Categories
Fréttir

Sú þjóð sem ég þekki

Deila grein

30/04/2016

Sú þjóð sem ég þekki

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Í gær átti ég samtal við nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Tilefnið var stjórnmáladagar í skólanum. Mörg þeirra spurðu hvort ekki þyrfti að gera breytingar á húsnæðiskerfinu, það væri allt of dýrt að leigja. Það er rétt og ég gat þá upplýst þau um að Alþingi væri nú langt komið með húsnæðisfrumvörpin en markmið þeirra er að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegu verði.
Mörgum þeirra varð tíðrætt um neikvæða umræðu á samfélagsmiðlum og spurðu svo: Gengur ekki bara allt vel? Af hverju er svona margir reiðir?
Þetta voru einlægar spurningar. Okkur Íslendingum gengur nefnilega ansi vel. Okkur hefur tekist að greiða niður skuldir ríkissjóðs og staða sjóðsins er nú betri en nokkru sinni fyrr. Skuldaleiðréttingin og áætlun um afnám hafta hefur haft mjög jákvæð áhrif á þjóðarbúið. Fyrir fáum dögum fengum við þær fréttir að ríkissjóður skilaði óvæntum afgangi upp á rúma 70 milljarða kr. 70 milljarðar eru ansi miklir peningar og ég hefði viljað sjá meiri umfjöllun um hvaða þýðingu það hefur fyrir samfélagið.
Þrátt fyrir góðan árangur ríkisstjórnarinnar tæmist verkefnalistinn aldrei. Við þurfum að halda áfram að styrkja heilbrigðiskerfið. Við höfum reyndar bætt verulega í á síðustu þremur árum, en betur má ef duga skal. Við þurfum einnig að gefa verulega í hvað varðar samgöngumálin en samkvæmt fyrirliggjandi samgönguáætlun er stefna ríkisstjórnarinnar að bæta við nokkrum milljörðum árlega í þau verkefni þannig að við erum á réttri leið.
Ríkisstjórnin stendur sig vel. Árangurinn er mælanlegur og hann er góður. Stjórnarandstaðan heldur samt áfram að kalla eftir þingrofi og kosningum í nafni þjóðarinnar. Sú þjóð sem ég þekki vill ekki kosningar og þingrof og það vill heldur ekki meiri hluti Alþingis. Það liggur fyrir.
Hæstv. forseti. Það er eitthvað verulega skakkt við umræðuna.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 29. apríl 2016.

 

Categories
Fréttir

Fordæmalaust ástand

Deila grein

30/04/2016

Fordæmalaust ástand

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Hér hefur mönnum verið tíðrætt um fordæmalaust ástand í þjóðfélaginu og það er réttmætt því að hér hefur náðst árangur sem ekki eru fordæmi fyrir.
Í upphafi kjörtímabils var um 30 milljarða kr. halli á ríkissjóði. Þar hefur orðið algjör viðsnúningur og viðvarandi afgangur verið á rekstri ríkisins. Með öflugri efnahagsstjórn hefur verðbólga haldist undir 2,5% í tvö ár. Það er árangur sem horfa má til og skiptir landsmenn svo sannarlega máli því hér hefur kaupmáttur aukist meira og hraðar en dæmi eru um áður í sögunni. Raunin er sú að hér hefur orðið kaupmáttaraukning allt að 30% á þremur árum meðan til tíðinda telst í öðrum löndum þegar talað er um árlegar kauphækkanir upp á 2%.
Hæstv. forseti. Ég hef fundið það í samtölum mínum við fólk í landinu að landsmenn finna sannarlega fyrir bættum hag og kunna að meta þann stöðugleika sem hér hefur ríkt. Þá vil ég benda á að svo farsællega hefur tekist að leysa úr eftirstöðvum efnahagshrunsins og áhrifum slitabúa föllnu bankanna að erlend staða þjóðarbúsins er nú betri en hún hefur verið í hálfa öld.
Stefna og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart slitabúum og kröfuhöfum til afnáms hafta hefur skilað svo miklum árangri að furðu sætir erlendis, svo miklum að helsti sérfræðingur heims á sviði skuldaaðlögunar ríkja, Lee Buchheit, segir að árangurinn sé einstakur í fjármálasögu heimsins. Hér er atvinnuleysi með því minnsta sem mælist og skuldastaða heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er orðin ein sú besta á Norðurlöndum í kjölfar aðgerða ríkisstjórnarinnar síðastliðin þrjú ár. Hér munar heimilin heldur betur um þá vel heppnuðu efnahagsaðgerð sem skuldaleiðréttingin var.
Það má með sanni segja að hér sé um fordæmalaust ástand að ræða því að á undraskömmum tíma hefur tekist að byggja traustan grunn að þeirri miklu innviðauppbyggingu sem þarf að halda áfram.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 29. apríl 2016.

 

Categories
Fréttir

Sjálfsprottnir klasar

Deila grein

30/04/2016

Sjálfsprottnir klasar

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að vekja athygli á alþjóðlegri ráðstefnu sem var nú í vikunni í Hörpu. Annars vegar var um að ræða alþjóðlega ráðstefnu um nýtingu jarðvarma og samhliða ráðstefnu um SPI-vísitöluna sem er skammstöfun fyrir, með leyfi forseta, Social Progress Index sem er mat á félagslegum innviðum og mælikvarði á samfélagslegar framfarir. Auðvitað gefst ekki tími núna til að fara mjög náið í þá vísitölu, ég geri það mögulega síðar. Á ráðstefnuna komu gestir frá öllum heimshornum, um 40 þjóðlöndum og auðvitað með þátttöku okkar helstu aðila á þessu sviði. Þetta er þriðja ráðstefnan sem haldin er á sviði jarðvarma hér, sú fyrsta var 2010, og er merki um hversu framarlega við erum á þessu sviði með fjölþætta nýtingu jarðvarma, en ekki síður er þetta merki um vel heppnað klasasamstarf á þessu sviði.
Þetta var hugmynd Michaels Porters, prófessors við Harvard-háskólann, þegar hann heimsótti Ísland 2009. Góðir hlutir gerast þegar vísindamenn og fræðimenn, fulltrúar stjórnvalda, stjórnsýslu og viðskiptalífs koma saman. En ég verð að segja að það sem vantar til að fylgja þessu frábæra starfi sjálfsprottinna klasa eftir er opinber stefna. Dæmi um vel heppnaða sjálfsprottna klasa eru íslenski jarðvarmaklasinn, sjávarklasinn og ferðaklasinn er kominn af stað. Ég hvet stjórnvöld og atvinnu- og nýsköpunarráðherra til dáða á þessu sviði.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 29. apríl 2016.

Categories
Fréttir

Mannréttindi alþjóðleg og altæk

Deila grein

28/04/2016

Mannréttindi alþjóðleg og altæk

Lilja Dögg Alfreðsdóttir03Mikilvægi virðingar fyrir mannréttindum og þáttur þeirra í utanríkisstefnu Íslands var umfjöllunarefni Lilju Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra, á alþjóðlegum hringborðsumræðum um mannréttindamál, sem haldin er í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Á fjórða tug fræðimanna, dómara, embættismanna og stjórnmálamanna, hvaðanæva að úr heiminum, taka þátt í umræðunum, sem haldnar eru hér á landi að frumkvæði Ögmundar Jónassonar, alþingismanns og Institute for Cultural Diplomacy.
„Mannréttindabrot eru ein meginástæða átaka og stríðs í heiminum og baráttunni fyrir mannréttindum er hvergi nærri lokið“, sagði Lilja í ávarpi sínu og lagði í því sambandi áherslu á að ekki mætti slaka á gagnvart kröfum öfgaafla um að skerða mannréttindi einstakra hópa.
Baráttan fyrir mannréttindum hefur verið einn hornsteina íslenskrar utanríkisstefnu um langt skeið. Hennar sér ekki síst stað í áherslu Íslands á kynjajafnrétti og þess að alþjóðaskuldbindingar á þessu sviði séu virtar, þar með talið alþjóðasamningurinn um afnám allrar mismununar gegn konum. „Ég tel að einn þáttur í jafnréttisbaráttunni sé að fá karla til að taka virkari þátt í henni. Ég vil halda áfram því góða starfi sem forveri minn vann í þeim efnum, m.a. með því að halda fleiri Rakarastofuráðstefnur,“ sagði Lilja.
Uttanríkisráðherra minntist einnig á reglubundna skoðun Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna en mannréttindaástandið á Íslandi verður tekið fyrir af ráðinu í nóvember. „Okkur er hollt að ræða stöðuna og að fá utanaðkomandi augu til að meta hana. Ef þetta kerfi á að virka og veita aðhald verða öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að taka þátt í því á jafningjagrundvelli og í góðri trú.  Ekkert ríki getur haldið því fram að mannréttindamál séu innanríkismál.  Mannréttindi eru alþjóðleg og altæk.“
Ávarp utanríkisráðherra á hringborðsumræðunum

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Gunnar Bragi ræddi málefni landbúnaðar og sjávarútvegs við framkvæmdastjóra Evrópusambandsins

Deila grein

28/04/2016

Gunnar Bragi ræddi málefni landbúnaðar og sjávarútvegs við framkvæmdastjóra Evrópusambandsins

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraGunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra átti í dag fundi með þeim Phil Hogan, framkvæmdastjóra landbúnaðarmála og Karmenu Vella, framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu.

 Á fundinum með Hogan voru ræddar reglur Evrópusambandsins sem varða lífrænan landbúnað en þær leyfa ekki notkun fiskimjöls sem fóðurgjafa. Einnig ræddu þeir nýgerðan samning milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

Gunnar Bragi og Karmenu Vella ræddu stöðuna í viðræðum strandríkja við NA Atlantshaf um skiptingu deilistofna. Báðir lýstu þeir yfir vilja til að starfa náið saman að lausn þeirra mála. Málefni bláa hagkerfisins, sem er hvers konar efnahags starfsemi á haf- og strandsvæðum (blue economy), voru rædd. Þar sagði Vella að Íslendingar væru Evrópusambandinu góð fyrirmynd. Þeir ræddu einnig málefni hafsins (ocean governance) og málefni norðurslóða. Báðir voru þeir sammála um að nýting auðlinda yrði að byggja á bestu vísindarökum þannig að sjálfbærni væri sem best tryggð. Gunnar Bragi lýsti þeirri sýn Íslands hvernig ábyrgð og ákvarðanir um nýtingu náttútuauðlinda á sjálfbæran hátt væri best fyrirkomið á staðbundinn og svæðisbundinn hátt en yfirþjóðleg þegar því sleppti.

Að endingu ræddu þeir Gunnar Bragi og Vella tvíhliða samkomulag Íslands og Evrópusambandsins um fiskveiðimálefni frá árinu 1992. Samkomulagið var gert í tengslum við gerð EES samkomulagsins en hefur verið óvirkt um nokkurra ára skeið. Þeir urðu ásáttir um að skoða leiðir til að endurvekja og endurnýja samkomulagið. Verður embættismönnum beggja aðila falið að funda á næstunni vegna þessa.

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is/sjavarutvegs-og-landbunadarmal

Categories
Fréttir

Forsætisráðherra með lokaávarp á ráðstefnu um samkeppnishæfni

Deila grein

28/04/2016

Forsætisráðherra með lokaávarp á ráðstefnu um samkeppnishæfni

SIJSigurður Ingi Jóhannsson,forsætisráðherra, flutti lokaávarp á ráðstefnunni ,,Social Progress – What Works“ sem haldin var í Hörpu fyrr í dag.
Forsætisráðherra benti á það í ræðu sinni að það ætti ekki að koma neinum á óvart að Ísland væri á meðal fremstu þjóða þegar stuðst væri við mælikvarða sem mæla gæði samfélagsins almennt. Hann benti einnig á að eigi að síður þyrftu Íslendingar stöðugt að svara nýjum og áleitnum spurningum um styrk samfélagslegra innviða á Íslandi. Þrátt fyrri kosti sjálfstæðis og sérstöðu sé Íslendingum hollt að líta út fyrir landsteinana, bera sig saman við aðrar þjóðir og læra af þeim, líkt og þær geti vonandi lært af Íslendingum.
„Það er von mín að þetta geti orðið árlegur viðburður hér á landi sem endurvarpar á áhugaverðan hátt framtíðarsýn og stefnumótun samfélaga og geti um leið orðið  til að vekja athygli á okkar góða árangri hér á landi,“ sagði ráðherra í ræðu sinni en Ísland er nú í 4. sæti samkvæmt mælingu Social Progress Index.
Ræðan var flutt á ensku og hana má lesa hér á vefnum.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Aukið mikilvægi jarðhita í orkubúskap heimsins

Deila grein

28/04/2016

Aukið mikilvægi jarðhita í orkubúskap heimsins

LiljaAlfreðsdóttir-utanríkisráðuneytiAukið mikilvægi jarðhita í orkubúskap heimsins og framlag Íslands til sjálfbærrar orkunýtingar var meðal þess sem Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, gerði að umtalsefni í opnunarerindi sínu á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu, Iceland Geothermal Conference, sem fram fer hér á landi dagana 27.-29. apríl.
Í máli sínu gerði ráðherra jafnframt grein fyrir samstarfi Íslands við alþjóðastofnanir á sviði jarðhita, meðal annars í þróunarríkjum í Afríku, og lagði áherslu á þýðingu endurnýjanlegrar orku í loftslagsmálum og framfylgd heimsmarkmiðanna.„Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu horft er til Íslands þegar kemur nýtingu og aðgengi að jarðhita. Hér höfum við mikilsverða þekkingu fram að færa sem sífellt fleiri horfa til,” segir Lilja en rúmlega 700 manns sækja ráðstefnuna sem fram fer í Hörpu.
Í tengslum við ráðstefnuna fundaði utanríkisráðherra með Rachel Kyte, sérstökum fulltrúa aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóri átaksins „Endurnýjanlega orku fyrir alla“, sem hefur það markmið að tvölda hlut endurnýjanlegra orkugjafa og orkunýtingu fyrir árið 2030. Á fundi sínum lagði ráðherra áherslu á möguleika á nýtingu jarðhita víða um heim, orkuöryggi og hét átakinu áframhaldandi og aukinn stuðning Íslands.
Þá átti utanríkisráðherra sömuleiðis fund með Adnan Amin, forstjóra IRENA, alþjóðlegrar stofununar um endurnýjanlega orkugjafa. Voru orkumál rædd og kom fram að stuðningur Íslands við stofnunina væri vel metinn.
Ávarp utanríkisráðherra

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Yfirlýsing frá Hrólfi Ölvissyni

Deila grein

27/04/2016

Yfirlýsing frá Hrólfi Ölvissyni

HÖ/-
Reykjavík 27/4 2016
 
Yfirlýsing frá Hrólfi Ölvissyni.
Ég hef ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins frá og með deginum í dag.  Þetta hef ég tilkynnt framkvæmdastjórn flokksins og öðrum sem fara með trúnaðarstörf fyrir hann.
Þessa ákvörðun tek ég í ljósi þess hversu einsleit og óvægin umræðan er.  Þetta er persónuleg ákvörðun mín og á engan hátt viðurkenning á því að ég hafi brotið lög eða starfað með óheiðarlegum hætti.
Spurningum blaðamanna um mjög tímabundna aðkomu mína að tveimur aflandsfélögum tel ég mig hafa svarað fullnægjandi.
Því hefur ranglega verið haldið fram að ég hafi keypt hlutafé í BM Vallá með tortryggilegum hætti.  Arion banki bauð BM Vallá til sölu í opnu söluferli sem félag mitt ásamt öðrum fjárfestum tók þátt í.  Að bendla þau kaup við aflandsfélög er alfarið rangt.
Ég dreg mig í hlé til að koma í veg fyrir að rýrð verði kastað á Framsóknarflokkinn og þau góðu störf sem hann hefur unnið að í tíð þessarar ríkisstjórnar.  Ég er ekki kjörinn fulltrúi en tel þetta engu að síður rétta ákvörðun.
Við þessi tímamót vil ég nota tækifærið og þakka öllum gott og ánægjulegt samstarf þann tíma sem ég hef gegnt störfum framkvæmdastjóra fyrir flokkinn.
 
Hrólfur Ölvisson

Categories
Fréttir

Starfshópur fjalli um ákvörðun ESA varðandi ríkisaðstoð við orkufyrirtæki

Deila grein

27/04/2016

Starfshópur fjalli um ákvörðun ESA varðandi ríkisaðstoð við orkufyrirtæki

SIJÁ ríkisstjórnarfundi í morgun var ákveðið að setja á fót starfshóp fjögurra ráðuneyta undir forystu forsætisráðuneytisins til að undirbúa viðbrögð við nýlegri ákvörðun Eftirlitsstofnunar Efta (ESA) er varðar nýtingu náttúruauðlinda í þágu rafmagnsframleiðslu.
Með ákvörðun dags. 20. apríl sl. beindi ESA þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að gerðar verði breytingar á lagaumhverfi sem varðar samninga við orkufyrirtæki um nýtingu náttúruauðlinda í opinberri eigu til rafmagnsframleiðslu. Með þeim breytingum verði betur tryggt að markaðsverð sé greitt fyrir slíka nýtingu og jafnframt skýrar kveðið á um hvaða verklag skuli viðhaft við ákvörðun markaðsverðs. Að mati ESA eru úrbætur nauðsynlegar til þess að ekki verði litið svo á að hér sé um ólögmæta ríkisaðstoð og röskun á samkeppni á raforkumarkaði að ræða.
Loks mælist ESA til þess að áður gerðir samningar við orkufyrirtæki um nýtingu verði teknir til skoðunar m.t.t. þess hvort þeir endurspegli markaðsverð og þeir endurskoðaðir ef svo er ekki, að því er varðar eftirstöðvar slíkra samninga.
Samkvæmt tilmælunum skulu allar framangreindar ráðstafanir hafa átt sér stað eigi síðar en 1. janúar 2017. Stjórnvöld hafa einn mánuð til að fallast skilyrðislaust á tilmælin, en hætta ella á að ESA opni svokallaða formlega rannsókn vegna málsins.
Verklag við ákvörðun verðs vegna nýtingar náttúruauðlinda, m.a. vegna raforkuframleiðslu, hefur verið að mótast á undanförnum árum hjá þeim ráðuneytum sem hafa með þjóðlendur og aðrar ríkiseignir að gera – forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Það verklag endurspeglar meðal annars meginreglur stjórnsýsluréttar um jafnræði og hagkvæmni við ráðstöfun takmarkaðra gæða.
Breytingar á lagaumhverfi sem ESA leggur til myndu festa í sessi þær meginreglur og þá aðferðafræði sem verið hefur að mótast og gætu tryggt enn betur að verð sem orkufyrirtæki greiða fyrir aðgang að auðlindum í opinberri eigu sé ákveðið á markaðsforsendum. Í starfshópnum verða fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Starfshópurinn mun á næstu vikum taka til skoðunar hvort rétt sé að fallast á tilmæli ESA og undirbúa viðbrögð að öðru leyti.  Óskað verður eftir viðræðum við orkufyrirtæki vegna áður gerðra samninga. Samráð verður haft við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því sem tilefni er til.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Fyrirkomulag strandveiða 2016

Deila grein

26/04/2016

Fyrirkomulag strandveiða 2016

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraAukning verður á veiðiheimildum á svæðum A og B fyrir strandveiðibáta á strandveiðitímabilinu sem hefst 2. maí og stendur til 31. ágúst 2016. Önnur ákvæði um veiðisvæði, veiðidaga, hámarksafla á dag og fjölda handfærarúlla verða óbreytt frá fyrri árum.

Við úthlutun aflaheimilda er byggt á svæðaskiptingu; svæði A) nær frá A. Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps, svæði B) nær frá Strandabyggð til Grýtubakkahrepps, svæði C) nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps og svæði D) nær frá Hornafirði til Borgarbyggðar.

Strandveiðar hófust fyrst í júní 2009 og var heildarmagnið þá 4.000 tonn. Á komandi vertíð verður leyfilegur heildarafli 9.000 tonn og er það aukning um 400 tonn frá fyrra ári. Reikna má með að útgefin veiðileyfi verði rúmlega 700.

Svæði D sker sig töluvert úr hvað varðar meðalveiði á bát, en þar er veiði að jafnaði mun lakari en á hinum svæðunum.  Síðustu tvö ár voru um 100-200 tonn óveidd á svæði D. Núverandi veiðidagar á svæðum gera ráð fyrir um 30 – 60 dögum í veiði. Fæstir veiðidagar eru á svæði A en flestir á svæði D.

Til þess að ná meiri jöfnuði í meðalveiði á bát á komandi vertíð fyrir svæði A, B og C mun aukningin fara á svæði A og að auki 150 tonn frá svæði D. Þá verða 50 tonn flutt af svæði D yfir á svæði B.


Svæði
Meðal- dagafjöldi á bát
2014/2015
Meðalafli í kg. á bát á dag 2014/2015 Meðalveiði alls tonn  á bát 2014/2015 Fjöldi báta á svæði 2014/2015 Líkleg meðalveiði í tonnum á bát 2016 m.v. reglugerð  Breyting í tonnum á svæði 2016
 
A 32 394 12,6 233 15,1 + 550
B 50 305 15,3 141 15,7  + 50
C 56 282 15,8 147 15,8  0
D 66 171 11,3 120 11,3 – 200

Úthlutun 2016:
 

Botnfiskur Maí Júní Júlí Ágúst
Svæði A 852 1.023 1.023 512
Svæði B 521 626 626 313
Svæði C 551 661 661 331
Svæði D 520 455 195 130

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is