Reglur um uppstillingu.

 

I. kafli.

Uppstilling.

1. gr. Kjördæmisþing ákveður hvort að viðhöfð verði uppstilling við val á lista.

 

II. kafli.

Kjörstjórn.

2. gr. Kjördæmisþing kýs 7 manna kjörstjórn/uppstillingarnefnd til eins árs í senn. Kjósa skal formann sérstaklega á kjördæmisþingi.
Kjörstjórnin/uppstillingarnefnd skiptir með sér verkum að öðru leyti.
Stjórn kjördæmissambands setur kjörstjórn/uppstillingarnefnd erindisbréf.

3. gr. Kjörstjórn/uppstillingarnefnd skal gera tillögu um framboðslista Framsóknarflokksins fyrir næstu alþingiskosningar.

4. gr. Kjörstjórn/uppstillingarnefnd skal halda gerðabók og skal bóka viðtöku tilnefninga, afgreiðslu þeirra, hvers konar úrskurði og annað þess háttar er máli skiptir.

 

III. kafli.

Framboðslistinn.

5. gr. Frambjóðendur geta þeir einir orðið sem eru félagar í Framsóknarflokknum og hafa kjörgengi til Alþingis, þ.m.t. þeir sem skilað hafa inn inngöngubeiðnum í Framsóknarflokkinn 30 dögum fyrir auka kjördæmisþingið og hafa náð 18 ára aldri á kjördag til Alþingis, samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár.

6. gr. Kjörstjórn/uppstillingarnefnd skal hafa heimild til að gefa öllum flokksbundnum framsóknarmönnum í framsóknarfélögum í kjördæminu og með lögheimili í kjördæminu kost á að tilnefna einn eða fleiri einstaklinga sem viðkomandi vill sjá í framboði fyrir Framsóknarflokkinn og með það að markmiði að listinn verði sem sterkastur.

7. gr. Í 7 efstu sætum framboðslistans skal hlutur hvors kyns ekki vera lægri en 40%, þó skulu ekki vera fleiri en 3 af sama kyni í fyrstu 4 sætunum.

8. gr. Kjörstjórn/uppstillingarnefnd skal ljúka störfum eigi síðar en 15 dögum fyrir auka kjördæmisþing og leggja fram tilbúinn lista til stjórnar kjördæmissambandsins sem leggur hann til endanlegrar samþykktar fyrir auka kjördæmisþing.