25% skatt á meðallaun – róttækar skattkerfisbreytingar

Print

Framsóknarflokkurinn vill nýta tekjuskattskerfið til að draga úr byrðum millitekjuhópsins. Miðtekjuhópar standa frammi fyrir mjög háu tekjuskattsþrepi og of litlum hvata til að auka tekjur sínar með meiri vinnu. Jaðarskatturinn svokallaði, eða sá skattur sem greiddur er af næstu viðbótarkrónu í launaumslagið, er of hár. Við viljum breyta þessu.

Það gerum við með millistéttaraðgerð í skattamálum líkt og með Leiðréttingunni sem var millistéttaraðgerð í skuldamálum og Fyrstu fasteign sem er vinnuhvetjandi úrræði fyrir ungt fólk til að létta af þeim byrðina af fyrstu íbúðarkaupum.

Framsókn vill lækka tekjuskattsprósentuna, þ.e. staðgreiðslu opinberra gjalda, fyrir einstaklinga með lágar tekjur og millitekjur samhliða því að tekjutengja persónufrádrátt þannig að hann falli niður þegar ákveðnum tekjum er náð. Barnabætur verði réttur barnsins og fylgi barninu.

Vaxtabætur falli niður í núverandi mynd en sparnaði verði beint til lágtekjuhópa með útborganlegum persónufrádrætti. Jafnframt viljum við taka upp einstaklingsframtöl og hætta þannig samsköttun hjóna. Með þessum aðgerðum er hægt að lækka skatta hjá meginþorra almennings og auka hvatann til vinnu.

Þetta er mjög einfalt. Neðra tekjuskattsþrep í staðgreiðslu skatta, 25%, gerir það að verkum að einstaklingur með 600 þúsund króna tekjur á mánuði greiðir 150 þúsund krónur í skatta. Skattþrepið er aðeins eitt og enginn persónufrádráttur af þessum tekjum. Taki einstaklingurinn ákvörðun um að vinna sér inn 40 þúsund króna viðbótartekjur greiðir hann fjórðunginn, eða 10 þúsund krónur, í skatt. Einstaklingur með 100 þúsund króna tekjur á mánuði greiðir engan skatt  heldur fær um 50 þúsund króna persónufrádrátt útborgaðan. Ráðstöfunartekjur beggja hækka frá núverandi kerfi.

Framsókn hefur unnið að útfærslu þessara hugmynda á síðustu vikum. Við teljum að fjármálaáætlun hins opinbera sem leggja skal fram næsta vor geti tekið mið af þessum hugmyndum og þær komið til framkvæmda 1. janúar 2018. Tillögurnar eiga rætur sínar að rekja til hugmynda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem síðar voru nánar útfærðar af Verkefnisstjórn Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.

(Smella hér fyrir kosningabækling)

Kosningastefnuskrá Framsóknar 2016

Fyrir kosningarnar 2016 leggur Framsóknarflokkurinn m.a. áherslu á eftirfarandi mál:

 • Hagur millistéttarinnar verði bættur enn frekar; neðra skattþrep verði lækkað verulega og persónuafsláttur verður útgreiðanlegur
 • Peningastefnuna skal endurskoða, raunvextir á Íslandi þurfa að endurspegla breyttan efnahagslegan veruleika
 • Lágmarkslífeyrir aldraðra verði 300 þúsund krónur á mánuði og fylgi lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði
 • Byggður verður nýr Landspítali á nýjum stað og framlög til heilbrigðisstofnanna um allt land aukin
 • Tannlækningar aldraðra verða gjaldfrjálsar og hjúkrunarrýmum fjölgað um allt land
 • Taka skal upp komugjald á ferðamenn sem nýtt verður til innviða
 • Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund krónur, barnabætur hækkaðar og barnaföt verði án virðisaukaskatts
 • Hluta námslána verður breytt í styrk og sérstök áhersla lögð á að styrkja iðn- og verknám
 • Skoðað verði hvort beita megi skattaívilnunum til fyrirtækja og einstaklinga á efnahagslega veikum svæðum á landsbyggðinni
 • Unnið skal eftir sóknaráætlun í loftslagsmálum sem er að fullu fjármögnuð til næstu þriggja ára í samræmi við skuldbindingar Íslands í Parísarsamkomulaginu
 • Aðstoða ungt fólk með úrræðinu Fyrsta fasteign og öðrum aðgerðum í húsnæðismálum – leiguíbúðir og fjölgun námsmannaíbúða

Margt hefur breyst til batnaðar á kjörtímabilinu. Auk Leiðréttingarinnar og losunar hafta má nefna: 15.000 ný störf hafa orðið til, kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri, verðbólgu hefur verið haldið í skefjum, nýtt almannatryggingakerfi var innleitt, bótaskerðingar voru dregnar til baka, tímamótasamningur um loftslagsmál var undirritaður og greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi voru hækkaðar umtalsvert. Þetta er hluti þeirra mála sem Framsóknarflokkurinn stóð að á kjörtímabilinu. Framsóknarflokkurinn hefur staðið með fólkinu í landinu í hundrað ár og mun gera það áfram.

Framsóknarflokkurinn hyggst, eftir kosningar, starfa með öllum þeim flokkum sem láta sig félagshyggju og jöfnuð varða og tilbúnir eru til að varðveita nauðsynlegan stöðugleika í íslensku atvinnu- og efnahagslífi.

 

 

Stefnumál Framsóknarflokksins eru hér sett fram með þrennum hætti

Grundvallarstefnuskrá flokksins er kjarninn í stefnu flokksins – eða það leiðarljós sem önnur stefnumótun byggist á. Hún er ekki endurskoðuð á hverju flokksþingi, en það var síðast gert 2001 og þar áður 1987.

Í ályktunum flokksþings (Má nálgast hér) er að finna ítarlegri stefnu í einstökum málaflokkum. Flokksþing endurskoðar þá stefnu annað hvert ár. Síðasta flokksþing var haldið í október 2016.

Í kosningastefnuskrá er að finna þær áherslur sem flokkurinn setur fram í kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar og gilda um komandi kjörtímabil.

 

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.

I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.

II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

III. Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.

IV. Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.

V. Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.

VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.

VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.

VIII. Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.

IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.

X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.