Categories
Greinar

Framsóknarkarl á kvennaráðstefnu

Deila grein

21/03/2016

Framsóknarkarl á kvennaráðstefnu

Þorsteinn-sæmundssonHvað rekur framsóknarkarl um sextugt til að sækja Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á eigin vegum? Það eru allnokkrar ástæður fyrir því. Í 11 ár starfaði ég með lögregluliðinu á Keflavíkurflugvelli og varð þá vitni að tilraunum til mansals sem upp komst um á Vellinum. Ég er líka eiginmaður, sonur, tengdasonur og faðir, tengdafaðir og afi. Ég á tvo vel menntaða syni sem eru allir vegir færir, á tvær hæfileikaríkar, vel menntaðar tengdadætur sem ég vil að njóti öll sömu réttinda og fái jöfn tækifæri. Ég er líka stoltur afi þriggja afastelpna og tveggja afadrengja. Ég vil leggja mitt af mörkum til að þau njóti öll sömu réttinda í lífinu. Ég vil líka gera allt sem ég get til að tryggja að barnabörnin mín og öll önnur börn sæti aldrei misnotkun í nokkurri mynd.

Síðan ég hóf störf á opinberum vettvangi hefur mér oft blöskrað hvaða niðurstöðu kynferðisbrotamál fá í dómskerfinu. Það sýnir sig einnig í þeirri staðreynd að í fyrra fjölgaði skjólstæðingum Stígamóta en kærum til lögreglu vegna kynferðisafbrota fækkaði. Ég vil gera það sem í mínu valdi stendur til að hafa áhrif til bóta í þessum málaflokki. Ef litið er til brota gegn konum og stúlkum, hvort sem það er heimilisofbeldi, kynferðisleg misnotkun eða önnur ofbeldisbrot, eru karlmenn brotlegir í langflestum tilfellum. Það stendur því upp á okkur karlmenn að taka til í okkar ranni og snúa öfugþróuninni við.

Kynning sú sem fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúar Stígamóta og ungur íslenskur rithöfundur stóðu fyrir á Kvennaráðstefnunni í New York sl. fimmtudag var stórkostleg og vakti verulega athygli.

Það er haft á orði hér að menn leggi einkum við hlustir á alþjóðavettvangi þegar fulltrúar Íslendinga taka til máls í þrem málaflokkum. Í málefnum sem tengjast hafinu, málefnum tengdum uppblæstri og málefnum kvenna. Það er greinilegt af því sem maður heyrir hér að Íslendingar hafa og geta víða lagt gott til í jafnréttisbaráttunni og til að hafa áhrif á það skelfilega ofbeldi sem víða tíðkast gagnvart konum. Nokkrar hugrakkar konur hafa stigið fram hér á ráðstefnunni og lýst reynslu sinni. Ein sagði frá misþyrmingu á kynfærum við umskurð, önnur sagði frá því er maður sem hún neitaði að giftast hellti yfir hana sýru þannig að hún var um tíma skinnlaus á 95% líkamans og lá lengi milli heims og helju. Sú hefur undirgengist á fimmta tug aðgerða síðan hún varð fyrir árásinni. Óhugnanleg var líka saga konu sem upplifði barn að aldri að ættingjar föður hennar eltu móður hennar með barsmíðum þar sem hún hafði ekki fætt son. Þá er ótalið að á hverjum degi eru 39 þúsund stúlkur á aldrinum 5-15 ára giftar eldri mönnum. Já, lesandi góður, 39 þúsund börn á hverjum degi. Þessar stúlkur verða margar hverjar barnshafandi löngu áður en þær hafa þroska til og látast margar þeirra á meðgöngu, í fæðingu eða rétt eftir barnsburð. Sumar þeirra örkumlast af erfiðleikum í fæðingu og lifa við útskúfun alla ævi. Enn eru ótalin barnsrán og viðskipti með börn. Ein stúlka hér á ráðstefnunni var um skeið í nauðungarvist hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Hún lifði þar við misnotkun og annað ofbeldi. Saga hennar var sláandi. Innan samtakanna ganga stúlkur kaupum og sölum. Sama má segja um börn af báðum kynjum í Indlandi sem seld eru eins og hver önnur verslunarvara. Þá er ótalinn launa- og kjaramunurinn, lífeyrir heimavinnandi kvenna og fleira af sama meiði. Það er efni í aðra grein. Ef litið er til brota gegn konum og stúlkum, hvort sem það er heimilisofbeldi, kynferðisleg misnotkun eða önnur ofbeldisbrot, eru karlmenn brotlegir í langflestum tilfellum. Það stendur því upp á okkur karlmenn að taka til í okkar ranni og snúa öfugþróuninni við. Nóg eru verkefnin sem bíða okkar, hvort sem við erum í stjórnmálum eða á öðrum vettvangi við að bæta umhverfi kvenna heima hjá okkur og einnig á alþjóðavísu.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2016.

 

 

Categories
Greinar

Af ógæfufólki í íslenskri pólitík

Deila grein

21/03/2016

Af ógæfufólki í íslenskri pólitík

Þorsteinn-sæmundssonÉg hef fylgst með atburðum á Íslandi undanfarna daga úr fjarlægð.  Ég verð að viðurkenna að mér blöskrar umræðan sem nú fer fram um eiginkonu forsætisráðherra og eignir hennar.  Sá sem hóf umræðuna veit reyndar ekki hvað nauðasamningur er eins og fram kom í umræðum um stöðugleikaframlög á Alþingi Íslendinga.  Samt situr hann í bankastjórn Seðlabankans.  Sá sem hóf umræðuna veit heldur ekki muninn á kröfuhafa og innistæðueiganda ef dæma má af málflutningi hans.  Samt situr hann í bankastjórn Seðlabankans.  Þó nokkuð vandræðaleg staðreynd en þó meira alvarleg.

Umræða undanfarinna daga er nokkur nýjung í íslenskri stjórnmálaumræðu.  Í þrjú ár hafa nokkrir stjórnmálamenn sem voru til í að leggja klyfjar á íslenska þjóð til frambúðar lagt sig fram um að ófrægja forsætisráðherra sem leiddi flokk sinn til sigurs á grundvelli loforða sem síðan hafa verið efnd hvert af öðru.

M.a. kom forsætisráðherra ekki bara í veg fyrir að klyfjar ófrægingarmanna yrðu lagðir á þjóðina heldur leystu stöðugleikasamningar svo vel að eftir er tekið.  Reyndar svo vel að Ísland hefur ekki staðið jafnvel síðan á síldarárunum upp úr miðri síðustu öld.  Sá vaski samningamaður Lee Bucheit segir á þá leið að  ,,Sú niðurstaða sem náðist varðandi uppgjör slitabúa gömlu bankanna, þar sem kröfuhafar samþykktu að framselja til íslenskra stjórnvalda án endurgjalds innlendar eignir sem eru metnar á mörg hundruð milljarða króna, er fordæmalaus í alþjóðlegri fjármálasögu“

Ófrægingarmönnum virðast sárna þessi staðreynd kannski vegna þess að þeir höfðu ekki kjark og þor til að ráðast til atlögu við kröfuhafa.  Ófrægingarmennirnir þola ekki að forsætisráðherra á alla kosti sem þá skortir.  Hann á framsýni kjark og dug sem þeir eiga ekki.  Þess vegna hefur þetta ógæfufólk hamast á forsætisráðherra hvern dag í þrjú ár en auðvitað án árangurs því niðurrifið og hælbitin efla Sigmund Davíð í hverri raun.  Hvað tekur ófrægingarliðið þá til bragðs?  Jú, það skrifar nýjan kafla í lágkúruumræðu sinni með því að beina spjótum sínum að eiginkonu forsætisráðherra vegna þess að hún á eignir.  Og hvað haldiði nema þau fái ekki í lið með sér hjárænulegan Sjálfstæðisþingmann sem er í vandræðum með sjálfsmynd sína.  Það eru tíðindi að Sjálfstæðisþingmaður láti vinstrið siga sér eins og rakka vegna einhverrar minnimáttakenndar.

Það hefur lengi verið alþekkt staðreynd að eiginkona forsætisráðherra er velefnuð. Það er einnig lýðum ljóst hvernig eignirnar eru til komnar. Það hefur aldrei hvílt leynd yfir þessari staðreynd.  Það liggur fyrir að skattar hafa verið greiddir á Íslandi vegna þessara eigna alla tíð.  Það liggur fyrir að eiginkona forstætisráðherra hefur ef eitthvað er tapað eignum vegna þeirra aðgerða sem eiginmaður hennar hefur staðið fyrir.  En hælbítarnir gefast ekki upp enda eru pólísk samtök þeirra við það að þurrkast út. Það ætti ekki að koma neinum á óvart sem fylgst hefur með framgöngu þeirra undanfarin ár.

Spurningin sem uppúr stendur er samt þessi:  Viljum við að íslensk stjórnmálaumræða snúist um fjölskyldumeðlimi stjórnmálamanna? Fjölskyldumeðlimi sem eru ekki þátttakendur í stjórnmálum.  Þurfa stjórnmálamenn framvegist að gera ráð fyrir því að fjölskyldur þeirra verði fyrir áreiti og dylgjum vegna þess að makinn er í pólitík? Mitt svar er nei. Til þess að svo megi verða þarf ógæfufólkið í pólitík að gaumgæfa vel framgöngu sína.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist á www.visir.is 21. mars 2016.

Categories
Greinar

Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í New York – CSW60

Deila grein

18/03/2016

Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í New York – CSW60

Þorsteinn-sæmundssonÉg er staddur á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin er af UN Women í New York.

Það er mikil upplifun að koma á ráðstefnuna og hér eru þúsundir fulltrúa úr öllum heimshornum, konur eru í miklum meirihluta. Dagskráin er svo viðamikil og viðburðir svo margir að segja má að fyrir hvern einn sem maður sækir missi maður af tíu öðrum. Allir sem sækja ráðstefnuna hafa því meira en nóg að gera þá daga sem hún stendur. Þessi ráðstefna er sú sextugasta sem haldin er og sú síðasta sem fram fer í stjórnartíð Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ. Í setningarræðu sinni í upphafi ráðstefnunnar sagðist Ban Ki-moon hafa skipað 150 konur í stjórnunarstöður á starfstíma sínum. Hann lagði mikla áherslu á að ábyrgð þeirra sem sæktu ráðstefnuna væri sú að fylgja fram stefnunni um aukið jafnrétti, að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum í hverri mynd sem er, til að tryggja að árangur yrði af starfinu hér. Geta má þess að nú er þegar farið að hvíslast á um eftirmann Ban Ki-moon. Sagt er að nú sé komið að Austur-Evrópu að skipa í starfið. Einnig er rætt um að nú sé kominn tími til að kjósa konu sem aðalritara SÞ. Allavega er ljóst að mikið mun ganga á áður en niðurstaða fæst um það.

Síðastliðinn mánudag var dagskrá þar sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra, var í pallborði ásamt nokkrum öðrum og stóð sig vel. Á fundum eins og þessum kemur í ljós hversu mikils metið framlag Íslendinga til jafnréttismála er. Feðraorlofið sem tekið var upp í tíð Páls Péturssonar var mjög lofað á fundinum. Mörg ríki, þ.á.m. sum nágrannaríki okkar, hafa þó ekki treyst sér til að hrinda slíku orlofi í framkvæmd með sama hætti og gert hefur verið á Íslandi.

Á kvennaráðstefnunni koma fram ótal sjónarmið og lýsingar á kjörum kvenna og stúlkna í hinum ýmsu löndum. Það er ekki laust við að maður hrökkvi við þegar aðstæðum kvenna og stúlkna, t.d. í Afríku og Asíu, er lýst. Þá er einnig ljóst að hefðir annarra menningarheima flytjast til hins vestræna heims með vaxandi fólksflutningum. Átaks er þörf til að koma í veg fyrir limlestingar á stúlkum til þess að standa við fyrirheit SÞ um betra ástand árið 2030 sem er aðeins fimmtán ár í burtu. Við þörfum öll að leggja okkar lóð á vogarskálina til þess að tryggja jafna stöðu kvenna og karla í heiminum.

Þorsteinn Sæmundsson.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2016.

Categories
Greinar

Lygilegur jöfnuður?

Deila grein

16/03/2016

Lygilegur jöfnuður?

Karl_SRGBÍsland á Evrópumet í jafnri dreifingu launa. Raunar dreifðust tekjur jafnar milli fólks hér á landi árið 2014 en nokkru sinni hefur sést síðan mælingar hófust árið 2004. Þetta kemur fram, bæði í félagsvísum 2015 og lífskjararannsókn Hagstofunnar 2015. Samkvæmt alþjóðlegum samanburði OECD er Ísland einnig skilgreint sem hálaunaland. Samkvæmt gögnum OECD eru meðaltekjur á Íslandi næst hæstar á Norðurlöndunum og því er nær sanni að segja að Ísland sé hálaunaland, þegar litið er til kaupmáttar. Sífellt fækkar í hópi þeirra landsmanna sem hafa tekjur undir lágtekjumörkum og atvinnuþátttaka eykst. Þetta er í raun lygileg staða og ótrúlegur árangur.

Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að sjá aukinn jöfnuð í samfélaginu, en það er ekki þar með sagt að við viljum að allir séu á sömu launum, fyrir ólík störf. Það er grundvallaratriði að við metum menntun og ábyrgð til launa. Að öðrum kosti væri hvatinn fyrir menntun minni og erfitt gæti reynst að fá starfsmenn til að taka á sig aukna ábyrgð, með tilheyrandi álagi og auknu vinnuframlagi.

Þrátt fyrir góða stöðu Íslands og íbúa landsins eigum við að geta gert enn betur. Hlutfall Íslendinga sem er undir lágtekjumörkum hefur vissulega dregist saman á milli ára en 8% er enn of hátt. Ísland er ríkt af auðlindum og tækifærum til að bæta hag þeirra sem minna hafa. Við þurfum að hlúa að þeim tækifærum og vera duglegri að nýta þau.

Það er hins vegar áhyggjuefni að þrátt fyrir að tekjujöfnuður sé að aukast og kaupmáttur orðinn meiri, þá upplifir þjóðin það ekki svo að á Íslandi ríki jöfnuður. Sú upplifun er raunveruleg en snýr mun fremur að skiptingu auðs og arðs, fremur en launaumslaginu. Þegar fréttir á borð við himinháar arðgreiðslur úr tryggingarfélögum til hluthafa og gríðarlegar launahækkanir forstjóra berast dag eftir dag, er það ekkert skrítið. Þar þarf ríkið að sinna sínu hlutverki betur, að sinna hagsmunum neytenda.

Það má gera betur í mörgum málum. En það má líka gleðjast yfir því sem gott er. Stundum er líka nauðsynlegt að við minnum okkur á hversu gott við raunverulega höfum það, þó með þann metnað að leiðarljósi að ávallt er hægt að sækja lengra fram.

Karl Garðarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. mars 2016.

Categories
Greinar

Nýtni

Deila grein

16/03/2016

Nýtni

ÞórunnEitt sinn kunnu nánast allir leiðir til að nýta matvæli sem best og okkur þótti eðlilegt að borða afganga. Á tímabili hurfu menn frá þessu því heimilishald breyttist í takt við þjóðfélagið og hraða þess. Tími til matarundirbúnings varð minni og áherslurnar breyttust. Þetta leiddi til þess ástands sem við stöndum frammi fyrir núna þegar matarúrgangur er stór hluti heimilissorps. Mál sem varða úrgang fá stöðugt meira vægi vegna aukinna kvaða um meðhöndlun hans. Vissulega hafa íbúar margra sveitarfélaga náð miklum árangri á þessu sviði en þrátt fyrir það vantar enn þó nokkuð upp á að við Íslendingar stöndumst samanburð við þær þjóðir Evrópu sem lengst hafa náð.

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá sl. ári segir að matarsóun leiði til hærra matarverðs. Þar kemur einnig fram mikilvægi þess að bregðast við þeirri sóun á ferskum matvælum sem núverandi fyrirkomulag hefur í för með sér. Velta má fyrir sér hvort ástæða er til að breyta reglum um ferskar vörur sem skilað er til birgja eftir að þær hafa verið á boðstólum í verslunum. Benda má á að í Frakklandi taka brátt gildi lög sem skylda alla í virðiskeðjunni til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir matarsóun. Matvöruverslunum af tiltekinni stærð þar í landi verður bannað að henda óseldum mat og verður þeim skylt að gera samning við góðgerðarfélög til að auðvelda matargjafir. Þessa leið fara Frakkar.

Við stöndum frammi fyrir áskorun sem snýr að því að ganga betur um auðlindir okkar, sporna við offramleiðslu og notkun á ónauðsynlegum varningi.

Um síðustu áramót lagði umhverfis- og auðlindaráðherra fram fyrstu almennu stefnuna um minnkun á sóun. Hún ber heitið Saman gegn sóun og gildir til 2027. Markmið hennar er að minnka úrgang og bæta nýtingu auðlindanna. Það verður spennandi að fylgjast með kynningu hennar á Hallveigarstöðum nk. fimmtudagsmorgun og sjá hvernig hún fléttast saman við tillögur starfshóps um úrbætur um matarsóun. Nú þurfum við að leggjast á eitt og finna okkar leið.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist á www.visir.is 16. mars 2016.

Categories
Greinar

Dómgreindarbrestur eða græðgi?

Deila grein

10/03/2016

Dómgreindarbrestur eða græðgi?

thingmadur-willumthor-05Ekki er til einhlítur mælikvarði á jöfnuð og hann snýst ekki bara um laun. Það er óumdeilt að við viljum jöfn tækifæri fyrir alla og jafnan aðgang að grunnþjónustu. Það er einnig almennur skilningur á því að til þess að auka velferð allra, efla heilbrigðis- og menntakerfið og fara í nauðsynlega innviðauppbyggingu, þarf að auka verðmætasköpun. Til þess að hægt sé að „stækka kökuna“ standa heimshagkerfin frammi fyrir þeirri áskorun að auka framleiðni og draga úr misskiptingu auðs. Þetta viðfangsefni þarfnast sannarlega frumkvæðis stjórnvalda og atvinnulífs en ekkert síður sameiginlegs skilnings á verkefninu.

Jöfnuður meiri en nokkru sinni áður
Í nýútkomnum félagsvísum fyrir 2015 kemur fram að Gini-stuðullinn, sem mælir hvernig samanlagðar tekjur allra einstaklinga í landinu dreifast, hefur ekki verið lægri síðan mælingar hófust árið 2004. Bilið milli tekjuhæstu og tekjulægstu Íslendinga hefur minnkað og einstaklingar undir lágtekjumörkum hafa aðeins einu sinni áður mælst færri síðan mælingar hófust.

Lífskjör – Ísland í 4. sæti
Ef tekið er mið af lífskjaramælikvarða SPI-vísitölunnar (Social Progress Index) er Ísland í fjórða sæti. Fyrir ofan Ísland á þessum lista eru Noregur, Svíþjóð og Sviss. Þessi félagslega þróunarvísitala er dæmi um breytta nálgun þar sem ekki er einblínt á einhlítan hagvaxtarmælikvarða. Lífskjör og verðmætasköpun eru meðal annars metin út frá grundvallarþörfum, almennri velferð, aðgengi að velferðarkerfum og tækifærum einstaklinga til að vaxa og dafna.

Lægri skattar og aukinn stuðningur
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur markvisst dregið úr skattheimtu og aukið enn frekar félagslega aðstoð. Vörugjöld hafa verið afnumin, sem skilar sér í lægra vöruverði, tekjuskattskerfið einfaldað og skattleysismörk og persónuafsláttur hafa hækkað. Barnabætur eru hærri og bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækkuðu um tæp 10% um áramótin. Kaupmáttur allra hefur aukist og atvinnuleysi minnkað. Skuldir heimila hafa lækkað og séreignarsparnaðarleiðin var hluti af velheppnaðri skuldaleiðréttingu en ekkert síður til þess fallin að auðvelda fólki að spara til þess að fjárfesta í húsnæði. Fyrirhugaðar aðgerðir sem samþykktar voru sem hluti af kjarasamningum síðastliðið vor eru svo hugsaðar til þess að auka tekjujöfnuð enn frekar og jafna og bæta eignastöðu fólks.

Sama farið?
Þjóðin öll tók á sig skell og auknar byrðar en hefur með sameiginlegu átaki náð vopnum sínum. Flestir hagvísar eru nú jákvæðir: aukinn hagvöxtur, minna atvinnuleysi, verðstöðugleiki, aukinn tekjujöfnuður, lækkandi skuldir þjóðarbúsins og lausn á greiðslujafnaðarvanda þar sem erlend staða þjóðarbúsins hefur ekki verið betri síðan á síldarárunum! Aukinn kaupmáttur og ráðstöfunargeta sem skilar sér í auknum ávinningi í atvinnulífinu. Á sama tíma og við erum að komast í betri stöðu til þess að efla velferðarkerfið og auka jöfnuð þá berast okkur fréttir um ofurbónusa fárra, hlutabréfakaup útvalinna, himinháar arðgreiðslur og já jafnvel arðgreiðslur umfram hagnað!

Gagnkvæmur skilningur?
Stjórnendur fyrirtækja bera mikla samfélagslega ábyrgð ekkert síður en gagnvart eigendum. Það er skilningur á því að eigendur njóti arðs af fjárfestingum og stjórnendur hljóti umbun fyrir erfiðar ákvarðanir. En um leið þurfa þeir að geta lesið í samfélag sitt. Ef ekki ríkir gagnkvæmur skilningur stjórnvalda og stjórnenda í atvinnulífinu á efnahagslegum áskorunum um framleiðni og aukinn jöfnuð, rofnar hin samfélagslega sátt. Niðurstaðan verður í besta falli brestur á dómgreind eða hrein græðgi.

Willum Þór Þórsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. mars 2016.

Categories
Greinar

Eldra fólki á vinnumarkaði fjölgar

Deila grein

08/03/2016

Eldra fólki á vinnumarkaði fjölgar

Þorsteinn-sæmundssonÞað er ánægjulegt að sjá að sífellt hærra hlutfall eldra fólks starfar á íslenskum vinnumarkaði. Mikilvægt er að hæfileika þeirra sem eldri eru njóti við þegar yngri kynslóðir eru að koma nýjar inn á vinnumarkaðinn. Í Félagsvísum 2015, sem gefnir eru út af velferðarráðuneytinu, kemur fram að atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 55-74 ára var 67,2% árið 2014 en tíu árum áður var hlutfallið 63,3%.

Bætt starfsumhverfi
Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar, sem og annars staðar á Vesturlöndum, er að breytast og hlutfall þeirra sem eldri eru eykst smám saman. Í mannfjöldaspá Hagstofunnar er til að mynda gert ráð fyrir því að hlutfall Íslendinga 60 ára og eldri verði komið yfir 30% árið 2060. Á sama tíma erum við heilsuhraustari og ævilíkur að lengjast, sem leiðir af sér aukinn vilja og getu til virkrar þátttöku í atvinnulífinu hjá þeim sem eldri eru. Hér á Íslandi er stærstur hluti vinnumarkaðarins blessunarlega meðvitaður um mikilvægi þess að tryggja starfsfólki sínu starfsumhverfi sem stuðlar að betri líðan og heilsu. Gott og vandað starfsumhverfi skilar sér í betri anda á vinnustaðnum og ánægðara starfsfólki, sem skilar sér í auknum afköstum.

Jöfn meðferð á vinnumarkaði
Það er ljóst að við erum á réttri leið. Mikilvægt er að auka möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína svo að vinnumarkaðurinn geti notið þeirrar miklu þekkingar og færni sem þessi aldurshópur býr yfir, sem lengst. Þar má meðal annars nefna möguleika einstaklinga á nýjum starfsvettvangi á miðri starfsævinnar eða seinni stigum hennar. Einnig er mikilvægt að sveigjanleg starfslok séu raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar. Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli.

Til stendur að félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði nú í vor. Í frumvarpinu felst að fyrirtæki og stofnanir megi ekki mismuna fólki, meðal annars á grundvelli aldurs. Samþykkt slíks frumvarps er mikilvægt skref í að styðja enn betur við eldra fólk á vinnumarkaði og mun ég glaður greiða atkvæði mitt með því.
KVÓT: Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. mars 2016.

Categories
Greinar

Konur í áhrifastöðum – innilega til hamingju með daginn!

Deila grein

08/03/2016

Konur í áhrifastöðum – innilega til hamingju með daginn!

Anna kolbrúnDagurinn í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og er í tilefni dagsins er gott að minna á að við högnumst öll á jafnrétti því eins og sagan sýnir eru það ekki bara konur sem njóta afraksturs jafnréttisbaráttunnar heldur samfélagið allt. Ísland er vissulega í fararbroddi á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði, en betur má ef duga skal. Það eru enn verkefni sem þarf að vinna, huga þarf að réttindum kvenna jafnt innan lands og utan. Til að nefna dæmi þá er launamunur kynjanna enn til staðar hér á landi þó vísbendingar gefi nú til kynna að hann dragist saman. Við þurfum áfram að beita öllum hugsanlegum ráðum til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, það á aldrei að líðast.

Áhrifastöður eru einnig að finna víða í samfélaginu, innan heimilis og utan og í aðalnámsskrá leikskóla er því beinlínis haldið fram að litið sé á leikskólakennara sem áhrifavald í uppeldis- og menntastarfi barna. Með því er verið að segja að það sé áhrifastaða að vera leikskólakennari. Ekki þarf að efast um að þetta sé rétt, leikskólakennara er ætlað að vera leiðandi í mótun starfsins, vera góð fyrirmynd og hann á að vera samverkamaður barna, foreldra og samstarfsfólks.

Einnig má segja að umönnunarstörf séu skipuð fólki í áhrifastöðum. Hver einasta fjölskylda í landinu hefur örugglega átt í samskiptum við einstaklinga sem sinna ástvinum þeirra að alúð og oftar en ekki á erfiðum tímum. Samskipti við umönnunaraðila eru og verða áhrifarík og þar með skipuð fólki í áhrifastöðum.

Þegar talað er um umönnunar- og kennslustörf, þá er oftar en ekki talað um hefðbundin kvennastörf og jafnvel kvennastéttir sem sinna störfunum – aldrei er minnst á áhrifastöður í þessu sambandi.

Um leið og við minnumst dagsins er gott að við hugum einnig að baráttu kvenna utan  landsteinanna, barnungar stúlkur eru enn þvingaðar í hjónabönd, umskurður kvenna viðgengst víða, stúlkum er meinaður aðgangur að menntun og eru jafnvel skotnar í höfuðið ef þær ákveða að sækja sér menntun þrátt fyrir augljósa hættu. Á þessum degi sem og aðra daga eigum við því einnig að sýna kynsystrum okkar stuðning hvar sem þær eru í heiminum og sama hvaða áhrifastöðum þær gegna.

Innilega til hamingu með daginn – öll sem eitt!

Anna Kolbrún Árnadóttir.

Categories
Greinar

Jöfnuður eykst

Deila grein

07/03/2016

Jöfnuður eykst

líneikÞað er virkilega ánægjulegt að verða vitni að vaxandi jöfnuði í samfélaginu. Heimilum sem þurfa fjárhagsaðstoð hefur fækkað milli áranna 2013 og 2014. Árin þar á undan fjölgaði heimilum sem þurftu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum en milli áranna 2013 og 2014 varð viðsnúningur og heimilum sem fá fjárhagsaðstoð fækkar. Þetta helst í hendur við þróun í átt að auknum tekjujöfnuði en tekjur hafa ekki dreifst jafnar milli fólks hér á landi frá því mælingar Hagstofunnar hófust árið 2004.

Hlutfall landsmanna með tekjur undir lágtekjumörkum hefur dregist saman og aðeins einu sinni á síðustu 10 árum hafa jafn fáir mælst undir lágtekjumörkum, samkvæmt nýbirtum Félagsvísum velferðarráðuneytisins og Hagstofu Íslands 2015.Það er ávallt ánægjulegt þegar hagur heimilanna batnar. Þessi bætta staða er afleiðing margra samverkandi þátta en ætla má að atvinnumöguleikar og aukin áhersla á velferð vegi þar nokkuð. Frá árinu 2013 hafa skapast um 15.000 ný störf og mælist atvinnuleysi á Íslandi nú það minnsta í Evrópu eða 3,6%, samkvæmt tölum Eurostat sem birtar voru í byrjun febrúar. Til samanburðar mælist atvinnuleysi að meðaltali um 9% í Evrópusambandslöndunum. Þetta er magnaður árangur ef við lítum til þess að árið 2010 mældist atvinnuleysi hér á landi 7,6%.

Á síðustu árum hefur ríkisstjórnin ráðist í aðgerðir með það að leiðarljósi að auka velferð í samfélaginu og fleiri verkefni eru í farvatninu. Gerðar hafa verið breytingar á skattkerfinu, þannig hafa skattleysismörk og persónuafsláttur hækkað sem skilar sér í auknum ráðstöfunartekjum. Vörugjöld hafa einnig verið afnumin og skattar lækkað. Nú er til umræðu í velferðarnefnd frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem fjallar um uppbyggingu félagslegra leiguíbúða fyrir efnaminni fjölskyldur. Markmið þeirrar vinnu er að bæta húsnæðisöryggi þessa hóps með auknu framboði á hagkvæmu leiguhúsnæði þar sem húsnæðiskostnaður verði í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Auk þess er stefnt að breytingum á húsnæðisbótakerfinu, á þann hátt að húsnæðisstuðningur verði aukinn og grunnfjárhæð húsnæðisbóta og frítekjumörk hækkuð. Með fyrrnefndum aðgerðum eykst stuðningur enn frekar við þá sem minnstar hafa tekjurnar. Fólk sem fest hefur í fátækragildru fær þá möguleika á að komast í þá stöðu að ná endum saman í lok hvers mánaðar og leggja fyrir.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. mars 2016.

Categories
Greinar

101 Popúlismi Fréttablaðsins

Deila grein

27/02/2016

101 Popúlismi Fréttablaðsins

haraldur_SRGBLeiðari Fréttablaðsins 25. febrúar undirstrikar þekkingarleysi á málefnum Laugarvatns og að höfundur hefur einungis kynnt sér 101-hlið málsins. Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun en er ekki hafin yfir gagnrýni. Sérstaklega ekki af hálfu þeirra sem veittu Háskólanum 12,5 milljarða króna í síðustu fjárlögum. Þingmenn Suðurkjördæmis, sem og margir aðrir þingmenn, vilja bjóða upp á nám á Laugarvatni eins og hefur reyndar verið boðið upp á síðastliðin 84 ár. Gagnrýni á ákvörðun Háskólans er því ekki einhver popúlismi. Þetta snýst um mikið áfall fyrir litla byggð úti á landi, sem er samofin háskólasamfélaginu og byggir að stórum hluta sína starfsemi í kringum Háskólann og fékk engan fyrirvara. Námið á Laugarvatni er hluti af merkri menntasögu landsins. Laugarvatn hefur verið byggt upp sem menntaþorp, þekkingarsamfélag. Því miður virðast margir ekki bera nokkra virðingu fyrir því. Ákvörðunin um að loka á þessa merku sögu er áfall, ekki bara fyrir Laugarvatn heldur fyrir landið allt.

Nemendur, núverandi og fyrrverandi vilja halda náminu á Laugarvatni. Stjórnendur vilja breyta náminu til að tryggja aukinn áhuga sem og að aðlaga námið að breyttum áherslum samfélagsins. Háskólinn hefur ekki sinnt viðhaldi á fasteignum skólans á Laugarvatni undanfarin ár. Ekkert samtal var við fjárveitingavaldið til að koma til móts við Laugarvatn. Reiknireglan fyrir Laugarvatn miðast við að námið sé í Reykjavík. Allt þetta er gagnrýnivert en ekki popúlismi. Sérstaklega í ljósi þess að mikill stuðningur er við háskólanám í háskólaþorpinu Laugarvatni.

Fækkun nemenda hefur verið töluverð frá árinu 2010, eða frá því námið var lengt úr þremur árum í fimm. Fækkunin hefur þó ekki verið meiri í íþróttanámi en öðru kennaranámi. Aðrar kennaragreinar hafa komið verr út en íþróttakennaranám, þrátt fyrir að vera kenndar í höfuðborginni. Háskólinn hefur ekki gert greiningu á þessari fækkun hjá menntavísindasviði. Ljóst er því að fækkunin hefur ekkert með staðsetninguna að gera heldur kerfisbreytingar á kennaranámi almennt.

Málamyndagjörningur
Markmiðið var aldrei af hálfu Háskólans að halda náminu á Laugarvatni. Annars hefði verið ráðist í breytingar og eflingu á náminu á Laugarvatni líkt og gert var við leikskólakennaranám þegar skráning þar var hvað verst. Það var mikill áhugi heimamanna og velunnara námsins að fara í öfluga kynningu á náminu. Auðvitað hefði átt að vera í gangi alvöru samtal við Alþingi, Bláskógabyggð og háskólafélag Suðurlands, en ekki byrjað á því daginn eftir að ákvörðun Háskólaráðs var frestað, þó það hafi bara verið málamyndagjörningur.

Það er alfarið rangt hjá leiðarahöfundi að það sé einungis hægt að stunda íþróttakennaranám á Laugarvatni. Höfundur ætti að athuga heimasíðu Háskóla Reykjavíkur og endurskrifa greinina. Núna hins vegar verður ekki hægt að stunda íþróttakennaranám á landsbyggðinni. Einnig fer leiðarahöfundur ranglega með gæði náms á Laugarvatni, þar ætti hún að tala við rektor sjálfan enda námið mjög gott og mikil ánægja með það.

Ég fullyrði að nánast allir á Alþingi vilji stuðla að námi úti á landi samhliða uppbyggingu náms í höfuðborginni. Það virðist hins vegar ekki vera hægt í samstarfi við Háskóla Íslands. Háskólinn hefur rofið sátt um að Háskólinn eigi að vera Háskóli allra landsmanna.

Fréttamenn eiga að vera gagnrýnir á ákvarðanir og upplýsandi, ekki gagnrýnir á einstaka stjórnmálaflokka og taka afstöðu með eða á móti ákvörðunum. Það taldi ég vera markmiðið eða er markmiðið 101 Popúlismi?

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. febrúar 2016.