Categories
Greinar

Hin þögli sjúkdómur – vefjagigt

Deila grein

09/11/2018

Hin þögli sjúkdómur – vefjagigt

Einstaklingum sem metnir eru til örokur hefur fjölgað ár frá ári. Fjölgun þeirra sem metnir hafa verið 75% öryrkjar fjölgaði um 3,9% milli áranna 2016 og 2017.

Það eru fjölmargar ástæður sem liggur á bak við örorku einstaklinga en einn sjúkdómur sem hefur meiri tíðni hér en víða erlendis er vefjagigt samkvæmt svari við fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra á sl. vetri.

Vefjagigtargreining var talin meðvirkandi þáttur í 75% örorku hjá 14% allra kvenna sem voru á örorku. Örorka vefjagigtarsjúklinga orsakast oft af samverkandi þáttum vefjagigtar, annarra stoðkerfissjúkdóma og geðsjúkdóma.

Konur í meirihluta

Talið er að vefjagigt hrjái 2-13% fólks á hverjum tíma hún er algengari hjá konum en körlum eða 3-4 konur á móti einum karli. Það eru ekki til heildarupplýsingar um fjölda einstaklinga sem greinir hafa verið hér á landi en í rannsókn frá 1998 reyndist algengi vefjagigtar vera 5,6% á meðal 18 ára einstaklinga og eldri en erlendis er algengi vefjagigtar oftast á bilinu 1-4%. Vefjagigt er yfirleitt langvinnur sjúkdómur sem ekki læknast og því fjölgar í hópi vefjagigtarsjúklinga með hækkandi aldri.

Árangur af meðferð

Engar ritrýndar niðurstöður hafa verið birtar um árangur af meðferð á vefjagigt á Íslandi. Þraut – miðstöð um vefjagigt hefur tekið saman upplýsingar um árangur endurhæfingar fyrir fjögurra ára tímabil, árin 2011–2015. Niðurstöðurnar voru annars vegar birtar í skýrslu Þrautar til Sjúkratrygginga Íslands árið 2014 og hins vegar í nýlokinni meistararitgerð Sigríðar Björnsdóttur í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Niðurstöðurnar sýna þýðingarmikinn, marktækan bata eftir endurhæfingu hvað varðar heildarstöðu sjúklinganna, færni og lífsgæði. Niðurstöðurnar sýna einnig að verkir, þreyta, andleg líðan og streitueinkenni batna marktækt eftir endurhæfingu.

Fræðsla og forvarnir

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagift og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og geta boðið upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.

Heilbrigðiskerfið þarf að leggja eyrun við þessum þögla sjúkdómi og viðurkenna hann sem stóran þátt í að konur á öllum aldri séu að detta út af vinnumarkaði og einangrast heima með verkjasjúkdóm sem gerir einstaklinginn óvirkan bæði á vinnumarkaði og sem þátttakanda í samfélaginu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Norðvesturkjördæmis.

Categories
Greinar

Bæta þarf stöðu drengja í menntakerfinu

Deila grein

09/11/2018

Bæta þarf stöðu drengja í menntakerfinu

Okkur ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja þeim tækifæri til þess að þroskast og dafna. Menntakerfið er eitt mikilvægasta jöfnunartæki okkar og þar er lagður grunnur að tækifærum framtíðarinnar. Samkvæmt nýjustu skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) um menntatölfræði eru meginstyrkleikar íslenska menntakerfisins gott aðgengi að menntun og góð samskipti nemenda og kennara. Í þeirra tölum hefur einnig komið fram að íslenskt skólakerfi einkennist af jöfnuði.

Lesskilningur

Kveikjan að þessum skrifum er umræða í þinginu í gær um stöðu drengja. Hún bar yfirskriftina »Drengir í vanda« og þar ræddu þingmenn vítt og breitt um stöðu íslenskra drengja. Ég færi Karli Gauta Hjaltasyni, þingmanni Flokks fólksins, þakkir fyrir að vekja máls á þessu brýna málefni. Mér er málið hugleikið og líkt og samstarfsfólk mitt í þinginu hef ég áhyggjur af slökum lesskilningi íslenskra drengja. Niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2015 sýndu að 29% íslenskra drengja væru í lægstu hæfniþrepum prófsins og gætu ekki lesið sér til gagns. Það er stórt samfélagslegt verkefni að bæta læsi íslenskra barna og að því vinnum við í sameiningu. Eitt mikilvægt tæki til þess eru lesfimipróf sem innleidd hafa verið. Vísbendingar eru um að okkur miði í rétta átt samkvæmt nýjustu niðurstöðum.

Brotthvarf

Töluverður munur er á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum eftir kynjum og þar hallar á drengina. Á Íslandi eru fleiri karlar á aldrinum 25-34 ára án framhaldsskólamenntunar en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Menntunarstig þjóðarinnar hefur aukist mjög á sl. tíu árum, en háskólamenntuðum konum hefur fjölgað mun hraðar en körlum þannig voru konur eru tveir af hverjum þremur sem brautskráðust af háskólastigi hér á landi á árunum 2015-2016. Að undanförnu höfum við gripið til aðgerða til að sporna við brotthvarfi úr framhaldsskólum m.a. með því að veita auknum framlögum til skólanna til að mæta nemendum í brotthvarfshættu, hefja skimun fyrir brotthvarfi og vinna að bættri geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.

Samstarf um árangur

Vellíðan og velgengni nemenda er stöðugt verkefni skólafólks og menntakerfisins í heild. Þar þurfa margir þættir að koma saman til að árangur náist og hann sé viðvarandi. Nú í haust var stigið gott skref í þá átt að auka samstarf í þágu barna þegar ráðherrar félags- og jafnréttismála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis, ásamt fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að við hyggjumst auka samstarf okkar á þeim málefnasviðum er snúa að velferð barna og brjóta niður múra sem myndast geta milli kerfa. Markmiðið er skýrt; að tryggja sem best að börn og ungmenni fái heildstæða og samhæfða þjónustu þvert á stofnanir og kerfi.

Snemmtæk íhlutun

Þessi viljayfirlýsing kallast á við þær áherslur sem við höfum talað fyrir er snerta snemmtæka íhlutun. Hún felur í sér að börn og ungmenni fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni og þeim sé veitt liðsinni áður en vandi þeirra ágerist. Við náum mestum árangri með snemmtækri íhlutun þegar allir leggja sig fram við að eyða þeim hindrunum sem geta skapast milli málefnasviða, stjórnsýslustiga og stofnana þegar kemur að því flókna verkefni að stuðla að velferð barna.Íslenskt menntakerfi er öflugt og mörgum kostum búið. Við viljum gera enn betur og sóknarfærin eru víða. Menntatölfræði og niðurstöður rannsókna eru mikilvæg innlegg í þá stefnumótun sem nú stendur yfir vegna mótunar menntastefnu til ársins 2030. Eitt af því sem er til skoðunar þar er hvernig við getum forgangsraðað með skilvirkari hætti í þágu þeirra sem mæta áskorunum í menntakerfinu, hvort sem það eru drengir eða stúlkur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Hugsum út fyrir búðarkassann

Deila grein

08/11/2018

Hugsum út fyrir búðarkassann

Á Íslandi höfum verið svo lánsöm að búa við þær aðstæður að íslenskar landbúnaðarafurðir eru með því heilnæmasta sem finnst í heiminum. Búfjársjúkdómar eru sjaldgæfir vegna legu landsins og vegna þess hvernig bændur hafa staðið að búskap sínum. Við erum því í einstakri og eftirsóknarverðri stöðu þegar kemur að því að kaupa í matinn. Við getum valið íslenskt og verið örugg um það að sú vara er með því öruggasta og besta sem fyrirfinnst í matvöruverslunum í heiminum.

Uppgjör dagsins

Einhver myndi halda að slík sérstæða væri eitthvað sem vert væri að halda í. Það eru þó ekki allir á því máli eins og kemur fram í vilja einstakra kaupmanna og heildsala sem hafa lengi barist fyrir því að opna landið fyrir erlendum matvælum, nú síðast hráu kjöti. Eftir langvinn málaferli hafa þeir nú unnið sigur og ættu að geta flutt inn hrátt kjöt óheft frá aðildarríkjum EES-samningsins. Þeir gleðjast um stund yfir því að geta fengið meira í kassann því álagningin á verksmiðjuframleitt innflutt kjöt gefur líklega í meira í kassann. Alveg eins og léttvínið og bjórinn sem þeim er svo mikið í mun um að fá í rekkana í verslunum sínum.

Unnið gegn lýðheilsu

Þetta er kallað viðskiptafrelsi og grundvallast á samningum við ESB. Við getum selt fisk án takmarkana og á sama tíma er ætlast til að hingað sé flutt inn hrátt kjöt án takmarkana. Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Það sem við látum ofan í okkur getur ekki aðeins snúist um krónur og aura eða evrur ef því er að skipta. Ég tel ekki eðlilegt að Evrópusambandið geti skyldað Íslendinga til að taka upp löggjöf sem vinnur gegn heilbrigði þjóðarinnar.

Ónæmi gegn sýklalyfjum er alvarlegt mál

Heilbrigði dýra og heilnæmi matar er grundvallaratriði þegar kemur að innflutning á hráum kjötvörum. Þar standa þær Evrópuþjóðir sem mest framleiða af kjöti einfaldlega ekki á sama plani og Íslendingar. Sú matvara sem við erum svo lánsöm að hafa notið hér í boði íslenskra bænda er einfaldlega heilnæmari og betri en mikið af því kjöti sem boðið er upp á í Evrópu. Þetta er staðreynd þegar litið er til þess hversu algengt salmonellu- og kamfýlóbaktersmit er í kjöti í ríkjum ESB; þetta er staðreynd þegar litið er til þess magns af sýklalyfjum sem notað er í landbúnaði á meginlandinu og er farið að gera það að verkum að fólk myndar með sér sýklalyfjaónæmi. Þetta er ekki hræðsluáróður. Þetta er ekki pólitík. Þetta eru staðreyndir.

Sveitir landsins eru ekki menningartengd ferðaþjónusta

Áhrifin af innflutningi á hráu kjöti hefur einnig áhrif á lifandi dýr en þess eru dæmi að sýkt hrátt kjöt hafi smitað búpening með skelfilegum afleiðingum. Áhrifin eru einnig efnahagsleg því hvernig eiga íslenskir bændur að keppa við risastór verksmiðjubú meginlandsins í verði? Viljum við þakka íslenskum bændum fyrir að byggja hér upp heilbrigðan bústofn og framleiða heilnæmar vörur með því að leyfa versluninni að flytja inn hrátt kjöt og stefna lýðheilsu í hættu? Viljum við knýja þá til að stíga niður á sama plan og mörg lönd Evrópu eru að glíma við að komast út úr? Framsókn segir nei. Íslenskar sveitir eru ekki menningartengd ferðaþjónusta til sýnis í vorferð Viðreisnar.

Herða frekar en hitt?

Nýverið sýndi rannsókn að bakteríur, ónæmar fyrir sýklalyfjum, hefðu fundist í 13 sýnum af innfluttu grænmeti en ekkert fannst í íslensku grænmeti. Kannski ættum við í ljósi rannsókna að herða frekar löggjöfina þegar kemur að innflutningi á matvælum heldur en að gefa eftir. Framsókn mun leita allra leiða með samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórn og á vettvangi Norðurlanda til að koma í veg fyrir að heilsu landsmanna verði fórnað fyrir skammtímahagsmuni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Sameiginlegt hagsmunamál

Deila grein

05/11/2018

Sameiginlegt hagsmunamál

Innflutningur á kjöti hefur stóraukist eftir að íslensk stjórnvöld slökuðu á þeim höftum sem beitt hefur verið til að styðja við íslenska kjötframleiðslu og til að verja íslenska búféð.  Lega landsins hefur verndað íslenskt búfé fyrir búfjársjúkdómum sem herja á erlent búfé. Nú er svo komið að fjórðungur á kjötmarkaði hér á landi er innflutt kjöt. Á sama tíma berast fréttir af alvarlegum búfjársjúkdómum sem enn skjóta sér niður erlendis eins og kúariða í Skotlandi og afrísk svínapest sem nú herjar í Evrópu.

Loftslagsmál eru eitt helsta áherslumál ríkisstjórnarinnar.
Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum miðar að því að Ísland nái markmiðum Parísarsamningsins til 2030 og metnaðarfullu markmiði ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Hluti af þeirri áætlun hlýtur að vera að stefna að því að styrkja innlenda matvælaframleiðslu og styrkja alla umgjörð um nýtingu lands í átt að sjálfbærni. Innlend matvælaframleiðsla er best til þess fallin að fækka kolefnissporum og stuðla að minni umhverfissporum.

Opin landamæri

Við höfum verið á hraðferð við að opna landið fyrir innflutningi fyrir landbúnaðarafurðum. Fylgjendum þeirra sem tala fyrir frjálsum innflutningi segjast tala máli neytenda og tala fyrir frelsi bænda. Ekki skal dregið úr þeirri staðreynd að málefni neytenda og íslenska landbúnaðarins fari saman. Það á líka við þegar kemur að auknum innflutningi landbúnaðarvara. Það er stórt hagsmunamál íslensks landbúnaðar og neytenda að brugðist verði við auknum innflutningi á hráu kjöti, ógerilssneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Þar getur hreinlega skilið á milli feigs og ófeigs í hreinleika íslenskra búvara.  Aldargamalli baráttu íslenskra vísindamanna og bænda við innflutta búfjársjúkdóma hefur orðið mikið ágengt en er nú virt að vettugi.

Íslensk stjórnvöld samþykktu árið 2010  að innleiða matvælagjöf ESB með það að leiðarljósi að íslensk lög um dýrasjúkdóma myndu standa með því að ekki yrðu flutt hingað hráar dýrafaurðir. En sakleysi okkar og trú á því að ekki yrði farið yfir þá varnargarða er orðið að engu með niðurstöðu EFTA dómstólsins.

Tryggja þarf varnir landsins

Það er ljóst að við verðum að breyta um stefnu. Okkar vopn eru okkar frábæru hreinu landbúnaðarvörur sem okkur ber að verja. Niðurstaða EFTA brýtur á rétti okkar allra, ekki síst neytenda, heilbrigði dýra og matvælaöryggis. Tilgangur innleiðingar á matvælalöggjöf ESB hefur snúist í andhverfu sína. En með matvælalöggjöfinni átti að styrkja hag neytenda.

Það verður að ná samningum við ESB á grundvelli EES samningsins um að Íslandi verði heimilað að verja okkar dýrastofna gegn búfjársjúkdómum. Það þýðir að við verðum að koma í veg fyrir innflutning á hráu kjöti og sækja þarf strax um allar tryggingar sem til eru í þá veru. Auka þarf eftirlit með innflutningi og tollahliðum. Þannig geta íslensk stjórnvöld tryggt að íslenskur landbúnaður standi jafnfætis í samkeppni á markaði.

Matvæla- og landbúnaðarráðuneyti

Íslenskur landbúnaður er á krossgötum. Það er komið að þeim tímamótum að blása byr í seglin með íslenskum neytendum og landbúnaði. Stofna ætti sér matvæla- landbúnaðarráðuneyti. Þar undir ættu landbúnaðar- matvæla- og neytendamál og þetta væri liður í metnaðarfullri áætlun í lofslagsmálum. Með því að styrkja stjórnsýsluna er stutt við sjálfbærni, nýsköpun og vöruþróun íslenskra matvælaframleiðslu. Draga þarf enn frekar fram sérstöðu íslenskrar framleiðslu og umhverfislega þýðingu þess að nýta betur innlend aðföng eftir því sem hægt er. Þegar þangað er komið getum við sagt að hagur íslenskra neytenda sé borgið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 1. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Raddir unga fólksins á Norðurlöndum

Deila grein

02/11/2018

Raddir unga fólksins á Norðurlöndum

Ísland tekur við formennsku í Norðurlandaráði í byrjun næsta árs og á nýafstöðnu Norðurlandaráðsþingi í Ósló fyrr í vikunni kynnti ég þær áherslur sem við munum leggja á sviði menningarmála. Þrjú áhersluatriði íslensku formennskunnar snúa að sjálfbærri ferðamennsku í norðri, hafinu og ungu fólki á Norðurlöndunum en viðfangsefni okkar á menningarsviðinu tengjast einkum hinu síðastnefnda.

Þannig eru verkefni okkar Menntun fyrir alla og Platform-Gátt umfangsmikil verkefni á sviðum menntunar og lista fyrir ungt fólk. Þar er sérstök áhersla lögð á þátttöku og samræðu þeirra um mennta- og menningarmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Á þessu ári förum við einnig með formennsku í norrænu barna- og ungmennanefndinni NORDBUK en eitt af markmiðum hennar er að efla samtakamátt og þátttöku ungs fólks á Norðurlöndunum í samfélagslegum verkefnum og lýðræðisferlum.

Ísland leggur áherslu á tungumálasamstarf í formennsku sinni og mun ég mæla fyrir því að kannað verði hvort tímabært sé að endurskoða málstefnu Norðurlanda í heild sinni. Á fundinum í Ósló urðu þau tímamót að íslenska og finnska voru í fyrsta sinn formlega skilgreindar sem opinber mál Norðurlandaráðs og er það mikið framfaraskref. Þá munum við skipuleggja tvær ráðstefnur þar sem málefni Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) um heimsminjar og menningarerfðir verða í brennidepli. Á vettvangi fjölmiðlunar munum við gera átak í að efla fjölmiðlun sem tæki gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Á sviði íþrótta- og æskulýðsmála er ráðgert að skipuleggja hliðarviðburði á stórri ráðstefnu íslensku formennskunnar um #églíka-byltinguna næsta haust.

Á fundi norrænu menningarmálaráðherranna í Ósló var einnig tekin ákvörðun um sameiginlega menningarkynningu Norðurlandanna, hliðstæða Nordic Cool sem fram fór í Washington 2013 og Nordic Matters í Lundúnum 2017, og mun sendinefnd kynna tillögur sínar að staðsetningu þriðju menningarkynningarinnar um miðjan nóvember.

Ég vil að lokum óska verðlaunahöfum Norðurlandaráðs, sem veitt voru á þinginu, hjartanlega til hamingju. Það er sérlega ánægjulegt að tvenn verðlaun hlotnuðust íslensku listafólki að þessu sinni; rithöfundinum Auði Övu Ólafsdóttur sem hlaut bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Ör og aðstandendum kvikmyndarinnar Kona fer í stríð sem fengu kvikmyndaverðlaunin. Verðlaun þessi munu án efa auka hróður fyrrgreindra verka og listamanna enn frekar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Norræn samvinna

Deila grein

31/10/2018

Norræn samvinna

Sam­starf Norður­landaþjóða er okk­ur verðmætt. Menn­ing okk­ar og tungu­mál eru svipuð og auðvelt er að sækja sér nám og vinnu á Norður­lönd­um sam­an­borið við önn­ur svæði. Þau eru sem okk­ar heima­völl­ur en á þriðja tug þúsunda Íslend­inga eru ým­ist í námi eða í vinnu víðs veg­ar um svæðið. Sam­an­lagt eru Norður­landa­rík­in stærsta ein­staka „viðskipta­land“ okk­ar sé litið til vöru og þjónustu. Að því þarf að hlúa.

Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn þó að lönd­in séu inn­byrðis lík og deili svipuðum gild­um, sögu og menn­ingu. Ákvörðunin um að Norður­landa­rík­in eigi að vinna sam­an er meðvituð. Sam­vinn­an leys­ir úr læðingi sköp­un­ar­kraft og styrk­leika sem verða ekki til nema af því að lönd­in styðja hvert annað á nor­ræn­um vett­vangi. Lönd­in sækja hug­mynd­ir að góðum lausn­um hvert til ann­ars, skiptast á reynslu, ræða þróun mála og sam­eig­in­lega hags­muni Norður­landa­ríkj­anna. Slíkt sam­tal er mik­il­vægt.

Sam­keppn­is­hæfni

Nor­rænt sam­starf skipt­ir okk­ur meira máli nú, ekki síst þegar svo mik­ill órói er á alþjóðavett­vangi. Þá þétt­um við Norður­landa­rík­in sam­starf okk­ar inn á við og ger­um okk­ar besta til að hafa góð áhrif út í heim. Sama má segja um sam­tal er varðar lög­gjaf­ar­starf­semi á vett­vangi Evr­ópu­sam­bands­ins.

Með nor­rænni sam­vinnu má draga fram sér­stöðu land­anna sem styrk­ir sam­keppn­is­hæfni þeirra út á við. Norður­landa­rík­in geta þannig vakið at­hygli á sér­stöðu sinni á hvaða vett­vangi sem er, til að mynda í mat­væla­fram­leiðslu og ör­yggi mat­væla. Í mín­um huga stend­ur Ísland öðrum lönd­um fram­ar hvað varðar fram­leiðslu á heil­næm­um mat­væl­um, í sjáv­ar- og land­búnaðar­af­urðum. Með heilnæm­um mat­væl­um er átt við hrein­ar afurðir í landi þar sem lyfja­notk­un er með því allra minnsta sem þekk­ist í heim­in­um.

Norður­landa­rík­in hafa sett mat­væla­ör­yggi á dag­skrá. Það er nefni­lega ekki sjálf­gefið að mat­væli eigi að flæða frjálst á milli landa á EES-svæðinu eins og hverj­ar aðrar vör­ur. Ekki í þeim til­fell­um þegar verja þarf lýðheilsu gegn mat­væl­um sem geta haft skaðleg áhrif á líf­ríkið hér á landi en ekki á meg­in­landi Evr­ópu. Ísland býr við þá sér­stöðu um­fram önn­ur lönd að auðveld­ara er að verj­ast sjúk­dóm­um, forðast sýkla­lyfja­ónæmi og draga úr út­breiðslu slíkra bakt­ería vegna þess að við erum eyja með hreina búfjár­stofna. Slíkt er eft­ir­sókn­ar­vert.

Þrátt fyr­ir framþróun á nýj­um sýkla­lyfj­um hafa áhyggj­ur vís­inda­fólks víða um heim farið vax­andi síðastliðin ár vegna vax­andi sýkla­lyfja­ónæm­is, sem er ógn sem taka þarf al­var­lega. Það skipt­ir máli hvernig vara er fram­leidd og hvað þú býður þér og börn­um þínum að borða. Þar erum við á Norður­lönd­um sam­mála og að mestu sam­stiga.

Gagn­veg­ir góðir

Norður­landaráð er dæmi um vett­vang sem get­ur sett mál á dag­skrá sem varðar okk­ar hags­muni. Ísland tek­ur við for­mennsku í nor­rænu ráðherra­nefnd­inni á næsta ári. Okk­ar áætl­un var kynnt á Norður­landaráðsþing­inu í Osló. Það þýðir að nor­ræn­ir fund­ir og ráðstefn­ur fær­ast til Íslands og sam­starfið fer að stór­um hluta fram hér á landi. Tæki­færi eru í því til að treysta okk­ur fót­festu í samstarf­inu.

Yf­ir­skrift for­mennsk­unn­ar er Gagn­veg­ir góðir, sem er sótt í Há­va­mál. Áhersl­an í for­mennskutíð Íslands er á þrjú meg­in­at­riði; ungt fólk á Norður­lönd­um, sjálf­bæra ferðamennsku í norðri og hafið – blá­an vöxt í norðri. Sér­stök­um for­mennsku­verk­efn­um verður ýtt úr vör, sem stýrt verður frá Íslandi. Mark­miðið er að efna til inni­halds­ríks nor­ræns sam­starfs um þessi mál­efni sem skili raun­veru­leg­um niður­stöðum og árangri fyr­ir al­menn­ing á Norður­lönd­um. For­mennsk­an mun m.a. leggja áherslu á að styðja lít­il fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu við að nýta sér vaxt­ar­mögu­leika sem fel­ast í staðbundn­um mat­væl­um og sta­f­rænni tækni.

Í for­mennsk­unni verður einnig sett­ur fókus á mál­efni Vest­ur-Norður landa­ríkj­anna, þ.e. Fær­eyja og Græn­lands, og á norður­slóðamál­in. Þar mun­um við sam­nýta krafta með for­mennsku okk­ar í Norður­skauts­ráðinu sem hefst líka á næsta ári. Síðast en ekki síst tengj­um við alla for­mennsku­áætlun okk­ar við heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna – og þannig við um­hverf­is­mál­in.

Við erum ein­fald­lega kom­in á þann stað að allt sem við ger­um, þar með talið sjálf­bærni mat­væla, þarf að þjóna því mark­miði að tryggja sjálf­bærni og stemma stigu við lofts­lags­breyt­ing­um. Margt smátt ger­ir eitt stórt, og for­mennsku­verk­efn­in eru hluti af því.

En fyrst og fremst vilj­um við koma með já­kvæða orku og nýj­ar hug­mynd­ir inn í nor­rænt sam­starf á næsta ári, vera traust og ábyggi­legt for­mennsku­ríki og tryggja að nor­rænt sam­starf sé áfram kraft­mikið og ár­ang­urs­ríkt í okk­ar allra þágu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra og sam­starfs­ráðherra Norður­landa.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. október 2018.

Categories
Greinar

Hæst hlutfall háskólamenntaðra

Deila grein

25/10/2018

Hæst hlutfall háskólamenntaðra

Samkvæmt nýjustu skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um menntatölfræði eru meginstyrkleikar íslenska menntakerfisins gott aðgengi að menntun og góð samskipti nemenda og kennara. Skýrslan »Menntun í brennidepli« tekur nú í fyrsta sinn mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og er því sérstaklega fjallað þar um jöfn tækifæri til náms og hvernig félagslegar aðstæður, uppruni og kyn hafa áhrif á skólasókn og menntunarstig.

Fram kemur í skýrslunni að fjárfestingar okkar í menntakerfinu hafa aukist og að hér sé mjög hátt hlutfall háskólamenntaðra í alþjóðlegum samanburði sem og mikil atvinnuþátttaka. Hlutfall háskólamenntaðra á aldrinum 25-64 ára er einna hæst hér og í Danmörku af Norðurlöndum. Í aldurshópnum 25-64 ára hafði 21% Íslendinga og Dana lokið grunnnámi á háskólastigi árið 2017 en það hlutfall er 17% í Svíþjóð og Finnlandi og 19% í Noregi. Þegar horft er á hlutfall kynjanna og þróunina síðustu 10 ár má sjá hversu hratt menntunarstig þjóðarinnar hefur vaxið. Hlutfall háskólamenntaðra karla á aldrinum 25-34 ára á Íslandi hefur aukist um 10 prósentustig á 10 árum meðan hlutfall háskólamenntaðra kvenna hefur aukist um 20 prósentustig. Þetta er umtalsverð aukning á svo skömmum tíma og ekki síst þegar tekið er tillit til þess að þrátt fyrir hana telst atvinnuleysi hjá háskólamenntuðum mjög lítið hér á alþjóðlegan mælikvarða.

Ein áskorun sem mörg ríki stríða við er mikið atvinnuleysi meðal ungs fólks sem hverfur frá námi og fær ekki vinnu. Ísland stendur áberandi vel að vígi að þessu leyti, þrátt fyrir að brotthvarf úr námi hafi verið viðvarandi á framhaldsskólastigi. Ef litið er á aldursbilið 18 til 24 ára eru aðeins 5% íslenskra ungmenna hvorki í skóla né vinnu og er það lægsta hlutfall meðal ríkja OECD.

Skólasókn dreifist líka yfir lengra tímabil hér á landi, algengt er í samanburðarlöndum okkar að skólasókn sé mikil á aldrinum 15-19 ára en minnki svo en hér er mjög hátt hlutfall ungs fólks á aldrinum 25-29 ára í skóla. Ungt fólk notfærir sér í auknum mæli tækifæri í atvinnulífinu og frestar skólagöngu en snýr aftur eftir að hafa náð sér í starfsreynslu. Hvort þetta er jákvætt eða neikvætt er matsatriði, en sú hætta er fyrir hendi að hópar hverfi alfarið frá námi og ljúki ekki skólagöngu á framhaldsskólastigi.Menntatölfræði skiptir okkur miklu við stefnumótun og ákvarðanatöku og samfella í þeim mælingum er afar mikilvæg. Tekið verður mið af skýrslum og greiningarvinnu sem fyrir liggja og sjónum beint að þessum áskorunum í yfirstandandi vinnu við mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030. Um leið og við fögnum fjölgun háskólamenntaðra á Íslandi vil ég einnig óska Bandalagi háskólamanna til hamingju með 60 ára starfsafmæli félagsins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2018.

Categories
Greinar

Rætur menningarinnar

Deila grein

24/10/2018

Rætur menningarinnar

Bækur hafa fylgt íslensku þjóðinni alla tíð og hafa að geyma okkar helstu menningarverðmæti. Menningarlegt mikilvægi þeirra er ótvírætt og gildi þeirra fyrir íslenska tungu sömuleiðis. Samkvæmt Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) er íslenska eitt þeirra tungumála sem eru í hættu að glatast og því mikilvægt að hlúa að tungunni eins og frekast er unnt.

Á þriðjudaginn var mælti mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fyrir frumvarpi um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Íslensk bókaútgáfa hefur átt í vök að verjast en undanfarin tíu ár hefur bóksala dregist saman um 36% meðal annars vegna tæknibreytinga og örrar samfélagsþróunar.

Það er brýnt fyrir fámenna þjóð eins og okkar að takast á við áskoranir sem þessar og snúa vörn í sókn. Frumvarpið sem um ræðir er stuðningur við útgáfu bóka á íslensku, sem heimilar endurgreiðslu 25% kostnaðar vegna útgáfu þeirra. Ráðgert er að verja til verkefnisins um 400 milljónum kr. frá og með árinu 2019 og gildir þá einu um hvort bókin er gefin út á prenti eða rafrænu formi. Þessi stuðningur er í takt við það endurgreiðslukerfi sem kvikmynda- og tónlistariðnaðurinn nýtur og hefur það gefið góða raun.

Íslenskan í öndvegi

Ríkisstjórnin hefur sett íslenskuna í öndvegi á þessu kjörtímabili. Til viðbótar við nýtt stuðningskerfi fyrir útgáfu bóka á íslensku má nefna máltækniverkefnið, sem mun gera íslenskuna gildandi í stafrænum heimi til framtíðar og gera komandi kynslóðum kleift að eiga samskipi við snjalltækin sín á íslensku. Þá hafa verið kynntar tillögur til þess að efla einkarekna fjölmiðla en enginn þarf að velkjast í vafa um mikilvægi þeirra í lýðræðisþjóðfélagi.

Til allrar menningar þarf ræktun og allrar ræktunar þarf tíma. Fámenn þjóð sem okkar verður að hafa slíkt hugfast og vinna stöðugt að því að skapa hagfelld skilyrði fyrir blómlegt menningarlíf þar sem íslenskan er í brennidepli. Frumvarpið um stuðning við útgáfu bóka á íslensku er mikilvæg varða á þeirri leið og hvetur okkur áfram til dáða við að hlúa betur að rótum menningar okkar, sjálfu tungumálinu.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjödæmi

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar í Reykanesbæ

Greinin birtist fyrst á www.visir.is 21. október 2018.

Categories
Greinar

Jafnréttismenning

Deila grein

24/10/2018

Jafnréttismenning

24. október hefur allt frá víðfrægum fundi kvenna á Lækjartorgi árið 1975,  verið helgaður baráttunni fyrir jöfnum réttindum á vinnumarkaði, launajafnrétti og auknum aðgangi kvenna að samfélagslegum valdastöðum. Saga kvennafrídagsins er flestum kunn en á þessum degi fyrir 43 árum síðan bentu konur á mikilvægi starfa sinna og vinnuframlags með því að leggja niður launuð og ólaunuð störf. Eðli málsins samkvæmt var samfélagið í lamasessi. Samtakamátturinn þá er enn í fersku minni og hefur æ síðan verið aðalsmerki kvennahreyfingarinnar hér á landi.

Undanfarin ár hefur 24. október verið nýttur til að benda á það sem betur má fara hérlendis, ekki síst þá staðreynd að enn mælist kynbundinn launamunur á íslenskum vinnumarkaði. Lög um jafnlaunavottun tóku gildi í upphafi þessa árs. Þau kveða á um skyldu fyrirtækja og stofnana að undirgangast formlega úttekt og vottun sem staðfestir að stjórnunarkerfi þeirra uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins. Jafnlaunavottun getur þannig endurspeglað metnað fyrirtækja og stofnana sem vilja vera eftirsóttir vinnustaðir og sjá sér hag í að sýna fram á að þau reki launastefnu sem byggist á markvissum og faglegum aðferðum. Jafnlaunastaðallinn er eini sinnar tegundar í heiminum og er afurð áralangs samstarfs heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda. Markmiðið með gerð hans var að þróa leið til að eyða kynbundnum launamun þannig að greidd séu sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf, líkt og kveðið hefur verið á um í lögum í áratugi. Þetta verkefni hefur hlotið mikla athygli út fyrir landsteinana og litið er til Íslands sem fyrirmyndar hvað varðar aðgerðir og þróun málaflokksins. Árangur okkar byggist á víðtæku samráði og fyrir það ber að þakka.

Í dag stendur kvennahreyfingin í samstarfi við samtök launafólks fyrir baráttufundi þar sem sjónum er beint að launajafnrétti og öryggi kvenna á vinnustöðum. Stjórnvöld hafa brugðist við #ég líka hreyfingunni með margvíslegum hætti. Verkefnin miða að fyrirbyggjandi aðgerðum og forvörnum en ekki síst að því hvernig megi skapa raunverulega jafnréttismenningu í samfélaginu.

Þrátt fyrir að lög og regluverk um viðbrögð og skyldur atvinnurekenda vegna kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldi á vinnustöðum séu fyrir hendi sýna #ég líka frásagnirnar gríðarlegt umfang vandans sem enn fær að viðgangast. Gallup-könnun sem gerð var í nóvember í fyrra sýnir að nærri helmingur allra kvenna, eða 45%, hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi en 15% karla. #Ég líka frásagnir kvenna af erlendum uppruna um andlegt og líkamlegt ofbeldi á íslenskum vinnumarkaði voru mjög þörf áminning um að hin svokallaða jafnréttismenning hefur ekki náð til allra hópa í okkar samfélagi. Við þurfum að vera meðvituð og vakandi fyrir birtingarmyndum margþættrar mismununar og skoða áhrif stjórnvaldsaðgerða út frá kyni en einnig öðrum þáttum eins og uppruna, kynvitund og kynhneigð.

Í samræmi við þær áherslur fer nú fram vinna innan Stjórnarráðsins sem miðar að frekari útvíkkun jafnréttishugtaksins í íslenskri löggjöf og mótun  heildstæðrar stefnu í jafnréttismálum sem ætlað er að tryggja framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð einstaklinga.

Ég vona að þessar aðgerðir eigi eftir að auka á jafnréttismenningu og marka framfararspor í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna í okkar samfélagi. Baráttu sem hófst fyrir meira en 100 árum síðan og við munum í sameiningu halda áfram.

Til hamingju með daginn!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherrs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, jafnrétti kynningarblaði, 24. október 2018.

Categories
Greinar

Réttu barni bók

Deila grein

24/10/2018

Réttu barni bók

Nú er tími vetrarfríanna hjá íslenskum grunnskólabörnum. Það er kærkomin tilbreyting að líta upp úr námsefninu bæði fyrir nemendur og kennara og vonandi gefst sem flestum færi á að njóta samverustunda í fríinu. Öll viljum við að börnin okkar njóti þeirra möguleika sem lífið hefur upp á að bjóða. Mikilvægt er að þau fái tækifæri til þess að þroskast og blómstra í fjölbreyttum verkefnum.

Lestrarfærni er lykill að lífsgæðum okkar og bækur grundvöllur símenntunar alla ævi. Við vitum að þeirri færni hefur farið hrakandi og ýmislegt hefur þegar verið gert til þess að snúa þeirri þróun við og efla læsi barna og unglinga.

Á dögunum kynntum við aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu til framtíðar. Í liðinni viku mælti ég fyrir frumvarpi sem heimilar endurgreiðslu 25% kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku. Þeirri aðgerð er ætlað að hvetja til aukinnar útgáfu bóka, á prenti og rafrænum miðlum og auka þannig framboð og fjölbreytni efnis fyrir íslenska lesendur.

Til þess að stuðla að bættu læsi þurfa allir aldurshópar, og ekki síst börn og ungmenni, að geta nálgast áhugavert og fjölbreytt lesefni á íslensku.

Gildi bókaútgáfu fyrir þróun tungumálsins okkar er óumdeilt. Útgáfa bóka er ein af mikilvægustu stoðum íslenskrar menningar.

Frá því að land var numið á Íslandi höfum við skrifað og lesið til að skilja okkur sjálf. Það er tungumálið okkar sem geymir þann galdur.

Íslenskan er okkar þjóðtunga og opinbert mál, og okkur ber að tryggja að hægt sé að nota hana á öllum sviðum þjóðlífsins. Til þess eru margar leiðir, sumar umfangsmiklar eins og sú innspýting fyrir íslenska útgáfu sem frumvarpið boðar. Aðrar eru einfaldari og kalla á hugarfarsbreytingu eða aukna meðvitund hjá okkur öllum, eins og að velja oftar að rétta barni bók.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á www.visir.is 22. október 2018.