Categories
Greinar

Suðurnesin eru besti staðurinn-stöndum saman!

Deila grein

18/02/2014

Suðurnesin eru besti staðurinn-stöndum saman!

Silja Dögg GunnarsdóttirFramundan eru spennandi tímar. Norðurslóðamálin eru í brennidepli en þegar siglingar um Norðurslóðir hefjast fyrir alvöru og þegar umsvif vegna olíuleitar og –vinnslu aukast við Grænland og á Drekasvæðinu þá þarf ýmis konar þjónusta að vera til staðar. Tækifærin fyrir okkur Íslendinga eru því mikil á þessu sviði enda lega landsins mjög hentug og innviðirnir sterkir.

Miðstöð leitar og björgunar
Hér á Suðurnesjum er gríðarlega góð aðstaða fyrir hendi á Ásbrú. Þar eru hentugar byggingar og annað sem til þarf, til að byggja upp miðstöð leitar og björgunar á Norðurslóðum. Utanríkisráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að hann telji að rétta staðsetningin fyrir slíka starfsemi væri á Suðurnesjum, ef til kemur. Ef Íslendingar ætla að verða miðstöð fyrir Norðurslóðasiglingar þá verðum við að standa saman. Samstaða og samvinna er lykillinn að svo mörgu. Ef við förum að togast á um hver fær hvaða bita af kökunni, þá verður kannski ekkert af neinu. Þess vegna verðum við að undirbúa okkur vel og sýna skynsemi og samstöðu.

Andstaða við flutning Landhelgisgæslunnar
Hið sama gildir um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Ég flutti þingmál fyrir jól um að hafin yrði undirbúningur að flutningi gæslunnar til Suðurnesja. Ég flutti þetta mál vegna þess að ég veit að á Suðurnesjum eru bestu aðstæður til staðar fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar og starfsemi henni tengdri. Auk þess þá væri það hagkvæmara fyrir ríkið til lengri tíma að hafa hana einum stað, á Suðurnesjum. Yfirmenn gæslunnar hafa tjáð mér að þeir vilji að starfsemin flytjist til Suðurnesja. Sýnum nú samstöðu og tölum einu máli fyrir flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja.

Lögregluskólinn til Keilis?
Þessi tvö verkefni, þ.e. uppbygging leitar og björgunarmiðstöðvar og færsla Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja myndi vera mikið gæfuspor fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og auk þess eru þarna talsverð samlegðaráhrif. Þessi starfsemi styður hvor aðra tvímælalaust. Annað þessu tengt er stofnun Öryggisakademíu hjá Keili. Skólameistarinn og starfsmenn Keilis hafa unnið lengi að undirbúningi Öryggisakademíu og meðal hugmynda er að Lögregluskóli ríkisins færist þar inn. Nú þegar æfa lögreglunemar og sérsveit lögreglunnar á gamla varnarsvæðinu. Ég vona að Öryggisakademían verði að veruleika og mun styðja það verkefni af öllum mætti sem og önnur góð verkefni sem ég tel vera til hagsbóta fyrir svæðið.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

(Greinin birtist í Víkurfréttum 13. febrúar 2014.)