FRAMSÓKNARMENN OG FÉLAGSHYGGJUFÓLK Í DALVÍKURBYGGÐ

 

Facebooksíða ∣ Stefnuskrá ∣ Framboðslisti ∣ Úrslit 2014

* * *

Frá B-lista. Áfram veginn!

Ef þú, kjósandi góður, mundir staldra við uppi á Hámundarstaðarhálsi, horfa til allra átta og ímynda þér að hér væri engin byggð. Engar blómlegar jarðir með lömb í haga, engir bleikir akrar eða slegin tún. Engar víkur með húsaþyrpingum og bátum í höfn. Eftir sem áður stæði landið fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar. En ekkert skvaldur, engin hlátrasköll eða börn að leik, ekkert fólk.

Það sem gerir byggðarlagið okkar að samfélagi eru íbúarnir. Hér er iðandi mannlíf til sjávar og sveita. Hér er blómstrandi atvinnu-og menningarlíf. Í Dalvíkurbyggð er aftur að fjölga fólki og nýjar byggingar rísa. Hér ríkir bjartsýni og jákvæðni.

Okkar stærsta auðlind í Dalvíkurbyggð er fólkið. Hér gengur hver maður undir annars hönd til að láta vélina ganga smurt. Allir eru mikilvægir hlekkir í keðjunni. Já, mannauðurinn í Dalvíkurbyggð gerir okkur svo sannarlega rík.

Á fjögurra ára fresti göngum við til kosninga til sveitarstjórnar. Við kjósum fólk til að vinna að framfaramálum byggðarlagsins, móta stefnur til framtíðar og framfylgja samþykktum sveitarstjórnar. Við kjósum fólk til ábyrgðar fyrir sveitarfélagið, fyrir okkur.

Við á B-lista Framsóknar-og félagshyggjufólks höfum fundað víða og kynnt stefnumál okkar bæði í ræðu og riti. Við þökkum kærlega fyrir góðar undirtektir við okkar málflutningi. Við þökkum fyrir nytsamlegar ábendingar og líflegar umræður. Við viljum að samfélagið okkar blómstri og þróist sífellt til betri vegar okkur öllum til heilla. Við viljum hlusta á íbúana, unga sem aldna. Við viljum vinna fyrir ykkur.

Við óskum eftir víðtækum stuðningi í kosningunum laugardaginn 26.maí. Með því að setja X við B eru auknar líkur á því að B-listinn verði leiðandi afl eftir kosningar. Við teljum það afar brýnt og heitum því að vinna af heilindum og metnaði fyrir byggðarlaginu og íbúum þess. Setjum X við B á kjördag. Áfram veginn – XB

Katrín Sigurjónsdóttir, oddviti B-lista Framsóknarmanna og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð.

* * *

Ágætu sveitungar!

Nú líður að kosningum og þá er farið yfir öll mál sveitarfélagsins því nýtt fólk mun koma í sveitastjórn. Það er gaman að hitta fólk, fara yfir áherslur á málum, finna mismunandi skoðanir fólks og einnig hversu stutt er á milli  afstöðu fólks þegar öll rök eru lögð á borðið.

Hér ætla ég aðeins að koma inn á íþrótta- og æskulýðsmálin. Í dag er fjárhagsstaða sveitarfélagsins nokkuð góð og hægt að fara í framkvæmdir.  Því ætlum við að hefja undirbúning að gervigrasvelli og til að ljúka við hann þarf að vinna þetta á tiltölulega stuttum tíma, eðli málsins samkvæmt. Áætlað er að ljúka framkvæmdum við hann næsta sumar.

Í Dalvíkurbyggð er mjög fjölbreytt svið íþrótta- og útivistarafþreyingar: fótbolti, skíði, golf og hestaíþróttir, sem hafa  þó nokkra veltu fjárhagslega og mörg smærri, svo sem blak, sund, fimleikar, starfsemi ungmennafélagana á Árskógsströnd og Svarfaðardal, ferðafélög og Björgunarsveitina.  Nokkrar greinar eru til viðbótar minna stundaðar núna og alltaf einhverjar nýjar í farvatninu. Blakarar eru að koma upp strandblaksvelli við Íþróttamiðstöðina og svo er komin fjölnota hjólabraut við skólann. Síðan er hugmynd að koma upp mótorkrossbraut. Einnig hefur átakið Heilsueflandi Dalvíkurbyggð stuðlað að hreyfingu meðal almennings án endurgjalds.  Af þessari upptalningu sést að margir njóta stuðnings frá Dalvíkurbyggð.

Ég hef verið þrjú kjörtímabil í Íþrótta- og æskulýðsráði og hefur verið gaman að fylgjast með hve margir eru að leggja mikið á sig í sjálfboðavinnu fyrir félögin. Þegar styrkbeiðnir koma á borð okkar, þar sem mikil sjáfboðavinna fylgir, er miklu jákvæðara að samþykkja þær en hinar þar sem allt á að þiggja en lítið að láta á móti.

Við getum verið stolt af öflugu starfi og viljum vera það áfram.  Gaman væri að íbúarnir tækju meiri þátt í fleiru eins og þeir gera í kosningu á íþróttamanni Dalvíkurbyggðar ár hvert.

Þegar allt kemur til alls viljum við sanngjarna skiptingu gæða milli allra og að nýting á fjármagni sé sem best.  Stórar og miklar yfirlýsingar og loforð duga skammt ef illa árar.  Ég ólst upp við notkun á einfaldri setningu: „Eyddu minna en þú aflar“.  Þetta hef ég til hliðsjónar í mínu starfi og einnig í okkar sveitarfélagi.

Jón Ingi Sveinsson

Höfundur situr í 2. sæti B-lista í Dalvíkurbyggð.

* * *

Tóta skrifar um fræðslumál leik- og grunnskóla

B-listi Framsóknar- og félagshyggjufólks vill að börn og ungmenni í Dalvíkurbyggð fái menntun við hæfi því nám er undirstaða framtíðarinnar og mikilvægt að börnunum okkar líði vel í skóla og þau njóti sín í námi. Markmið grunnskólanna er að byggja upp góða grunnþekkingu og námsáhuga á sem flestum sviðum.  Við viljum veita framúrskarandi þjónustu og menntun í skólastofnunum okkar og vera stolt af því. Við erum heppin með að búa vel að góðum og fjölbreyttum mannauði í menntastofnunum okkar, það eru ekki allir grunnskólar með starfandi þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og náms- og starfsráðgjafa við sínar stofnannir og er það eitt af því sem við megum vera hreykin af.  Við viljum að nám barnanna okkar sé í sífelldri mótun og að skólarnir nýti þá tækni og þróun sem býðst í skólastarfi hverju sinni. Teymisvinna innan grunnskólanna hefur reynst vel og er mikilvægt að styðja við hana. Eins hefur teymisvinna utan um einstaklinga og fjölskyldur í samvinnu við félagsþjónustu og skólahjúkrunarfræðing skilað góðum árangri síðastliðinn tvö ár og er í sífelldri þróun sem er afar jákvætt og mikilvægt að halda þeirri vinnu áfram.  Við viljum efla stoðþjónustu með því að tryggja leik- og grunnskólum aðgang að fjölskylduráðgjafa og/eða sálfræðingi. Það myndi auka þekkingu og styrkja og styðja við börnin okkar og fjölskyldur þeirra til framtíðar.

Það er þannig í öllu að alltaf er hægt að gera betur og ýmis sóknarfærin. T.d. væri flott ef skólarnir mættu vinna að því að kenna fjármálalæsi markvisst, efla nám á milli Dalbæjar, Félags eldri borgara og grunnskólanemenda svo sem með því að grunnskólanemendur færu og myndu aðstoða og kenna þeim eldri á Ipad/spjaldtölvur eða tölvur. Í því fellst mikið nám og góður ávinningurinn fyrir alla.

Leikskólarnir búa yfir mikilli reynslu og þekkingu sem alltaf má hlúa betur að og vinna markvissara með. Góður mannauður er í leikskólunum okkar og þarf að skoða leiðir til að efla áhuga, draga úr álagi og skoða starfsumhverfi í leikskólunum til að laða að leikskólakennara, aðra starfsmenn og auka nýliðun í stéttinni. Okkur ber að gæta þess að nám á fyrstu æviskeiðum barnanna okkar séu sem best og skilyrði til þess að þroskast og dafna séu framúrskarandi.

Þórhalla Franklín Karlsdóttir

Höfundur skipar 3. sæti B-lista í Dalvíkurbyggð.

* * *

Um fjármál og atvinnumál Dalvíkurbyggðar

Nú líður að því að gengið verði til kosninga til sveitarstjórnar. Því ákváðum við undirritaðir að festa á blað hugrenningar okkar um fjármál og atvinnumál þessa góða sveitarfélags.

Við getum verið stolt af rekstri sveitarfélagsins. Nýlega var ársreikningur fyrir árið 2017 lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn og staðfestir hann sterka stöðu. Samkvæmt ársreikningi 2017 má sjá að veltufé frá rekstri, A og B hluta er mjög gott, eða um 343 milljónir kr. Þess má geta til fróðleiks að veltufé frá rekstri er það fé sem sveitarfélagið hefur til framkvæmda og afborgunar lána. Þá má nefna að skuldahlutfall sveitarfélagsins, það er heildarskuldir á móti tekjum hefur lækkað úr um 97% árið 2012 niður í um 50% árið 2017, sem er með því lægsta meðal íslenskra sveitarfélaga (sjá mynd sem sýnir þróunina 2012-2016). Þá er sú ánægjulega þróun að eiga sér stað að okkur er að fjölga aftur eftir nokkur ár fækkunar. Þannig fjölgaði íbúum byggðalagsins úr 1.831 þann 1. janúar 2017, í 1.880 þann 1. janúar 2018 eða um 2,7%.

Mynd. Þróun skuldahlutfalls Dalvíkurbyggðar 2012-2016. Tekið af vef sambands íslenskra sveitarfélaga.

Staðan í dag gefur því svigrúm til að efla gott samfélag. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2018 , með áorðnum viðaukum, eru áætlaðar framkvæmdir sveitarfélagsins um 290 milljónir króna og samkvæmt þriggja ára áætlun, um 270 milljónir króna árið 2019. Það er því ljóst að mikið er verið að framkvæma á vegum sveitarfélagsins og því þarf að varast að fara ekki fram úr okkur því að eins og við vitum þá gengur efnahagslífið okkar í hæðum og lægðum ef litið er til sögunnar. Nú erum við á toppi hagsveiflunnar og gæta þarf þess að auka ekki á þensluna. Forgangsraða þarf þegar kemur að framkvæmdum og sinna þarf nauðsynlegu viðhaldi á eignum sveitarfélagsins. Ef til niðursveiflu kemur er gott að eiga borð fyrir báru til að geta viðhaldið því háa þjónustustigi sem hér er og getunni til að halda áfram uppbyggingu í sveitarfélaginu.

Tilefni er til bjartsýni um framtíð sveitarfélagsins og vel hefur gengið í rekstri  á líðandi kjörtímabili.. Við búum yfir miklum og góðum mannauði, ferðaþjónustan er á uppleið og öflug fyrirtæki í mörgum greinum atvinnulífsins til sjávar og sveita. Við höfum alla burði til að laða að okkur fyrirtæki og því þurfum við að auglýsa okkur vel sem fýsilegan kost. Við erum í samkeppni um fólk og fyrirtæki við önnur sveitarfélög og verðum við því að leggja áherslu á ágæti okkar sem sveitarfélags. Liður í því væri t.d. öflug markaðssetning byggðalagsins til þeirra er hyggja á atvinnurekstur og sem vænlegs búsetukosts, sem og stuðla að nýsköpun.

Vinna þarf nýtt aðalskipulag og deiliskipulegga bæði íbúðar og fyrirtækjalóðir þar sem markmið fulltrúa B lista er að efla byggðalagið með fjölgun íbúa og starfa á svæðinu. Búið er að sækja um mikið af byggingalóðum til íbúðabygginga og því þörf á að skipuleggja ný svæði.

Eins og áður hefur komið fram þá eru miklar framkvæmdir á árinu og á því næsta og boginn því vel spenntur á útgjaldahliðinni. Styrkleikar byggðalagsins, lág skuldastaða og góð afkoma gerir okkur kleift að standa undir mikilvægum framkvæmdum og háu þjónustustigi. Það er ósk frambjóðenda B lista, fáum við til þess umboð kjósenda, að halda áfram á sömu braut og undanfarið kjörtímabil. Við viljum halda áfram uppbyggingu sveitarfélagsins eins og verið hefur en jafnframt gæta aðhalds, varkárni og ráðdeildar í rekstri. Aðeins þannig getum við haldið áfram uppbyggingu og viðhaldið háu þjónustustigi til lengri tíma.

Sumarkveðjur, Felix Rafn Felixsson, sæti B-lista og Kristinn Bogi Antonsson, 8. sæti B-lista 2018.

* * *

Opnun kosningaskrifstofu í Dalvíkurbyggð

* * *

B-lista Framsóknarkonur skrifa

Nú dregur að kosningum, Heiða er að hætta sem forseti sveitarstjórnar að loknum fjórum árum og Kata leiðir B-lista Framsóknar-og félagshyggjufólks næstu 4 árin. Okkur stöllurnar langar til að líta saman yfir sveitarfélagið okkar á þessum tímamótum.

Það er búið að vera mjög gaman að fylgjast með vexti Dalvíkurbyggðar síðustu árin og einmitt núna er mikil framsýni og áræðni í íbúum, frumkvöðlum og fyrirtækjum. Ný atvinnutækifæri hafa orðið til á Árskógssandi, Hauganesi og Dalvík. Bændurnir í sveitunum hafa hlúð að sínum fyrirtækjum og uppfært þau til nútímans svo eftir er tekið um land allt. Ferðaþjónusta blómstrar um allt sveitarfélagið í höndum drífandi einstaklinga. Búið er að úthluta lóðum til nýbygginga í iðnaði og þá hafa risið og eru að rísa ný íbúðarhús eftir langa bið.

Sveitarfélagið hefur undanfarin ár staðið í framkvæmdum og m.a. endurbótum við tónlistarskóla, leikskóla, leikhús og sundlaug, ljósleiðaravæðingu og stækkun á þjónustusvæði hitaveitu. Ráðist var í nauðsynlega uppbyggingu við Dalvíkurhöfn í kjölfar ákvörðunar Samherja um að byggja hér upp hátæknifrystihús, ákvörðun sem skiptir sköpum fyrir Dalvíkurbyggð. Nú er nýbúið að leggja fram ársreikning fyrir 2017 sem sýnir mjög góða afkomu og búið er að gera samning um uppbyggingu á íþróttasvæði við íþróttamiðstöðina.

Hinn jákvæði ríkjandi andi er ómetanlegur fyrir byggðarlagið okkar og smitar út frá sér út í þjóðfélagið. Fólk lítur á Dalvíkurbyggð sem vænlegan búsetuvalkost og eignir sem koma á sölu seljast oftast strax. Íbúum er farið að fjölga aftur eftir fækkun síðustu ára og það er afar jákvætt.

Dalvíkurbyggð er skemmtilega fjölbreytt sveitarfélag með ólíka búsetukosti og fjölbreytt atvinnulíf. Hér er mikill mannauður, drifkraftur og dugur. Að þessu öllu ber að hlúa. Takk fyrir góð ár og það er einlæg tilhlökkun að fylgja sveitarfélaginu okkar áfram til næstu framtíðar.

Gleðilegt sumar,
Katrín Sigurjónsdóttir, 1. sæti B-listans 2018 og
Heiða Hilmardóttir, fráfarandi sveitarstjórnarfulltrúi B-listans.

* * *

Framboðslisti Framsóknarmanna og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð

B-listi Framsóknar- og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð 2018 var lagður fram og samþykktur einróma í fulltrúaráði þann 15. mars. B-listann skipa einstaklingar alls staðar að úr Dalvíkurbyggð með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og er kynjahlutfall jafnt á listanum, 7 konur og 7 karlar.

Katrín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Sölku-Fiskmiðlunar hf. skipar efsta sæti listans en hún sat í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar á árunum 1994-2004 fyrir B-listann. Í öðru sæti er Jón Ingi Sveinsson, framkvæmdastjóri og í því þriðja er Þórhalla Franklín Karlsdóttir, þroskaþjálfi. Í heiðurssæti listans er Atli Friðbjörnsson á Hóli, bóndi og fyrrv. oddviti.

Málefnavinna er farin í gang. Mikil tilhlökkun og gleði er ríkjandi í framboðshópnum og vilji til að fylgja eftir mikilli og góðri uppbyggingu sveitarfélagsins og gera gott byggðarlag enn betra.

Framboðslisti Framsóknarmanna og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð:

 1. Katrín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri
 2. Jón Ingi Sveinsson, framkvæmdastjóri
 3. Þórhalla Franklín Karlsdóttir, þroskaþjálfi
 4. Felix Rafn Felixson, viðskiptafræðingur
 5. Jóhannes Tryggvi Jónsson, sjúkraflutningamaður og bakari
 6. Lilja Guðnadóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir
 7. Tryggvi Kristjánsson, verslunarstjóri
 8. Kristinn Bogi Antonsson, viðskiptastjóri
 9. Monika Margrét Stefánsdóttir, MA í heimskautarétti
 10. Sigvaldi Gunnlaugsson, vélvirki
 11. Hólmfríður Margrét Sigurðardóttir, glerlistakona
 12. Guðrún Erna Rúdólfsdóttir, verslunarstjóri
 13. Eydís Arna Hilmarsdóttir, sjúkraliði
 14. Atli Friðbjörnsson, bóndi og fv.oddviti