Categories
Forsíðuborði Fréttir

Þingflokkur Framsóknarflokksins við upphaf 147. löggjafarþings

Deila grein

12/09/2017

Þingflokkur Framsóknarflokksins við upphaf 147. löggjafarþings



Myndin af þingflokknum var tekin 12. september 2017 í Alþingisgarðinum fyrir aftan Alþingishúsið. Garðurinn er elsti íslenski almenningsgarðurinn sem hefur varðveist í upprunalegri mynd.
Á myndinni eru frá hægri: Eygló Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður, Þórunn Egilsdóttir, þinflokksformaður, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Categories
Forsíðuborði Greinar

Betra samfélag

Deila grein

12/09/2017

Betra samfélag

Íslenskt samfélag hefur tekið umtalsverðum breytingum til hins betra frá því að Alþingi hlaut löggjafarvald í ýmsum sérmálum með stjórnarskránni árið 1874. Fyrir það fyrsta, þá var Ísland enn hluti af danska konungsveldinu og átti stjórnmálabaráttan eftir að litast af þeirri stöðu. Þjóðartekjur á mann voru með því lægsta í Evrópu á þessum tíma. Að sama skapi voru allir þingmenn þjóðarinnar 36 talsins karlmenn. Ljóst er að samfélagsleg þróun hefur verið okkur Íslendingum hagstæð þegar litið er til vaxtar þjóðartekna og að þingið í dag endurspeglar mun betur samfélag sitt, til að mynda er hlutfall kvenna og karla á þingi jafnt.

Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir í dag eru að öðrum toga en viðfangsefnið er alltaf hið sama, þ.e. hvernig bætum við íslenskt samfélag. Hvernig tryggjum við að gæði velferðarsamfélagsins séu á meðal þess besta sem gerist í veröldinni? Vinna þarf betur að ýmsum málum. Leyfi ég mér að nefna þrennt sem ætti að vera forgangsmál á komandi þingvetri: efla þarf heilbrigðisþjónustu og minnka þarf greiðsluþátttöku sjúklinga, bæta þarf stöðu eldri borgara og styðja verður betur við menntakerfið. Við munum hins vegar ekki bera gæfu til þess að ná árangri nema að við tryggjum að grunnatvinnuvegir þjóðarinnar séu samkeppnishæfnir. Stöðugt hagkerfi og traust efnahagsstjórn er lykilforsenda þess.

Áhrif þingsins og þverrandi traust á það hefur verið til umræðu undanfarin misseri. Þetta er stórvarasöm þróun því að hún grefur undan þrískiptingu valdsins í lýðræðisþjóðfélögum. Ef löggjafarvaldið er veikburða hefur það áhrif á alla stjórnmálaþátttöku, þ.e. áhugi á stjórnmálum sem hreyfiafli fer dvínandi og áhrif þess eru ófyrirséð. Hvað er til ráða? Að mínu mati er framvindan í höndum þingmanna þjóðarinnar. Þingmenn hafa það í valdi sínu að koma fram með umbótamál og vinna þeim fylgi. Efling löggjafarvaldsins liggur fyrst og síðast hjá okkur þingmönnum. Þeir þingmenn sem reyna að varpa ábyrgðinni á aðra eru á villigötum. Allur þingheimur þarf að huga að því mun betur hvernig megi auka traust og ásýnd þingsins. Það verður best gert með málefnalegri framgöngu og leita leiða til að bæta samfélagið okkar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. september 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Af samgöngum, eldi og virkjunum á Vestfjörðum

Deila grein

11/09/2017

Af samgöngum, eldi og virkjunum á Vestfjörðum

Mikið er rætt og ritað um uppbyggingu á Vestfjörðum þessa dagana. Eftir margra ára varnarbaráttu samfélaganna fyrir vestan hafa nú í nokkurn tíma verið vonir og væntingar um uppbyggingu með bættum innviðum og fjölbreyttara atvinnulífi. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist á undanförnum árum vantar herslumuninn uppá að fjórðungurinn sé á pari við aðra hvað varðar innviði. Einkum eru það þrjú mál sem eru í brennidepli í dag, veglagning um Teigskóg, virkjanir á norðanverðum Vestfjörðum og laxeldi en að mínu viti þarf aðkomu okkar þingmanna kjördæmisins að öllum þessum málum.

Teigskógur- lagasetning eina leiðin

Nú þegar er vinna er hafin við Dýrafjarðargöng og undirbúningur fyrir nýjan veg um Dynjandisheiði er langt kominn, er aðeins einn kafli eftir í stóru samgönguæðum Vestfirðinga sem er ekki boðlegur en það er vegurinn um Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Teigskógur er með þekktari “skógum” á landinu þrátt fyrir að vera að mestu kjarr sem finna má víða á Íslandi. Í raun er með ólíkindum að landeigendur sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu skuli geta komið í veg fyrir að Vestfirðingar njóti samgangna, öryggis og betri lífsgæða. Nýr vegur um Teigskóg hefur þvælst í stjórnkerfinu alltof lengi og þau svör sem við þingmenn höfum fengið hafa aldrei staðist þegar við höfum ýtt á eftir málinu. Í ljósi nýjustu frétta um mögulegar seinkanir er aðeins eitt í boði, að alþingi samþykki lög um Teigskóg svo framkvæmdir geti hafist. Annað er ekki boðlegt. Mun ég flytja slíkt mál geri aðrir það ekki.

Fiskeldi – beita verður mótvægisaðgerðum og opna Djúpið

Í minni sjávarútvegsráðherratíð síðasta haust setti ég af stað starfshóp sem vinna átti stefnumótun í fiskeldi og skilaði hópurinn niðurstöðu nú í lok ágúst. Fiskeldi eða eldi hverskonar er vaxandi um allan heim enda ljóst að fæðuþörf heimsins verður ekki annað með hefðbundnum búskap eða fiskveiðum. Íslendingar hafa ekki fylgt þeirri þróun eldismála sem skyldi og eflaust eru margar skýringar á því. Nú er staðan önnur, eldi er komið til að vera á Íslandi. Fiskeldi er einn helsti vaxtarbroddur atvinnulífs á Vestfjörðum og sóknarfærin einnig mikil fyrir austan. Niðurstöður starfshópsins ullu mér nokkrum vonbrigðum. Ég hafði vonast eftir skýrari markmiðum og sýn fyrir greinina á næstu árum líkt og fiskeldisþjóðirnar í kringum okkur hafa sett sér. Megin verkefnið var að gera tillögur um umgjörð greinarinnar og átta sig á þjóðhagslegu mikilvægi hennar, þar er lykillinn að meta félagslega og efnahagslega þætti en ekki var gerð tilraun til þess. Þrátt fyrir margt ágætt í vinnu hópsins virðist mér að hann hafi villst frá meginmarkmiðum vinnunnar. Áherslan á „sátt“ milli eldis og veiðiréttarhafa, gjaldtöku af greininni ásamt uppboðsleið Viðreisnar virðist hafa tekið megin tíma hópsins. Ég sakna þess hve lítið er gert með jákvæð áhrif fiskeldis á efnahagslífið, samfélagsþróunina (þrátt fyrir úttekt Byggðastofnunar) sem og hvernig við ætlum að mennta allt það fólk sem greinin þarfnast eða búa um frekari innviði sem fylgja uppbyggingunni.
Viðreisn nær að koma hugmyndum sínum um uppboðsleið þarna inn sem er athyglisvert í ljósi þess að ætlaður forystuflokkur ríkisstjórnarinnar hefur verið andsnúinn þeirri leið í sjávarútvegi. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta eigi að vera tilraunaverkefni fyrir sjávarútveginn.
Lagt er til að lögfesta lokun Ísafjarðardjúps fyrir laxeldi á grundvelli áhættumats Hafrannsóknarstofnunar sem er hálfs árs gamalt. Til viðmiðunar má benda á að það tók Hafró langan tíma að þróa aflaráðgjöfina sem þokkaleg sátt hefur myndast um og á hverju ári er niðurstaðan rýnd af ICES, í tilfelli áhættumats á fiskeldi fer vísindalega rýnin fer fram eftir að búið er að loka Djúpinu. Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar er nýtt og frumraun stofnunarinnar á þessum vettvangi. Ljóst er að of margar spurningar eru uppi um aðferðarfræði, gögn og annað er liggur til grundvallar matinu að hægt sé að nýta það til ákvarðanatöku á þessu stigi. Á fundi þingflokks- og landsstjórnar Framsóknarflokksins á Vopnafirði nú fyrir skömmu sagði ég mikilvægt að erlendir aðila yrðu fengnir til að rýna vinnu Hafrannsóknarstofnunar og formaður Framsóknarflokksins hefur tekið undir það í grein er hann ritaði. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að setja eigi á fót sérstaka rannsóknarstofnun við t.d. Háskólann á Hólum eða Auðlindadeild Háskólans á Akureyri sem hafi m.a. það hlutverk að rýna rannsóknir annarra í sjávarútvegi og fiskeldi þar á með talið Hafrannsóknarstofnunar. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á vísindamenn stofnunarinnar heldur myndi slík rýni væntanlega staðfesta og þannig renna enn styrkari stoðum undir þeirra vinnu.
Ennfremur er ekki tekið tillit til mótvægisaðgerða en bæði einstaka framkvæmdaraðili og Hafró hafa komið fram með mótvægisaðgerðir sem þýða að hægt sé að fara af stað strax í Djúpinu undir eftirliti þannig að hvorki lífræn mengun né erfðablöndun ógni nokkrum stofnum í Djúpinu. Reyndar kom fram á sameiginlegum fundi Atvinnuvega- og Umhverfis- og samgöngunefndar sl. miðvikudag að innan hópsins hafi illa gengið að ná saman og því haldinn sérstakur fundur þar sem leitað var sátta milli “deiluaðila”.
Skýrsluna um fiskeldi þurfum við þingmenn að gaumgæfa mjög vel á komandi dögum í þinginu þannig að náist ásættanleg niðurstaða fyrir samfélögin og náttúruna. Þannig er því ekki farið í dag og verður ekki fyrr en fiskeldi fer af stað í Ísafjarðardjúpi.

Uppbygging raforkukerfisins – hringtenging Vestfjarða

Ég hef sett mig vel inní áform um virkjanir á norðanverðum Vestfjörðum og heimsótti fyrirhuguð virkjanarsvæði á Ófeigsfjarðarheiði síðastliðið sumar. Ég ætla hinsvegar að láta það vera í bili að fjalla um skrif læknisins sem veit hvað Vestfirðingum er fyrir bestu.
Til þess að bæta raforkuöryggi Vestfirðinga þarf hringtengingu (n-1 tengingu). Fyrir liggja þrjú skref svo slíkt verði að veruleika.
1.skref: Öflun raforkunnar: Finna þarf skynsamleg mörk milli nýtingu á fallvötnum, milli þess að friða og nýta. Pólitíkin hefur komið sér upp mjög viðamiklu ferli til þess enda geta þessi skynsamlegu mörk verið mjög á reiki, það ferli kallast rammaáætlun. Ég hef gagnrýnt það ferli enda alls ekki fullkomið. Hins vegar er það ferlið sem við miðum við í dag og nýtum til ráðgjafar. Bæði Hvalá og Austurgilsvirkjun á norðanverðum Vestfjörðum eru í nýtingarflokki rammaáætlunar sem er lykilatriði.

2. skref: Tengipunktur: Virkjunaraðilar þurfa að geta afhent framleiðslu sína til Landsnets svo hægt sé að miðla henni. Horft hefur verið til þess að tengipunktur fyrir Hvalárvirkjun, Austurgilsvirkjun og hugsanlega Skúfnavatnavirkjun verði innarlega í Ísafjarðardjúpi, mögulega við Nauteyri. Annar áfangi af hringtenginu Vestfjarða er því að koma slíkum tengipunkti fyrir. Landsnet hyggst leggja þaðan línu suður í Kollafjörð þar sem línan myndi tengjast við “landsnetið”. Við þetta annað skref er ekki komin hringtenging en raforkuöryggi batnar samt sem áður þar sem bilanir austan við Kollafjörð hætta að hafa áhrif á Vestfirðinga. Á línunni frá Kollafirði að Gilsfirði eru margir staðir með mikilli ísingarhættu og bilanir tíðar eins og sést á myndinni hér fyrir neðan frá Landsneti. Endapunktinum er þó ekki náð með þessu skrefi.


Græna línan er möguleg tenging úr Djúpi í Kollafjörð.Fjölmargir ísingarhættustaðir, merktir gulir, appelsínugulir og rauðir frá Kollafirði í Gilsfjörð detta út við 2. skref að hringtengingu Vestfjarða.

3. skref: Hringtenging raforku: Bent hefur verið á að Landsnet hafi ekki gefið út að til standi að leggja út línu út Djúp. Í mínum huga er það ekki einkamál Landsnets hvernig raforkukerfi Vestfirðingar búi við, ekki frekar en það sé einkamál Skipulagsstofnunar hvernig veglagningu á landinu er háttað. Hringtenging raforku á Vestfjörðum er pólitísk ákvörðun, það má benda á að síðastliðið haust var samþykkt í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, tillögur Vestfjarðarnefndar en ein af tillögunum þar var að fela Orkustofnun að finna út hagkvæmustu tengingu frá Nauteyri til Ísafjarðar. Frá ríkisstjórnarskiptum hefur þessi tillaga ekki fengið framgang frekar en aðrar tillögur nefndarinnar sem núverandi stjórnarflokkarnir sýna engan áhuga. 
Málið er einfalt í mínum huga, Orkustofnun verði falið líkt og Vestfjarðarnefndin lagði til að finna hagkvæmustu tengingu frá Nauteyri til Ísafjarðar og Alþingi gefi út stefnumarkandi ákvörðun um að ráðist verði í hringtengingu sem fyrst.
Skora ég á Þórdísi Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra raforkumála og þingmann Norðvesturkjördæmis að fela Orkustofnun að hefja þá vinnu.

Þrátt fyrir að kostnaður við slíka tengingu gæti virst þónokkur er ávinningurinn mikill, hægt er að slökkva á olíkyndingu og olíuvarafli sem væri í takt við umhverfisskuldbindingar Íslands, raforkuöryggi Vestfirðinga stórbatnar og loks verður til staðar raforka fyrir minni iðnað. Einnig má benda á að til rannsóknar eru minni virkjanir í Djúpinu sem gætu tengst inná þá línu og lækkað kostnaðinn. Aðrir kostir við að hringtengja rafmagn á Vestfjörðum eins og að tvöfalda Vesturlínu eru líka mjög dýrir en í mínum huga er miklu físilegari leið að að virkja fallvötnin við Djúp og í Hvalá til hagsbóta fyrir samfélögin þar vestra og stuðla að bættu raforkuöryggi í leðinni.

Ef að þingmenn koma sér saman að gera fyrrnefnd þrjú atriði að veruleika er ég sannfærður um að eftir standi kröftug sjálfbær samfélög á Vestfjörðum.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist á bb.is, 11. september 2017

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Framsókn á Fundi fólksins

Deila grein

10/09/2017

Framsókn á Fundi fólksins

Framsóknarflokkurinn stóð fyrir viðburði á Fundi fólksins sem fram fór um helgina í Hofi á Akureyri. Viðburðurinn bar yfirskriftina Framtíðarmenntunin. Hvernig vinnum við með vélmennum? Líflegar og góðar umræður áttu sér stað og sneru um að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina, en á næstu árum munu fjölmörg störf hverfa á meðan ný koma að einhverju leyti í staðinn.
Fyrirsjáanlegt er að tækniþróunin verði hröð og því þarf hugarfarsbreytingu um hvernig við getum stuðlað að menntun og nýsköpun í takt við þarfir framtíðar. Á fundinum kom fram að mikilvægt er að menntun taki breytingum með þróun atvinnulífs og starfsgreina að leiðarljósi. Róbert Guðfinnsson, frumkvöðull flutti áhugavert erindi um rannsóknir, vöruþróun og fjárfestingar. Þá var Inga Eiríksdóttir kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga með fróðlegt erindi um nýtt fag sem er kennt við skólann og ber þann dularfulla titil vélmennafræði þar sem kennd er samsetning og forritun á hinum ýmsum vélmennum.
Þá voru í pallborði Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi og Jón Þór Sigurðsson umsjónarmaður FAB Lab smiðju í VMA. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins flutti síðan lokaorð og samantekt. Fundarstjóri var Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Lambakjötið

Deila grein

10/09/2017

Lambakjötið

Vandi sauðfjárbænda er augljós og hefur verið sýnt framá hve gríðarlegur tekjumissir bænda verður ef allt fer á versta veg. Hann verður 2.400 milljónir króna á tveimur árum. Bændur hafa síðan í vetur reynt að fá stjórnvöld til að opna augun fyrir vandanum með litlum árangri. Útspil ríkisstjórnarinnar kom seint og um síðir án þess að taka á vandanum í heild. Vandi greinarinnar er í raun ekki framleiðsluvandi heldur markaðsvandi. Víða í verslunum er erfitt eða ekki hægt að kaupa læri eða hryggi. Birgðavandinn er því væntanlega að mestu í öðrum vörum. Ef framleiðslan verður minnkuð um 20% líkt og ríkisstjórnin virðist stefna að þá verður augljóslega enn frekari vöntun á þessum vörum á næsta ári. Mun þá koma fram krafa frá Félagi atvinnurekenda um að fá að flytja inn lambakjöt í stórum stíl? Framleiðendur og verslanir hafa um árabil ekki sinnt markaðnum sem skyldi og metnaðarleysi verið þar ráðandi. Meðan fiskur, kjúklingur, svín ofl. var hanterað fyrir markaðinn var lítill metnaður í lambakjötinu. Það hefur þó breyst síðustu ár m.a. hefur Krónan boðið uppá nútímalegar sölueiningar. Þróunin er því á réttri leið, en það er heilmikið óunnið. Landbúnaðurinn þarf að verða mun meira markaðsdrifinn – ekki framleiðsludrifinn. Það er það sem verður að breytast.

Undirritaður beitti sér fyrir því sem landbúnaðarráðherra að 100 milljónir króna voru settar í markaðsmál fyrir erlenda markaði til að létta á birgðavandanum. Markaðssóknin verður að vera markviss og hafa það að markmiði að auka verðmæti hverrar einingar. Þrír aðilar þurfa að koma að málum, stjórnvöld, afurðastöðvar og bændur. Nefni ég hér örfá dæmi um hvað stjórnvöld geta gert:

1. Nú þegar á að taka upp sveiflujöfnun sem bændur hafa kallað eftir þannig að hægt sé að losa nú þegar um þær birgðir sem safnast hafa upp. Skv. hugmyndum bænda hefði ráðherra vald til að stöðva útflutning sé hætta á skorti á innanlandsmarkaði og því væri það að hans valdi að jafna sveiflur á markaðnum.
2. Á fundi þingflokks Framsóknarflokksins sl. mánudag kynnti ég þingmál sem ég hyggst leggja fram. Að sveiflujöfnunin yrði fest í lög og að undanþága frá samkeppnislögum yrði lögfest fyrir landbúnaðinn í heild. Það er mjög mikilvægt að okkar litli landbúnaður geti unnið sem ein heild t.d. er kemur að útflutningi en í dag er það ekki hægt. Fyrirkomulagið í mjólkurframleiðslu hefur reynst vel fyrir neytendur og framleiðendum tekist vel að tryggja gæðavörur á hagstæðu verði. Ef framþróun í útflutningi á að eiga sér stað verða framleiðendur að geta unnið saman.
3. 500 milljónum króna verði varið til markaðs og vöruhönnunar átaks þar sem áherslan verður lögð á nútímalegar vörur fyrir innanlandsmarkað og útflutning.
4. 100 milljónum króna verði varið í að styrkja frumkvöðlastarf í gegnum Landbúnaðarklasann.
5. Bændur sem hafa verið að þróa “beint frá býli” og/eða netsölu á framleiðslu sinni fái sérstakan stuðning.

Það er engin framtíðarsýn sem ríkisstjórnin er að bjóða með því að hvetja ungt fólk til að snúa baki við sauðfjárframleiðslu. Hér hef ég ekki rætt áhrif þess á samfélagið ef bændur bregða búi í stórum stíl en þau áhrif gætu orðið mikil.

Það er vel hægt að styrkja stöðu sauðfjárbænda til framtíðar en þá þarf að bregðast við strax og lykilatriðin liggja á borðum ríkisstjórnarinnar.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 9. september 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Sóknarfærin eru á Skaganum

Deila grein

07/09/2017

Sóknarfærin eru á Skaganum

Akranes er gott samfélag sem er að mínu mati í þægilegri fjarlægð frá Reykjavík og þangað er því auðvelt að sækja m.a. vinnu og háskóla. Fasteignaverð á Akranesi er einnig talsvert lægra en í höfuðborginni Reykjavík, þó fasteignaverð hafi hækkað umtalsvert á síðustu misserum. Á Skaganum eru einnig góðir leik- og grunnskólar og önnur öflug grunnþjónusta sem er vel mönnuð fagfólki á hinum ýmsu sviðum.

Því er ekki annað en hægt að velta fyrir sér, hvers vegna íbúafjölgun á Akranesi er mun lægri en í öðrum nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Í nýlegum fréttum kom fram að íbúum á Akranesi hefur fjölgað um 1,7% á undanförnu ári á meðan fjölgunin er 3,5% í Árborg og 8,5% í Reykjanesbæ.

Reyndar vitum við að skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði á Akranesi. En nú eru uppi áform um að koma inn með um 650 íbúðir, til að koma á móts við þann skort sem verið hefur. Það er nauðsynleg aðgerð og í því samhengi þarf að horfa til ýmissa þátta eins og uppbyggingar á félagslegu húsnæði, húsnæði fyrir aldraða og auk þess þarf aukið framboð inn á hinn almenna markað.

En geta aðrir þættir haft áhrif á þessa þróun? Getur verið að fólk í fasteignahugleiðingum horfi frekar til sveitarfélaga eins og t.d. Árborgar og Reykjanesbæjar? Getur verið að Akranes líði fyrir að vera eina sveitarfélagið, úr dæminu sem tekið var fyrir í fréttum, þar sem fólk þarf að greiða veggjöld á leið sinni til og frá Reykjavík?

Í þrígang hef ég lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu. Sú tillaga hefur einhverra hluta vegna fengið dræmar undirtektir og því ekki náð fram að ganga. Tillagan fjallar um að fólk sem greiða þarf ákveðna upphæð vegna ferða til og frá vinnu eða skóla fá skattaafslátt á móti. Gæti verið ef hún hefði náð fram að ganga, að hún hefði haft áhrif á þessa íbúaþróun?

Það verður ekki litið fram hjá því að Skagamenn og aðrir íbúar Vesturlands búa við ójafnræði hvað varðar kostnað vegna ferða til og frá vinnu. Sumir segja að við höfum val um aðra leið sem er Hvalfjörðurinn. Því er ég ekki sammála.

Við verðum að fara í verulegar vegabætur á Vesturlandsvegi og ráðast sem fyrst í lagningu Sundabrautar. Þá fyrst förum við að tala um raunverulegt val. Skaginn á svo sannarlega sóknarfæri. Ódýrara húsnæði og meiri gæðastundir með fjölskyldunni. Það er þess virði.

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist á Skessuhorni, 7. september 2017

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Stjórnmálaskóli fyrir konur af erlendum uppruna – A Class in Politics, for Immigrant Women

Deila grein

06/09/2017

Stjórnmálaskóli fyrir konur af erlendum uppruna – A Class in Politics, for Immigrant Women

Langar þig að bjóða þig fram til Alþingis eða kynnast íslenskum stjórnmálum? Viltu kynnast öðrum konum af erlendum uppruna sem hafa áhuga á stjórnmálum?

Vertu velkomin á námskeið Kvenréttindafélags Íslands fyrir konur af erlendum uppruna um stjórnmál og pólitískt starf.
Á námskeiðinu verður farið yfir starf og stefnumál helstu stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka, farið yfir „óskrifaðar reglur“ stjórnmálanna, framsaga og ræðuhöld kennd og unnið að tengslamyndun þátttakenda. Í lok námskeiðsins gengur þú út með áætlun um hvernig þú getur breytt samfélaginu!
Námskeiðið tekur 7 vikur og kennt er á mánudagskvöldum. Þátttökugjald er EKKERT.
2. október 2017
Kynning
9. október 2017
Pólitík í víðari skilningi. Hvar er hægt að bjóða sig fram og hafa áhrif, t.d. í félagsstarfi, stéttarfélögum, hverfastarfi, o.s.frv.
16. október 2017
Heimsókn frá stjórnmálaflokkum I. Kynning á stærstu flokkum landsins og flokkastarfi
23. október 2017
Heimsókn frá stjórnmálaflokkum II. Kynning á stærstu flokkum landsins og flokkastarfi
30. október 2017
Framsaga, ræðuhöld og sjálfsstyrking
6. nóvember 2017
Rætt við konur af erlendum uppruna sem hafa tekið þátt í pólitík
13. nóvember 2017
Lokakvöld. Þátttakendur ræða framtíðaráform sín.
Kennt er á íslensku, en hægt er að taka þátt í umræðum á ensku.
Tímabil: 2. október til 13. nóvember 2017
Staður og tími: Hallveigarstaðir, Túngata 14, 101 Reykjavík, mánudaga kl. 19:00–21:00.
Umsjón: Sabine Leskopf, varaborgarfulltrúi
Skráðu þig: https://kvenrettindafelag.is/politik
Námskeiðið má einnig finna sem viðburð á facebook á íslensku, ensku og pólsku
Námskeiðið er styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála
***
Do you want to run for Parliament or just find out more about how politics in Iceland work? Do you want to meet other immigrant women who are interested in politics?
Join us at training course in politics hosted by the Icelandic Women’s Rights Association.
This course will introduce you to the largest political parties and associations in Iceland and teach you how to quickly start working within your chosen party. You will learn the inner workings and “unwritten rules” of Icelandic politics, practice how to speak clearly and publicly, and get the opportunity to meet other women who share your interests in politics. By the end of the course, you will have a concrete plan on how you can change society!
The course lasts seven weeks and classes are taught on Monday evenings.
This course is FREE.
2 October 2017
Introduction
9 October 2017
Spheres of influence in Iceland. Running for office at the country and local levels and in boards of labor unions and other associations
16 October 2017
Visits from representatives from Iceland’s political parties I. Introducing the policies and inner workings of different parties, and how to join
23 October 2017
Visits from representatives from Iceland’s political parties II. Introducing the policies and inner workings of different parties, and how to join
30 October 2017
Public speaking and self confidence
6 November 2017
Meeting with immigrant women who are active in politics
13 November 2017
Final class. Discussing future plans of participants.
Classes are taught in Icelandic, but you can join the discussion in English as well.
Time Period: 2 October to 13 November 2017
Place and Time: Hallveigarstaðir, Túngata 14, 101 Reykjavík, Mondays at 7 p.m. to 9 p.m.
Moderator: Sabine Leskopf, deputy city councillor in Reykjavík
Register here: https://kvenrettindafelag.is/politik
The class can also be found as a Facebook event in icelandic, english and polish.
The class is funded by Þróunarsjóður innflytjendamála

Categories
Forsíðuborði Greinar

Skemmri skírn

Deila grein

05/09/2017

Skemmri skírn

Töluvert vantar upp á tillögur þær sem landbúnaðarráðherra birti í gær til að leysa vanda sauðfjárbænda. Tillögurnar eru ágætar svo langt sem þær ná. Þær eru hins vegar skemmri skírn og plástur á sár sem ekki grær. Stjórntæki vantar til að taka á birgðavandanum og engar skuldaaðgerðir eru í augsýn fyrir unga bændur. Lækkun á afurðum sem bændur eiga nú von á setur því allar áætlanir sauðfjárheimila í loft upp.

Umframmagn af kjöti er ennþá til staðar og sláturtíðin hafin. Heimili í sauðfjárrækt munu ekki fá tekjur fyrir útlögðum kostnaði sem fór í að kaupa aðföng. Allt stefnir í mikla kauplækkun á meðan laun annarra stétta í þjóðfélaginu hafa hækkað um 30-35%. Afkoman verður neikvæð EBITDA og á þá eftir að greiða vexti, verðbætur og afskriftir.

Hafa áhrifin verið greind? Hefur landbúnaðarráðuneytið upplýsingar um áhrif tillagnanna á tekjur fólks sem stundar sauðfjárbúskap, á unga bændur, á samfélög? Hver verður staða bænda eftir eitt ár? Hver verður staða heimila á svæðum brothættra byggða, þar sem nú eru rúmlega 200 heimili sem lifa af sauðfjárbúskap?

Afleiðingarnar geta orðið fjöldagjaldþrot hjá ungum bændum með börn sem um leið sjá fram á að missa heimili sín, þar sem þau eru veðsett. Offramboð á jörðum, afleidd störf í matvælaframleiðslu munu hverfa og byggðirnar tæmast.

Ríkisstjórnin verður að hlusta á lausnir til að leysa birgðarvandann.

Sandkassaleik ráðherra Viðreisnar með landbúnaðarráðherra í broddi fylkingar verður að stöðva. Forsætisráðherra sem hefur sagt að í gildi sé búvörusamningur, og það standi ekkert annað til en að stjórnvöld standi við þann samning, verður að stíga fram og tryggja stuðning ríkisstjórnarinnar sem allra fyrst.

Nágrannalöndin verja sína landbúnaðarframleiðslu. Evrópusambandið losar bændur við umframbirgðir, s.s. mjólkurduft, smjör og kjöt og setur í frysti eða selur út fyrir svæðið. Ríkisstjórnin getur ekki skorast undan ábyrgð nema ráðherra Viðreisnar ætli sér að leggja íslenska matvælaframleiðslu niður og þúsundir starfa.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 5. september 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Lagasetning kemur til greina

Deila grein

30/08/2017

Lagasetning kemur til greina

Enn og aftur er vegalagning um Teigsskóg komin í uppnám. Það er óásættanlegt með öllu og staða sem þessi getur ekki gengið lengur.

Í nýlegu svari sem ég fékk frá samgönguráðherra kemur fram að ráðherra sé ekki að skoða sérstaka lagasetningu til að liðka fyrir vegaframkvæmdum um Teigsskóg (https://www.althingi.is/altext/146/s/1070.html). Því er það ábyrgðarhlutverk þingmanna í Norðvesturkjördæmi að taka málið í sínar hendur, því lagasetning hlýtur að koma til greina þegar staðan er enn og aftur orðin þessi. Sérstaklega þar sem þær áætlanir sem settar voru fram árið 2014, hafa ekki gengið upp.

Haustið 2014 funduðu þingmenn Norðvesturkjördæmis m.a. með þáverandi samgönguráðherra um mikilvægi þess að nýr vegur yrði lagður um Teigsskóg. Ýmsar leiðir voru lagðar á borðið til að finna aðgerð sem yrði til þess að hægt væri að byrja vegalagningu sem fyrst. Flestir þingmenn kjördæmisins, ef ekki allir, vildu fara í lagasetningu til að höggva hnút á þá stjórnsýsluflækju sem nýr vegur um Teigsskóg er. Samkvæmt þeim svörum sem þingmenn fengu á fundinum þá átti endurupptaka á fyrra umhverfismati að vera stysta leiðin í átt að settu markmiði. Það ferli tæki innan við 18 mánuði og vegaframkvæmdir gætu hafist á árinu 2016 (https://www.visir.is/g/2014141019455). Núna árið 2017 erum við enn á byrjunarreit og ekkert staðist sem rætt var á fundinum þarna um árið.

Í öllu þessu ferli, hef ég sem þingmaður Norðvesturkjördæmis sett fram ýmsar fyrirspurnir um málið, m.a. um áfangaskiptingu verkefnisins, eyrnamerkt fjármagn til verkefnisins og fyrirspurn um lagasetningu eða aðrar aðgerðir til að koma verkefninu af stað. Allar þessar fyrirspurnir, sem og aðrar má finna hér: https://www.althingi.is/altext/cv/is/fyrirspurnir/?nfaerslunr=1161

Við virðumst enn og aftur vera á byrjunarreit. Áætlanir hafa ekki gengið upp og því virðist lagasetning vera orðin eina færa leiðin. Það er ábyrgðarhlutverk okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis að ganga í málið og koma þessu mikilvæga samgönguverkefni áfram. Þetta getur ekki gengið svona lengur.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á bb.is 29. ágúst 2017.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Eldhúsdagsumræður #1

Deila grein

30/05/2017

Eldhúsdagsumræður #1

,,Hæstv. forseti. Góðir landsmenn.
Þegar farið er yfir það í fljótheitum hvert við stefnum sem þjóðfélag er ekki alveg augljóst hver niðurstaðan er. Það kann að vera að stjórnarmeirihlutinn sé með það á hreinu en ég stórefast um að svo sé. Mig langar að nefna nokkur dæmi:
Á að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og taka gjald af ferðamönnum — eða ekki? Er verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna — eða ekki? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fjármagna uppbyggingu samgangna, veggjöld eða ekki? Hversu mikið ætlar ríkisstjórnin að einkavæða í skólakerfinu? Gjaldmiðilsmál; króna eða ekki króna? Hvernig á fjármálakerfið að vera?
Þetta eru bara nokkur dæmi um það sem ríkisstjórnin hefur verið að fást við á undanförnum mánuðum en enginn virðist vita hvert beri að stefna. Og reyndar er það ekki bara svo, heldur virðist sem einstaka ráðherra virðist ekki hafa hugmynd um hvert hann stefnir.
Ég leyfi mér sérstaklega að nefna hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann kemur af fjöllum þegar rætt er um að verið sé að einkavæða í heilbrigðisþjónustunni, segir lögin óskýr og þar fram eftir götunum. En hver er hans pólitíski vilji? Hvert telur hann heppilegt að stefna? Mér vitanlega hefur það ekki komið fram með skýrum hætti. Það sem hann hefur þó sagt um þetta kom fram í viðtali við ráðherra á dögunum. Þar sagði hann að það væri ekki endilega plottað um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þar höfum við það. Hann aftekur ekki með öllu að sú sé raunin.
Ég held að það gæti verið ágætt fyrir ráðherra að reyna að átta sig á því fyrr en síðar hvort eitthvað sé að gerast á hans vakt sem hann kærir sig ekki um. Það getur varla talist ofrausn af hálfu manns sem talar um ný vinnubrögð að samtal um aukið einkaframtak í heilbrigðisþjónustu sé tekið við þjóðina, þótt í litlu væri.
Frú forseti. Sé gengið til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn þarf að hafa afl til að standa í lappirnar. Slíkt afl hefur mér sýnst að viðhengin tvö, Björt framtíð og Viðreisn, hafi ekki. Viðreisn er útibú frá Sjálfstæðisflokknum, Björt framtíð virðist svo vera orðin útibú frá Viðreisn. Og í 11 manna ríkisstjórn sitja sex Sjálfstæðismenn, sem sagt meiri hluti við ríkisstjórnarborðið. Fyrir ekki svo löngu síðan voru níu af þeim sem eru ráðherrar nú í Sjálfstæðisflokknum.
Þótt ekki sé langt liðið á kjörtímabilið virðist ljóst að hver stefnir í sína átt og það leiðir hugann að gjaldmiðilsmálum, öllu heldur því stefnuleysi sem virðist ríkja. Krónan er framtíðargjaldmiðill Íslands, segir forsætisráðherra. Fjármálaráðherrann talar krónuna hins vegar niður hvenær sem færi gefst. Það er merkilegt að upplifa það að fjármálaráðherra landsins skuli vera svo taktlaus að tala niður gjaldmiðil þjóðarinnar á erlendum sem innlendum vettvangi. Það má vera að ófyndin framsetning hans í ástarjátningu til evrunnar sé fyndin í þröngum hópi Viðreisnar, en ég hygg þó að fleiri séu undrandi á þessari framkomu.
Frú forseti. Það er eitthvað bogið við það, í fullri alvöru, að fjármálaráðherra skuli reyna eftir fremsta megni að koma hér á myntráði sem líklega á að ljúka með upptöku evru. Hann segist áhyggjufullur vegna styrkingar krónunnar en gerir ekkert, hreint ekki neitt, enda veit hann sem er að liður í því að koma hér á myntráði og svipta íslensk stjórnvöld ráðum á eigin mynt verður auðveldara því minna sem hann aðhefst.
Það verður að segjast alveg eins og er, frú forseti, að það virðist vera lítill dugur í hæstv. forsætisráðherra þegar kemur að þessum efnum eða það væri gaman að fá svar við því frá hæstv. ráðherra, þótt ekki verði það í kvöld, hvort hann sé sammála fjármálaráðherra um að best sé að gera ekki neitt, taka upp myntráð og fórna forræði á eigin mynt. Ætlar ríkisstjórnin að marka sér einhverja stefnu í þessum málum? Jú, sett er á laggirnar nefnd um endurskoðun peningastefnu. Hvort mun hún fylgja stefnu forsætisráðherra eða fjármálaráðherra?
Á meðan stjórnarherrar fljóta sofandi að feigðarósi boðar Seðlabankinn að hann sé hættur reglulegum kaupum á gjaldeyri. Hafi verið þörf á að kaupa gjaldeyri fram til þessa er alveg augljóst að þörfin er meiri nú en nokkru sinni.
Fram hefur komið í fréttum að svo virðist sem vaxtamunarviðskipti séu að ná sér á strik á ný og ég veit fyrir víst að það setur hroll að mörgum við þær fréttir, enda höfðu þau viðskipti örugglega mikið um það að segja hversu illa fór haustið 2008. Síðasta ríkisstjórn var með ákveðin úrræði til að bregðast við þess háttar viðskiptum.
Frú forseti. Ég tel að hér verði að gera mun meira og reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að fjármagn flæði óhindrað til landsins með tilheyrandi áhættu fyrir þjóðarbúið. Ef það er eitthvað sem læra má af bankahruninu 2008 er það það að mikið innstreymi af erlendu fé til vaxtamunarviðskipta mun alltaf koma okkur í koll. Enn og aftur eru það allt of háir vextir sem virðast vera undirrót vandans.
Á hvaða vegferð er fjármálakerfið á vakt núverandi ríkisstjórnar? Engri sérstakri, held ég að lýsi því best.
Á dögunum komu hingað áhugasamir erlendir kaupmenn og sögðust hafa keypt Arion banka. Úr herbúðum ríkisstjórnarinnar heyrðust fagnaðaróp og hér sagðir alvörufjárfestar á ferð sem væru að veðja með Íslandi en ekki á móti, þetta væru tímamót, mikil tímamót. Í hvaða skilningi eru það tímamót að erlendir vogunarsjóðir, sumir með vafasama og glæpsamlega fortíð, skuli vilja eignast hér banka og reka? Er mönnum ekki sjálfrátt? Og hefur ríkisstjórnin sett það niður fyrir sér hvernig fjármálakerfið á Íslandi á að vera? Hefur ríkisstjórnin einhverja hugmynd um það eða á að láta „markaðinn“ um þetta eins og fleira?
Það er í raun merkilegt til þess að hugsa að almenningur og ríkið skuli hafa verið nógu góð til að taka á sig stóran skell við hrun bankanna en svo virðist ríkisstjórninni standa á sama hvernig fjármálakerfið eigi að líta út.
Og meira af afrekum ríkisstjórnarinnar. Menntamálaráðherra er að einkavæða framhaldsskóla án umræðu á Alþingi. Þegar upp komst harmaði hann ótímabæra umræðu um breytingarnar fyrirhuguðu, það voru hans viðbrögð, sem sagt að einhver skyldi vilja ræða hvort færa skyldi Ármúlaskóla inn í einkarekstur. Það voru alveg ótrúlega furðuleg viðbrögð. Hvenær átti að ræða og hverjir máttu ræða breytinguna? Allt gerist þetta á vakt ríkisstjórnar sem boðað hefur ný og vandaðri vinnubrögð og minna fúsk.
Hér er rétt að staldra við og spyrja: Hvert ætlar ríkisstjórnin með menntakerfið? Eigum við að ræða það eða er bannað að ræða það? Ótímabært?
Frú forseti. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er eins og hún er. Eins og á öllum tímum vantar sífellt meira fé. En ríkisstjórnin virðist ekki ætla að bregðast við vegna skorts á uppbyggingu innviða. Enn vantar milljarða króna í heilbrigðiskerfið, samgöngur og menntamálin, svo aðeins sé minnst á það sem hæst ber. Helst er að skilja að ríkisstjórnin vilji hraða einkavæðingu í þessum geirum. Hennar áætlun virðist vera að láta fólkið bara greiða meira fyrir þjónustuna fyrst það endilega þarf á henni að halda.
Málflutningur samgönguráðherra er náttúrulega sá sem best passar í þessum efnum þegar hann segir: Ef þið viljið meira skuluð þið borga meira, og það fyrir þjónustu sem ég hygg að flestir séu sammála um að ríkið eigi að greiða og að menn séu með sköttum og gjöldum af eldsneyti búnir að greiða í ríkissjóð nú þegar.
Góðir landsmenn. Það er til önnur leið, leiðin sem er kennd við blandað hagkerfi. Stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í dag er að lækka vexti og stuðla að mjúkri lendingu hagkerfisins. Til þess eru til úrræði, til að mynda stofnun stöðugleikasjóðs sem myndi nýtast sem eitt hagstjórnartækið til viðbótar þeim sem fyrir eru, endurskoðun peningastefnu sem hafi það m.a. að markmiði að gengið sé stöðugt, vextir sambærilegir við önnur lönd. Það er hægt að setja á gjaldtöku í ferðaþjónustu, komu- eða brottfarargjöld og breyta gistináttagjaldi. Það er skynsamlegt að fjárfesta í innviðum víða um land þar sem engin þensla er án þess að blása í þenslubóluna.
Okkur ber að varðveita og byggja upp velferðarkerfi í landinu sem ríkisvaldið ber ábyrgð á sem byggir á traustum atvinnugreinum, nýjum sem gömlum. Við eigum að tryggja að samfélagið reki sams konar heilbrigðiskerfi fyrir alla. Heilsufar er ekki markaðsvara. Sama gildir um menntun. Jafnrétti til náms þarf að ríkja. Við eigum að nýta allar okkar auðlindir með sjálfbærum hætti og m.a. þannig koma að liði við loftslagsmálin. Það er til önnur leið en ríkisstjórnin er að fara, það er leið skynseminnar. Þá leið viljum við Framsóknarmenn fara. Þakka þeim sem á hlýddu. — Gleðilegt sumar.”
Sigurður Ingi Jóhannsson í almennum stjórnmálaumræðum 29. maí 2017