logo-framsokn-gluggiLandsstjórn flokksins skipa framkvæmdastjórn flokksins, formenn kjördæmissambanda, formaður sveitastjórnaráðs og formaður launþegaráðs. Formaður og varaformaður kjördæmissambands Reykjavíkur eiga sæti í landsstjórn ef einungis eitt kjördæmasamband starfar í Reykjavík.

Ritari Framsóknarflokksins er formaður landsstjórnar. Landsstjórn mótar stefnu um innra starf flokksins og skal funda a.m.k. þrisvar á ári. Landsstjórn skal flytja skýrslu um störf sín á haustfundi miðstjórnar ár hvert.

Landsstjórn Framsóknarflokksins:

 

Verklagsreglur landsstjórnar

 

Reglur þessar gilda um starfsemi landsstjórnar Framsóknarflokksins.

Hver sá sem tekur í fyrst sinn sæti í landsstjórn staðfestir með undirritun sinni að hann hafi kynnt sér neðangreinar reglur.

1. gr.
Hlutverk landsstjórnar.

Landsstjórn skal móta stefnu um innra starf flokksins.

 

2. gr.
Aðalmenn og varamenn í landsstjórn.

Landsstjórn er skipuð framkvæmdastjórn flokksins, formönnum kjördæmissambanda, formanni sveitarstjórnaráðs og formanni launþegaráðs. Formaður og varaformaður kjördæmissambands Reykjavíkur eiga sæti í landsstjórn ef einungis eitt kjördæmissamband starfar í Reykjavík.

Landsstjórnarmönnum ber að sækja fundi landsstjórnar eða tilkynna um forföll. Í forföllum skal varaformaður viðkomandi kjördæmissambands, sérsambands eða ráðs taka sæti formanns. Stjórn kjördæmissambands Reykjavíkur tilnefnir tvo fasta varamenn fulltrúa sinna í landsstjórn.

Aðrir geta ekki tekið sæti sem stjórnarmenn á landsstjórnarfundum.

3. gr.
Verkaskipting.

Formaður landsstjórnar boðar til fundar, setur mál á dagskrá og stjórnar fundum landsstjórnar. Ritari Framsóknarflokksins er formaður landsstjórnar og málsvari er varðar málasvið landsstjórnar, nema landsstjórn ákveði annað.

Landsstjórnarmenn hafa fullt málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt á fundum landsstjórnar. Landsstjórnarmenn skulu upplýsa sínar flokkseiningar um ákvarðanir sem teknar eru á landsstjórnarfundum.

4. gr.
Starfsemi landsstjórnar.

Landsstjórn skal funda minnst þrisvar á ári og oftar ef þörf krefur. Formaður landsstjórnar boðar til fundar. Boða skal til fundar með að lágmarki 3ja daga fyrirvara. Með fundarboði skal fylgja dagskrá fundarins og nauðsynleg fundargögn. Heimilt er að boða til fundar með tölvupósti.

Fundurinn er löglegur ef meirihluti landsstjórnar situr fundinn. Einfaldur meirihluti ræður ákvörðun innan landsstjórnar. Óski landsstjórnarmaður eftir því skal atkvæðagreiðsla um tillögur vera leynileg.

Heimilt er að sitja fund í fundarsíma.

Óski 1/3 hluti landsstjórnarmanna eftir fundi í landsstjórn þá skal halda þann fund innan viku.

Landsstjórn skal gera starfsáætlun. Í upphafi almanaksársins skal kynna starfsáætlanir kjördæmissambanda, landssambanda, ráða, málefnanefndar og fræðslu- og kynningarnefndar í landsstjórn. Jafnframt skal fara yfir stöðu félagsstarfs í kjördæmunum.

Framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins skili landsstjórn skýrslu um skil á ársreikningum og aðalfundi aðildarfélaga kjördæmissambanda og landssambanda í síðasta lagi 15. maí ár hvert.

Landsstjórn boðar til reglulegra miðstjórnarfunda með 30 daga fyrirvara. Landsstjórn er jafnframt heimilt að boða til auka miðstjórnarfunda með skemmri fyrirvara.

Landsstjórn skal funda árlega með jafnréttisfulltrúa um stöðu jafnréttismála í flokknum.

Landsstjórn fundar árlega að hausti með þingflokki Framsóknarmanna, sbr. lög Framsóknarflokksins.

5. gr.
Fundargerðir.

Landsstjórn skal halda fundargerðabók um það sem fram fer á fundum stjórnarinnar. Í fundagerðabók skal skrá alla fundi landsstjórnar, hvenær fundur er haldinn, hverjir mættu, staðsetningu, tíma, deili á þeim sem kallaðir eru fyrir landsstjórn og dagskrá fundar.

Ákvarðanir landsstjórnar skulu færðar til bókar. Óski landsstjórnarmaður eftir því að leggja fram bókun skal það gert skriflega. Heimilt er að bóka efnisatriði fundar í tölvu og færa útprentun í fundargerðarbók.

Við upphaf hvers stjórnarfundar skal fundargerð síðasta fundar lögð fram til staðfestingar.

Starfsmaður Framsóknarflokksins skráir fundargerðir og undirritar þær ásamt formanni.

Fundargerðabók skal varðveitt á skrifstofu Framsóknarflokksins.

6. gr.
Þagnarskylda.

Landsstjórnarmenn skulu gæta trúnaðar um það sem fram fer á fundum landsstjórnar.

7. gr.
Skýrsla landsstjórnar.

Formaður landsstjórnar skal flytja skýrslu um störf landsstjórnar á haustfundi miðstjórnar ár hvert.

8. gr.
Samþykkt laga og reglna.

Ný lög aðildarfélaga, breytingar á lögum kjördæmissambanda, landssambanda, ráða og þingflokks skal leggja fram við landsstjórn til staðfestingar og taka ekki gildi fyrr en staðfesting landsstjórnar liggur fyrir.

Ef athugasemdir eru gerðar við ný lög eða lagabreytingar skal tilkynna viðkomandi flokkseiningu um það skriflega með rökstuðningi.

9. gr.
Gildistaka og breytingar.

Reglur þessar eru settar á grundvelli laga Framsóknarflokksins og taka gildi við samþykkt landsstjórnar. Jafnframt falla eldri verklagsreglur úr gildi. Breytingar á reglunum verða aðeins gerðar með samþykkt landsstjórnar.

Samþykkt 21. mars 2012.