Categories
Greinar

Að hugsa lengra og í lausnum

Deila grein

23/04/2013

Að hugsa lengra og í lausnum

Hjalmar_Bogi_klipptKrafan um breytingar í samfélaginu er hávær og hefur alltaf verið. Þannig hefur maðurinn þróað samfélag sitt til hins betra með ýmsum feilsporum og lært af mistökum sínum. En hvernig breytum við samfélaginu til hins betra nema ræða okkur niður á skynsamlegustu leiðina sem allra flestir geta sætt sig við? Í því hraðadýrkandi samfélagi sem við lifum í þurfum við í fyrsta lagi að átta okkur á að skyndilausnir til skamms tíma hafa ekki varanleg áhrif. Þess vegna þurfum við að hugsa lengra, til þess sem hefur áhrif á samfélagið til hins betra.

Hvert og eitt okkar vill alltaf gera gott samfélag betra. Þess vegna tekur fólk þátt í stjórnmálastarfi til að ná fram umbótum og hafa áhrif. Stefna Framsóknarflokksins er róttæk miðjustefna með rökhugsun og skynsemi að leiðarljósi þar sem öfgum til hægri og vinstri er hafnað.

Til að ná fram breytingum verðum við að velta ýmsum leiðum fyrir okkur án þess að taka fyrirfram afstöðu með eða á móti. Við þurfum að átta okkur á því að engin ein miðlæg lausn gildir endilega fyrir allt samfélagið. Því til stuðnings vil ég nefna heilbrigðikerfið. Heilsugæsluna þarf að styrkja sem allra víðast þannig að heilbrigðiskerfið í heild sinni verði ódýrara í rekstri til lengri tíma.

Það þýðir að efla þarf heilsugæslustöðvar um allt land, styrkja hverja útstöð sem fækkar komum á stærri spítala.
Við verðum að vera óhrædd að varpa fram nýjum hugmyndum. Hvert samfélag á allt sitt undir jafnvægi. Víða á Íslandi hafa lífskjör verið fengin að láni, láni sem stökkbreyttist vegna hamfara í efnahagskerfinu. Á þessum vanda verður að taka þannig að sagan endurtaki sig ekki og það verður m.a. gert með því að afnema verðtryggingu af neytendalánum. Ekkert réttlætir að lánþegar sitji einir uppi með afleiðingar stökkbreyttra lána. Íslensk heimili eru mörg of skuldsett. Á móti skuldinni ætti að vera eign. Við hrunið hrapaði húsnæðisverð og því eru skuldir hærri en eignin sjálf þegar lánin stökkbreyttust.

Efnahagskerfið sem við mennirnir sköpuðum hrundi og afleiðingar þess sjáum við nú líkt og náttúruhamfarir. Þetta kallar á hugarfarsbreytingu.

Hugsum lengra, verum óhrædd við setja fram nýjar hugmyndir sem kalla á breytingar á samfélaginu til hins betra.

Hjálmar Bogi Hafliðason,
skipar 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.