FRAMSÓKN Í REYKJAVÍK

Facebooksíða / StefnuskráFramboðslistiÚrslit 2014

* * *

Ingvar Mar Jónsson í Ísland í dag

* * *

Framsókn vill fara finnsku leiðina

Árangur Finna í menntun vekur umhugsun annarra þjóða. Í landinu eru 3500 skólar og í þeim starfa 62.000 kennarar. Eingöngu efstu 10% útskrifaðra grunnnema í Háskóla komast að í meistaranámi til kennsluréttinda. Já, þið lásuð rétt, eingöngu hæstu 10% að fara í kennaranámið. Viljirðu gerast sérkennari í Finnlandi þarftu sem gefur að skilja að bæta við þig námi og er námstíminn því 6 ár en ekki hin hefðbundnu 5 ár. Laun eru í samræmi við menntun og ábyrgð.
Finnar eru þeirrar skoðunar að gæði kennaranáms og kennararnir sjálfir séu það sem púðrið eigi að fara í. Markmiðið er að efla þá nemendur eða einstaklinga í skólakerfinu sem viðkvæmir eru fyrir og þannig fá um 30% allra finnskra nemenda sérúrræði og stuðning af einhverju tagi á fyrstu níu árum skólagöngu sinnar. Stefnan er sú að skólarnir séu litlir svo allir kennarar þekki flesta eða alla nemendur. Þannig verður þjónustan og umhverfið persónulegra og nándin meiri. Leikur fær stóran sess í skipulaginu öllu þvert á námsgreinar.
Ef kennari lendir í blindgötu með að ná til nemanda síns er markvisst leitað til samkennara við skólann og lausna leitað í sameiningu. Eins sameinast bekkir að hluta til eða að öllu leyti til að styrkja veikleika eða efla heildina. Allt er þetta gert undir stjórn og að frumkvæði kennaranna sjálfra. Þeir ráða för.
Endurreisn finnska skólakerfisins
Nú eru um 45 ár síðan finnska skólakerfið var endurmetið í kjölfar efnahagslegs hruns og styrjalda á fyrri áratugum síðustu aldar. Til að efla samkeppnishæfi landsins og koma því inn í nútímann og svo framtíðina varð að mennta alla. Þetta snerist fyrst og fremst um það að lifa af í nýju pólitísku umhverfi. Þverpólitísk ákvörðun var tekin og sátt var um það að mennt er máttur og um leið grunnstoðir hvers samfélags. Því skyldi koma á skólakerfi byggðu á jafnrétti og jöfnum tækifærum en ekki samkeppni og miðstýringu.

Tölfræðin ekki rétti mælikvarðinn

Bandaríkjamenn hafa farið þá leið að etja til samkeppni á menntasviði með gríðarlegum stuðningi fjármálageirans á Wall Street og auðkýfinga á við Bill Gates sem styðja við einkarekna skóla og svokallaða leiguskóla eða “charter schools”. Jafnvel Obama hefur stutt við samkeppnissjónarmið milli skóla með því að gefa þeim tækifæri til frekari fjárúthlutana í gegnum námsárangur og jákvæða tölfræði. Í Finnlandi myndu kennarar fljótt snúast gegn slíku kerfi. Segja þeir, og réttilega svo, að metir þú eingöngu tölfræðina þá missirðu af mannlega þættinum. Við getum öll verið sammála þessu. Eða hvað?

Ekki allt upptalið

Í Finnlandi er eitt samræmt próf sem allir taka í lok síðasta skólaárs síns í grunnskóla.
Skólar eru reknir af skólafólki með þekkingu og reynslu úr skólakerfinu, bæði í skólunum sjálfum og í stjórnsýslunni. Skólar eru fjármagnaðir af hinu opinbera og jafnræðis er gætt. Ganga þeir svo langt að segja jafnrétti vera mikilvægasta orð finnska menntakerfisins. Allir stjórnmálaflokkar frá hægri til vinstri eru samhuga um það.
93% Finna útskrifast úr bók- eða verknámi af einhverju tagi á framhaldsskólastigi. 17,5 prósentustigum fleiri en í Bandaríkjunum. 66% finnskra ungmenna halda áfram í námi og sækja sér frekari menntun og er það hæsta hlutfall innan Evrópusambandsins. Finnar eyða aftur á móti 30% minna fjármagni í hvern nemanda en t.d. Bandaríkjamenn.
Hinum mikla árangri af þessum skipulagsbreytingum vissi enginn formlega af fyrr en PISA kom til sögunnar. Þá voru finnskir nemendur hæstir í læsi af 50 löndum. Þremur árum seinna skoruðu þeir einnig hæst í stærðfræði af 57 löndum. Árið 2006 var Finnland einnig efst í náttúrufræði. Árið 2009 voru finnar 6. hæstir í stærðfræði, önnur hæsta þjóðin í náttúrufræði, þriðja hæsta í læsi af yfir milljón nemendum um heim allan.
Munurinn á nemendum sem gengur best og verst er hvergi minni en í Finnlandi samkvæmt könnun OECD. Kennarar koma allir frá sama þjálfunargrunni og alls staðar er boðið upp á sömu kennsluna, sömu markmiðin og sömu menntunarmöguleikana.
Finnar eru þó ekki montnir af afrekum sínum. PISA er ekki í hávegum höfð og niðurstöðum hennar ekki fagnað þar sem þeir meta hlutverk sitt sem aðstoð við að læra að læra en ekki hvernig á að taka próf. PISA er ekki það sem skólinn snýst um í Finnlandi.
Finnskir kennarar eyða minni tíma við borðin sín og minni tíma í kennslustundum en kollegar þeirra í Bandaríkjunum. Kennarar nota aukatímann í að byggja upp og skipuleggja nám og námsefni og meta stöðu nemenda sinna og leita leiða til að koma til móts við ólíkar þarfir þeirra.
Útileikur og frímínútur spilar stóran þátt í skóladeginum í öllum veðrum og byrjar skólinn ekki fyrr en við 7 ára aldur. Vilja Finnar meina að engin þörf sé á að flýta námi barna, þau læri betur þegar þau eru tilbúin.

Finnsk velferð

Í Finnlandi er fæðingarorlofið 3 ár og niðurgreidd daggæsla fyrir foreldra, leikskóli fyrir alla frá 5 ára aldri þar sem áhersla er á leik og samskipti. Ríkið greiðir foreldrum einnig veglegar barnabætur eða um 150 evrur á mánuði fyrir hvert barn fram að 17 ára aldri. 97% allra 6 ára barna fara í leikskóla þar sem formlegt nám hefst að vissu leyti. Skólar útvega nemendum sínum mat og námsgögn og akstursþjónustu sé þess þörf. Heilsugæsla nemenda er fjölskyldum að kostnaðarlausu.
Kennari í Finnlandi fylgir bekknum sínum í tvö ár eða lengur og sérstakir bekkir eru fyrir nemendur af erlendu bergi brotnu, þar sem kennslan er í höndum sérfræðinga í fjölþjóðlegri kennslu og með sérstökum stuðningi yfirvalda í formi fjármagns til að kosta sérkennara og aukins bekkjarfjölda (færri nemendur í hópi og því fleiri kennarar).
Lynell Hancokc, sem skrifaði þessa grein hér, heimsótti skóla í hverfi þar sem íbúar eiga margir hverjir við vissa félagslega erfiðleika að stríða og þar sem helmingur nemenda átti við námsörðugleika að stríða. Fékk hún þær upplýsingar að auka styrkur færi til skólans upp á 47.000 evrur til að koma til móts við aukið hlutfall nemenda með sérþarfir. Eins og gefur að skilja þurfa sérkennarar aukna menntun á við hinn almenna kennara. Það merkir að sérkennarar kosta meira. Í umræddum skóla í Helsinki er einn kennari eða starfsmaður á hverja sjö nemendur. Af því að kennarar meta sem svo að þess þurfi!

Íslenska leiðin

Á Íslandi boða stjórnvöld stórsókn í menntamálum. Samninganefnd sveitarfélaga fékk ekki minnisbréfið um það og bauð grunnskólakennurum 3% launahækkun nú á dögunum, sem grunnskólakennarar felldu með miklum meirihluta atkvæða.
Miðstýring í skólakerfinu hefur einnig stóraukist undanfarin ár. Aukið samræmi og samstarf annars vegar og miðstýring hins vegar er ekki það sama og helst því síður í hendur.
Við getum gert betur!
Höfundur er grunnskólakennari og að ljúka meistaranámi í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands.
Hjördís Guðný  Guðmundsdóttir, skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins í borgarstjórnarskosningunum í vor.
Byggt á grein Lynell Hancock Why Are Finland’s Schools Successful?
Grein sem birtist undir Skoðun á visir.is þann 3. apríl 2018

* * *

Dýrmætasta auðlindin

Grunnur Samfélagsins
Til þess að byggja upp velferðarsamfélag þar sem allir geta lifað með reisn er gott að hugsa sér pýramýda. Grunnur pýramýdans er menntun og þar er eins gott að vandað sé til verksins. Kennarar byggja þennan grunn og til þess að vel takist til, þurfum við sem samfélag að tryggja að vel hæft og áhugasamt fólk sinni því vandasama starfi. Mannauðurinn er hverju samfélagi dýrmætasta auðlindin og náttúrúauðlindir blikkna í samanburði. Úti í hinum stóra heimi þekkjast fjölmörg dæmi þess að samfélög, rík af náttúruauðlindum eru í molum vegna þess að grunnurinn er ótraustur. Í menntun höfum við Íslendingar dregist aftur úr á síðustu árum og brestir eru komnir í grunninn, en hvað er til ráða?

Finnska leiðin
Við þurfum sem betur fer ekki að finna upp hjólið því Finnar hafa gert það fyrir okkur. Þeim hefur gengið hvað best að mennta börn sín og um leið treysta grunninn. En hvernig fara þeir að? Þeir viðurkenna og valdefla kennarann sem sérfræðing, borga honum laun sem samrýmist sérfræðimenntun kennarans og treysta honum til að vinna skapandi og sjálfstætt. Einnig býr kennarinn við góðar starfsaðstæður. Kennararar njóta mikillar virðingar í finnsku samfélagi og kennarastarfið er eftirsótt. Í námi er lögð áhersla á að börnin læri að vinna saman fremur en að vera í samkeppni. Þeim er kennt að vinna sjálfstætt og skapandi fremur en að kenna þeim staðla. Síðast en ekki síst er gerð rík krafa um að börnum sé aðeins kennt af faglærðum kennurum.

Hæðir pýramýdans
Þegar menntamál þjóðar eru í lagi þá verður grunnurinn traustur og eftirleikurinn auðveldur. Með traustum grunni er vel hægt að byggja ofan á hann margar hæðir verðmætasköpunar. Því fleiri hæðir verðmætasköpunar sem samfélag byggir þeim mun fallegri og betri verður efsta hæðin þar sem velferðferðin býr fyrir alla samfélagsþegna. Ef við lögum ekki grunninn þá munu hæðirnar hrynja.

Þessa finnsku leið vill Framsóknarflokkurinn í Reykjavík fara til þess að framtíðin verði góð og gjöful fyrir okkur öll.

Ingvar Mar Jónsson

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum 2018.

Greinin birtist á visir.is 17. mars 2018.

* * *

Bleiki fíllinn í skólamálum

Eftir nærri tvo áratugi í starfi með börnum og kennurum í borginni okkar, og víðar, veit ég frá fyrstu hendi yfir hvaða mannauði við höfum að ráða og mikilvægi þess að hlúa vel honum. Reykjavíkurborg er stærsta sveitafélag landsins og á að mínu mati að vera best til þess fallin að vera leiðandi í skólaþróun og skólastarfi. Við getum gert miklu betur, ef vilji stjórnvalda eða borgaryfirvalda er fyrir hendi.

Leik- og grunnskólakennarar eru sérfræðingar á sínu sviði. Kennarar þurfa svigrúm, tíma og frelsi til að stýra skólaþróun, enda engir aðrir betur til þess fallnir. Finnska leiðin, sem margir hafa nefnt en færri vita kannski nákvæmlega hvað snýst um, gengur út á það að valdefla sérfræðinginn sem kennarinn er og auka samstarf og jöfnuð í skólakerfinu. Þá eiga allir að hafa jöfn tækifæri til náms óháð búsetu eða efnahag. Einkareknir skólar eru því ekki til umræðu í Finnlandi, slíkt elur á samkeppni og ójöfnuði. Samstaða þarf að ríkja þvert á pólitíska flokka um að samvinna og menntun fari best saman og að hver og einn skipti máli. Það á ekki að skipta framtíð barns máli hvort það búi í bæ sem er „grænn“ eða „blár“ eða „rauður“ á hinu pólitíska litrófi.

Í stað þess að hvetja skóla til samkeppni með von um að eitthvað batni sem aflaga hefur farið, þá er krafa um samstarf. Þar sem vel gengur er skoðað í kjölinn og það er yfirfært á aðra staði sem þurfa eitthvað að bæta. Ef kennari nær ekki til nemanda fær hann annan kennara í til að reyna og sjá hvað gerist. Ef erfiðlega gengur með einn bekk, þá er samstarf sett í gang með öðrum bekk þar sem betur gengur. Það er nefnilega miklu meira í húfi en orðspor og meðaleinkunn. Líf barna eru í húfi. Að mínu mati er því algjörlega galið að ætla að ala á samkeppni milli skóla eða hverfa með aukinni einkavæðingu því í valnum munu liggja nemendur sem ekki hafa bakland eða stuðning eða einhvers konar annan vanda sem er þeim hamlandi í hröðu umhverfi harðrar samkeppni.

Kennarar á Íslandi vita þetta manna best enda keppast þeir við og þreytast aldrei á að viðhafast einhvers konar samstarf sín á milli. Hér eru haldnar menntabúðir um alls konar út um allt land, menntamál eru rædd á twitter undir #menntaspjall, ótalmargir facebookhópar um hverja faggrein hafa myndast sem vettvangur kennara til að skiptast á hugmyndum að verkefnum og lausnum. Kennarar sitja kvöld eftir kvöld og þýða og staðfæra eða útbúa kennsluefni til að kveikja áhuga nemenda og leyfa öðrum kennurum að njóta góðs af því. Kennarar sækja ráðstefnur um allan heim og nýta eigið fé og endurmenntunartíma og fjármagn til að ferðast um landið og heiminn til að skoða hvað er í gangi þar og taka sem mest með sér heim í sinn skóla – og aftur – miðla til kollega sinna. Alþjóðlegt samstarf og verkefni eru í gangi víða um allt land og krefst það mikilla fórna af hálfu þeirra kennara sem að því standa enda dugir hinn eiginlega skilgreindi vinnutími skammt þegar eitthvað stórt er í bígerð.

Skólarnir okkar búa yfir gríðarlegum mannauði og gríðarlegri þekkingu. Það væri algjört glapræði af hálfu yfirvalda á hverjum stað að ætla þessu fólki að halda áfram að troðast enn frekar inn í aukna miðstýringu sem sveitarfélögin hafa komið á á undanförnum árum, með stærsta sveitarfélag landins, Reykjavík, í broddi fylkingar.

Hér á landi eru fjölmargir einstaklingar sem virkilega myndu vilja gera kennslu og starf með börnum að sínu framtíðarstarfi, ef hvatinn væri til staðar. Við höfum alið upp gagnrýna einstaklinga sem sjá og skilja að það lifir enginn af hugsjóninni einni saman. Myndu því betri kjör og starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara skila okkur fleiri fagmenntuðum kennurum inn í skólana sem svo aftur gerði það að möguleika að bjóða upp á fleiri leikskólapláss og bæta meðleinkunn og alþjóðlegan orðstír bókaþjóðarinnar í norðri, ef því er að skipta.

Valdeflum kennarann og viðurkennum þá sem þá sérfræðinga sem þeir eru. Greiðum leik- og grunnskólakennurum laun sem ná að lágmarki meðallaunum sérfræðinga hér á landi, með sama menntunarstig að baki. Um þetta þarf að skapa þjóðarsátt.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir

Höfundur er grunnskólakennari og er að ljúka meistaranámi í mannauðsstjórnun við HÍ.

Hjördís skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins til borgarstjórnarskosninganna í vor.

Greinin birtist á visir.is 28. mars 2018.

* * *

Samstarf um Sundabraut

Reykvíkingar hafa haft Sundabraut til umræðu í áratugi, enda um mikla samgöngubót að ræða. Tilgangur Sundabrautar er margþættur og margumræddur en hún er m.a. talin hafa mikilvægu hlutveki að gegna í þróun byggðar á suðvesturhorni landsins og er forsenda uppbyggingar í Gufunesi og Geldingarnesi. Sundabraut er talin hafa mikla þýðingu fyrir samgöngur á landsvísu og hefur verið skilgreind sem þjóðvegur í þéttbýli, en því fylgir að kostnaður við gerð hennar mun greiðast úr ríkissjóði.
Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafa unnið að þessu verkefni í sameiningu frá árinu 1995 í ljósi þess að borgin fer með skipulagsvald á því svæði sem brautinni er ætlað að liggja. Í gegnum tíðina hafa komið upp ýmsar hugmyndir að leiðarvali en á síðustu árum hefur aðallega verið þrætt um tvo kosti, innri leið (leið III) og ytri leið (leið I).

Báðar leiðir hafa verið taldar leysa meginhlutverk Sundabrautar sambærilega en kostnaðaráætlanir sýndu að ytri leiðin var um 50% dýrari en innri leiðin. Á þeim forsendum gerði Vegagerðin innri leiðina að tillögu sinni á sínum tíma. Þá er vert að benda á að skipulagsfræðingar hafa á síðari árum tekið undir tillögu Vegagerðarinnar á þeim forsendum að stefna innri leiðar Sundabrautar sé betur í takt við þróun samgönguáss höfuðborgarsvæðisins.

Samstarfi slitið
Reykjavíkurborg sló hins vegar innri leiðina, að því er virðist einhliða út af borðinu við útgáfu aðalskipulags Reykjavíkurborgar 2010-2030. Í nýju skipulagi er einungis gert ráð fyrir ytri leið Sundabrautar en í vegstæði innri leiðar áætluð íbúabyggð. Við þessa tilhögun skipulags gerði Vegagerðin ítrekaðar athugasemdir, með hliðsjón af 2. mgr. 28. gr. Vegalaga nr. 80/2007 en þar segir að lega þjóðvega í skipulagi skuli ákveðin að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Er þar jafnframt tekið fram að fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstutt sérstaklega.
Af viðbrögðum Vegagerðarinnar í framhaldinu að dæma má draga þá ályktun að hún telji Reykjavíkurborg ekki hafa gætt að þessu þegar innri leið var hafnað með nýju skipulagi. Steininn virðist loks hafa tekið úr í fyrra þegar Reykjavíkurborg undirritaði samning um uppbyggingu íbúða á Gelgjutanga, en sú uppbygging mun að óbreyttu koma varanlega í veg fyrir innri leið Sundabrautar. Hreinn Haraldsson vegarmálastjóri sendi Reykjavíkurborg í kjölfarið bréf þar sem enn og aftur var vakin athygli borgarinnar á fyrrgreindri 2. mgr. 28. gr. Vegalaga. Þá benti hann einnig sérstaklega á 3. mgr. sama ákvæðis sem hljóðar svo: „Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá sem Vegagerðin telur betri með tilliti til kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn.“

Ágreiningur milli ríkis og borgar
Vegagerðinni hefur verið falið það hlutverk að vinna að þróun og endurbótum á vegakerfinu með gerð áætlana um nýjar framkvæmdir eftir því sem almannahagsmunir og þarfir samfélagsins krefjast. Almennt er viðurkennt að ákvörðun um vegstæði þjóðvega sé ekki einkamál, hvorki einstaklinga né einstakra sveitarfélaga. Af þeim sökum hafa bæði ríki og sveitarfélög ýmis þvingunarúrræði til þess að ná bestu útkomunni við lagningu vega, með almannahag að leiðarljósi. Fyrrgreint og tilvitnað ákvæði vegalaga er eitt þeirra. Sú staða er því upp komin að Vegagerðin lítur svo á að Reykjavíkurborg eigi að fjármagna þann umfram kostnað sem til fellur vegna vals borgarinnar á dýrari leiðinni. Hér er um gríðarlegar fjárhæðir að ræða, því þó fyrri áætlanir hafi ekki verið unnar upp frá grunni gerir Vegagerðin ráð fyrir hér um bil 10 milljarða mun milli leiða, að núvirði.

Sáttarhönd Framsóknar
Ágreiningur um greiðslu umframkostnaðar er í okkar huga ekki stóra málið, þó það sé að sjálfsögðu stórmál fyrir íbúa Reykjavíkur ef 10 milljarða krafa verður stíluð á þá eina. Stóra málið er það að sérfræðingar Vegagerðarinnar gerðu innri leiðina að tillögu sinni, eftir ítarlega úttekt. Sú leið varð fyrir valinu með hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi og okkur stjórnmálamönnum ber að taka mark á því.

Það hæfir ekki höfuðborg landsins að standa í deilum við ríkið sjálft. Við viljum vera til fyrirmyndar og með hagsmuni almennings að leiðarljósi ganga aftur til samstarfs við Vegagerðina við val á þeirri leið sem Sundabraut verði mörkuð um ókomna tíð. Sé það enn tillaga Vegagerðarinnar, að undangenginni nýrri úttekt og kostnaðarmati að innri leiðin sé betri, erum við tilbúin til þess að viðurkenna að lóðaúthlutun á Gelgjutanga hafi verið mistök og skoða hvort ekki borgi sig að vinda ofan af þeim. Fyrsta skrefið í þá átt væri að ganga til samninga við lóðahafa með það að markmiði að greiða aftur innri leið Sundabrautar. Við viljum leita sátta og velja þá leið sem verður hagkvæmust fyrir okkur öll, Reykvíkinga sem og aðra landsmenn.

Ingvar Mar Jónsson

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum 2018.

Greinin birtist á eyjan.pressan.is 3. apríl 2018.

* * *

Leikskólalausnir

Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að ekki er allt með felldu í málefnum leikskóla Reykjavíkurborgar. Ljóst er að gera þarf stórátak áður en skólarnir verða reiðubúnir til þess að veita þá þjónustu sem borgarbúar vænta. Kallað er eftir skýrum svörum og raunhæfum lausnum frá stjórnmálamönnum nú í aðdraganda kosninga. Skiljanlega, ástandið er óþolandi.

Þessu kalli keppast frambjóðendur nú við að svara, með ýmsum fyrirheitum og hugmyndum. Meðal loforða er að byggja fleiri leikskóla og fjölga deildum. En stöldrum aðeins við. Áður en við leitum svara skulum við skilgreina spurninguna, hvert er vandamálið?

Ekki hefur, með góðu móti tekist að manna leikskólana síðustu misseri, með tilheyrandi keðjuverkandi vanda. Þó það sé gott skref að huga að byggingu nýrra leikskóla þá mun fjölgun leikskólaplássa ein og sér eingöngu auka á mannekluvanda skólanna. Vandinn í grunninn er sá að einhverra hluta vegna vill fólk ekki starfa á leikskólum og leikskólakennurum fækkar. Spurningin sem við þurfum að svara er; hvað veldur?

Að starfa með stórum hóp af litlum börnum, í litlu rými allan daginn er gríðarlega krefjandi, það veit ég af eigin raun. En vinnan göfgar manninn og eins og gefur að skilja þá eru fá störf eins gefandi. En hvers vegna fæst þá ekki fólk til starfa á leikskólum? Er svarið í raun ekki eins einfalt og það er augljóst?

Laun á leikskólum eru ekki samkeppnishæf og við söltum ekki grautinn okkar með hugsjónum einum. Megin ástæða þess að fáir leggja í þá vegferð að mennta sig í leikskólafræðum er þessi staðreynd. Af þeim sökum eru leikskólarnir bornir uppi af ófagmenntuðu starfsfólki og launin sem við bjóðum þeim eru með ólíkindum lág.

Ef ekki fæst hæft starfsfólk til starfa á leikskólum vegna þeirra lágu launa sem í boði eru, hvað gerum við þá? Bjóðum börnum og gamalmennum störfin, þyggja þau ekki hvaða laun sem er? Nei hættið nú alveg, á hvaða vegferð er þessi umræða? Við hljótum að geta gert betur.

Við þurfum að gera það upp við okkur hvort við viljum hafa fagmenntað starfsfólk á leikskólum borgarinnar. Ef svo er, þá þurfum við að hækka launin, þetta er ekki flókið.

Framsókn í Reykjavík vill fara í aðgerðir með það að markmiði að auka samkeppnishæfni leikskólanna til þess að laða að hæft og fagmenntað starfsfólk. Við viljum hækka laun leikskólakennara og leikskólaliða. Samhliða því viljum við fara í ýmsar aðgerðir til þess að bæta starfsaðstæður allra á leikskólum borgarinnar.

Nýlega kynnti Starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík tillögur sínar. Tillögurnar falla margar vel að stefnu Framsóknar í Reykjavík og teljum við þær skref í rétta átt. Meðal þess sem við viljum leggja áherslu á, samhliða launahækkun er að vinnuvika starfsmanna leikskóla verði stytt enda hefur það verkefni gefið góða raun. Þá þarf að bæta aðbúnað og húsakost strax og minnka álag á starfsfólk og börn með því að minnka deildir leikskólanna.

Við getum og viljum gera betur.

Snædís Karlsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík

Greinin birtist á visir.is

* * *

Ríflegur samgöngustyrkur til háskólanema

Fleiri farþega í Strætó og aukin hlutdeild vistvænna ferðamáta er augsýnilega hagkvæmasta úrræðið til að létta á vaxandi þrýstingi á gatnakerfi borgarinnar. Vandinn er bara að koma einmitt því í kring, á þann hátt að hafi hámarks áhrif með sem minnstum tilkostnaði.

Frítt í Strætó
Framboð Framsóknar í Reykjavík hefur talað fyrir því að gerð verði árs tilraun með að hafa frítt í Strætó sem nokkurs konar markaðsátak. Við viljum breyta ferðavenjum fólks og kynna þar sérstaklega til sögunnar Strætó. Stór hópur fólks á einkabíl og hefur ekki í hyggju að losa sig við hann. Ef hins vegar væri hægt að fá þennan stóra hóp til þess að nýta annan farskjóta en einkabílinn í hluta af þeim ferðum sem farnar eru, myndi það skipta okkur öll máli. Að bjóða fríar „tilraunaferðir“ gæti verið raunhæft fyrsta skref í átt að breyttri ferðahegðun.

Samgöngustyrkur
Við í Framsókn höfum jafnframt áhuga á öðru verkefni sem minna hefur verið kynnt. Þeir sem hafa átt leið um miðborgina síðustu misseri hafa væntanlega séð bílabreiðurnar sem umlykja háskólana við Vatnsmýrina. Þarna er hópur fólks á ferðinni á hverjum degi, flestir einir í bíl á leið um verstu punkta borgarinnar umferðarlega séð.

Með það að leiðarljósi að fækka bifreiðum á götunum viljum við bjóða reykvískum háskólanemum ríflegan samgöngustyrk.

Að borga háskólanemum fyrir það að nota vistvænan ferðamáta gæti verið hagkvæm leið til að létta á gatnakerfinu. Að greiða t.d. 5000 háskólanemum 20 þúsund kr. á mánuði í 9 mánuði á ári myndi kosta 900 milljónir á ári. Þessi upphæð kæmi að hluta til til baka inn í Strætó og myndi styrkja rekstur hans. Útfæra mætti þetta t.d. á þann hátt að sett væru upp aðgangsstýrð hlið við bílastæði skólanna, þeir sem þiggja samgöngustyrk fái ekki samtímis aðgang að bílastæðum við skólann. Ganga mætti enn lengra þannig að þeir sem fái aðgang þyrftu að greiða fyrir hann, sem kæmi að hluta til móts við kostnað vegna samgöngustyrks hinna.

Mesti hagnaður þessarar hugmyndar felst í því að hver og einn styrkþegi semur sig frá því að nýta einkabílinn á leið til og frá skóla. Það munar um minna, allt að 10 þúsund ferðir á dag um helstu álagspunkta gatnakerfisins.

Bílastæðalóðir
Hægt er að fara með þessari hugmynd lengra og spá í hvað hægt væri að gera við allt það landflæmi við háskólana sem fer undir bílastæði sem þjóna eiga 5000 nemendum. Segjum 2500 bílastæði, 12,5 m2 hvert. Það gerir rúma 30.000 m2 að grunnfleti. Við gætum hugsað okkur að reist yrðu í þeirra stað þriggja hæða hús, en það væri þá 90.000m2 byggingarmagn. Nota mætti slíkt byggingarmagn til að reisa allt að 2000 stúdentaíbúðir á besta stað fyrir háskólanema, sem þá í framhaldinu þyrftu ekki að aka um götur borgarinnar til að komast í skólann.

Snædís Karlsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Greinin birtist á kjarninn.is 20. mars 2018.