Categories
Greinar

Atvinna um allt land

Deila grein

03/06/2020

Atvinna um allt land

Þau áföll sem við höfum orðið fyrir vegna kórónuveirufaraldursins knýja okkur til að svara mikilvægum spurningum varðandi atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Ekki er langt síðan íslenskt efnahagslíf var borið uppi af fábreyttu atvinnulífi þar sem sjávarútvegurinn var langmikilvægastur og aflaði mikilvægs gjaldeyris fyrir þjóðina. Til að styrkja undirstöður samfélagsins var því á sínum tíma mikilvægt skref stigið þegar álverið í Straumsvík var reist og í kjölfarið fylgdu aðrar álverksmiðjur sem allar studdu við lífsgæði á Íslandi með því að skapa útf lutningsverðmæti og síðast en ekki síst: skapa atvinnu.

Í kjölfar bankahrunsins byrjaði ferðaþjónustan að gera sig gildandi á Íslandi. Eldgosið í Eyjafjallajökli vakti heimsathygli sem ferðaþjónustan náði að nýta sér með markvissum herferðum og hingað byrjuðu að streyma ferðamenn til að njóta landsins okkar. Margir hafa á síðustu vikum dottið í hefðiáttgírinn og gagnrýnt að ekki hefði verið meiri stýring á þeirri hröðu uppbyggingu sem orðið hefur í ferðaþjónustu. Það þykir mér sérkennilegt sjónarhorn því mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir Ísland og þá ekki síst landsbyggðirnar hefur verið gífurlegt og bæði skapað miklar útflutningstekjur og síðast en ekki síst: skapað atvinnu.

Undanfarin ár hefur verið mikil uppbygging í fiskeldi á Íslandi. Bæði hefur verið um að ræða eldi á landi en mestur hefur vöxturinn verið í sjókvíaeldi. Stjórnvöld hafa sýnt ábyrgð þegar kemur að uppbyggingu sjókvíaeldis svo ekki verði gengið á hinn villta íslenska laxastofn. Strax árið 2004 var ákveðið að sjókvíaeldi yrði aðeins leyft á afmörkuðum svæðum landsins sem afmarkast fyrst og fremst við Vestfirði og Austfirði. Var það gert til að gæta fyllstu varúðar. Vöxtur greinarinnar hefur verið mikill og hefur hún aukið útflutningstekjur Íslands töluvert og síðast en ekki síst: skapað atvinnu.

Framþróun í fiskeldi er hröð. Þær þjóðir sem líklega eru fremstar í fiskeldi eru Norðmenn og Færeyingar. Fiskeldið hefur skilað Færeyingum miklum ágóða sem sýnir sig best í því að lífsgæði í Færeyjum eru með því sem best gerist í heiminum. Norðmenn bera höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar kemur að fiskeldi. Sú staða hefur ekki náðst án vandkvæða en framfarir í greininni, til dæmis hvað varðar umgengni við lífríki sjávar, hafa náðst með þrotlausum rannsóknum og sífellt betri vinnubrögðum í greininni. Hér á landi þurfum við að læra af reynslu Norðmanna og nýta okkur þekkingu þeirra og reynslu til að efla byggðir á Vestfjörðum og Austfjörðum og enn fremur: skapa atvinnu.

Viðspyrna Íslands er meðal annars fólgin í því að styðja við uppbyggingu fiskeldis í sátt við náttúruna. Það er Íslendingum í blóð borið að nýta sjóinn og ná jafnvægi milli náttúru og manns. Það er heldur ekki úr vegi að benda á það stóraukna fjármagn sem sett hefur verið í nýsköpun með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og getur hjálpað til við að auka virði fiskeldisins við strendur Íslands og síðast en ekki síst: skapað atvinnu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní 2020.