Categories
Greinar

Ísland taki almenna afstöðu gegn efnahagsþvingunum

Deila grein

30/10/2015

Ísland taki almenna afstöðu gegn efnahagsþvingunum

frosti_SRGBÍsland er eitt þeirra ríkja sem eiga sérstaklega mikilla hagsmuna að gæta af því að milliríkjaviðskipti séu án allra þvingana. Ríflega 53% af þjóðarframleiðslu Íslands eru í formi útflutningstekna. Þetta er mjög hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði. Í Bandaríkjunum eru útflutningstekjur aðeins 12% af þjóðarframleiðslu og líklega er hlutfall útflutnings hjá Evrópusambandinu litlu hærra. Bandaríkin og ESB fórna því hlutfallslega margfalt minni hagsmunum en Ísland með því að taka þátt í efnahagsþvingunum.

Þegar stjórnvöld brjóta mannréttindi eða jafnvel alþjóðalög eru fyrstu viðbrögð alþjóðasamfélagsins yfirleitt þau að semja harðorðar ályktanir. Dugi ekki að álykta er í einstaka tilfellum gripið til viðskiptaþvingana til að auka þrýstinginn. Með viðskiptaþvingunum er þess freistað að fá brotleg stjórnvöld til að breyta hegðun sinni til betri vegar. Því miður skila efnahagsþvinganir mjög sjaldan tilætluðum árangri en þær valda iðulega búsifjum hjá almennum borgurum og gera þannig aðstöðu þeirra sem átti að hjálpa verri en hún var.

Afleiðingar viðskiptaþvingana geta í sumum tilfellum haft áhrif á íslensk fyrirtæki eða byggðarlög sem reiða sig á útflutning til viðkomandi ríkis. Þegar tjón leiðir af utanríkisstefnu hlýtur að vera eðlileg krafa að stjórnvöld bæti viðkomandi tjónið. Það er erfitt að réttlæta að tjón af utanríkisstefnu íslenskra stjórnvalda leggist tilviljanakennt og bótalaust á einstök fyrirtæki eða sveitarfélög sem hafa viðurværi sitt af utanríkisviðskiptum.

Mannréttindabrotum þarf að sjálfsögðu ávallt að mótmæla harðlega, en það bætir ekki heiminn að leggja út í viðskiptaþvinganir sem skaða fyrst og fremst innlend fyrirtæki og almenna borgara í viðkomandi ríki.

Í dag er Ísland þátttakandi í viðskiptaþvingunum gegn fjölmörgum ríkjum. Á vegum Sameinuðu þjóðanna tekur Ísland þátt í aðgerðum gegn fimmtán ríkjum. Þessu til viðbótar er Ísland þátttakandi í viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gegn Hvíta-Rússlandi, Bosníu Hersegóvínu, Egyptalandi, Gíneu, Moldóvu, Mjanmar, Sýrlandi, Túnis, Úkraínu, Rússlandi, Krím og Simbabve. Íslandi ber engin skylda til að taka þátt í þessum aðgerðum ESB því Ísland er ekki aðili að ESB og utanríkismál eru ekki hluti af EES samningnum.

Íslandi er frjálst til að móta sér þá almennu stefnu að taka ekki þátt í þvingunaraðgerðum gegn öðrum ríkjum. Undantekning frá þeirri reglu væru aðgerðir sem ákveðnar eru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða NATO. Um leið væri rétt að falla frá þátttöku Íslands í öllum þvingunaraðgerðum sem eru hluti af utanríkisstefnu ESB.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 29. október 2015.

Categories
Fréttir

Nýr formaður KFNA

Deila grein

30/10/2015

Nýr formaður KFNA

GunnarÁ 15. Kjördæmisþingi Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA) á Akureyri 17. október var Gunnar Þór Sigbjörnsson kjörinn nýr formaður KFNA. Gunnar Þór er 49 ára Héraðsbùi ættaður frá Möðrudal á fjöllum í mòðurætt en föðurætt er frá Fögruhlíð í Jökulsárhlíð.
„Eiginkona mín heitir Helga Þórarinsdóttir, en ég fann hana á Djúpavogi 1983 þegar ég fór þangað á vertíð 17 ára gamall til að fjármagna bílakaup sem ég skellti mér í,“ segir Gunnar Þór í samtali við tíðindamann.
„Á Djúpavogi kynntist ég undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar sjávarútvegnum í landi og á sjó en ég var svo heppinn að fá pláss á togarnum Sunnutindi SU59 þetta sama ár 1983 og var það mikil og þroskandi lífsreynsla fyrir ungling af landabúnaðarsvæðinu Fljótsdalshéraði. Ég snéri síðan heim í Egilsstaði sumarið 1983 með Helgu með mér og tveim árum seinna eða 26. ágúst 1985 fluttum við í okkar fyrstu íbúð sem við innréttuðum sjálf með með aðstoð góðra manna, og svo í desember það sama 1985 ár giftumst við Helga 19 ára að aldri, og hér erum við núna nánast 30 árum síðar og tveim börnum ríkari, Þórarinn Arnar 21 árs og  Þórlaug Alda 27 ára.
Ég er með Diplóma frá Bifröst i verslunarrekstri, Póstmeistari frá Póst og símaskólanum, nám í stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og vottun í vátryggingamiðlun frá Háskólanum í Reykjavík.
Hef starfað innan Framsóknarflokksins í rúm 25 ár og hef setið í ýmsum nefndum á vegum Framsóknar í sveitarstjórn á Héraði.
Mínar áherslur munu snúa að auknum samskiptum innan svæðis, ég vill sjá vægi pólitískra umræðu aukast á okkar samkomum með mögulega breyttu fyrirkomulagi á þingum sambandsins.  Einnig mun èg beita mér fyrir því að koma á tíðari samskiptum við kjörna fulltrúa með því að nýta betur möguleika sem felast í nútíma fjarskiptalausnum.
Ég vill sjá öflugt samstarf milli austur og norðurhluta með því að byggja á því góða starfi sem fór fram í síðustu kosningabaráttu en sú samheldni og sú stemming sem þá var sköpuð  skilaði flokknum glæsilegum sigri í kjördæminu og um land allt. Verkefni KFNA næstu tvö ár verður smyrja og gangsetja það afl sem býr í félögunum í kjördæminu og mæta til leiks í næstu kosningar í einni stórri samvinnuhreyfingu gamlir, ungir og miðaldra, konur og karlar. Allir fyrir einn og einn fyrir alla,“ sagði Gunnar Þór að lokum.

Categories
Greinar

Norðurlönd og alþjóðamálin

Deila grein

28/10/2015

Norðurlönd og alþjóðamálin

HÞÞ1Í dag fer fram utanríkismálaumræða á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík. Málaflokkurinn er forgangsmál í formennskutíð Íslands og hefur fengið aukið vægi á vettvangi Norðurlandaráðs á undanförnum árum.

Það var ekki alltaf svo. Í kalda stríðinu voru utanríkismál lengst af ekki rædd á vettvangi norrænnar samvinnu en eftir lok þess komust þau á dagskrá. Ísland átti sinn hlut í því. Undir lok níunda áratugarins komu þingmenn Norðurlandaráðs á tengslum við starfssystkin sín í Eystrasaltsríkjunum. Þetta var á þeim dramatísku dögum sem liðu frá falli Berlínarmúrsins til endaloka Sovétríkjanna og þegar sjálfstæðisbarátta Eystrasaltsríkjanna var í algleymingi. Páll Pétursson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, leiddi sendinefnd sex þingmanna úr forystu Norðurlandaráðs til Ríga, Vilníus og Tallinn í nóvember 1990 og fleiri sendinefndir áttu eftir að fylgja. Norðurlandaráð bauð fulltrúum sjálfstæðishreyfinganna í Eystrasaltslöndunum á þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í febrúar 1991 á meðan þau lutu enn sovéskri stjórn og var það mikilvægur stuðningur við málstað Eystrasaltsþjóðanna. Æ síðan hefur Norðurlandaráð átt náið samstarf við Eistland, Lettland og Litháen og einbeitt sér að nærsvæðasamvinnu í austri með það að leiðarljósi að styðja við stöðugleika og lýðræðisþróun til framtíðar.

Ástandið í Austur-Evrópu hefur verið ofarlega á baugi frá því hernaðarátökin í Úkraínu hófust fyrir 20 mánuðum. Norðurlöndin hafa verið einhuga um að fordæma yfirgang Rússa gagnvart Úkraínu og hina ólöglegu innlimun Krímskaga. Við í Norðurlandaráði höfum ásamt systursamtökum okkar Eystrasaltsráðinu heimsótt Kiev og finnum mikinn áhuga þingmanna í Úkraínu á nánara samstarfi við Norðurlönd og Eystrasaltslöndin um að þróa lýðræði og góða stjórnarhætti. Hvað Hvíta-Rússland varðar hafa samskipti við þingið í Minsk legið niðri frá kosningunum 2011 en á móti eigum við samstarf við stjórnarandstöðu og frjáls félagasamtök. Auðvitað hefur þróun síðustu missera haft neikvæð áhrif á samstarf okkar við Rússland og lokun skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar í Rússlandi eftir breytta afstöðu rússneskra stjórnvalda til þeirra eftir 20 ára rekstur var skref í ranga átt.

Nærsvæði Norðurlanda eru ekki bara í austri heldur líka í norðri og vestri. Norðurslóðir skipa æ stærri sess í starfi Norðurlandaráðs. Á níunda áratug síðustu aldar beindist athyglin að siglingum og mengun sjávar, á tíunda áratugnum að umhverfis- og öryggismálum. Norðurlandaráð átti stóran þátt í að koma á fót Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál sem síðan leiddi af sér stofnun norðurskautsráðsins. Markmið íslensku formennskunnar í Norðurlandaráði hefur verið að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið varðandi umhverfismál, loftslagsbreytingar, efnahagsmál, samfélagsmál og öryggismál á nærsvæði okkar í norðri. Markmið okkar er einnig að stuðla að umfjöllun um málefni Vestur-Norðurlanda, Færeyja og Grænlands, í Norðurlandaráði og kanna samstarfsmöguleika við grannríki í vestri, Kanada og Bandaríkin, m.a. vegna þeirra ríku norrænu hagsmuna sem felast í öryggis- og umhverfismálum þess svæðis.

Flóttamannastraumurinn til Evrópu og viðbrögð við honum verða sérstakt umfjöllunarefni á þinginu. Hundruð þúsunda manna hafa flúið hrylling og eyðileggingu stríðsátaka í heimalöndum sínum og komið til Evrópu á síðustu vikum í mestu fólksflutningum frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Norðurlöndin hafa á margan hátt ólíka stefnu gagnvart móttöku flóttafólks en löndin standa frammi fyrir sömu áskorunum og þau ræða sín á milli og finna sameiginlegar lausnir þar sem við á. Einn varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Christian Friis Bach, mun sérstaklega ræða flóttamannamálin í framsögu sinni í dag.

Við fjöllum ekki einungis um nærsvæðin á sviði utanríkismála í Norðurlandaráði. Fyrir þinginu liggur tillaga um að beina tilmælum til ríkisstjórna og þjóðþinga Norðurlandanna um að viðurkenna Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki. Ísland viðurkenndi Palestínu þegar í desember 2011 eftir samþykkt Alþingis þar um og Svíþjóð fylgdi í kjölfarið í október 2014. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um tillöguna en Norðurlöndin deila öll sama markmiði um tveggja ríkja lausn og varanlegan frið fyrir botni Miðjarðarhafs. Því má búast við líflegum umræðum um Palestínutillöguna og utanríkismál almennt og jafnvel að menn takist á. Það er einungis eðlilegt í samstarfi lýðræðisríkja og sýnir styrk norrænnar samvinnu. Skýrsla Torvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, um norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála frá 2009 kallaði eftir auknu samstarfi á þessu sviði. Við höfum svo sannarlega hlýtt því kalli og lagt áherslu á alþjóðamál á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði.

Höskuldur Þórhallsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. október 2015.

Categories
Fréttir

Níu forsætisráðherrar og 80 sérfræðingar ræða skapandi greinar og nýsköpun í opinberum rekstri

Deila grein

28/10/2015

Níu forsætisráðherrar og 80 sérfræðingar ræða skapandi greinar og nýsköpun í opinberum rekstri

Sigmundur-davíðForsætisráðherrar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Bretlands koma saman í Reykjavík nú í vikunni, í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Leiðtogarnir munu taka þátt í sameiginlegu málþingi þjóðanna, Northern Future Forum, þar sem rætt verður um vöxt og viðgang skapandi greina og nýsköpun í opinberum rekstri í þeim tilgangi að auka gæði opinberrar þjónustu.
Ásamt forsætisráðherrunum níu munu ríflega 80 sérfræðingar frá Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi taka þátt í umræðum og skoðanaskiptum. Meðal íslensku sérfræðinganna eru Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, Ingi Rafn Sigurðsson, forstjóri Karolina Fund, Vala Halldórsdóttir, tekjustjóri Plain Vanilla, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri á Landspítalanum og Ingi Steinar Ingason, verkefnastjóri hjá embætti Landlæknis.
northernfutureforumÞeir sem stýra munu umræðunum á fundinum eru Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Kristján Leósson, framkvæmdastjóri Efnis-, líf- og orkutæknisviðs Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, Halla Tómasdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Sisters Capital, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Guðfinna S. Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri LEAD Consulting, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, og Dóra Ísleifsdóttir; prófessor við Listaháskóla Íslands.
Frekari upplýsingar um málþingið, dagskrá þess, sendinefndir ríkjanna, sérfræðinga og umræðustjóra má nálgast á vef nff2015.is .
Hægt verður að fylgjast með viðburðum fimmtudaginn 29. október, s.s. opnunarræðum lokaumræður og fréttamannafundi á vef málþingsins. Opnunarávörp verða send út beint á vefnum milli 08.30–08.50 sem og lokaumræður og fréttamannafundur milli 13:00–14.00. Þá verður hægt að fylgjast með umræðum á twitter: @NFForum2015 og #NFForum2015.

Categories
Greinar

Norðurlandaráðsþing hefst í dag

Deila grein

27/10/2015

Norðurlandaráðsþing hefst í dag

HÞÞ1Það er gaman að fá að vera gestgjafi nú þegar þingmenn og ráðherrar Norðurlanda streyma til landsins á árlegan þingfund Norðurlandaráðs sem hefst í Reykjavík í dag. Þing Norðurlandaráðs er haldið til skiptis í aðildarlöndunum fimm og er eins konar uppskeruhátíð norræns samstarfs.

Hið nána samstarf Norðurlanda innan Norðurlandaráðs er komið á sjötugsaldur og ber aldurinn vel. Það hefur hvorki staðnað né trosnað heldur verið kvikt og í sífelldri þróun. Við á Norðurlöndunum erum svolítið eins og ein fjölskylda. Sameiginleg saga og menning binda saman Norðurlöndin sem hafa á síðustu áratugum orðið samferða í að byggja upp samfélög þar sem grunngildin eru mannréttindi, réttarríki, frelsi, jafnrétti og jöfnuður. Ríkin skora hátt á alþjóðlegum lífsgæðakvörðum og þar er áhersla á einstaklingsfrelsi samfara öflugri velferð. Náið norrænt samstarf hefur staðið af sér umbreytingar í Evrópu og ekki síður hnattvæðinguna. Heimurinn er minni en hann var áður og staðir og þjóðfélög sem eitt sinn þóttu framandi eru orðin aðgengilegri og jafnvel hversdagsleg. Við á Norðurlöndunum berum okkur ekki lengur saman einungis við nágranna okkar í Evrópu heldur allan heiminn.

Samstarf fólksins

Norrænt samstarf er fyrst og fremst samstarf fólksins. Hlutverk stjórnmálamanna í því er að skapa opinn vettvang fyrir samskipti þjóðanna á sem flestum sviðum. Þrátt fyrir að heimurinn standi Íslendingum opinn sem aldrei fyrr eru það grannþjóðir okkar sem við erum í mestum tengslum við. Íslendingar sækja menntun helst til þeirra og halda ekki síður utan til starfa á Norðurlöndum. Um 24.500 Íslendingar búa nú annars staðar á Norðurlöndum og af um 2.000 lánþegum Lánasjóðs íslenskra námsmanna erlendis eru tæplega 900 þar við nám. Norræna vegabréfasamstarfið, sameiginlegur atvinnu- og menntamarkaður og markvisst starf að því að afnema hvers kyns stjórnsýsluhindranir hefur auðveldað flæði yfir landamæri Norðurlanda og einfaldað flutninga. Einhvern tíma var það að fara til Norðurlanda að halda út í hinn stóra heim. Nú eru Norðurlönd á vissan hátt meira eins og útvíkkaðir heimahagar fyrir okkur Íslendinga. Við erum hluti hinnar norrænu fjölskyldu og í því felst styrkur.

Á þingi Norðurlandaráðs næstu þrjá daga verður fjallað um mál sem unnin hafa verið á umliðnum mánuðum jafnt í nefndum þingmanna sem og hópum ráðherra. Þar á meðal verða möguleikar á auknu og nánara samstarfi Norðurlanda, norræn heilsugæsla án stjórnsýsluhindrana, geðheilsa barna og ungmenna, velferðarþjónusta í dreifbýli, sjálfbærni og norrænar vatnsauðlindir, tungumálasamstarf, öflugir og frjálsir fjölmiðlar og umbætur á Norðurlandaráði svo fátt eitt sé nefnt. Á utanríkismálasviðinu verður m.a. fjallað um ástandið í Úkraínu og samskiptin við Rússland, flóttamannastrauminn í Evrópu og viðurkenningu á Palestínu.

Samstarfi og árangri fagnað

Auk þess að fjalla um málefni líðandi stundar á Norðurlandaþingi er tækifærið notað til að fagna samstarfi og árangri landanna á sviði menningar- og umhverfismála með verðlaunum Norðurlandaráðs. Á sérstakri verðlaunahátíð verða bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, kvikmyndaverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun ráðsins afhent. Verðlaunin eiga sinn sterka þátt í því að breiða út norræna listsköpun, jafnt milli Norðurlandanna sem utan þeirra, en norrænar bókmenntir, kvikmyndir og tónlist njóta vinsælda víða um heim. Í tilefni af Norðurlandaráðsþingi hefur sá sem þetta ritar lagt fram tillögu um að koma á norrænum sjónvarpsverðlaunum en norræn dagskrárgerð, einkum á sviði framhaldsþátta, hefur vakið mikla athygli og notið vaxandi útbreiðslu á liðnum árum.

Norræn samvinna hefur verið okkur Íslendingum afar mikilvæg og er það enn. Inn á við er grunnur samstarfsins í grasrótinni hjá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum sem eiga margháttuð samskipti sín á milli. Út á við er norræn samstaða brýn á tímum hnattvæðingar og hræringa í ytra umhverfi og það er styrkur af því að standa í hópi Norðurlanda í samfélagi þjóðanna. Á ári mínu sem forseti Norðurlandaráðs hef ég beitt mér fyrir því að gera starfið sýnilegra og hefja umbótastarf innan ráðsins sem mun beinast að því að samstarfið eflist enn og dafni á komandi árum. Undir þeim formerkjum er það því einstaklega ánægjulegt að bjóða norræna frændur okkar velkomna til þinghalds á Íslandi.

Höskuldur Þór Þórhallsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. október 2015.

Categories
Fréttir

Lækka skal verð í samræmi við styrkingu krónunnar!

Deila grein

23/10/2015

Lækka skal verð í samræmi við styrkingu krónunnar!

Þorsteinn-sæmundsson„Forseti. Mig langar að gera að umtalsefni greiningu sem Arion banki gaf út á netinu í gær. Þeir búast við 0,1% hækkun á vísitölu um næstu mánaðarmót, sem þýðir 1,1% verðbólgu á ársgrundvelli. Það minnir okkur á að Seðlabankinn þjófstartaði hér hressilega eftir gerð fyrstu kjarasamninga í vor með því að hækka stýrivexti að þarflausu. Reyndar hefur hann séð að sér vegna þess að nú streymir hér inn erlent fé sem vill njóta þeirra vaxtabóta sem seðlabankastjóri hefur komið á. En það veitti líka fyrirtækjum afsökun í vor til þess að nýta sér 7% hækkun launa, t.d. eins og í verslun, og nota bene, launakostnaður hjá versluninni er svona holt og bolt um 18%, þannig að þessi 7% hækkun á 18% kostnaði varð mönnum tylliástæða til þess að hækka hér vöruverð um allt að 10–15%. Síðan heldur seðlabankastjóri áfram að kynda undir kostnaðarverðbólgunni sem hann kom á með því að segja eins og um daginn þegar hér lækkaði vísitala milli mánaða: Hún kemur nú samt. Það eru akkúrat skilaboðin sem maður þarf að heyra frá seðlabankastjóra einnar þjóðar, er það ekki?
En það eru allar kringumstæður nú til þess að halda áfram að lækka vöruverð. Krónan hefur styrkst og nokkur fyrirtæki hafa blessunarlega lækkað vöruverð, t.d. Ikea, Myllan og nú síðast Bónus um 5%. En það þarf meira til. Það er innstæða fyrir meiru vegna þess að styrking krónunnar er meiri en þessu nemur. Og það þarf fleiri til þess að hoppa á þennan vagn. Ef það verður gert er okkur ekkert að vanbúnaði að halda þeim stöðugleika í verðlagi sem hér hefur verið blessunarlega síðastliðin missiri.
Þess vegna vil ég nota þetta tækifæri og skora á alla þá sem koma að verðmyndun í landinu að taka sér þessi fyrirtæki til fyrirmyndar og lækka verð í samræmi við styrkingu krónunnar.“
Þorsteinn Sæmundssoní störfum þingsins, 21. október 2015.

Categories
Fréttir

Útvíkka þarf starfsemi náttúruhamfarasjóða

Deila grein

23/10/2015

Útvíkka þarf starfsemi náttúruhamfarasjóða

haraldur_SRGB„Hæstv. forseti. Forsætisráðherra boðar hugsanlegar breytingar á ofanflóðasjóði og Bjargráðasjóði, hvort skynsamlegt sé að sameina þessa tvo sjóði og útvíkka hlutverk þeirra í hamfarasjóð. Ég tel mikilvægt að reyna að útvíkka starfsemi náttúruhamfarasjóða þannig að þeir nái til flóða líkt og á Siglufirði, en við fengum fréttir um það í morgun að bæta á tjónið þar, en einnig yfir sjávarföll sem herja á margar byggðir.
Þingmenn Suðurkjördæmis þekkja vel ágang á fjörur við Vík í Mýrdal og grynnslin utan við Hornafjörð þar sem Atlantshafið er að henda sandi til og frá. Eftir mikil óveður getur innsiglingin í höfnina á Hornafirði lokast. Þar ætti náttúruhamfarasjóður að bregðast við með fjármagni til þess að rúmlega 2 þús. manna sveitarfélag verði ekki að brothættri byggð. Svo mikilvægur er sjávarútvegur og höfnin á svæðinu.“
Haraldur Einarssoní störfum þingsins, 21. október 2015.

Categories
Fréttir

„Karlinn eiginlega hálfgerður vitleysingur“

Deila grein

23/10/2015

„Karlinn eiginlega hálfgerður vitleysingur“

Sigurjón Kjærnested„Hæstv. forseti. Ég var nýlega á ferðinni í Suður-Ameríkuríki þar sem ástandið í jafnréttismálum er því miður mun slakara en hérna á Íslandi. Þar er ástandið því miður þannig að allt of oft er ætlast til þess að konan sé heima og sjái um heimilið og karlinn sé sá sem vinnur úti. Mér er sérstaklega minnisstæð ein hjón sem við hittum á þeirri ferð þar sem konan hafði aldrei fengið tækifæri til að vinna úti, það var ætlast til þess að hún væri heima en karlinn vann aftur á móti úti. Málið með þessi hjón var þegar við töluðum við þau að konan var alveg stórkostlega frambærileg og snjöll en karlinn eiginlega hálfgerður vitleysingur.
Ef horft er á þetta tilvik þá er þetta klárlega ekki skynsamlegasta leiðin fyrir samfélagið til að skipta með sér verkum. Ef þetta dæmi er endurtekið í gegnum samfélagið nokkrum milljón sinnum þá hlýtur það að leiða af sér mun verri niðurstöðu. Ef horft er á samfélagið í heild sinni sem verkfræðilegt kerfi, sem ég held að sé mjög gagnlegt að gera, segi ég sem verkfræðingur, þá hlýtur svona skipulag að leiða af sér mun verri niðurstöðu, hvort sem kemur að hagvexti, þegar kemur að sköpun nýrra starfa, nýsköpun o.s.frv. Þetta er ekki skynsamlegt. Ójafnrétti er í grunninn óskynsamlegt og órökrétt þegar kemur að skipulagi samfélagsins.
Þess vegna er áhugavert að skoða hvar við stöndum hér á Íslandi. Þótt við séum komin langt í jafnréttismálum þá eru mörg verkefni enn þá fram undan. Ef horft til launamunar kynjanna er enn þá stórt verkefni fram undan. Ef horft er á réttindi innflytjenda þá er gríðarlega stórt verkefni fram undan. Innflytjendur búa enn þá við alls konar mismunun og gengur t.d. illa að fá menntun sína metna og að geta nýtt hæfileika sína á sem bestan hátt. Það má einnig skoða fæðingarorlofið þar sem við höfum fengið fréttir af því að feður nýti í minna mæli fæðingarorlof. Ég vil hvetja þingheim til að taka vel í þá nefnd sem er starfandi sem mun leggja til betra skipulag á fæðingarorlofi.“
Sigurjón Kjærnestedí störfum þingsins, 21. október 2015.

Categories
Fréttir

„Tími athafna er kominn“

Deila grein

23/10/2015

„Tími athafna er kominn“

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Í störfum þingsins í gær ræddi ég meðal annars afnám verðtryggingar af neytendalánum. Ég ræddi mikilvægi þess hver næstu skref ættu að vera í málinu og nauðsyn þess að þau skref yrðu tímasett á allra næstu dögum. Núna þarf að fá svör við þessum spurningum: Á að afnema verðtrygginguna? Á að setja þak á verðtryggð húsnæðislán? Á að auka hvata til töku á óverðtryggðum lánum? Hver er staðan og hvernig standa málin?
Erfitt er að átta sig á því hvað veldur því að verðtryggingarmálin hafi ekki enn komið inn í þingið. Það er hægt að varpa fram þessum spurningum: Er verið að bíða eftir niðurstöðum úr þeirri húsnæðisvinnu sem er í gangi innan velferðarráðuneytisins? Eða er kannski verið að bíða eftir niðurstöðum í máli Hagsmunasamtaka heimilanna er varðar lögmæti verðtryggingarinnar? Ef svo er þá er nauðsynlegt að það mál fái flýtimeðferð sem lögin kveða á um. Eða er kannski ástæðan bara allt, allt önnur?
Eins og fram kom í ræðu minni í gær eru verðtryggingarmálin á borði hæstv. fjármálaráðherra. Það má ekki gleyma því sem vel er gert. Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp til að finna leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir á vöru og þjónustu og tenging ýmissa skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu. Þessi hópur hefur núna skilað af sér niðurstöðum.
Í lok ræðu minnar langar mig að minnast á þann þjóðfund sem var hér í morgun sem þrír hæstv. ráðherrar stóðu fyrir. Hann var afar vel sóttur, hátt í 300 manns tóku þátt og ræddu húsnæðismál, ræddu m.a. hvernig ætti að fara að því að byggja hratt upp vandað og hagkvæmt húsnæði og hvernig auka ætti framboð af húsnæði hratt og vel. Tími athafna er kominn. Þessi ríkisstjórn ætlar að láta verkin tala. Í því samhengi verðum við að afnema verðtryggingu.“
Elsa Lára Arnardóttirí störfum þingsins, 21. október 2015.

Categories
Greinar

Leggjum símann niður í umferðinni

Deila grein

23/10/2015

Leggjum símann niður í umferðinni

fjola-hrund-ha-upplausnFarsímanotkun ökumanna hefur aukist gífurlega með árunum. Þegar farið er út í umferðina þarf að vera með fulla og óskipta athygli. Með árunum eru sífellt fleiri sem nota farsíma undir stýri. Eftir því sem tækninni fleygir fram og fleiri smáforrit í farsíma verða til verður áreitið sífellt meira og símarnir hætta vart að gefa frá sér tilkynningar.

Það er þekkt hér á landi að margir nota síma undir stýri og virðast ekki geta látið hann frá sér þegar ekið er. Þó svo að alltaf sé verið að brýna fyrir ökumönnum að nota ekki símann undir stýri eða tengja hann við handfrjálsan búnað þá leiða rannsóknir það í ljós að farsímanotkun ökumanna virðist ekki minnka. Þetta er þekkt vandamál víða um heim þar sem fjöldi umferðarslysa verður af völdum truflunar frá farsímum.

Fylgjum umferðarlögum
Í 47. gr. umferðarlaga 1987 nr. 50 segir: ,,Ökumanni vélknúins ökutækis er við akstur óheimilt að nota farsíma án handfrjáls búnaðar.” Sektir eru við því ef lögreglan stoppar einstakling í umferðinni fyrir farsímanotkun. Lögreglan gefur reglulega frá sér tilkynningar til að brýna fyrir ökumönnum að tala ekki í farsíma við akstur og hvetur ökumenn til þess að nota handfrjálsan búnað. Við þurfum að fylgja tilmælum lögreglu og fylgja umferðarlögum.

Rannsóknir hafa sýnt að með árunum hafa fleiri slys orðið vegna farsímanotkunar þar sem ökumenn eru ekki með óskipta athygli við stýrið. Jafnframt hefur komið í ljós að þegar þú skrifar smáskilaboð undir stýri þá lítur þú af veginum í allt að 5 sekúndur. Á 5 sekúndum getur einstaklingur á t.d. þjóðvegi 1 keyrt allt að 100 metra. Það er auðséð að á þessum stutta tíma ferðast bíllinn langa leið og margt getur farið úrskeiðis sé athyglinni ekki beint að akstrinum.

Höldum fókus
Á undanförnum árum hefur verið vakning meðal ökumanna og ekki síst vegna átaks sem Samgöngustofa hefur verið með varðandi farsímanotkun ökumanna. Svo virðist sem færri noti farsíma rétt eftir að auglýsingar varðandi meðhöndlun farsíma við stýrið hafa verið birtar. Það er því deginum ljósara að ökumenn ættu að þekkja hættuna sem getur skapast og séu meðvitaðri um nauðsyn þess að leggja farsímanum við akstur. ,,Höldum fókus” er dæmi um gríðarlega vel heppnaða markaðsherferð sem fékk áhorfandann til að vera hluti af aðstæðum. Herferðin fékk gríðarlega athygli og snerti viðkvæma strengi.

Ég tel að það sé okkar hlutverk í umferðinni að sýna þeim ungu fordæmi hvað varðar farsímanotkun undir stýri. Við eigum að sýna náunganum þá virðingu og vera með fulla athygli í umferðinni. Ég biðla því til ökumanna um að leggja símann niður í umferðinni og tengja handfrjálsa búnaðinn ef svo ber undir.

Fjóla Hrund Björnsdóttir

Greinin birtist í DV föstudaginn 23. október 2015.