Categories
Fréttir Greinar

Djúpið í örum vexti!

Deila grein

23/04/2023

Djúpið í örum vexti!

Við verðum að tryggja fleiri stoðir undir atvinnulíf þjóðarinnar. Já, við vitum, að þú hefur heyrt þetta nokkrum sinnum áður. En við viljum segja þér frá atvinnugrein sem er að skapa störf og það mjög fjölbreytt störf í samfélagi sem hefur verið í varnarbaráttu allt of lengi.

Undirritaðir áttu mjög fróðlega og góða ferð um liðna helgi er við kynntum okkur eldissvæði Háafells við Skarðshlíð í Ísafjarðardjúpi. Þar hefur verið lax í sjó í hartnær eitt ár með lágum afföllum og góðum vexti. Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells, fór yfir áherslur og framtíðarsýn fyrirtækisins á framleiðslunni í viðkvæmri náttúru og um leið verðmætri auðlind. Fróðlegt var að hlýða á yfirlit yfir þær miklu umhverfisrannsóknir sem fram hafa farið og þann viðamikla undirbúning sem fór fram áður en eldið fór af stað. Eins var upplýsandi að heyra hvað fyrirtækið býr að mikilli þekkingu eftir 20 ár í eldi og síðan áratuga reynslu af rækjuveiðum í Djúpinu.

Háafell vinnur eftir ströngum kröfum og vinnur nú að innleiðingu Whole Foods staðalsins fyrir sínar vörur, sem eru afar kröfuharðar, er varðar efni, fóður og sýnatökur. Whole Foods eru hvað þekktust fyrir sölu á hágæða matvælum sem eins lítið hefur verið átt við í framleiðslu og mögulegt er. Rétt er að geta þess að sýklalyf eru ekki notuð hjá þeim í fyrirtækjum sem í dag stunda laxeldi í sjó á Vestfjörðum. Við erum sannfærð um að góðri umgjörð sé hægt að byggja upp greinina í sátt við náttúruna, en ekki á kostnað hennar.

Við höfum tækifæri til að skapa ný störf og er mikilvægt að farvegurinn sé þannig úr garði gerður að hægt sé að sækja hratt fram. Það er ekki ónýtt að geta tryggt betur og stuðlað að störfum er krefjast fjölbreytts bakgrunns. Gleymum heldur ekki afleiddum störfum, allt helst þetta í hendur að festa í sessi sterkara samfélag á Vestfjörðum.

Það þarf að vinna að sanngjarni skiptingu tekna á milli ríkis og sveitarfélaga og tryggja uppbyggingu innviða. Framsókn hefur talað skýrt í þeim efnum, að gjaldtaka standi undir verkefnum sveitarfélaga ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem eldi er stundað. Það er allra hagur.

Óhætt er að segja að framtíðin sé björt með nýrri atvinnugrein sem laxeldið er og ekki síst á stöðum sem hafa verið í mikilli varnarbaráttu síðustu áratugi. En það þarf einnig að taka af skarið og vera með skýra sýn á ákvarðanir sem þarf að taka. Laxeldið mun verða ein stærsta útflutningsgreinin og um leið tryggjum við frekari stoðir undir fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi.

Ágúst Bjarni Garðarsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 22. apríl 2023

Categories
Greinar

Tíma­móta­samningur um lið­skipta­að­gerðir og loksins jafnt að­gengi

Deila grein

03/04/2023

Tíma­móta­samningur um lið­skipta­að­gerðir og loksins jafnt að­gengi

Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu er kjarninn í stefnu Framsóknar í heilbrigðismálum. Þær áherslur birtast sömuleiðis í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál.

Blandað rekstrarform

Við eigum öflugt heilbrigðiskerfi sem byggir á blönduðu rekstrarformi þar sem hið opinbera bæði veitir þjónustu og kaupir af öðrum aðilum. Þegar heilbrigðisþjónusta er fjármögnuð með opinberu fé er áhersla lögð á að þjónustan sé veitt tímanlega, af gæðum og á hagkvæman hátt. Í litlu þjóðfélagi þarf að gæta að jafnvægi og forgangsröðun þannig að opinberar heilbrigðisstofnanir geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Með samningum Sjúkratrygginga Íslands um kaup á heilbrigðisþjónustu er hægt að stuðla að betri nýtingu fjár og mannauðs. Forsenda þess að blandað heilbrigðiskerfi gangi upp er samvinna og samspil kerfisins í heild þannig að hægt sé að fullnýta afkastagetu þess í þágu fólksins í landinu.

700 liðskiptaaðgerðir á þessu ári

Við þekkjum vel umræðuna í tengslum við liðskipaaðgerðir sem hefur fylgt þjóðinni undanfarna áratugi. Ófá biðlistaátök hafa verið sett af stað með ágætis tímabundnum árangri en skömmu síðar höfum við ratað aftur í sama farið. Opinberar stofnanir þurfa að forgangsraða þjónustu sinni til að geta tekist á við lögbundið hlutverk sitt er varðar bráð veikindi, farsóttir og annað. Því sitja stundum á hakanum aðgerðir sem þessar. Fjöldi sjúkratryggða einstaklinga hefur einnig nýtt sér heimildir EES regla um heilbrigðisþjónustu erlendis vegna langrar biðar eftir aðgerð. Er það gert með fullri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands, með tilheyrandi viðbótarkostnaði, óþægindum og óhagræði.

Frá árinu 2016 hefur Klínikin boðið upp á liðskiptaaðgerðir án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands sem hefur vissulega hjálpað mörgum. En tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem efnameiri einstaklingar hafa tækifæri til að borga sig fram fyrir röðina, er eitthvað sem okkur í Framsókn hugnast ekki. Það verður að gæta jafnræðis í nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þannig að allir geti gengið að góðri og tímanlegri þjónustu þegar á þarf að halda. Það er farsælast að allir þjónustuveitendur heilbrigðiskerfisins geti unnið saman að sameiginlegu markmiði á sömu forsendum. Þannig næst árangur til lengri tíma og tímabundinn á.

Það er því afar ánægjulegt að sjá áherslur Framsóknar setja mark sitt á heilbrigðismál undir öflugri forystu Willums Þórs, heilbrigðisráðherra. Í vikunni staðfesti hann samning Sjúkratrygginga Íslands um kaup á 700 liðskiptaaðgerðum á þessu ári. Samningurinn markar tímamót og stuðlar að auknu og umfram allt jöfnu aðgengi að liðskiptaaðgerðum. Sömuleiðis hefur heilbrigðisráðherra tryggt aðgengi kvenna að endómetríósuaðgerðum með samskonar samningi í upphafi árs.

Tryggjum gæði og förum vel með fé

Sérhæft heilbrigðisstarfsfólk er takmörkuð auðlind í fámennu samfélagi og skipulag þjónustunar þarf að taka mið af því. Höfum hagsmuni einstaklingsins sem þarf á þjónustunni að halda að leiðarljósi. Með kaupum Sjúkratryggingar Íslands á nauðsynlegri heilbirðgisþjónustu tryggjum við jafnt aðgengi, samvinnu, réttláta forgangsröðun, skynsama nýtingu á almanna fé og fullnýtum afkastagetuna í heilbrigðiskerfinu.

Ágúst Bjarni Garðsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eigum við ekki að láta græðgina eiga sig

Deila grein

28/03/2023

Eigum við ekki að láta græðgina eiga sig

Vegna ummæla sem látin voru falla í Bítinu á Bylgjunni nú í gærmorgun um að fólk þurfi annað hvort að rísa upp eða gefast upp í því ástandi sem nú ríkir á markaðnum, fannst mér tilvalið að setjast niður og skrifa nokkra punkta inn í umræðuna. Þessi ummæli eru nefnilega ekki til þess fallin að skapa einingu í samfélaginu, heldur þvert á móti til að skapa sundrung og stefna ólíkum hópum upp á móti hverjum öðrum.

Verðbólgan liggur eins og mara á þjóðinni sem virðist aldrei ætla að hypja sig. Þegar við horfum fram á verkefni sem eru jafn þung og þetta, sem nú eru uppi, er afar mikilvægt að horft sé í lausnir og leitað sé leiða um það hvernig og hvar við höfum tök á að stíga niður fæti. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í síðustu viku um heilt prósentustig og standa þeir núna í 7,5%. Hér er um að ræða ákvörðun sem hefur víðtæk áhrif á samfélagið í heild, á heimilin í landinu, fyrirtækin og verð á matvöru svo dæmi séu tekin. Staðan er þegar orðin verulega krefjandi en umræða um að enginn sé að gera neitt og að enginn ætli sér að gera neitt er hættuleg og verulega óupplýsandi. Við þurfum öll að finna til ábyrgðar þegar kemur að umræðunni, nálgast hana á ábyrgan hátt og láta allan hræðsluáróður eiga sig.

Vaxtakvíði

Framundan er eftir sem áður að leysa stöðuna og þá þarf að horfa til þess hvað sé til ráða? Eigum við að hækka skatta á þá sem minnst mega við því, til þess eins að tryggja útgjaldahlið ríkissjóðs? Að mínu viti er þar engum greiði gerður!

Við vitum að ástandið í samfélaginu hefur gert fólki erfiðara um vik við að komast inn á fasteignamarkaðinn. Það skýrist einna helst af þyngri greiðslumatsskilyrðum og hærri eiginfjárskilyrðum sem Seðlabankinn tók ákvörðun um á síðasta ári, með það að markmiði að kæfa markaðinn og stöðva gífurlegar hækkanir á fasteignaverði sem hafa verið fordæmalausar síðustu árin. Ef þessar aðgerðir skila því sem áætlað er að þær skili, þá er það gott og vel. En við þurfum líka að muna að Róm var ekki byggð á einum degi. Árangur af þessum aðgerðum getur tekið tíma að skila sér þannig að fundið sé fyrir því.

Heimilin í landinu eru einnig farin að finna vel fyrir hækkunum á greiðslubyrði af húsnæðislánum sökum hækkandi vaxta. Kvíði er farinn að myndast hjá þeim sem þó náðu að festa vextina á lánunum sínum á hagstæðum tíma. Fastvaxtatíminn er fljótur að líða og búast má við töluverðri snjóhengju þegar þeim fastvaxtatíma líkur. Það er afar stórt stökk að fara úr 3% föstum vöxtum yfir í 8% vextina sem í boði eru í dag og má því búast við töluverðu höggi.

Samfélagsleg ábyrgð á öllum vígstöðum

En tölum aðeins um samfélagslega ábyrgð. Eru allir aðilar í samfélaginu virkilega nauðbeygðir til að nýta sér í hvert sinn allan þann vaxtahækkunarramma sem myndast við hækkun stýrivaxta? Þarf matarkarfan að hækka í hvert sinn og þarf alltaf að hækka vextina á húsnæðislánin okkar? Miðað við fjárhagsstöðu stórfyrirtækjanna og arðgreiðslurnar, afkomuhagnað bankanna og þau laun sem þeir hafa tök á að greiða stjórnarformönnum sínum er svarið einfaldlega NEI! Hvers vegna skila þessar gríðarlegu hækkanir sér aldrei til neytandans? Hvar er samfélagslega ábyrgðin ef hún er yfir höfuð til staðar?

Þjónustugjöld virðast fara vaxandi á öllum stöðum í samfélaginu. Þó bólar ekkert á aukinni þjónustu tengdri hækkuninni. Þvert á móti virðist þjónustan hægt og bítandi vera að færast alfarið yfir í netheima með tilheyrandi sjálfsafgreiðslum. Tökum sem dæmi gerð greiðslumats. Áður fyrr fór þessi þjónusta í gegnum þjónustufulltrúa bankanna. Í dag er þessi vinna öll sett í hendur neytandans í gegnum sjálfsafgreiðslukerfi á þeirra svæðum. Neytandinn hefur greiðslumatsferli í gegnum sinn netbanka, hakar í að afla megi upplýsinga frá Creditinfo um stöðu hans yfir tekjur og skuldir og bætir svo við tilfallandi auka liðum ef þörf er á. Þessi vinna kostar neytandann 10.000 kr. sem þýðir að hann greiðir þessa upphæð fyrir að þjónusta sig alfarið sjálfur. Hvenær er komið nóg?

Sýnum samstöðu

Hræðsluáróður skapar glundroða í samfélaginu og þegar slík staða kemur upp, horfum við fram á að rökræn nálgun á verkefnið sem framundan er, gæti staðið höllum fæti ef skrefin eru ekki varfærnislega stigin og allir fara saman inn í þetta, gangandi í takt. Sagan sýnir okkur að efnahagskrísa skapar sundrung en ekki sameiningu og því þurfum við að breyta. Við þurfum að sýna samstöðu og nálgast þetta sem ein heild. Við búum hér á landi saman og verðum því öll að finna til okkar samfélagslegu ábyrgðar og hjálpast að við að reisa samfélagið upp aftur. Það verðum við að gera saman.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. mars 2023.

Categories
Greinar

Víst eru börnin leiðar­ljósið

Deila grein

21/03/2023

Víst eru börnin leiðar­ljósið

Í síðustu viku varð frumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga að lögum. Frumvarpið hefur hlotið mikla umfjöllun bæði á þingi og í samfélaginu. Um frumvarpið hafa ýmsar rangfærslur komið fram en fyrst og fremst hefur frumvarpið sætt töluverðum misskilningi, þ.e. um hvað þessum breytingum er ætlað að gera og hvað þær fela í sér. Það er mikilvægt að við getum tekið upplýsta umræðu byggða á rökum um það hvernig við ætlum að standa að þjónustu við íbúa og að það sé hægt að breyta lögum til hins betra fyrir samfélagið allt. Hér er einmitt um slíkar breytingar að ræða. Verið er að stíga skref með það að markmiði að ná betur utan um málaflokkinn og standa betur að þjónustu við þá sem til dæmis hingað leita eftir vernd. Samkvæmt lögunum er stjórnvöldum skylt að líta til hagsmuna hvers barns fyrir sig.

Hagsmunir barnsins að leiðarljósi

Í frumvarpinu eru skyldur lagðar á herðar mennta- og barnamálaráðuneytisins varðandi smíði og utanumhald á sérstöku hagsmunamati. Þar er verið að skerpa á lögunum hvað varðar að í hvert sinn sem unnið er með málefni barna í þessu kerfi þurfi að gera sérstakt hagsmunamat og unnin skuli reglugerð um það í samvinnu dómsmálaráðuneytis og þess ráðherra sem fer með barnaverndarmál hverju sinni. Þegar við vinnum með málefni barna, alveg sama hvort það eru börn sem eru komin hingað á flótta með fjölskyldum sínum eða fylgdarlaus börn, þarf að vinna ákveðið hagsmunamat og það þarf að skerpa á því hvernig það er unnið og leiðin til þess er að meta hverju sinni málefni hvers barns fyrir sig.

Mat á hagsmunum hvers barns fyrir sig

Þegar unnið er með stöðu þessara barna má ekki hugsa um fjölskylduna sem eina heild. Meta þarf hagsmuni hvers einstaklings fyrir sig. Sem dæmi má taka systkinahóp, en, þá sé ekki verið að hugsa um öll systkini saman heldur hvern og einn einstakling, hagsmunir hans séu vegnir og metnir. Það kemur fram í lögunum að reglugerð um hagsmunamat verði unnin í samvinnu dómsmálaráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis og ég fagna þeirri breytingu á lögunum vegna þess að hún setur auknar skyldur á okkur sem samfélag að gera akkúrat það sem aðilar hafa kallað eftir, það er að setja hagsmuni barna í fyrsta sæti. Það verður gert með þessari reglugerð og við erum þegar byrjuð á undirbúningssamtali við dómsmálaráðuneytið um það. Sú reglugerð verður að vera vönduð og ítarlega unnin. Ég hef trú á því að sú reglugerð muni mæta þeirri gagnrýni sem margir hafa viðrað. Hér er verið að stíga það skref að lögfesta skyldu dómsmálaráðuneytis og þess ráðuneytis sem fer með málefni barna hverju sinni að semja slíkt hagsmunamat.

Framsókn hefur það að leiðarljósi í allri sinni vinnu að hagsmunir barna séu settir í fyrsta sæti og ég treysti engum betur en hæstvirtum mennta- og barnamálaráðherra í þessa vinnu. Það þarf að vera mikill sómi af því hvernig við gætum að réttindum barna á flótta og allra barna svo það sé sagt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Spara og spara, oj bara

Deila grein

11/03/2023

Spara og spara, oj bara

Seðlabankastjóri tilkynnti að finna þyrfti leiðir sem hafa það að markmiði að aðstoða landsmenn við að auka sparnað sinn. Hefur hann því lagt til að afnumdar verði reglur um verðtryggingu inn- og útlána. Þetta þýðir að heimilt verður að verðtryggja innlán án tímatakmarkana frá og með fyrsta júní næstkomandi. Fram hefur komið að raunávöxtun á innlánsreikningum í fyrra var neikvæð í nánast öllum tilfellum. Fé á verðtryggðum reikningum hélt í við verðbólgu en þegar búið er að taka tillit til fjármagnstekjuskatts er raunávöxtun þeirra líka neikvæð.

Þessar reglur eru barn síns tíma og í raun er það ekki eðlilegt að Seðlabankinn hlutist til um hvernig innlán séu í boði á Íslandi. Afnám reglnanna er því jákvætt og tímabær aðgerð. Með breytingu á reglum um verðtryggingu er verið að búa til hvata til aukins sparnaðar og fjölga möguleikum á sparnaði. Markmiðið er því eftir sem áður að auka sparnað og draga úr þenslu í efnahagskerfinu okkar.

Innflutningur og viðskiptahalli

Það er halli á vöruviðskiptum, sem skýrist af öflugri innlendri eftirspurn. Það hefur m.a. keyrt áfram verðbólguna hér á landi og ljóst er að framhald verði á þeirri þróun. Verðbólgan byrjaði að aukast af miklum krafti fyrir rúmu ári síðan og er nú yfir 10%. Við flytjum inn meira en við flytjum út og mikil eftirspurn er eftir bæði vörum og vinnuafli, sem kyndir undir verðbólguna og hefur myndað mikla spennu á vinnumarkaði undanfarna mánuði.

Verðbólga er merki um mikla innlenda eftirspurn og verðhækkanir á innfluttum vörum koma bersýnilega fram í viðskiptahalla. Of mikil innlend eftirspurn myndar innflutningsverðbólgu hér á landi, sem hefur áhrif á verðlag, vísitölu og þar með verðbólguna. Ljóst er að núverandi verðbólga er að mestu leyti innflutt.

Sameina krafta gegn verðbólgu

Í kringum árið 1990 var gerð þjóðarsátt sem tók til allra aðila vinnumarkaðarins og hafði hún það að leiðarljósi að allir settu sér raunhæf markmið um kaupmátt, eyðslu og skynsemi samfélagsins. Ríkisstjórnin þarf að stíga föst skref og byggja þá brú sem til þarf svo eins konar þjóðarsátt náist. Við þurfum að taka saman höndum, spara meira og eyða minna, en þó á þann hátt að tannhjól samfélagsins stöðvist ekki á meðan. Til þess þurfa almenningur, vinnumarkaðurinn, ríkið og sveitarfélögin að ganga öll saman í takt, svo árangur náist í þessari baráttu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.

Categories
Greinar

Að standa vörð um íslenskan landbúnað

Deila grein

06/03/2023

Að standa vörð um íslenskan landbúnað

Nýverið fór fram Búgreinaþing og fram undan er Búnaðarþing og því er vert að ræða komandi endurskoðun búvörusamninga. Nauðsynlegt er að samningar séu bændum og matvælaframleiðslu landsins til hagsbóta, og því vil ég brýna hæstvirtan matvælaráðherra í þeim efnum. Hlusta þarf á þarfir og kröfur bænda. Það skiptir ekki bara þá máli heldur einnig samfélagið allt. Við viljum búa við fæðuöryggi þar sem framleiðsluhvatar eru miklir og við líðum aldrei skort á innlendum matvælum.

Augljós þörf fyrir meiri stuðning og aukna tollvernd

Við sjáum augljósa þörf fyrir stuðning frá ríkinu bæði í formi fjárframlaga og tollverndar. Öll umræða um að breyta kerfinu og taka út greiðslur sem eru beintengdar framleiðslu er aðeins til þess fallin að veikja stoðir landbúnaðarins og þá sérstaklega þegar kemur að nautgriparækt og sauðfjárrækt. Óframleiðslutengdur stuðningur eða grænar greiðslur tryggja ekki næga framleiðslu með skilvirkum hætti.

Með minni stuðningi komum við í veg fyrir nauðsynlega endurnýjun í greininni. Öflugur stuðningur og skilvirkt kerfi tryggir grundvöll til upphafs og áframhalds matvælaframleiðslu. Við sjáum að fjárfestingin búskap er töluverð. Vextir eru kringum 10% af jarðalánum, sem er virkilega mikið umhugsunarefni. Hvernig ætlumst við til þess að tryggja endurnýjun undir þessum forsendum?

Tryggja þarf öfluga tollvernd og endurskoðun verðlagsgrunnsins, sem er bæði hagsmunamál bænda og neytenda. Öll umræða um að það hækki verð til neytenda er á villigötum og markmiðið á að vera að tryggja framleiðslu afurða.

Stígum stöndug skref

Þá eflum við ekki landbúnað með því að draga úr stuðningi við eina grein í þágu annarrar. Íslendingar stæra sig af því að við búum við gæði og heilnæmi í matvælunum okkar. Það jú byggir á íslenskum landbúnaði. Hættan er að sú gæði hverfa ef landbúnaðurinn fær ekki þá virðingu og þann stuðning sem hann á  skilið. Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á dfs.is 6. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­mála eða ekki

Deila grein

17/02/2023

Sam­mála eða ekki

Þeir tímar sem við lifum á virðast kalla á það að skoðanir fólks þurfi allar að vera af einum meiði og helst þannig að allir geti fellt sig við þær.

En hvað ef ég er ekki sammála? Heilbrigð skoðanaskipti og rökræður um málefni samfélagsins eru það sem drífur áfram breytingar og snúast um að finna bestu mögulegu niðurstöðuna hverju sinni.

Ef allir væru sammála um eina ríkisskoðun á öllu – myndum við þá vera að sjá þær breytingar sem hafa átt sér stað í hinum ýmsu málefnum?

Tökum samtalið

Við þurfum að eiga þetta samtal og þurfum að þora að eiga þessi skoðanaskipti og rökræður, því að mínu viti er ljóst að ef allir ætla að fella sig við sömu skoðanirnar og sömu sjónarmiðin, þá kaffærum við framþróun í samfélaginu og það viljum við ekki.

Við þurfum að þora að vekja athygli á öðrum hliðum umræðunnar, þora að taka rökræðuna og þora að skiptast á skoðunum um málefnin.

Miðlum málum

Það er ekki til sá einstaklingur sem er sérfræðingur í öllu. Það hefur hingað til reynst ágætlega að miðla málum til að komast að heilbrigðri og skynsamari lausn og við ættum að vera að gera meira af því í staðinn fyrir að hugsa alltaf „mín skoðun er rétt“.

Skoðanaskipti eru góð

Skoðanaskipti og að hlusta á sjónarmið annarra eru alltaf af hinu góða. Með því að taka allar hliðar umræðunnar og mætast á miðri leið tel ég að við komumst að niðurstöðu sem er til hagsbóta fyrir heildina.

Fjarlægjum blöðkurnar frá augunum

Við megum ekki eingöngu horfa á verkefnin út frá sjónarhorni vagnhestsins – verum tilbúin að horfa til hliðar og líta á það sem tækifæri til að vera víðsýnni.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Stuðningur við börn sem verða fyrireða beita ofbeldi

Deila grein

01/02/2023

Stuðningur við börn sem verða fyrireða beita ofbeldi

Í haust bárust fréttir af ofbeldi og einelti meðal barna, því miður er ekki um einsdæmi að ræða, það eru til börn sem beita ofbeldi og þá eru börn sem verða fyrir ofbeldi. Um er að ræða samfélagslegt mein sem mikilvægt er að uppræta með öllum tiltækum ráðum. Ekki eru vísbendingar um að börn sem beita ofbeldi í barnæsku verði ofbeldisfull þegar þau verða eldri. Þörf er á að grípa inn í ofbeldi barna ásamt því að leita allra leiða til þess að stöðva ofbeldi í samfélaginu á öllum stigum.

Aukin áhersla á að leysa vanda

Lengi hefur aðaláherslan verið á að veita þeim sem verður fyrir ofbeldi aðstoð. Það er vissulega nauðsynlegt enda er það gríðarlegt áfall að verða fyrir ofbeldi. Þá er það engu að síður mikilvægt að veita viðeigandi fræðslu og stuðning til þeirra sem beita ofbeldi. Þeir sem beita ofbeldi eiga oft og tíðum við einhvern vanda að stríða og því er mikilvægt að þeir einstaklingar fái rétta leiðsögn og stuðning út í lífið. Með öðrum orðum, það er jafn mikilvægt að aðstoða þá sem beita ofbeldi og þá sem verða fyrir ofbeldi.

Samningur við VERU

Ofbeldi barna er enn aðeins lítill hluti mála sem skila sér til lögreglu og barnaverndar. Því miður hefur allt of lengi verið litið á ofbeldi barna sem vandamál sem hægt er að leysa heima fyrir en sem betur fer eru tímarnir að breytast. Fyrir áramót undirritaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, samning til styrktar VERU, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun. Samningurinn snýr að stuðningi við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi. VERA er heildstætt langtíma meðferðarúrræði fyrir unglinga í fikti og neyslu sem rekin eru af Vímulausri æsku, en samtökin stofnuðu Foreldrahús árið 1999 og kjarnastarfsemi þess er ráðgjöf, meðferð og fræðsla. Í Foreldrahúsi er starfrækt fjölskylduráðgjöf, foreldrahópar og foreldranámskeið, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga og stuðningsmeðferð fyrir ungmenni í vímuefnavanda.

Mikilvægi forvarna

Þessi samningur sem gerður var við VERU er stórt og mikilvægt skref í áttinni að því að bæta líðan barnanna okkar. Hér er um að ræða lið í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið stjórnvalda gegn ofbeldi er meðal annars að koma á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. En mikilvægt er að allar aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki sérstaklega til forvarna og fræðslu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Fram­farir í þágu þol­enda of­beldis

Deila grein

26/01/2023

Fram­farir í þágu þol­enda of­beldis

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra í samstarfi við dómsmálaráðherra, hafa tekið höndum saman í að tryggja brotaþolum kynferðisofbeldis viðeigandi stuðning hjá sálfræðingi að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu. Meðfram því á að stuðla að aukinni samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins um þjónustu vegna kynferðisofbeldis í samræmi við tillögur starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi. Framangreint er ein af áherslum ríkisstjórnarinnar og einnig kemur þetta fram í aðgerðaráætlun um bætta meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu sem gildir til lok árs 2022. Þar segir að tryggja þurfi brotaþolum viðeigandi stuðning innan kerfisins, s.s. sálfræðimeðferð innan heilbrigðiskerfisins eða önnur úrræði óháð búsetu og efnahag, meðal annars eftir skýrslutöku hjá lögreglu.

Reglubundið samráð

Dómsmálaráðherra mun síðan styrkja reglubundið samráð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og starfsmanna neyðarmóttöku og áfallateymis LSH um þjónustu við brotaþola kynferðisofbeldis. Það felur m.a. í sér hvernig lögregla skuli standa að tilvísun sem tryggir brotaþolum stuðningsviðtal sálfræðings að lokinni skýrslutöku og tryggja þar með rétta miðlun upplýsinga um meðferð mála innan réttarvörslukerfisins til brotaþola. Þá skal Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri framkvæma úttekt á árangri samstarfsins auk þess sem gerð verður úttekt á reynslu lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks af því aukna samstarfi sem hér er lýst.

Þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis

Þá hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra, í samvinnu við heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra, ákveðið að ráðast í greiningu á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis. Kortlögð verður aðkoma, hlutverk og ábyrgð ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila, einkum þolendasamtaka að rekstri þeirra og leggja á að því drög að fyrirkomulagi til framtíðar. Vinnan hefur það markmið að finna hentugustu leiðina til að tryggja framtíðarstarfsemi þolendamiðstöðva á Íslandi, bæði út frá skiptingu verkefna milli ráðuneyta og stjórnsýslustiga og við að móta stefnu um aðkomu lögreglunnar að þjónustumiðstöðvum. Einnig verður tekin inn í vinnuna samræming við verklag lögreglu í heimilisofbeldismálum sem og við rannsókn á öðrum ofbeldisbrotum. Þá hefur verið ákveðið að veita lögregluembættum sem hafa beina aðkomu að stjórnun þjónustumiðstöðva 18 millj. kr. styrk til að þróa áfram þverfaglegt og svæðisbundið samstarf í því skyni að efla stuðning og vernd brotaþola en það er í samræmi við ákvæði Istanbúlsamningsins. Embættunum er svo falið að veita nauðsynlega aðstoð við greiningu á framtíðarfyrirkomulagi þjónustumiðstöðva og huga að því að samræma og kynna starfsemi miðstöðvanna með það fyrir augum að samræma og kynna starfsemina út um allt land.

Aðgerðir í þágu þolenda og samstarf milli stofnana

Í Samráðsgátt Stjórnvalda þann 21. desember síðastliðinn birtust áform um fyrirhugað lagafrumvarp frá heilbrigðisráðuneytinu um það að lögfesta skýra heimild fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldismál sem rata inn á borð heilbrigðisstarfsmanna að höfðu samráði við þolanda og til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga. Þar kemur einnig fram að ef um ítrekaðar komur vegna heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnun er að ræða, ef ófrísk kona kemur á heilbrigðisstofnun í kjölfar heimilisofbeldis og/eða ef þolandi greinir frá því að hafa verið tekinn kyrkingartaki í tengslum við heimilisofbeldi myndi samræmt verklag heilbrigðisstofnana vegna móttöku þolenda heimilisofbeldis virkjast og lögregla þegar í stað upplýst um málið að höfðu samráði við þolanda. Það er mikilvægt að slíkt samráð sé til staðar svo það verði ekki fælandi fyrir þolendur að leita sér heilbrigðisþjónustu og að heilbrigðisstarfsmenn líti ekki á það sem þvingun því rannsóknir hafa sýnt fram á að skyldutilkynning er slæm ef hún er ekki í samráði við sjúklinginn bæði fyrir þolanda og heilbrigðisstarfsmanninn.

Með fyrirhuguðu lagafrumvarpi yrði sett skýr lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að taka við og til að miðla upplýsingum til lögreglu vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga að fengnu rökstuddu mati lögreglu um að viðkomandi einstaklingur sé verulega hættulegur. Miðlun þeirra upplýsinga færi þá fram á lokuðum fundum í formi þverfaglegs samráðs og að frumkvæði lögreglu. Þetta er almannaheillamál og mikilvægt skref því samkvæmt 2. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þá ber okkur að vernda rétt hvers manns til lífs með lögum.

Eins og staðan er í dag þá eru heilbrigðisstarfsmenn bundnir fyllstu þagmælsku samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn og mega aðeins víkja frá þagnaskyldunni vegna brýnnar nauðsynjar, á grundvelli samþykkis sjúklings eða ákvæðum annarra laga líkt og barnaverndarlaga o.þ.h. Skilyrðið um þessa brýnu nauðsyn getur talist uppfyllt í heimilisofbeldismálum en það hefur reynst vera mjög matskennt og ekki til þess fallið að hagur og öryggi þolenda sé í forgrunni. Það skiptir máli vegna alvarleika heimilisofbeldismála gagnvart þolendum og jafnvel þeim börn sem á heimilinu búa, stöðu þolenda almennt og í ljósi þess að heimildir til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi eru óljósar er brýnt að endurskoða lögin og veita heilbrigðisstarfsfólki sérstaka heimild til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi. Slík lagabreyting myndi hafa það í för með sér að lögreglu yrði í auknum mæli gert kleift að veita aðstoð sína, þar sem líkur eru á að þolendur heimilisofbeldis veigri sér oft við að leita réttar síns og þekki jafnvel réttindi sín ekki nægilega vel við þær aðstæður. Án lagabreytingar geta lög og reglur hvað varðar þagnarskyldu hamlað framgangi mála hjá lögreglu og jafnvel komið í veg fyrir að þolandi fái viðunandi aðstoð í réttarkerfinu og réttar upplýsingar um réttarstöðu sína.

Undirrituð lagði fram þingsályktunartillögu á haustþinginu þar sem dómsmálaráðherra yrði falið að setja á fót starfshóp sem myndi móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Fyrirhugað frumvarp er fagnaðarefni í þessu samhengi, skýrt og mikilvægt skref í rétta átt til að tryggja öryggi þolenda heimilisofbeldis og þeirra barna sem verða fyrir áhrifum þess.

Með framangreindum aðgerðum er markmiðið að tryggja sem jafnast aðgengi þolenda að stuðningi og heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu, efnahag eða öðrum aðstæðum. Þá hefur einnig verið lagt til að ráðist verði í vinnu á skipulagðri fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og það er yfirleitt einstaklingarnir sem fyrst mæta þolendum eftir ofbeldi. Lengi hefur verið kallað eftir skýrum aðgerðum í þessum málaflokki og því mikið fagnaðarefni að við séum að sjá breytingar og alvöru aðgerðir í þágu þolenda. Okkur ber að tryggja faglega og trausta þjónustu við þolendur og með þeim hætti að þeir upplifi raunverulega og trygga aðstoð eftir áfallið því þarna er um einstaklinga að ræða þar sem traust þeirra hefur verið brotið með mjög grófum hætti. Þessar aðgerðir eru sannarlega þáttur í því að tryggja öryggi og þjónustu við þolendur heimilisofbeldis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2023.

Categories
Greinar

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar

Deila grein

14/12/2022

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar

Þær fréttir bárust í dag að innviðaráðuneytið hefði náð samkomulagi við Flugfélagið Erni um áætlunarflug til Vestmannaeyja þrisvar sinnum í viku. Lengi hefur verið ákall frá íbúum í Vestmannaeyjum um að bæta samgöngur til og frá eyjum og er framangreint samkomulag við Flugfélagið Erni liður í því að efla samgöngur að mati ráðuneytisins. Þá er það einnig afar mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Eyjum, að tryggja lágmarksþjónustu í vetur.

Aðdragandinn

Á árunum 2010-2020 var áætlunarflug til Vestmannaeyja í höndum Flugfélagsins Ernis og í september 2020 þótti ástæða til að leggja flugið niður vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar Cov-19 faraldursins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið samdi við flugfélagið í desember 2021 um svokallað lágmarksflug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja sem var í gildi fram til 1. júní 2022. Reglulegt flug hefur verið í miklu uppnámi frá því það lagðist af.

Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020 þegar ekki var annað í stöðunni en að leggja niður flug sökum minnkandi eftirspurnar. Það er því mikið fagnaðarefni að félagið hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri.

Öryggismál

Þó að hér sé um tímabundið samkomulag að ræða þá megum við ekki gleyma því að við þurfum að leita leiða til að koma þessum málum í réttan farveg, þetta er fyrsta skrefið. Ef það er fullreynt að flug til eyja á markaðslegum forsendum geti gengið upp þá þarf strax að líta til þess hver séu næstu skref um framhaldið. 

Það er í grunninn öryggismál að það séu tvær samgönguleiðir til Eyja og er gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa sveitarfélagsins. Margir þeirra hafa kosið að nýta sér áætlunarflug yfir vetrartímann þegar það hefur verið í boði vegna óvissu í áætlunarferðum Herjólfs. Við þurfum svo til framtíðar að finna varanlega lausn á þessum málum en hér er engu að síður um að ræða mikilvægt skref í þá átt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. desember 2022.