Categories
Greinar

Lýðskólar á Íslandi

Deila grein

15/04/2019

Lýðskólar á Íslandi

Á dögunum mælti ég fyrir frumvarpi sem festa mun í sessi faglega umgjörð um starfsemi lýðskóla. Til þessa hefur ekki verið nein löggjöf í gildi um slíka skóla en markmiðið með nýja frumvarpinu er að renna stoðum undir starfsemi þeirra.

Fjölbreytni er menntakerfinu mikilvæg, nemendur hafa ólíkar þarfir og þeir þurfa að hafa val um sitt nám. Meðal ástæðna brotthvarfs úr framhaldsskólunum okkar er ákveðin einsleitni í námsvali og það að nemendur finna sig ekki í námi. Það er vel að fjölbreytni námsframboðs hér á landi hefur aukist, ekki síst á framhaldsskólastiginu, og að fleiri nemendur séu opnir fyrir námskostum t.d. á sviði verk- og tæknigreina.

Lýðskólar vinna með lykilhæfni skólastarfs, líkt og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla, svo sem námshæfni, skapandi hugsun, sjálfbærni og lýðræðisleg vinnubrögð en meðal markmiða þeirra samkvæmt frumvarpinu verður að mæta áhuga og hæfileikum nemenda sem vilja átta sig betur á möguleikum sínum og stefnu í lífi og starfi. Í dag starfa LungA-skólinn og Lýðháskólinn á Flateyri eftir hugmyndafræði lýðskóla og á forsvarsfólk þeirra lof skilið fyrir frjótt og gott starf. Skólarnir hafa gætt nærsamfélög sín auknu lífi og gefið nemendum úr ýmsum áttum tækifæri til að dvelja þar.

Í frumvarpinu er kveðið á um hvaða skilyrði fræðsluaðilar þurfa að uppfylla til að fá viðurkenningu til að starfa undir heitinu lýðskóli. Þar eru meðal annars sett fram skilyrði um stjórnskipan lýðskóla, lágmarksstarfstíma og lágmarksfjölda nemenda. Einnig eru ákvæði um forvarnir og réttindi nemenda, aðbúnað og öryggi, hæfni starfsfólks og fyrirkomulag náms. Þá er mælst til þess að nám í lýðskólum nýtist nemendum til frekari verkefna eða til áframhaldandi náms, m.a. með aðferðum raunfærnimats, sem er þekkt aðferðafræði á vettvangi framhaldsskóla og framhaldsfræðslu.

Á þessum tímamótum verður mér hugsað hlýlega til Jónasar Jónssonar frá Hriflu, fyrrum menntamálaráðherra. Hann var talsmaður þess að hér á landi væri öflugt og fjölbreytt menntakerfi, þar sem meðal annars væri lögð áhersla á ræktun mannsandans og að nemendur gætu öðlast aukið sjálfstraust. Nýtt frumvarp um lýðskóla skapar svo sannarlega umgjörð utan um fjölbreyttari valkosti í íslensku menntakerfi og eykur líkurnar á að nemendur finni nám við hæfi.

Ég er virkilega ánægð með þær jákvæðu viðtökur sem frumvarpið hefur fengið á Alþingi og þann meðbyr sem ég finn með menntamálum í okkar samfélagi nú um stundir.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. apríl 2019.

Categories
Greinar

Samningar og samvinna

Deila grein

11/04/2019

Samningar og samvinna

Stór skref voru stigin við undirskrift lífskjarasamninga í vikunni sem aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um með stuðningi stjórnvalda. Þetta er liður í breiðri sátt til áframhaldandi lífskjara til rúmlega þriggja ára. Þessi samningur er ný nálgun á þeirri staðreynd að lífkjör á vinnumarkaði kemur við alla þjóðina og því verða stjórnvöld að vera í sama takti svo vel takist. Aðkoma stjórnvalda að lífskjarasamningi felur í sér fjölmargar leiðir sem slær taktinn með aðildarfélögum vinnumarkarins til að viðhalda stöðuleika.


Fjölskyldan í fyrirrúmi

Framsóknarmenn hafa lengi barist fyrir lengingu fæðingaorlofs og loks sjáum við hilla undir þessu markmiði. Fæðingarorlof lengist úr níu mánuðum í tíu mánuði í byrjun árs 2020 og í byrjun árs 2021 verður fæðingarorlof 12 mánuðir. Áfram verður horft til þess að hvort foreldri fyrir sig eigi sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs en hluti orlofsins verði til skiptanna. Foreldar lenda í tómarúmi milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar og hefur það bæði skapað óvissu og tekjutap fyrir foreldra. Þarna er líka verið að svara ákalli sveitarfélaga sem hafa haft góðan vilja en stundum ekki getu til að brúa þetta bil. Á næsta ári eiga skerðingamörk barnabóta að hækka í 325 þúsund og eru þetta hvorutveggja ákvarðanir sem koma til með að nýtast fjölskyldufólki um allt land.


Húsnæðisliður út úr verðtryggingu

Framsóknarflokkurinn hefur haft það á stefnuskrá sinni að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölunni. Að því skal stefna í þeirri sátt sem undir var ritað. Þetta er í samræmi við niðurstöðu starfshóps um  peningastefnu landsins þar sem segir að húsnæðisverð eigi ekki heima í verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Þetta ýtir undir stöðuleika á húsnæðismarkaði. Auk þess er komið inn á 13 úrræði í húsnæðismálum  til stuðnings húsnæðisúrræða bæði fyrir kaupendur og leigjendur með sérstakri áherslu á fyrstu kaup. Úrræðið nær einnig til þeirra sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár.

Sú sátt sem ritað var undir bar merki um vor á vinnumarkaði eftir kvíðvænlegan vetur sem einkenndist af óvissu og svartsýni. En það er öflugri forystusveit félaga á vinnumarkaði og framsýnni ríkisstjórn að þakka að vorið er komið víst á ný.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Categories
Greinar

Áframhaldandi lífskjarasókn

Deila grein

05/04/2019

Áframhaldandi lífskjarasókn

Nýr lífs­kjara­samn­ing­ur 2019-2022, sem aðilar vinnu­markaðar­ins hafa náð sam­an um og stjórn­völd styðja við, bygg­ir und­ir áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn á Íslandi. Samn­ing­ur­inn er í senn fram­sýnn og ánægju­leg afurð þrot­lausr­ar vinnu aðila vinnu­markaðar­ins í sam­vinnu við stjórn­völd und­an­farna mánuði. Aðgerðirn­ar eru viðamikl­ar og snerta marg­ar hliðar þjóðlífs­ins sem miða all­ar að því sama; að auka lífs­kjör og lífs­gæði á Íslandi. Þær leggj­ast ofan á þá kraft­miklu innviðafjár­fest­ingu sem hef­ur átt sér stað í tíð þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar í mennta- og menn­ing­ar­mál­um, fé­lags- og heil­brigðismál­um, sam­göngu- og um­hverf­is­mál­um og ný­sköp­un­ar- og vís­inda­mál­um.

Áhersla á ungt fólk og börn

Með aðgerðunum mun staða ungs fólks styrkj­ast. Á gild­is­tíma samn­ings­ins verða barna­bæt­ur hækkaðar og fæðing­ar­or­lof lengt úr níu mánuðum í tólf. Ungu fólki verður auðveldað að fjár­festa í fyrstu fast­eign með því að heim­ila notk­un á hluta skyldu­líf­eyr­is­sparnaðar til slíkra kaupa. Það kem­ur til viðbót­ar sér­eigna­sparnaðarleiðinni Fyrsta íbúð sem heim­il­ar fólki að nýta viðbót­ar­sparnað sinn í allt að 10 ár til kaupa og af­borg­ana. Ég vil einnig geta þess að vinna við heild­ar­end­ur­skoðun á Lána­sjóði ís­lenskra náms­manna geng­ur mjög vel en í nýju náms­styrkja- og lána­kerfi mun­um við fella niður 30% af höfuðstóli náms­manna að ákveðnum skil­yrðum full­nægðum auk þess að fram­færsla barna verður í formi styrkja í stað lána eins og er í dag. Að auki höf­um við hækkað frí­tekju­mark náms­manna um 43%.

Hærri laun og lægri skatt­ar

Til viðbót­ar við þær launa­hækk­an­ir sem hafa verið kynnt­ar í lífs­kjara­samn­ingn­um mun ríkið lækka skatta um 20 millj­arða og gefa þannig eft­ir um 10% af tekju­skatti ein­stak­linga. Tekju­skatt­ur alls launa­fólks mun lækka en sér­stök áhersla er lögð á tekju­lága hópa með nýju lág­tekju­skattsþrepi. Sú aðgerð mun auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur lág­tekju­hópa og auka jöfnuð. Þá munu gjald­skrár rík­is­ins ekki hækka á ár­inu 2019 um­fram það sem þegar er komið til fram­kvæmda og á ár­inu 2020 verður 2,5% há­mark sett á gjald­skrár­hækk­an­ir.

Betri lífs­kjör á Íslandi

Það er ljóst að lífs­kjara­samn­ing­ur­inn og aðgerðir tengd­ar hon­um munu skila okk­ur aukn­um lífs­gæðum. Mark­viss skref til af­náms verðtrygg­ing­ar verða tek­in, sveigj­an­leiki auk­inn á vinnu­stöðum, íbúðakaup gerð auðveld­ari, tekju­skatt­ur lækkaður, laun hækkuð, barna­bæt­ur aukn­ar og fæðing­ar­or­lof lengt. Árang­ur sem þessi er ekki sjálf­gef­inn. Hann er afrakst­ur sam­vinnu fjölda aðila sem all­ir hafa sama mark­mið að leiðarljósi, að gera gott land enn betra.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. apríl 2019.

Categories
Greinar

Menntun eflir viðnámsþrótt

Deila grein

02/04/2019

Menntun eflir viðnámsþrótt

Íslenska þjóðarbúið stend­ur frammi fyr­ir áskor­un­um um þess­ar mund­ir í tengsl­um við stöðu efna­hags­mála. Engu að síður er staða rík­is­sjóðs sterk og viðnámsþrótt­ur þjóðarbús­ins meiri en oft áður. Mik­il­vægt er því að halda áfram upp­bygg­ingu ís­lenska mennta­kerf­is­ins. Fimm ára fjár­mála­áætl­un 2020-2024 ber þess merki að við ætl­um að halda áfram að sækja fram af krafti og efla mennt­un á öll­um skóla­stig­um. Það á einnig við um vís­indi, menn­ingu og fjöl­miðla í land­inu. Á menn­ing­ar­sviðinu er horft til þess að all­ir lands­menn, óháð efna­hag og bú­setu, geti aukið lífs­gæði sín með því að njóta og taka þátt í öfl­ugu og fjöl­breyttu menn­ing­ar, lista-, íþrótta- og æsku­lýðsstarfi.

Fram­lög til há­skóla yfir 40 millj­arða kr.

Und­an­far­in ár hafa fram­lög til há­skóla­stigs­ins verið auk­in tölu­vert en frá ár­inu 2017 hafa fram­lög­in auk­ist um tæpa 5,3 millj­arða kr. eða tæp 13%. Sam­kvæmt fjár­mála­áætl­un verður haldið áfram að fjár­festa í há­skóla­starfi í land­inu og er ráðgert að fram­lög til há­skól­anna fari yfir 40 millj­arða kr. árið 2023. Við ætl­um að auka gæði náms og náms­um­hverf­is í ís­lensk­um há­skól­um, styrkja um­gjörð rann­sókn­ar­starfs og auka áhrif og tengsl há­skóla og rann­sókn­ar­stofn­ana við at­vinnu­lífið. Fjár­fest­ing í há­skól­un­um er lyk­ilþátt­ur í að auka sam­keppn­is­hæfni Íslands til framtíðar og til að við get­um sem best tek­ist á við þær sam­fé­lags­legu áskor­an­ir sem örar tækni­breyt­ing­ar hafa á heim­inn.

Kenn­ara­starfið er mik­il­væg­ast

Stærsta áskor­un ís­lensks mennta­kerf­is er yf­ir­vof­andi kenn­ara­skort­ur. Það er ein­dreg­in skoðun mín að kenn­ara­starfið sé mik­il­væg­asta starf sam­fé­lags­ins þar sem það legg­ur grunn­inn að öll­um öðrum störf­um. Í fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar er að finna full­fjár­magnaðar aðgerðir til þess að fjölga kenn­ur­um. Gott mennta­kerfi verður ekki til án góðra kenn­ara. Kenn­ar­ar eru und­ir­staða mennta­kerf­is­ins og drif­kraft­ar já­kvæðra breyt­inga í skóla­starfi. Ég er sann­færð um að okk­ur tak­ist að snúa vörn í sókn með þess­um aðgerðum og fleir­um til og fjölga þannig kenn­ur­um í ís­lensku mennta­kerfi til framtíðar.

Nýtt náms­styrkja­kerfi

Vinna við heild­ar­end­ur­skoðun náms­lána­kerf­is­ins geng­ur vel og hef ég boðað að frum­varp um end­ur­skoðun á Lána­sjóði ís­lenskra náms­manna verði lagt fram í haust. Mark­miðið með nýju kerfi er aukið jafn­rétti til náms og skil­virkni, jafn­ari styrk­ir til náms­manna, betri nýt­ing op­in­bers fjár og auk­inn stuðning­ur við fjöl­skyldu­fólk. Tals­verð breyt­ing hef­ur orðið á stöðu Lána­sjóðsins und­an­far­in ár sem end­ur­spegl­ast fyrst og fremst í fækk­un lánþega hjá sjóðum. Skóla­árið 2009-10 voru lánþegar hjá sjóðnum um 14.600 en skóla­árið 2017-18 voru þeir um 7.000. Það er fækk­un um 52%. Sam­hliða fækk­un und­an­far­in ár hafa fram­lög rík­is­ins ekki minnkað og ber hand­bært fé sjóðsins þess glögg­lega merki. Árið 2013 nam það um ein­um millj­arði kr. En í lok árs 2018 er áætlað að það nemi rúm­um 13 millj­örðum kr. Staða sjóðsins er því mjög sterk og skap­ar hún kjöraðstæður til að ráðast í kerf­is­breyt­ing­ar sem bæta kjör náms­manna. Nýtt styrkja- og náms­lána­kerfi er að fullu fjár­magnað en að auki verða fram­lög til sjóðsins end­ur­skoðuð ár­lega miðað við fjölda lánþega hverju sinni. Lána­sjóður­inn er eitt mik­il­væg­asta jöfn­un­ar­tæki sem við eig­um og það er mik­il­vægt að búa þannig um hnút­anna að svo verði áfram raun­in.

Fjölg­um starfs- og tækni­menntuðum

Á síðustu árum hafa fram­lög til fram­halds­skóla­stigs­ins einnig hækkað veru­lega. Þannig hafa fram­lög til fram­halds­skóla­stig­ins farið úr rúm­um 30 millj­örðum kr. árið 2017 og í rúm­lega 35 millj­arða í ár. Þetta jafn­gild­ir um 16% hækk­un. Þessi hækk­un mun halda sér sam­kvæmt nýkynntri fjár­mála­áætl­un en fjár­heim­ild­ir munu halda sér þrátt fyr­ir fækk­un nem­enda í kjöl­far stytt­ing­ar náms til stúd­ents­prófs. Hækk­un­in ger­ir fram­halds­skól­um m.a. kleift að bæta náms­fram­boð, efla stoðþjón­ustu sína og end­ur­nýja búnað og kennslu­tæki. Helstu mark­mið okk­ar á fram­halds­skóla­stig­inu eru að hækka hlut­fall nem­enda sem ljúka starfs- og tækni­námi, fjölga nem­end­um sem út­skrif­ast á fram­halds­skóla­stig­inu og að nem­end­ur í öll­um lands­hlut­um hafi aðgengi að fjöl­breyttu bók- og starfs­námi.

Íslensk­an í önd­vegi og barna­menn­ing

Við ætl­um að halda áfram að styðja við menn­ingu, list­ir, íþrótta- og æsku­lýðsmál og fjöl­miðlun í land­inu. Við höf­um verið að hækka fram­lög til menn­ing­ar­mála síðan 2017 þegar þau námu um 12 millj­örðum króna. Í fjár­mála­áætl­un­inni er gert ráð fyr­ir að þau verði að meðaltali um 15 millj­arðar ár­lega. Við setj­um ís­lensk­una í önd­vegi með fjölþætt­um aðgerðum sem snerta ólík­ar hliðar þjóðlífs­ins en mark­mið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að ís­lenska verði áfram notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins. Í stjórn­arsátt­mál­an­um er kveðið á um að bæta rekstr­ar­um­hverfi bóka­út­gef­enda, skap­andi greina og fjöl­miðla. Til að fylgja því eft­ir ger­um við ráð fyr­ir ár­leg­um stuðningi sem nem­ur 400 millj­ón­um kr. við út­gáfu bóka á ís­lensku, 400 millj­ón­um kr. vegna aðgerða til að bæta starfs­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla og 100 millj­ón­um kr. til nýs Barna­menn­ing­ar­sjóðs Íslands. Lögð er áhersla á að bæta aðgengi að menn­ingu og list­um, ekki síst fyr­ir börn og ung­menni, efla vernd­un á menn­ing­ar­arfi þjóðar­inn­ar, rann­sókn­ir og skrán­ingu. Einnig verður lögð áhersla á að bæta um­gjörð og auka gæði í skipu­lögðu íþrótta- og æsku­lýðsstarfi. Til skoðunar er sá mögu­leiki að setja á stofn barna- og vís­inda­safn til að efla og styrkja áhuga ungu kyn­slóðar­inn­ar á menn­ingu, vís­ind­um og tækni.

Í fjár­mála­áætl­un­inni er er horft til framtíðar, þ.e. að mennt­un, menn­ing og vís­indi auki lífs­gæði fólks í land­inu. Við höld­um áfram að styðja við ís­lenskt efna­hags­líf með því að fjár­festa í slík­um grunnstoðum og bæta þannig lífs­kjör­in í land­inu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2019.

Categories
Greinar

Fiskeldi – áhætta eða ágóði?

Deila grein

28/03/2019

Fiskeldi – áhætta eða ágóði?

Þau samfélög sem aðhyllast sjálfbærni horfa til þess að athafnir okkar skili auðlindum jarðar til komandi kynslóða í líku ástandi og við njótum nú. Samkvæmt skilgreiningu verður ákveðin athöfn að uppfylla þrjá þætti til að teljast sjálfbær félagslega, umhverfislega og efnahagslega. Ellefta markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun snýr að sjálfbærni borga og samfélaga. Þar segir m.a. að stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða.

Þegar fjallað er um uppbyggingu fiskeldis hér á landi eigum við að ganga út frá markmiðinu um sjálfbæra nýtingu. Þegar áform um uppbyggingu fiskeldis hér á landi hófust á ný á nýrri öld horfðu Íslendingar strax til þess að fara varlega enda brenndir af óvarfærni fyrri tilrauna. Ákveðið var að loka rúmlega hálfri strandlengjunni fyrir sjókvíaeldi. Áður en eldi hefst svo á þessu afmarkaða svæði þarf að fara í gegnum langt ferli, firðirnir eru burðarþolsmetnir til þess að meta lífræna álagið, framkvæmdirnar fara í ítarlegt umhverfismat og fyrirtækin þurfa að uppfylla ýmiskonar skilyrði til dæmis um búnað, gæðakerfi, vaktanir og fleira. Sem dæmi má nefna að allur lax sem er í eldi á Vestfjörðum er ASC vottaður sem er ein strangasta umhverfisvottun sem til er þegar kemur að fiskeldi og var m.a. þróuð af umhverfisverndarsamtökunum World Wildlife Fund.

Fiskeldi hefur verið stundað í Noregi í að verða fimm áratugi. Norðmenn hafa náð að komast á beinu brautina eftir margvíslegar áskoranir og telja sig hafa náð jafnvægi í sjálfbærni fiskeldis með því að byggja á reynslu og nýta sér tækni og þróun í þessum efnum. Þessa dýrmætu reynslu eigum við Íslendingar að horfa til og nýta okkur.

Unnið að stefnumótun
Atvinnuveganefnd hefur nú til umfjöllunar frumvarp um fiskeldi. Vonandi tekst í þeirri vinnu að móta nýja og endurbætta stefnu í þessari mikilvægu atvinnugrein til framtíðar en til þess að svo sé unnt verða umhverfið og umhverfismál að vera útgangspunktur.

Allir geta verið sammála um að við eigum að vernda villta laxastofa hér við land. Þeir hafa sjálfstæðan tilverurétt burtséð frá mismunandi hagsmunum veiðiréttarhafa eða fiskeldismanna. Við eigum að passa uppá laxastofninn með markvissum aðgerðum sem minnka líkur á að fiskur geti sloppið úr kvíum og ef upp koma slys séu til markviss viðbrögð og aðgerðir til þess að koma í veg fyrir möguleg umhverfisáhrif. Slíkar aðgerðir getum við kallað mótvægisaðgerðir. Hafrannsóknastofnun hefur reiknað áhættumat sem spáir fyrir fjölda laxa sem sleppa úr eldinu við strendur Íslands. Mikilvægt er að hnýta fyrrnefndum mótvægisaðgerðum til að lágmarka og koma í veg fyrir mögulega erfðablöndun við villta fiskinn. Norðmenn hafa náð miklum árangri í að minnka fjölda eldislaxa í ám með því að binda í lög og reglur aðferðir sem hafa gefist vel og hefur skilað sér í að villti laxastofninn er að ná sér á strik þrátt fyrir aukið eldi, vöktun áa og fjarlæging á eldisfiski eru þar lykilatriði. Lög um fiskeldi verður að kveða skýrt á um beitingu mótvægisaðgerða sem forsendu þess að vernda villta laxastofna hér við land.
Í stefnumótunarvinnunni verðum við ennfremur að horfa til allra þátta sem fylgja uppbyggingu greinarinnar t.d. skipulagningu strandsvæða, tryggja að heilbrigðiskröfur séu strangar, hvernig eftirliti með greininni sé háttað og tryggja að nærsamfélagið og sveitarfélögin fái réttlátan skerf af uppbyggingunni.

Sjálfbær samfélög
Þegar sjáum við jákvæð áhrif uppbyggingar fiskeldis á samfélögin fyrir vestan og austan. Þegar við höfum náð uppbyggingarmarkmiðum fiskeldis erum við að horfa til stórrar atvinnugreinar sem á eftir að skila milljörðum í þjóðarbúið.

Með því að halda rétt á spöðunum, með sterkri umgjörð og öflugu eftirliti með fiskeldi hér við land getum við viðhaldið heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni og byggt upp nýja og stönduga atvinnugrein til hagsbóta fyrir okkur öll.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingmaður.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 28. mars 2019.

Categories
Greinar

Heildarendurskoðun og lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði

Deila grein

27/03/2019

Heildarendurskoðun og lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði

Við Íslendingar getum verið stolt af fæðingarorlofskerfinu okkar. Það gerir foreldrum kleift að njóta samvista við börn sín fyrstu mánuðina í lífi þeirra. Á þeim tíma fer fram gríðarlega mikilvægt mótunarferli auk þess sem koma barns kallar á miklar breytingar í fjölskyldunni. Á næsta ári eru 20 ár síðan núverandi fæðingarorlofskerfi tók gildi. Það var Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, sem mælti fyrir lögunum á Alþingi 28. apríl árið 2000. Það má á margan hátt segja að þau hafi haft í för með sér byltingarkenndar breytingar enda var Ísland fyrsta landið í heiminum til að veita feðrum og mæðrum jafnan sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.

Hækkun og lenging í samræmi við stjórnarsáttmála 

Stefna núverandi ríkisstjórnar hefur frá fyrsta degi verið að efla fæðingarorlofskerfið bæði með því að hækka greiðslur og með því að lengja samanlagðan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Fyrri aðgerðir stjórnvalda hafa miðað að því að hækka hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Sú hækkun kom til framkvæmda 1. janúar á þessu ári þegar óskertar greiðslur hækkuðu um 80.000 krónur, eða úr 520.000 krónum í 600.000 krónur á mánuði. Nú er ætlunin að ráðast í lengingu fæðingarorlofs. Stefnt er að því að það verði gert í þrepum og að 1. janúar 2021 verði lenging þess komin að fullu til framkvæmda. Gert er ráð fyrir því að þessu verði þannig háttað að fimm mánuðir séu eyrnamerktir hvoru foreldri fyrir sig og að tvo mánuði sé hægt að velja um hvor aðilinn nýtir.

Ný löggjöf kynnt á 20 ára afmælisári 

Í tilefni af því að árið 2020 verða 20 ár liðin frá gildistöku laganna hef ég ákveðið að setja af stað vinnu við heildarendurskoðun þeirra í samráði við hagsmunaaðila. Er sú endurskoðun í samræmi við stefnu stjórnvalda þess efnis að efla fæðingarorlofskerfið, en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur. Í ljósi þess geri ég ráð fyrir að í frumvarpinu verði kveðið á um lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Lagt verður upp með að vinnunni ljúki að hausti árið 2020 eða á tuttugu ára afmæli laganna og að unnt verði að leggja fram frumvarp á haustþingi það ár. Í millitíðinni mun verða lagt fram frumvarp þar sem kveðið verður á um að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði tíu mánuðir vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 eða síðar.

Færri feður nýta fæðingarorlofsrétt 

Staðreyndin er sú að færri feður en mæður taka fæðingarorlof og þeir sem taka það nýta lægra hlutfall þeirra daga sem þeir eiga rétt á en mæður. Upplýsingar frá Vinnumálastofnun benda til þess að frá árinu 2009 hafi feðrum sem nýtt hafa rétt sinn til fæðingarorlofs fækkað jafnt og þétt til ársins 2014 þegar þeim fór að fjölga lítillega á ný. Frá árinu 2016 virðist sem feðrum sem hafa nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs hafi fjölgað. Það er þó enn verk að vinna og helsta áskorun fæðingarorlofskerfisins er að tryggja báðum foreldrum jafna möguleika á að annast barn sitt í fæðingarorlofi.

Brúum bilið yfir í dagvistun 

Ein forsenda þess að unnt verði að brúa það bil sem oft er talað um að myndist á milli þess að rétti foreldra til fæðingarorlofs ljúki og þess að barni bjóðist dagvistun á leikskóla er að börnum bjóðist dagvistun á leikskóla við tólf mánaða aldur. Þetta umrædda bil hefur oftar en ekki verið talið streituvaldandi hjá foreldrum og ekki síður hjá stórfjölskyldunni sem getur þurft að taka höndum saman til að dæmið gangi upp. Það má ætla að streitan við að hefja aftur þátttöku á vinnumarkaði, þegar barn er ekki komið með dagvistun á leikskóla, sé enn meiri hjá þeim foreldrum sem ekki hafa sterkt bakland. Það er því mikilvægt að samhliða heildarendurskoðun fæðingarorlofslaganna fari fram samtal og samvinna við sveitarfélög um það hvernig þetta bil verði brúað.

Börnin okkar eru besta fjárfestingin og það hvernig við styðjum við foreldra á fyrstu mánuðum í lífi hvers barns er grundvallaratriði í þeirri fjárfestingu. Það er á ábyrgð stjórnvalda að haga fæðingarorlofskerfinu með þeim hætti að foreldrar sjái sér fært og sjái hag í að nýta rétt sinn til fulls. Það er í því ljósi gríðarlega ánægjulegt að okkur sé að takast að endurreisa og efla fæðingarorlofskerfið.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2019.

Categories
Greinar

Norðurlöndin

Deila grein

22/03/2019

Norðurlöndin

Sem samstarfsráðherra Norðurlanda á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni átta ég mig enn betur á hve norrænt samstarf skiptir Íslendinga gríðarlega miklu máli. Rúmlega 30 þúsund Íslendingar búa á hinum Norðurlöndunum, sem eru samanlagt stærsta einstaka viðskiptaland Íslands. Við flytjum meira inn og út frá Norðurlöndunum heldur en til Bandaríkjanna eða Bretlands. Þátttaka í norrænu vísinda- og menntasamstarfi, nýsköpun, menningu og skapandi greinum, er lífæð fyrir okkar fólk og fyrirtæki. Samvinna Norðurlandanna á alþjóðavettvangi gefur Íslandi pólitíska fótfestu, sem er ómetanlegt á óróatímum.

Á morgun er Dagur Norðurlandanna og því ágætt að rifja þetta upp. Ég vil líka í tilefni dagsins ganga svolítið lengra og spyrja: Getur verið að við göngum að norrænu samstarfi sem gefnu, sem sjálfsögðum hlut? Hvað finnst unga fólkinu okkar um norrænt samstarf? Er danskan á útleið og þá kannski líka áhugi ungs fólks á að læra, starfa og stofna fyrirtæki á hinum Norðurlöndunum sem eru sannarlega sem annar heimamarkaður fyrir Ísland? Þykir hallærislegt að vinna í Gautaborg þegar allir eru á leið til Singapúr? Munu Íslendingar framtíðarinnar mennta sig í Kína og Kóreu og engan tíma hafa fyrir Kaupmannahöfn eða Stokkhólm? Hvernig verður staðan 2050?

Framtíðin ein veit svörin. Eina sem við vitum er að sannarlega munu tímarnir breytast – og mennirnir með. Og þó Ísland eigi vissulega að vera áfram með öflug tengsl um allan heim, þá megum við heldur ekki gleyma hvar við erum, hvaðan við komum og hvaða fjölskyldu við tilheyrum. Norðurlöndin eru nefnilega ein stór fjölskylda. Við erum ekki sammála um allt en við stöndum saman þegar á reynir. Saman eru Norðurlöndin heimavöllur fyrir menntun, vísindi, viðskipti, menningu og allt hitt sem gerir okkur að góðum samfélögum. Norrænt samstarf er drifkraftur breytinga sem er lífsnauðsynlegt í heimi á fullri ferð. Okkar styrkur er sameiginleg grundvallargildi um mannréttindi og lýðræði, sanngirni, velferð og velsæld – fyrir alla íbúa.

Ég hef bullandi trú á norrænu samstarfi. Í formennsku Íslands munum við halda áfram að þróa það og efla, ekki síst í samstarfi við ungt fólk. Norðurlöndin, já takk!

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. mars 2019.

Categories
Greinar

Áfram íslenska – staða íslenskukennslu í skólum

Deila grein

18/03/2019

Áfram íslenska – staða íslenskukennslu í skólum

Íslensk­an er sprelllif­andi tungu­mál. Hún er und­ir­staða og fjör­egg ís­lenskr­ar menn­ing­ar og hún er skóla­málið okk­ar. Hinn 1. apríl nk. skipu­legg­ur mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið ráðstefnu um ís­lensku­kennslu í skól­um lands­ins í sam­vinnu við Há­skóla Íslands, Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, Kenn­ara­sam­band Íslands og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga. Við hvetj­um skóla­fólk og alla vel­unn­ara ís­lensk­unn­ar til þátt­töku.

Ráðstefn­an er liður í aðgerðum okk­ar til þess að efla ís­lensku sem op­in­bert mál hér á landi en þær eru meðal ann­ars kynnt­ar í þings­álykt­un þess efn­is sem lögð var fyr­ir á Alþingi fyrr í vet­ur. Eitt af mark­miðum aðgerðanna er að efla ís­lensku­kennslu á öll­um skóla­stig­um. Á ráðstefn­unni mun­um við meðal ann­ars horfa til niðurstaðna rann­sókn­ar á stöðu ís­lensku­kennslu sem miðlað er í bók­inni Íslenska í grunn­skól­um og fram­halds­skól­um sem ný­verið kom út í rit­stjórn Kristjáns Jó­hanns Jóns­son­ar og Ásgríms Ang­an­týs­son­ar. Um er að ræða fyrstu heild­stæðu rann­sókn­ina sem fram fer á öll­um þátt­um ís­lensku­kennslu hér á landi. Að henni standa sjö ís­lensku­kenn­ar­ar við Há­skóla Íslands og Há­skól­ann á Ak­ur­eyri auk meist­ara- og doktorsnema við skól­ana. Niður­stöðurn­ar sýna já­kvætt og virðing­ar­vert starf en einnig ým­is­legt sem bet­ur má fara.

Það eru blik­ur á lofti og ým­is­legt bend­ir til þess að viðhorf til ís­lensk­unn­ar sé að breyt­ast. Þekkt­ar eru tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um hrak­andi lestr­ar­færni og lesskiln­ing ís­lenskra nem­enda. Nem­end­um sem hafa annað móður­mál en ís­lensku vegn­ar verr í skóla­kerf­inu og þeim er hætt­ara við brott­hvarfi úr námi. Fram­boð á afþrey­ing­ar­efni á ensku hef­ur auk­ist gríðarlega og merki eru um að fleira ungt fólk velji að lesa á ensku. Sam­fara minnk­andi bók­lestri er raun­veru­leg hætta á því að það sem áður var talið eðli­legt rit­mál fari að þykja tyrfið og tor­lesið.

Við ætl­um að snúa vörn í sókn fyr­ir ís­lensk­una. Kenn­ar­ar og skóla­fólk eru lyk­ilaðilar í því að vekja áhuga nem­enda á ís­lensku máli en slík­ur áhugi er for­senda þess að ís­lensk­an þró­ist og dafni til framtíðar. Að sama skapi er áhuga- og af­stöðuleysi það sem helst vinn­ur gegn henni. Við náum ár­angri með góðri sam­vinnu og á ráðstefn­unni mun gef­ast gott tæki­færi til að fræðast, greina stöðuna og skipt­ast á skoðunum um stöðu og framtíð ís­lensku­kennslu í skól­um lands­ins. Ég hvet alla sem hafa brenn­andi áhuga á þessu mik­il­væga mál­efni til þess að mæta á ráðstefn­una.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. mars 2019.

Categories
Greinar

Kynntu þér framtíðina um helgina

Deila grein

18/03/2019

Kynntu þér framtíðina um helgina

Um þess­ar mund­ir stend­ur Verkiðn fyr­ir náms- og starf­s­kynn­ingu fyr­ir nem­end­ur í efri bekkj­um grunn­skóla í tengsl­um við Íslands­mót iðn- og verk­greina sem nú fer fram í Laug­ar­dals­höll und­ir yf­ir­skrift­inni Mín framtíð. Þar munu 33 skól­ar á fram­halds­skóla­stigi kynna fjöl­breytt náms­fram­boð, bæði verk­legt og bók­legt, og svara spurn­ing­um um náms­fram­boð og inn­töku­skil­yrði. Þessi viðburður er jafn­an fjöl­sótt­ur enda gefst þar ein­stakt tæki­færi til þess að kynn­ast náms­fram­boði og starf­stæki­fær­um sem standa til boða hér á landi.

For­gangs­mál

Í stjórn­arsátta­mál­an­um er kveðið á um mik­il­vægi þess að efla iðn-, verk- og starfs­nám og að því höf­um við unnið öt­ul­lega síðustu miss­eri. Það er gleðilegt að sjá að vís­bend­ing­ar eru um að aðgerðir í þá veru séu farn­ar að skila ár­angri, m.a. með fjölg­un um­sókna í iðnnám. Sem mennta­málaráðherra hef ég beitt mér fyr­ir betra sam­tali milli mennta­kerf­is­ins og at­vinnu­lífs­ins en ráðuneytið og hags­muna­fé­lög á þeim vett­vangi standa sam­eig­in­lega að ýms­um hvatn­ing­ar­verk­efn­um sem þessu máli tengj­ast, t.d. Verk­smiðjunni, nýrri hug­mynda­sam­keppni fyr­ir nem­end­ur í efstu bekkj­um grunn­skóla, #Kvenn­astarf sem miðar að því að fjölga kon­um í iðn- og verk­grein­um og GERT-verk­efnið sem teng­ir skóla og fyr­ir­tæki með það að mark­miði að auka áhuga nem­enda á raun­vís­ind­um og tækni. Þá höf­um við for­gangsraðað fjár­mun­um í þágu starfs- og verk­náms með því að hækka reikni­flokka þess náms, af­numið efn­is­gjöld og tryggt fram­lög til að efla kennslu­innviði fyr­ir verk- og starfs­nám, t.d. með bættri verk­námsaðstöðu í Fjöl­brauta­skól­an­um í Breiðholti og Borg­ar­holts­skóla.

Fjölg­um iðn- og verk­menntuðum

For­senda vel­ferðar og lífs­gæða á Íslandi er öfl­ugt og fjöl­breytt at­vinnu­líf þar sem til staðar eru störf fyr­ir menntað fólk sem stuðlar að ný­sköp­un og þróun. Fjórða iðnbylt­ing­in hef­ur hafið inn­reið sína og hún fel­ur í sér sjálf­virkni­væðingu á öll­um sviðum at­vinnu­lífs og sam­fé­lags sem leiðir af sér mik­il tæki­færi til að þróa starfs­mennt­un til móts við nýj­ar kröf­ur. Stjórn­völd leggja sér­staka áherslu á mik­il­vægi starfs- og tækni­náms enda mik­ils að vænta af fram­lagi þess til verðmæta­sköp­un­ar framtíðar­inn­ar. Í alþjóðleg­um sam­an­b­urði er hlut­fall há­skóla­menntaðra hér á landi á sviði tækni, vís­inda, verk- og stærðfræði mjög lágt, aðeins 16%. Mik­il­vægt er að fjölga þeim sem eru með mennt­un á þeim sviðum til þess að við séum bet­ur búin und­ir að mæta áskor­un­um framtíðar­inn­ar.

Spenn­andi tím­ar

Náms­fram­boð í starfs- og tækni­námi hér á landi er afar fjöl­breytt. Þau tæki­færi sem bjóðast að námi loknu eru bæði mörg og spenn­andi enda mik­il spurn eft­ir slíkri mennt­un í at­vinnu­líf­inu. Til marks um gæði náms­ins sem í boði er má geta þess að ís­lensk­ir kepp­end­ur náðu sín­um besta ár­angri í Evr­ópu­keppni iðnnema á síðasta ári en hóp­ur­inn hlaut þá þrjár viður­kenn­ing­ar fyr­ir framúrsk­ar­andi ár­ang­ur auk silf­ur­verðlauna Ásbjörns Eðvalds­son­ar sem keppti þar í raf­einda­virkj­un.

Spreyttu þig

Alls taka um þrjá­tíu iðn-, verk- og tækni­grein­ar þátt í kynn­ing­unni Mín framtíð og á morg­un, laug­ar­dag, eru fjöl­skyld­ur sér­stak­lega boðnar vel­komn­ar. Hvatt er til þess að gest­ir komi og prófi sem flest­ar þeirra og spreyti sig t.d. á því að teikna grafík í sýnd­ar­veru­leika, smíða, stýra vél­menni, splæsa net eða krulla hár. Þessi kynn­ing er mik­il­væg því það að sjá, upp­lifa og taka þátt tendr­ar oft meiri áhuga og inn­sýn en að lesa bæk­linga eða skoða heimasíður.

Ég hvet sem flesta til þess að gera sér ferð í Laug­ar­dals­höll og kynna sér nám og störf í iðn- og tækni­grein­um því marg­breyti­leiki þeirra mun án efa koma flest­um á óvart. Við lif­um á spenn­andi tím­um þar sem störf eru að þró­ast og breyt­ast en nægt rými er fyr­ir atorku og hug­kvæmni ungs fólks.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2019.

Categories
Greinar

Þín aðstoð við að móta stefnu í málefnum barna

Deila grein

18/03/2019

Þín aðstoð við að móta stefnu í málefnum barna

Öll getum við verið sammála um að börnin okkar séu besta fjárfesting samfélagsins. Um leið og við sammælumst um þá staðreynd þurfum við sem samfélag að mæta þeirri áskorun af festu að tryggja öllum börnum sem best uppvaxtarskilyrði. Við þurfum að grípa börn í áhættu áður en það er um seinan, bregðast við með viðeigandi hætti og tryggja þeim stuðning og nauðsynlega þjónustu svo þau geti tekið virkan þátt í samfélaginu frá bernsku til fullorðinsára.

Um síðustu áramót varð sú breyting á stjórnskipan að félagsmálaráðuneytið setti aukna og sérstaka áherslu á málefni barna. Mikil vinna er í gangi í tengslum við þessar breytingar og hluti af henni er endurskoðun barnaverndarlaga sem og endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi. Við vinnuna er lögð áhersla á víðtækt samstarf og samvinnu, hvort sem um ræðir breytingar á lögum, á reglugerðum eða framkvæmd þjónustu.

Ég hef skipað þverpólitíska nefnd þingmanna til að hafa yfirumsjón með mótun þessarar vinnu. Hún starfar með fagfólki og notendum kerfisins víða að. Samhliða því hefur verið settur upp stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna sem skipaður er fulltrúum sex ráðuneyta enda hafa þessi mál snertifleti víða í samfélaginu og þvert á kerfi.

Með það að markmiði að fá sem flesta að borðinu og ná fram heildarsýn í því hvernig eigi að stuðla að aukinni velferð barna á Íslandi sendi ég út bréf til aðila sem hafa málefni barna með höndum, eða til um 600 viðtakenda. Í bréfinu var óskað eftir athugasemdum, ábendingum og þátttöku viðtakenda og annarra í opnum hliðarhópum sérfræðinga um tiltekin málefni.

Í þeirri vinnu sem fram fer er ekki síst mikilvægt að hlusta á raddir sem sjaldan fá að heyrast. Ég vil hvetja alla sem vilja koma skoðunum á framfæri til að fara inn á vef félagsmálaráðuneytisins en þar má finna frekari upplýsingar um vinnuna og koma ábendingum á framfæri. Á vormánuðum eru fyrirhugaðir opnir fundir þar sem fyrstu útlínur vinnunnar verða kynntar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birist fyrst í Fréttablaðinu 15. mars 2019.