Categories
Fréttir

„Jarðvegur er mikilvæg auðlind“

Deila grein

04/03/2020

„Jarðvegur er mikilvæg auðlind“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, mælti fyrir tillögu til þingsályktun um þjóðarátak í landgræðslu, á Alþingi í gær.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að koma fyrir lok árs 2020 á samstarfi stjórnvalda, bænda, Landgræðslunnar, atvinnulífs og almennings sem miði að því að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og hefja þar með þjóðarátak í landgræðslu.

Þórarinn Ingi sagði markmið tillögunnar að auka kolefnisbindingu, „koma í veg fyrir jarðvegsrof og græða upp örfoka land með aukinni þátttöku almennings í landgræðslu. Samstarfsvettvangurinn hafi að fyrirmynd átakið „Bændur græða landið“, samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar um uppgræðslu heimalanda, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1990 og gefið góða raun.“
„Með aukinni umhverfisvitund og fræðslu almennings hafa æ fleiri fyrirtæki boðið viðskiptavinum upp á að kolefnisjafna viðskipti sín. Þátttaka atvinnulífsins í verkefninu gæti falist í því að bjóða upp á kolefnisjöfnun viðskipta með landgræðslu. Þannig yrði þátttaka almennings tvíþætt, annars vegar með beinni þátttöku í landgræðslu undir leiðsögn Landgræðslunnar, hins vegar með kolefnisjöfnun viðskipta sinna.
Markmið þessarar þingsályktunartillögu falla vel að loftslagskafla stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir árin 2018–2030 sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, markmiði nr. 13: Aðgerðir í loftslagsmálum.
Aðrir alþjóðasamningar sem samvinnuverkefnið gæti verið liður í að uppfylla eru:

  • Parísarsáttmálinn,

  • Samningur Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun sem hefur verið í gildi hér á landi frá árinu 1996,

  • alþjóðlegir samningar um líffræðilega fjölbreytni sem fullgiltir voru á Alþingi árið 1994 og

  • rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem tók gildi hér á landi árið 1994.

Jarðvegur er mikilvæg auðlind. Hann er undirstaða mestallrar matvælaframleiðslu heimsins en jarðvegseyðing er ein mesta ógn mannkyns. Eyðing gróðurs og jarðvegs hefur um langa hríð verið eitt helsta umhverfisvandamál á Íslandi. Flutningsmenn leggja því til að farið verði í þjóðarátak í landgræðslu enda hafi fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi,“ sagði Þórarinn Ingi.

Categories
Fréttir

„Samfélagið þarf á tækifærum alls landsins að halda“

Deila grein

04/03/2020

„Samfélagið þarf á tækifærum alls landsins að halda“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, ræddi stuðning við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins á Alþingi á dögunum.
Fram hafði komið í umræðunni að það væri hrópandi mismunur á dreifingu fjármagns milli landshluta. Sagði Líneik Anna mikilvægt að það fjármagn sem úr er að spila verði að nýtast öllum landshlutum. Og Líneik Anna bætti við, „samfélagið þarf á tækifærum alls landsins að halda.“

„Við þurfum og verðum að stunda nýsköpun og rannsóknir um land allt. Þannig tryggjum við samkeppnishæfni landsins í heild. Nýsköpun byggir m.a. á grunni atvinnulífs og náttúru sem nú þegar er til staðar. Svo bætum við hugvitinu við. Ekki var teljandi munur á árangurshlutfalli umsækjenda milli landsvæða en mikið misræmi er í sókn í sjóðina milli landshluta. Þá heyrist oft: Tja, þeir fiska sem róa. En það blasir við að það eru þeir sem fá bát og árar sem fiska. Þeir sem standa á bakkanum gera það ekki. Landshlutar án staðbundinnar háskólastarfsemi og ráðgjafar standa verr að vígi,“ sagði Líneik Anna.
„Í allt of mörg ár hef ég rætt hvernig mögulegt sé að auka rannsóknarstarf og nýsköpun í landsbyggðunum. Niðurstaða mín er að þrennt skipti mestu máli og það þarf að bæta.

Það þarf staðbundið háskólanám og háskólastarf í öllum landshlutum.
Við verðum að leggja skyldur á háskólana til að það gerist.
Það þarf líka að búa til hvata og áhersluverkefni hjá opinberu sjóðunum sem stuðla að eða setja jafnvel í forgang umsóknir beint tengdar landshlutunum og það þarf virkt stoðkerfi um land allt.

Bætum því við góða nýsköpunarstefnu og þar er FabLab¹ góð byrjun,“ sagði Líneik Anna.
***
¹Hvað er Fab Lab?  Fab Lab kemur af ensku orðunum Fabrication Laboratory, eins konar framleiðslu tilraunastofa.  Fab Lab á rætur sínar að rekja til Center for Bits and Atoms hjá MIT háskólanum í Massachusetts í Bandaríkjunum. Þeirri stofnun stýrir prófessor Neil Gershenfeld sem auk þess að stunda miklar rannsóknir á þessu sviði kennir hann áfanga hjá MIT sem heitir How to Make (AlmostAnything.  Árið 2008 þegar fyrsta Fab Lab smiðjan á Íslandi var sett á laggirnar í Vestmannaeyjum höfðu 38 Fab Lab smiðjur verið stofnaðar.  Nú árið 2019 er fjöldi Fab Lab smiðja yfir 1700 talsins og fjöldi starfandi Fab Lab smiðja á Íslandi er nú 7.  Fab Lab er smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

Categories
Greinar

Fjárfest í menntun framtíðar

Deila grein

03/03/2020

Fjárfest í menntun framtíðar

Mennta­tæki­færi hafa marg­feld­isáhrif í sam­fé­lag­inu en ekki síst fyr­ir smærri byggðarlög. Þegar for­eldr­ar ákveða bú­ferla­flutn­inga leika mennt­un­ar­tæki­færi barna þeirra og ung­menna stórt hlut­verk, og það sama gild­ir um aðgengi þeirra að íþrótta- og tóm­stund­a­starfi.

Gríp­um til aðgerða

Nú blas­ir við mik­ill slaki í efna­hags­líf­inu og hag­kerf­inu. Tölu­verð óvissa rík­ir um inn­lenda efna­hagsþróun á kom­andi miss­er­um, af inn­lend­um or­sök­um en ekki síður vegna auk­inn­ar óvissu um alþjóðleg­ar hag­vaxt­ar­horf­ur.

Til þess að koma í veg fyr­ir lít­inn eða jafn­vel eng­an hag­vöxt á næsta ári þarf að grípa til aðgerða og veita viðspyrnu. Það er því rétti tím­inn fyr­ir öll sveit­ar­fé­lög og rík­is­valdið að for­gangsraða í þágu mennt­un­ar.

Betri fjár­hags­staða náms­manna

Rík­is­stjórn­in hef­ur nú þegar á teikni­borðinu áform um aukna fjár­fest­ingu í mennta­kerf­inu hér á landi. Nýtt frum­varp um Mennta­sjóð náms­manna fel­ur í sér grund­vall­ar­breyt­ingu á stuðningi við náms­menn. Það mun leiða til betri fjár­hags­stöðu náms­manna og skuld­astaða þeirra að námi loknu mun síður ráðast af fjöl­skylduaðstæðum, þar sem for­eldr­ar í námi fá fjár­styrk en ekki lán til að fram­fleyta börn­um sín­um. Það stuðlar að betri nýt­ingu fjár­muna, auk­inni skil­virkni og þjóðhags­leg­um ávinn­ingi fyr­ir sam­fé­lagið.

Töl­um við tæk­in á ís­lensku

Meðal annarra mik­il­vægra fjár­fest­inga­verk­efna má einnig nefna mál­tækni­áætl­un stjórn­valda, sem þegar hef­ur verið fjár­mögnuð. Það er afar mik­il­vægt að gera ís­lensk­una gjald­genga í sta­f­ræn­um heimi og þróa tækni­lausn­ir sem gera okk­ur kleift að eiga sam­skipti við snjall­tæk­in okk­ar á ís­lensku. Jafn­framt hef­ur verið fjár­fest ríku­lega í fram­halds­skóla­mennt­un og þá hef­ur rekstr­ar­for­send­um starfs­mennta­skóla verið gjör­breytt.

Nýir skól­ar á teikni­borðinu

Meðal innviðafjár­fest­inga sem eru einnig fram und­an í mennta­kerf­inu má nefna bygg­ingu Húss ís­lensk­unn­ar sem nú er í full­um gangi, bygg­ingu fé­lagsaðstöðu við Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja, viðbygg­ingu við Fjöl­brauta­skól­ann í Breiðholti og upp­bygg­ingu við Mennta­skól­ann í Reykja­vík. Jafn­framt er á teikni­borðinu und­ir­bún­ing­ur að nýj­um lista­há­skóla og nýj­um Tækni­skóla.

Jöfn tæki­færi til mennt­un­ar

Mennt­un er lyk­ill­inn að framtíðinni. Á okk­ur hvíl­ir nú sú skylda að horfa fram á við, setja metnaðarfull mark­mið og grípa til verka. Það er dauðafæri til að koma með meiri inn­spýt­ingu og flýta fram­kvæmd­um. Marg­ar þess­ara fram­kvæmda eru löngu tíma­bær­ar og mark­mið þeirra allra er að efla mennt­un og menn­ingu í land­inu. Það er mik­il­vægt að all­ir hafi jöfn tæki­færi til mennt­un­ar og geti fundið nám við sitt hæfi. Við vilj­um tryggja öll­um börn­um og ung­menn­um slík tæki­færi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson alþingismenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. mars 2020.