Categories
Greinar

Makrílfrumvarpið, kjarni málsins?

Deila grein

06/05/2015

Makrílfrumvarpið, kjarni málsins?

haraldur_SRGBÍ gildi eru lög um stjórn fiskveiða frá 2006 og lög frá 1996 um stjórn veiða á deilistofnum eins og makríl. Þeim verður að fylgja þar sem ekki hefur náðst samstaða um breytingar, hvorki við stjórnarandstöðu né við samstarfsflokkinn. Í þeim lögum kemur skýrt fram að útgerðir sem stunda veiðar á nýjum tegundum eignast rétt til veiða í samræmi við veiðireynslu.

-Áðurnefnd lög kveða á um að þegar veiðar eru takmarkaðar þá skuli úthluta veiðirétti til þeirra sem hafa stundað veiðar.

-Árið 2011 voru komin 3 ár og hefði þá átt að kvótasetja makrílinn samkvæmt áðurnefndum lögum og áliti umboðsmanns Alþingis.

-Í stað þess að setja makrílinn í kvóta með reglugerð, sem hefði fært stærstu útgerðaraðilunum megnið af kvótanum, er honum úthlutað til skemmri tíma með auka gjaldi upp á 1,5 milljarð á ári umfram hefðbundin veiðigjöld, auk þess að dreifingin á veiðiréttinum er meiri, t.d. til smábátaútgerða sem geta nú aukið veiðar á markíl á grunnslóð.

-Áfram gildir 1. ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða þar sem skýrt er tekið fram sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Ágreiningur hefur verið uppi um hvort ríkið geti tekið veiðiheimildir af núverandi kvótahöfum nema að það yrði gert yfir mjög langan tíma. Það er því ljóst að úthlutun á makríl til 6 ára er í því samhengi verulega stuttur tími.

-Framsókn hefur talað fyrir því að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

-Í frumvarpi ráðherra er gert ráð fyrir sérstöku veiðigjaldi á makríl sem er um 10 krónur á hvert kíló. Heyrst hafa gagnrýnisraddir um að gjaldið sé of lagt og of hátt. Sumir hafa gengið svo langt að telja að veiðigjald á makríl geti verið allt að fimm sinnum hærra. Horfa skal til þess að meðalverð á makríl til útgerða er um 60 krónur á kíló. Augljóst á að vera að útgerð sem á að greiða 90 krónur fyrir veitt kíló á makríl þarf að greiða með veiðunum 30 krónur á hvert og eitt kíló. Það er einfaldlega dæmi sem gengur aldrei upp.

-Líkt og áður segir eru lög í gildi um stjórn fiskveiða. Í þeim lögum er ekki að sjá að ríkið hafi heimild til að setja veiðiheimildir á markað sem útgerðir hafa stundað veiðar á í áratug. Myndu menn kjósa að breyta lögum um stjórn fiskveiða með þeim hætti að ríkinu væri heimilt að setja veiðirétt á uppboð, er ljóst að afleiðingarnar yrðu helst þær að enginn hvati væri til að taka fyrstu skref við veiðar á nýjum tegundum og að þeir sem fyrir eru sterkir í greininni munu hafa yfirgnæfandi forskot. Slíkt myndi leiða til óhemju mikillar samþjöppunnar í greininni og á landsbyggðinni allri.

-Fyrri ríkisstjórn hafði tækifæri til að breyta lögum með þeim hætti að löglegt væri úthluta veiðiheimildum á nýjum tegundum, eins og makríl, með öðrum hætti en núverandi lög kveða á um. Þegar litið er til fyrirliggjandi frumvarps og umræðu um að hlutdeildarsetja makríl í gamla kerfið til eins árs í senn og með því færa stærstu uppsjávarfyrirtækjunum nær allar veiðiheimildir á makríl, þá væri fundarheitið hjá Samfylkingunni í kvöld um „Markríll fyrir millana“ fyrst viðeigandi.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist á www.visir.is 7. maí 2015.

Categories
Fréttir

Matarsóun

Deila grein

06/05/2015

Matarsóun

ÞórunnÞórunn Egilsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins á Alþingi í gær, sóun á ýmsum verðmætum og minnti á að allsnægtirnar gefi okkur ekki leyfi til að fara illa með.
„Samkvæmt upplýsingum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er áætlað að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis. Þetta er álíka mikill matur og framleiddur er árlega í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Á sama tíma fer ein af hverjum sjö manneskjum í heiminum svöng að sofa og yfir 20 þús. börn deyja daglega úr næringarskorti,“ sagði Þórunn.
„Þessar staðreyndir endurspegla verulegt ójafnvægi þegar kemur að lífsstíl fólks sem aftur hefur stórfelld áhrif á umhverfið, meðal annars vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, land- og vatnsnotkunar og ýmissar mengunar sem hlýst af matarframleiðslu. Þetta virðist allt vera langt í burtu frá okkur en auðvitað er það ekki svo. Sem betur fer höfum við Íslendingar nú tekið þessi mál á dagskrá og reynt að spyrna fótum við matarsóun hér á landi. Haldnar hafa verið ráðstefnur og fundir á vegum ýmissa félagasamtaka eins og Kvenfélagasambands Íslands þar sem málefnið hefur verið tekið fyrir. Eins og fram hefur komið er umfang matarsóunar hér á landi því miður ansi mikið,“ sagði Þórunn.
Ræða Þórunnar Egilsdóttur:

Categories
Fréttir

„Svo virðist sem nokkur siðferðisbrestur þjaki stjórnendur fyrirtækisins“

Deila grein

06/05/2015

„Svo virðist sem nokkur siðferðisbrestur þjaki stjórnendur fyrirtækisins“

Þorsteinn-sæmundssonÞorsteinn Sæmundsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismenn, hafa lagt fram beiðni um að Ríkisendurskoðun annist úttekt á rekstri Isavia. Þetta kom fram í umræðum um störf þingsins á Alþingi í gær.
Beiðnin var lögð fram fyrir nokkrum vikum og verður rædd í dag á fundi forsætisnefndar þingsins.
„Svo virðist sem nokkur siðferðisbrestur þjaki stjórnendur fyrirtækisins. Þeir hafa gengið fram af fruntaskap í starfsmannamálum þannig að eftir hefur verið tekið. Þeir hafa notað skattfé almennings til að greiða niður árshátíð starfsmanna og stjórnenda í áður óþekktum mæli. Og nú síðast hafa þeir lagt sérstakan skatt á eina stétt sem stundar þjónustu við Leifsstöð, leigubílstjóra. Sá skattur nemur 120 þús. kr. á ári eða 15 þús. kr. á mánuði eða að menn borga tæpar 500 kr. í hvert einasta skipti sem farþegi er sóttur í Leifsstöð,“ sagði Þorsteinn.
„Það segir sig sjálft að það liggur ekki fyrir hvort þessi ráðstöfun stenst lög eða reglur. Það segir sig líka sjálft að það er ekki gæfulegt að leggjast á eina stétt þjónustuaðila þar syðra og láta hana greiða niður kostnað við rekstur þessa fyrirtækis. Í rekstri af þessari stærð hljóta að vera aðrar leiðir til að leita hagræðingar en sú að skattleggja þessa þjónustu. Þessi þjónusta mun þá væntanlega hækka líka fyrir þá sem nota hana, þ.e. farþega,“ sagði Þorsteinn ennfremur.
Ræða Þorsteins Sæmundssonar:

Categories
Greinar

Að kasta steini úr glerhúsi

Deila grein

05/05/2015

Að kasta steini úr glerhúsi

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁGÚSTHún var um margt athyglisverð grein bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í síðasta tölublaði Fjarðarpóstsins. „Jöfnum leikinn“ var yfirskrift greinarinnar sem skrifuð var í tilefni af baráttudegi verkafólks, 1. maí.

Um margt erum við sammála en farið er ansi frjálslega eða beinlínis ranglega með staðreyndir í umfjöllun um frumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra. Í greinni segir orðrétt: „Ekkert bólar á húsnæðisfrumvarpi velferðaráðherra á þeim tveimur árum sem hún hefur unnið að málinu.” Hér er ekki um einstakt frumvarp að ræða, heldur nokkur frumvörp. Það ættu allir þeir, sem hafa áhuga á að fara rétt með, að vita. Förum aðeins yfir málið.

Að hafa raunhæft val um búsetuform, er okkur öllum mikilvægt. Það er svo að sumir kjósa að eiga húsnæði, aðrir vilja leigja og enn aðrir kjósa að fara milliveginn, og búa í húsnæðissamvinnufélögum. Ef þetta raunverulega val, á að vera til staðar er nauðsynlegt að bregðast við og koma fram með frumvörp sem stuðla að úrbótum í þessum mikilvæga málaflokki. Þessi mál skipta stóran hóp einstaklinga í landinu miklu máli.

Gengið í málið
Í september 2013 skipaði Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnisstjórninni var falið að koma fram með tillögur um framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Þá var henni falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, m.a. með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa.

Verkefnastjórnin skilaði viðamiklum tillögum til félags- og húsnæðismálaráðherra í maí 2014 og núna tæpu ári síðar, hafa fjögur frumvörp komið fram sem byggja á tillögum verkefnisstjórnarinnar. Tvö þeirra hafa farið í gegnum 1. umræðu í þinginu og hefur nú verið vísað til afgreiðslu velferðarnefndar.

Þau fjalla um húsaleigulög og húsnæðissamvinnufélög. Tvö frumvörp eru enn í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu og mikilvægt er að þau komist þaðan sem fyrst. Þau frumvörp fjalla um stofnstyrki vegna uppbyggingar á leiguhúsnæði og auknar húsnæðisbætur til leigjenda.

Ekki byggt á sandi
Þegar félags- og húsnæðismálaráðherra mælti fyrir frumvörpunum um húsaleigulög og húsnæðissamvinnufélög, þá kom gagnrýni frá þingmanni Samfylkingarinnar, Kristjáni L. Möller. Hann gagnrýndi hversu langur tími hefur farið í að skrifa frumvörpin, sem hér um ræðir.

Auðvitað er það svo að frumvörpin hefðu gjarnan mátt koma fyrr inn í þingið. En til að gæta allrar sanngirni, þá verður það að koma fram að mikið samráð var innan velferðarráðuneytisins við vinnslu frumvarpanna. Ástæðan er jafnframt sú að við höfum lært af reynslunni og hversu miklu máli skiptir að vanda sig í þessum stóru málum. Við vonum jafnfram að þingmaðurinn hafi lært af reynslunni og hversu mikilvægt það sé að byggja ekki upp óraunhæfar tillögur, sem eru byggðar upp á sandi.

Staðreyndir upp á borðið
Vegna gagnrýninnar þá er rétt að rifja upp nokkrar staðreyndir, svona til að hafa hlutina uppi á borðinu. Þingmenn Samfylkingarinnar voru ráðherrar í félagsmálaráðuneytinu, síðar velferðarráðuneytinu árin 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og fram að kosningum árið 2013. Á þessu tímabili voru skipaðar þrjár nefndir sem vinna áttu tillögur að bættu húsnæðiskerfi.

Engin frumvörp komu  fram sem byggð voru á vinnu þessara nefnda, það voru ekki einu sinni til drög að frumvörpum er vörðuðu efnið.  Að þingmaður Samfylkingarinnar gagnrýni núverandi ríkisstjórn fyrir seinagang í þessum málum, kemur úr hörðustu átt. Samfylkingin hafði hátt í 7 ár til að bregðast við þessum málum, en ekkert gerðist. Gunnar Axel, er einn af höfundum greinarinnar ,,Jöfnum leikinn“ og oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Jafnframt var hann um tíma aðstoðarmaður Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra, á síðasta kjörtímabili. Honum ætti því að vera fullkunnugt um þessi mál og ætti að hafa getu til að ræða um þau af heilindum og fagmennsku en ekki vera með ómerkilegar tilraunir til að slá ryki í augu fólks. Samfylkingin er því að kasta steinum úr glerhúsi í þessu máli. Á það nokkuð við um fleiri mál?

Elsa Lára Arnardóttir og Ágúst Bjarni Garðarsson

Greinin birtist í www.visir.is 5. maí 2015.

Categories
Greinar

Forgangsröðum í þágu velferðar

Deila grein

05/05/2015

Forgangsröðum í þágu velferðar

Elsa-Lara-mynd01-vefurFlokksþing Framsóknarflokksins fór fram um miðjan apríl. Þingið var afar vel heppnað og þátttaka félagsmanna mjög góð. Ánægjulegt var að hitta félagsmenn, sem komu víðsvegar af landinu og tóku þátt í málefnavinnu flokksins, í hinum ýmsu málefnahópum. Á þinginu kom skýrt fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar,  ætti að halda sínu góða verki áfram og forgangsraða í þágu velferðar. Vert er að geta þess að í síðustu fjárlögum fór ríflega 40 % af öllum útgjöldum ríkissjóðs til velferðar – og heilbrigðismála. Má þar m.a. nefna að barnabætur hækkuðu um 1,3 milljarð, húsaleigubætur hækkuðu um 400 milljónir, útgjöld til almannatrygginga hækkuðu um 10 milljarða og 150 milljónir fóru í auknar niðurgreiðslur á lyfjakostnaði.  Auk þessa hefur aldrei jafn mikið fjármagn verið sett inn í rekstur Landspítala og framlög til reksturs heilbrigðisstofnana jukust um 2 milljarða á milli ára. Óhætt er að segja að margt hafi verið vel gert í velferðar – og heilbrigðismálum, og þannig verðum við að halda áfram. Málefnin eru mörg sem vinna þarf að og margar stórar áskoranir bíða handan við hornið. Í því samhengi getur verið afar gagnlegt að líta í skýrslu Velferðarvaktarinnar, sem skilað var til félagsmálaráðherra fyrir nokkru síðan.

Styðjum við barnafjölskyldur

Í fjárlögum fyrir árið 2015 hækkuðu barnabætur um 1,3 milljarð á milli ára. Þessi aukning skilaði sér að mestu til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar, enda var það markmið hækkunarinnar. Þetta var vel gert en nauðsynlegt er að horfa fram á veginn og halda góðu verki áfram. Ef horft er til skýrslu Velferðarvaktarinnar þá kemur þar fram að mikilvægt sé að styrkja vel við tekjulágar barnafjölskyldur, með því að einfalda og efla bótakerfið sem tekur til barnafjölskyldna. Það er m.a. hægt með því að greiða ótekjutengdar barnabætur og að auki tryggja barnafjölskyldum, í formi barnatryggingar, tilgreinda lágmarksframfærslu óháð því hvaðan tekjur fjölskyldunnar koma. Tillögur Velferðarvaktarinnar eru þær að stjórnvöld skipi starfshóp, til að ná fram samstöðu um þessar tillögur.

Lágmarksframfærslan, hver er hún?

Í skýrslu Velferðarvaktarinnar kemur fram að nauðsynlegt sé að stjórnvöld skilgreini lágmarksframfærsluviðmið. Því er mikilvægt að ríki og sveitarfélög, ásamt ýmsum hlutaðeigandi aðilum, vinni saman að því að ná víðtækri samstöðu um hvaða viðmið eigi að liggja að baki þegar ákvarðanir um lágmarksbætur eru teknar. Þessar tillögur hafa nokkurn samhljóm við fyrsta þingmannamál Framsóknarflokksins á þessum þingvetri. En það var að leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis, að fela félags – og húsnæðismálaráðherra, að hefja útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Samkvæmt tillögunni skal vinna útreikningana í samráði við hlutaðeigandi aðila, má þar m.a. nefna ríki og sveitarfélög. Lagt er til að gerð verði könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna í landinu. Þessi raunframfærslukostnaður verði síðan nýttur til að finna út lágmarksneysluviðmið. Þingsályktunartillagan er nú í efnislegri meðferð inni í velferðarnefnd þingsins.

Gjaldfrjáls grunnþjónusta

Í skýrslu Velferðarvaktarinnar kemur fram að standa þurfi vörð um velferðarþjónustu og menntakerfið með því að hafa lögbundna þjónustu gjaldfrjálsa. Á það sérstaklega við um grunnþjónustu við börn svo barnafjölskyldur standi ekki frammi fyrir óvæntum og óyfirstíganlegum útgjöldum vegna þeirra þátta. Þessi tillaga Velferðarvaktarinnar er í algjöru samræmi við ályktun flokksþings Framsóknarmanna en þar segir að standa þurfi vörð um hagsmuni barna, með því að hafa lögbundna þjónustu gjaldfrjálsa.

Allir þurfa þak yfir höfuðið

Allir þurfa að eiga öruggt heimili og mikilvægt er að börn búið við trygg húsnæðismál til lengri tíma. Samkvæmt tillögum Velferðarvaktarinnar þarf að taka upp nýtt kerfi, húsnæðisbætur, sem hafi það að markmiði, að jafna stöðu leigjenda, búseturéttarhafa og eigenda vegna húsnæðiskostnaðar.  Afar ánægjulegt er að sjá þann samhljóm sem birtist í þessum tillögum við tillögur framsóknarmanna í húsnæðismálum.  Frumvarp þessa efnis er á þingmálaskrá félags – og húsnæðismálaráðherra. Umrætt frumvarp er nú í kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu og bíður niðurstöðu útreikninga. Þegar frumvarpið verður að lögum þá mun það, án efa, hafa jákvæð efnahagsleg áhrif á stuðning við þær fjölskyldur sem eru á leigumarkaði. Því er mikilvægt að málið nái fram að ganga, sem allra fyrst.

Við hljótum öll að vera sammála um að gera vel í velferðarmálum. Okkur greinir kannski á um leiðir en látum það ekki trufla okkur. Gleðjumst yfir þeim áföngum sem við höfum náð um leið og við undirbúum næstu skref, til að gera enn betur. Forgangsröðum í þágu velferðar.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 5. maí 2015.

Categories
Greinar

Stöðugleiki tryggir aukna velferð

Deila grein

02/05/2015

Stöðugleiki tryggir aukna velferð

Sigmundur-davíðAlþjóðlegur baráttudagur verkafólks hefur verið haldinn hátíðlegur á Íslandi í yfir 90 ár. Dagurinn er helgaður baráttu og samstöðu verkafólks fyrir bættum kjörum og réttlátara samfélagi. Þessi barátta hefur skilað verkafólki og raunar öllu launafólki miklum ávinningi í gegnum tíðina og átt drjúgan þátt í því að tekist hefur að skapa gott samfélag.

Þó lífskjör séu hér almennt góð og alþjóðlegur samanburður sýni mjög sterka stöðu Íslands á nær öllum sviðum hefur gengið erfiðlega að skapa hér stöðugt efnahagsumhverfi til lengri tíma. Mikil orka hefur farið í deilur á vinnumarkaði, stundum til að ræða skiptingu á því sem ekki hefur verið til. Þeirri orku væri betur varið í það að skapa meira til skiptanna. Samtökum á vinnumarkaði og ríkinu hefur ekki tekist að sameinast um aðgerðir til framleiðniaukningar til að ná því markmiði. Þar getum við tekið aðrar Norðurlandaþjóðir okkur til fyrirmyndar.

Innistæðulausir tékkar
Aukin velferð almennings er stærsta verkefni stjórnmálanna á hverjum tíma. Um nokkurt skeið hefur staða þjóðarbúsins verið að batna og kjaraviðræður taka mið af því. Sem betur fer er nú eitthvað til skiptanna og kaupmáttur hefur vaxið óvenju hratt. Verkefni samningsaðila er að skipta með sér ávinningi með réttlátum hætti, en ekki að gefa út innstæðulausa tékka sem færa okkur aftur í tímann og rýra lífskjör. Ríkisstjórnin vill forðast samninga sem geta leitt til verðbólgu og trúir því að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur séu sama sinnis.

Hátíðahöldin í dag eru haldin við óvenjulegar aðstæður. Verðbólga er lág, kaupmáttur hefur aukist, hagvöxtur er umtalsverður og atvinnuleysi lítið. Á hinn bóginn hvílir yfir deginum skuggi vinnudeilna og verkfalla. Þau eru nú þegar skollin á og í undirbúningi eru frekari verkföll sem lamað geta þjóðfélagið undir lok mánaðarins. Mikil ábyrgð hvílir því á atvinnurekendum, verkalýðshreyfingunni og stjórnvöldum. Allir ættu að vera meðvitaðir um afleiðingar þess fyrir samfélagið ef gerðir verða samningar sem leiða til víxlverkunar launa og verðlags. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að finna lausn sem skapar réttláta dreifingu þeirra auknu verðmæta sem eru að verða til. Ríkisstjórnin ítrekar vilja sinn til að liðka fyrir gerð slíkra samninga.

Ég sendi öllu launafólki í landinu góðar kveðjur á baráttudegi verkafólks.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. maí 2015.

Categories
Fréttir

„Eins og að kasta steini úr glerhúsi“

Deila grein

30/04/2015

„Eins og að kasta steini úr glerhúsi“

Elsa-Lara-mynd01-vefurElsa Lára Arnardóttir, alþingismaður, minnti Samfylkinguna á að hún verði nú að gæta allrar sanngirni í gagnrýni á hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, á Alþingi.
„Þingmenn Samfylkingarinnar voru ráðherrar í félagsmálaráðuneytinu, síðar velferðarráðuneytinu, árin 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og fram að kosningum árið 2013. Á því kjörtímabili sem nú er hefur hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir verið félags- og húsnæðismálaráðherra og þegar hún kom inn í ráðuneytið og byrjaði að vinna að frumvörpum er varða bættan leigumarkaði kom fram að það voru ekki til nein frumvörp er varða bættan leigumarkað frá þeim árum sem upp voru talin áðan, ekki einu sinni drög að frumvörpum þessa efnis,“ sagði Elsa Lára.
Tilefni þessara orða Elsu Láru var gagnrýni Kristjáns L. Möller, alþingismanns, hversu langur tími hafi nú liðið frá því að verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála hafi skilað af sér eða rétt tæpt ár. En nú eru tvö af fjórum húsnæðisfrumvörpum Eyglóar, húsaleigulög og húsnæðissamvinnufélög, komin til velferðarnefndar.
„Til að gæta allrar sanngirni í umræðunni verður að koma fram að mikið samráð var innan velferðarráðuneytisins við vinnslu frumvarpanna. Þar komu fram mismunandi sjónarhorn frá mörgum aðilum sem horfa þurfti til,“ bætti Elsa Lára við.
„Síðasta kjörtímabil var fjögur ár eins og flest önnur kjörtímabil hingað til. Að hæstvirtur þingmaður gagnrýni núverandi ríkisstjórn fyrir seinagang í þessum málum kemur úr hörðustu átt, það er eins og að kasta steini úr glerhúsi,“ sagði Elsa Lára.
Ræða Elsu Láru Arnardóttur:

 

Categories
Fréttir

95% húsnæðis á Íslandi óaðgengileg hjólastólum

Deila grein

30/04/2015

95% húsnæðis á Íslandi óaðgengileg hjólastólum

haraldur_SRGBHaraldur Einarsson, alþingismaður, vakti máls á heimsóknum talsmanna hreyfihamlaðra á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í síðustu viku á Alþingi.
„Í minnisblaði, sem nefndin fékk, kom fram að 95% húsnæðis á Íslandi eru óaðgengileg hjólastólum en á sama tíma eru 65% húsnæðis á jarðhæð. Einnig kom fram að við verslunargötur er aðgengið undir 10% fyrir fólk í hjólastólum. Þá var sérstaklega nefnt að á þjónustu- og veitingastöðum væri þessu ábótavant,“ sagði Haraldur.
Aðgengismál hefur verið í umræðunni undanfarið, þá helst aðgengi fólks í hjólastólum að opinberum byggingum og var farin hringferð um landið þar sem aðgengi hjólastóla að opinberum byggingum var athugað.
Það er mikilvægt að ná að skýra eftirlitsþáttinn betur og koma honum í almennilegt ferli. Eftirlit er á hendi sveitarfélaga eða byggingarfulltrúa og því ekki hægt aðeins skella ábyrgðinni á eiganda húsnæðis.
Ræða Haraldar Einarssonar:

Categories
Greinar

Hvati til sparnaðar

Deila grein

29/04/2015

Hvati til sparnaðar

Elsa-Lara-mynd01-vefurSparnaður er mikilvægur fyrir okkur öll, sama hvort við reynum að spara fyrir hlutum sem okkur langar til að eignast, eða þegar við söfnum okkur fyrir útborgun í stærri hluti, eins og t.d. húsnæði.

Það er staðreynd að undanfarin ár hafa margir átt erfitt með að ná endum saman, hvað þá að hafa eitthvað auka fjármagn til að leggja til hliðar. Auk þessa hefur hvati til sparnaðar, ekki verið til staðar.

Í mars s.l. lagði ég fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt frumvarpinu eiga þeir sem leggja fé til hliðar vegna húsnæðiskaupa, húsnæðisbygginga eða verulegra endurbóta á húsnæði rétt á sérstökum skattaafslætti. Afslátt upp á  20% af innleggi hvers tekjuárs, en þó aldrei hærri fjárhæð en 200 þúsund krónur. Ef frumvarpið nær fram að ganga, þá kemur það til viðbótar öðrum opinberum úrræðum, sem eiga að auðvelda fólki að eignast húsnæði. Þar má m.a. nefna húsnæðissparnað í gegnum séreignasparnað, sem er eitt af úrræðum núverandi ríkisstjórnar í málefnum heimilanna.  Hugsunin á bak við þetta frumvarp, sem núna er lagt fram, er að einstaklingar og fjölskyldur hafi raunhæft val um leiðir til sparnaðar í húsnæðismálum. Samkvæmt frumvarpinu er hægt að ákveða upphæð sem lögð er inn mánaðarlega, sem getur verið mismunandi milli einstaklinga. Getur farið eftir efnahag og svigrúmi hvers og eins.

Samkvæmt frumvarpinu verður sparnaðurinn lagður inn á sérstakan húsnæðissparnaðarreikning, og getur hver maður aðeins átt einn slíkan reikning. Reikningarnir skulu vera bundnir til 10 ára frá þeim tíma er fyrst var lagt inn á reikninginn. Færi reikningseigandi sönnur á kaup íbúðarhúsnæðis til eigin búsetu, eða að hafin sé bygging, eða verulegar endurbætur sem nemi a.m.k. 20% af fasteignamati slíks húsnæðis, skal heildarinneignin vera honum laus til ráðstöfunar að því marki sem nemur kostnaði vegna þessa, enda séu þá full tvö ár liðin frá því að sparnaður hófst.

Lagt er til að reglubundinn sparnaður til húsnæðisöflunar sem stofnað er til fyrir 34 ára aldur í formi samningsbundinna innlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum veiti reikningseiganda skattafslátt innan vissra marka. Sparnaðurinn verði að lágmarki bundinn í tvö ár ef viðkomandi sýnir með óyggjandi hætti fram á öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þar með talið búseturéttar, eða að hafin sé bygging eða verulegar endurbætur slíks húsnæðis, en annars verði heildarinneignin laus til frjálsrar ráðstöfunar að liðnum tíu árum. Tilgangur frumvarpsins er jafnframt sá að hvetja til almenns sparnaðar vegna eigin fjárframlags til öflunar íbúðarhúsnæðis.

Sams konar átak var gert með lögum nr. 49/1985 um húsnæðissparnaðarreikninga sem eru fallin úr gildi, en af þeim er tekið mið í þessu frumvarpi, þó með nokkrum breytingum. Munurinn felst m.a. í því að í þessu frumvarpi eru ekki eins ítarleg ákvæði um form og efni þeirra samninga sem um ræðir. Þess í stað er fjármálaráðherra falið að setja nánari reglur bæði um form og efni sem ætla verður að hann geri að höfðu samráði við Samtök fjármálafyrirtækja og aðra hlutaðeigandi aðila. Einnig er lagt til að vaxtatekjur af umræddum reikningum verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að börn undir 16 ára aldri sem ekki teljast sjálfstæðir skattaðilar geti notið skattafsláttarins og jafnframt að því sem óráðstafað er verði ráðstafað til framfærenda þess að jöfnu séu framfærendur tveir.

Innstæða á húsnæðissparnaðarreikningi er undanþegin aðför skuldheimtumanna. Við andlát innstæðueiganda rennur innstæðan til dánarbúsins án bindingar.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 24. apríl 2015.

Categories
Fréttir

Reglulegt millilandaflug um flugvöllinn á Akureyri og á Egilsstöðum

Deila grein

28/04/2015

Reglulegt millilandaflug um flugvöllinn á Akureyri og á Egilsstöðum

líneikLíneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi skipan starfshóps, sem er ætlað að kanna hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi, um flugvöllinn á Akureyri og á Egilsstöðum, á Alþingi á dögunum.
„Á síðustu árum hefur töluverður þróunarkostnaður verið lagður í að koma á millilandaflugi til og frá Norður- og Austurlandi. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar og mikil þekking liggur fyrir. Í kringum báða flugvellina eru í gangi klasaverkefni með aðkomu sveitarfélaga og fyrirtækja sem miða að því að koma á millilandaflugi, auk þess sem samstarf er á milli landshlutanna. Þessi vinna hefur ekki enn skilað reglulegu flugi, en mikilvægt er að byggja á þeirri þekkingu og reynslu sem þarna er. Eins er mikilvægt að byggja á þeirri þekkingu sem orðið hefur til í kringum reglulegar ferjusiglingar til Austurlands í áratugi,“ sagði Líneik Anna.
„Tæp milljón ferðamanna kom til Íslands með flugi á síðasta ári og spár gera ráð fyrir mikilli fjölgun á næstu árum. Mikill meiri hluti erlendra ferðamanna heimsækir einungis suðvesturhorn landsins eins og við vitum og aðrir landshlutar njóta fjölgunarinnar í minna mæli. Með aukinni dreifingu ferðamanna um landið má dreifa álagi á náttúru og innviði en um leið skapa tækifæri fyrir fleiri landshluta til að byggja upp víðtækari þjónustu allt árið um kring og styrkja innviði.“
Ræða Líneikar Önnur Sævarsdóttur: