast end­ur­nýj­un­ar.

Á dög­un­um skipaði ég starfs­hóp sem mun gera til­lög­ur um framtíð þjóðarleik­vangs fyr­ir inn­iíþrótt­ir á Íslandi. Starfs­hóp­ur­inn mun m.a. vinna að öfl­un upp­lýs­inga um hvernig vinna eigi eft­ir nýrri reglu­gerð um þjóðarleik­vanga og afla nauðsyn­legra upp­lýs­inga um hvaða alþjóðakröf­um þarf að fara eft­ir svo hægt sé að greina þarf­ir fyr­ir mann­virki til lengri tíma og mögu­lega nýt­ingu mann­virkja sem fyr­ir eru. Starfs­hóp­ur­inn er skipaður öfl­ugu fólki og ég hef mikl­ar vænt­ing­ar til afrakst­urs vinnu hans.

Fram und­an eru viðamikl­ar innviðafjár­fest­ing­ar í hag­kerf­inu. Fjár­fest­ing­ar rík­is­sjóðs eru rétt yfir lang­tímameðaltali, eða rúm 2% af lands­fram­leiðslu. Vegna sterkr­ar stöðu rík­is­sjóðs verður hægt að fara í frek­ari innviðaupp­bygg­ingu á næst­unni. Það sýn­ir sig að fjár­fest­ing í íþrótt­um hef­ur veru­leg­an sam­fé­lags­leg­an ábata til framtíðar. Rík­is­stjórn­in hef­ur lagt áherslu á mik­il­vægi upp­bygg­ingu sam­fé­lags­legra innviða og eru íþrótta­mann­virki liður í því.

Mark­mið mitt er að þessi und­ir­bún­ings­vinna sem nú fer fram geti skilað sam­eig­in­legri sýn á hvert ber að stefna og hvað þarf til þess að aðstaða af­reks­fólks í íþrótt­um sé á heims­mæli­kv­arða. Til að ná sett­um mark­miðum þurfa all­ir að leggj­ast á eitt, ná hraðaupp­hlaup­inu og skora!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. janúar 2020.

Categories
Greinar

Öryggi okkar allra

Deila grein

17/01/2020

Öryggi okkar allra

Veturinn hefur verið okkur á Íslandi erfiður og er þá vægt að orði komist. Sérstaklega hefur þungi þessa vetrar lagst á íbúa Vestfjarða og Norðurlands, fyrst með ofsaveðri í desember og síðan með snjóflóðum á Vestfjörðum í þessari viku. Við þessar aðstæður, slík gjörningaveður, finnum við fyrir smæð okkar og vanmætti gagnvart náttúrunni en um leið fyrir því hversu hugvit og fyrirhyggja getur aukið öryggi okkar og lífsgæði eins og sýndi sig varðandi snjóflóðavarnargarða í Önundarfirði.

Við erum fámenn þjóð í stóru landi. Aðstæður okkar eru mjög misjafnar þótt hagsmunir okkar fari jafnan saman. Ég finn stundum fyrir því að það skortir á skilning þeirra sem búa utan hinna dreifðu byggða á aðstæðum eins og þeim sem komu upp í desember og nú í janúar 2020.

Það er enda erfitt að setja sig í spor þeirra sem misstu allt samband við umheiminn, hvort heldur rafmagn, síma eða útvarp, í óveðrinu í desember. Þá vorum við minnt harkalega á að rafmagn er ekki einhver lúxus heldur grundvallarþáttur í öryggi okkar og lífsgæðum.

Öryggi er stór hluti af því að líða vel. Þess vegna höfum við byggt samfélag með sterku öryggisneti. Ég hef í störfum mínum sem samgönguráðherra sett umferðaröryggi í algjöran forgang þegar kemur að þeirri miklu uppbyggingu í samgöngum sem hafin er eftir alltof langa kyrrstöðu. Öryggið snýr ekki aðeins beint að vegunum heldur er það líka mikið öryggisatriði að samspil samgangna á landi, í lofti og á sjó gangi vel.

Þegar á bjátar og við heyrum erfiðar sögur meðborgara okkar þá fáum við skilning og fyllumst samlíðan. Með þann skilning í farteskinu skiljum við betur nauðsyn þess að efla innviði um allt land: leggja öruggari vegi, tryggja betur afhendingaröryggi orku og jafna kostnað við dreifingu hennar og styðja betur við sveitir landsins. Þá farnast okkur vel.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. desember 2019.

Categories
Greinar

Þegar storminn hefur lægt

Deila grein

10/01/2020

Þegar storminn hefur lægt

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð og aðeins hefur liðið frá illviðri því sem geisaði um vestan og norðanvert landið í desember síðastliðnum og innviðir samfélaganna að komast aftur í lag er rétt að horfa aðeins yfir það sem gerðist og draga af því lærdóm.  Efst í huga manns er þó þakklæti til alls þess fjölda sjálfboðaliða á vegum Landsbjargar og Rauða Krossins sem unnu dag og nótt til að aðstoða samborgara sína. Ásamt fjölmennu liði annara viðbragðsaðila, lögreglu, bænda og starfsmanna veitufyrirtækja sem unnu sleitulaust, svo dögum skiptir, til að koma innviðum samfélagsins aftur af stað. Án þessa fólks hefðu afleiðingar þessa óveðurs getað orðið miklu meiri og verri.

En hvaða lærdóm tökum við með okkur úr þessum aðstæðum. Ljóst er að ýmsir innviðir landsins eru ekki í stakk búnir til að takast á við aðstæður líkar þessum og munum þá um leið að þetta óveður er ekki einstakt. Slík veður hafa komið áður og munu koma aftur. Því verðum við að hefjast þegar handa við að gera þær úrbætur sem þarf til að heilu landsvæðin séu ekki án rafmagns og fjarskipta svo dögum skiptir. Og þær úrbætur þarf að vinna hratt og geta ekki flækst í nefndum á vegum stjórnkerfisins um ókominn tíma þar sem þær verða vegnar í töflureiknum á alla kanta í innbyrðis slag ráðuneyta. Við erum nefnilega að tala um heimili og lífsviðurværi fólks sem við ætlum að gera kleift að geta búið um allt land.

Almannahagsmunir umfram hagsmuni einstaklinga eða félagasamtaka

Mikilvægt er að ráðist verði strax í styrkingu flutningskerfis raforku þannig að það þjóni því hlutverki að geta flutt raforku skammlaust og lagnaleiðir séu ekki fastar í lagaflækjum um árabil. Hagsmunir heildarinnar séu settir í forgang en ekki sérhagsmunir stöku landeiganda sem jafnvel búa ekki á jörðum sínum. Fjarskiptakerfin þarf að styrkja og bæta þannig að þau standi af sér öll veður og nýta til styrkingar flutningskerfi fjarskipta sem þegar er til staðar en í eigu ýmissa aðila. Öryggisfjarskipti eiga alltaf að vera í forgangi og ekki sett undir mælistiku hagnaðar.

Þá þarf að slaka á hagnaðarkröfum sem gerðar eru til orkufyrirtækja í opinberri eigu og þeim gert skylt og mögulegt að byggja upp varaafl þar sem þess er þörf. Styrkja þarf starfsemi þeirra í dreifðum byggðum með auknum mannafla og tækjum sem þarf til að takast á við erfiðar veðurfarslegar aðstæður. Slíkt þarf að vera til staðar og ef eitthvað er þá sýna þær aðstæður sem sköpuðust í illviðrinu sem gekk yfir landið, svo ekki verður um villst, nauðsyn þess að raforkuframleiðsla og dreifing raforku eiga að vera að mestu í höndum opinberra aðila í ljósi mikilvægis og til slíkra fyrirtækja er hægt að gera kröfur sem ekki á bara að mæla í arðsemi til eiganda.

Miðhálendisþjóðgarður á ís

Því væri gott að þingmenn finndu nú hjá sér þörf til að leggja fram þingsályktunartillögu um opinbera eigu okkar helstu orkufyrirtækja sem táknrænt skref í þessa átt. Þá er ekki síður mikilvægt að þingmenn allra flokka sammælist um að leggja til hliðar áætlanir um miðhálendisþjóðgarð að sinni. Byrjum nú einu sinni á réttum enda í stórum málum eins og þetta er. Skipuleggjum fyrst hvernig fara skal með flutningskerfi raforku um landið allt. Hvernig skal standa að virkjunum til að tryggja okkur rafmagn til framtíðar ekki síst með orkuskipti í huga og hvernig það getur svo farið saman með verndun náttúru landsins. Þegar þessar lausnir liggja fyrir þá skulum við aftur taka upp málefni miðhálendisþjóðgarðs. Þetta ætti að vera forgangsmál núna. Munum að loftslagsmál og náttúruvernd geta skarast og vinnubrögð við það þarf að vanda. Ísland á að vera í farabroddi þegar kemur að loftslagsmálum á heimsvísu og það verður ekki gert með því að takmarka möguleika til nýtingar á endurnýjanlegum orkukostum. Það er líka ljóst að mikil andstaða er meðal sveitarfélaga landsins við áætlanir um miðhálendisþjóðgarð eins og þær liggja fyrir nú og nauðsynlegt að hlusta vel á þau rök og taka tillit til þeirra.

Allir sitji við sama borð

En fyrst og síðast; drögum lærdóm af því sem betur má fara eftir óveður í árslok og gerum betur. Ráðumst í aðgerðir strax því það á að vera sameiginlegt markmið okkar sem Ísland byggjum að við sitjum öll við sama borð þegar kemur að grundvallar skilyrðum til búsetu. Gerum það öll saman því þannig ganga hlutir alltaf best þegar máttur hinna mörgu er virkjaður.

Með ósk um gæfuríkt og gott ár 2020.

Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á www.visir.is 10. janúar 2020.