Categories
Greinar

Sjúkt samband

Deila grein

09/11/2015

Sjúkt samband

Elsa-Lara-mynd01-vefurSilja-Dogg-mynd01-vef„Það er verðbólgan sem er vandamálið, ekki verðtryggingin. Sér í lagi þegar verðbólgunni er haldið í skefjum.“ Þessi orð heyrast ávallt þegar rætt er um afnám verðtryggingar. Menn óttast að ef verðtryggð lán verði bönnuð þá sitji neytendur eftir með óverðtryggð lán á okurvöxtum. Standast þessi rök skoðun? Er ástæða til að óttast afnám verðtryggingar?

Flestir eru sammála um að verðtryggð neytendalán séu ekki siðleg viðskiptaaðferð. Það virðist ekki vera almenn þekking hjá lántakendum verðtryggðra lána að verðbætti hlutinn sé falið lán sem leggst við höfuðstólinn um hver mánaðamót. Því eru neytendur ómeðvitaðir um áhættuna sem í lántökunni felst. Þess vegna ættu verðtryggð lán aðeins að vera í boði fyrir atvinnufjárfesta og aðra með sérþekkingu á fjármálum.

Verðtryggingin viðheldur háum vöxtum þar sem neytendur eru leiksoppar í blekkingarleik fjármálafyrirtækja. Í óverðtryggðu umhverfi geta komið verðbólguskot en bankar vita að þeir verða að taka hluta af skotinu á sig sjálfir, annars verða mikil vanskil. Þegar lán verða almennt orðin óverðtryggð mun peningastefnan (stýrivaxtatækið) virka miklu betur en nú. Gera má ráð fyrir að 0,1% hækkun stýrivaxta muni skila sömu áhrifum og 1% hækkun gerir í dag. Stýrivextir gætu því verið lægri, óverðtryggð lán verða raunhæfur kostur og hagur heimilanna batnar.

Eitt af stóru kosningamálunum vorið 2013 var afnám verðtryggingarinnar af neytendalánum. Þingmenn Framsóknar töluðu fyrir afnáminu og lofuðu að beita sér fyrir því ef þeir fengju umboð kjósenda. Flokkurinn vann stórsigur og nú er komið að efndum. Skýrsla sérfræðihóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum var birt í lok janúar 2014. Meirihluti sérfræðihópsins lagði til að frá og með 1. janúar 2015 yrðu stigin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána, en vinna við áætlun um fullt afnám yrði hafin eigi síðar en á árinu 2016.

Sjúku sambandi okurvaxtastefnu og verðtryggingar verður að ljúka. Börnin þeirra, heimili landsins, eru stöðugt undir slævandi áhrifum til að lifa af í þessu firrta umhverfi. Heimili landsins eiga betra skilið.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. nóvember 2015.

Categories
Fréttir

Örugglega stærsta efnahagsaðgerð Íslandssögunnar

Deila grein

09/11/2015

Örugglega stærsta efnahagsaðgerð Íslandssögunnar

Sigmundur-davíðSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra sagði í sjónvarpsfréttum í kvöld að lausn á uppgjöri slitabúum föllnu bankanna ekki bara sögulega á Íslandi heldur á heimsvísu. Enginn hafi haft trú á því að mögulegt væri að sækja fé í föllnu bankana á sínum tíma.
„Það er rétt hjá fjármálaráðherra að þetta eru söguleg tíðindi. Þetta er örugglega stærsta efnahagsaðgerð Íslandssögunnar. En þetta er líka í rauninni heimssögulegt. Vegna þess að þeir erlendu sérfræðingar sem hafa komið að þessu með okkur hafa allir sagt að þetta hafi hvergi gerst áður. Að kröfuhafar með þessum hætti hafi sjálfir séð um að fjármagna það að aflétta höftum,“ sagði Sigmundur Davíð.
„Staða landsins þegar þetta verður gengið í gegn verður orðin allt önnur og miklu betri efnahagslega. Við verðum í stöðu til að halda áfram að tryggja áfram velferð fyrir alla á Íslandi.“
Uppgjör slitabúanna á að hafa jákvæð áhrif á gjaldeyrisforðann
Kynning stjórnvalda á uppgjöri slitabúanna
Seðlabankinn veitir slitabúum undanþágu
Seðlabankinn Seðlabanki Íslands hefur lokið mati sínu á fyrirliggjandi drögum að nauðasamningumveitir slitabúum undanþágu
Samkvæmt greiningu Seðlabankans munu um 490 milljarðar renna í ríkissjóð. Upphæðin gæti hækkað um 100 milljarða fáist hærra verð fyrir lykileignir. En er sú upphæð ekki undir þeim tölum sem kynntar voru í upphafi?
„Ja, ef við spáum í hvað var talað um í upphafi þá hafði náttúrulega enginn trú á því að þetta gæti gengið. Það þótti jafnvel fáránlegt að það væri hægt að sækja eitthvað fjármagn í þessi slitabú fyrir ekki svo löngu síðan. Það er líka mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að skoða upphæðir að jú, þarna eru 500 milljarðar sirka í framlag. Til viðbótar við það eru svo 380 milljarðar í öðrum ráðstöfunum. Þetta getur auk þess hækkað ef þörf er fyrir það. Það er nú eitt af því sem er sniðugt við þessa leið að ef umfang vandans reynist meira þá aukast greiðslurnar til að takast á við þann vanda.“
Sigmundur segir að samkomulag SALEK-hópsins séu einnig mikilvæg tíðindi. Það hjálpi til við að nýta þennan meðbyr og tryggja efnahagslegan stöðugleika á næstu árum.

HEIMILD: RUV.IS
Categories
Fréttir

Umhverfisdagur atvinnulífsins

Deila grein

09/11/2015

Umhverfisdagur atvinnulífsins

Þórunn„Hæstv. forseti. Nú er að vaxa úr grasi kynslóð neytenda sem alist hefur upp við mun meiri umræðu um umhverfismál en áður var. Þetta er ný kynslóð sem tengir gæði við sjálfbærni og gerir ríkar kröfur á því sviði. Fyrirtæki finna sífellt fyrir auknum kröfum um hreint umhverfi og rekjanleika vara. Það er því ánægjulegt að umhverfisdagur atvinnulífsins, sem haldinn var í fyrsta sinn nú á haustdögum, tókst með miklum ágætum. Þar komu saman rúmlega 200 manns úr atvinnulífi, stjórnmálum og stjórnkerfi og ræddu sjálfbæra nýtingu auðlinda og samspil umhverfismála og einstakra atvinnugreina. Þrátt fyrir að aðila innan samtakanna greini oft á um ýmislegt þar sem hagsmunir fara ekki alltaf saman má þó finna mikinn samhljóm meðal þeirra þegar kemur að umhverfismálum.
Þá hafa stofnanir ríkisins í auknum mæli unnið að umhverfisvænni rekstri og vistvænum innkaupum frá árinu 2013. Helstu niðurstöður könnunar sem gerð var í mars síðastliðnum á vegum stýrihóps um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, sem skipaður var af umhverfis- og auðlindaráðherra, eru að almennt hefur hvers konar umhverfisstarf aukist. Stofnanir hafa sett sér umhverfisstefnu og markmið auk þess sem þær flokka sorp í meira mæli en áður var. Þá hefur mikil aukning orðið í gerð samgöngusamninga.
Til að bregðast við óskum forstöðumanna um aukna fræðslu og einföld verkfæri til að geta unnið að vistvænum rekstri var verkefnið Græn skref í ríkisrekstri sett á fót. Nú þegar hafa 23 stofnanir skráð sig í það og ánægjulegt er að sjá að 78% stofnana þekkja nú þegar til verkefnisins og 56% þeirra segjast ætla að taka þátt í verkefninu. Þá sögðu forstöðumenn jákvæð áhrif umhverfsstarfs vera mörg, svo sem að starfsánægja starfsfólksins hafi aukist, fjármunir hafi sparast, samgöngusamningar hafi hvatt til vistvænni ferðamáta og aukinnar hreyfingar og að ímynd stofnunarinnar hafi batnað. Þetta eru allt liðir í því að móta langtímahugsun og heildræna sýn á nýtingu auðlinda okkar og skila auðlindum í jafn góðu eða betra ástandi til komandi kynslóða.“
Þórunn Egilsdóttirí störfum þingsins 4. nóvember 2015.

Categories
Fréttir

„Agi og aðhald er það sem til þarf“

Deila grein

09/11/2015

„Agi og aðhald er það sem til þarf“

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér vexti og verðtryggingu. Sú yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að hækka vexti um 0,25% og fara með stýrivexti í 5,75% ætti ekki að koma neinum á óvart. Verðbólguhorfur hafa í raun ekki breyst og þessi ákvörðun er í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar og skilaboð frá peningastefnunefndinni og Seðlabankanum. Sú staðreynd að þetta er helsta stjórntæki Seðlabankans er í raun ekki aðalatriðið heldur sú vegferð sem fram undan er. Þær aðgerðir og ákvarðanir sem við tökum nú og á næstu missirum í fjármálastjórn og stefnu í gegnum fjárlögin og aðrar ákvarðanir þar að lútandi á aðra löggjöf hefur afgerandi áhrif á fjármál ríkisins. Agi og aðhald er það sem til þarf, en margir hafa bent á að nægilegs aðhalds skorti nú þegar í fjárlögum.
Framtíðin mun markast mjög af bættum kjörum í kjölfar kjarasamninga og að aukinn hagvöxtur sem flestar spár gera ráð fyrir byggi meðal annars á innlendri eftirspurn. Seðlabankinn hefur þegar boðað aukið aðhald peningastefnunnar, það þýðir auðvitað bara eitt, að stýrivextir verði hækkaðir jafnt og þétt. Auðvitað mun framvinda og þróun losunar fjármagnshafta hafa áhrif og svo ákvörðun um beitingu annarra tækja en vaxta, eins og beiting bindiskyldu. Í öllu falli getum við ekki treyst á lágt olíuverð og að áframhaldandi styrking krónunnar haldi endalaust aftur af þörf á frekari stýrivaxtahækkunum í auknum og hraðari takti en hingað til.
Hæstv. ríkisstjórn er enn að fylgja tímalínu er varðar afnám verðtryggingar. En ljósin blikka á kunnuglegan vítahring, virðulegi forseti, að ráðstöfunargetan og kaupmátturinn hverfi í verðtryggðan skuldabing og enn ein uppsveiflan verði fjármögnuð á skuldahlið heimilanna.“
Willum Þór Þórsson  — í störfum þingsins  4. nóvember 2015.

Categories
Greinar

Dagur gegn einelti 8. nóvember

Deila grein

07/11/2015

Dagur gegn einelti 8. nóvember

EÞHSunnudagurinn 8. nóvember verður tileinkaður baráttu gegn einelti og er það í fimmta sinn sem það er gert hér á landi. Markmiðið er að vekja athygli á málefninu og hve alvarlegt einelti er.

Í tengslum við þennan dag árið 2011 var undirritaður þjóðarsáttmáli gegn einelti og stofnuð vefsíðan gegneinelti.is. Á vefsíðunni getur fólk lagt baráttunni lið með því að undirrita sáttmálann og skuldbinda sig þar með til þess að vinna af alefli gegn einelti í samfélaginu, standa vörð um rétt fólks til þess að geta lifað í sátt og samlyndi við umhverfi sitt og jafnframt að gæta sérstaklega að rétti barna og ungmenna og þeirra sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd í samfélaginu.

Ég hvet fólk til að undirrita þjóðarsáttmálann gegn einelti, taka þátt í baráttunni gegn því og leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið og hafa áhrif til góðs með breytni sinni. Við þurfum saman að vinna bug á þessu samfélagsböli sem eitrar og eyðileggur líf svo margra.
Ný reglugerð gegn einelti

Nú hefur verið birt ný reglugerð sem kveður á um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þetta er mikilvægur áfangi, því þarna er sett fram hvaða skyldur hvíla á atvinnurekendum í þessum efnum, um skyldu allra vinnustaða um að setja sér áætlun um aðgerðir til að koma í veg fyrir einelti og viðbrögð ef á reynir.

Öllum vinnustöðum ber að greina áhættuþætti innan vinnustaðarins með gerð áhættumats. Í reglugerðinni er með skýrum hætti kveðið á um að við gerð áhættumats skuli meðal annars greina áhættuþætti eineltis á vinnustaðnum þar sem tekið skuli tillit til andlegra og félagslegra þátta, svo sem aldurs starfsmanna, kynjahlutfalls, ólíks menningarlegs bakgrunns starfsfólks, skipulags vinnutíma, vinnuálags og fleira. Ljóst er að vinnustaðir eru jafn ólíkir og þeir eru margir og því mikilvægt að áhættumatið taki mið af aðstæðum á hverjum stað.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar en fyrirtæki og sérfræðingar sem hlotið hafa viðurkenningu Vinnueftirlitsins til að veita atvinnurekendum þjónustu við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum hafa á að skipa sérfræðingum sem einnig geta veitt aðstoð við gerð áætlana um aðgerðir gegn einelti. Ég hvet atvinnurekendur til að nýta sér þessa sérfræðiþekkingu við gerð áhættumats á vinnustað þar sem meðal annars eru greindir áhættuþættir eineltis, líkt og reglugerðin býður.

Það er óumdeilt að aðbúnaður á vinnustað hefur áhrif á líðan og heilsu starfsfólks. Nútímaleg vinnuvernd á ekki einungis að snúast um að koma í veg fyrir slys og líkamlegt heilsutjón, heldur sýna rannsóknir að andlegir og félagslegir þættir eru ekki síður mikilvægir fyrir líðan og heilsu starfsfólks. Ef þessum þáttum er ekki sinnt aukast líkur á margskonar vanda sem getur dregið úr starfsánægju, skert framleiðni og aukið starfsmannaveltu. Vanlíðan starfsfólks getur leitt til heilsufarsvandamála, til lengri eða skemmri tíma.

Einelti er alvarlegt og getur valdið fólki varanlegum skaða. Mikilvægt er að atvinnurekendur geri sér grein fyrir skyldum sem á þeim hvíla og nýti þau verkfæri sem til eru í baráttunni gegn einelti.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. nóvember 2015.

Categories
Fréttir

Vaxtaokur bankanna

Deila grein

04/11/2015

Vaxtaokur bankanna

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Eitt mesta böl sem við Íslendingar búum við þessi missirin er vaxtaokur bankanna. Það má segja að íslenska þjóðin sé eins og galeiðuþrælar sem rær sem mest hún má undir taktföstum slögum Seðlabanka Íslands sem setur reglur og leggur drög að vaxtaokrinu með því að hafa stýrivexti hærri en gerist nokkurs staðar annars staðar. Þetta kemur víða fram, m.a. í því að vextir til húsnæðiskaupa, þ.e. óverðtryggðir, eru um 7–8%. Í löndunum í kringum okkur er vaxtastig í kringum 1,5–2,5% algengt.
Það er ekki nóg með að þessi ofurvaxtastefna Seðlabankans valdi húsnæðiskaupendum erfiðleikum heldur stuðlar hún að hærra vöruverði og lakari viðskiptakjörum smærri fyrirtækja, svo eitt sé nefnt. Það er vert að hugsa til þess að í Bretlandi, þar sem verðbólgumarkmið seðlabanka þess lands er 2%, hafa stýrivextir verið 0,5% í nokkuð langan tíma. Á Íslandi er verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands 2,5% og verðbólga hefur blessunarlega verið undir þeim markmiðum nokkuð lengi og við höfum fulla burði til þess að halda því áfram m.a. vegna styrkrar krónu — ef menn mundu láta svo lítið að skila því út í verðlagið þá væri alveg hægt að gera það. Ég velti fyrir mér, því stundum þarf maður að spyrja eins og barn: Hvað mundi gerast á Íslandi ef vaxtastig almennt mundi lækka um svona tvö til þrjú prósentustig þannig að stýrivextir á Íslandi væru í kringum 3% og vextir til húsnæðiskaupa kannski á bilinu 4–5%? Ég velti því fyrir mér hvað mundi gerast.“
Þorsteinn Sæmundsson  — í störfum þingsins, 3. nóvember 2015.

Categories
Fréttir

„Brettum nú upp ermar og látum verkin tala“

Deila grein

04/11/2015

„Brettum nú upp ermar og látum verkin tala“

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks segir, með leyfi forseta:
„Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót.“
Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum var síðan skipaður í ágúst 2013 og hann skilaði niðurstöðum í janúar 2014. Niðurstöðurnar birtust í meirihlutaáliti og séráliti. Í meirihlutaáliti segir m.a., með leyfi forseta:
„Forsendur fyrir því að unnt sé að afnema verðtryggingu að fullu eru einkum að takist hafi að leggja grunn að nýju húsnæðiskerfi, skýra stöðu Íbúðalánasjóðs og endurbæta lífeyrissjóðakerfið.“
Að þessu er nú þegar unnið á vegum stjórnvalda og gengur sú vinna greiðlega. Á næstu dögum sjáum við t.d. frumvörp er varða húsnæðismarkaðinn koma fram.
Eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna, bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, þá eru verðtryggingarmálin á borði hæstv. fjármálaráðherra. Í viðtali á dögunum sagði hæstv. fjármálaráðherra að verið væri að skoða tvær leiðir til að draga úr vægi verðtryggingar, þ.e. að banna svokölluð Íslandslán og lengja lágmarkstíma verðtryggðra lána. Þetta eru ágæt fyrstu skref, en þau þarf að stíga hratt og vel. Í framhaldi af því þarf að afnema verðtrygginguna.
Þess vegna er afar ánægjulegt að sjá nýja samþykkt efnahags- og viðskiptanefndar frá landsfundi sjálfstæðismanna sem fram fór fyrir stuttu síðan, en þar segir, með leyfi forseta:
„Landsfundur leggur til að ríkisstjórnin ráði færustu erlendu sérfræðinga til að leggja mat á hvernig hægt er að skipta út verðtryggðu lánaumhverfi og taka upp lánakjör sem þekkjast í nágrannalöndum okkar. Með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort það sé rétt heldur eingöngu hvernig það væri framkvæmt. “
Ég segi: Brettum nú upp ermar og látum verkin tala. Við verðum að taka úr sambandi það vaxtaform sem heimilin búa við þegar þau fjárfesta í húsnæði, þ.e. verðtryggingunni.
Virðulegur forseti. Skuldaleið heimilanna á ekki að fjármagna uppsveifluna. Það má ekki gerast, ekki í þetta skiptið.“
Elsa Lára Arnardóttir  — í störfum þingsins, 3. nóvember 2015.

Categories
Fréttir

Lykillinn að verðmætasköpun er sjálf umhverfisverndin

Deila grein

04/11/2015

Lykillinn að verðmætasköpun er sjálf umhverfisverndin

Þórunn„Hæstv. forseti. Nýting náttúruauðlinda hefur lagt grunninn að hagsæld Íslands. Alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda er orðið eitt mikilvægasta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins í dag. Þar sem við Íslendingar byggjum efnahag okkar að stórum hluta á hreinni náttúru og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda er slíkt samstarf okkur afar mikilvægt. Aukin vitund almennings um umhverfismál hvetur til dæmis til þess að fiskveiðum sé stjórnað á ábyrgan hátt. Stjórnun fiskveiða á Íslandi hefur verið í mótun um áratugaskeið og leiðarljósið verið að fiskveiðar séu í senn hagkvæmar og sjálfbærar með tilliti til nýtingar og viðhalds náttúruauðlindarinnar. Áherslur á sjálfbærni og virðingu fyrir náttúrunni eru innbyggð í stjórnkerfi fiskveiða sem fela í sér hagræna hvata til góðrar umgengni og að langtímahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi.
Okkur hefur tekist að snúa frá ofveiði og of miklum ágangi á auðlindir sjávar til þess að reka sjávarútveg sem tryggir bæði sjálfbærni og arðsemi. Horft er til Íslendinga sem fyrirmyndar á þessu sviði þar sem veiðar eru byggðar á víðtækum rannsóknum og öflugu eftirliti með veiðum og heildarafla.
Lykillinn að verðmætasköpun þessa kerfis er sjálf umhverfisverndin og hafa verður í huga að arðbærni og umhverfisvernd eru ekki andstæðir pólar heldur samvirkandi þættir. Umhverfisvitund forsvarsmanna fyrirtækja og almennings eykst jafnt og þétt og auknar kröfur um hreint umhverfi og rekjanleika matvæla eykst í samræmi við það.
Í því samhengi langar mig til að vekja athygli á mjög svo góðu framtaki HB Granda sem opnaði sorpflokkunarstöð í Reykjavík í gær að fyrirmynd þeirrar sem þeir hafa starfrækt á Vopnafirði í nokkur ár. Með því framtaki er fyrirtækið að taka ábyrgð á því sorpi sem til fellur í fyrirtækinu, hvort sem er úti á sjó eða landi. Þetta er dæmi um það hvernig fyrirtæki fléttar umhverfisvernd inn í alla sína vinnuferla.
Forsenda þess að íslenskt atvinnulíf verði farsælt um ókomin ár og lífskjör þjóðarinnar batni er virðing fyrir umhverfinu, nýtingu auðlinda og sjálfbærni.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 3. nóvember 2015.

Categories
Fréttir

Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Deila grein

04/11/2015

Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða nýafstaðna heimsókn sendinefndar alþingismanna til fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum en venja er að alls sæki hv. fjórir alþingismenn allsherjarþingið árlega tilnefndir af sínum þingflokki.
Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost ásamt þremur öðrum hv. þingmönnum að sækja Sameinuðu þjóðirnar heim og taka þátt í 70. allsherjarþinginu sem sett var í lok september, en þá eins og flestum er kunnugt komu leiðtogar aðildarríkjanna saman og samþykktu 17 ný þróunarmarkmið, heimsmarkmiðin. Við í sendinefnd þingsins sóttum m.a. fundi aðalstofnana þingsins, allsherjarþingsins og öryggisráðsins, og fengum kynningu á starfsemi efnahags- og félagsmálaráði ráðsins auk þess að kynna okkur starfsemi fjölmargra undirstofnana. Markverðast fannst mér þó að kynnast þeim krafti og atorku sem einkennir framgöngu okkar fólks á vettvangi. Við erum ekki með fjölmennustu sveitina en vinnusemi, ákveðni og dugnaður okkar fólks er augljós og virðing fyrir framlagi Íslands og starfi erlendis sem hérlendis fór ekkert á milli mála og kom vel fram á fundum okkar og í samræðum við fulltrúa hinna ýmsu nefnda og undirstofnana. Þar sem við beitum okkur höfum við náð eftirtektarverðum árangri, til að mynda á sviði kynjajafnréttis, í málefnum hafsins, á sviði landgræðslu, orku og loftslagsmála, fæðuöryggis og ekki síst barnahjálpar á vegum UNICEF á Íslandi. Þá hefur hæstv. ríkisstjórn boðað aukið átak með Flóttamannahjálp SÞ og öðrum stofnunum sem takast á við þær flóknu aðstæður sem uppi eru.
Mér finnst mikilvægt að koma því á framfæri hér sem fulltrúi okkar í þessari sendiför þetta árið hversu mikilvægt það er að viðhalda og efla enn frekar tengsl þingsins við starf okkar Íslendinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.“
Willum Þór Þórsson  — í störfum þingsins, 3. nóvember 2015.

Categories
Fréttir

Fjórir forsætisráðherrar frjálslyndra systurflokka hittast á Íslandi

Deila grein

02/11/2015

Fjórir forsætisráðherrar frjálslyndra systurflokka hittast á Íslandi

norden (35 of 35)Á þingi Norðurlandaráðs á Íslandi í vikunni sem leið hittust fjórir forsætisráðherrar frjálslyndra systurflokka. Hefð er fyrir því að forsætisráðherrar Norðurlanda fundi með kollegum sínum í Eystrasaltsríkjunum í tengslum við Norðurlandaráðsþing og í ár vill svo til að helmingur þeirra, Juha Sipilä forsætisráðherra Finnlands, Taavi Roivas forsætisráðherra Eistlands, Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra Íslands koma úr frjálslyndum miðjuflokkum.
Sigmundur Davíð segir að það sé gaman að sjá að frjálslyndisstefnan skuli eiga upp á pallborðið í þessum heimshluta.
„Já, það er gaman að því að frjálslyndisstefnan skuli vera við stjórnvölinn í þetta mörgum löndum á þessu svæði. Það er að sjálfsögðu löng hefð fyrir þessum fundum og eins og Lars nefndi í ræðu sinni við upphaf Norðurlandaráðsþings þá eru fundir forsætisráðherra Norðurlandanna svolítið líkir fjölskylduboði því að þessi ríki eru tengd svo sterkum böndum. En ég finn fyrir því að það er ekki síður góð og jákvæð stemming þegar Eystrasaltsríkin bætast í hópinn því að þar fara ríki sem eiga mjög margt sameiginlegt með norðurlöndunum í ýmsu sem viðkemur gildum og viðhorfum til dæmis gagnvart samfélags- og efnahagsmálum. Mér finnst þau tengsl vera að styrkjast mjög,“ sagði Sigmundur Davíð.
„Það er svo alltaf sérstaklega skemmtilegt að sjá þegar systurflokkar Framsóknarflokksins ná árangri, bæði á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum, en ekki síður vestanhafs í Kanada þar sem frjálslyndir unnu góðan kosningasigur fyrir skömmu. Frjálslynd miðjustefna er stefna skynsemi og rökhyggju og það eykur ætíð tækifæri til uppbyggingar og framsýni í stjórn ríkja þegar slík stefna ræður för.“
Að loknu Norðurlandaráðsþingi tóku forsætisráðherrarnir átta ásamt David Cameron forsætisráðherra Bretlands þátt í ráðstefnunni Northern Future Forum. Hún var haldin í Reykjavík að þessu sinni, en þar koma árlega saman forsætisráðherrar og sérfræðingar frá þessum níu ríkjum til að skiptast á hugmyndum og ræða lausnir fyrir áskoranir framtíðarinnar.
The Northern Future Forum (NFF)