„Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að tala um þetta mál. Sex ráðuneyti undirbúa nú loftslagsráðstefnuna í París. Ég lít svo á að það sé áskorun til okkar allra að gera eitthvað nýtt. Við getum litið þannig á að nú séum við að fara í nýtt upphaf, að við stöndum á tímamótum þar sem við þurfum öll að taka okkur saman og jafnvel að breyta hugsunarhætti og umgengni okkar almennt.
Þurfum að finna nýjar leiðir
Arctic Circle-ráðstefnan um helgina endaði nú svo ágætlega. Ég held að það hafi verið Færeyingar sem sagði þar: Steinöldinni lauk ekki af því að steinarnir kláruðust heldur af því að ný tækni tók við. Það er það sama og við leggjum höfuðáherslu á, við þurfum við að taka það sem áskorun og ég er sammála því að heimurinn finni nýjar leiðir. Við höfum sett það fram að við ætlum að minnka jarðefnaeldsneytisnotkun og þá þurfum við að kalla eftir öðrum orkugjöfum. Við erum fyrirmynd í þeim efnum, finnst allflestum þeim útlendingum sem ég hef rætt við undanfarna daga. Þeir líta til okkar sem fyrirmyndar, enda viljum við vera í fararbroddi í umhverfismálum. Það er það sem við ætlum okkur að gera og við erum að vinna að sóknaráætlun, Íslendingar, sem við munum leggja fram á Parísarfundinum í byrjun desember.“
„Ég held að ríkisstjórn Íslands geri sér fullkomlega grein fyrir því að hafið er okkar dýrmæti og að því þurfum við að huga og reyna að gæta þess og minnka mengun.
40% losun fyrir 2030
Varðandi Evrópusambandið þá tilkynnti Ísland markmið sín 30. júní s.l., eða samþykkt ríkisstjórnar þann dag, að við stefndum að þessu sameiginlega markmiði um 40% losun fyrir 2030 miðað við 1990 í samvinnu við Noreg og ríki ESB. Það er það sem ríkisstjórnin er búin að samþykkja. Jafnhliða erum við, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að undirbúa sérstaka sóknaráætlun þar sem við Íslendingar leggjum fram markmið okkar.
Það er hægt að skipta þeim verkefnum í þrjú svið. Það eru í fyrsta lagi aðgerðir til að draga úr nettólosun gróðuhúsalofttegunda á Íslandi. Annað er verkefni sem við vinnum á alþjóðavísu og hið þriðja er efling stjórnsýslu og vöktunar í lofslagsmál. Það er mjög mikilvægt að við reynum að efla þá innviði til að við getum borið saman hvernig þróunin verður. Eitt er mjög ánægjulegt og það er að tekist hefur góð samvinna við atvinnugreinarnar í landinu um að minnka notkun gróðurhúsalofttegunda.“
Sigrún Magnúsdóttir – um Loftslagsráðstefnuna í París í byrjun desember, í störfum þingsins 19. október 2015.
20/10/2015
„Steinöldinni lauk ekki af því að steinarnir kláruðust, heldur af því að ný tækni tók við“