Categories
Fréttir

Græn nýsköpun lykill að árangri

Deila grein

17/11/2016

Græn nýsköpun lykill að árangri

??????????????
Nú er kominn tími til að efna loforð Parísarsamningsins í loftslagsmálum, sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, í ræðu sinni í gær á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Marrakech í Marokkó. Allir þyrftu þar að leggja lóð á vogarskálarnar: stjórnvöld, atvinnulíf, vísindaheimurinn og almenningur. Nýsköpun í loftslagsvænni tækni og lausnum væri nauðsynleg til að ná settu marki.
Fundurinn í Marrakech er fyrsti alþjóðlegi ráðherrafundurinn um loftslagsmál eftir að Parísarsamningurinn gekk í gildi 4. nóvember sl. Um 110 ríki, þar á meðal Ísland, hafa fullgilt samninginn.
Sigrún Magnúsdóttir sagði að hrein orka væri mikilvæg og þörf á hnattrænu átaki í nýtingu endurnýjanlegrar orku. Hún nefndi tilraunaverkefni Orkuveitu Reykjavíkur o.fl. á Hellisheiði, þar sem koldíoxíði er dælt í jarðlög, þar sem það breytist í steindir og binst til frambúðar í jarðlögum. Þar væri gróðurhúsalofttegundum breytt í grjót, en einnig væri mikilvægt að binda kolefni í trjám og jarðvegi með skógrækt og aðgerðum gegn landeyðingu.
Sigrún Magnúsdóttir gerði áhrif loftslagsbreytinga á hafið að umtalsefni og fagnaði aukinni athygli á þann þátt í loftslagsumræðunni. Hreinni skipatækni væri hluti af lausninni og mikilvægt að hlúa að henni á Íslandi og á heimsvísu.
Auk loftslagsvænni tækni væri nauðsynlegt að huga að daglegu lífi, svo sem með að draga úr matarsóun, til að ná settu marki. Jafnrétti kynjanna og virk þátttaka kvenna væri nauðsynleg til að ná árangri í loftslagsmálum.
Ræða ráðherra í heild (á ensku) (pdf-skjal).

 Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, átti m.a. tvíhliða fund með Paulu Bennett, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sótt fundi ráðherra og aðra viðburði á aðildarríkjaþinginu í Marrakech og átti m.a. tvíhliða fund með Paulu Bennett, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands. Þar kom fram að aðstæður í ríkjunum væru að mörgu leyti líkar hvað loftslagsmál varðar. Bæði ríkin nýta jarðhita og hafa hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku, bæði horfa til lausna varðandi losun frá landbúnaði og landnotkun og bæði hafa samþykkt að berjast gegn niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Samþykkt var að koma á samvinnu varðandi loftslagsvænar lausnir í landbúnaði og ræða frekar annað samstarf í loftslagsmálum.

Íslenskar kynningar um hafið og niðurdælingu koldíoxíðs

Sérstök dagskrá var tileinkuð umræðu um afleiðingar loftslagsbreytinga á hafið á sérstökum degi hafsins (Oceans Action Day), þar sem fulltrúi utanríkisráðuneytisins flutti erindi um mikilvægi uppbyggingar á þekkingu og tækni í ríkjum sem byggja afkomu sína á hafinu.
Ísland hélt tvo kynningarviðburði á norrænum bás á ráðstefnunni í Marrakech þar sem annars vegar var fjallað um hafið og hins vegar um jarðhita.
Á viðburði um hafið kynnti fulltrúi sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hið mikilvæga hlutverk skólans við að byggja upp þekkingu á loftslagsvænni sjávarútvegi. Fulltrúar frá Seychelles-eyjum og Máritíus ræddu nýsköpun og tækifæri sem tengjast hafinu, en þessi tvö eyríki eru meðal þeirra ríkja sem þegar takast á við alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga á hafið.
Fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur kynntu alþjóðlegt verkefni um bindingu á jarðhitagasi í grjót við Hellisheiðarvirkjun. Samstarfið leiddi til þróunar á nýrri aðferð sem er til muna hraðvirkari og ódýrari en hefðbundnar aðferðir og er unnt að nýta víðsvegar um heim. Verkefnið hefur vakið mikla athygli í vísindaheiminum og loftslagsumræðunni.
Fundirnir voru vel sóttir. Hægt er að sjá kynningarfundina á eftirfarandi vefsíðu:
https://www.norden.org/en/theme/new-nordic-climate-solutions/cop22/events/troll-turned-to-stone-innovation-in-geothermal-energy-ministry-of-foreign-affairs-iceland
https://www.norden.org/en/theme/new-nordic-climate-solutions/cop22/events/one-earth-one-ocean-ministry-of-foreign-affairs-iceland

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun Suðvesturkjördæmis

Deila grein

15/11/2016

Stjórnmálaályktun Suðvesturkjördæmis

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, haldið í Kópavogi 13. nóvember 2016 ályktar eftirfarandi:
Árangur í efnahagsmálum
Kjördæmisþingið lýsir ánægju með hinn mikla árangur sem náðist í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili, ekki síst í lækkun skulda einstaklinga og þjóðarbúsins. Skuldir heimilanna hafa ekki verið lægri síðan árið 2003.
Kaupmáttur launa hefur hækkað um rúmlega 20% á kjörtímabilinu og hefur aldrei verið meiri. Störfum hefur fjölgað um rúmlega 15.000 og atvinnuleysi er með lægsta móti. Fólkið í landinu mun senn njóta að fullu losunar haftanna.
Framsóknarflokkurinn vill að millistéttin og hinir tekjulægri hafi meira á milli handanna. Neðsta skattþrep verði lækkað verulega og skattkerfið verði vinnuhvetjandi.
Mikill árangur í húsnæðismálum
Kjördæmisþingið fagnar þeim árangri sem náðst hefur í húsnæðismálum á kjörtímabilinu. Samþykkt hafa verið ný lög um almennar íbúðir, lög um húsnæðisbætur, lög um húsnæðissamvinnufélög, lög um fasteignalán, húsaleigulög og lög um Fyrstu fasteign. Þá hefur átt sér stað algjör viðsnúningur í rekstri Íbúðalánasjóðs sem gerir hann reiðubúinn að takast á við öll þau verkefni sem honum hafa verið falin.
Mikill árangur er af Leiðréttingunni þar sem skuldir heimilanna eru nú með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndunum. Fyrsta fasteign er rökrétt framhald af Leiðréttingunni. Aðgerðin auðveldar fólki að eignast þak yfir höfuðið og hvetur til töku óverðtryggðra lána.
Fyrstu skrefin í afnámi verðtryggingar hafa verið stigin í samræmi við tillögur verðtryggingarnefndar og húsnæðisöryggi landsmanna aukið til framtíðar.
Risaskref í þágu lífeyrisþega
Kjördæmisþingið lýsir yfir ánægju með samþykkt nýrra laga um almannatryggingar þar sem lífeyrir var hækkaður verulega. Lífeyriskerfi aldraðra var einfaldað, sveigjanleiki aukinn, skerðing krónu á móti krónu afnumin og lágmarkslífeyrir til samræmis við lágmarkslaun á vinnumarkaði.
Mikilvægt er að heildarendurskoðuninni verði lokið á kjörtímabilinu í þágu allra lífeyrisþega.
Efling opinberrar þjónustu
Innviðir samfélagsins og opinber þjónusta urðu fyrir skakkaföllum í kjölfar hrunsins árið 2008. Nú, þegar tekist hefur að reisa við fjárhag ríkisins, þarf að leggja mikla áherslu á eflingu opinberrar þjónustu. Einkum á þetta við um heilbrigðisþjónustu, menntakerfið og löggæslu.
Kjördæmisþingið lýsir vilja til þess að nýr Landspítali verði byggður á Vífilsstöðum.
Samgöngumál
Vegakerfið hefur látið á sjá síðustu ár og kemur þar aðallega tvennt til, annars vegar afleiðingar hrunsins og hins vegar aukin umferð vegna mikils hagvaxtar og fjölgunar ferðamanna. Gera þarf átak til að bæta vegakerfið, enda eru slíkar umbætur mjög arðsamar.
Sérstaka áherslu þarf að leggja á samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, en vandræðaástand hefur skapast vegna vanrækslu sveitarstjórna þar, við skipulagningu og uppbyggingu samgönguæða. Segja má að sumar mikilvægustu samgönguæðar séu nánast ófærar klukkutímum saman á degi hverjum. Miklar umferðartafir valda ómældum kostnaði í þjóðfélaginu og gífurlegri mengun vegna bifreiða sem komast vart áfram og menga því margfalt meira en eðlilegt væri. Á þetta ekki síst við um Hringbraut og Miklubraut sem leiðir til efasemda um skynsemi þeirrar ákvörðunar að byggja nýjan Landspítala þar.
Kjördæmisþingið leggur mikla áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni og bendir í því sambandi á skyldur Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar við landsmenn, að hún segi sig ekki frá höfuðborgarhlutverkinu með því að þrengja að flugvellinum eða loka honum.
Umhverfismál
Leggja þarf kapp á aðgerðir til að uppfylla fyrirheit Íslands um aðgerðir í loftslagsmálum. Í því skyni þarf m.a. að flýta rafbílavæðingu og bæta dreifingu rafmagns um landið, bæði til að gera rafbíla nýtilega um allt land og einnig til að geta boðið skipum í höfn upp á rafmagn frá landi.

Categories
Fréttir

Eygló staðgengill forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi

Deila grein

02/11/2016

Eygló staðgengill forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi

eyglo_vef_500x500Eygló Harðardóttir,  félags- og húsnæðismálaráðherra, samstarfsráðherra Norðurlanda og staðgengill forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs, tók í gær og í dag þátt í störfum Norðurlandaráðsþings í Kaupmannahöfn.
Flutti ráðherra meðal annars ræðu um vinnu Íslands við framkvæmd Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og tók þátt í umræðum á þinginu.
Þá funduðu forsætisráðherrar Norðurlanda með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og fjölluðu m.a. um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og framkvæmd Norðurlanda.
Á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna var m.a. til umræðu umbylting í stafrænni tækni, umhverfis og loftslagsmál og þá sérstaklega umbreyting orkugjafa í samgöngum.
nordurlandaradsthingForsætisráðherrar Norðurlandanna funduðu einnig með leiðtogum Grænlands, Færeyja og Álandseyja. Fjallað var um formennskuáætlun  Noregs í samstarfi Norðurlandanna á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2017, stjórnsýsluhindranir, norrænt samstarf er varðar Evrópusambands- og alþjóðamál og sameiginlegar landkynningar Norðurlandanna.
Þá funduðu forsætisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna þar sem rætt var um samstarf þessara ríkja , umhverfis og loftslagsmál og öryggis- og varnarmál. Rætt var um eftirfylgni leiðtogafundar NATO, sem haldinn var í Varsjá sl. sumar, stöðu mála í Sýrlandi og Úkraínu og ákvörðun Bretlands um að segja sig úr Evrópusambandinu.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Bréf frá formanni

Deila grein

01/11/2016

Bréf frá formanni

sigurduringi_vef_500x500Kæru félagar!
Kosningar eru að baki, niðurstaðan liggur fyrir og er ekki sú sem stefnt var að. Á síðasta kjörtímabili náðist mikill árangur á flestum sviðum samfélagsins. Undir forystu Framsóknarflokksins voru stóru málin kláruð samanber Leiðréttinguna, uppgjörið við kröfuhafa sem gjörbreytti stöðu ríkissjóðs til hins betra ásamt öðrum þjóðþrifamálum. Öll okkar vinna hefur miðað að því að vinna framfara málum.
Baráttan var stutt og snörp og sem fyrr voru það þið, kæru vinir, sem báruð hitann og þungan af henni. Verkefni dagsins er sem fyrr að gera gagn fyrir land og þjóð. Það verður best gert með því að horfa fram á veginn og hafa að leiðarljósi samstöðu og samvinnu, eins og hefur einkennt flokkinn. Fortíð hans, samtíð og framtíð hefur ætíð byggst á þeim félagsauði sem í Framsóknarflokknum býr.
Þið eigið öll miklar og góðar þakkir skildar.
Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Fréttir

Framsókn næstu fjögur árin

Deila grein

16/10/2016

Framsókn næstu fjögur árin

baeklingur_frontStefnumál Framsóknarflokksins vegna kosninga til Alþingis í október 2016.
Framsóknarflokkurinn setti fram mjög ákveðnar hugmyndir fyrir síðustu kosningar til að bæta og efla íslenskt samfélag. Þær hugmyndir gengu eftir með aðstoð færustu sérfræðinga sem völ var á. Nú stöndum við aftur á tímamótum. Búið er að styrkja grunnstoðir atvinnulífs og heimila. Framtíðin er björt ef rétt verður á málum haldið. Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir róttækum aðgerðum til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Flokkurinn hyggst halda áfram á sömu leið og byggja á þeim árangri sem náðst hefur á kjörtímabilinu. Þar skiptir stöðugleiki og festa í ríkisfjármálum mestu máli.

Kosningastefnuskrá Framsóknar 2016.

Fyrir kosningarnar 2016 leggur Framsóknarflokkurinn m.a. áherslu á eftirfarandi mál:

  • Hagur millistéttarinnar verði bættur enn frekar; neðra skattþrep verði lækkað verulega og persónuafsláttur verður útgreiðanlegur
  • Peningastefnuna skal endurskoða, raunvextir á Íslandi þurfa að endurspegla breyttan efnahagslegan veruleika
  • Lágmarkslífeyrir aldraðra verði 300 þúsund krónur á mánuði og fylgi lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði
  • Byggður verður nýr Landspítali á nýjum stað og framlög til heilbrigðisstofnanna um allt land aukin
  • Tannlækningar aldraðra verða gjaldfrjálsar og hjúkrunarrýmum fjölgað um allt land
  • Taka skal upp komugjald á ferðamenn sem nýtt verður til innviða
  • Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund krónur, barnabætur hækkaðar og barnaföt verði án virðisaukaskatts
  • Hluta námslána verður breytt í styrk og sérstök áhersla lögð á að styrkja iðn- og verknám
  • Skoðað verði hvort beita megi skattaívilnunum til fyrirtækja og einstaklinga á efnahagslega veikum svæðum á landsbyggðinni
  • Unnið skal eftir sóknaráætlun í loftslagsmálum sem er að fullu fjármögnuð til næstu þriggja ára í samræmi við skuldbindingar Íslands í Parísarsamkomulaginu
  • Aðstoða ungt fólk með úrræðinu Fyrsta fasteign og öðrum aðgerðum í húsnæðismálum – leiguíbúðir og fjölgun námsmannaíbúða

Margt hefur breyst til batnaðar á kjörtímabilinu. Auk Leiðréttingarinnar og losunar hafta má nefna: 15.000 ný störf hafa orðið til, kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri, verðbólgu hefur verið haldið í skefjum, nýtt almannatryggingakerfi var innleitt, bótaskerðingar voru dregnar til baka, tímamótasamningur um loftslagsmál var undirritaður og greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi voru hækkaðar umtalsvert. Þetta er hluti þeirra mála sem Framsóknarflokkurinn stóð að á kjörtímabilinu. Framsóknarflokkurinn hefur staðið með fólkinu í landinu í hundrað ár og mun gera það áfram.
Framsóknarflokkurinn hyggst, eftir kosningar, starfa með öllum þeim flokkum sem láta sig félagshyggju og jöfnuð varða og tilbúnir eru til að varðveita nauðsynlegan stöðugleika í íslensku atvinnu- og efnahagslífi.

Categories
Fréttir

Arion taki hlutverk sitt til athugunar

Deila grein

14/10/2016

Arion taki hlutverk sitt til athugunar

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Hæstv. forseti. Svo háttar til á Íslandi um þessar mundir að meiri hlutinn af bankakerfinu er í eigu ríkisins. Þó sér þess ekki stað að bankarnir, viðskiptabankarnir, taki mjög alvarlega þjóðfélagslegt hlutverk sitt. Þeir hafast þó misjafnt að, einn þeirra er í því að gefa ríkiseignir óðar og eftir því er falast, en mig langar að tala um einn viðskiptabankann sem þó er ekki nema að litlu leyti í eigu ríkisins í dag en gæti mjög mögulega orðið það að öllu leyti innan skamms. Þar er ég að tala um Arion banka.
Eins og ég sagði áðan þá virðist það vera að þessir ágætu bankar treysti sér ekki einu sinni til að halda úti hraðbankastarfsemi víða út um land. Steininn tók þó úr núna þegar Arion banki fækkaði um 46 manns í vikunni og þar af um 19 á landsbyggðinni. Það má geta þess að til dæmis á Siglufirði, fæðingarbæ sitjandi forseta, eru sjö störf úti, sjö störf sem var lofað að yrðu til staðar eftir að þessi sami banki sölsaði undir sig sparisjóðinn á staðnum. Í öðru litlu útibúi, sem er útvörður bankans hér ekki fjarri Reykjavík, fóru stöðugildi úr því að vera þrír 100% starfsmenn í tvo 75% starfsmenn. Hvernig á að tryggja öryggi þess að hægt sé að halda úti bankaþjónustu með slíku? Á sama tíma og þetta gerist boðar þessi banki að taka eigi upp bónusgreiðslur til stjórnenda bankans. Og það vill reyndar þannig til að þessum banka er stjórnað af aðila sem hefur fengið á sig mestu og flestar stjórnvaldssektir vegna samkeppnisbrota á Íslandi. Ég held að þessi banki sem hér um ræðir, Arion banki, þurfi að taka hlutverk sitt aðeins til athugunar og áherslur sínar í rekstri.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 7. október 2016.

Categories
Fréttir

Húsnæðisbætur fyrir framhalsskólanemendur

Deila grein

14/10/2016

Húsnæðisbætur fyrir framhalsskólanemendur

elsa-lara-mynd01-vefur„Hæst. forseti. Ég vil byrja á að segja að það er mikilvægt að samningar um þinglok séu að takast. Það er mikilvægt upp á ásýnd þingsins og hv. þingmenn komist út í kjördæmin og eigi samtal við þjóðina. Hins vegar verðum við að horfa á verkefnin sem eftir eru og mikilvægi þess að þau verði kláruð. Þar má m.a. nefna frumvarp um almannatryggingar með breytingartillögum sem fela það í sér að lágmarksbætur verða hækkaðar í samræmi við lágmarkslaun. Auk þess verð ég að minnast á málið um breytingu á útreikningi vísitölu. Hér er um stórt hagsmunamál að ræða fyrir mörg heimili landsins.
En það var annað sem ég ætlaði að ræða í dag. Mig langar að vekja athygli á lögum um húsnæðisbætur, lög sem samþykkt voru hér á þingi í vor og eiga að taka gildi þann 1. janúar nk. Stór og mikilvægur þáttur þeirra laga er sá að nú verður sveitarfélögum skylt að veita húsnæðisbætur til þeirra foreldra eða forráðamanna sem eiga börn á aldrinum 15–17 ára, börn sem þurfa að sækja framhaldsnám út fyrir sína heimabyggð og búa á námsgörðum eða heimavist. Sá stuðningur skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forráðamanna og getur numið allt að 75% af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar. Um er að ræða breytingu sem gerð var á málinu í þinglegri meðferð. Mikill stuðningar var við þessa breytingu innan velferðarnefndar. Nefndarmönnum fannst mikilvægt að koma til móts við aukinn kostnað heimila sem þurfa að senda börn sín í framhaldsnám fjarri heimabyggð. Í umræðunni hefur ekki farið mikið fyrir þessum rétti foreldra og forráðamanna og því er tilvalið að nýta tækifærið hér að vekja athygli á þessum lögum.
Að lokum vil ég segja þetta: Ég vil þakka öllum hv. þingmönnum fyrir samstarfið á undanförnum árum. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími. Þeim hv. þingmönnum sem ákveðið hafa að snúa sér að öðrum störfum óska ég velgengni. Okkur hinum sem viljum halda áfram óska ég jafnframt velgengni og að við eigum málefnalega baráttu.“
Elsa Lára Arnardóttir 7. október 2016.

Categories
Fréttir

Almenn skoðun að vaxtastig þyki of hátt

Deila grein

14/10/2016

Almenn skoðun að vaxtastig þyki of hátt

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Það er ekki annað hægt en að nota tækifærið og taka þátt í störfunum hér fjórða sinnið í þessari viku. Í þessum ræðustól hef ég, eins og margir aðrir hv. þingmenn, oft rætt vexti og ég ætla að nota tækifærið undir þessum lið og gera það.
Við ræðum þessi mál gjarnan í tengslum við vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Ég held að það megi fullyrða að það sé almenn skoðun að vaxtastig þyki of hátt. Hér hefur ríkt stöðugleiki um langa hríð og verðbólga hefur lengi vel verið innan marka verðbólgumarkmiða Seðlabankans, en nú brá svo við að Seðlabankinn lækkaði vexti við þarsíðustu ákvörðun og töldu þá margir að peningastefnunefndin væri að hefja lækkunarferli. En nú síðast, fyrir tveim dögum, hélt peningastefnunefndin stýrivöxtum óbreyttum í 5,25%. Ástæðan er að staðan í efnahagsmálum frá því í ágúst er óbreytt og því er stýrivöxtum haldið óbreyttum.
Það er merkilegt ef viðbrögðin eru engin við stýrivaxtalækkun þar á undan. Þess vegna, og kannski einmitt þess vegna að viðbrögðin eru ekki aukin þensla, ætti að vera óhætt að halda þessu lækkunarferli áfram og á sama tíma er það mögulega vísbending um að vaxtastigið sé raunverulega of hátt sem og raunvextir við þessar aðstæður. Einhverjir vilja tengja þessa ákvörðun við skekkju í útreikningum Hagstofunnar, en það á auðvitað ekki að breyta væntingum og horfum, sem skipta auðvitað mestu máli við mat á því hvert framhaldið verður. Fram undan er stórt skref í losun hafta og fjárlagavinna í kjölfar kosninga. Þar mun reyna verulega á að skila ríkissjóði með afgangi fjórða árið í röð. Það mun skipta sköpum að fjármálastefnan styðji við peningamálastefnu, hemja þenslu og verja verðstöðugleika.
Aðeins með þeim hætti verður hægt að halda vaxtalækkunarferli áfram og þannig getum við lækkað útgjöld heimila og fyrirtækja. Það yrði raunveruleg kjarabót.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 7. október 2016.

Categories
Fréttir

Bréf frá formanni

Deila grein

13/10/2016

Bréf frá formanni

vef-sigurduringi_mg_500x500-1Ágætu framsóknarmenn!
Flokksþingi okkar er lokið, kosningabaráttan hafin. Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum, hverju og einu fyrir glæsilegt þing. Hundrað ára flokkur hefur burði til þess að skera úr málum með lýðræðislegum hætti. Það er merki um styrkleika, ekki veikleika. Ég heiti ykkur því að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að gegna hlutverki formanns eins vel og mér er unnt.
Samvinna og samtal hefur dugað okkur vel, enda flokkurinn meðal annars grundvallaður á þessu tvennu. Verkefni okkar núna er að taka höndum saman, mynda órofa heild með hagsmuni Framsóknarflokksins og þjóðarinnar í fyrirrúmi. Kjörtímabilið hefur verið viðburðarríkt. Mörg gríðarstór verkefni eru að baki og nauðsynlegt að halda áfram öllum til heilla. Við leystum þau stóru mál sem við sögðumst ætla að leysa. Hjól samfélagsins snúast á meiri og öruggari hraða vegna þess sem Framsóknarflokkurinn setti í öndvegi. Allir efnahagslegir mælikvarðar eru á leið í rétta átt. Við eigum að vera stolt af því hverju við höfum áorkað og óhrædd að takast á við ný verkefni. Það sem er liðið er liðið, við vinnum ekki sama leikinn tvisvar.
Jafnræði er öllum þjóðum félagsleg nauðsyn. Fyrir því eru augljós rök. Ekki  síst er þetta augljóst hér á landi þar sem samfélagið er fámennt, kunningsskapur, skyldleiki og önnur tengsl eru mikil meðal þjóðarinnar.  Hér eigum við að vera í fremstu röð hvað jöfnuð snertir. Eitt af þeim stóru málum sem við hyggjumst berjast fyrir, er að auka mátt millistéttarinnar. Það hyggjumst við meðal annars gera með því að lækka lægsta skattþrepið umtalsvert. Slík aðgerð gæti tekið til um 80% launamanna og myndi létta á skattgreiðslum stórs hóps, en þyngja að nokkru leyti byrðar þeirra sem hæstu launin hafa. Við ætlum ekki að fara í neinar kollsteypur heldur halda stefnu á þeirri farsælu leið sem við höfum verið á, allt kjörtímabilið.
Um leið og ég þakka ykkur enn og aftur fyrir það traust sem þið sýnduð mér á flokksþinginu, vil ég hvetja alla til að taka höndum saman og sýna úr hverju Framsóknarflokkurinn er gerður. Hundrað ár eru liðin, hundrað ár eru framundan.
Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi nýr formaður Framsóknar

Deila grein

07/10/2016

Sigurður Ingi nýr formaður Framsóknar

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, var kosinn formaður Framsóknarflokksins á 34. Flokksþingi Framsóknarmanna sem haldið var um helgina í Reykjavík. Sigurður Ingi hlaut 52,7% atkvæða en fráfarandi formaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlaut 46,8%.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra fékk 3 atkvæði í formannskjöri, en hún bauð sig fram til varaformanns og fékk 96% atkvæða. Jón Björn Hákonarson var kosinn ritari flokksins, en hann var einn í kjöri.
Þingið hófst á laugardaginn og lauk í gær. Það var afar vel sótt og ljóst að mannauður flokksins er mikill. Mikil vinna fór í að koma saman ályktunum fyrir komandi alþingiskosningar sem verða í lok mánaðar.

Ályktanir 34. Flokksþings Framsóknarmanna.

Sigurður Ingi sagði þegar hann sleit flokksþinginu að nú myndu Framsóknarmenn snúa bökum saman og ganga einbeittir til kosninga.

Ný forysta Framsóknar, Sigurður Ingi, Lilja Dögg og Jón Björn.