Categories
Greinar

Afglæpavæðing á neyslu fíkniefna

Deila grein

03/07/2020

Afglæpavæðing á neyslu fíkniefna

Mikið hefur verið rætt um afglæpavæðingu á neyslu fíkniefna og fjölmiðlar gera því í skóna að meirihlutinn á Alþingi hafi hafnað henni í atkvæðagreiðslu nú á síðustu degi þingsins. Sem er í raun ekki rétt. Það hefur verið unnið að þessum málum undanfarin misseri og lögð áhersla á skaðaminnkun í aðgerðum stjórnvalda til að sporna við neikvæðum afleiðingum neyslu.

Í vor var samþykkt frumvarp frá heilbrigðisráðherra um neyslurými  sem er að heimila stofnun og rekstur neyslurýma en þau teljast til skaðaminnkandi aðgerða. Mikilvægur áfangi og stór. Þá hefur verið horfið frá þyngri refsingum fyrir vörslu neysluskammta og smávægileg brot fara ekki á sakskrá lengur og með breyttum umferðarlögum sem kveða á um að mæling á ávana- og fíkniefni í blóði sé einungis grundvöllur refsinga, ekki mæling í þvagi og blóði eins og áður var. Allt er þetta samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefni og vinna frekar að viðunandi meðferðarúrræði.

Frumvarp Pírata sem fellt var á Alþingi fjallaði einfaldlega um  að ákvæði laga um ávana- og fíkniefni um bann við vörslu og meðferð fíkniefna verði breytt á þann hátt að bann við vörslu, kaupum og móttöku efna verði fellt brott. Lítið útfært og í litlu samráði. Vissulega er það samhljóma við skýrslu sem gerð var um málið á sínum tíma en frumvarpið sjálft var ekki unnið í samstarfi við þá aðila sem vinna þurftu svo með útkomuna. Í meðförum nefndarinnar breyttist málið og var á réttri leið þegar það var tekið út en ekki fullunnið og ekki í sátt. Þess vegna var ég ekki tilbúin að fylgja því eftir inni í þingsal þótt ég sé sammála frumhugmyndinni. Við svona stórt skref þarf að skilgreina þetta mun betur og vinna jafnframt að aðgerðum til að mæta breyttu landslagi í þessum efnum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020.