Categories
Fréttir

Ekki lá fyrir leyfi um lokun neyðarbrautarinnar

Deila grein

16/05/2017

Ekki lá fyrir leyfi um lokun neyðarbrautarinnar

,,Hæstv. forseti. Fyrir þessu þingi liggur þingsályktunartillaga þingflokks Framsóknarflokksins þess efnis að neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli verði opnuð á ný. Þessa ályktun lögðum við fram á sínum tíma vitandi það að enn var mögulegt að tryggja aukið öryggi landsmanna með opnun hennar. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórn hafa staðið vaktina í þessu máli, komið með tillögur að lausnum sem allir hagsmunaaðilar geta unað við. Þeim hefur verið hafnað. Lausnirnar snúa m.a. að því að byggja þannig að komist verði hjá hindrun við neyðarbrautina.
Hæstv. forseti. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að ekki lá fyrir leyfi um lokun neyðarbrautarinnar enda hafi áhættumat vegna lokunar hennar ekki verið gert. Ítrekað hafa Framsókn og flugvallarvinir bókað um það að í niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015, um áhættumatsskýrslu Isavia vegna fyrirhugaðrar lokunar neyðarbrautarinnar, kemur m.a. fram að áhættumatið nái hvorki til áhrifa á flugvallakerfið í landinu í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga og að gera þurfi sérstakt áhættumat ef það á að loka brautinni.
Þá liggur fyrir sú niðurstaða Alþjóðaflugmálastofnunarinnar að forsendur útreiknings á nothæfisstuðli voru rangar í skýrslu Eflu en Félag íslenskra atvinnuflugmanna sendi bréf þess efnis til samgönguráðherra um miðjan mars sl.
Hæstv. forseti. Vinnubrögð í þessu mikilvæga máli virðast hafa verið fyrir neðan allar hellur. Ekki hefur verið hlustað á málflutning aðila með sérþekkingu á sviði flugöryggismála. Er ekki ástæða til þess að hlusta á málflutning öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, svo dæmi sé tekið? Eða ætlum við í þessu máli eins og svo allt of mörgum öðrum að grípa til álits sérfræðinga einungis þegar það hentar? Þá spyr ég: Hverjum hentar það og hvenær, hæstv. forseti? Myndi það ekki henta okkur öllum alveg ágætlega að setja öryggið á oddinn og gæta hagsmuna landsmanna allra? Ég hvet ráðherra og viðeigandi yfirvöld til að taka málið til skoðunar hið snarasta.”
Hér má hlusta á Þórunni Egilsdóttur í störfum þingsins, 16. maí 2017.