Categories
Greinar

Dýrafjarðargöng – útboð í haust!

Deila grein

24/04/2016

Dýrafjarðargöng – útboð í haust!

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraÍ nýjasta tölublaði blaðsins Vestfjarða er því haldið fram að fyrirhugaðar kosningar í haust valdi því að óvissa verði um framkvæmd Dýrafjarðarganga enn eina ferðina og að útboði verði mögulega frestað. Þetta er mikill misskilningur sem verður að leiðrétta.

Vestfirðingar hafa alltof lengi þurft að bíða eftir nauðsynlegum samgöngubótum. Árið 1999 gerði Vegagerðin skýrslu þar sem jarðgangnakostum var forgangsraðað og þar sem m.a. var horft til byggðaáhrifa. Þrjú jarðgöng voru efst á lista og voru Dýrafjarðargöng þar á meðal. Þrátt fyrir að framkvæmdir hefðu mátt hefjast miklu fyrr við að tengja norður- og suðurfirðina þá er það gleðiefni að loks séu framkvæmdir að fara að hefjast.

Engum dylst hve mikilvægt það er fyrir dreifbýlt svæði eins og Vestfirði sem lengi hefur átt undir högg að sækja, að hafa góðar samgöngur á milli helstu þéttbýlisstaða. Greiðar samgöngur eru forsenda þess að byggð þrífist og að fyrirtækin á svæðinu séu samkeppnishæf.

Í síðustu viku var samgönguáætlun til ársins 2018 lögð fram á þinginu og er það gleðiefni að stór hluti af nýframkvæmdum á landinu verði á Vestfjörðum. Þar eru Dýrafjarðargöng langstærsta framkvæmdin ásamt veglagningu yfir Dynjandisheiði sem verður ráðist í samhliða jarðgangnagerðinni og verður hvort um sig tilbúið árið 2020. Einnig sér fyrir endann á deilum sem hafa staðið um vegagerð í Gufudalssveit og er fjármagn tryggt í þær framkvæmdir um leið og þær geta hafist. Af öðrum verkefnum má nefna að fé er sett í Djúpveg á kaflanum frá Hestfirði og yfir í Seyðisfjörð, áfram verður unnið að veginum yfir Bjarnarfjarðarháls og hafist verður handa á Veiðileysuháls ásamt fleiri verkefnum.

Það er hins vegar alveg skýrt að stefna stjórnvalda eru að bjóða Dýrafjarðargöng út í haust. Undanfarin ár hefur alltaf verið unnið í einum jarðgöngum í einu á landinu og nú sér fyrir endann á Norðfjarðargöngum. Það er breið samstaða um það að Dýrafjarðargöng séu næst í röðinni og því ættu fyrirhugaðar kosningar engu að breyta varðandi útboð á göngunum í haust.

Fleiri jákvæð teikn eru á lofti á Vestfjörðum, hringtenging ljósleiðara og sérstaklega má nefna raforkuframleiðslu í fjórðungnum. Eitthvað segir mér að árið 2016 geti orðið upphaf nýrra tíma á Vestfjörðum.

Gunnar Bragi Sveinsson.

Greinin birtist á www.bb.is 24. apríl 2016.

Categories
Fréttir

Heimilt að merkja íslenskar vörur með íslenska þjóðfánanum

Deila grein

22/04/2016

Heimilt að merkja íslenskar vörur með íslenska þjóðfánanum

islenskifaninn-sijAlþingi hefur samþykkt frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Samkvæmt lögunum er nú heimilt, án sérstaks leyfis, að merkja íslenskar vörur með íslenska þjóðfánanum.
Tilgangur laganna er að auka möguleika framleiðenda vöru til koma íslenskum uppruna hennar á framfæri við markaðssetningu erlendis og hér á landi, þ. á m. gagnvart erlendum ferðamönnum. Þau sjónarmið búa jafnframt að baki lögunum að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem merkt er íslenska þjóðfánanum, treyst því að hún sé í raun íslensk að uppruna í þeim skilningi sem kveðið er á um lögunum.
Eftirlit með framkvæmd laganna verður á hendi Neytendastofu.

Ljósmynd: Sigurður Ingi Jóhannsson.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Sigrún undirritar Parísarsamninginn

Deila grein

22/04/2016

Sigrún undirritar Parísarsamninginn

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag Parísarsamninginn um aðgerðir í loftslagsmálum fyrir Íslands hönd við athöfn í New York. Í ávarpi í tilefni undirritunarinnar sagði ráðherra að Ísland ynni að því að framkvæma markmið samningsins, m.a. með aðgerðum á sviði samgangna, fiskveiða og landbúnaðar, auk kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu.
Fulltrúar yfir 160 ríkja skrifuðu undir samninginn við athöfn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í dag. Aldrei áður hafa jafn mörg ríki skrifað undir alþjóðasamning við slíka athöfn.
Sigrún Magnúsdóttir sagði í ræðu sinni að Ísland myndi leggja sig fram við að hrinda markmiðum Parísarsamningsins í framkvæmd. Endurnýjanleg orka væri notuð við hitun og rafmagnsframleiðslu á Íslandi, en draga yrði úr losun frá öðrum uppsprettum. Íslensk stjórnvöld styddu við uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og ynnu að minnkun losunar frá sjávarútvegi og landbúnaði í samvinnu við atvinnulífið. Mikilvægt væri að vinna að kolefnisbindingu úr andrúmsloftinu jafnframt því að draga úr losun. Ísland myndi efla skógrækt og landgræðslu, en á heimsvísu væri mikilvægt að berjast gegn eyðimerkurmyndun.
Sigrún sagði að Ísland styddi þróunarríki við verkefni á sviði loftslagsmála og hreinnar orku. Alþjóða jarðhitabandalagið hefði verið sett á fót í París og Ísland bindi vonir við að það ýti undir nýtingu jarðhita á heimsvísu. Ráðherra minnti á mikilvægi þess að konur nytu fulls jafnréttis og væru virkjaðar til ákvörðunartöku og starfa og benti á að jafnt kynjahlutfall sé í ríkisstjórn Íslands.
„Jafnrétti er markmið í sjálfu sér og mun að auki hjálpa okkur að vinna að grænni og betri framtíð. Parísarsamningurinn mun hjálpa okkur við að virkja pólitískan vilja og fjármagn til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Ísland mun leggja sitt af mörkum,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Fullgilding Parísarsamningsins

""

Parísarsamningurinn er lagalega bindandi alþjóðasamningur undir Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (sem er oftast kallaður Loftslagssamningur SÞ). Parísarsamningurinn hefur sömu lagalegu stöðu og Kýótó-bókunin við Loftslagssamninginn, sem skrifað var undir 1997 og tók gildi 2005. Skuldbindingar ríkja samkvæmt Kýótó-bókuninni renna út árið 2020, en skuldbindingar ríkja innan Parísarsamningsins eru miðaðar við tímann eftir 2020. Aðild ríkja að Parísarsamningnum fer í gegn um tvö skref, undirskrift og fullgildingu. Með undirskrift lýsa fulltrúar ríkisstjórna yfir vilja sínum til að uppfylla ákvæði samningsins, en fullgilding jafngildir staðfestingu á því að samningurinn hafi verið samþykktur í samræmi við innri reglur viðkomandi ríkis og eru ríki frá þeim tíma bundin við reglur hans. Ísland hefur nú undirritað samninginn ásamt yfir 160 öðrum ríkjum, en fullgilding er eftir. Vinna við það er hafin, en hún kallar meðal annars á þýðingu og lagalega rýni varðandi atriði sem kann að þurfa að leiða í íslensk lög. Ákvæði eru í Parísarsamningnum um að hann gangi í gildi alþjóðlega þegar minnst 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann.

Ráðherra átti stuttan fund með Barböru Hendricks umhverfisráðherra Þýskalands.Ráðherra átti stuttan fund með Barböru Hendricks umhverfisráðherra Þýskalands.

Ísland hefur lýst yfir ætlun að vinna að sameiginlegu markmiði með 28 ríkjum ESB innan Parísarsamningsins. Noregur hefur lýst yfir sams konar áformum, en bæði ríkin eru þátttakendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir skv. EES-samningnum. Hafnar eru óformlegar viðræður Íslands og Noregs með ESB um útfærslu á sameiginlegu markmiði um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990. Ísland mun einnig hafa samráð við ESB og Noreg varðandi fullgildingu Parísarsamningsins í ljósi þess að stefnt er að því að 30 Evrópuríki vinni að sameiginlegu markmiði innan hans.
Ávarp Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra við undirritun Parísarsáttmálans (pdf-skjal).

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Heimsmarkmiðum SÞ verði hrint í framkvæmd

Deila grein

22/04/2016

Heimsmarkmiðum SÞ verði hrint í framkvæmd

sigrunmagnusdottir-umhverfismalÁtak gegn matarsóun, loftslagsvæn orka, landgræðsla og barátta fyrir jafnrétti kynjanna eru meðal áherslumála Íslands við að hrinda í framkvæmd Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra nefndi þetta í ávarpi sínu í gær fyrir Íslands hönd á sérstökum ráðherrafundi um markmiðin í New York.
Ráðherra sagði að ríkisstjórnin myndi vinna að framkvæmd markmiðanna undir stjórn forsætisráðuneytis, í náinni samvinnu við utanríkisráðuneyti sem og önnur ráðuneyti og fulltrúa hinna ýmsu aðila í samfélaginu. Ráðherra sagði að barátta gegn matarsóun gagnaðist bæði við minnkun úrgangs og við að ná loftslagsmarkmiðum. Hún sagði að Ísland myndi vinna að markmiðunum heima fyrir, en einnig styrkja þróunarríki við að ná þeim. Hún nefndi í því samhengi starf verkefna Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, þar sem nemendur frá þróunarríkjum fá fræðslu á sviði jafnréttismála, landgræðslu, fiskveiða og jarðhita.
Ráðherra sagði að fullt jafnrétti kvenna og virk þátttaka væri nauðsynleg forsenda þess að Heimsmarkmiðin næðu fram að ganga.  Markmiðin eru 17 talsins, með 169 undirmarkmiðum. Þau voru samþykkt haustið 2015 og eiga að vera leiðarljós ríkja við að bæta lífskjör og efla umhverfisvernd til 2030. Efnt var til ráðherrafundarins nú til að vekja athygli á markmiðunum og hvetja ríki til að vinna að þeim í raun.
Yfirlýsing Íslands vegna heimsmarkmiðanna (pdf)

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Samkomulag um loftslagsvænni landbúnað

Deila grein

20/04/2016

Samkomulag um loftslagsvænni landbúnað

loftlagsmál og umhverfiSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands undirrituðu í dag samkomulag um gerð vegvísis um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði.
Vegvísirinn verður unninn í samvinnu stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands og mun taka mið af sambærilegri vinnu í sjávarútvegi, greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og vinnu í öðrum geirum. Skipuð verður verkefnisstjórn til að hafa umsjón með verkefninu. Henni er meðal annars ætlað að greina losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði á Íslandi með hliðsjón af sambærilegum greiningum sem unnar hafa verið í öðrum ríkjum s.s. í Noregi og Nýja Sjálandi. Í framhaldinu verða mótaðar tillögur að raunhæfum lausnum sem miða að samdrætti losunar gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði hérlendis.
Vegvísirinn er meðal verkefna í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem ætlað er að leiða til minni losunar og auðvelda Íslandi að standa við skuldbindingar í loftslagsmálum. Er í áætluninni lögð áhersla á samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í því skyni að tryggja sem bestan árangur verkefnanna.
Samkomulag um loftslagsvænni landbúnað (pdf-skjal)
Á myndinni eru: Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna og Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Uggur og áhyggjur

Deila grein

20/04/2016

Uggur og áhyggjur

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Við Íslendingar stærum okkur af því að hér sé jafnrétti meira en víðast hvar annars staðar og þá er ég að tala um jafnrétti kynjanna. Við stærum okkur af því að staða kvenna sé óvíða betri en á Íslandi. Víst er það svo að þegar maður sækir alþjóðaráðstefnur, eins og ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna, sér maður að vissulega höfum við náð langt og erum framarlega. Það eru samt tvær fréttir sem hafa heyrst á Íslandi á síðustu vikum sem valda mér ugg og áhyggjum, í fyrsta lagi frétt um að fjöldi heimilisofbeldismála sem komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu meira en tvöfaldaðist á milli áranna 2014 og 2015. Tvö heimilisofbeldismál koma til kasta lögreglu á degi hverjum.
Hin fréttin varðar það að kynferðisbrotum fjölgar og kærum fækkar. Fjöldi kynferðisbrotamála hjá Stígamótum hefur aukist á milli síðustu tveggja ára en af 468 málum sem komið hafi til kasta Stígamóta hefur einungis 41 verið kært.
Vissulega eru báðir þessir brotaflokkar mjög erfiðir. Það vill svo til að ég held að á Alþingi liggi enn fyrir þverpólitískt mál um að stemma stigu við heimilisofbeldi. Það væri góðu heilli gjört að koma því í gegnum Alþingi á þeim tíma sem við höfum til stefnu.
Ég held enn fremur að hugarfarsbreyting þurfi að verða í þjóðfélaginu, sérstaklega meðal karlmanna, hvað þessi mál varðar. Karlmenn eru gerendur í langflestum þessara tilvika. Það þarf að senda þau skilaboð inn í þennan hóp að slík framkoma í garð kvenna líðist ekki og muni ekki líðast. Við þurfum að gera gangskör í því að taka á þessum málum.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 19. apríl 2016.

Categories
Fréttir

Staðreynd að hér hefur náðst markverður efnahagslegur stöðugleiki

Deila grein

20/04/2016

Staðreynd að hér hefur náðst markverður efnahagslegur stöðugleiki

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Í pólitísku umróti liðinna daga er oft gott að leita í grunninn og spyrja grundvallarspurninga. Hvað er okkur mikilvægast? Ég get svarað þessu svo til að fólk hafi vinnu og þak yfir höfuðið. Auðvitað er þetta ekki svo einfalt en fræðilega viðurkennt að til útskýringa er einfaldleikinn oft góður.
Þá finnst mér hollt þegar ákall um breytingar er sterkt að velta fyrir mér andstæðu breytinga og hversu mikilvægur stöðugleikinn sé. Það er staðreynd að hér hefur náðst markverður efnahagslegur stöðugleiki allt kjörtímabilið með batnandi hag á mörgum sviðum og að atvinnuástand er með besta móti þar sem skráð atvinnuleysi í mars síðastliðnum samkvæmt Hagstofunni var 2,7% og hefur farið jafnt og þétt lækkandi. Fleiri og fleiri hafa vinnu og atvinnutækifæri. Það sem er einkar ánægjulegt er að atvinnulausum hefur fækkað í öllum landshlutum.
Ég held því ekki fram að þingkosningar raski endilega stöðugleika, þær eru alla jafna á fjögurra ára fresti, en það er viss hætta á að við gleymum okkur í því kappi sem fylgir. Kosningafjárlög sem við þekkjum í sögunni eru kannski besta dæmið um það. Stöðugleikinn er hreint ekki sjálfgefinn og það hefur náðst mikill árangur á því sviði. Mikilvægast er að við höldum áfram að vinna að því að bæta þau tæki og tól sem geta áfram tryggt efnahagslegan stöðugleika. Við höldum áfram að bæta hér umgjörð peningastefnunnar, vinnum ábyrga ríkisfjármálaáætlun sem rammar inn fjárlög og látum þessi tvö hagstjórnartæki vinna saman. Vinnumarkaðurinn verður að fylgja í takt með launaþróun og hækkunum í takt við framleiðnivöxt og getu hagkerfisins á hverjum tíma.
Virðulegi forseti. Breytingar í formi þróunar eru æskileg framvinda, en stöðugleikinn er okkur nauðsynlegur.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 19. apríl 2016.

Categories
Greinar

Lokum á skattaskjólin

Deila grein

19/04/2016

Lokum á skattaskjólin

frosti_SRGBSkattaskjól eru þau ríki kölluð sem gera litlar eða engar kröfur um að eignarhald fyrirtækja sé þekkt og innheimta litla eða enga skatta af fyrirtækjum. Með þessu skapa skattaskjólin fyrirtækjum og fjárfestum aðstöðu til að komast hjá skattlagningu. Skattheimta er forsenda þess að stjórnvöld geti byggt upp nauðsynlega innviði og veitt mikilvæga þjónustu. Skattaskjólin veikja því velferðarsamfélagið um leið og þau auka á ójöfnuð þar sem skattaundanskot leiða til þyngri skatta á þá sem standa í skilum.

Umfangið gríðarlegt
Í bókinni The Hidden Wealth of Nations eftir G. Zucman er fjallað um eignir í skattaskjólum og þær metnar á 7,6 þúsundir milljarða USD. Í Mið-Austurlöndum og Rússlandi er ríflega helmingur eigna falinn í skattaskjólum, í Evrópu er hlutfallið 10% en 4% í Bandaríkjunum og Asíu. Zucman áætlar að 80% af eignum félaga í skattaskjólum séu ekki taldar fram til skatts.

Skattaskjól eru víða
OECD telur upp 38 ríki sem uppfylla ekki lágmarkskröfur um upplýsingaskipti. Á lista OECD má finna Bresku Jómfrúreyjarnar, Panama, Möltu og Kýpur. Tvö síðasttöldu ríkin eru aðilar að ESB en á listanum er einnig Liechtenstein sem er aðili að EES svæðinu. En vandinn er víðar ef marka má óháð samtök sem kalla sig “Tax Justice Network”. Samtökin hafa birt athyglisverðan lista yfir skattaskjól en þar tróna Sviss, Hong Kong og Bandaríkin í efstu sætum. Luxembourg og Þýskaland eru einnig ofarlega á listanum en samkvæmt samtökunum geta erlendir aðilar í vissum tilvikum notið nafnleyndar eða mjög lágra skatta í þessum ESB ríkjum.

Hvað er til ráða?
Ísland er þátttakandi í átaki á vegum OECD sem meðal annars felst í því að skiptast á gögnum um fyrirtæki og skattgreiðslur þeirra. Á næstunni mun Ísland staðfesta reglur OECD sem skylda fjölþjóðleg fyrirtæki til að sundurliða ársreikninga sína niður á einstök ríki. Með því að upplýsa hvernig hagnaður myndast í hverju ríki fyrir sig verður erfitt fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki að flytja hagnað sinn til skattaskjóla. Einnig hafa verið innleiddar hér reglur um milliverðlagningu sem draga úr möguleikum fjölþjóðlegra fyrirtækja til að færa hagnað milli dótturfélaga sinna í ólíkum löndum.

Auk þess að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu gegn skattaskjólum er mikilvægt að kanna hvaða lagabreytingar hér á landi gætu miðað að sama marki. Til að kynna sér það nánar hefur Efnahags- og viðskiptanefnd alþingis boðað til sín fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka.

Ljóst er að það verður ekki einfalt að ná til þeirra sem vilja leyna eignum sínum. Þótt sett yrði bann við því að íslenskir aðilar ættu félög í skattaskjólum, væri mögulegt að komast hjá banninu með því að setja upp erlent skúffufélag utan skattaskjóla. Erlenda félagið gæti þá stofnað félag í skattaskjóli og haft milligöngu um viðskipti við það.

Það yrði til bóta ef upplýst væri hverjir séu raunverulegir eigendur að ráðandi eignarhlutum í íslenskum félögum. Slík upplýsingaskylda er í ýmsum löndum. Raunverulegur eigandi er sá einstaklingur sem nýtur ávinnings af hlutafjáreigninni þótt það kunni að vera í gegnum skúffufélag. Hugsanlega mætti setja hliðstæða kröfu um raunverulega eigendur annarra fjármálagerninga svo sem innstæðna og skuldabréfa. Einnig hefur verið nefndur sá möguleiki að leggja skatt á greiðslur íslenskra félaga til félaga í skattaskjólum en fleiri leiðir koma til greina og verða skoðaðar nánar á næstunni. Í ljósi umfangs vandans hér á landi er afar mikilvægt að Ísland verði í fremstu röð í hinni alþjóðlegri baráttu gegn starfsemi skattaskjóla.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 19. apríl.

Categories
Fréttir

Nýr samstarfsvettvangur í útflutningsþjónustu

Deila grein

19/04/2016

Nýr samstarfsvettvangur í útflutningsþjónustu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir að auka þurfi útflutningsverðmæti vöru og þjónustu til ársins 2030 til að Íslandi haldi efnahagslegum styrk. Hún boðaði samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs og að stefnumótun í útflutningsþjónustu yrði skerpt til langs tíma, í ræðu sem hún hélt á aðalfundi Íslandsstofu í dag. Aðgerðirnar eru byggðar á tillögum starfshóps sem skipaður var árið 2013.
„Ég legg áherslu á náið og sterkt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs og að vettvangur þess verði áfram Íslandsstofa. Jafnframt að atvinnulífið verði áfram hinn mótandi drifkraftur í starfinu,“ sagði utanríkisráðherra.  Á næstunni  verði  skipuð ný stjórn Íslandsstofu sem hafi það meginhlutverk að hrinda tillögunum í framkvæmd  og efla enn frekar hið góða starf Íslandsstofu og á mörkuðum.
Lílja sagði að skýra verði rekstrarform Íslandsstofu, gera nýjan þjónustusamning við ríkið og setja fastari mælikvarða á árangur.  Setja verði á fót samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs, útflutnings- og markaðsráð, til að móta með Íslandsstofu langtímastefnu sem miði að því að auka útflutningsverðmæti á næstu 15 árum.
„Markmiðið með öllu þessu er að gera starf Íslandsstofu öflugra, styrkja stefnumótun og að breikka sóknarleik landsliðs Íslands á erlendum mörkuðum. Ég hvet menn til að sjá þetta ekki sem íþyngjandi heldur miklu fremur sem tækifæri til að efla starfið,“ sagði Lilja.
Hún vakti einnig athygli á nýlegri umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu og horfur á Íslandi  sem segði að ótvíræður árangur hefði náðst í efnahagslífinu. „Fyrir utan helstu stoðir atvinnulífsins á Íslandi þá liggur hér til grundvallar sú mikla fjölgun ferðamanna sem við höfum séð á undanförnum árum. Þetta styður við hagvöxtinn og skapar gjaldeyristekjur,“ sagði Lilja. „Við erum á beinni leið en því fylgir líka ábyrgð. Eins og dæmin sanna er auðvelt að misstíga sig í uppsveiflunni. Það væri til einskis sáð ef við ekki gætum að rótunum og förum að öllu með gát.“
Þá nefndi hún einnig þær áskoranir sem stjórnvöld stæðu frammi fyrir, m.a. vegna lokunar markaða í Rússlandi og Nígeríu. Það hefði valdið búsifjum og miklum vanda í einstökum byggðarlögum sem stjórnvöld hafi reynt að mæta með stöðugu samtali við stjórnvöld og hagsmunaaðila í ríkjunum um leið og kannaðir væru mögulegar leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum fyrir íslenska útflytjendur.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Greinar

Tímamót í öryggis- og varnarmálum

Deila grein

16/04/2016

Tímamót í öryggis- og varnarmálum

Lilja Alfreðsdóttir

Söguleg stund átti sér stað á Alþingi í vikunni þegar tillaga um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland var samþykkt mótatkvæðalaust. Samþykktin markar tímamót í lýðveldissögunni þar sem aldrei áður hefur verið mörkuð heildstæð stefna um þjóðaröryggi Íslendinga. Í raun hefur aldrei verið jafn brýnt að stjórnvöld marki slíka stefnu. Að öryggis- og varnarumhverfi Íslands og annarra Evrópuríkja stafa margar og flóknar áskoranir sem birtast okkur nær daglega í fyrirsögnum og fréttum.

Fyrir stjórnvöld er það mikill ábyrgðarhluti að í síkvikum heimi alþjóðastjórnmála – þar sem veðrabrigða gætir oft fyrirvaralaust – sé til staðar skýr stefnumörkun um framkvæmd þjóðaröryggis. Fyrir herlausa þjóð er vissulega um stórt skref að ræða en þetta skref er tekið með raunsæi og pólitíska sátt að leiðarljósi. Forsendurnar eru skýrar: Það er frumskylda stjórnvalda hvers ríkis að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar gagnvart þeim ógnum sem kunna að valda borgurum, stjórnkerfi og grunnvirkjum samfélagsins stórfelldum skaða – hvort sem um er að ræða innri eða ytri ógnir, af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara.

Hin nýja þjóðaröryggisstefna endurspeglar stöðu Íslands sem fámennrar eyþjóðar í Norður-Atlantshafi sem hvorki hefur vilja né burði til að ráða yfir eigin her og tryggir öryggi og varnir sínar með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Ástæða er til að staldra við atburði á síðustu misserum og líta á þróun mála í okkar nánasta öryggisumhverfi, sem minna á að öryggi er ekki sjálfgefið. Það er afar brýnt að stilla saman strengi og horfa með heildstæðum hætti á öryggismál. Þjóðaröryggisstefnan er slíkt tæki.

Þjóðaröryggisstefnan nær jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis og gerir meðal annars ráð fyrir að sett verði á fót sérstakt þjóðaröryggisráð sem hafi yfirsýn með framkvæmd stefnumiðanna og stuðli að virkri umræðu um öryggis- og varnarmál. Þegar er hafin vinna við frumvarp sem ég hyggst leggja fram, í samvinnu við innanríkisráðherra, til laga um stofnun þjóðaröryggisráðs líkt og stefnan kveður á um, og viðhalda áfram þeirri samstöðu sem ríkt hefur um málaflokkinn.

Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland er í stöðugri mótun og tekur mið af þróun öryggismála á hverjum tíma. Samkvæmt ályktuninni sem samþykkt var í vikunni skal hún endurskoðuð á að minnsta kosti fimm ára fresti og ég tel brýnt að um hana fari fram regluleg umræða. Horft verður sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum og að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna verði áfram lykilstoðir í vörnum landsins. Norræn samvinna um öryggis- og varnarmál verði ennfremur efld og þróuð og áfram lögð áhersla á virkt alþjóðasamstarf á grundvelli alþjóðalaga og virðingu fyrir mannréttindum. Tryggt verði að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum sé hluti af þjóðaröryggisstefnu og tekið verði mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.

Öryggisumhverfi Íslands er einnig mótað af nýjum áskorunum sem þjóðaröryggisstefnan tekur mið af. Þar er áréttað að stuðlað verði að auknu netöryggi og að stefna stjórnvalda taki mið af hryðjuverkaógn, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi. Þá verði Ísland og íslensk landhelgi friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.

Það var mér sérstök ánægja að taka þátt í umræðunum á Alþingi í aðdraganda samþykktarinnar og verða vitni að þeirri sátt og samstöðu sem ríkti um þennan mikilvæga málaflokk. Um leið og ég ítreka ánægju mína með stefnuna og þakklæti til þeirra sem lögð lóð á vogarskálarnar við vinnu henni tengda vil ég undirstrika að þjóðaröryggi Íslendinga byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þeim grunngildum sem okkur Íslendingum eru svo kær – lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbærri þróun, afvopnun og friðsamlegri lausn deilumála.
Aðdragandi þjóðaröryggisstefnunnar hefur verið langur. Allt frá upphafi var lögð áhersla á að ná breiðri sátt og eiga þar forverar mínir í stóli – þeir Össur Skarphéðinsson og Gunnar Bragi Sveinsson – miklar þakkir skildar fyrir. Þá er ótalinn afar mikilvægur þáttur þverpólitískrar þingmannanefndar sem, undir styrkri stjórn Valgerðar Bjarnadóttur viðhélt sátt og skilaði af sér lykiltillögum sem þjóðaröryggisstefnan hvílir á. Þá fjallaði utanríkismálanefnd þingsins ítarlega um málið og skilaði sameiginlegu nefndaráliti með breytingatillögum sem allar voru til bóta.

Þjóðaröryggi er bjargfesta fyrir íslenska þjóð og í henni birtast þau gildi og þær skuldbindingar sem skapa grunninn að utanríkisstefnu Íslands. Það er ástæða til að fagna framsýni og ábyrgð allra stjórnmálaflokka á þingi sem náð hafa saman um þetta grundvallarmál.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. apríl 2016.