„Virðulegur forseti. Það er full ástæða fyrir íslensk stjórnvöld að skoða hvort ekki þurfi að herða landamæraeftirlit hérlendis þó ekki sé nema tímabundið. Schengen-samningurinn gerir ráð fyrir að aðildarríki geti gert slíkt og í ljósi hryðjuverkanna í París væri hreinlega óábyrgt að athuga ekki hvort nauðsynlegt sé að veita tímabundið auknu fjármagni í þennan málaflokk þannig að öryggi borgaranna sé betur tryggt. Þegar er búið að gera ráð fyrir 38 millj. kr. viðbótarframlagi til landamæradeildar lögreglu í Keflavík en ég efast um að það dugi. Ég er fylgjandi Schengen-samstarfinu en samstarfið er eins og keðja. Ef einn hlekkurinn brotnar þá er keðjan ónothæf og jafnvel ónýt.
Ég vek athygli á forsíðu Morgunblaðsins í morgun þar sem vitnað er í grein eftir fyrrverandi forstjóra Interpol í New York Times þar sem hann hvetur öll ríki Schengen-svæðisins til að bera öll vegabréf saman við gagnagrunn Interpol-svæðisins. Þannig hafi Bretar, sem standa fyrir utan Schengen, klófest um 10.000 manns á ári sem reyna að komast yfir landamæri þeirra á ógildum skilríkjum.
Fyrrverandi forstjóri Interpol segir að Schengen-samstarfið bjóði upp á raunverulega og viðvarandi hættu. Það að gera ekkert í þeirri trú að útilokað sé að hér gerist nokkuð sem kalli á aukinn viðbúnað er ekki bara barnaskapur heldur beinlínis hættulegur barnaskapur. Þetta snýst nefnilega ekki um að taka á móti öllum með faðmlagi og kossum, þetta snýst um öryggi þeirra sem búa og dvelja í þessu landi. Skoðum því í fullri alvöru hvort nauðsynlegt sé að herða eftirlit, fjölga þeim sem sinna eftirlitinu og veita nægu fjármagni í málaflokkinn. Jafnframt væri gott að vita hvernig raunverulegu eftirliti er háttað í Keflavík. Hvað eru til dæmis mörg vegabréf borin saman við kerfi Interpol? Og hversu auðvelt er að fara á fölsuðum vegabréfum í gegn? Svör óskast.“
Karl Garðarsson — störf þingsins, 24. nóvember 2015.
24/11/2015
Schengen-samstarfið: Ef einn hlekkurinn brotnar þá er keðjan ónothæf og jafnvel ónýt