Categories
Fréttir

„Karlinn eiginlega hálfgerður vitleysingur“

Deila grein

23/10/2015

„Karlinn eiginlega hálfgerður vitleysingur“

Sigurjón Kjærnested„Hæstv. forseti. Ég var nýlega á ferðinni í Suður-Ameríkuríki þar sem ástandið í jafnréttismálum er því miður mun slakara en hérna á Íslandi. Þar er ástandið því miður þannig að allt of oft er ætlast til þess að konan sé heima og sjái um heimilið og karlinn sé sá sem vinnur úti. Mér er sérstaklega minnisstæð ein hjón sem við hittum á þeirri ferð þar sem konan hafði aldrei fengið tækifæri til að vinna úti, það var ætlast til þess að hún væri heima en karlinn vann aftur á móti úti. Málið með þessi hjón var þegar við töluðum við þau að konan var alveg stórkostlega frambærileg og snjöll en karlinn eiginlega hálfgerður vitleysingur.
Ef horft er á þetta tilvik þá er þetta klárlega ekki skynsamlegasta leiðin fyrir samfélagið til að skipta með sér verkum. Ef þetta dæmi er endurtekið í gegnum samfélagið nokkrum milljón sinnum þá hlýtur það að leiða af sér mun verri niðurstöðu. Ef horft er á samfélagið í heild sinni sem verkfræðilegt kerfi, sem ég held að sé mjög gagnlegt að gera, segi ég sem verkfræðingur, þá hlýtur svona skipulag að leiða af sér mun verri niðurstöðu, hvort sem kemur að hagvexti, þegar kemur að sköpun nýrra starfa, nýsköpun o.s.frv. Þetta er ekki skynsamlegt. Ójafnrétti er í grunninn óskynsamlegt og órökrétt þegar kemur að skipulagi samfélagsins.
Þess vegna er áhugavert að skoða hvar við stöndum hér á Íslandi. Þótt við séum komin langt í jafnréttismálum þá eru mörg verkefni enn þá fram undan. Ef horft til launamunar kynjanna er enn þá stórt verkefni fram undan. Ef horft er á réttindi innflytjenda þá er gríðarlega stórt verkefni fram undan. Innflytjendur búa enn þá við alls konar mismunun og gengur t.d. illa að fá menntun sína metna og að geta nýtt hæfileika sína á sem bestan hátt. Það má einnig skoða fæðingarorlofið þar sem við höfum fengið fréttir af því að feður nýti í minna mæli fæðingarorlof. Ég vil hvetja þingheim til að taka vel í þá nefnd sem er starfandi sem mun leggja til betra skipulag á fæðingarorlofi.“
Sigurjón Kjærnestedí störfum þingsins, 21. október 2015.