Categories
Greinar Sandgerði og Garður

Það þarf þorp til að ala upp barn

Deila grein

21/05/2018

Það þarf þorp til að ala upp barn

Mikilvægt er fyrir æsku þessa lands að fá að stunda tómstundir eftir skóla sem tekur mið af áhugasviði hvers og eins. Við viljum að öll börn geti stundað tómstundir óháð fjárhag foreldra. Við höfum skilning á því að áhugasvið barna og ungmenna eru ólík og vitum að margir sækja tómstundir utan sveitarfélagsins.

Hvatastyrkur hefur verið í boði fyrir börn í Sandgerði og Garði í þó nokkurn tíma og hefur það reynst vel fyrir ákveðin hóp barna. Betur má ef duga skal því sú upphæð sem hvert barn fær til ráðstöfunar nægir ekki fyrir þeim tómstundum sem eru í boði. Nauðsynlegt er að hækka þessa upphæð umtalsvert þar sem ekki eru öll börn með sömu áhugamál og er mjög misjafnt hversu mikinn kostnað foreldrar þurfa að leggja út til að borga fyrir æfingar og kennslu. Ekki á að skipta máli hvar barnið kýs að stunda sínar tómstundir heldur á lögheimili barnsins að veita því rétt á endurgreiðslu.

Við hjá B-listanum viljum hækka hvatastyrkinn allverulega þannig að hann sé í takti við þau gjöld sem tekin eru fyrir viðkomandi tómstundanám eða þjálfun. Bæjarfélagið þarf að hlúa að æskunni og vera raunverulegur stuðningur á meðan börn og unglingar hafa áhuga á að efla andlegan og líkamlegan þroska.

Í æskunni er framtíð landsins fólgin. Okkar er ábyrgðin að sú framtíð verði björt.

Álfhildur Sigurjónsdóttir

Höfundur situr í 2. sæti B-lista Framsóknar og óháðra í Sandgerði og Garði.

Categories
Greinar Sandgerði og Garður

Gott má gera betra

Deila grein

21/05/2018

Gott má gera betra

Með sameiningu sveitarfélaga aukum við getu þeirra til að bæta þjónustu við íbúa. Samstarf á milli skólanna verður til þess að við lærum hvert af öðru og getum tileinkað okkur það sem vel er gert hjá hinum.

B-listinn leggur áherslu á að bæta umgjörð grunnskóla- og leikskóla enda teljum við alltaf vera rými til þess, því það má alltaf gera gott betra. Við viljum að skólarnir standi jafnfætis á öllum sviðum og munum beita okkur fyrir því að bæta skólastarf og tryggja nemendum bestu mögulegu menntun.

Í dag eru bæði Garður og Sandgerði að kaupa sér þjónustu frá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar og greiða fyrir það háar upphæðir. Við viljum opna okkar eigin skrifstofu til þess að þjónusta íbúa okkar betur en gert er í dag. Öllum ætti að vera ljóst að þennan málaflokk þarf að bæta.

Í dag getur tekið allt að tveimur árum að fá greiningu fyrir barn. Það er bið sem við teljum óásættanlega. Með eigin fræðsluskrifstofu getum við bætt þjónustuna og stytt biðina.

Við hjá B-listanum viljum veita nemendum okkar þjónustu við hæfi og góðan grunn í menntun. Þeir þurfa að vera í stakk búnir að halda áfram í framhaldsnám við útskrift hvort sem það er verklegt eða bóklegt og tryggja þannig velferð sína til framtíðar.

Erla Jóhannsdóttir

Höfundur situr í 4. sæti B-lista Framsóknar og óháðra í Sandgerði og Garði.

Categories
Greinar Sandgerði og Garður

Nýtt upphaf

Deila grein

14/05/2018

Nýtt upphaf

Þann 11. nóvember síðastliðinn urðu kaflaskipti í lífi Garðbúa og Sandgerðinga. Við tókum þá ákvörðun um að sameinast í eitt öflugt sveitarfélag. Þennan laugardag varð strax ljóst að breytinga væri að vænta. Breytingum fylgja sóknarfæri og við B-lista fólk viljum fá að vera í fararbroddi í þeirri sókn. Við erum með skýra framtíðarsýn á verkefnin framundan og höfum samvinnu að leiðarljósi.

Samvinna við mótun nýs sveitarfélags

Íbúar í okkar nýja sveitarfélagi eiga það skilið að tilvonandi sveitastjórnarfólk vinni þétt saman að mikilvægum málum, eins og fræðslu- og öldrunarmálum, dagvistun, skipulags- og menningarmálum, svo eitthvað sé nefnt. Að mati okkar hjá B-listanum er ótímabært að langir loforðalistar detti inn um bréfalúgu íbúa þar sem öllu fögru er lofað. Við setjum okkur markmið og leggjum fram ákveðan framtíðarsýn. Líklega hefur enginn af tilvonandi sveitastjórnarfólki áður tekið þátt í að sameina sveitarfélög. Það verkefni er afar spennandi áskorun og tækifæri til að bæta þjónustu við íbúa og þróa okkar góða samfélag til framtíðar.

Aðkoma íbúa að ákvörðunum

Tölurnar sýna að hið nýja sveitarfélag verði með um 250.000 milljónir króna til umráða til nýframkvæmda fyrir árið 2019. Að mati okkar hjá B-listanum er mikilvægt að íbúar komi að ákvarðanatöku um hvernig verkefnum verði forgangsraðað og fjármunum til þeirra úthlutað. Það gerum við með íbúakosningum.

Aukum lífsgæði eldri borgara

Við vitum öll að sveitarfélögin hafa ekki gert nóg í málefnum aldraða. Nú er tækifæri að gera betur í þeim efnum. Við hjá B-listanum viljum auka heimaþjónustu við aldraða, bjóða uppá fjölbreyttara félagsstarf, bæta akstursþjónustu og margt fleira sem eykur lífsgæði eldri borgara. En heilsugæsla í heimabyggð er líka eitt af þeim verkefnum sem við B-lista fólk ætlum að beita okkur sérstaklega fyrir.

Nýtt upphaf er á næsta leyti. Framsókn og óháðir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að gera gott samfélag ennþá betra fyrir okkur öll. Við biðjum um þinn stuðning til þess.

Daði Bergþórsson, oddviti B-lista Framsóknar og óháðra í Sandgerði og Garði.

Categories
Greinar Sandgerði og Garður

Blessað barnalán eða ?

Deila grein

11/05/2018

Blessað barnalán eða ?

Hjón ein komast að því að fjölgunar sé að vænta í fjölskyldunni. Mikil gleði ríkir og lífið brosir við þeim. Bæði eru þau í góðri vinnu og allt er eins og best verður á kosið. Þegar líður á meðgönguna koma upp áleitnar spurningar. Hvað á að gera við barnið þegar móðirin þarf að fara í vinnu eftir fæðingarorlof? B-listinn vill stofna ungbarnaleikskóla til að mæta þessari þörf.

Það er sorglegt í okkar samfélagi að foreldrar geti ekki verið saman á þessum tíma þegar nýr erfingi kemur í heiminn. Mikil óvissa er um hvert sé hægt að leita þegar móðirin þarf að snúa aftur til starfa eftir fæðingarorlof. Mikill tími fer í að skipuleggja fæðingarorlof beggja foreldra svo hægt verði að brúa bilið þar til krílið kemst á leikskóla. Oftar en ekki frestar faðirinn sínu fæðingarorlofi og jafnvel sumarfríi svo hægt sé að brúa þetta bil.

Nokkur dæmi eru um að mæður hafi þurft að segja upp vinnu sinni þar sem fá úrræði eru í boði. Hér í sameiginlegu sveitarfélagi er ein dagmamma sem vitað er um og er hún augljóslega mjög umsetin.
Það er löngu orðið tímabært að komið sé til móts við þennan hóp fólks og að stofnaður verði ungbarnaleikskóli fyrir börn frá 9 mánaða aldri til 2 ára.

Við sem stöndum að B-listanum höfum brennandi áhuga á þessum málaflokki og stöndum heilshugar saman í þeim vilja að gera ungbarnaleikskóla í nýju bæjarfélagi að veruleika.

Álfhildur Sigurjónsdóttir, 2. sæti B-lista Framsóknar og óháðra í Sandgerði og Garði

Categories
Fréttir Sandgerði og Garður

Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Garði og Sandgerði

Deila grein

03/04/2018

Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Garði og Sandgerði

B-listi Framsóknar og óháðra í sameiginlegu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis hefur verið samþykktur vegna sveitarstjórnarkosninganna þann 26. maí næstkomandi. Á listanum eru 10 konur og 8 karlar, þar af eru 3 konur í efstu 4 sætum listans segir í fréttatilkynningu, en núverandi bæjarfulltrúi B-listans í Sandgerði, Daði Bergþórsson, leiðir listann.
Í öðru sæti er Álfhildur Sigurjónsdóttir, varabæjarfulltrúi og tollmiðlari, og í því þriðja er Thelma Dögg Þorvaldsdóttir, myndlistarkennari. Í heiðurssæti listans er Guðmundur Skúlason, bæjarfulltrúi, en hann hefur leitt B-listann í Sandgerði frá árinu 2010.
„Ég er gífurlega ánægður með þennan fjölbreytta og vel skipaðan framboðslista. Málefnavinna er að fara í gang og hvetjum við alla áhugasama bæjarbúa að taka þátt í því með okkur“, segir Daði Bergþórsson oddviti B-lista Framsóknar og óháðra.
„Mikil tilhlökkun og gleði er ríkjandi í framboðshópnum og vilji til að fylgja eftir sameiningu Garðs og Sandgerðis með mikilli og góðri uppbyggingu og gera gott samfélag enn betra. Ég fer bjartsýnn inní baráttuna og vongóður um góða niðurstöðu.“
Framboðslisti Framsóknar og óháðra í Garði og Sandgerði:

  1. Daði Bergþórsson, bæjarfulltrúi og deildarstjóri
  2. Álfhildur Sigurjónsdóttir, varabæjarfulltrúi og tollmiðlari
  3. Thelma Dögg Þorvaldsdóttir, myndmenntakennari
  4. Erla Jóhannsdóttir, grunnskólakennari
  5. Eyjólfur Ólafsson, varabæjarfulltrúi og rafeindavirkameistari
  6. Úrsúla María Guðjónsdóttir, laganemi
  7. Guðrún Pétursdóttir, flugverndarstarfsmaður
  8. Unnar Már Pétursson, vaktstjóri
  9. Jóna María Viktorsdóttir, þjónustufulltrúi
  10. Jónas Eydal Ármannsson, framhaldsskólakennari
  11. Aldís Vala Hafsteinsdóttir, viðskiptafræðinemi
  12. Sigurjón Elíasson, tækjastjóri
  13. Berglind Mjöll Tómasdóttir, varabæjarfulltrúi og vaktstjóri
  14. Bjarki Dagsson, kerfisstjóri
  15. Hulda Ósk Jónsdóttir, verkstjóri
  16. Jón Sigurðsson, bóndi
  17. Ólöf Hallsdóttir, húsmóðir
  18. Guðmundur Skúlason, bæjarfulltrúi og aðstoðarvarðstjóri